25.9.2022 | 23:14
Hugsað til ársins 1964
Árið 1964 var lengst af mjög hagstætt, sumarið þó dauft. Janúar var nokkuð umhleypingasamur, en tíð var talin mjög góð til landsins. Lengst af var snjólaust í byggð og allir vegir færir, sem að sumri. Grænum lit sló á tún sunnanlands. Hlýtt. Í febrúar var með eindæmum góð tíð að undanteknum fyrstu fimm dögunum, milt og lengst af hægviðrasamt. Vegir voru færir, jörð víða þíð, og farið var að grænka. Hlýtt. Mars var einnig einmuna mildur og góður. Jörð grænkaði og tré og blóm sprungu út. Gæftir góðar. Mjög hlýtt. Tíð var áfram hagstætt í apríl, en þó gerði nokkur minniháttar hret og gróðri fór því hægt fram. Fyrrihluti maí var kaldur, en en hlý og hagstæð tíð síðari hlutann. Gróðri fór vel fram og sauðburður gekk vel. Kalt og þurrt var fyrri hluta júní, en síðan hlýnaði og gróðri fór vel fram.
Í júlí var tíð talin óhagstæð á Suður- og Vesturlandi, en hagstæð norðaustanlands. Ágúst var sæmilega hagstæður framan af en síðan var tíð mjög köld og óhagstæð. Fjallvegir urðu þungfærir og jafnvel ófærir með köflum norðanlands, og fé fennti á stöku stað. Sunnanlands féll kartöflugras í frostum og hvassviðri. Góður þurrkur var um sunnanvert landið, og náðist hey inn, en nýting var víða slæm. September var betri, tíð talin góð, en köld og úrkomulítil. Heyfengur var mikill, en uppskera úr görðum misjöfn og kartöfluuppskera brást syðra sökum næturfrosta í ágúst og september. Færð á fjallvegum norðanlands og á Vestfjörðum spilltist með köflum vegna fannkomu. Í október var tíð hagstæð en nokkuð var rysjótt vestanlands. Nóvember var einnig hagstæður, einkum fyrri hlutinn. Desember talinn óhagstæður, óstöðugur og lengst af var kalt. Talsverð snjóþyngsli þegar á leið.
Þetta var þriðja heila árið sem ritstjóri hungurdiska fylgdist náið með veðri. Hann var svona að byrja að átta sig á árstíðasveiflunni, það hlýnar á vorin og kólnar á haustin. En var veðrið þetta ár, 1964, eðlilegt eða ekki? Veturinn 1963 til 1964 var afskaplega snjóléttur, en kannski voru allir vetur það í Borgarnesi? Sumarið var heldur kalt, en sennilega eru engin sumur hlý á Íslandi. Við rennum í gegnum helstu veðuratburði ársins með aðstoð gagnagrunns Veðurstofunnar, tímaritsins Veðráttunnar og dagblaða (timarit.is). Við styttum marga blaðapistlanna og færum stafsetningu til nútímahorfs víðast hvar. Vonandi særir það enga höfundarrétthafa - en við þökkum þeim. Í viðhengi pistilsins má finna mikinn talnafróðleik - fyrir þá sem kunna að hafa áhuga á slíku.
Árið byrjaði með látum í Borgarnesi, Tíminn segir frá 3. janúar. Svo vill til að ritstjórinn leit út um glugga og sá þetta gerast - forvitinn, en hissa.
Eftir hádegi á nýársdag var mjög hvasst á suðaustan í Borgarnesi og gekk á með snörpum vindhviðum. Í einni snörpustu hviðunni tók flestallar þakplötur af Hótel Borgarness. Bárujárnsplöturnar fóru margar hátt á loft, yfir næstu hús og dreifðust síðan yfir götur, trjágarða. og hús, sem eru norðvestur af hótelinu. Mesta mildi má heita, að ekki hlaust slys af, þegar þeim rigndi niður, en fólk mun yfirleitt ekki hafa verið á ferli úti við um þetta leyti. Næsta hús við hótelið, hús Árna Björnssonar kaupmanns, fékk á sig mikið plöturegn. Brotnaði þar stór stofugluggi og stórskemmdist innbú í stofunni þar sem gler og spýtnabrot skáru húsgögn og málverk.
Plöturnar sem fuku af hótelinu voru víst 250. Þennan sama dag flæddi sjór yfir bryggjur í Keflavík og skemmdust nokkrir bátar. Bátur skemmdist í Höfnum. Maður meiddist er skemma fauk á Læk í Holtum. Allmikil hvassviðri gengu næstu tíu daga. Þann 5. fauk þak af nýbyggðu trésmíðaverkstæði í Ólafsvík og bifreið með 17 manns fauk út af veginum á Fróðárheiði, fáeinir meiddust. Þ.6. brotnuðu rúður í húsi í hvassviðri í Bolungarvík og þann 11. rak vélbáta rak á land á Ísafirði og breskur togari laskaðist þar. Vélbátur brotnaði á Hvallátrum á Breiðafirði.
Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik í janúar 1964. Vikin eru meiri en 80 metrar yfir Íslandi, loftið meira en 4 stigum hlýrra en að meðaltali. Af jafnhæðarlínunum (heildregnar) má sjá að sunnanátt hefur verið ríkjandi - og hæðarsveigja er á línunum. Þrátt fyrir þetta var veðurlag talsvert tilbreytingarríkt. Fyrri hluta mánaðarins voru hvassviðri af suðaustri, suðri og suðvestri alltíð. Í þeim varð minniháttar foktjón víða um land sem við sleppum því að tíunda í smáatriðum og eins og venjulega voru stöðug vandræði í höfnum landsins - þær voru margar slæmar og illa búnar á þessum árum.
Ekki hafði ritstjóri hungurdiska heyrt á glitský minnst fyrr en þarna - en vissi ekki hvers konar var fyrr en hann sá þau sjálfur þremur árum síðar. Tíminn 7.janúar:
Norðlendingar og austlendingar urðu margir aðnjótandi sjaldgæfrar og fagurrar sjónar í dag. Veðurstofunni bárust fregnir samtímis frá Akureyri, Egilsstöðum og Reyðarfirði um, að ákaflega falleg ský með miklum litbrigðum sæjust þaðan, eins og þau svifu yfir Vatnajökli. Voru þau fegurst og litauðugust rétt eftir sólsetur. Þessi ský sagði Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, að hétu glitský, en sumir nefndu þau perlumóðurský, því að litbrigðin væru líkt og í perlumóðurskeljum. Glitský sigla mjög hátt, 2030 kílómetra yfir sjó, og eru afar sjaldgæf sjón, bæði hér og annars staðar. Ekki munu þau þó boða neitt sérstakt.
Tíminn segir af þrumuveðri í pistli 8.janúar:
Reykjavík, 7. janúar. Á tíunda tímanum í morgun voru miklar eldingar og þrumur hér í Reykjavík og nágrenni. Samkvæmt upplýsingum veðurfræðinga er slíkt veður venjulegt á þessum tíma árs, eins og blaðið skýrði frá fyrir skömmu. Aftur á móti mun heldur meira hafa verið um eldingar síðustu dagana en í venjulegu árferði. Í allan dag voru skúrir sunnanlands og vestan og allt austur í Skagafjörð á Norðurlandi, en þar fyrir austan var léttskýjað. Yfirleitt voru ein 9 vindstig, en í Reykjavík komst vindhraðinn upp í 9 vindstig. Búist var við svipuðu veðri í kvöld og nótt, en ef til vill heldur meiri rokum annað slagið.
