21.11.2022 | 21:36
Hugsað til ársins 1969
Árið 1969 var eitt hafísáranna svonefndu. Útbreiðsla hafíss í Austur-Grænlandsstraumnum var líklega sú mesta síðan 1918 eða um milljón ferkílómetrar. Kalt var í veðri og vetrarkuldaköstin sérlega snörp. Í heildina var tíð óhagstæð, en þó var veður yfirleitt talið hagstætt sunnanlands fyrri hluta árs og á Norðurlandi síðari hluta sumars. Úrkoma var yfir meðallagi.
Í janúar var tíð talin fremur hagstæð, en þó með snörpum kuldaköstum. Víðast var snjólétt. Í febrúar var mjög kalt með köflum, en tiltölulega snjólétt. Fyrri hluti marsmánaðar var mjög kaldur, en síðan var skárra, einkum syðra. Í apríl var breytileg tíð, en víða hagstæð. Maí var hægviðrasamur og talinn og hagstæður syðra, en kalt og þurrt var fyrir norðan. Langkaldast var á hafíssvæðunum á vestanverðu Norðurlandi. Júní var mjög votviðrasamur víðast hvar. Gróðri fór seint fram vegna klaka í jörð. Í júlí var mjög votviðrasöm og óhagstæð tíð víðast hvar á landinu. Mikið kal var í túnum. Ágúst var einnig óhagstæður, votviðratíð var um mestallt land, einna skást á Norðausturlandi. Í september var mjög óhagstæð tíð sunnan- og vestanlands og hey óhirt og hrakið. Norðaustan- og austanlands var tíð talin góð lengst af. Uppskera úr görðum var léleg á óþurrkasvæðunum. Október þótti óhagstæður víðast hvar, nóvember einnig. Slæmt hríðarkast gerði, en annars var fremur úrkomulítið. Í desember var tíð breytileg, en lengst af hagstæð, færð var oftast góð.
Við rekjum okkur nú gegnum árið með aðstoð veðurathugana og blaðafrétta. Fréttir í Tímanum og Morgunblaðinu mest notaðar - auk Veðráttunnar, tímarits Veðurstofu Íslands. Stafsetningu er í stöku tilviki breytt, vonandi afsaka höfundar texta slíkt. Sumir pistlar eru styttir. Hungurdiskar hafa áður fjallað um illviðrið 5. mars (Linduveðrið svonefnda) og veðurlag næst á eftir því og verður sú umfjöllun ekki endurtekin hér. Í viðhenginu eru fjölmargar tölulegar upplýsingar, meðalhiti, úrkoma og margt fleira.
Lægð dýpkaði yfir landinu og austan við það þann 2. og 3. janúar og gerði þá snarpa norðanátt með miklu frosti. Morgunblaðið segir þann 5. janúar af illviðri þessu í Vestmannaeyjum:
Stórviðri geisaði í Vestmannaeyjum í gærmorgun og komst veðurhæð upp í 13 vindstig í hviðunum. Jafnaðarvindur var um 12 vindstig að norðan. Í einni hviðunni tók af þak Pálsborgar, sem var gamalt íbúðarhús í bænum. Skömmu síðar komu tvær aðrar hviður og tóku það sem eftir var af húsinu, svo að aðeins stóð sökkull hússins eftir. Þak hússins fauk um hálftíuleytið. Kastaðist það á nærliggjandi hús og vörubifreið og mun hafa skemmt út frá sér. Mestur hluti hússins, sem eftir var fauk síðan í tveimur hviðum, sem komu á eftir. Dreifðist brak um vítt og breitt. Samkvæmt upplýsingum Sigurgeirs Jónassonar, mun húsið Pálsborg vera með elstu íbúðarhúsum bæjarins.
Þann 7. janúar sá Tíminn ástæðu til að ræða kulda og hafís í leiðara og segir af hafísnefnd sem komið var á fót til að greina vandann og leggja til úrræði við honum:
Norðanáttin ber heljarkuldann norðan úr Dumbshafi inn yfir landið þessa dagana, og jafnframt nálgast hafísinn jafnt og þétt. Vitað var, að óvenjulega mikill hafís er nú norðan Íslands og liggur í samfelldri breiðu austur með Norðurlandi en þó var nálægð ísrandarinnar ekki meiri en oft og einatt áður framan af vetri. Hins vegar er nú meginísinn miklu kyrrstæðari en oft áður vegna þess hve hafsvæðið er fullt af ís. Enginn vafi er á því, að við erum nú staddir á miðju ístímabili. Þó er engan veginn víst, að ís reki að landinu endilega í vetur. Á slíkum ístímabilum geta komið íslausir vetur. Hins vegar verður hiklaust að gera ráð fyrir ísalögum við landið eigi að telja nokkra frambærilega fyrirhyggju ráðandi. Síðustu dagar hafa sýnt að slíkt er ekki þarflaust. Grímseyingar hafa nú hafísinn við fjöruborð. Hann er skammt undan Horni, svo að siglingaleið getur teppst hvaða dag sem er héðan af. Hið sama getur gerst við Sléttu og Langanes. Hafís getur lokað flóum og fjörðum á tveimur eða þremur dögum milli Horns og Langaness, alveg eins og gerðist 1918. Eftir reynsluna af ísnum í fyrra gerðu menn sér þetta fullljóst og hugðust hafa meiri viðbúnað. Alþingismenn höfðu um þetta forgöngu og nefnd þeirra hefur starfað síðan s.l. vor. Hún hefur gert margar athuganir og ábendingar og jafnvel skilgóðar áætlanir um birgðasöfnun. Hún taldi nauðsynlegt, að birgðasöfnun yrði lokið, um áramót. Munu flestir, sem til mála þekkja, sammála um að svo þyrfti að vera.
Þann 8. janúar segir Tíminn frá klakastífluhlaupi í Jökulsá á Fjöllum (í Öxarfirði)
EKiH-Reykjavík, þriðjudag. Stórhlaup virðist hafa komið í Jökulsá á Fjöllum í gær og olli það miklum vegaskemmdum. Undanfarna daga hefur verið að myndast klakastífla í Bakkahlaupi, sem er stærsta og vatnsmesta kvíslin úr Jökulsá. Stíflan gerði það að verkum að í gær hljóp áin yfir bakka sína töluvert norðan undan Ásbyrgi. Vatnsflaumurinn beljaði um Vestursanda eftir svonefndum Gamla-farvegi vestur á móts við Keldunes. Þar hreif flaumurinn með sér þrjátíu metra langan kafla af veginum, sem liggur frá Keldunesi norður að Sandbæjum.
Hafísnefndin fékk Pál Bergþórsson veðurfræðing til að meta líkur á ískomu og hvort á einhvern hátt mætti sega fyrir um hana. Við látum eftir okkur að rifja upp hugmyndir Páls í nokkrum smáatriðum, eins og þær voru settar fram í Tímanum 12.janúar:
FB-Reykjavík, laugardag. Hafísinn er mönnum nú ofarlega í huga, sennilega ofar en oft áður. Stafar það af því, að á síðasta vetri gerði hann sig óvenju heimakominn, og sömuleiðis árið 1965. Siglingar tepptust og töluvert bar á vöntun nauðsynja á Vestfjörðum, Norðurlandi og fyrir austan. Á síðasta ári var svo skipuð hafísnefnd, eins og kunnugt er, og átti hún að gera tillögur um ráðstafanir, sem gera þyrfti vegna yfirvofandi hafíshættu. Til þess að slíkar tillögur geti orðið sem raunhæfastar þarf að vera hægt að gera sér sem besta grein fyrir því, hvers má vænta af hafísnum. Sneri nefndin sér því til Páls Bergþórssonar, veðurfræðings og fór þess á leit við hann, að hann reyndi að segja fyrir um horfur á hafís við Ísland. Páll samdi bráðabirgðaskýrslu fyrir nefndina um hafís við ísland, og fékk nefndin hana í hendur um miðjan júlí í sumar.
Í skýrslunni segir Páll m.a. að hætta á hafís vorið 1969 virðist vera öllu meiri en hún hefur verið síðan á árunum fyrir 1920. Byggir hann þessa skoðun sína á samanburði hitastigs á Jan Mayen, sumar og haust, og íss við Ísland síðari hluta vetrar og vor á 45 ára tímabili. Í skýrslu sinni sagði Páll, að yrðu ekki verulegar breytingar á veðráttunni við Jan Mayen í sumar, eftir að hann lauk skýrslugerðinni, þá benti allt til þess að hafís yrði ekki miklu minni en í fyrra hér við land. Við náðum tali af Páli og fengum hann til að segja okkur frá ísspá sinni.
Það er skemmst frá að segja, sagði Páll, að bati varð ekki á Jan Mayen, eftir að ég lauk skýrslugerðinni, heldur má segja, að líkurnar fyrir hafísári yrðu staðfastari eftir því sem á leið haustmánuðina. Annars er upphaf þessa máls það, að hafísnefndin leitaði til mín á s.l. ári og spurði, hvort ég gæti sagt eitthvað fyrir um hafís við landið í framtíðinni, það er á næsta ári eða lengra fram í tímann. Slík hafísspá var nefndinni nauðsynleg vegna áætlana þeirra. sem henni var ætlað að gera. Ólafur Björnsson, formaður nefndarinnar sýndi strax áhuga á því, hvort veðurfarið norður af landinu gæti ekki sagt til um íshættu. Ég fór svo að snúa mér að þessum athugunum í vor, og á fögrum sólskinsdegi í júlí afhenti ég hafísnefndinni skýrslu mína norður á Akureyri.
Helstu niðurstöður skýrslunnar voru tvær. Í fyrsta lagi, að greinilegt væri af þróun síðustu ára, að loftslagið væri orðið breytt á íslandi, að minnsta kosti um sinn. Þess vegna væri sjálfsagt, að reikna ekki lengur með því góðæri, og ísleysi, sem hefur verið undanfarna áratugi heldur væri réttast að búast við eins konar meðallagi síðustu tveggja alda. Þetta eru almennar horfur, og ekki spá fyrir einstök ár. Það er vitað nokkurn veginn, hve mikill ís hefur verið í hverjum mánuði við landið í 188 ár. Þorvaldur Thoroddsen samdi á sínum tíma allnákvæmt yfirlit yfir, hve lengi hafís hafði verið við landið í hverjum mánuði frá 1781 til 1915, auk almennara yfirlits um hafís fyrr á öldum. Við þetta bætast svo síðari athuganir. Þetta langa tímabil mun gefa allgóða hugmynd um hafísinn eins og hann hefur hagað sér í sögu þjóðarinnar, því að þarna koma bæði fyrir harðindaskeið eins og þau hafa orðið einna verst, og svo mikið góðæri á þessari öld. Af þessum upplýsingum má sjá, að tvisvar á öld má reikna með hafís við land yfir sjö mánuði. þrisvar sinnum yfir 6 mánuði, 9 sinnum yfir fimm mánuði, 16 sinnum yfir fjóra mánuði, 23 sinnum yfir 3 mánuði, 30 sinnum yfir 2 mánuði og 46 sinnum yfir einn mánuð.
Önnur aðalniðurstaða skýrslu minnar var sú, að hægt eigi að vera að spá hafís, eftir að athugaður hefur verið sumar- og hausthiti við Jan Mayen árið á undan. Slík spá ætti að vera fullmynduð í nóvemberlok, og yrði að sjálfsögðu því skýrari, sem lengra líður á sumarið og haustið. Það var ef til vill eðlilegt í haust, að menn væru vantrúaðir á ísspána. Það var óvenjulítið í september út af Vestfjörðum og Norðurlandi og um miðjan nóvember, einmitt, þegar þessi mál voru til umræðu á Alþingi, sagði Landhelgisgæslan frá því, að hafísinn út frá Vestfjörðum og landinu norðanverðu væri síst meiri en venja er til á þessum árstíma. Svo komu góðviðrin í nóvember og lengi fram eftir desember. Allt þetta gerir það ekki óeðlilegt, að menn hræddust síður hafísinn nú en stundum áður. Um áramótin kom hins vegar í ljós, að hættan var fyrir hendi. En þó verðum við að láta reynsluna skera úr um það, hvernig þetta verður. Samt er greinilegt, að ísinn er þarna austar en algengast er og hann gæti komið upp að ströndinni hvenær sem er, þótt það sé heldur líklegra að hann tefji ekki verulega siglingar nú fyrst um sinn. En tvímælalaust eykst hættan eftir því sem líður á veturinn, því apríl og maí eru venjulega mestu ísamánuðirnir. Mér finnst sjálfsagt að reikna með, að ísinn verði a.m.k kominn að landinu, þegar líður að febrúarlokum eða byrjun mars.
[Þann] 27. janúar n.k. verður haldin hér í Reykjavík hafísráðstefna, og er ég að undirbúa erindi og hef m.a. gert teikningu, sem sýnir annars vegar hafísmagnið við landið á hverju ári síðan 1921 talið í mánuðum og er þá reiknaður allur sá tími sem hafís er einhvers staðar við landið frá því að vera alveg íslaust og upp í 5 mánuði s.l. ár, en 4 mánuði 1965. Þessi tvö ár eru langmestu ísárin á þessu tímabili, en alveg ótvírætt þó, hvað aukningin er mikil síðustu árin, og að skipt hefur hér um loftslag. Hins vegar á teikningunni er svo sett ísspá, sem gerð hefur verið eftir á, en byggð er á alveg föstum reglum. Fara þær eftir því, hver var meðalhitinn í júní til nóvember á Jan Mayen árið á undan ísnum. Svo er ísinn miðaður við tímabilið strax þar á eftir, frá desember til september næsta ár. Þetta er eins konar meðaltal, og reglan er sú, að ef meðalhitinn hefur verið 0 stig er spáð 5 1/2 mánaðar ís, en ef meðalhitinn er 1 stig, er spáð einum og hálfum mánuði. Hafi hitinn verið 2 stig er aðeins búist við 10 daga ís við landið næsta ár og svo þaðan af minna, ef hlýrra hefur verið, þannig að aukning íssins við vaxandi kulda er miklu meiri, þegar komið er niður í lágt hitastig, en er mjög lítil, þegar hlýtt er.
[Ísspá Páls Bergþórssonar 1922 til 1969 - eftir hausthita á Jan Mayen - spá til vinstri-ísmánuðir við landið til hægri. Birtist á baksíðu Tímans 12. janúar 1969].
Ef maður lítur á þetta í heild, er ekki hægt að segja annað, en samræmið, sem fengist hefur, sé mjög gott, sérstaklega síðustu árin. Það eru engin teljandi frávik á þessari teikningu, nema helst á tveimur árum, 1929 og 1932. Þar af leiðandi er óhætt að segja, að meira en 90% spánna séu réttar. Þó að árangurinn sé svona góður, þorir maður ekki að reikna með því, að hann verði það í framtíðinni, en hins vegar væri það mjög gagnlegt, þótt ekki væri nema 7080% af spánum rétt, því það væri til mikillar leiðbeiningar. Væru þessar ísspár þá jafngóðar, eða á sama stigi og sólarhringsveðurspárnar eru almennt nú til dags, hvað nákvæmni snertir. Nú spyrja menn ef til vill, hvernig standi á því, að svona náið samband skuli vera milli hitans við Jan Mayen og íssins hér við land. Ég held, að svarið sé fyrst og fremst það, hvað sjórinn geymir vel hita og kulda og aðra eiginleika sem sá sjór, sem færir okkur ísinn er kominn norðan að, og frá svæðum, sem ekki eru fjarri Jan Mayen. Það líða margir mánuðir á milli þess hann er við Jan Mayen, og þar til hann kemur hér að landi, og þess vegna er það einmitt sumar- og hausthiti loftsins á Jan Mayen, sem endurspeglar á einhvern hátt ástandið á þessum hafsvæðum, og aðvarar okkur um ískomuna næsta vetur og vor. T.d. má geta þess, að straumflöskur, sem settar hafa verið í sjóinn suðvestur af Jan Mayen hafa verið upp undir hálft ár á leiðinni hingað til lands, og bendir það til þess, að við þurfum að leita að minnsta kosti hálft ár aftur í tímann, til þess að fá upplýsingar um ísinn okkar.
Í skýrslu sinni til hafísnefndar segir Páll um siglingateppu vegna hafíss, að sér virðist, að til jafnaðar sé sá tími, þegar siglingar hindrast að einhverju verulegu leyti, um það bil mánuði styttri á ári en hafís, eins og hann var tilgreindur, að meðaltali í mánuðum á ári á öld, hér á undan. Siglingateppu í mánuð eða meira mætti því búast við þriðja hvert ár að jafnaði. Á alllöngum tímabilum hefur ísinn þó verið mun meiri en þetta við landið. Á síðari hluta 19. aldar gerðist það til dæmis um það bil annað hvert ár að meðaltali, að hafístíminn yrði meiri en 2 mánuðir á ári, sem mundi svara til meira en mánaðar siglingateppu. Vegna birgðasöfnunar er nauðsynlegt að vita, hvenær slíkum ráðstöfunum þarf að vera lokið hvert haust, segir Páll í skýrslunni. Einu sinni á öld var ís allan desember, en fjórum sinnum í janúar. Samkvæmt þessu má telja öruggt að hafa lokið birgðasöfnun í desemberbyrjun, en ef útlit er ekki sérlega slæmt að haustinu, t.d. vegna óvenjulegra kulda eða ísalaga við Jan Mayen, má reikna með að desember megi einnig nota í þessu skyni, segir í skýrslunni. Af þessum upplýsingum má sjá, að birgðasöfnun er nauðsynleg á íssvæðinu svokallaða, en í frétt í blaðinu nú fyrir helgina, var sagt frá því, hvernig sú söfnun hefur gengið. Eins og þar kom fram, er reiknað með að kjarnfóðurbirgðir verði orðnar nægilegar í febrúarbyrjun, og olíubirgðir eins miklar og geymarýmið er, en það telur hafísnefndin hins vegar ekki nægilega mikið. Aftur á móti er ekki hægt að segja hið sama um matvælin, enda hefur verið nokkrum erfiðleikum bundið fyrir kaupmenn og kaupfélög að safna þeim birgðum, sem nauðsynlegar eru taldar, þar sem þessir aðilar hafa ekki haft nema 45 daga greiðslufrest, og fjármagn er af skornum skammti. Viðskiptamálaráðuneytið hefur þó sýnt málinu skilning, og sagt, að verði samtök kaupmanna og kaupfélaga aðilar að þessu, komi til greina að greiðslufresturinn verði lengdur. Greiðslufrestur vegna kjarnfóðurkaupa var lengdur úr 3 í sex mánuði fyrir tilstilli hafísnefndarinnar.
Um miðjan mánuðinn gerði mikið norðaustan- og norðanillviðri á landinu með hríð og hörkufrosti. Jökulkalt loft kom langt úr norðri suður yfir landið, eins og síðan hvað eftir annað þennan vetur. Á leið sinni var loftið lengst af yfir ísþöktu hafi. Á sama tíma leitaði hlýrra loft úr austri til vesturs í átt að landinu. Úr varð allmikið norðaustanveður. Athyglisverðast fyrir frosthörku sem skapaði vandræði eins og lesa má um í fréttum hér að neðan. Við styttum fréttirnar allmikið, greinum einkum frá því óvenjulega.
Þykktin (sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs) er sýnd í litum. Það er ekki oft sem fjólublái liturinn nær að snerta landið (þykkt minni en 4920 metrar).
Átök norðankuldans og austanloftsins koma vel fram á þessu veðurkorti sem gildir snemma að morgni 16. janúar. Þann dag segir Morgunblaðið frá. Það er einkum kuldinn og vandræðin sem hann veldur sem slær nútímalesendur:
Stórviðri geisaði á Íslandi í gær. Fyrir norðan var moldbylur og náði úrkoman allt suður til Reykjavíkur um nónbil í gær. Morgunblaðið hafði tal af ýmsum fréttariturum sínum umhverfis land og munu hvergi hafa orðið skemmdir vegna veðursins. Í Reykjavík urðu tilfinnanlegastar truflanir á ferðum strætisvagnanna og þar sem rafmagn er leitt í loftlínum varð víða samsláttur og urðu hverfi rafmagnslaus, m.a. Seltjarnarnes og hlutar Hafnarfjarðar. Nokkuð var um það að járnplötur fykju af húsum, en engin slys hlutust af.