Tíminn heldur áfram með eldingafréttir þann 9.janúar:
FB-Reykjavík. 8. janúar. Í gær gekk óskaplegt þrumuveður yfir Suðurland, eins og blaðið hefur skýrt frá. Eldingum laust niður í símastaura og símalínur bráðnuðu niður. Þá laust elding niður í rafmagnslínu á einum stað og fór rafmagnið af öllum bæjum í Grímsnesi, Laugardal, Biskupstungum, Hrunamannahreppi, Gnúpverjahreppi og á Skeiðunum. Þrumuveðrið hófst um klukkan hálf ellefu í gærmorgun og náði það hámarki um klukkan 11. Á næsta klukkutíma töldu menn 12 skruggur og fylgdi þeim mikill hávaði og ljósagangur. Eldingu laust niður í símalínu við Stekkholt í Biskupstungum og brotnuðu þar 4 símastaurar og símalínan bráðnaði niður. Einn staurinn var því líkastur, sem hefði hann farið í gegnum sögunarvél, svo var hann sundurklofinn frá toppi niður í rót, að sögn Garðars í Aratungu. Rafmagnið var aftur komið á um klukkan 4 í gær, en í Biskupstungum kom það um klukkan 1 í nótt. Þegar stærstu eldingunni laust niður gerðist það í Austurhlíð í Biskupstungum, að hvert einasta öryggi í húsinu og hver pera sprakk, og þar hefur verið rafmagnslaust síðan, því viðgerðarmenn hafa ekki getað komið þangað enn. Börn voru að leik í þvottahúsinu á bænum; og stóðu i þau í nánd við þvottavélarrofa sem þau segja eð blossað hafi út úr, og segjast því hafa fengið eins og raflost, þegar þetta gerðist. Um leið og eldingunni laust niður rifnaði símainntakið í Austurhlíð út úr steinsteyptan vegg. Engan sakaði á bænum í þessum ólátum. Á Dalsmynni í Biskupstungum stóð frúin á heimilinu fyrir framan eldavél, þegar einni eldingunni laust niður. Blossaði þá út úr vélinni. en konuna sakaði ekki. Garðar símstóðvarstjóri í Aratungu sagði okkur, að hann hefði verið við símaborðið, þegar óveðrið for yfir, og eitt skiptið logaði út úr borðinu og allar bjöllur hringdu. Ekki sagði hann að borðið myndi hafa skemmst, en fjórir bæir eru ,símasambandslausir vegna bilunarinnar á símalínunni og vegna þess að tækin á bæjunum sjálfum skemmdust. Upp úr klukkan 12 fór að draga úr þrumunum, og skall þá á mikið él. Að sögn búendanna á Hlíðabæjunum í Biskupstungum, þar sem óveðrið var hvað mest, muna þeir ekki annað eins þrumuveður og þetta.
Árið 1963 hafði orðið meiriháttar framhlaup í Brúarjökli og síðan líka í Síðujökli. Segja fróðir menn að fram til þess tíma hefði hugtakið framhlaupsjökull vart verið til á bók, en varð alþekkt upp úr þessu. Nokkur ruglingur skapaðist með orðið jökulhlaup - nú á dögum á slíkt nær eingöngu við vatnsflóð sem tengist jökli á einhvern hátt, en á þessum tíma var jöklaframhlaup oftlega líka kallað jökulhlaup, við skulum lesa eldri texta með þetta í huga.
Tíminn segir af jöklum 9.janúar:
SÁÞ-VÍK, & janúar. Eftirlitsmenn urðu þess varir í byrjun desember, að Sólheimajökull var hlaupinn um hundrað metra niður i gilinu, þar sem Jökulsá á Sólheimasandi rennur undan honum. Jafnframt hafði hann hækkað töluvert að framan við þessa hreyfingu. Ekki er vitað hvenr jökullinn hefur hlaupið, enda hafði enginn orðið var við þetta fyrir en I þessari eftirleit. Einn eftirlitsmanna, Erlingur Ísleifsson, Sólheimum, hefur tjáð blaðinu að meira hafi verið í Jökulsá í kuldunum í nóvember heldur en venjulega. Gæti það að vísu bent til þess að jökullinn hefði hlaupið á þeim tíma, þótt ekkert verði um það sagt. Erlingur mun hafa í hyggju að huga frekar að jöklinum þegar færi gefst.
Enn segir Tíminn af jöklum þann 15.janúar:
Allar líkur benda nú til þess, að þriðji jökullinn sé hlaupinn á þessum vetri, Síðujökull. Bændur í Fljótsdalshverfi urðu fyrir skömmu varir við það, að þrjár ár í hverfinu, Hverfisfljót, Brunná og Djúpá voru kolmórauðar að lit og gruggugar, en það kemur annars ekki fyrir á þessum tíma árs.
Í Tímanum 15.janúar eru tvær fréttir frá Seyðisfirði. Sú fyrri kemur á óvart, í öllum hlýindunum - og einnig segir að oft komi fyrir að fjörðinn leggi. Varla heyrir ritstjóri hungurdiska á slíkt minnst nú á dögum.
Seyðisfjörður er nú lagður eina 8 km. frá kaupstaðmun, eða allt út að Hánefsstaðaeyrum. Undanfarið hafa verið miklar stillur á Seyðisfirði og frostið verið 35 stig, en í slíku veðri leggur fjörðinn oft. ísinn er þó ekki mannheldur. Einn bátur mun róa frá Seyðisfirði í vetur er það Auðbjörg, sem er um 11 lestir. Hún ætlaði í róður í gærkvöldi, en komst ekki vegna íssins en i róðrinum á undan hafði hún farið út klædd járnplötum til þess að verja sig fyrir ísnum. Ísinn nær alla leið út að Hárefsstaðaeyrum sem eru um 78 km frá Seyðisfjarðarkaupstað. Sjórinn er þarna ekki mjög saltur, þar eð fjórar ár renna í fjörðinn, Fjarðará, Vestdalsá, Kollsstaðaá og Sörlastaðaá, og kemur því oft fyrir að fjörðinn leggur. Ekki er ísinn mannheldur, en í dag var enn 4 stiga frost, svo hann hefur heldur styrkst.
IH-Seyðisfirð., 14. janúar: Fjarðarheiði er fær öllum bílum, og þykir það merkilegt, því slíkt og annað eins hefur ekki gerst í fjölda mörg ár. Venjulega er heiðin ófær frá því í nóvember ug fram í júní, en í vetur hafa jafnvel fólksbílar getað ekið um heiðina greiðlega.
Aurbleyta var mjög til baga á þessum árum, og nú einnig að vetrarlagi: Tíminn 23.janúar:
KJReykjavík 22 janúar. Bílstjórar, sem fara Mosfellssveitarveginn, hafa undanfarið kvartað sáran undan ófærð á veginum, og mest í dag. Blaðið hafði tal af bílstjóra á stórum bíl frá Kaupfélagi Borgfirðinga, og sagði hann að vegurinn í Mosfellssveitinni væri versti kaflinn á leiðinni á milli Reykjavíkur og Borgarness. Bílstjórinn sagði, að vegurinn væri að vísu allur þungur og blautur yfirferðar, en holurnar væru hvergi eins slæmar og hérna rétt við höfuðborgina. Þarna væri mikil umferð þungra bifreiða og vegurinn fljótur að vaðast upp, ef tíðarfarið væri eins og núna undanfarið. Um daginn, er frostið var hefði vegurinn verið eins og hefluð fjöl, en svo, þegar tók að hlána, óðst þarna allt út.
Þann 23. fauk járn af þökum á Reyðarfirði og þ.26. slitnaði bátur upp í Þorlákshöfn og eyðilagðist.
Seint í janúar voru hlýindin farin að valda ákveðnum áhyggjum, en þá kom nokkurra daga hlé á þeim. En fyrst frétt úr Tímanum 26.janúar:
Enn halda þessi fádæma janúarhlýindi áfram. Tveir dagar eru liðnir af þorra, og grasið heldur áfram að spretta í skjóli. Að vísu kom örstutt kuldakast um daginn en það hafði engin áhrif. Haldi þessu áfram enn um sinn, er trjágróðurinn í mikilli hættu. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, sagði blaðinu skömmu fyrir hádegi, að hitinn væri viðast rétt um frostmark fyrir norðan og snjómugga vestan til á Norðurlandi og norðan til á Austurlandi. Á Akureyri var eins stigs hiti, en frost á Hólsfjöllum. Aftur á móti fer stöðugt hlýnandi sunnan lands, var hitinn orðinn 7 stig á Reykjanesi um kl. 11. Er búist við, að einnig fari hlýnandi norðanlands næstu daga. Páll kvaðst halda, að enn væri dálítið frost í jörðu, þrátt fyrir hlýindin, a.m.k. fyrir norðan, enda var nóvember sérstaklega kaldur. Desember var aftur á móti mildur, og síðan um áramót hafa verið einstök hlýindi. Nýlega kom þó örstutt kuldakast, sem stóð um hálfan sólarhring, en það mun ekki hafa haft nein áhrif á gróður. Garðar eru grænir, og gras sprettur alls staðar á láglendi sunnan lands með sjó. Trjágróður er enn ekki í hættu, en áður en langt um líður getur farið að koma brum á trén.
Svo gerði hafís vart við sig. Reyndar í minna magni en árið áður og auðvitað miklu, miklu minna en árið eftir. Tíminn 28. segir frá þann janúar:
GS-Ísafirði, 27. janúar. Mikil brögð hafa verið að því að undanförnu, að bátar hafa misst lóðir sínar undir ís hér úti á miðunum. ísinn færist mikið úr stað, og er oft kominn yfir lóðirnar eftir 34 tíma, þótt þær hafi verið lagðar, þar sem hvergi sér í ís. Um ísinn er það að segja að hann hefur verið óvenju nálægt landi það sem af er vetrarins. Oft hefur hann verið á 27 mílna svæðinu og svo út á 3540 mílna svæðinu, og fer það nokkuð eftir straumum og vindátt. Ísinn er mjög óstöðugur og mikið á reki, og oft hefur það komið fyrir að þótt bátarnir leggi lóðir sínar og hvergi sjái í ís, þá er hann kominn yfir lóðirnar eftir 34 tíma.
Síðan kólnaði eftirminnilega. Ritstjóranum sérlega minnisstætt. Meira að segja gerði kafsnjó í Borgarnesi, þann mesta sem hann man frá unglingsárunum þar. Hér má nota tækifærið og benda á pistil sem Ásgeir Sigurðsson (stud mag) skrifaði í tímaritið Veðrið 2. tölublað 1964: Hinn hlýi vetur 1963-1964 og baksvið hans. Í þeirri grein sá ritstjóri hungurdiska minnst á þykkt í veðurfræðilegu samhengi í fyrsta sinn - og sömuleiðis var bylgjugangur vestanvindabeltisins sýndur á skiljanlegri hátt en ritstjórinn hafði þá áður séð. Bestu þakkir Ásgeir.
Kuldapollurinn mikli, (sem við höfum stundum leyft okkur að kalla Stóra-Bola) var öflugur þennan vetur, en af einhverjum torskildum ástæðum gekk honum afskaplega illa að nálgast landið - nema þessa fáu daga. Önnur tilraun var gerð upp úr 20. mars, en rann algjörlega út í sandinn - og vekur hálfgerða furðu.
Kortið sýnir stöðuna 3. febrúar, dæmigerð fyrir mánaðamótin. Mjög kalt loft leikur um Ísland og skilyrði góð til fannkomu á Vesturlandi eftir mjög kalda daga. Við lítum á fáeinar fréttir.
Tíminn segir frá 1.febrúar:
FB-Reykjavík, 31. janúar. Mikið frost var um allt land í nótt og í dag. Frostið komst í 28 stig klukkan 8 í morgun á Möðrudal og 24 á Grímsstöðum, og á sama tíma var 14 stiga frost á Sauðárkróki, Egilsstöðum og Síðumúla í Borgarfirði. Kaldast varð í gærkvöldi í Reykjavík 10 stiga frost. Alls staðar fyrir norðan var frostið 10 stig eða meira í nótt, en um áttaleytið í morgun var það aðeins orðið 4 stig hér í Reykjavík og klukkan 5 í dag var kominn 1 stigs hiti. Þá var kaldast á Staðarhóli í Aðaldal 15 stiga frost. Vindur var á austan og norðaustan um allt land. Á Fagurhólsmýri og Mýrum í Álftaveri voru 11 vindstig og snjókoma, og mesta foraðsveður kl. 5, en farið að draga úr frostinu bæði þar og annars staðar sunnan lands.
Tíminn 4.febrúar. KJ-Reykjavík, 3. febrúar. Fyrsti snjórinn á þessum vetri kom fyrir alvöru á laugardagskvöldið [1. febrúar] hér í Reykjavík og nágrenni. Töluvert umferðaröngþveiti varð aðfaranótt sunnudags og eins fyrripart dagsins í dag. Um hádegið í dag [mánudag 3.] myndaðist mjög erfiður hnútur á Reykjanesbrautinni, báðum megin í Öskjuhlíðinni, og höfðu sex strætisvagnar og einn sjúkrabíll stöðvast, áður en greiddist úr bílaflækjunni. Á laugardagskvöldið fór að snjóa hér í Reykjavík, og gekk á með éljum fram á nóttina Nokkrir erfiðleikar voru hjá fólki að fá bíla, er það kom út af samkomustöðum bæjarins. Leigubilstjórar margir hverjir höfðu hætt akstri, og þeir sem þó óku voru seinir í ferðum. ... Margir litlir bílar urðu fastir í snjósköflum á götunum þá um nóttina og mátti sjá marga þeirra nærri kaffennta á sunnudagsmorgun. Einkum skeði þetta á Hringbrautinni á bersvæði. þar sem skóf inn á vélarnar og gerði þær ógangfærar. Stöfuðu tafirnar mest frá því, að hirðulausir bílstjórar keðju- og snjódekkjalausir ætluðu bifreiðum sínum of mikið og sátu fastir og stoppuðu alla umferð. Er blaðamaður átti leið þar um laust eftir hádegi, voru margir bílar þar spólandi fram og aftur, og einn vörubíll sem hafði ætlað yfir eyjuna á milli akbrautanna komst hvorki afturábak né áfram því hann var keðjulaus og eyjan fyllti út á milli fram og afturhjólanna. Undir kvöldið í gær var svo umferðin komin í eðlilegt horf, og ruðningar víða með fram götunum, eftir veghefla og ýtur.
Þá var þung færð í Hrútafirði. Milli Húsavíkur og Akureyrar komust stórir bílar í dag, en Vaðlaheiði var lokuð. Fært var fyrir flesta bíla austur yfir fjall og um Suðurlandið, en Reykjanesbrautin var nokkuð erfið yfirferðar í morgun, og var unnið að því í allan dag að hreinsa hana. Þá var Vegamálaskrifstofan að senda bíla upp í Mosfellssveit til þess að ryðja snjó af veginum þar. Í kvöld var kominn norðvestan hríðargarður á Norðurlandi og talsvert frost, þar var einnig allhvasst, t.d. voru 9 vindstig í Grímsey. Sunnanlands var norðanátt og henni fylgdi bjartviðri. Austur í Skaftafellssýslum var einnig hvassast, og þar var skafrenningur. Á Vestfjörðum var norðanátt og snjókoma og um 4 leytið í dag sagði fréttaritari blaðsins, að iðulaus stórhríð væri í Bolungarvík, og að snjóað hefði þar annað slagið frá því á laugardag.
FB-Reykjavík, 3. febrúar. Síðari hluta dags í dag var kominn norðvestan hríðargarður á Norðurlandi og talsvert mikið frost á Möðrudal og Grímsstöðum á Fjöllum. Færð er sæmileg sunnanlands, en segja má, að allar helstu leiðir norðan lands og vestan séu ófærar. Að sögn Vegamálaskrifstofunnar var færð heldur leiðinleg um allt land í dag. Brattabrekka var lokuð, Holtavörðuheiði, Vatnsskarð og Öxnadalsheiði ófærar, þungfært um Norðurárdal og niður Borgarfjörð og vestur á Mýrar.
Meira að segja varð óhapp af völdum snjóflóðs: Tíminn 6.febrúar:
Á 11. tímanum í gærkvöldi lenti snjóflóð á vörubil, sem var á leið til Kópaskers. Bíllinn var staddur í Auðbjargarstaðabrekku þegar snjóflóðið lenti aftan á bílnum, lagði hann á hliðina og ýtti honum út af veginum, en síðan rann hann eina 80100 metra niður brekkuna, þar sem hann stöðvaðist á barði, sem stóð upp úr snjónum. Þrír menn voru í bílnum og sluppu þeir allir ómeiddir.
En hið ótrúlega gerðist. Það hlýnaði strax aftur. Minnisstætt er að hafa heyrt úr fjarska kennara í Miðskóla Borgarness segja: Borgarnesveðrið er komið aftur - í suðaustanslagviðrisrigningu þann 5. febrúar. Ákveðin vonbrigði - þannig var sumsé framtíðin öll - maður hlaut að trúa því að kennarar nefndu hlutina réttum nöfnum. Þann 5. og 6. urðu miklir vatnavextir í leysingum. Ár flæddu víða yfir bakka sína og ollu vegarskemmdum, m.a. í Skagafirði, Eyjafirði, Árnessýslu og Skaftafellssýslum. Flóð í Ölfusá bar íshröngl á vegi í Arnarbælishverfi og varð ófært. Vatn flæddi í kjallara nokkurra húsa í Bolungarvík.