Hafísinn sást ekki af annesjum fyrir norðan í gær, enda ekki von, þar sem mikill sorti var á. Þó er hætt við að ísinn nálgist landið, þar sem ísinn var kominn mjög austarlega og getur norðanáttin, sem alla jafna er ekki ísátt, því hrakið hann upp að landinu. Ansi er hætt við að Norðlendingar sem á annesjum búa sjái til hafíssins er birtir upp. Síðast er fréttist var íshrafl við Grímsey og 5. janúar sást ís frá Siglunesi. Hann lagðist þó heldur frá eftir það og hefur hvorki sést frá annesjum né eyjum síðan. Síðast var farið í ísflug 5. janúar og var þá jakahrafl um 30 sjómílur norður af Melrakkasléttu. Þá var og krapaflekkur í sjónum 60 sjómílur norðaustur frá Langanesi og norðan við þessa staði var vaxandi þykkt á ísnum eftir því sem norðar dró. Skammt norðan við Kolbeinsey var sjórinn hálfþakinn ís.
Um þrjúleytið í gær gerði hríð í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar náði strengur sem gekk suður Húnaflóa og yfir Holtavörðuheiði um Borgarfjörð hingað til borgarinnar. Fylgdi honum snjókoma, þar sem lítið hálendi varð á vegi hans. Hins vegar var kuldinn það mikill, að snjórinn var sem fíngarður salli og festi ekki á jörðu. Veðurhæðin komst upp í 11 vindstig sem er fárviðri.
Svo sem fyrr segir var 14 stiga frost í Reykjavík um kl.06 í gærmorgun. Frostinu fylgdi snörp norðanátt um 10 vindstig og varð því kæling mjög ör. Þetta olli borgarbúum miklum erfiðleikum, sérstaklega bíleigendum, sem komu ekki bifreiðum sínum í gang. Þó urðu þeir, sem að venju aka með strætisvögnum einnig fyrir töfum og óþægindum, sem því fylgja að híma á biðstöðvum vagnanna, því að flestir þeirra áttu í erfiðleikum vegna þess að brennsluolían þykknaði. Samkvæmt upplýsingum SVR var olían það þykk, að þegar vagnstjórar lögðu af stað i gærmorgun bar fljótt á því að þeir drægju úr ferðinni, uns þeir stöðvuðust að fullu. Hneig þá olían varla til vélanna. Reynt var að laga þetta með því að blanda steinolíu saman við dísilolíuna, en þrátt fyrir það voru vandkvæði við að halda vögnunum gangandi og kl. 14 í gær vantaði enn vagna á 3 leiðir. Þá vildi og raki á lofthemlum og lokunarútbúnaði hurða frjósa og gera hvorttveggja óvirkt. Nauðsynlegt reyndist að blanda steinolíu í eldsneyti vagnanna þannig að steinolía varð allt að fjórði hluti eldsneytisins. Sagt er að það eigi ekki að skaða vélar vagnanna.
Víða hafa fyrirtæki, sem fyrir utan borgina eru, eigin bíla og aka þau starfsfólki sínu á vinnustað. Þrjú fyrirtæki, sem við hringdum í höfðu ekki átt í vandræðum en þeir sem þurftu að byggja allt sitt á strætisvögnunum gátu ekki sagt hið sama. Maður, sem við töluðum við tók Árbæjarhverfi á Lækjartorgið hálf níu. Er vagninn var kominn svolítið áleiðis tók hann að hiksta og sífellt dró úr ferðinni uns hann gafst upp í Ártúnsbrekkunni. Farþegar urðu að sitja í hrollköldum vagninum uns næsti vagn kom hálfri klukkustund síðar. Í Árbæjarhverfi var mikill moldarmökkur í gær svo að varla sást milli húsa.
Er líða tók á daginn tóku rafmagnsbilanir að gera vart við sig. Verst var ástandið á Seltjarnarnesi og var þar straumlaust í margar klukkustundir. Var víða orðið hrollkalt í húsum þar og hafði einn húsráðanda, er ræddi við okkur áhyggjur af miðstöðvarkyndingu sinni, ef straumleysið yrði öllu lengur. Hitinn í húsinu var þá kominn niður fyrir 10 gráður og sagði hann hitann lækka um tvær gráður á klukkustund. Orsök rafmagnsbilunarinnar var samkvæmt upplýsingum Rafveitu Reykjavíkur samsláttur á línum. Gætti truflananna í þeim hverfum, þar sem um loftlínur var að ræða og um tíma var rafmagnslaust í stórum hverfum í Hafnarfirði og Garðahreppi. Einn staur fauk um koll við Gnoðavog við gamla íþróttahúsið að Hálogalandi. Sligaði lína, sem að húsinu staurinn og í gærkvöldi var unnið að því að reisa hann við. Á Kjalarnesi og í Botnsdal fór og rafmagn af vegna samsláttar á línum.
Engir stórskaðar urðu við Reykjavíkurhöfn. Þó sökk trilla í ágjöf og bátar voru orðnir töluvert sílaðir af sjógangi. Sjór gekk yfir Skúlagötu og mátti víða sjá á húsum handan götunnar, hvernig sælöður myndaði grýlukerti á ufsum húsanna. Við höfnina var reynt að binda alla báta, sem kyrfilegast og mátti víða sjá eigendur huga að bátum sínum.
Lögreglan átti fremur annríkan dag í gær. Sífellt var fólk að hringja og tilkynna að ýmislegt dót, er skemmdum gæti valdið væri að fjúka. Bar töluvert á því að járnplötur fykju og annað drasl, sem illa hafði verið gengið frá, en engin stórslys urðu af slíku. Suður í Arnarnesi fauk þak af húsi og munu það líklegast alvarlegustu skemmdir, sem frést hafði af. Eftir að snjóa tók um þrjúleytið varð lögreglan oft og einatt að aðstoða bifreiðaeigendur, er vélar bifreiðanna bleyttu sig.
Ekkert innanlandsflug var í gær. Flug til útlanda gekk eðlilega fram eftir degi, en Gullfaxi þota Flugfélags Íslands kom þó ekki til landsins eins og áætlað var í gærkvöldi. Hún var í nótt í Glasgow. Meirihluti landsins var á kafi í byl í gærdag og varla ferðafært. ...
Frá Stykkishólmi er það að frétta: Mikill rekís er nú fyrir utan Stykkishólm, og nær hann til nærliggjandi eyja. Sjálf höfnin er full af íshröngli. Hefur þetta verið að myndast síðustu tvo daga, enda hafa mikil frost verið þar síðan á sunnudag.
Tíminn segir einnig frá veðrinu í pistli 16.janúar:
Reykjavík, miðvikudag. Stórviðri með hörkufrosti geisaði um nær allt land í dag og fram á kvöld. Ekki er blaðinu kunnugt um neina sérstaka skaða af völdum veðursins úti á landi, en veðrið olli ýmiskonar erfiðleikum og óþægindum. T.d. tók langan tíma að koma skólabörnum til síns heima á Akureyri, og víða annars staðar lagðist kennsla niður vegna veðurofsans. Níu bátar munu hafa verið á sjó hér syðra, og höfðust þeir við í vari. Erfiðlega gekk að komast leiðar sinnar á vegum, meira vegna hvassviðris en ófærðar. Í dag hefur verið norðan rok um allt land, frost yfirleitt 1215 stig í byggð, alls staðar nokkur snjókoma og mikill skafrenningur, nema á Suðurlandi þar er heiðskírt. Spáð er áframhaldandi norðanátt.
Reykjavík, miðvikudag. Eins og aðrir landsmenn stóðu Reykvíkingar í ströngu í stórviðrinu í dag. Hér í borginni varð veðurhæðin mest ein ellefu vindstig, og frostið um ellefu stig. Mikið hríðarkóf var á köflum, og loka varð Skúlagötunni fyrir umferð vegna sjógangs. Í kvöld var ekki vitað til þess að veðrið hefði valdið sérstöku tjóni, en ýmsir erfiðleikar fylgdu í kjölfar þess, eins og tafir á ferðum strætisvagna, rafmagnsleysi í Hafnarfirði og nokkrir tugir síma í Kópavogi fóru úr sambandi, þegar símalínur slitnuðu. Símasamband var heldur slakt hér í Reykjavík í dag, og þurftu menn oft að bíða þó nokkra stund eftir að fá són í símatækin til þess að geta hringt. Samkvæmt upplýsingum Landssímans urðu nokkrar bilanir á loftlínum, aðallega í Kópavogi og á Seltjarnarnesi. Hér var þó ekki um stórvægilegar bilanir að ræða, og fóru viðgerðarmenn strax af stað til þess að reyna að gera við línurnar þrátt fyrir rokið. Símastarfsmaður tjáði blaðinu, að sennilega hefðu 30 til 40 símanúmer orðið sambandslaus vegna þeirra lína, sem slitnuðu, en reiknað var með að hægt væri að koma þeim í samband aftur fljótlega. Heldur var sambandið slæmt út á land, t.d. við Seyðisfjörð, og hefur verið síðustu dag, að sögn símastúlkna. Þá var hávaða mikinn að heyra, þegar talað var til Akureyrar. 9. þessa mánaðar slitnaði IceCan-strengurinn milli Íslands og Grænlands er enn slitinn, þar sem ekki hefur verið hægt að gera við hann vegna veðurs.
Miklar rafmagnstruflanir voru á svæði Rafveitu Hafnarfjarðar í dag, og fór rafmagnið af á mörgum stöðum á veitusvæðinu, og ennfremur fór rafmagnið af Áburðarverksmiðjunni, en ekki er vitað hvað olli því. Starfsmenn Rafveitu Hafnarfjarðar voru önnum kafnir við að koma rafmagninu í lag, en ekki virtist liggja á hreinu um hvort línur hefðu slitnað, eða hvort stýringar á línum hefðu bilað, eins og oft kemur fyrir í slíku veðri, eins og því sem gengið hefur yfir Suðvesturland í dag. Á svæði Álverksmiðjunnar í Straumsvík urðu líka rafmagnstruflanir og fór rafmagnið af stórum hluta Straumsvíkursvæðisins á tímabili, en kom þó fljótt aftur. Vegna rafmagnsbilunar fór Skálafellsstöð sjónvarpsins úr sambandi í byrjun útsendingar í kvöld. Þetta gerði að verkum að stórt svæði á Norðurlandi, t.d. Akureyri, Eyjafjarðarsvæðið og Skagafjörður, fékk ekki notið sjónvarps í kvöld. Ekki er víst að hægt verði að sjá við biluninni eða rafmagnsskortinum í nótt, svo vera má að Norðlendingar verði að kynnast sjónvarpsleysi um tíma. Innanlandsflug hefur legið niðri í dag vegna veðurofsans. Þota Flugfélags íslands, Gullfaxi, fór til útlanda í morgun, en vegna veðursins hér og skafrennings á flugbrautum var ákveðið að þotan yrði í Glasgow í nótt, en vélin kemur til Íslands kl. sjö í fyrramálið, ef veður verður ekki þeim mun verra, og fer út aftur á morgun. Engin röskun varð á áætlunum Loftleiðaflugvéla vegna veðursins. Í morgun lenti ein vél á Keflavíkurflugvelli. Kom hún frá Bandaríkjunum og tvær fóru til Evrópu. Í kvöld var von á tveim vélum til Keflavíkur annarri frá Norðurlöndum og hinni frá Luxemburg.
Í Reykjavíkurhöfn sökk trilla í dag. Safnaðist mikil ísing á hana, mest á kulborða og að því kom að báturinn hallaðist svo að sjór flaut inn fyrir borðstokkinn og fyllti trilluna. Aðrar skemmdir urðu ekki í höfninni vegna veðurofsans, enda varðmenn um borð í flestum bátum og skipum. Í kvöld létu tvö skip úr höfninni, togarinn Júpíter og þýskt eftirlitsskip. Í kvöld voru tveir vinnuflokkar frá Reykjavíkurborg á ferðinni við að tína saman járnplötur og annað rusl sem fauk um og hætta var á að gætu ollið slysum. Járn fauk ekki af húsum en hins vegar fuku nokkrir ómerkilegir og úr sér gengnir skúrar og unnu vinnuflokkarnir að því, að koma í veg fyrir að bárujárnsplöturnar fykju.
Tíminn segir tíðindi af foktjóni og vandræðum (aðallega á Snæfellsnesi) í pistli þann 17.janúar:
ÞG-Ölkeldu. KJ-Rvík, fimmtudag. Í hinu mikla hvassviðri sem var í gær fauk bifreið á ferð, út af þjóðveginum sunnan á Snæfellsnesi. skammt vestan við Búðir. Í bílnum var Björn Emilsson, starfsmaður í lóranstöðinni á Gufuskálum. ásamt átta ára dóttur sinni, og komust þau við illan leik til bæja, og höfðu þá hlotið kal á útlimum og andliti. [Þá] fuku átján þakplötur af nýbyggðu íbúðarhúsi á Vegamótum í Miklaholtshreppi. Starfsmaður Vegagerðar ríkisins reisti sér hús þarna á s.l. sumri, og fuku plöturnar af hinu nýbyggða húsi hans.
KJ-Reykjavík, fimmtudag. Víða urðu skemmdir í hvassviðrinu í gær í Mosfellssveit, fuku járnplötur af húsum og fleira. Einna mestar munu skemmdirnar hafa orðið hjá Páli Aðalsteinssyni kennara í Bjarkarholti við Lágafell. Fauk þar þak af bílskúr og einnig bílskúrshurð.
Í gær fóru tveir menn frá Húsameistara ríkisins áleiðis frá Ólafsvík og til Reykjavíkur, gekk ferð þeirra vel yfir Fróðárheiði, en bíllinn stoppaði í Bláfeldará í Staðarsveit. Hafði áin bólgnað mikið upp og fengu mennirnir tveir gistingu í nótt á Bláfeldi, en í morgun voru þeir síðan aðstoðaðir við að ná bílnum úr ánni, þar sem hann hafði frosið fastur.
Rússajeppi frá Rafveitunni í Ólafsvík fauk um sjö metra út fyrir þjóðveginn í Breiðuvík á Snæfellsnesi í gærdag, og skemmdist hann töluvert, og tveir menn, sem í honum voru, skrámuðust. Bíllinn var ekki á ferð, er þetta skeði, en mennirnir voru að koma úr viðgerðarleiðangri frá Arnarstapa. Fauk bíllinn um sjö metra út fyrir veginn og dældaðist allur meira og minna.
Þrjár kýr og ein kvíga drápust í fjósinu á Blikastöðum í Mosfellssveit í gær, og má rekja dauða þeirra til þess að rafmagnslína slitnaði við húsgaflinn, og hafa kýrnar og kvígan líklega fengið raflost, er rafmagnsvírarnir slógust í húsið. Sigsteinn Pálsson bóndi á Blikastöðum sagði í viðtali við Tímann í dag, að þeir hefðu verið í miðjum mjöltum í Blikastaðafjósinu um klukkan sex í gær, þegar rafmagnið fór skyndilega.
Manni nokkrum, sem kom heim úr vinnu sinni skömmu eftir miðnætti í nótt, brá heldur betur í brún, er hann kom að húsinu, sem hann býr í, því bifreið hans hafði fokið í hvassviðrinu, og stórskemmst. Bifreiðin, sem er af gerðinni Renault station árgerð 1965 hafði staðið upp við húsið Kleppsveg 134, en stóð á fjórum hjólum niður við Kleppsveg er að var komið. Hafði bíllinn greinilega tekist á loft í einni stormkviðu, oltið og stórskemmst Er þak bilsins og önnur hlið sérstaklega mikið skemmd, en allar rúðunnar heilar. Lögreglan kom manninum til hjálpar við að koma bílnum á öruggan stað upp við húsið.
EKH-Reykjavík, fimmtudag. Lítilsháttar þurfti að grípa til rafmagnsskömmtunar á Reykjavíkursvæðinu á há-álagstímanum í dag. Rafmagn var tekið út um hádegið í nokkrum hverfum í Kópavogi og Hafnarfirði og á litlu svæði í Reykjavík. Orkuþörf orkuveitusvæðis Sogsvirkjunar er sem næst 9596 megawött en vegna gífurlegrar krapamyndunar á ristum við inntak Steingrímsstöðvarinnar, eru vélar stöðvarinnar næstum óvirkar og vantar því 24 megawött upp á að Sogsvirkjun fullnægi orkuþörfinni. Með því að fá raforku frá gufustöðinni við Elliðaár og dieselstöðvunum á Keflavíkurflugvelli og í Vestmannaeyjum, hefur ekki þurft að grípa til skömmtunar áð neinu ráði. Það var aðfaranótt miðvikudags, að rokið og illviðrið, 1011 vindstig, sprengdi upp ísinn á Þingvallavatni og síðan hefur verið stanslaust hvassviðri og það gerir okkur erfitt fyrir. Í gær var hér 12 til 14 stiga frost, en í dag var það komið ofan í 9 stig en enn er rok. Það hefur aldrei verið eins mikil krapamyndun hér við stöðina síðan hún tók til starfa 1959. Við erum að vona að veðrið fari að ganga niður bráðlega. Lægi vindinn, tekur ekki nema svo sem tvo til þrjá tíma að hreinsa knapann af ristunum og koma öllu í samt lag aftur. Haldist veðrið vont eins og nú má búast við áframhaldandi erfiðleikum og rafmagnsskorti, en ef fólk reynir. að taka tillit til aðstæðna og dreifa rafmagnsnotkuninni ættu menn tekki að þurfa að kvíða vandræðum.
Undir lok mánaðarins var haldin merk ráðstefna um hafís. Erindin komu síðan út á bók sem full er af fróðleik. Blöðin birtu fáeinar fréttir af ráðstefnunni þar á meðal Tíminn 28. janúar:
EJ-Reykjavík, mánudag. Koma hafíss að ströndum landsins stendur í engu sambandi við það ísmagn, sem er í Norðurhöfum. Á milli þessara tveggja atriða, ísmagnsins og ískomu, er ekkert samband. Stormar eru hin sérstaka og beina orsök ískomu hér við land. Þeir raska eðlilegri ferð íssins, ísjaðarinn trosnar upp og ísrekið berst að landinu. Þetta var til dæmis það, sem gerðist árið 1965 þegar mikill hafís kom að landinu. Þá var óvenju langvarandi suðvestanátt í febrúar og var hún orsök ískomunnar.
Þetta var megininntakið í mjög fróðlegu erindi, sem Trausti Einarsson, prófessor, flutti á hafísráðstefnunni í dag, en erindi hans fjallaði um hafísinn á Norðuríshafi og Grænlandshafi. Í upphafi erindis síns ræddi Trausti Einarsson m.a. um árssveiflur íssins á norðurhveli og myndun og gerðir póls-íssins og flutning hans með straumum og vindi. Einnig um útstreymi í Grænlandshaf og ísmyndunarskilyrði á Grænlandshafi. Hann sneri sér síðan að ísnum á Grænlandshafi og ræddi um rekhraða hams og árstíðabreytingar á útbreiðslu íssins. Gerði hann grein fyrir því, hvernig ísinn breiðist út eftir því sem líður á veturinn, þar til hann virðist hafa náð mestri útbreiðslu í febrúarlok. Trausti fullyrti síðan, að ekkert samband vri á milli heildarísmagnsins í Grænlandshafi og ískomu við Ísland. Kom hann með margs konar samanburð, sem sýndi m.a. að þegar hámarksís hefur verið á Grænlandshafi, þá hefur oftast verið mjög lítill eða enginn hafís við strendur landsins. Aftur á móti hafa mestu haf ísár okkar oft einmitt verið, þegar ísmagnið í Grænlandshafi hefur verið í meðalagi eða jafnvel undir meðallagi. Trausti sagði því, að ljóst væri að ástæður fyrir ískomu væru aðrar. Teldi hann, að þær orsökuðust aðallega af sérstökum veðurskilyrðum á svæði skammt frá Íslandi. Hann tók sem dæmi um sambandið milli ísmagnsins í Grænlandshafi og ískomu árið 1966. Þá var ísinn norður af Jan Mayen í febrúarlok langtum austar ,en í meðalári. Samt kom enginn ís til landsins. En árið 1965 var ekki óeðlilega mikill ís fyrir norðan í janúarlok en samt kom ís að Íslandi, og það meiri en oftast áður. Niðurstaða hans var sú, að ísinn legðist ekki að landinu, nema sérstakar ástæður kæmu til, en þær ástður vru einkum vindur á svæðinu fyrir norðan land árið 1965 hefði það verið óvenju langvarandi suðvestanátt í febrúar.