Enn voru stöðugar fréttir af hlýindum:
IH-Seyðisfirði 11. febrúar. Það hefur gerst hér, sem aldrei hefur gerst fyrr á þessum árstíma að fært er yfir Fjarðarheiði og upp á Hérað. Hefur það aldrei komið fyrir síðan vegurinn var lagður, að fært hafi verið um hann öllum bílum á þorra. Bílar fara daglega upp á Hérað, jafnt fólksbílar sem aðrir, og þurfa þeir ekki einu sinni að nota keðjur. Í nóvember snjóaði hér allmikið, en síðan hefur verið stöðug einmuna tíð. og eins og á sumardegi.
Tíminn 15.febrúar
Nú er búin að vera stöðug sunnanátt um allt land síðustu 10 dagana, og veðurfræðingar sjá ekki fyrir neina breytingu á veðrinu í spám sínum fyrir næstu sólarhringa. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir allan gróður því víða eru tún tekin að grænka, og hér í Reykjavík eru allir grasblettir að verða eins og væri á vordegi. Klukkan 17 í dag var sunnanátt um allt land. Fyrir norðan var þurrt og gott veður, en þokuloft á Suðausturlandi. Vestanlands var rigning.
Hér má sá veðurkort úr Morgunblaðinu 15.febrúar (gildir þann 14.). Veðurfræðingurinn (líklega Jón Eyþórsson) segir að það sé svipað því sem gengur og gerist að sumrinu. Það er alveg satt. Sérlegt góðviðri á þorra og góu minnir ritstjóra hungurdiska ætíð á þennan vetur. Dögum sem þessum bregður fyrir - og þeir koma einstöku sinnum nokkra daga í röð eða vikutíma, en aldrei síðan jafnmargir og jafnlengi. Síðast gerðist þetta í febrúar 2021 - þá birtust á hungurdiskum hugleiðingar sem hér má vísa í.
Þeð eru háloftahæðir einsog sú á kortinu hér að ofan sem skapa þessi vetrargóðviðri. Nægilega stekrar til að flækjast verulega fyrir vestanhringrásinni, en nægilega veikar til að valda ekki vandræðum og hættu sjálfar (eins og verð árið eftir).
Og blíðan hélt áfram í mars. Kortið sýnir meðalhæð, meðalþykkt og þykktarvik í mars 1964. Enn er eindregin sunnanátt, en við sjáum líka afl Stóra-Bola - enn öflugri en að meðallagi. Hann lét Ísland þó nær alveg í friði allan mánuðinn. Litlar fréttir voru af veðri en hlaup varð í Skaftá og síðan varð óvenjuleg jarðskjálftahrina við Ísafjarðardjúp. Af henni birtust allítarlegar fréttir í blöðum, t.d. í Tímanum 15. og 17.mars. Við vísum hér á timarit.is. Í beinu framhaldi bárust fréttir af hræringum á bænum Saurum á Skaga - varð að hinu einkennilegasta máli (en hafði ekkert með jarðhræringar að gera).
Skaftárhlaup varð í mars, Tíminn segir af því þann 6.:
HF-Reykjavík, 5. mars. Mikið hlaup er komið í Skaftá í Vestur-Skaftafellssýslu. Frá því í gærkvöldi til klukkan fjögur í dag hafði hún hækkað um tvo metra. Megn brennisteinsfýla fylgir hlaupinu og er áin orðin kolmórauð að lit.
Þann 13. mars fuku þakplötur af húsum í Reykjavík og Hafnarfirði. Hrikti í þaki Hótel Borgarness - var þar staddur í efri sal þetta kvöld, en man hins vegar ekki hvert tilefnið var.
Apríl varð kaldari á landsvísu heldur en mars, en samt var varla hægt að tala um veruleg hret. Norðaustannæðingar undir lok mánaðar og framan af maí sitja þó í minni ritstjórans. Þann 10. apríl brotnuðu rafmagnsstaurar í hvassviðri í Breiðuvík. Næðinganna um mánaðamóti var lítillega getið í fréttum:
Morgunblaðið segir frá 7.maí:
Kalsaveður um sauðburð. Mykjunesi, Holtum, 6. maí. Hér hefur verið hvassviðri og sandrok síðustu daga. Ofsarok var s.l. mánudag svo að valda var stætt. Því fylgdi sandburður, sem kemur af Rangárvöllum og úr ofanverðri Landsveit. Komi ekki rigning bráðlega stöðvar þetta gróðurvöxt, annars getur þetta orðið til gróðurauka. Sandrok voru algeng fyrir um 30 árum, en í seinni tíð þekkjast þau varla.
Bergþórshvoli, 6. maí. Hér hefur verið þurraþræsingur að undanförnu. Fé fer að bera um miðjan mánuð og er það vel fram gengið. ... Eggert.
Eyjafirði, 6. maí. Sauðburður er að hefjast hér í Eyjafirði. Gróður er hægfara vegna kulda síðustu daga, en tún eru þó að byrja að grænka. Kindur gera sér gott af úthaga, séu þær á hann settar, en yfirleitt eru túnastærðir hér í Eyjafirði það miklar að lítt gerist þess þörf. Fé er gefið en það þiggur aðeins gott hey. Víkingur.
Dalvík, 6. maí. Hér er norðan og norðaustan kalsaveður og hefur svo verið frá mánaðamótum, enda skip legið heima frá þeim tíma.
En aftur skipti til bráðlega aftur til blíðu.
Tíminn segir 31.maí:
Góðviðrið heldur stöðugt áfram, og á hádegi í dag var meðalhiti maí orðinn 7,9 stig, sem er heilu stigi hærra en í meðalári. Alls staðar má sjá áhrifin af þessu góðæri. Einstaka menn eru farnir að slá tún sín, 24 vikum fyrr en venjulega, vegir eru alls staðar að verða komnir í lag eftir veturinn, flug hefur verið mun öruggara en oft áður, og á vetrarvertíðinni í vetur voru gæftir einmuna góðar, sérstaklega þegar líða tók á veturinn.
Sumarið varð afskaplega blandað. Sæmilegir kaflar komu þó í flestum landshlutum, en það gerði líka eftirminnileg kuldaköst. Víða var þurrt framan af og gróðri fór ekki fram eins og við hafði verið búist. Síðan brá til rigninga - og greip rigningasumarskvíði um sig um stund. En þó rættist allvel úr á Suður- og Vesturlandi. Þeir sem gátu heyjað snemma nyrðra sluppu einnig sæmilega, en síðari hluti ágústmánaðar var erfiður á þeim slóðum.
Tíminn segir af mistri 14.júní:
Að undanförnu hefur mátt sjá mikið mistur í suður og austur frá Reykjavík, svo Reykjavíkurfjöllin" Keilir, Vífilsfell, Bláfjöllin og Langahlíðin hafa horfið sjónum Reykvíkinga, enda þótt verður væri gott. Margar skýringar eru á þessu mistri, og þær helstar að hér sé um að ræða kola- og verksmiðjureyk frá meginlandinu og Englandi, hitamóðu frá suðlægari stöðum, og síðast en ekki síst sandrok austan af söndum í Skaftafells- og Rangárvallasýslum eða ofan af hálendinu. Nú mun aftur á móti líklega séð fyrir endann á þessu mistri, því eflir þrjár vikur kom í dag loks stöðug rigning hér á Suðvesturlandi og mun hún að öllum líkindum ná austur í Vík. Veðurfræðingar segja að móðan sé afleiðing þurrkanna, er verið hafa langvarandi að undanförnu og austanáttarinnar er ríkt hefur. Hér sé sem sagt komið alíslenskt sandrok austan af söndum og einnig mun það koma af uppblásturssvæðunum á afréttum Árnessýslu að því er gróðurfræðingar segja. Austan af söndunum kemur þetta mistur í austanáttinni, fylgir suðurströndinni allri, en berst svo í nágrenni Reykjavíkur með suðvestanáttinni utan af hafinu fyrir sunnan Reykjanes. Sandrokið berst ekki inn til landsins, og þannig getur verið gott skyggni upp í Hreppum, þótt það sé lélegt í sjávarþorpunum í Árnessýslu, Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn. Þá kemur sandrokið líka frá upprekstrarlöndum Árnessýslu og berst það yfir Hengilinn og yfir Mosfellsheiðina. Flugmenn sem fljúga yfir þetta svæði segja að stundum hverfi heilu fjöllin í sandmökkinn og er þá ekki að furða, þótt eitthvað af honum berist hingað suður þegar áttin stendur þannig. Blaðið hafði samband við Pál Sveinsson sandgræðslustjóra austur í Gunnarsholti. Páll sagði að vegna þessara stöðugu þurrka stæði allur gróður í stað þar eystra og það væri eins og hann gæti ekki rignt, af hvaða átt sem hann væri. Páll sagði að þurrkarnir og rokið, þegar það hefur verið færu illa með uppblástursvæðin. Mesta uppblásturssvæði hér sunnanlands er Haukadalsheiðin og Úthlíðarhraunið í Biskupstungum, og þar hefur áreiðanlega rokið að undanförnu sagði Páll. Rigningin sem kom í dag er sú eina sem komið hefur hér suðvestanlands í þrjár vikur, og verður áreiðanlega kærkomin þar sem hún kemur. Líkur benda til að hún muni ná allt austur í Vík.
Töluvert hefur dregið úr grassprettu sunnan og vestanlands síðasta hálfan mánuðinn vegna óvenjumikilla þurrka. Sömu sögu er að segja um Norðaustur- og Austurland, en þar hafa kuldar hamlað sprettu. Fyrir hálfum mánuði var búist við, að sláttur yrði almennt hafinn um þetta leyti, en þurrkarnir og kuldinn hafa komið í veg fyrir það.
Tíminn segir 23.júní frá mikilli rigningu sunnan til á Vestfjörðum:
B-Reykjavík, 22. júní. Óhemju rigning hefur verið síðasta sólarhringinn á Barðaströndinni »g þar fyrir vestan. Mikið ófremdarástand er ríkjandi í vegamálunum í nánd við Patreksfjörð, Kleifaheiði ófær vegna rigninganna, og óttast að Þingmannaheiði kunni að hafa farið illa líka. Á tímanum frá því kl. 18 í gær til kl.18. í dag, mældist úrkoman í Kvígindisdal 89 mm, og hefur hún ekki verið meiri þar á þessum tíma árs, frá því mælingar hófust árið 1927. Við töluðum við Snæbjörn Thoroddsen bónda í Kvígindisdal í kvöld, og sagði hann, að veður hefði verið þar mjög slæmt síðasta sólarhringinn. Úrkoman mældist 89 mm, og er það meira en nokkru sinni áður á sama árstíma, frá því veðurathuganir hófust hér árið 1927, en í september 1949 mældist þó meiri úrkoma, rúmlega 100 mm. Bragi Thoroddsen vegavinnuverkstjóri sagði mér í dag, að vegurinn yfir Kleifaheiði væri ófær, þar eð hann hefur skolast burtu á köflum. Ekki hefur enn verið hægt að athuga skemmdirnar til fullnustu vegna veðurs. Vindurinn hefur verið á hásunnan síðasta sólarhringinn og 68 vindstig. Ekki hefur enn verið hægt að ganga úr skugga um það, hvort Þingmannaheiðin er ófær, þar eð ekki hefur náðst samband við vegavinnuverkstjórann þeim megin. Í dag reyndu nokkrir bílar að fara frá Patreksfirði, en urðu að snúa við, þar eð Kleifaheiðin var algjörlega ófær, og hafði byrjað að skolast úr veginum um 15 km frá Patreksfirði. Á Veðurstofunni fengum við þær upplýsingar, að mikið hefði rignt í dag og nótt um allt Vesturland, aðallega þó við Breiðafjörð og Faxaflóa. Annars var úrkoman hvergi eins mikil og í Kvígindisdal. Næsti staðurinn var Hvallátur, þar mældist úrkoman 40 mm á sama tíma og hún var 89 mm í Kvígindisdal. Veðurspáin hljóðar upp á vætutíð hér sunnanlands næstu dagana, að sögn veðurfræðinganna.
Mikill kuldapollur gekk nú yfir landið. Snjó festi á stöku stað nyrðra og við borð lá að snjóaði á Suðvesturlandi. Mestur varð kuldinn í háloftunum þann 26. og 27. Þá gránaði af hagléli í Reykjavík.
Morgunblaðið segir frá 28.júní:
Blönduósi 26. júní. Vorið hefur verið mjög þurrkasamt og næstum engin vorflóð í ám enda óvenju snjólétt á heiðum. Á nokkrum bæjum hafa vatnsból þrotið vegna þurrkanna, en það er mjög óvenjulegt á þessum tíma árs. Undanfarna daga hefur rignt lítils háttar, en í dag gerði úrhellisrigningu um stund. Þá gránaði í háfjöll. B.B.
Esjan gránaði í gær, þegar haglél dundi yfir hana og nágrenni. Götur hvítnuðu sums staðar í Reykjavík um kvöldið.
Tíminn sömuleiðis 28.júní:
Myndin hér til hliðar [hvítt hagl í kringum blóm] er tekin af blaðamanni Tímans, FB, í garði einum á horni Suðurlandsbrautar og Langholtsvegar í gær, og er táknræn fyrir veðurfar gærdagsins hér á Suður- og Vesturlandi. Veðurguðirnir skiptu um skap, enda orðnir leiðir á sól og blíðu og létu skúraveður og síðan haglél dynja yfir okkur. Esjan gránaði af völdum haglélsins og í gær kvöldi hvítnuðu sumar götur Reykjavíkurborgar og garðar. ... Aftur á móti nutu landar okkar á Norður- og Austurlandi þeirrar veðurblíðu sem verið hefur hér á landi að undanförnu. Í morgun kom aftur á móti röðin að Vestfirðingum og Norðlendingum. Þá fengu þeir norðan áttina yfir sig og fylgdi henni slydda og kuldarigning, svo að hitinn fór niður í þrjár gráður bar sem kaldast var.
Kortið sýnir hæð 500 hPa-fletarins og þykktina að kvöldi þriðjudagsins 26.júní 1964. Við athugun kemur í ljós að hér er á ferð lægsta þykkt sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í síðasta þriðjungi júnímánaðar. Ómarktækur munur er á næstu tölum fyrir ofan, en sýnir vel hversu óvenjulegur þessi kuldi var. Að morgni þess 28. var alhvít jörð og þriggja cm snjódýpt á Hólum í Hjaltadal.
Eftir óþurrkatíma framan af júlí gerði rigningasumarskvíðinn vart við sig. En sunnanlands leið hann fljótt hjá, ef marka má blaðafregnir. Tíminn segir frá:
[22.júlí] KH-Reykjavík, 21. júlí. Nú horfir mjög illa með heyskap sunnan- og suðvestan lands. Austanfjalls eru tún orðin svo úr sér sprottin, að liggur við skemmdum, og þar leyfir tíðin ekki einu sinni, að hirt sé í vothey. Vestan- og suðvestan lands er mjög mikið óslegið, og þurrkleysi hindrar heyverkun. Norðan- og austanlands kveður alveg við annan tón. Þar hafa menn rifið upp vel verkuð hey undanfarna daga í sunnanþurrki og hita, til dæmis komst hitinn upp í 26 stig í forsælu einn daginn á Héraði. Margir bændur norðan og austanlands eru langt til búnir með fyrri slátt. Veðurstofan spáir engri breytingu veðurs á næstunni.
[26.júlí]: Sólin skein glatt í Reykjavík í morgun, en víðast annars staðar á Suður- og Vesturlandi voru skúraleiðingar og skýjað, nema í Skaftafellssýslum. Bændur á þessu svæði eru orðnir mjög uggandi um heyskapinn. Þar sem ástandið er verst, hafa þeir varla náð inn tuggu, og pollar standa í túnunum, sem eru orðin alltof mikið sprottin. Þó var hljóðið heldur betra i bændunum en fyrr í vikunni, þegar Tíminn talaði við þá. Góða veðrið hlýtur að fara að koma til okkar, sögðu þeir. Austanfjalls mun ástandið verst. Þar hafa aðeins komið þrír heilir þurrkdagar í meira en mánuð, eða síðan 20. júní. Þessa þurrkdaga náðu margir bændur talsverðu í sæti og lanir, en síðan hefur varla nokkurn tíma viðrað til að ná því inn. ...