Aðalniðurstaða Trausta var í stuttu máli sú, að ekkert samband væri á milli ísmagnsins í Grænlandshafi og ískomu á Íslandi. Aftur á móti væru stormar hin sérstaka og beina orsök ískomu. Stormar röskuðu eðlilegri ferð íssins meðfram Grænlandsströnd og bæru ísinn til Íslands á viku til 10 dögum. Mætti skýra ískomuna méstu hafísárin einmitt með 710 daga suðvestanátt. Þá benti, Trausti á, að sá ís, sem kæmi að landinu á hafísárum, væri ekki hluti af meginísnum eins og margir teldu. Aðeins væri um að rða upptrosnun ísjaðarsins. Þetta ísrek bærist síðan með vindum að landinu og þéttist við ströndina. Trausti skipti ískomum í þrjár megintegundir. Í fyrsta lagi norðvesturís, þ.e. sá ís sem kemur að Horni, Grímsey og í Húnaflóa. Vri þetta hvað algengasta ískoman, og meginorsökin væri vindar og straumar. Í öðru lagi væri norðurís, sem bærist að landinu með vestlægum vindum, langvarandi suðvestanátt eins og áður er nefnt. Færi ísinn þá austur með Norðurlandi, legðist að ströndinni og þéttist, eins og áður er lýst, og lokaði höfnum og siglingaleiðum siglingaleiðum. Þriðja tegundin væri síðan Austurlandsísinn. Væri hann þannig til kominn að tunga af þéttum ís teygði sig það langt til austurs, að hann færi í Austur-íslandsstrauminn og færi ísinn þá suður með Austurlandi. Væri það samband af tveim síðustu tegundunum, sem ætti sér stað hin miklu ísaár. Trausti benti á, að mjög hefði dregið úr hafískomum eftir 1920 og það ástand ríkt eiginlega alveg til 1965. Upp úr 1950 hefði aftur á móti farið að bera á hafískomu og það ástand ríkt eiginlega alveg til 1965. Upp úr 1950 hefði aftur á móti farið að bera á hafískomum af fyrstnefndu tegundinni. en fyrst 1965 hefði hafís af annarri og þriðju tegundinni gert vart við sig og svo aftur 1967 og 1968. Væri því freistandi að álykta, að skilyrði fyrir slíkar ískomur væri aftur orðin ákjósanleg.
Miklir kuldar voru í febrúar, en furðusnjólétt. Auk kuldanna voru það helst hlákuflóð sem ullu ama. Jörð illa frosin og tók ekki við neinu leysingavatni.
Sjötti febrúar var sérlaga kaldur. Kortið hér að ofan sýnir veðrið kl.9 um morguninn. Meir en -10 stiga frost var þá á öllum veðurstöðvum. Síðan hlánaði um stund. Tíminn segir frá 11. febrúar:
Sumstaðar á Suðvesturlandi flæddi yfir vegi í dag, eins og í Hvalfirði og Kollafirði, og sömuleiðis flæddi yfir Suðurlandsveig undir Ingólfsfjalli og norðan við Kögunarhól hafði vegurinn verið varðaður með tunnum vegna vatnsgangs. Þá flæddi yfir veginn í Ölfusi á nokkrum stöðum. Gífurleg hálka var í Kömbum, og vart nokkrum bílum fært þar upp, enda lá umferðin um Þrengslin, og þar var líka mikil hálka, og runnu a.m.k. tveir bilar út af veginum þar.
En aftur kólnaði verulega. Minnisstæð eru veðrabrigði sunnudaginn 16. febrúar. Þau má sjá á kortinu hér að neðan.
Tíminn segir frá 18.febrúar:
OÓ Reykjavík, mánudag. Ein af flugvélun Björns Pálssonar hefur verið veðurteppt á Reykhólum síðan á laugardag. Var veðurhamurinn fyrir vestan svo i mikill í fyrrinótt og í nótt, að tjóðra varð vélina niður og var tveim bílum stillt við hlið hennar til að hún fyki ekki. Í nótt voru 11 vindstig á Reykhólum, en flugvélin hefur ekki orðið fyrir skemmdum. Sveinn Björnsson flaug vélinni, sem er af Cessnagerð vestur á laugardagsmorgun. Fór hann þangað með Jóhann Guðmundsson, lækni. En flogið er vikulega með lækni vestur þar sem héraðið er læknislaust, og bíður flugmaðurinn venjulega meðan læknirinn sinnir sjúklingum. Þegar fara átti til Reykjavíkur um klukkan 17, lokaðist flugvöllurinn vegna þoku, en þá var sæmilegasta veður fyrir vestan. Vitað var að stormur var í aðsigi og var flugvélinni komið í skjól við húsvegg og tjóðruð niður. Til frekara öryggis var tveim bílum stillt við vélina og hafði hún af þeim nokkurt skjól.
Fyrir mánaðamótin gerði mikla hláku, eins og sömu daga árið áður (1968). Úrkoma var þó ekki eins mikil í þetta sinn og þá og mun minni snjór á jörð til að bráðna.
Morgunblaðið segir frá 28.febrúar:
Það rigndi geysilega í gr á Suður- og Suðvesturlandi, en þó var ekki mikil rigning í Reykjavík. Hins vegar var mikið vatnsveður rétt utan við borgina og t.d. flæddi vatn yfir veginn við Sandskeið, en auk þess flæddi vatn á þrem stöðum öðrum á veginum yfir Hellisheiði. Skemmdir hafa ekki orðið en, en það gæti farið svo að vegi tæki sundur ef ekki linnir rigningunni. Í Rangárvallasýslu rennur víða yfir vegina og er ástæða til að hvetja vegfarendur til að fara varlega á þeim slóðum. Þá var einnig komið mikið vatn við veginn á Mýrdalssandi í gær og var komið vik inn í vegin á einum stað, en hann var þó ennþá fær. Norðanlands, austanlands og á Vestfjörðum var viða geysileg hálka í gær. Fært var frá Reykjavík norður til Húsavíkur og frá Húsavík var fært á stórum bílum til Raufarhafnar. Annars eru vegir á Norðausturlandi ófærir og á Austurlandi eru alir fjallvegir ófærir. Fært er þó frá Egilsstöðum út í Eiðaþinghá og í Fossvelli og upp í Hallormsstað. Sömuleiðis var fært frá Egilsstöðum til Eskifjarðar og leiðin suður með fjörðum. Þá var fært frá Djúpavogi til Hafnar í Hornafirði, en allsstaðar var mikil hálka á vegum. Frá Reykjavik er einnig fært til Reykhólasveitar og um allt Snæfellsnes.
Og Tíminn segir einnig af vatnavöxtum þann 1.mars:
Vatnið í Elliðaánum hefur verið að smáaukast að undanförnu, og mun vatnshæðin hafa náð hámarki í dag. Fossuðu árnar fram kolmórauðar í dag, er fréttamenn Tímans lögðu leið sína upp með þeim, og fyrir ofan efri Elliðaárbrúna hafði Vatnsveituvegurinn grafist í sundur, á sömu slóðum og í fyrra, þegar miklu flóðin urðu þar. Allir vegir sem liggja að Kardimommubænum voru undir vatni, ekki djúpu að vísu, en nóg til þess að öllum venjulegum bílum var ófært upp að hesthúsunum. Skildu hestamenn bíla sína eftir, og óðu síðan í klofstígvélum, eða þá að þeir fengu far með hjálpsömum jeppaeigendum, sem létu sig ekki muna um að aka fram og aftur í vatnselgnum. Sumarbústaðurinn Brú er þarna við Vatnsveituveginn, og var hann umflotinn vatni, en ekki þó eins og í fyrra. Má búast við að eigandinn hafi orðið fyrir tjóni nú eins og þá. Hámarki mun vatnshæðin hafa náð um miðjan dag í dag, en með kvöldinu var vatnið nokkuð farið að sjatna.
Morgunblaðið 1.mars:
Það hafa verið menn á vakt á báðum stíflunum í Elliðaánum frá því í gærkvöld og verða í alla nótt, til að fylgjast með vatnsrennslinu og opna lokurnar eftir því sem með þarf, sagði Jón Ásgeirsson, stöðvarstjóri Elliðaárstöðvarinnar er Morgunblaðið hafði samband við hann í gær og spurðist fyrir um vatnavextina og afleiðingar þeirra. Vatnsmagnið í ánum fór verulega að aukast um 10 leytið á fimmtudagskvöld, en þá fengum við vatnið ofan af Sandskeiði eins og dembu yfir okkur. Ástæðan fyrir þessu aukna vatnsmagni þaðan er sú, að þegar frost er í jörðu sígur rigningarvatnið ekki niður, en safnast í tjarnir og rennur síðan í Elliðaárnar. Þegar rennslið varð mest var það milli 50 og 60 rúmmetrar á sekúndu, en það er nær 20 falt meðalrennsli. Í flóðunum í fyrra varð það yfir 200 rúmmetrar á sekúndu svo að rennslið nú varð ekki nema fjórðungur þess, sem það varð mest í fyrra. Vatnsyfirborðið við Elliðavatnsstífluna komst hæst í 75,2 metra, en það er um 60 sm yfir meðalvatnsborði. Hafa menn verið á vakt á stíflunum og opnað lokurnar eftir því sem talið hefur verið nauðsynlegt. Mikið krap hefur verið í ánum og hafa því myndast þrengsli og vatnið flætt nokkuð upp á bakkana. Var töluvert flóð hjá svonefndum Kardimommubæ og víða erfitt að fara um veginn, en ekki er hægt að segja að þessir vatnavextir hafi valdið teljandi tjóni til þessa að minnsta kosti, sagði Jón að lokum.
Og þann 6. mars birti Morgunblaðið fregn af vatnavöxtum í Rangárvallasýslu:
Þykkvabæ 5. mars. Hólsá í Rangárvallasýslu braut sig í gegnum Fjarkastokk í dag og fellur hún nú yfir beitilöndin á 23 km breiðu svæði. Er vegurinn ofan byggðarinnar undir vatni á 2 km löngum kafla og er vatnið um 70 sm djúpt og umferð því mjög varasöm. Vegurinn stendur enn, því að frost er mikið í honum. Flóðið er enn í vexti og er vatnið nú komið heim að bæjum. Ástæðan fyrir þessu er ísstífla sem er í ánni og fyrir ofan hana er áin nú um 800 metra breið. Fellur hún þaðan þversum yfir landið og út í Þjórsá.
Eftirminnilegasta illviðri ársins gerði þann 5. mars. Er það gjarnan kennt við sælgætisverksmiðjuna Lindu á Akureyri en þakið sviptist í heilu lagi af verksmiðjuhúsinu. Nánar er fjallað um þetta veður og kuldann dagana á eftir í pistli hungurdiska: Fárviðrið 5. mars 1969. Í kjölfarið urðu miklar hitasveiflur með ýmist frosti eða flóðum. Um það veðurlag var fjallað í pistli hungurdiska: Um miðjan mars 1969. Þar er fjallað um veðurfar þessara merku daga. En við bætum hér við nokkrum frásögnum af flóðum:
Tíminn segir frá 15. mars:
KJ-Reykjavík, föstudag. Í nótt og í dag hefur víða flætt yfir vegi, og einnig hafa skriður ollið skemmdum og töfum á vegum. Aðalvegaskemmdirnar urðu í Ólafsvíkurenni, en þar var mikið grjóthrun, og þótti ekki þorandi að vinna að því að ryðja veginn vegna grjóthruns. Vatn flæddi víða yfir Suðurlandsveg vestan Hellisheiðar, og urðu nokkrar tafir á samgöngum við Suðurland þess vegna. Stórir bílar komust alltaf leiðar sinnar, en á tímabili var litlum bílum varla fært yfir verstu kaflana, þótt margir skröngluðust þó yfir, og ekki er vitað um nein sérstök óhöpp í þessu sambandi. Hólmsá fyrir ofan Reykjavík flæddi yfir bakka sína neðan við Gunnarshólma, og fór þar líka yfir veginn. Lækjarsprænan í Lækjarbotnum, sem oftast lætur lítið yfir sér, var eins og stórfljót í leysingum og fór víða yfir veginn neðan Lækjarbotna. Ræsin höfðu ekki undan, og grófst vegurinn niður á nokkrum stöðum. Á Sandskeiði flæddi leysingavatn yfir veginn, og olli skemmdum á honum, og sömu sögu var að segja um veginn fyrir ofan Sandskeiðið.
Í dag seinnipartinn voru vegir komnir í lag. Elliðaárnar voru í miklum ham í dag, en þó ekki eins miklum og í fyrra er þær sprengdu allt af sér og flæddu víða yfir. Um daginn komu flóð í Elliðaárnar og flæddi þá í kring um Kardimommubæinn svokallaða og svo var einnig í dag Sögðu gárungarnir að hestamenn hefðu kennt hestum sinum að synda síðan í fyrra. Fyrir ofan efri Elliðaárbrúna tók veginn af um daginn, og var nýbúið að gera við veginn núna. er vatnið tók aftur með sér stór stykki úr veginum. Vatnsveitan og borgarlæknir hafa varað íbúa vestan Elliðaáa, nema Breiðhyltinga við því að yfirborðsvatn komst í inntak dælustöðvarinnar við Gvendarbrunna, og er vatnið því mengað. Er fólki ráðlagt að neyta ekki Gvendarbrunnavatnsins nema sjóða það áður. Aftur á móti er allt í lagi með vatnið úr Bullaugum, en þaðan fá Árbæingar, Selásbúar og Breiðhyltingar sitt neysluvatn. Svo haldið sé í norður frá Reykjavík, með vegafréttir, þá er Þingvallavegur ófær, þar sem rann úr honum í Vilborgarkeldum, sem er nokkuð austarlega.
Í Hvalfirði féllu skriður á veginn, en ekki þó svo að til mikilla trafala yrði. Mikið grjóthrun var í Ólafsvíkurenni og vegurinn þar milli Rifs og Ólafsvíkur algjörlega ófær. Var ekki þorandi að senda vinnuflokka á staðinn vegna grjóthruns úr Enninu. Ekki sagði Vegagerðin að vegaskemmdir hefðu orðið að ráði annars staðar, en ruðningstæki voru víða í notkun í dag, og fært var til Siglufjarðar, og vonast til að fært yrði allt til Raufarhafnar. Íbúar á Norðausturlandi hafa annars ekkert verið upp á vegina komnir nú upp á síðkastið, því þeir hafa notað harðfennið, og ekið á því. Miklar skemmdir urðu á Þingeyri og nærsveitum vegna vatnavaxta s.l. nótt. Mestur varð skaðinn á bænum Múla í Þingeyrarhreppi. Þar hljóp fram krapaskriða úr gili ofan við bæinn og lenti á hlöðu og fjósi. Hlöðugaflinn sprakk allur inn á við og einnig sprakk fjósgaflinn og flóði krapið inn um allt gólf. Kýr sakaði ekki. Á Þingeyri urðu skemmdir á húsum, sérstaklega útihúsum. Flæddi vatn viða inn í íbúðarhús og kjallara og hlutust af talsverðar skemmdir. Utarlega í þorpinu hljóp skriða á reykingarkofa og færði hann á kaf og einnig skemmdist bílskúr. Fyrir nokkrum árum var grafinn skurður til varnar ágangi vatns, en í nótt reyndist hann ónógur og flæddi fljótlega út úr honum. Girðingar eyðilögðust víða á fyrrnefndum bæ, tók til dæmis af 500 metra langa girðingu, og sagðist bóndinn í Múla aldrei séð annan eins vatns- og krapaflaum.
Tíminn birti 16.mars frétt af lagnaðarís á Hvammsfirði:
KJ-Reykjavík, laugardag. Dalamenn horfa nú fram á það, að siglingar á hafnir þeirra verði tepptar fram á vor, því allur Hvammsfjörður er nú ísi lagður, og reyndist ísinn vera tveggja feta þykkur, þegar hann var mældur á dögunum. Steinbór Þorsteinsson kaupfélagsstjóri í Búðardal sagði blaðinu í dag, að illa horfði með áburðarflutninga í vor, þar sem búast mætti við að skipum yrði ekki fært inn til Búðardals, fyrr en um seinan. Hann sagði að nokkrar hafnarbætur hefðu verið gerðar í Búðardal á s.l. sumri, en nú væru horfur á að Dalamenn myndu ekki njóta þessara bóta sem skyldi vegna íssins. Til Búðardals eru flutt 9001000 tonn af áburði á hverju vori, og hafa þeir flutningar að mestu farið fram með skipum, þar sem vegir eru oft mjög slæmir á áburðarflutningatímabilinu. Steinþór sagði að fólk hefði notað ísinn til að fara á skauta, og einnig skeiðað þar um á hestum, en í þessum ísferðum hafa tveir handleggsbrotnað. Þessi mikli ís á Hvammsfirði á eftir að valda Stykkishólmsbúum erfiðleikum, ef að líkum lætur, því venjulega fer ísinn vestur með norðurströnd Snæfellsness og hrannast þá oft upp við Stykkishólm.
Tíminn birti en fregnir af flóðum þann 18.mars - í þetta sinn í Keflavík (eins og áður sagði er fjallað um veðrið sjálft í fyrri pistli). Þar er einnig fjallað um úrkomuna miklu sem mældist í Reykjavík:
EKH-Reykjavík, mánudag. Aðfaranótt sunnudags flæddi inn í tíu hús í Keflavík og hlutust miklar skemmdir af. Svo mikill var vatnselgurinn, að vatnslagið á kjallaragólfunum varð frá 3045 cm. Flóð sem þetta er ekkert nýtt í Keflavík og verða þau alltaf af og til í leysingum, og vegna skorts á holræsum, stafar af þeim töluverð hætta. Kjallarar allmargra húsa eru orðnir óíbúðarhæfir vegna skemmda af völdum flóðanna og flóðahættu, enda engu líkara en húsin standi í miðjum árfarvegi af og til. Áður fyrr, meðan Keflavík var aðeins lítið kauptún, lágu tvær til þrjár rásir ofan af heiðinni, gegnum bæinn og allt niður í sjó. Í þessa farvegi féllu lækir í leysingum. Með aukinni byggð, götulögn og malbikun, hurfu þessar rásir, en í stað þess safnaðist vatn innan af heiðinni í kvos fyrir ofan efstu byggðina í Keflavík, Hátúnið. Við Hátún var svo byggður varnargarður og heftir hann framrás vatnsins við venjulegar aðstæður en í leysingum vill brenna við að vatn hleypur fram yfir stífluvegginn og fellur í stríðum straumi niður Aðalgötuna. Vatnsflaumurinn stofnar í hættu húsum við meginhluta Hringbrautar, Smáratún, Hátún og Túngötu.
Flóðin sem urðu aðfaranótt sunnudagsins og fyrir réttum mánuði ullu miklum skemmdum og raski og eru húseigendur við þessar götur orðnir langleiðir á að eiga flóðin stöðugt yfir höfði sér. Hafa borgarar skrifað bæjarstjórn um málið en fengið daufar undirtektir. Á þessu máli er ekki nema ein lausn. Það er að gera stórt holræsi ofan Hátúns, sem tekið gæti við vatnsflaumnum ofan úr heiðinni. Það er krafa íbúa við Hátún og fleiri Keflvíkinga, að holræsi þetta verði gert hið fyrsta. Bæjarstjórn Keflavíkur hefur nýlega samþykkt með atkvæðum meirihluta bæjarstjórnar að veita 500600 þús. kr. til holræsagerðar við Hátún, en minnihluti Framsóknarmanna lagði til að varið yrði til þessara framkvæmda a.m.k. 1 milljón til að byrja með. Þess skal getið að hið samþykkta fjárframlag hrekkur vart fyrir öðru en verkfræðilegum athugunum og ýmsum undirbúningi. Blaðið hafði í dag samband við tvo húseigendur, sem urðu fyrir barðinu á flóðinu aðfaranótt sunnudagsins. Síðan Hringbrautin var steypt hefur þetta verið árlegur viðburður hjá mér, sagði Davíð Gíslason að Smáratúni 14. Það stóð fossinn upp úr niðurfallinu í kjallaranum hjá mér og upp úr klósettinu líka. Þetta er ágætur kjallari hjá mér, tvö stór herbergi og gangur, allt teppalagt, en ég sé ekki annað en að hann sé alveg ónýtur fyrir mér, ef þessu fer svona fram. Það fæst ekki nokkur maður til þess að búa í þessu með flóðin sífellt yfirvofandi. Ég teppalagði þetta allt fyrir skömmu og nú hafa teppin hlaupið og eru stórskemmd. Það stendur ekki á því að hirt sé af manni holræsagjald, en það stendur svo sannarlega á holræsagerðinni. Lögnin í Aðalgötunni er aðeins 9 tommur og hún tekur ekki nándar nærri við öllum vatnsaganum í flóðunum. Nú verður að gera eitthvað í þessu, maður er orðinn ósköp þreyttur á þessu ástandi. Að Túngötu 17 hjá Jóni Stígssyni, flæddi minna nú en í flóðinu fyrir mánuði. Í kjallara hússins var lítil íbúð en hún hefur nú verið lögð niður vegna flóðahættunnar. Þegar vatnið var mest mun hafa verið um 45 cm vatnslag á gólfinu og það vatnaði meira að segja yfir rúmin. Það skemmdist töluvert mikið til dæmis öll rafmagnstæki, hluti af kynditæki og þvottavél. Þetta er ófremdarástand sem ráða verður bót á hið fyrsta.
OÓ-Reykjavík, mánudag. Gífurlegar skemmdir urðu á vegakerfi landsins fyrir og um síðustu helgi. Hafa allir vinnuflokkar Vegagerðarinnar unnið að viðgerðum og eru nú flestir vegir færir stórum bílum. En skemmdirnar eru svo miklar að fullnaðarviðgerð lýkur ekki fyrr en í vor, er klaka leysir úr jörðu. Mestar urðu skemmdirnar á Snæfellsnesi og í nágrenni Reykjavíkur. Vegurinn á Sandskeiði, rétt ofan við Reykjavík, skarst sundur af vatnsaganum á laugardagskvöld og stöðvaðist öll umferð austur fyrir fjall þar til á sunnudagsmorgun.
Mikið flóð var í Elliðaánum í fyrradag og í gær, en í Reykjavík mældist mesta sólarhringsúrkoma síðan mælingar hófust. Rennslið í Elliðaánum komst upp í 130 teningsmetra þegar mest var. Á laugardagskvöld hrannaðist klaki að efri Elliðaárstíflunni og voru starfsmenn Rafveitunnar um tíma hræddir um að stíflan mundi bresta. Svo fór þó ekki og síðari hluta dags í gær og í dag sjatnaði mikið í ánum. Flóðin voru ekki eins mikil og í fyrra, en þá rigndi lengur en nú. Samt flæddi umhverfis hesthúsin í Kardimommubæ og komu sumir eigendur hestanna gripum sínum í hús annars staðar. En í mörgum hesthúsanna voru hestar, en þeir voru ekki í hættu vegna flóðanna. Erfitt var að komast að húsunum en menn voru ferjaðir á jeppum á milli lands og hesthúsanna og stöðvuðust sumir þeirra í vatninu, en slys urðu engin af völdum flóðanna.
Vegaskemmdir urðu um allt land vegna rigningarinnar og leysinga. Eru vegirnir víða enn viðsjárverðir og ekki síst fyrir þá sök, að í gær snjóaði um allt land og eru víða skörð í vegina sem illa sjást undir snjónum. Hvað verst var ástandið á Snæfellsnesi og í Dölum, og í nágrenni Reykjavíkur. Á Norðurlandi var mikil þíða og vatnavextir. Í dag var færð orðin ágæt um Hellisheiði og á Suðurlandsundirlendi. Sömuleiðis vegurinn vestur um Borgarfjörð, en innansveitar eru nokkrir vegir enn lokaðir. Til dæmis vegurinn um Lundarreykjadal og Dragavegur og fleiri. Vegurinn um Ólafsvikurenni fór mjög illa og er enn nær ófær. Skriður féllu á veginn og eins komu skörð í veginn sjálfan. Skógarstrandarvegur er algjörlega lokaður vegna skriðufalla í Narfeyrarhlíð og er vegurinn víða í sundur. Fært er um Bröttubrekku og vestur í Króksfjarðarnes á stærri bílum. Á Vestfjörðum eru sumir vegir jeppafærir en aðrir lokaðir en í dag var reynt að opna sem flesta vegi vestur þar. Í dag var fært milli Reykjavíkur og Akureyrar, en talsverður snjór á heiðunum. Tvær ár flæða yfir veginn, hjá Fornahvammi og eins flæða Héraðsvötn yfir veginn, en vatnið er ekki djúpt og komast bílar þar yfir eins og er. Verður vegurinn lagfærður eins og hægt er á morgun. Á Austfjörðum er fært um Fljótsdalshérað og suður á Austfjörðum frá Reyðarfirði. Á Suðurlandi eru flestir vegir færir í dag. Alls staðar sem tök eru á er unnið að viðgerð veganna, en víða er erfitt um vik. Vont er að komast að möl vegna klaka, og víðast hvar er ekki hægt að gera við vegina fyrr en í vor.
Þann 16. mars birti Tíminn frétt um ískjarna í Grænlandsjökli. Fréttinni fylgdi snyrtileg skýringarmynd sem ástæða er til að rifja upp.
Tekist hefur að ná 1400 m langri íssúlu úr Grænlandsjökli. Vísindamenn geta notað þessa ísnál eins og hitamæli, sem segir þeim til um veðurfar fyrri alda allt aftur á ísöld. Með aðstoð hennar hafa menn fræðst um veðurfarið fyrir 100.000 árum. Og það er meira að segja sennilegt, að hún komi til með að geta frætt menn um loftslagið á jörðinni fyrir 200.000 árum.
Apríl var til þess að gera hagstæður - miðað við það sem á undan var gengið, en heldur var umhleypingasamt. Mikið frost og hríð gerði í síðustu vikunni. Í athugasemd með veðurskýrslu frá Síðumúla í Borgarfirði segir um þennan mánuð:
Síðumúli: Apríl var mjög breytilegur hvað frost og hita snerti. Sömuleiðis var mjög breytileg átt. Skipti stundum um átt fleirum sinnum á dag. Yfirleitt má kalla að veðráttan hafi verið frekar köld. Þó margir dagar væru unaðslegir, bjartir og sólríkir, þá voru aftur margir dagar hrollkaldir. Og þó jörð væri mjög snjólétt allan mánuðinn og alauð á láglendi eftir þ. 20., þá er hún gróðurlaus með öllu. En þurrviðrasamt var. Áfallalaust var fyrir menn og skepnur. Jörðin er auð og þurr á láglendi. Fjöllin hvít. Allt sauðfé hýst og gefið hey og matur.
Þann 9. apríl sátu tuttugu bílar fastir á Öxnadalsheiði og mikil ófærð var á Hellisheiði þann 13. (Veðráttan).
Tíminn segir af hríð í pistli þann 27.apríl:
KJ-Rvik, laugardag Í gær og í nótt var stórhríð á heiðum norðanlands, og í nótt komst frostið niður í 15 stig á Hveravöllum, á þriðja degi sumars. Í morgun var hlýjast á Fagurhólsmýri þriggja stiga hiti, en í Reykjavík var átta stiga frost klukkan níu í morgun. Hjá Vegamálaskrifstofunni fékk blaðið þær fréttir í morgun, að Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði væru ófærar nema stórum bílum. Siglufjarðarvegur varð ófær vegna snjóa, og sömuleiðis Ólafsfjarðarvegur, en snjóskriða féll á veginn. ... Fréttaritari Tímans í Neskaupstað, Þorleifur Ólafsson, símaði að sumarið hefði heilsað með snjó þar eystra, en einmunatíð hefði verið búin að vera lengi. Allhvítt var í Neskaupstað á sumardaginn fyrsta og var ennþá. Oddskarð var orðið fært, en búast má við að færð þar hafi spillst við þetta áhlaup.
Maí 1969 var í sjálfu sér ekki mjög óhagstæður, en hafís olli miklum samgönguerfiðleikum á sjó og kulda í þeim sveitum sem undir áhrifum hans voru. Ingibjörg í Síðumúla segir frá:
Maímánuður er held ég sá þurrviðrasamasti sem ég man eftir. En þetta var of mikið þurrviðri, því jörðin er þess vegna gróðurvana. Því valda líka næturfrostin, sem voru við og við fram yfir miðjan mánuð. Margur dagur var fagur og yndislega hlýr og góður. Sauðburður gengur vel, það sem veðrið getur að gert, sem er ákjósanlegt fyrir slíkar athafnir.
Allmikið var af fréttum af hafís í blöðunum. Tíminn segir frá þann 4.maí - þar er einnig frétt af ísþykkt á Þórisvatni:
OÓ-Reykjavík, laugardag. Hafísinn fyrir vestan og norðan þrýstist enn suður á bóginn og er sigling til Norðurlands mjög erfið bæði fyrir Horn og fyrir Langanes. Fyrir Austurlandi nær ísinn nú allt suður að Kollumúla og liggur þar að landi en Héraðsflói er íslaus að mestu. Við Langanes og fyrir öllum Ströndum er íshröngl sem liggur að landi og er sigling ekki fær nema öðru hvoru og þá aðeins sterkum skipum. Fóðurflutningaskip sneri við sunnan við Langanes vegina íssins og fór með farminn til Reyðarfjarðar. Í gær reyndu tveir bátar frá Ísafirði, sem voru að veiðum út af Norðurlandi að komast vestur um en urðu frá að hverfa. Voru báðir bátarnir að veiðum við Skaga en þar liggur ístunga nú að landinu. ... Talsverður ís liggur að landi við Melrakkasléttu og Langanes. Er sigling fyrir Langanes fær í björtu en misjafnt er hve þéttur ísinn er, en jakarnir ýmist þéttast eða dreifast og getur sigling fyrir Langanesið lokast hvenær sem er.
KJ-Reykjavík, föstudag. Fyrir nokkru síðan fór flokkur bormanna frá Landsvirkjun inn að Þórisvatni, þeirra erinda, að kanna jarðlög undir vatninu með tilliti til hugsanlegra jarðgangna vegna virkjunar við Sigöldu. Hefur borum verið komið fyrir úti á ísnum á vatninu, og við mælingu á ísnum reyndist hann vera hvorki meira né minna en 1,30 metrar á þykkt. Þetta mun vera óvenjulegt að ísinn sé svona þykkur, því eftir að hann er orðinn meter þykknar hann mjög seint að sagt er.
Enn segir Tíminn ísfréttir þann 7.maí:
OÓ-Reykjavík, þriðjudag. Sigling til Norðurlands er nú ófær vegna hafíss. ísinn er landfastur við Strandir og við Langanes. Rekís er víða inni á fjörðum og flóum og í dag þokaðist ísröndin víða nær landinu og er Miðfjörður nú til dæmis orðinn hálfur af ís. Yfir ísnum er mikil þoka og því erfitt að fylgjast gjörla með ferðum hans en þó verða Norðlendingar varir við að ísinn er að nálgast. Sigling um Húnaflóa er ófær og í gær og dag reyndu bátar að komast fyrir Langanes en árangurslaust. Við Melrakkasléttu hefur ísinn aukist í dag og er illfært fyrir báta að komast inn í höfnina á Raufarhöfn. Skoruvíkin er að fyllast af ís og þéttur ís sést frá Fonti og vestur. Veður er gott fyrir norðan og vegir vel færir og einnig eru flugskilyrði góð.
Brynjólfur Svanbergsson á Hvammstanga símaði Tímanum í dag og sagði: Hafís fór að koma inn Miðfjörð í gær, og hefur haldið áfram að mjakast hér inn hjá okkur og seinni hluta dags í dag kom meira skrið á hann og nú er að verða fullur hálfur Miðfjörður, og orðið er algjörlega ófært skipum til Hvammstanga. Þessu fylgir norðanátt í dag, og þokusuddi hérna rétt norður undan, en þó höfum við hér á Hvammstanga búið við sólskin í dag, þrátt fyrir það, ... Jón Jónsson fréttaritari Tímans á Skagaströnd sagði að þeir sæju ekki ísbreiðuna á Húnaflóa vegna þoku, en hinsvegar finndu þeir vel nálægð íssins, því það andaði köldu til þeirra af ísbreiðunni.
Þurrkurinn jók líkur á sinubrunum, þótt þeir kviknuðu af mannavöldum (eins og oftast er). Tíminn segir frá 17.maí:
EKH-KLP-Reykjavík, föstudag. Síðustu daga hafa orðið margir stórhættulegir sinubrunar, nú síðast í gærkvöldi, þegar Magnúsarlundur í Heiðmörk eyðilagðist af eldi, en þar voru 6 þúsund plöntur gróðursettar fyrir níu árum. S.l. miðvikudag lá við stórtjóni er eldur kom upp í Skógrækt ríkisins að Reykjum í Ölfusi og minnstu munaði að kviknaði í sumarbústað í sinubruna á lóð við Elliðavatn á uppstigningardag. Fullvíst er talið að allir þessir sinubrunar séu af mannavöldum vegna óvarkárni í meðförum elds og ættu allir að minnast þess að fara varlega með eld í gras- og skóglendi í þeim þurrkum, sem nú eru. Eigandi að stórri lóð við Elliðavatn var síðdegis á uppstigningardag að brenna rusli á öruggum stað, að því er hann hélt, en vindhviða feykti logandi bréfrusli út á lóðina, og varð af stórbál í sinunni á skömmum tíma. Eldurinn breiddist út um alla lóðina og munaði minnstu að kviknaði í stórum og fallegum sumarbústað á lóðinni. Nokkra ferðalanga og nágranna dreif að og reyndu þeir í sameiningu að slökkva eldinn, en tókst ekki fyrr en vanur maður, Reynir Sveinsson, gæslumaður Heiðmarkar, kom þarna að og tók að sér stjórn slökkvistarfsins. Sagði hann fólkinu að velja sér svæði til að slökkva á og vera þar um kyrrt og reyna að slökkva í kringum sig. Með þessu laginu tókst að hefta útbreiðslu eldsins. ... Varla var búið að slökkva í sinunni við Elliðavatnið, þegar fréttist um mikinn bruna í Heiðmörk. Það var um áttaleytið að slökkviliðið í Hafnarfirði kom í Heiðmörk með einn bíl. Mjög erfitt er að stöðva sinubruna með vatnsaustri og er það oftast eina ráðið að rífa upp allan gróður í kringum brunasvæðið og hefta útbreiðslu eldsins með því að einangra hann. Mannskapur frá Skógræktarstöð ríkisins i Fossvogi, slökkviliðið í Hafnarfirði og fjöldi sjálfboðaliða vann að slökkvistarfinu fram eftir kvöldi með löngum bambussköftum og vírburstum, en það eru áhrifamestu álhöldin við skógarbruna. Þrátt fyrir það að slökkvistarfið gengi vel, skemmdust um einn og hálfur hektari skógarins í þessum bruma. Fyrir níu árum voru gróðursettar 6 þúsund plöntur í Magnúsarlundi, aðallega fura, sitkagreni og rauðgreni. Ein furutegundin, bergfuran hafði náð sérstaklega mikilli hæð og var orðin næstum ein mannhæð. Gífurlegt tjón hefur orðið í þessum bruna og leikur enginn vafi á að kviknað hefur í af mannavöldum. Vegurinn í Heiðmörk hefur verið lokaður að undanförnu svo þarna hafa gangandi vegfarendur verið að verki. ... Eldurinn sem upp kom síðdegis á miðvikudag í Skógrækt ríkisins að Reykjum í Ölfusi, er talinn hafa kviknað út frá fikti unglinga með sígarettur. ... Slökkviliðið í Reykjavík var á þeytingi í gær vegna sinubruna í borginni. Fór liðið á eina fjóra staði, vegna sinuelda, sem krakkar höfðu kveikt. ... Þá hefur liðið sinnt köllum vegna sinubruna undanfarna daga.
Nokkurrar bjartsýni gætti í júní, eins og Ingibjörg í Síðumúla greinir frá:
Síðumúli: Í júnímánuði var hlý og úrkomusöm tíð, svo grasspretta er að verða sæmilega góð, en hér um slóðir er sláttur ekki hafinn. Enda hefir gróðurinn farið hægra en við mátti búast hvað veðurfar snerti. Er það vegna þess að klaki er enn talsverður í jörð. Seinnipart mánaðarins var sérstaklega hlýtt og úrkoman var þá líka meiri.
Þann 15. júní mældist snjódýpt 9 cm á Hornbjargsvita, hvítt varð á fleiri stöðvum dagana áður. (Veðráttan). En fréttir héldu áfram að berast af hafís, og sömuleiðis fór að koma í ljós að tún voru víða illa kalin.
Tíminn segir frá 3.júní:
OÓ-Reykjavík, mánudag. Tún eru að byrja að grænka fyrir norðan og tími til kominn að að bera á, en áburðarskortur er enn í mörgum sveitum vegna siglingarteppu. Eru allar hafnir við Húnaflóa lokaðar nema Skagaströnd. Er nú skip að losa áburð þar og annað bíður eftir að komast að bryggju. Skip komst til Sauðárkróks í gær með áburðarfarm. Gekk sæmilega að komast inn Skagafjörðinn. Hins vegar varð Grjótey að snúa frá er skipið ætlaði að komast inn á Hvammstanga. Allar hafnir á Ströndum eru lokaðar og er að skapast þar alvarlegt ástand vegna áburðarleysis. Sigling til Blönduóss er algjörlega lokuð, og er ísinn þar úti fyrir nú meiri en verið hefur í vetur. Horfir til vandræða með áburð þar um sveitir. ...
IGÞ-Reykjavík, mánudag. Þótt komið sé fram í júní er enn mjög svalt veður fyrir norðan, einkum á nóttunni. Klaki hefur því ekki farið úr jörð enn og vegir eru harðir eims og á vetrardegi Að vísu örlar aðeins á bleytu í þeim á stöku stað. en svo virðist sem klaka eigi enn eftir að leysa úr vegum að mestu leyti nyrðra. Til marks um það, hver gaddur er enn í jörð nyrðra má geta þess að um þverhönd mældist ofan á hann á Blönduósi á sunnudaginn. Er þetta dæmi þó tekið úr svörtum sandi, sem hefur hitnað vel á daginn í sólskininu. ...