Nokkra jarðskjálftahrinu gerði á Suðurlandi í ágúst. Líklega er átt við svonefndan Mercalli-styrkkvarða í fréttinni hér að neðan. Í sama blaði segir einnig frá vonbrigðum í kartöflurækt. Tíminn 21.ágúst:
Menn vöknuðu við vondan draum víða um Suður- og Suðvesturlandið skömmu fyrir klukkan 4 í nótt, hvinur heyrðist í lofti og allt lauslegt fór af stað og jarðskjálftamælar Veðurstofunnar í Reykjavík mældu kl.3:57 jarðskjálfta, sem reyndist vera 6 stig, og mun hafa átt upptök sín 80 km frá Reykjavík eða í nánd við Hellu á Rangárvöllum. Tjón varð ekki mikið af þessum kipp, en munir féllu úr hillum og húsgögn hreyfðust til. Nokkuð bar á því á Hellu, að nýhlaðnir milliveggir í húsum, sem eru þar í byggingu, hrundu og á einum stað sprakk miðstöðvarketill. Í Vestmannaeyjum greip menn mikill ótti og héldu flestir að Surtur væri byrjaður að hreyfa sig aftur fyrir alvöru. Tveir kippir komu eftir þetta, kl. 7:49 og 11:50, en þeir voru mun vægari.
Vonir margra um, að 1964 yrði algjört metár í kartöfluræktinni, hafa brostið síðustu dagana. Næturfrost og kalt veður hefur kolfellt kartöflugrösin víða á Suðurlandi, og þó einna mest í Þykkvabænum. Einnig hafa grös fallið víða á Austfjörðum. Lítið er aftur á móti um skemmdir annars staðar á landinu, en samt er vafasamt, hvort hægt verði að fullnægja innlenda markaðinum með íslenskum kartöflum.
Verulegt hret gerði á landinu um 20. ágúst. Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina, sem er sérlega lág, miðað við árstíma. Þann 21. ágúst var hiti í Reykjavík aðeins 4,6 stig kl.15 og er það lægsti ágústhiti í Reykjavík á þeim tíma sólarhrings frá að minnsta kosti 1949. Óvenjuleg snjókoma varð víða á Norðurlandi. Á Grímsstöðum á Fjöllum var alhvítt 5 daga í ágúst. Alhvítt virðist hafa orðið á Akureyri, en ekki á athugunartíma. Tíminn segir frá 22. ágúst:
FB-Reykjavík, 21. águst. Í nótt og dag hefur snjóað víðast um vestan-, norðanvert og austanvert landið og nokkrir fjallvegir eru orðnir ófærir eða þungfærir. Um hádegi í dag var mokhríð á Akureyri, og þar gátu menn leikið sér að því að skafa snjó af framrúðum bifreiða sinna og kastast á snjóboltum, en snjóinn tók fljótt upp aftur. Veðurstofan spáir áframhaldandi norðanátt og vafalaust verði hret á fjöllum, eða að minnsta kosti slydda, en tæplega snjói mikið í byggð. Samkvæmt upplýsingum ED á Akureyri, um ástand vega á Norðurlandi, er Vaðlaheiði þungfær, og er þar verið að hreinsa veginn. Húsavikurrútan, sem kom til Akureyrar í morgun, varð að setja upp keðjur í Dalsmynni, því þar var töluverður snjór og allsleipt.
Ekki er snjókorn á Öxnadalsheiði, en frá Silfrastöðum og niður, er snjóföl og krap á veginum. Snjóföl og slabb er á Vatnsskarði og í Langadal, en Holtavörðuheiði fær öllum bílum á keðjum. Möðrudalsöræfi hafa verið þungfær í dag stórum bílum og ófær litlum, en þar eru staddir heflar og eiga að hreinsa veginn þegar stillist veður. Á Tjörnesvegi er snjóföl og snjór á Hálsavegi. Á Akureyri snjóaði mikið í morgun en upp úr hádeginu stytti upp, og hefur snjólínan nú hækkað aftur. Inn á skrifstofu Dags á Akureyri kom fannbarinn maður um hádegisbilið, og er það sannarlega óvenjulegt á þessum tíma. Siglufjarðarskarð er nú alófært og einn bíll er fastur í skarðinu. Ýta og trukkur lögðu upp í skarðið í morgun, og var ætlunin að ryðja það, en ákveðið að gera það ekki, þar til síðar. Tvívegis hefur skarðið verið rutt síðustu dagana, og eru ruðningar nú orðnir í axlarhæð. Í morgun var hvítt niður að sjó á Siglufirði, en þar hefur snjóinn tekið upp aftur. Gengið hefur á með hryðjum í dag, en létt til og sólin jafnvel skinið á milli. Á Ólafsfirði var ökkladjúpur snjór í morgun, en þar er mesti snjórinn horfinn. Þung færð var yfir Lágheiðina í morgun, þegar stór trukkur fór þar um, og ekki vitað til að bílar hafi farið þar í dag. Hvassviðrið og snjókoman byrjuðu á Vestfjörðunum í morgun, og þar er Breiðadalsheiði algjörlega teppt. Jarðýta tór með bíl þar yfir, en svo lokaðist heiðin alveg. Nú virðist vera að birta upp á Ísafirði og kólna. Þorskafjarðarheiði mun vera þungfær. Færð er góð yfir Fjarðarheiði, en snjórinn náði svo að segja niður í byggð á Seyðisfirði í morgun. Erfitt var að aka um Fagradal í morgun, aðallega vegna snjókomu, en snjóinn festi ekki á veginum. Leiðin yfir Oddsskarð var einnig fær í dag.
Enn segir Tíminn af hretinu þann 23.ágúst:
22. ágúst: Í veðrahamnum þrjá sólarhringana hefur orðið þess valdandi, að fé sækir mjög niður af afréttum, og upp úr hádegi í dag ætluðu þeir Kalmannstungumenn í Hvítársíðuhreppi að fara að smala fé sínu, en ekki vissu þeir um aðra bændur þar í grennd sem hygðust gera hið sama. Bóndinn í Kalmannstungu sagði okkur í morgun, að fé væri farið að safnast saman niður við girðingar og hefði það streymt niður af heiðunum síðustu þrjá sólarhringana. Í dag sagði hann vera mikinn rosa, en ekki eins kalt og verið hefur síðustu dagana. Jörð var alhvít í gær, en nú eru skaflar niður í neðri brúnir. Bóndinn sagði að stórir hrossahópar væru komnir niður úr fjöllunum norðan Norðlingafljóts, og væri þetta allt langtum fyrr en venjulega. Gunnar í Fornahvammi í Norðurárdal sagðist hafa orðið að fara á fætur kl. 5 í fyrramorgun til þess að reka féð af hlaðinu hjá sér, því þar hefði safnast svo mikill hópur saman og jarmið og hávaðinn verið svo mikill að fólk gat ekkí sofið. Í allan gærdag var straumurinn svo mikill, að einna líkast var, er verið væri að smala afréttinn. Gunnar sagðist vera hræddur um, að þeir yrðu nú að smala þrátt fyrir þetta, en án efa kæmi með færra móti í þeim göngum. Ekki sagðist hann muna eftir veðri líku þessu á þessum tíma árs, þetta væri engu líkara, en komið væri fram í miðjan september. Bóndinn á Stafni í Svartárdal sagði að búið væri að- vera versta veður síðustu þrjá sólarhringa og snjór alveg ofan að á, en í dag væri rok og úrfelli. Hann sagði að fjöldi fjár hefði runnið heiðum ofan og auk þess margt hrossa, enda væri eflaust mikill snjór til fjalla. Þetta er það fyrsta, sem ég man eftir svona veðri hérna, sagði bóndinn í Stafni. Á Mýri í Bárðardal fengum við þær upplýsingar, að töluvert bæri á því, að fé kæmi niður í byggð, en þar væri nú enginn snjór, heldur mjög mikil rigning og hvassviðri.
Og enn segir Tíminn 25.ágúst:
Bóndi nokkur í Fnjóskadal tjáði Veðurstofunni, að á þessum tíma árs hefði ekki snjóað svo mikið síðastliðin 20 ár á Norðurlandi, eins og gerði nú fyrir nokkrum dögum.