Á Eyjafirði vestanverðum er enn íshrafl, en það stöðvar ekki siglingar. Komast skip og bátar nú til Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Í Strandasýslu og Húnavatnssýslu er ástandið alvarlegast. Eru allar hafnir lokaðar nema Skagaströnd, sem opnaðist s.l. laugardag. Í dag andaði köldu á Norðurlandi, en samt er gras að byrja að grænka og er ekki seinna vænna að bændur fari.að fá áburð á túnin ef alvarleg vandræði eiga ekki að hljótast af. Sigling til hafna í Strandasýslu og innanverðan Húnaflóa hefur verið teppt í nær tvo mánuði, og sumstaðar lengur. Eins og horfir er ekki að sjá að ísinn sé á neinu undanhaldi þótt komið sé fram í júnímánuð. Við austanverðan flóann er hann jafnvel enn meiri en fyrr í vetur. ... Sigling fyrir Horn er enn stopul. Annað slagið rekur ísinn frá en síðan lokast leiðir aftur. Einkum er skipum erfitt að komast fyrir Óðinsboðasvæðið. Hins vegar virðist ekki mikill ís úti fyrir Norðurlandi. Þar er hann einkum inni á fjörðum og víkum.
Tíminn birtir kalfréttir 6.júní:
OÓ-Reykjavík, fimmtudag. Talsvert ber á kali á túnum á mörgum bæjum í Skaftártungu. Nokkuð hefur kalið í vetur og vor og einnig eru víða kalblettir síðan í fyrra. sem hafa ekki gróið. ... Tíð hefur verið góð fyrir austan í rúman mánuð og farið er að grænka en grasspretta er enn lítil sem engin. Hagi er góður fyrir skepnur. Þótt tíðin hafi verið góð, ... er klaki enn ofarlega í jörðu. Er ekki nema rúm skóflustunga niður á klakann. Og fer hann ekki úr jörðinni fyrr en síðar í sumar. Af þessum sökum er mikil bleyta i túnum og jörðin er köld. Er verið var að bora eftir vatni fyrr í vetur fyrir austan kom í ljós að klakinn nær yfirleitt 80 om niður i jörðina og sums staðar lengra.
Í júlí fór að gæta erfiðleika vegna þurrkleysu. Sömuleiðis var veður alls ekki gott. Ingibjörg í Síðumúla lýsir tíðinni:
Síðumúli: Júlímánuður var mjög úrkomusamur og ekki nógu hlýr. Heyskapartíð var því mjög óhagstæð. Sláttur byrjaði ekki fyrr en seinni part mánaðarins. Fyrst var beðið að grasið sprytti, og þar næst á eftir að þornaði upp. Útlitið er því ekki æskilegt. En bót er í máli, að súgþurrkunartæki eru nú víðast í hverri hlöðu og hjálpar það vel til við heyverkun í óþurrkatíð.
Þann 6. varð jörð alhvít á Grímsstöðum á Fjöllum. og þann 17. spilltist gróður á Tjörnesi af særoki.
Tíminn ræðir þann 6. júlí um eitt aðalmálið - stórfellt kal í túnum:
OÖ-Reykjavík, laugardag. Stórfelldar kalskemmdir eru í túnum á Suðurlandi. Er þetta ekki sams konar kal og fór illa með túnin í fyrravor. Hjalti Gestsson, ráðunautur Búnaðarfélags Suðurlands, sagði, að engu líkara væri en að gróðurinn hefði króknað í frosthörkunum í vor. Bar ekki á þessum skemmdum fyrr en tún voru orðin sæmilega sprottin. Kom þá í ljós að stór hluti túnanna er vaxinn arfa. Er ástandið sums staðar svo slæmt að allt að þriðjungur sumra túna er vaxinn arfa. Í uppsveitum er arfavöxturinn mestur, en annars ná túnskemmdirnar yfir nær allt Suðurlandsundirlendi, allt frá Ölfusi austur í Mýrdal. Ekki bar á skemmdunum fyrr en tún voru orðin sæmilega sprottin, en fyrr í vor virtist grasspretta sæmileg. Reyndar er sprettan góð og er víðast kafgresi umhverfis arfabreiðurnar. Hjalti sagði að enn hafi ekki farið fram rannsókn á þessum kalskemmdum. en hann álíti að gróðurinn hafi króknað snemma í vor, en þá voru miklar frosthörkur í nokkrar nætur á Suðurlandi. Svo virðist sem skemmdirnar séu jafnt í nýræktunum og gömlum túnum og í þurrum túnum og blautum.
Og svo var það grasmaðkurinn. Tíminn segir frá 10.júlí:
KJ-Reykjavík, miðvikudag. Í vor hefur borið æði mikið á grasmaðki í útjörð undir Eyjafjöllum, en það er fremur sjaldgæft þar um slóðir. Fer grasmaðkurinn um úthagana, og étur þar öll grös, nema elftingu, hrossapunt og annað slíkt sem skepnur líta ekki við. Eggert Ólafsson bóndi á Þorvaldseyri, tjáði Tímanum, að grasmaðkurinn skildi eftir sig hvítt eða sviðið land, og eru margir hektarar þannig útleiknir núna undir Eyjafjöllum. Líkja bændur þessu helst við sinubruna, að því leyti að maðkurinn fer yfir og étur grasið og skilur þá eftir sig graslausa jörðina ... Einar Þorsteinsson i Sólheimahjáleigu, ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands sagði í viðtali við Tímann, að grasmaðkurinn væri ekki óþekkt fyrirbrigði á því svæði sem hann hefur umsjón með, og hefur maðkurinn t.d. oft valdið tjóni fyrir austan Mýrdalssand, en hann væri nýtilkominn undir Eyjafjöllunum. Hann sagði að maðksins hefði í ár líka orðið vart í framræstum mýrum, en annars væri hann algengastur í landi þar sem væri mosi, og sina, en kæmi ekki á vel ræktuð lönd. Hann sagði, að maðkurinn grisjaði gróðurinn og æti plöntur og búfé. Tími hans er að verða búinn núna, sagði Einar, en maðkurinn er talsvert stór ormur, skordýr og er lífsferillinn eftir því. Fiðrildið verpir á sumrin, og síðan liggja eggin í jarðveginum yfir veturinn, en ormurinn skríður síðan úr hýði sínu á vorin. Mun það fara nokkuð eftir vetrinum hvernig ormurinn tímgast, og hvað mikið af honum lifir af veturinn. ...
SD-Lóni, miðvikudag. Hér hefur orðið æði mikið vart við kal og er þetta í fyrsta sinn sem kal hefur fundist í túnum hér um slóðir. Mest er kalið í Nesjahreppi, og reyndar nokkuð í öðrum sveitum einnig. Þar sem kalið er mest er það allt að helmingi túnanna.
Og illar fréttir af garðávaxtasprettu. Tíminn segir af því 26.júlí:
Ræktun garðávaxta hefur gengið illa i sumar, og er nú sprettan að minnsta kosti tveim til þremur vikum á eftir því, sem hún væri undir venjulegum kringumstæðum, samkvæmt upplýsingum Þorvaldar Þorsteinssonar framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna.
Um mánaðamótin júlí/ágúst gerði leiðinlegt illviðri. Djúpar lægðir komu að landinu úr suðri. Tíminn segir frá 29.júlí:
FB-Reykjavík, mánudag. Mikið rigndi á Austurlandi um helgina, en í dag var komið gott veður og sólskin. Vegir skemmdust nokkuð í rigningunni, en unnið var að lagfæringu í dag, og var henni nær lokið. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar var búið að opna svokallaða Fjarðarheiði í dag. Er það vegurinn frá Reyðarfirði út á nes og firði, þegar farið er fyrir Vattarnes til Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Aurhlaup varð í skriðunum milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Var reiknað með að ljúka öllum viðgerðum næstu daga. Nú er Axarvegur, sem liggur af Breiðdalsheiði ofan í Berufjörð, orðinn jeppafær. Þetta er troðningur, sem menn geta farið og stytt sér á þann hátt leið ofan af Héraði og til Hornafjarðar. Var vegurinn ruddur og orðinn jeppafær fyrir helgina.
Átta vindstig voru í Reykjavík í gærkvöldi, en þrumuveður var þá við Breiðafjörð og á Vestfjörðum og einnig í Húnavatnssýslum að því er vitað er. Væntanlega hefur verið haglél sums staðar vestan til á landinu, en það fylgir oft þrumuveðri.
Og aðfaranótt 1. ágúst gerði aftur illviðri - Vísir segir af því:
Mikill veðurofsi var á Suðvesturlandi í nótt og hafa víða orðið skemmdir af völdum veðursins. Mældust 9 vindstig í Reykjavík og á fleiri stöðum sunnanlands í nótt, sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma. Vegir á Suðurlandi hafa spillst nokkuð í nótt, og í morgun fóru vegavinnuvélar frá Reykjavík til að hefla vegina hér í nágrenninu. Margir leituðu til lögreglunnar í Hafnarfirði í morgun, en járnplötur losnuðu af allmörgum húsum og fuku um bæinn, en urðu þó ekki til neins tjóns svo vitað sé. Reyndist erfitt að fá trésmiði til hjálpar, og varð mörgum hugsað til þeirra, sem í Svíþjóð eru. Einna mest virðist rokið hafa verið í Hvalfirði, en þar voru vinnuskúrar nærri farnir á loft. Varð að grípa til þess ráðs að aka stórum jarðýtum að skúrunum til að halda þeim niðri og urðu menn að vaka í alla nótt við að gæta skúranna. Heldur lygndi með morgninum og dró úr rigningunni, en á Norðurlandi var sólskin og blíða. Á Austurlandi var víða mikil úrkoma, og í Norðfirði óx svo í Norðfjarðará, að hún ruddi í burtu varnargörðunum, sem gerðir voru í flóðunum fyrr á árinu. Sagði Gizur Erlingsson, fréttaritari Vísis í Neskaupstað í morgun, að ljóst væri að miklar viðgerðir yrðu að fara fram, ef koma ætti varnargörðunum i samt lag á ný. Allir helstu vegir á landinu eru þó sæmilega færir, eftir þv£ sem vitað var í morgun.
Og einnig Morgunblaðið 1.ágúst:
Samkvæmt upplýsingum Markúsar Jónssonar bónda á Borgareyrum undir Eyjafjöllum gerði mikla úrkomu þar eystra um kl. 16 í gærdag. Úrkomu þessari fylgdi hagl mikið og stórt. Markús, sem segist muna 60 sumur, man ekki eftir annarri eins skúr og til marks um kraft hennar, gat hann þess að niðurföll og þakrennur höfðu ekki undan vatnsflaumnum. Undir Eyjafjöllum var í gær austangarri, hvasst með skúrum.
Ágúst var afskaplega óhagstæður um landið sunnan- og vestanvert. Öllu skárri norðaustanlands. Ingibjörg í Síðumúla lýsir mánuðinum:
Um ágústmánuð er það eitt að segja, að hann var með afbrigðum votviðrasamur. Stórrigningar voru þó ekki hér. Oftast var veðragott og engin frostnótt, svo kál- og kartöflugrös eru algerlega óskemmd. Lítur því sæmilega út með kartöflusprettu, en neyðarástand ríkir nú með heyskapinn.
Um verslunarmannahelgina var haldin hátíð í Húsafelli. Sagt var að þar hefðu mætt 20 þúsund manns. Myndin hér að ofan er tekin á síðdegisskemmtidagskrá sunnudaginn 3. ágúst, á sviðinu var farið með gamanmál - svo er að sjá að áhorfendur fylgist vel með. Talsvert rigndi í Húsafelli aðfaranótt sunnudagsins, en annars slapp vel til með veður og sunnudagssíðdegið var hlýtt og gott.
Fréttir af tíðarfari voru heldur neikvæðar í ágúst - en nokkuð sló á fréttaflutning vegna þess að blöð komu ekki út í prentaraverkfalli sem stóð alla síðustu viku mánaðarins.
Tíminn segir 6.ágúst frá jökulhlaupi í Kolgrímu í Suðursveit:
FB-Reykjavik, þriðjudag. Um helgina var geysimikið jökulhlaup í ánni Kolgrímu í Suðursveit. Allmiklar vegaskemmdir urðu samfara hlaupinu við brúna yfir ána. Var vegurinn því tepptur frá því á laugardag og fram á aðfaranótt mánudagsins Vegaskemmdir hafa verið tíðar í Suður-Múlasýslu austan Lónsheiðar að undanförnu, ekki vegna jökulhlaupa, heldur vegna rigninga. Sagði Hafsteinn, að fyrir rúmri viku hefði nrri legið við að Geithellnaá flæddi yfir garðinn, sem er fyrir austan ána. Vildi aðeins svo til, að vegaverkstjóra bar að á síðustu stundu, og tókst honum að ná í jarðýtu, sem bætti ofan á garðinn. Nægði það til að halda ánni á sínum stað, þar til rigningin minnkaði. Enn rignir mikið þar eystra, og veldur það því, að vegir eru heldur leiðinlegir yfirferðar, enda mikil umferð um þá. Hefur sjaldan eða aldrei verið eins mikill ferðamannastraumur á þessum slóðum og nú í sumar.
Tíminn kvartar þann 8.ágúst um sólarleysi og úrkomu:
SB-Reykjavik, fimmtudag. Ekki eru horfur á að mikið sjáist til sólar á Suðurlandinu á næstunni, að því er Veðurstofan tjáði blaðinu í dag. .Júnímánuður var sá úrkomumesti í Reykjavík síðan 1920, svo ekki er furða, þótt fólk kvarti yfir bleytunni í sumar. Sólskinsstundir í júní og júlí voru heldur ekki margar, en þó hefur hann sést svartari hér í Reykjavík. Samkvæmt veðurskýrslum yfir júní og júlí s.l í Reykjavík, er úrkoman í júní í ár sú mesta, sem mælst hefur síðan samfelldar úrkomumælingar hófust, árið 1920, eða 91 mm. Sólskin í júní hefur heldur ekki mælst minna síðan árið 1925 þannig að ekki er hægt að tala um mikla sumarveðráttu í þeim mánuði. Júlí aftur á móti var ekki eins afbrigðilegur. Þá var úrkoman samtals 61 mm í Reykjavík, eða 13 mm. fram yfir meðallag. Menn verða tæplega varir við úrkomu innan við 0,5 mm, en meiri úrkoma en það mældist 13 daga júlímánaðar, svo að ekki hefur rigning alltaf verið. ... Fimm daga í júlí mældist sólskin í 10 klukkustundir og er það mikil sól á einum degi, en þegar dagarnir eru ekki fleiri, vilja þeir gleymast fljótlega og meira er talað um ótíðina. Mun færri sólskinsstundir voru í júlí 1964 og eitt lakasta sumarið, sem skráð hefur verið hjá Veðurstofunni var 1955, en þá skein júlísólin ekki á Reykvíkinga nema 81 klst., svo að sumar hefur svo sem verið verra, en í ár. Óhtt er að segja, að vætutíð hafi verið um allt Suðurlandið í sumar, en ekki vildi Veðurstofan spá neinu um heyþurrkinn á næstunni. ...
Enn eru fréttir af skriðum og vatnavöxtum í Tímanum 12. ágúst:
OÓ-Reykjavík, mánudag. Miklar vegaskemmdir urðu á Austfjörðum um helgina. Eru nokkrar leiðir með öllu lokaðar, en annars staðar eru vegir illfærir og ekki nema bílum með drifi á öllum hjólum. Mikið rigndi fyrir austan og um helgina flæddi yfir vegi og skriður féllu á þá. Vegurinn við Streitishvarf er lokaður, en þar liggur leiðin um milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar. Að Núpi á Berufjarðarströnd er ófært öllum bílum. Er 30 til 40 metra kafli gjörsamlega horfinn. Skolaði honum burt í rigningum og vatnavöxtum í gær. Vegavinnuflokkur hefur verið að hjálpa bílum yfir verstu ófærurnar í dag, en það hefur gengið mjög illa. ... Síðari hluta dags í dag, var tilkynnt að vegurinn væri lokaður öllum bílum og stendur viðgerð nú yfir. Vegurinn i Álftafirði og Hamarsfirði er mjög þungur yfirferðar og er mikil bleyta í honum. ... Á laugardag lokaðist Suðurfjarðavegur vegna skriðufalla. Féllu skriðurnar milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur, er verið að gera við þar. Verður sú leið að öllum líkindum orðin jeppafær á morgun eða miðvikudag. Á öðrum stöðum á landinu eru vegir færir, en yfirleitt fremur erfiðir yfirferðar. Rigningartíðin hefur staðið svo lengi að allir vegir eru meira og minna blautir og hefur verið erfitt að halda þeim við.
Þjóðhátíðin í Eyjum var haldin helgina á eftir. Sagt var að hún hefði fokið og víst að hluti hennar hraktist inn í kaupstaðinn, en þótti þó enda með nokkurri reisn.
Tvær lægðir, tengdar leifum fellibylja fóru nærri landinu þann 23. til 24. ágúst (Camille) og þann 26. (Debbie) Í fyrra veðrinu skemmdist bíll í grjótflugi undir Hafnarfjalli og verulegt magn af heyi fauk á Hallkelsstöðum í Hvítársíðu og fleiri bæjum. Fresta þurfti útihátíðum og flugsamgöngur trufluðust [Vísir 2.september]. Versta veður mánaðarins gerði þó þann 30. þegar kröpp lægð fór norðaustur fyrir vestan land. Var hún suðrænnar ættar, en ekki þó talin tengd fellibyljum.
Tíminn segir þann 3.september frá tjóni í þessu veðri - en byrjar á fregnum af góðri berjasprettu norðanlands.
SB Reykjavík, þriðjudag. Berjaspretta er með eindæmum góð í ár, sérstaklega um norðanvert landið. Mest mun vera um krækiber, en fólk sækist helst eftir aðalbláberjum, þar sem þau eru, og bláberjum. Mjög mikið er tínt og víða kemur aðkomufólk í stórhópum til berja. Á Vestfjörðum fer fólk á bátum í aðra firði, gengur á land og tínir þar ber.
SB Reykjavík, þriðjudag. Skaðar urðu á nokkrum stöðum á Norðurlandi í hvassviðrinu um helgina. Hey fauk víða og í framanverðum Bárðardal tók þök af útihúsum og skemmur fuku. Girðingar brotnuðu einnig á nokkrum stöðum. Mikið hvassviðri gerði á laugardaginn fyrir norðan og olli víða skaða á heyjum. Bændur í Eyjafjarðardölum misstu talsvert af heyi í ána. Einnig fauk nokkuð af heyjum í Öxnadal og í Svarfaðardal, en þar tók að rigna seinnihluta laugardagsins og kom bleytan að nokkru í veg fyrir að meira fyki af heyinu. Mestum skaða mun þó veðrið hafa valdið í Bárðardal, en þar fauk hey á hverjum bæ og þar brotnuðu girðingar víða undan þunga heysins, sem settist á þær. Á Bólstað framarlega í dalnum tók þök af tveimur útihúsum og í Svartárkoti fuku tvær geymsluskemmur. Bændur vinna nú að því að reyna að má saman heyjum sinum og gera við skemmdirnar.
Ingibjörg í Síðumúla segir af september:
Septembermánuður var ekki síður úrkomusamur en ágúst. Stórrigningar voru þó engar fremur en þá. Fyrstu 8 daga þessa mánaðar var sífeld rigning og skúrir að nóttu þess 9. Var þá búið að rigna samfellt í 12 daga. Þann 9. létti til og tók af heyi og þ. 10. var sólskin og þerrir, en fyrir kl.9 um kvöldið var byrjað að rigna, þvert ofan í allar spár. Þrátt fyrir óþurrkana hefur heyskap miðað nokkuð áfram. Sumstaðar alveg búinn en víðar þó mikið óhirt.
Þarna er minnst á rigninguna að kvöldi þess 10. og vitlausa veðurspá sem mikið var kvartað undan. Ritstjóri hungurdiska man reyndar mjög vel eftir þessu. Hann var þá í Borgarnesi og fylgdist með óvenjulegum bólstrabakka sem kom úr vestri undir kvöld. Þetta var ekki hefðbundinn blikuuppsláttur heldur greinilegur samfelldur klakkabakki. Um leið og hann kom yfir fór að rigna. Alveg er ljóst að erfitt var fyrir spámenn á þessum tíma að eiga við kerfi af þessu tagi, en því er ekki að neita að ritstjórinn varð verulega hissa á spánni sem lesin var í útvarp kl. 01:00 um nóttina - talsvert eftir að hann fór að rigna - og rigningin kom vel fram í miðnæturathugunum frá Vesturlandi - þetta var ekki bundið við Borgarnes.
Spárnar voru svona:
Veðurspá lesin í útvarp 10.9. 1969 kl. 16:15: Suðvesturland til Norðurlands, Suðvesturmið til Norðurmiða: Hæg breytileg átt. Skýjað og sums staðar smáskúrir á miðunum, en víðast bjart veður til landsins.
22:15: Suðvesturland til Breiðafjarðar, Suðvesturmið til Breiðafjarðarmiða. Hægviðri eða norðvestan gola. Víðast léttskýjað.
Óbreytt kl. 01:00.
Fyrsta skúrin féll í Reykjavík milli kl. 2 og 3. (en mun fyrr í Borgarfirði og á Snæfellsnesi).
Síðdegis þann 11. var reyndar líka spáð léttskýjuðu eða þurru næstu nótt. Þá rigndi í Reykjavík kl.23 um kvöldið - enn var óbreytt spá kl. 01:00 - þrátt fyrir skúrirnar. Þetta veður - og vitlaus spáin - höfðu talsverð áhrif á ritstjórann. Hann fylltist ákveðnum ótta gagnvart kerfum af þessu tagi (og fékk síðar eitthvað svona í hausinn á vaktinni).
Mikið var kvartað undan þessari spá. Kortið hér að ofan sýnir hvernig japanska endurgreiningin sér veðrið um miðnæturbil að kvöldi 10. september. Greinilegt úrkomusvæði er yfir landinu vestanverðu og frekari athugun leiðir í ljós að þarna er líka dálítið háloftalægðardrag. Sýnir þetta að skúrabakkinn hefði varla komið veðurspámönnum nútímans í opna skjöldu. En athugum hvað sagt var. Tíminn segir frá 12. september:
EJReykjavík, fimmtudag. Bændum á Suðurlandi var heldur betur illa við seint í nótt og í morgun [11.september], þegar þeir vöknuðu upp við það að þurrkurinn var úr sögunni og komnar skúrir. Í gær hafði verið spáð góðu veðri á Suðurlandi og sofnuðu bændur í góðri trú í gær um áframhaldandi þurrk. Var unnið að því sleitulaust að bjarga heyi inn í hlöður, eða setja það upp, en víða á Suðurlandi alveg austur undir Eyjafjöll bleytti hey. Má búast við, að lítill eða enginn þurrkur verði heldur á morgun, og er þetta því mikið áfall fyrir bændur syðra. Samtímis því sem bændur drifu allt fólk út til að bjarga því sem bjargað varð, bölvuðu þeir Veðurstofunni í sand og ösku fyrir veðurspána í gær. En samkvæmt þeim upplýsingum, sem blaðið fékk hjá Veðurstofunni í dag, var ógerlegt að sjá þessi veðurskipti fyrir. Var blaðinu tjáð, að seint í gærkvöldi muni hafa myndast skúrasvæði á Grænlandshafi, og það síðan borist inn yfir landið í nótt og í dag. Úrkoman var misjafnlega mikil, en segja má að hún hafi verið nokkuð veruleg allt austur undir Eyjafjöll, a.m.k. það mikil að hey bleytti. Á Hellu t.d. rigndi 7 millimetra í dag, en annars staðar, svo sem á Eyrarbakka og á Hæli í Hreppum aðeins 1 millimetra. En Sunnlendingar voru ekki einir um rigninguna. Upp úr miðnætti kom skúrasvæðið fyrst inn yfir landið á Snæfellsnesi og einnig rigndi við Faxaflóa og á Reykjanesi hluta úr deginum. Þá rigndi nokkuð á vestanverðu Norðurlandi. Eimstaka staðir á landinu sluppu alveg við rigninguna, svo sem Austurland, Akureyri og a.m.k. mestur hluti Skaftafellssýslna. Var blaðinu tjáð, að ekki væri óvenjulegt að svona skúrasvæði mynduðust og væri ekki hægt að segja um slíkt fyrir. Engin merki voru um þessa veðurbreytingu i gær og því spáð góðu veðri eins og verið hefði, ef þessi óvænta skúr hefði ekki komið til sögunnar. En það er víst lítil huggun fyrir bændur, sem höfðu mikið af heyi liggjandi þegar rigningin hófst.
Tíminn rekur enn illt heyskapargengi í pistli 17. september:
KJ-Reykjavík, þriðjudag. Þetta er þriðja árið í röð, sem bændur í einhverjum landshlutum hafa skort hey á haustnóttum vegna illæris. Tvö undanfarin ár hefur heyskorturinn eingöngu orsakast af kali. Var hann mjög tilfinnanlegur hjá sumum bændum, jafnvel í heilum hreppum og sýslum, en þó mun fóðurskorturinn í ár verða í heild meiri og ná til fleiri bænda en tvö undanfarin ár". Þetta sagði Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri er hann talaði til bænda í gær vegna ásetningsins í haust. Búnaðarmálastjóri rakti í upphafi hvernig heyskapur hefur gengið í hinum ýmsu landshlutum og kom síðan að grasleysinu og um það sagði hann: Þetta mikla og óvenjulega grasleysi víða á óþurrkasvæðinu, þrátt fyrir tiltölulega hlýtt sumar, er öllum ráðgáta. Þrjár munu þó helstu ástæðurnar fyrir grasleysinu. Í fyrsta lagi gekk frost mjög djúpt í jörðu síðastliðinn vetur, vega þess hve snjólaust var og oft frostið hart langtímum saman og jarðvegur þiðnaði seint vegna þess að maí var kaldur, en eftir að kom fram í júní hélst jarðvegurinn vatnssósa og því kaldari en ella. Reynslan hefur sýnt að hin innfluttu túngrös, sem notuð hafa verið við túnræktina undanfarna áratugi, spretta ætíð hægt meðan klaki er í jörð en klaki hélst í mýrum viða um Suður- og Suðvesturland fram í ágúst, ef hann er þá með öllu horfinn enn. Önnur ástæða fyrir grasleysinu á túnum og líklegast sú veigamesta mun vera sú, að mikið af áburðinum sem borinn var á í júní mánuði mun hafa skolast burtu út i skurði og ár í úrhellisslagviðrunum, sem oft dundu yfir á þeim tíma, sem bændur urðu að bera á. Þriðja ástæðan fyrir grasleysinu var, að víða bar mikið á nýju kali í túnum sunnan- og vestanvert á landinu og þá ekki síst í gömlum, góðum hólatúnum, þar sem innlendur gróður var ríkjandi. Einnig dauðféll meirihlutinn af nýrækt síðastliðins árs. Hin hörðu frost fyrir og um sumarmálin á blauta jörðina. sem aðeins byrjaði að lifna við í hlýindunum um páskana, mun vera orsök þessa kals. Síðar í ávarpi sínu til bænda hvatti Halldór bændur til að vera vel á verði gagnvart hita í hlöðum og að nota þá hitamæla og járnstengur. Þá sagði hann: Röng veðurspá tvívegis í sumar hefur valdíð bændum ómetanlegu tjóni. Það var spáð þurrki eftir fyrsta laugardag í ágúst, en þá gerði úrhellisrigningu um nóttina, og sama sagan endurtók sig í síðustu viku."
Þann 23.september segir Tíminn frá grjótkasti úr hlíðum Múlafjalls í Hvalfirði:
IGÞReykjavík, mánudag. Á sunnudagskvöldið [21. september] munaði minnstu að grjótkast úr hlíð Múlafjalls i Hvalfirði yrði að stórslysi. Fernt var að koma í fólksvagni að norðan, þar sem það hafði verið í réttum. Hafði það ekið góðan spöl frá Botnsskála í átt til bæjarins, og var statt undir hlíð Múlafjalls, þegar einn bílstjórinn stöðvaði bílinn, en rétt í þvi skullu tveir stórir steinar niður á veginn fyrir framan hann. Lá við að þeir snertu stuðarann". Í sömu svifum kom annar steinn niður hlíðina og var hann þeirra stærstur þetta eitt til tvö tonn að þyngd. Stefndi hann á bílinn miðjan.
Þann 23. september gekk gríðarlegt illviðri yfir sunnanverða Skandinavíu og Danmörku. Þegar ritstjóri hungurdiska kom til Noregs tveimur árum síðar var enn verið að ræða veður þetta og afleiðingar þess. Mjög kröpp lægð fór til austurs yfir Suður-Noreg (og svo reyndar önnur fáeinum dögum síðar). Tíminn segir lauslega af illviðrinu 24. september.
Sextán manns munu hafa látið lífið í óveðrinu sem gekk yfir Suður-Svíþjóð, Norður-Danmörku og Kattegat í gær. Tala særðra er komin upp í nokkur hundruð og þó eru ekki öll kurl komin til grafar. Veðrið olli tugmilljóna króna tjóni. Miklar rafmagnstruflanir hafa orðið, samgöngur hafa farið úr skorðum og símasambandslaust er enn við mörg héruð. Talið er, að annað hvort hús á Skagen hafi skemmst af völdum stormsins, sem mældist þar tólf vindstig.
Í Tímanum 26.september er sagt frá störfum harðærisnefndar sem sett hafði verið á laggirnar:
KJ-Reykjavík. fimmtudag. Á vegum harðærisnefndar fer nú fram skipuleg gagnasöfnun á óþurrkasvæðunum, til þess að komast að raun um hve heyfengur bænda er mikill. Er þetta fyrsta skrefið til að fá heildaryfirsýn yfir hve heyfengurinn er mikill, og þá hvað sé hægt að gera til að létta undir með bændum í vetur, en með hverjum deginum sem líður verður ástandið í heyskaparmálunum á óþurrkasvæðunum óskaplegra.
Mánudaginn 29. varð aftur óvæntur atburður. Lægðin sem kom við sögu fannst þó á kortum og úrkomu var spáð. Kl. 10:10 daginn áður var spá fyrir Faxaflóa næsta sólarhring einfaldlega: Víðast léttskýjað. Kl.16:55: Víða lítilsháttar úrkoma þegar liður á nóttina. Kl.22:15: Úrkomulaust í nótt, en víða slydduél á morgun. Kl.01:00: Slyddu- eða snjóél í fyrramálið. Mun meira varð úr úrkomu við sunnanverðan Faxaflóa heldur en gert hafði verið ráð fyrir og það snjóaði. Þetta er mesta snjókoma sem vitað er um í septembermánuði í Reykjavík, skyggni fór niður í 100 metra kl.10 um morguninn og mikið snjóaði í 4 klukkustundir. Snjódýpt að morgni þriðjudagsins 30. september mældist 8 cm, það mesta sem vitað er um í september þar á bæ. Hiti í Reykjavík mældist 0,4 stig kl.15 (þann 29.) sá lægsti sem mælst hefur á þeim tíma sólarhrings í september frá að minnsta kosti 1949. Klukkan 12 var hitinn -0.9 stig sömuleiðis það lægsta á þeim tíma sólarhrings í september í Reykjavík. Þetta veður varð þó miklu vægara heldur en hríð sem gerði á landinu ári áður, en þá slapp Reykjavík að mestu.
Við sjáum vel á háloftakortinu hvað gerðist. Mjög kalt lægðardrag kom yfir landið úr vestri. Það er 5160 metra jafnþykktarlínan sem liggur þvert yfir landið, nægir í septembersnjókomu, sé úrkoma á annað borð.
Vísir segir frá hríðinni strax sama dag, þann 29.september:
Austan stórhríð skall yfir Reykjavík í morgun og var allþykkt snjólag á götunum um tíuleytið. Mikil hálka varð strax á götunum og urðu af því umferðartafir. Vetrarklæddir Reykvíkingar fengu snjókomuna í fangið, þegar þeir voru á leið til vinnu sinnar. Veturinn gerir óvenju snemma vart við sig hér í höfuðborginni og sömu söguna er að segja um Suðurnesin og suðurströndina þar sem snjóaði víða í morgun. Einnig snjóaði á stöku stað öðrum við vesturströndina. Snjókoman kom sunnan að, og snemma í morgun gekk á með snjókomu og þrumuveðri í Keflavík. Blaðið hafði samband við Veðurstofuna í morgun. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur sagði það mjög óvenjulegt að snjóaði í Reykjavík í austanátt eins og í morgun, einnig kvað hann það óvenjulegt að snjó festi svo snemma árs í Reykjavík. Sagði Páll snjókomuna og þrumuveðrin stafa af skörpum samskilum út af ströndinni. Miklu hlýrra er suðvestur af Reykjanesskaga, en á landi, en þar mældist 7 stiga hiti í morgun, en eins stigs frost mældist hins vegar í Reykjavík klukkan níu í morgun. Í Keflavík mældist þá 1 stigs hiti og hafði hlýnað. Bjóst Páll við að hann gengi yfir í suðvestanátt, þegar liði á daginn og hlýnaði og aftur myndi hann að líkindum breytast og þá í norðanátt, í nótt eða á morgun og þá kólna aftur.
Og Morgunblaðið daginn eftir, 30.september:
Mikla snjókomu gerði í Reykjavík um hálftíuleytið í gærmorgun og olli hún miklum töfum á umferð í Reykjavík. Alls urðu 24 árekstrar eftir að snjóa tók flestir fyrir hádegi. Þá urðu miklar tafir á áætlunum SVR, en snjókoman kom þeim sem öðrum í opna skjöldu. Á Hafnarfjarðarveginum urðu einnig miklar tafir af völdum hálku og lentu margir bílar út af veginum, en aðeins einn mun hafa orðið fyrir verulegu óhappi er hann lenti á staur. Í Reykjavík var einna mest úrkoma, 6 millimetrar og mældist snjóþykkt 8 cm. Svipað snjómagn féll í Vestmannaeyjum og á Loftsölum. Veðrinu olli lægð, sem myndaðist á sunnudag yfir Grænlandshafi og fór hún síðan með suðurströndinni áleiðis austur. Í Borgarfirði var úrkomulaust. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands er nú spáð norðanátt með frosti, en þó má búast við að hitastig komist upp fyrir frostmark um miðjan dag í dag.
En það snjóaði líka austanfjalla. Tíminn segir frá 1. október:
KJ-Reykjavík, þriðjudag. Það eru harðindi á Suðurlandi núna, og kýr á gjöf, sagði Hjalti Gestsson ráðunautur á Selfossi í dag, er fréttamaður Tímans hringdi í hann í dag, og innti frétta af heyskaparmálum og heykaupamálum þeirra sunnlendinga.
Það fennti töluvert af heyi flatt hjá bændum hér sunnanlands á mánudag, og snjóinn hefur ekki tekið upp ennþá. Versnaði því enn ástandið í heyskaparmálum hér, og það hefur kannski ýtt undir menn að fara í heykaup, sagði Hjalti. Það er dýrt að farga góðum nytjapening, og heykaupin eru aðeins til þess, að bændur þurfi minna að fækka bústofninum. Er ástandið jafn slæmt alls staðar á Suðurlandi? Nei, ekki vil ég segja það. Austast í Rangárvallasýslu mun það vera einna skást, og kemur þar tvennt til. Bændur þar náðu upp dálitlu af heyi í síðustu glýju, og svo er meiri heymiðlun þar í sýslunni. Þar hefur heysala nokkuð verið stunduð á síðustu árum, bæði af stórbúunum þar og eins af öðrum sem ekki eru með búpening. Mér er ekki kunnugt um, að neitt hey hafi verið keypt að inn í sýsluna. Í Árnessýslu mun ástandið vera einna verst í Ölfusi.
Október var heldur illviðrasamur. Ingibjörg í Síðumúla segir af tíðinni:
Mjög er slæmt á högum, jörðin þíð og mjög blaut undir, því einnig kalt fyrir fé að standa á, en þó að svo hagi til hér, að fé hafi komist sjálfkrafa heim, áttu menn sumstaðar í erfiðleikum með að koma fénu heim vegna ófærðar. Ég veit ekki annað en allflestir hér í sveit hafi náð inn heyjum, þó votviðri væru mikil, en í sumum öðrum sveitum eru hey úti enn og á einstaka bæ ekki allt í sætum.
Alldjúpar lægðir komu að landinu 2., 5. og 7. og ollu allar einhverju tjóni eða vandræðum. Morgunblaðið segir frá 3.október
Mikill veðurofsi gekk yfir landið í fyrrinótt og gær [2.október]. Fjárskaðar urðu í Mýrdal, þar sem tvö snjóflóð féllu, en ekki munu þó hafa orðið skemmdir af völdum þeirra. Rafmagnslaust varð í Mýrdal og símastaurar brotnuðu. Liggur símalínan niðri á löngum kafla og var því erfitt um fréttaöflun í gær. Þó er ljóst, að menn voru í allan gærdag að leita fjár, sem grafist hafði í skurðum og fönn. Vitað var um fimm kindur dauðar og höfðu tvær drukknað í læk. Þak fauk af hlöðu. Fé var aðframkomið og áttu bændur í miklum erfiðleikum með það. Ósmalað er á flestum afréttum. Fyrsta snjóinn setti niður í Mýrdal á mánudag. Í fyrrinótt skall veðurofsinn á og snjóaði mjög. Í gær rigndi síðan ofsalega, snjóflóð féllu á tveimur stöðum án skaða og þak fauk af hlöðu á Prestshúsum. Bændur grófu fé úr skurðum og fönn og var slælega mætt í sláturhúsið í gær morgun, þar eð bændurnir, sem þar vinna voru flestir við björgunarstörf. Lítið er þó komið í ljós um ástandið eystra, þar sem sambandsleysi var við Mýrdalinn vegna símabilana. Fimm dauðar kindur höfðu fundist. Tvær þeirra höfðu drukknað í læk og 20 ám var bjargað frá drukknun, en þær stóðu á vatnsbakka. Ósmalað er á flestum afréttum, nema Kerlingadals- og Höfðabrekkuafrétt. Þar hafði verið farið í fyrstu göngur. Það er því hvergi nærri ljóst, hve mikið tjón er af veðri þessu. Mesta veðurhæðin var þó ekki í Mýrdal. í Vestmannaeyjum var hvassast á milli kl. 03 og 06 og náði vindur 150 km hraða á klukkustund eða 81 hnút. Í gær um hádegi voru enn 11 vindstig í Eyjum og víða 10 vindstig, m.a. á Fagurhólsmýri og á Mýrum í Álftaveri. Í Vestmannaeyjum féll niður kennsla í skólum vegna veðurs.
Tíminn segir af sama veðri í pistli 3.október:
KJ-Reykjavík, fimmtudag. Í nótt gerði ofsaveður í Mýrdal og þar í kring, og hraktist fé í skurði og ár, þar sem það svo fennti. Hafa bændur eystra verið að draga fé úr fönn í dag, en á þessu stigi er ekki vitað um hve miklir fjárskaðar hafa orðið. Tíminn ræddi í dag við fólk á bæjum í Mýrdal og Reynishverfi og í kringum Vík. Sagði fólkið að um miðjan dag í gær hefði veður farið að versna þar eystra, og undir kvöld var komin blindhríð at austan, og stóð veðrið fram á dag. Ekki er búið að smala fé af fjalli þarna, en margt komið i heimahagana. Hefur féð, sem var komið í heimahagana hrakið undan veðrinu og í skurði og árfarvegi, þar sem það svo fennti. Á Giljum býr Ólafur Pétursson og var hann búinn að finna tvær ær dauðar í dag. H6fðu þær hrakist út í á og drepist, og á öðrum bæ höfðu fundist dauðar kindur í fönn. Tómas á Litluheiði sagði að þeir hefðu fundið átta kindur í fönn þar í dag, og hefðu allar verið lifandi. Sagði hann, að þetta væri óvenjulegt veður á þessum tíma þar eystra, og búast mætti við að fleira fé hefði fennt, en úr því yrði ekki skorið fyrr en á morgun. Hann sagði að ekki væri búið að smala fé af fjalli, en það sem hefði verið komið niður hefði líklegast farið verr út úr veðrinu. Kindurnar sem þeir á Litluheiði hefðu fundið, hefðu verið klakaðar. Þeir bændur sem ekki voru enn að leita að fé sínu í fönn í kvöld, voru í fjósverkum, og því erfitt að fá heildarmynd af ástandinu fyrir austan, en fólkið sem rætt var við sagði, að ekki hefði verið á bætandi ástandið frá í sumar, en erfið heyskapartíð hefur verið í Mýrdalnum. Mjög hvasst við við Skógaskóla, og sagði skólastjórinn þar að illstætt hefði verið þar í morgun fyrir unglinga, svo mikið hefði rokið verið.