Þann 31. ágúst lokaði skriða vegi í Vatnsdal. Fleiri skriður féllu þar næstu daga. Síðan þótti tíð lengst af allgóð í september. Heyfengur þótti góður, og sömuleiðis nýting, nema á Suðurlandi. Vel fór með veður - að því undanteknu þó að allmikið hret gerði um miðjan mánuð. Lentu gangnamenn í hrakningum sums staðar. Tíminn fjallar um þetta 17.september:
Vetur er nú genginn í garð á Norðausturlandi með ofsaroki, snjókomu og kulda. Fjallvegir á austanverðu Norðurlandi og Austurlandi, suður að Reyðarfirði, eru að teppast og Siglufjarðarskarðið er rétt fært stórum bílum í kvöld. Hér Sunnanlands hefur verið mikið hvassviðri og kuldi, þó ekki snjói og við Sultarfit, afrétt úr Biskupstungum, lentu smalamenn í miklum veðurhörkum. Í kvöld kemur áætlunarbíll til Siglufjarðar, og bíða hans trukkur og jeppi í skarðinu, til að að stoða hann yfir skarðið. Áætlað er að reyna að koma áætlunarbílnum aftur til baka. Á Siglufirði er snjóföl á grasi alveg niður í bæ og mikill snjór í efstu tindum. Á Egilsstöðum er snjókrap í kvöld, en mikið snjóar til fjalla. Fjarðarheiðin og Möðrudalsfjallgarður eru einungis fær stórum bílum og má búast við, að vegir þar teppist í nótt. Áætlunarbíll fór í dag frá Egilsstöðum til Akureyrar og komst klakklaust leiðar sinnar. Kornskurður, sem hafinn var á Egilsstöðum og víðar, leggst auðvitað niður, meðan þessi vætutíð gengur yfir. Ofsarok er á fjöllum alls staðar Austanlands. Fyrstu smölun er nú lokið fyrir Flóa-, Skeiða- og Hreppamannaréttir og lentu gangnamennirnir í miklum óveðrum á öræfunum. Lengst fóru þeir inn í Arnarfell og þar fundust 19 kindur og voru 95 reknar fyrir Hvítá og 1000 suður fyrir Gljúfursá. Fyrir innan var allgott smalaveður og fengu smalamenn dágott að smala norðurleit síðastliðinn sunnudag, en er sunnar dró afrétt versnaði veðrið og var afspyrnu rok á afréttinum í gær. Veður var þurrt, en stormurinn var svo svartur, að ekki sá út úr augunum. Flóamenn, sem fóru frá Dalsá vestur yfir öræfin, áttu fullt í fangi með að rata, þó kunnugir væru. Allir komust þeir í náttstað heilu og höldnu á Sultarfit, en þar var köld aðkoma og næturgisting ónæðissöm. Engum fjallmanni kom dúr á auga um nóttina og aðeins tvö tjöld voru uppistandandi í gærmorgun, hin höfðu fokið. Magnús Árnason, bóndi í Flögu, sem hefur verið fjallkóngur Flóamanna í 5060 ár, telur að slíkt fárviðri hafi hann aldrei áður vitað.
Árið hafði verið fremur þurrt um landið suðvestanvert og vatnsöflun á höfuðborgarsvæðinu varla nægileg - endurbóta var þörf. Tíminn segir frá 23. september:
Í dag varð fólk vart við vatnsskort víðast hvar í borginni og bílaþvottastöðvar voru t.d. beðnar um að skrúfa fyrir vatnið hjá sér, og þeir, sem höfðu ætlað að þvo bíla sína urðu að hverfa frá. Samkvæmt upplýsingum vatnsveitustjóra er nú óvenju lágt í vatnsbólum borgarinnar, vegna langvarandi þurrka og svo snjóleysis í vor. Fólk er því áminnt um að fara sparlega með vatnið og láta ekki sírenna hjá sér. Það vill stundum brenna við, að vatnsskortur gerir vart við sig á haustin. Er það þá venjulega að loknu miklu þurrkasumri. Eitthvað varð vart við þetta í fyrra og hitteðfyrra, en þá var skorturinn ekki eins mikill og núna. Vatnsleysið hefur verið að ágerast undanfarnar vikur og er nokkuð langt síðan hætta varð að dæla vatni nokkurn hluta næturinnar. Samkvæmt upplýsingum vatnsveitustjóra þarf mikla úrkomu núna, ef bæta á úr skortinum. Ef vatnsskorturinn ágerist enn, verður reynt að sækja vatn í uppsprettur, sem eru í 300 metra fjarlægð frá brunnum borgarinnar.
Tíminn segir þann 3.október frá vindsveip sem gekk yfir Akureyri:
Mjög ókyrrt loft var yfir Íslandi s.l. fimmtudag [1.október]. Stór flugvél, sem fór til Akureyrar seint á miðvikudagskvöld, varð að bíða þar þangað til síðla á fimmtudag. Var allhvasst og mjög byljasamt á Akureyri fram eftir fimmtudegi. Eftir hádegið bar svo við, að mikill sviptibylur, eða skrúfuvindur fór yfir norðurhluta bæjarins á mjóu belti. Reif hann járnplötur af einu eða tveimur húsum og braut rúður í gluggum. Þegar hann kom út á fjörðinn nokkuð norðan Oddeyrar, þyrlaði hann upp háum löðurstrók og hvarf til norðausturs. Segja þeir, sem urðu á vegi þessa sviptibyls, að honum hafi fylgt mjög þytur eða hvinur.
Snemma í október varð talsvert hlaup í Jökulsá á Dal. Um það var fjallað í blöðum. Mælingar sýndu að flóðhámarkið var heldur minna en fram kemur í fréttinni (eða um 1300 rúmmetrar á sekúndu):
Tíminn 11.október:
Mikið hlaup hefur verið í Jökulsá á Dal undanfarna tvo sólarhringa og náði hlaupið hámarki síðastliðna nótt, en er nú nokkuð í rénun. Ekki mun hlaupið hafa valdið neinu tjóni, svo kunnugt sé. Blaðið átti í dag tal við Halldór Sigvarðsson, bónda á Brú á Jökuldal. Sagðist honum svo frá, að áin hefði farið, að vaxa seinnipartinn í fyrradag. Hefði hún vaxið jafnt og þétt, og náði hlaupið hámarki sínu í nótt. Áin var mjög mikil, er hún náði hámarki sínu og mjög mórauð og virtist mikill jökull vera í henni. Ísrek var ekki í ánni niður við Brú, en þó sá Halldór þar einn jaka í morgun. Kvað hann þess tæpast von að ís ræki þangað niður eftir, þar eð áin rynni fyrst eftir þröngum gljúfrum, þar sem jakar myldust í straumkasti og síðan eftir eyrum, þar sem minna ísrek sæti eftir. Í morgun var allmikið farið að fjara í ánni, en hún er þó enn mjög mikil og mórauð að sjá. Blaðið innti Jón Eyþórsson eftir áliti hans á þessu hlaupi og kvaðst hann lítið geta um það sagt, skýjað væri á þessum slóðum og ekki hægt að fljúga yfir. Væri ekki gott að segja um, hvort hér væri um raunverulegt jökulhlaup að ræða, en taldi það fremur ósennilegt. Eins líklegt væri, að uppistöðulón hefði myndast uppi við jökul og síðan ruðst fram.
Tíminn 13.október:
MB-Reykjavík, 12. október. Hlaupið í Jökulsá á Dal er nú í rénun, en þó er áin enn vatnsmikil. Sigurjón Rist tjáði blaðinu í dag að þetta hlaup væri hið mesta í ánni síðan 1934, en telja mætti líklegt að vatnsmagn hefði þá verið álíka mikið og nú, en þá voru mælingar ekki hafnar. Sigurjón kvað hlaup þetta tvímælalaust jökulhlaup, þótt ekki væri en alveg ljóst, hvers eðlis það væri. Enn lægju niðurstöður sjálfritandi vatnsmæla ekki fyrir, en líklegt væri að vatnsmagnið hefði verið á þriðja þúsund teningsmetrar á sekúndu. Í samanburði við það má geta þess, að hátt sumarvatn er tæplega þúsund teningsmetrar. 1934 var gos í Grímsvötnum og kvaðst Sigurjón telja, að þá hafi ástæðan til hlaupsins verið sú, að aska hafi sest á jökulinn, en við það að hann dökknaði svo. Hafi yfirborð hans hitnað og því hafi meira vatn runnið úr honum. Nú sé jökullinn óvenju sprunginn og yfirborð hans því meira en venjulega og kvaðst Sigurjón hafa verið undrandi yfir því, að aukið vatnsmagn hefði ekki komið fram í ánni. Mætti telja sennilegt, að vatnið hefði safnast fyrir af einhverjum ástæðum og nú ruðst fram.