Tíminn segir þann 4.október frá betra hljóði i bændum fyrir norðan þar er jafnvel talin einstök gæðatíð. Einnig segir blaðið enn meir af fjársköðunum í Mýrdal:
SB-Reykjavík, föstudag. Bændur á Norðurlandi hafa farið mun betur út úr sumrinu, en ýmsir aðrir. Sumarið var gott fyrir norðan, en stutt og nú eru kýr víðast komnar á gjöf. Dilkar eru misjafnir. Nú er víðast kalt fyrir norðan og snjór á túnum. Blaðið hafði samband við nokkra fréttaritara sína á norðanverðu landinu í dag og spurðist fyrir um, hvernig hljóðið væri í bændunum eftir sumarið. Kristján Sigurðsson, bóndi á Grímsstöðum, sagði að þar um slóðir væri stórfínt hljóð í bændum ,enda hefði sumarið verið alveg einstakt. Hér er snjóföl, en þetta er engin vetrartíð ennþá. Kýrnar eru þó komnar í fjós, það er heldur fyrr, en venjulega. Dilkar eru vænir og nóg er til af fóðri handa búpeningi, svo við kvíðum ekki vetrinum. Í Kelduhverfinu var hljóðið ekki alveg eins gott. Þórarinn Haraldsson í Laufási, sagði, að það væri leitt að geta ekki beitt kúnum á túnin, sem væru fagurgræn undir snjónum. Yfirleitt er þar búið að ná inn heyjum, sem eru góð og sennilega nógu mikil, ef eitthvað verður keypt af heyi inn í sýsluna, þá er það sáralítið. Búpeningi þar verður ef til vill eitthvað fækkað á sumum bæjum, em ekki til muna. Veðrið er leiðinlegt núna og spáin lofar akki góðu, jafnvel von á meiri snjó bráðlega, sagði Þórarinn að lokum. Þormóður Jónsson á Húsavík, kvað bændur þar í grenndinni hafa heyjað allvel í sumar og væru þeir bjartsýnir. Lítið hefur verið selt af heyi þar. Slátrun verður mjög nálægt áætlun, eða um 37 þúsund fjár, og eru sláturdilkar vænir. Þórarinn kvað ekki hafa verið neinn kulda undanfarið en þó hefði fryst lítillega. Valtýr Kristjánsson, oddviti í Nesi, sagði að þar sem sumarið hefði verið gott, væri hljóðið í bændunum það líka. Mikið hefði verið selt af heyi og væri enn verið að flytja það suður. Kýrnar eru komnar á gjöf, en verða ef til vill settar út aftur, ef tíðin batnar. Dilkarnir eru ennþá vænni en í fyrra og kartöfluuppskeran mun vænni, þar sem kuldakast í fyrrahaust, spillti mikið uppskerunni þá. Snjóinn hefur að mestu tekið af láglendi. Friðbjörn Zóphoníasson, bóndi á Hóli í Svarfaðardal var ekki ánægður með, hvað veturinn kom snemma. Hér eiga margir ennþá hey úti, en þó er heyfengurinn sennilega í meðallagi. Þeir fáu bændur í dalnum, sem aflögufærir eru með hey, hafa selt suður í Borgarfjörð og Árnessýslu, en ekki í stórum stíl. Kýr voru allar teknar á gjöf um daginn, þegar kuldakastið kom, og það er líklega mánuði fyrr, en í meðalári. Dilkar eru talsvert rýrari en í fyrra. ... Hér er ekki svo slæmt hljóð í bændum, sagði Sigurður Líndal á Lækjamóti í Víðidal. Heyskap er að verða lokið og heyin eru sæmileg að vöxtum, en léleg. Bændur verða ekki aflögufærir með hey, það má frekar búast við, að búpeningi verði fækkað um allt að 10% bæði sauðfé og nautgripum. Venjulega er heyskap lokið í byrjun september, svo þetta er á eftir áætlun. Sláturdilkar reynast í léttara lagi.
KJ-Reykjavík, föstudag. Enn er ekki útséð um hve miklir fjárskaðar hafa orðið í Mýrdalnum og nágrenni, þegar blindhríð skall þar á síðari hluta miðvikudagsins. Óttast bændur mjög, að féð hafi fennt á fjalli, en ekki er búið að smala afréttinn þar eystra enn. Sveinn bóndi á Reyni sagði Tímanum í dag, að reynt yrði að fara á fjall á sunnudaginn, en búist væri við erfiðleikum við að koma fénu fram, vegna snjóa. Sagði Sveinn að í dag hefðu menn verið að bjarga fé úr skurðum og ám, eftir því sem þeir hefðu getað. Hafa fundist dauðar kindur á mörgum bæjum, ekki margar á hverjum, en flestir bændur í Mýrdalnum munu hafa tapað einhverju fé í þessu ofsaveðri. Í Þórisholti fundust fimm kindur dauðar, og mun það vera það mesta á einum bæ. Margar kindur hafa fundist hálfdauðar, á kafi í krapi í skurðum, og reyna bændur að hlú sem best að skepnunum. Sumar árnar þarna eystra stífluðust algjörlega af krapi, og hafa menn ekki séð annað eins þar áður um þetta leyti árs.
Vísir segir þann 8.október frá illviðri daginn áður (þriðjudaginn 7.október):
Norðan stórhríð gekk yfir Norðvesturland í gær. Veðurofsinn varð mestur á Vestfjörðum og gerði þar víða usla. Brim var svo mikið í Bolungavík, að menn muna þar ekki annað eins. Gekk stöðugt yfir nýja hafnargarðinn og braut brimið framan af honum. Bátar voru þó óhultir í höfninni. Fjallvegir lokuðust á Vestfjörðum, Gemlufallsheiði og Þingmannaheiði. Þar sátu þrír bílar fastir í gær og braust lögreglan á Patreksfirði með veghefli upp á heiðina fólkinu til hjálpar. Bílar sátu víðar fastir. Ýmislegt lauslegt fór á stjá í hvassviðrinu. Járngrindarskemma, sem var í byggingu í Hvammi á Barðaströnd lagðist saman í óveðrinu Nýsteyptir gaflar hennar létu undan veðurofsanum. Rafmagnslínur í Önundarfirði slitnuðu og var um tíma rafmagnslaust á Flateyri. Mikil ókyrrð var þar í höfninni, trillur nudduðust saman, ein þeirra sökk og aðrar rak á land. Fjárhúsþak tók af í heilu lagi á bænum Hvilft og víðar losnaði um járn á húsum. Talsverðri fönn kyngdi niður á Vestfjörðum, svo að þar var ekki minni snjór.en hér á Suðurlandi nú á dögunum. Norðanlands var slydda og hríð sums staðar. Alls staðar landlega, en ekki er vitað til að neinir skaðar hafi orðið á bátum á sjó. Og enn er spáð norðan og áframhaldandi kuldatíð, svo að veturinn virðist vera kominn, þótt ýmsir séu enn að bíða eftir sumrinu.
Og daginn eftir, 9.október, segir Vísir af örlögum hafnargarðs í Grímsey. Þetta mál var mikið í umræðu um tíma:
Fjörutíu og fimm metra langur skjólgarður sem byggður var í höfninni í Grímsey í sumar hvarf gjörsamlega upp að landsteinum í stórbrimi í gær. Þetta var búið að vera draumur okkar í mörg ár, sagði Bjarni Magnússon í Grímsey, þegar Vísir ræddi við hann í morgun, en það fór þá svona, að hann hvarf í fyrsta haustbriminu. Búið er að vinna við garðinn og aðrar hafnarframkvæmdir í allt sumar, frá 9. júní til 20. september. Það var almannarómur hér í Grímsey að garðurinn myndi ekki standa lengi eins og hann var byggður. Starfsmönnum Hafnarmálaskrifstofunnar var sagt þetta strax í vor. Við vildum fá að breyta þessu svolítið. Í þennan garð átti að setja stórt grjót, en það fékkst ekki hér og samt var haldið áfram við þetta. Garðurinn varð 45 metrar, en upphaflega átti hann að verða 90 metrar. Helgi Jónsson, verkfræðingur hjá Vita- og hafnarmálastjóra, sagði í viðtali við Vísi í morgun, að garðurinn hefði orðið svo miklu minni vegna aðstæðna í Grímsey og í staðinn hefði verið byggt traustari vörn við innri garðinn, svokallaða og sú framkvæmd kæmi að fullu gagni. Gagnvart mér var ekki hreyft neinum mótmælum, vegna þessara framkvæmda, sagði Helgi, þótt það hafi ef til vill verið gert gagnvart öðrum aðilum.
Tíminn greinir 21.október frá jöklamælingum:
EJReykjavík, mánudag. Haustið 1968 voru lengdarbreytingar jökuljaðra á landinu mældar á 42 stöðum. Hafði jökuljaðar gengið fram á 8 stöðum, haldist óbreyttur á 7 stöðum en hopað á 27 stöðum. Niðurstaðan er því ámóta og undanfarin ár: Í heild halda jöklar enn áfram að hopa", segir í skýrslu Sigurjóns Rists vatnamælingarmanns í nýútkomnu eintaki Jökuls", sem er ársrit Jöklarannsóknarfélags Íslands.
Laugardagskvöldið 25. október gerði mikið þrumuveður í Borgarfirði. Þá brann íbúðarhús í Brúsholti í Flókadal. Tíminn segir frá þessu í frétt 28. október:
SB-Reykjavík, mánudag. Þrumuveður með eldingum, geisaði í Borgarfirðinum á laugardagskvöld og sunnudagsnótt. Rafmagnslaust varð í Lundareykjadal og Flókadal sökum veðurofsans. Eldingu laust niður í símalími og er talið að hún hafi valdið íkviknun í íbúðarhúsinu að Brúsholti í Flókadal, sem skemmdist mikið af eldi um nóttina. Auk þess klauf eldingin fjóra símastaura og nokkur símatæki eyðilögðust. Unnið hefur verið að viðgerðum í dag. Á laugardagskvö1dið var veðrið mjög slæmt í Borgarfirði. Gekk á með vestanrokum og hagléli. Um miðnætti heyrði heimilisfólkið í Brúsholti mikinn hávaða, eins og brysti í húsinu og skömmu síðar varð það vart við reykjarlykt. Ekki náðist samband við nstu bæi því síminn var sambandslaus. Bóndinn í Brúsholti, Sigurður Arnlaugsson, fór til Varmalækjar, en þar er símstöð og lét þaðan kalla í slökkvilið Borgarfjarðardala, sem hefur aðsetur í Reykholti. Vilhjálmur Einarsson, skólastjóri í Reykholti er einn slökkviliðsmanna, sem fóru á staðinn og hafði blaðið samband við hann í dag. Við vorum komnir á staðinn um klukkan 1:30, sagði Vilhjálmur, og var þá eldurinn kominn víða í þekju hússins, undir járninu. Aðstæður við slökkvistarfið voru mjög slæmar og versta veður. Gekk á með miklum vindkviðum en lægði á milli og frysti og annað slagið komu svo feykileg haglél. Slökkvistarfinu var lokið á sjötta tímanum, en þá var þak hússins og efri hæð gjörónýt, og neðri hæðin mikið skemmd af reyk og vatni. Vilhjálmur, sagði, að ekki væri hægt að fullyrða, að kviknað hefði í húsinu út frá eldingunni, en hún hefði getað orsakað skammhlaup í háspennulínu. Íbúðarhúsið að Brúsholti, er hlaðið úr vikursteini, ein hæð með steyptri plötu og allhátt ris, en þar í voru fjögur herbergi og skilrúm öll úr tré. Húsið er um tíu ára gamalt. Fólkið var allt flutt að Múlastöðum, sem er næsti bær. Þegar Sigurður bóndi var að reyna að bjarga búshlutum úr eldinum, veiktist hann af reykeitrun og missti meðvitund, en var búinn að ná sér í dag. ... Símalínan milli Brúsholts og Steðja, liggur yfir dálitla hæð og þar mun eldingunni hafa slegið niður. Símtækið á Steðja eyðilagðist við höggið. Blaðið náði tali af Ársæli Magnússyni, símaverkfræðingi og sagði hann, að fjórir símastaurar milli þessara bæja hefðu brotnað, eldingin hefði klofið þá sundur, Yfirleitt eru eldingavarar á línunum, sagði Ársæll, en þeir duga skammt þegar höggið er svona mikið. Búið er að skipta um þrjú símatæki, en grunur leikur á, að fleiri hafi skemmst við þetta.
Vísir segir þann 27.október af foktjóni í Vestmannaeyjum í sama veðri, laugardaginn 25.:
Þak fauk í heilu lagi af húsinu númer 71 við Vestmannabraut í Vestmannaeyjum, en þar komst veðurofsinn upp í 1415 vindstig í verstu hryðjunum á laugardaginn. Brugðið var skjótt við og í gær voru flestir smiðir í bænum komnir á stúfana við að gera við og gera þak á húsið aftur. Skemmdir urðu einnig á mótauppslætti hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, þar sem verið var að slá upp viðbót við frystiklefa. Stokkseyrarbúar urðu að færa báta sína út á leguna á laugardaginn, þar sem brimið var svo mikið og braut stöðugt á bryggjunni. Svo illa tókst til þegar flytja átti vélbátinn Bjarna Ólafsson frá bryggjunni að landfestarnar lentu í skrúfunni og rak bátinn stjórnlaust upp í skerjagarðinn. Áhöfn bátsins var um borð en gat ekkert aðhafst, Það var gæfa þeirra að bátinn rak upp í hreinan sand og slapp við klappirnar allt í kring, þannig að þeim var engin hætta búin, en báturinn liggur nú óskemmdur í sandinum og bíður þess að menn frá Björgun h.f. í Reykjavík dragi hann út á flóði í dag. Bjarni Ólafsson er 35 lesta bátur, einn af fjórum bátum, sem Hraðfrystihús Stokkseyrar og hreppsfélagið eiga í sameiningu. Trillubátur slitnaði upp i Eyrarbakkahöfn á laugardaginn og skemmdist hann mikið, þegar hann lamdist við bryggjuna, en aðrar skemmdir urðu ekki á bátum þar í höfninni.
Morgunblaðið birti líka fregnir af sama illviðri í pistli þann 28.október:
Mikið hvassviðri á suðvestan gerði við Suðurland á laugardag með foráttubrimi og sjógangi. Skemmdir urðu víða á bátum og í Vestmannaeyjum fauk þak af íbúðarhúsi og skemmdir urðu á uppslætti að nýrri álmu Vinnslustöðvarinnar. Fréttaritari Morgunblaðsins á Eyrarbakka símaði að þar hefði verið foráttubrim undanfarna daga, enda stórstreymt og hásjávað. Á laugardag vildi það til að lítil trilla, sem lá við gamla bryggju nokkru austan við núverandi höfn á Eyrarbakka, fleygðist upp á bryggjuna og brotnaði og sökk. Þrír bátar, sem lágu í höfninni, tveir heimabátar og einn frá Stokkseyri, voru í skjóli af hafnargarðinum og ekki í neinni hættu. Aðrar skemmdir urðu ekki á Eyrarbakka. Einn Eyrarbakkabátur er tilbúinn að róa með línu strax og gefur og tveir bátar, sem voru á leið heim úr viðgerð urðu að leita hafnar í Þorlákshöfn og bíða þess nú að veður lægi og þeir komist til Eyrarbakka og síðan á veiðar. Í Vestmannaeyjum hefur sjósókn legið að mestu niðri undanfarið vegna tíðarfarsins. Þeir bátar, sem úti voru leituðu hafnar á laugardag er tók að hvessa en tveir komu ekki fyrr en á sunnudag og höfðu legið af sér veðrið austur í bugtum. Þak fauk af gömlu íbúðarhúsi í Vestmannaeyjum en um 10 smiðir á staðnum brugðu skjótt við og gerðu við það á laugardag og sunnudag svo að það varð íbúðarhæft á ný. Þá fauk um koll krani skammt frá áhaldahúsi bæjarins og uppsláttur að nýrri álmu hjá Vinnslustöðinni skemmdist, og féll einn veggurinn alveg inn. Tvær trillur löskuðust lítillega í höfninni. Flug til Vestmannaeyja féll niður yfir helgina, en í gær var flogið á ný.
Tíminn segir enn af heyskorti í frétt þann 29.október:
KJReykjavík, þriðjudag. Ljóst er nú orðið að vegna hinna miklu óþurrka í sumar og sprettuleysis vantar um þrjú til fjögur hundruð þúsund hesta af heyi, miðað við meðalheyfeng, eða 1012 þúsund kýrfóður. Vantar með öðrum orðum hey handa fjórðungi af nautgripastofni landsmanna. Mest er vöntunin á Suðurlandi ... Það er fljótlegra að telja upp þau svæði á landinu, sem vel eru sett með hey, en þau eru aðallega þrjú: Aðalbúskaparsvðið í Eyjafirði, Þingeyjarsýslurnar báðar og Fljótsdalshérað. Í öllum öðrum hlutum landsins er meiri og minni töðubrestur og þó nokkrir bændur hafa aðeins náð um fimmtung af meðalheyfeng.
Nóvember var kaldur og óhagstæður og gerði m.a. mikla snjóflóðahrinu. Verst var veðrið í kringum þann 10.
Kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 10. Mikið lægðasvæði er fyrir suðaustan land og hæð yfir Grænlandi. Norðaustanillviðri gengur yfir allt landið.
Háloftakortið sýnir þetta einnig. Vindur er ekki mjög stríður í 500 hPa hæð, en mikill þykktarbratti (hitamunur) yfir landinu bætir í vind í neðri hluta veðrahvolfs.
Tíminn segir frá þriðjudaginn 11.nóvember:
FB-Reykjavík, mánudag. Mikið óveður hefur gengið yfir landið norðvestanvert. Á Ísafirði hafa fallið snjóflóð, sem sópað hafa með sér húsum og vélum, og á einum stað 200 hænsnum. Á Norðfirði hafa skemmdir aðallega orðið á sjónvarpsloftnetum. Þá fauk þak af hlöðu á Skagaströnd og brim á Ólafsfirði braut hlið úr saltgeymslu, og urðu af því miklar skemmdir. Þar eyðilagðist einnig bátur. Blaðið hafði samband við fréttaritara sína á ýmsum stöðum, og alls staðar var mikil ófærð og veðurofsi. Samkvæmt upplýsingum Ólafs Tómassonar verkfræðings Landsímans, hafa orðið miklar skemmdir á símalínum. Sagði hann í viðtali við blaðið: Óhemjubilanir hafa orðið á símalínum á sunnanverðum Austfjörðum og á Vestfjörðum nú um helgina í óveðrinu, sem gengið hefur yfir, og er ekki enn fullljóst, hversu mikið hefur raunverulega skemmst. Sambandslaust hefur verið milli Hafnar í Hornafirði og Reyðarfjarðar. Eru línurnar þar raunverulega bilaðar á mörgum stöðum. Mikið er bilað i Lóninu og hjá Breiðdalsvík, en víða hefur verið gert við til bráðabirgða. Enn er þó aðeins komið á samband milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Á morgun er von á að samband komist á milli Reyðarfjarðar og Stöðvarfjarðar og einnig milli Hafnar og Djúpavogs. Bilað er milli Egilsstaða og Vopnafjarðar, en samband komið milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Á Vestfjörðum er sambandslaust milli Ísafjarðar og Brúar í gegnum Hólmavík, bilanir eru hjá Súðavík og Ögri og á Stikuhálsi. Sambandslaust er milli Hólmavikur og Finnbogastaða vegna bilana á Trékyllisheiði. Snjókoman, og ekki síður ísingin hefur orsakað þessar miklu bilanir. Mikill fjöldi manna er úti við viðgerðir, en í nokkrum tilfellum hefur þó orðið frá að hverfa vegna veðurs.
Stórhríð hefur verið á Ísafirði frá því á laugardag, og kominn miklu meiri snjór heldur en nokkru sinni í fyrravetur. Í gær og nótt féllu snjóflóð úr Eyrarfjalli, allt að húsinu Engi og inn fyrir Stekkjanes. Tveir sumarbústaðir sópuðust af grunnum sínum í snjóflóðunum. Eigendur bústaðanna eru Guðbjörg Bárðardóttir og Kristján Pálsson. Bústaðirnir eru báðir taldir gjörónýtir, enda liggja þeir mölbrotnir í hlíðinni. Snjóflóðið féll niður fyrir Seljalandsveg og lenti á húsi trésmíðaverkstæðis Steiniðjunnar. Var þetta hlaðið steinhús. Í því var mikið af efni, bæði unnu og óunnu. Fyrir utan húsið stóðu tveir bílar og sömuleiðis ný hrærivél. Allt eyðilagðist þetta meira og minna, og er tjón Steiniðjunnar hundruð þúsunda króna. Töluverðar rafmagnstruflanir urðu einnig á Ísafirði í gærkvöldi og í snjóflóðinu brotnuðu þrír háspennulínustaurar til Mjólkárvirkjunar. Mjög þungfært er nú um götur á Ísafirði.
Þá féll snjóskriða úr Eyrafjalli við Flateyri. Var skriðan um 300 metrar á breidd og féll hún í sjó fram. Á leiðinni lenti hún á hænsnahúsi og drap um 200 hænsni. Á Skagaströnd hefur verið aftakaveður með köflum nú um helgina. Byrjaði að hvessa upp úr hádegi í gær, og varð veðurofsinn mestur upp úr miðnætti. Giska menn á, að þá hafi vindhraðinn komist upp í 11 til 12 vindstig. Nokkrar skemmdir urðu á Skagaströnd. Þar fauk þak af hlöðu og mörg sjónvarpsloftnet fuku niður, og eru þau mikið brotin og skemmd. Snjór er ekki mjög mikill en hálka því meiri og ís yfir öllu. Norðaustan stórhríð hefur verið á Ólafsfirði. Byrjaði hún í fyrradag, og stóð allan gærdaginn með aftakabrimi. Muna menn ekki annað eins brim frá því 1961. A flóðinu í gærmorgun var brimið svo mikið að aðalhafnargarðurinn, norðurgarðurinn, hvarf í brimið og var í kafi. Engar skemmdir hafa þó orðið ú bátum í höfninni, og hafnarmannvirkin virðast vera óskemmd, eftir því sem séð verður. Aftur á móti hafa nokkrar skemmdir orðið á Kleifum. Þar brotnaði árabátur, sem var settur upp undir bakka ofan við bryggjuna og lá við að trillubátur færi sömu leið, en mönnum tókst að koma böndum á hann á síðustu stundu. Þá braut brimið hlið úr stóru salthúsi, sem stóð þar upp undir bökkunum. Er húsið eign Sigurðar Baldvinssonar útgerðarmanns. Eyðilagðist í því salt og ýmislegt fleira, er þar var geymt. Í þessu húsi voru einnig geymdir þrír árabátar, en þeir sluppu óskemmdir. Nokkuð hafði dregið úr briminu í kvöld, og storminn var að lægja. Múlavegur hefur verið tepptur frá því á föstudagsmorgun, og verður sennilega ekki opnaður fyrr en styttir upp. Búið er að vera aftakaveður á Hofsósi, með snjókomu. Ekki hafa orðið slys á mönnum, né skemmdir orðíð, nema hvað sjónvarpsloftnet hafa brotnað niður. Færðin er frekar erfið, en fært er enn milli Hofsóss og Sauðárkróks stórum bílum og fært er út í Haganesvík, en ófært þar fyrir utan. Mikil snjókoma hefur verið á Akureyri og illfært er um götur. Mjólkurbílar komust þó til Akureyrar í morgun, og þar er næg mjólk. Á Húsavík hefur veður einnig verið slæmt um helgina, en er þó að batna.
Morgunblaðið 11.nóvember af sama veðri:
Hinrik Ólafsson, fréttaritari Morgunblaðsins í Ólafsvik hefur þetta um veðrið að segja: Hér í Ólafsvík hefur verið vonskuveður af norðaustan og með verri veðrum, sem hér koma í þessari átt. Frostlaust hefur verið fram að þessu og snjókoma lítil. Þó er alhvítt yfir allt og mikil hálka á götum hér í kauptúninu, og nokkur hálka á vegum í nágrenninu. Í þessum veðurham, sem náði hámarki í gær, sunnudag, brotnaði skarð, 5 til 6 metra langt hér í skjólvegg norðurgarðsins, sem er brimbrjótur til skjóls fyrir innri höfnina, þar sem bátar eru hafðir. Tréklæðning er innan á brimbrjótnum til breikkunar á garðinum. ... Tréklæðningin var endurnýjuð í fyrrasumar, eftir að hin eldri hafði brotnað í norðaustan veðri um veturinn. Ekki hefur fullnaðarathugun farið fram á skemmdunum ennþá, þar sem illært hefur verið niður á garðinn vegna sjóa, sem geragið hafa yfir hann. Hins vegar urðu bátar ekki fyrir neinum skemmdum. ... Þess má geta að mjög hásjávað heftur verið í flóðum samfara þessum veðurham. Skemmdir urðu á vatnsleiðslu kauptúnsins, þar sem hún liggur nægt sjó í Ólafsbraut. Hafði sjór grafið undan leiðslunni á kafla, og urðu truflanir á neysluvatni í gær og í dag meðan viðgerð fór fram. Rafmagnstruflanir hafa ekki orðið hér í Ólafsvík í veðri þessu, en um miðjan dag í gær varð rafmagnslaust í Grundarfirði, og komst ratmagn ekki á þar aftur fyrr em um miðjan dag í dag. Höfðu Grundfirðingar þá verið rafmagnslausir yfir sólarhring: ...
Flateyri, 10. nóvember. Mikið snjóflóð féll hér í morgun um 10 leytið úr svokallaðri Skollahvilft í Eyrarfjalli, rétt við bæinn Sólbakka, sem er inn við Flateyri. Flóðið var um 350 metra breitt, og féll í sjó fram, og til marks um hve mikið það var, þá komst töluverð ólga í sjóinn, er flóðið skall í hann. Útjaðar flóðsins skall á hænsnahúsi, sem er í Sólbakkalandi, en svo einkennilega vildi til að flóðið reif húsið ekki með sér, heldur fór í gegnum það. Í hænsnahúsinu voru um 250 hænsn, og í dag hefur verið unnið að því að bjarga hænsnunum, og talið að um 150 þeirra hafi náðist lifandi. Segja má, að flóðið hafi fallið á heppilegasta stað, eða þar sem engin íbúðarhús eru. Á hinn bóginn eru aðeins um 100 metrar í næsta íbúðarhús. Flóðið féll yfir veginn., sem liggur inn í þorpið,og má teljast mesta mildi, að engin umferð var á veginum þegar snjóflóðið féll. ...
Siglufirði 11. nóvember. Undanfarna daga hefur verið hér norðaustan garður. Hefur Siglufjörður verið lokaður inni, og ófært héðan, en nú er verið að ryðja. Snjóskriða féll úr fjallinu ofan við bæinn, en staðnæmdist ofan við byggðina. Þessi skriða féll á sama stað og skriðan sem lenti á íbúðarhúsinu við Suðurgötu 76 fyrir tveimur árum, og olli miklu tjóni. Í þetta sinn stöðvaðist snjóflóðið 2030 m fyrir ofan húsið. Í sumar var gerð fjárheld girðing um bæjarlandið. Er gert ráð fyrir að girðingin hafi dregið svo úr snjóskriðunni að hún stöðvaðist þetta ofarlega.
Og enn eru fregnir af illviðrinu í Tímanum þann 13.nóvember:
GPV-Trékyllisvík, miðvikudag. Hér var afspyrnurok frá því á föstudag og þar til í gær, að loksins fór að lægja. Þegar menn fóru að líta í kring um sig eftir veðrið varð vart við, að talsvert af selskópum hafði skolast á land og lágu þeir ósjálfbjarga hér um allar fjörur. Útselir kæpa hér á skerjunum og eru þetta haustkópar, sem urðu svona illa úti. Ekkert er hægt að gera við kópana, nema stytta þeim aldur, því að þeir geta enga björg sér veitt, þegar svona er komið og það er bara miskunnarverk að drepa þá. Það er aðallega á bæjunum við Ófeigsfjörðinn, sem vitað er um þetta og þar hafa menn farið niður í fjörurnar. Ég veit til þess, að Kristinn á Seljanesi er búinn að drepa sextán kópa og í Munaðarnesi voru teknir fjórir.
Tíminn segir enn af heyi þann 14.nóvember:
Það er nú komið fram á vetur, og frostið víða 10 stig, og ennþá eru heysæti úti á túnum á Suðurlandi og sums staðar búið að taka fé á gjöf vegna snjóalaga.
Undir mánaðamót fór allmikil lægð til norðausturs milli Vestfjarða og Grænlands. Veðrið sem henni fylgdi olli nokkru tjóni: Morgunblaðið 2. desember:
Flateyri, 1. desember. Mikið hvassviðri af norðvestan gerði hér í gær [30. nóvember] og varð i veðurhæðin mest um 2-1eytið gærdag. Jeppabifreið, sem var að koma úr Dýrafirði til Önundarfjarðar fauk út af veginum við bæinn Vífilsmýrar. Fór jeppinn tvær veltur og hafnaði inni á túni og kom þar á hjólunum niður í snjóskafl. Tveir menn voru í bílnum og sluppu þeir smávegis skrámaðir. Þeir komust heim að bænum, en nokkru síðar er þeir fóru að huga að jeppanum hafði vindurinn feykt honum á hliðina, og hefur þurft mikið afl.
Desember var fremur mildur, einkum síðari hlutinn.
Tíminn greinir þann 2.desember frá hafísspá Páls Bergþórssonar. Hún tókst nokkuð vel að þessu sinni, sem og árið áður.
TKReykjavík, mánudag. Í viðtali við Tímann í dag sagði Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, að samkvæmt athugunum þeim, sem hann hafi gert á reynslunni af hafís á undanförnum áratugum, telji hann líklegast, að hafísár það, sem nú sé að hefjast, verði hið fjórða mesta síðan um 1920. Spár þessar byggir Páll á þeim bendingum, sem hitinn á Jan Mayen í júní til nóvember gefur um sjávarhita út af Norðaustur-Grænlandi. Á síðasta sumri var óvenju hlýtt á Jan Mayen vegna langvarandi sunnanáttar. Þau hlýindi sem þó aðeins hafa yljað efsta lag sjávarins norður undan, því að með haustinu kólnaði ört, og nóvember varð hinn kaldasti á Jan Mayen síðan mælingar hófust þar 1921. Í spám Páls er magn hafíssins táknað með því, hve marga daga íssins verður vart einhvers staðar við ströndina. Að sjálfsögðu eru erfiðleikar í siglingum ekki eins langvinnir. Í vetur, vor og sumar telur Páll líklegast, að íss verði samtals vart við ströndina í 13 mánuði. Helmingur þess ístíma verður sennilega í apríl og maí, 13 vikur í hvorum mánuði. í öðrum mánuðum ætti ísinn oftast að verða minni, en þó kemur líklega nokkuð að landi nú þegar í desember. Meiri ís en nú er búist við hefur aðeins verið þrjú ár síðan um 1920, árin 1965, 1968 og 1969. Á því hafísári, sem liðið er, október 1968 september 1969, varð ístíminn samtals nærri fimm mánuðir, en samkvæmt hitanum á Jan Mayen hafði mátt búast við 36 mánuðum. Þótt spáin færi svo nærri að þessu sinni, telur Páll ólíklegt annað en hún bregðist að meira eða minna leyti að minnsta kosti á nokkurra ára fresti.
Nokkuð ófærðarkast gerði fyrir miðjan mánuð. Þá bárust einnig fréttir af hafís nærri landi.
Morgunblaðið segir frá 10. og 11. desember:
[10.] Nær stanslaus éljagangur var í Reykjavík síðdegis í gær og urðu víða miklar umferðartafir vegna slæms skyggnis og tafa af völdum árekstra. Var lögreglunni tilkynnt um 26 árekstra frá kl. 13 og fram á kvöld, en enginn þeirra var það alvarlegur að slys yrðu á mönnum. Reykjavíkurflugvöllur lokaðist um tíma og urðu tafir á flugferðum og einnig féllu ferðir niður sökum þess að flugvellir úti á landi voru lokaðir.
[11.] Hríðarveður með snjókomu gekk yfir vestanvert landið í fyrrinótt og gærmorgun, en lægði síðdegis í gær. Þá hafði veðrið færst til Norðausturlands. Allmiklar umferðartafir urðu vegna þessa veðurs, þung færð var á götum Reykjavíkur og kennsla var felld niður í sumum skólum borgarinnar í gær af þessum sökum.
Smávegis íshrafl var sjáanlegt úr Galtarvita í gær, er Morgunblaðið hafði samband við Óskar Aðalstein, vitavörð og skáld, og spurðist frétta af hafís. Sagðist Óskar Aðalsteinn aðeins sjá minni háttar ísrastir og virtist sér ísinn gisinn. Tíðarfar kvað Óskar Aðalsteinn hafa verið erfitt þar vestra að undanförnu. Veður fór hins vegar batnandi síðdegis í gær og var að létta til. Frost var þá tólf stig.
Tíminn segir af hafís 13.desember:
OÓ-Reykjavík, föstudag. Frá Hornbjargsvita var hvítt að sjá á sjó svo langt sem séð varð í morgun. Var ísinn landfastur og áttu skip í erfiðleikum með að komast fyrir Horn. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, sagði í kvöld, að hann áliti að þetta væri ís, sem flækst hefði frá meginísnum í norðanáttinni undanfarið, og að meginísinn væri enn norðar og vestar. Ætti því að vera möguleiki á, fyrir skip, sem sigla fyrir Horn, að sigla utar og komast fyrir ísinn, sem liggur við land. Sagði Páll að ekki væri undarlegt þótt ísinn ræki að landinu þegar áttin væri eins og undanfarna sólarhringa. Ekki hefur enn orðið vart við landfastan ís nema við Vestfirði. Norður af Melrakkasléttu er ísinn nokkuð langt norður í hafi.
Aðfaranótt 14. desember snjóaði mikið í Reykjavík. Djúp lægð kom upp að Suðurlandi.
Klukkan 9 var lægðin rétt vestan við Vestmannaeyjar. Mikil snjókoma (100 metra skyggni) er í Reykjavík og hiti við frostmark, en á Þingvöllum er 3 stiga hiti og 4 stiga hiti á Síðumúla í Borgarfirði. Snjódýpt mældist 30 cm í Reykjavík, hafði aukist úr 12 cm daginn áður, og daginn eftir var hún komin niður í 17 cm, enda hlánaði síðdegis. Þann 18. var snjórinn allur horfinn.
Vísir segir af snjókomunni í pistli þann 15.desember:
Eftir mikla snjókomu í fyrrinótt fyllti allar götur Reykjavíkur af snjó og máttu bifreiðaeigendur moka bíla sína út úr bílastæðunum, þegar þeir hugðu til hreyfingar á sunnudagsmorgun. Mesti jafnfallinn snjór um árabil mældist í Reykjavík í gærmorgun. Snjólagið mældist 3035 cm, en tll samanburðar mældist mest um 40 cm af jafnföllnum snjó í janúar 1957, en 48 cm í febrúar 1952, sem er það mesta frá þvf að mælingar hófust 1925. Milt var i veðri og varð mikið krap á götum. Snjólagið fór hraðminnkandi, eftir því sem leið á daginn, Klukkan 16 var snjólagið komið niður í 23 cm. Hitinn komst yfir frostmark í gær og í morgun klukkan níu var 3 stiga hiti í Reykjavik, en 5 stiga hiti á Akureyri og á Egilsstöðum. Í dag er búist við kólnandi veðri í Reykjavík. Aðfaranótt laugardagsins og á laugardaginn gerði stórrigningu á Suðausturlandi og mældist mesta sólarhringsúrkoman 62 mm á Klaustri.
Afgang mánaðarins var nokkuð breytilegt veður, umhleypingar og úrkoma. En var samt stórtíðindalítið. Alhvítt var um jól í Reykjavík, en snjódýpt ekki nema 2 cm.
Morgunblaðið gerir þann 30.desember upp trjávöxt og segir af góðri færð:
Sumarið sem nú er liðið hefur verið eitt hið besta fyrir trjágróðurinn í fjölda ára. Kemur þetta fram í samtali sem Morgunblaðið átti við Hákon Bjarnason nú fyrir skömmu, en þar segir hann: Trjágróðurinn hefur hvar vetna vaxið ágætlega í sumar. Allar plöntur komu vel undan vetri, og vorið reyndist áfallalaust, þó að nokkuð seint voraði norðanlands og austan, svo að ekki sé talað um Hérað. En svona sumar hefur ekki komið á Norðausturlandi í mörg ár, eða allt frá 1963 og sunnar í landinu hefur trjávöxtur einnig verið með ágætum. Vætusöm tíð hefur ekki skaðvænleg áhrif á vöxt trjáa, svo fremi að hlýtt er í veðri. Sá er einmitt munurinn á þessu sumri og t.d. sumrinu 1965, að þetta hefur verið mjög hlýtt.
Færð á landinu má kallast óvenju góð miðað við árstíma, þar sem tiltölulega fáir vegir eru lokaðir. Aftur á móti er hálka víða mjög mikil og vegir því vafasamir. Skemmdir sem urðu vegna vatns á vegum á Rangárvöllum og undir Eyjafjöllum hafa verið lagfærðar.
Morgunblaðið hafði í lok mánaðarins samband við nokkrar fréttaritarar og birti þann 31.desember. Við veljum úr:
Þúfum, Norður-Ísafjarðarsýslu. Hér hefur veður verið ágætt, og er mjög snjólítið og lítið frost. Fé er allt á húsi, en hagar eru ágætir og er fénu hleypt út. Þykir þetta mjög góð veðrátta á jólaföstunni. Er því ekkert upp á náttúruna eða skaparann að klaga hvað tíðarfar snertir. Hér áttu menn góð jól. Var messufært og fólk gat heimsótt hvert annað. Páll
Grímsstöðum á Fjöllum. Hér var prýðilegt jólaveður og er enn. Ekki er mikill snjór, en heldur svellað. Hefur í vetur verið ágæt tíð. Benedikt.
Fljótsdalshéraði. Haglaust er nú um allt Hérað og hefi ég hvergi hitt neina, sem hafa beitt á jörð. Hér gerði krapahríð á rigningu og snjóaði svo ofan á allt saman. En fjallvegir eru allir færir. Fjarðarheiðin vax rudd í gær og er nú fær jeppum. Hákon.
Hér lýkur að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1969. Að venju má finna talnafjöld í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 19
- Sl. sólarhring: 421
- Sl. viku: 2381
- Frá upphafi: 2410683
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 2097
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.