Veðrið í kringum 10.október 1964 kemur við sögu í eldri pistli hungurdiska. Þá fórst vélbáturinn Mummi frá Flateyri og með honum fjórir menn. Fiskhjallar fuku á Suðureyri, fjárskaðar urðu á Vestfjörðum. Lausavarningi skolaði í sjóinn af bryggju á Húsavík.
Versta veður októbermánaðar gerði þann 21. október. Sjór gekk þá á upp á götur í Reykjavík. Vestanveður voru ekki algeng á þessum árum. Skriðuföll urðu á Vestfjörðum. Kortið sýnir veðrið um það bil í hámarki. Blöðin birtu fréttir af því:
Morgunblaðið 22. október:.
Síðdegis í gær var háflæði og þegar við bættist rok og óveður, gekk sjórinn langt upp á götur í Reykjavík. Bar sjórinn brak yfir götuna Ánanaust og flæddi fram Grandagarðinn, svo stundum var vart fært bílum um hann. Og með allri Skúlagötunni gekk hann í hryðjunum yfir götuna og upp að húsunum og bar með sér grjót. Strákarnir skemmtu sér vel, hlupu fram á bakkann og svo tilbaka undan löðrinu, en bíleigendur voru ekki eins kátir, þegar saltvatnið gekk yfir bíla þeirra og mikið má vera ef enginn hefur fengið dæld undan grjótinu.
Tíminn 22. október:
GPVTrékyllisvík, 21. október. Í nótt skall á suðvestan ofsaveður af suðvestri og fylgdu því úrhellisrigning og þrumur og eldingar. Voru eldingarnar mestar á ellefta tímanum í morgun. Eldingar eru mjög sjaldgæfar hér og hefi ég aldrei séð þær hér fyrr. Eldingum sló niður í raflínur frá heimilisrafstöðvum og kviknuðu ljós á perum af þeirra völdum. Ekki er mér kunnugt um tjón af völdum eldinganna, en ólag er á símanum hér innsveitis. Á Djúpuvík sökk 45 tonna trilla, sem var bundin þar á legunni. Er verið að ná henni upp í dag.
Daginn eftir gerði norðankast. Þá varð mikil hálka á Akureyri og fjöldaárekstur í Grófargildi. Morgunblaðið segir frá 23. október:
Akureyri, 22. október. Í nótt brá hér til vetrarveðurs með frosti, snjókomu og geysilegri hálku á götum bæjarins. Milli 20 og 30 bitar hafa lent í árekstrum og skemmst hér í dag nær eingöngu vegna hálku og keðjuleysis. Engin meiðsl hafa orðið á mönnum í árekstrum þessum. Mest kvað að árekstrum í Grófargili (Kaupvangsstræti) um kl.9 í morgun, svo að lögreglan varð að loka götunni, sem er allbrött og nýlega malbikuð og hefur hún verið lokuð fyrir bílaumferð í dag. Köstuðust bílarnir, stórir og smáir, hver á annan, svo að ökumennirnir fengu ekki við neitt ráðið. Til dæmis lentu þrír bílar í sex árekstrum á þessum stað, ekið var á kyrrstæða bíla og þeim kastað á enn aðra, svo allt lenti í einni bendu. Lögreglan ætlar, að alls hafi 10-12 bílar skemmst þarna á skammri stundu. Þar að auki hafa orðið margir árekstrar víðs vegar um bæinn í dag, aðallega vegna hálkunnar. Ekki voru skýrslur um þá alla komnar til lögreglunnar í kvöld, en hún giskar á, að 20-30 bílar hafi skemmst eins og fyrr segir. Þá féll 65 ára gamall maður, ... á hálku, þegar hann var á leið heim frá vinnu, og fótbrotnaði. Þessi dagur er almennasti hrakfalladagur í umferðarsögu Akureyrar fyrr og s-íðar. Sv.P
Eftir þetta var tíð talin hagstæð fram undir 10. desember - að slepptu illviðri sem gerði um miðjan nóvember. En það var ekki mjög mikið og stóð ekki lengi
Morgunblaðið segir frá 19.nóvember:
Í fyrrinótt og í gær gerði hart veður um allmikinn hluta landsins, sumstaðar ofsarok með hríð eða slyddu. Ekki er blaðinu kunnugt um mikilvægar skemmdir, sem rekja má beint til óveðursins. Bátur strandaði við Öndverðarnes, en það var áður en óveðrið skall á fyrir alvöru. Veðurofsinn og sjógangurinn, sem síðar varð, mun hinsvegar gera björgun bátsins ómögulega og sennilega eyðileggja hann þar sem hann liggur. Bíll fauk út af veginum í Borgarfirði á hálku, samsláttur varð á raflínum í Húnavatnssýslu og símatruflanir urðu bæði norðanlands, austan og sunnan. Vélahús fauk í Austur-Landeyjum og færð varð víða erfið á heiðum. Frásagnir nokkurra fréttaritara fara hér á eftir.
Borgarnesi 18. nóv. Um hádegið í dag valt jeppabifreið, af Austin-Gipsy gerð, skammt fyrir ofan Brennistaði í Borgarhreppi. Tveir menn voru í bílnum. Bíllinn rann út af þar sem vegarbrúnin var allhá og valt heila veltu og staðnæmdist á hjólum, en sneri þá þvert á veginn. Þegar bíllinn fór á hvolf brotnaði húsið af honum og varð eftir, en mennirnir köstuðust út úr brakinu. Nokkur hálka var á veginum hér og hvar og gekk á með vindhviðum og mun það hvorttveggja orsök slyssins. Mennina, sem í bílnum voru, sakaði ekki að marki. Um hádegisbilið skeði það á Kjalarnesi, er flutningabifreiðin A-1719 var á leið norður og kom í Tíðaskarð, að grjótflug var þar svo mikið í stormhviðu að framrúða bifreiðarinnar mölbrotnaði. Varð bílstjórinn að snúa aftur til Reykjavíkur og fá nýja rúðu, en hann sakaði ekki. Hörður.
Ísafirði, 18. nóvember. Hér hefir sett niður talsverðan snjó bæði í nótt og dag og heiðavegir munu ófærir og þungfær í byggð. Ekki er vitað til að veðrið hafi orsakað hér slys eða tjón. Bátar voru á sjó í nótt og komu heilu og höldnu að í morgun. Flutningabílum hingað til Vestfjarða mun hinsvegar ganga illa heimferðin. H. T.
Hvammstanga, 18. nóvember. Hér var hvasst með snjókomu framan af degi en tók að hægja og rigna er á daginn leið. Hér sitja menn i myrkri, en ljós slokknuðu um kl. 3 síðdegis. Rafmagnstruflanirnar eru taldar af völdum veðursins, sennilega samsláttur eða að línur hafi slitnað. Viðgerðarflokkur er kominn á vettvang. Bílum er vel fært um vegi en krapaelgur er á þeim þessa stundina. Sigurður.
Símasambandslaust var til Suðurfjarða Austurlands í gær og gat blaðið því ekki haft samband við fréttaritara sína þar. Einnig var símasambandslaust við Vík í Mýrdal.
Austur-Landeyjum, 18. nóvember. Austan ofsaveður með stórrigningu öðru hvoru hefir gengið hér yfir í dag. Á tímabili vottaði fyrir krapa, enda var hiti þá um frostmark, en hlýnaði svo aftur. Um kl. 2 í nótt byrjaði að hvessa með snörpum hrinum, en lægði á milli. Kl. 10 í morgun var komið aftaka veður, svo vatn rauk eins og mjöll öðru hvoru og hélst það til kl. 2 að fór að draga úr veðurhæð. Ég átti tal við símstöðvamar hér undir Eyjafjöllum um kl. 5 í dag. Var þá enn ekki vitað um tjón af völdum veðursins, enda eru hér yfir höfuð traustar, vel gerðar og nýlegar byggingar. Á Skíðabakka í Austur-Landeyjum, hjá Eyvindi bónda Ágústssyni, fauk vélageymsla, braggi, er var í smíðum, vegna frosta nú undanfarið var ekki að öllu fullgerður. Hann er talinn gerónýtur.
Vestmannaeyjum 18. nóvember. Stólparok var hér í nótt og dag 1314 vindstig á austan. Er á daginn leið færðist veðrið til suðurs og var enn hvasst með kvöldinu. Snjór var hér nokkur og hálka, en frostlaust. Ekki er kunnugt um slysfarir eða skemmdir af völdum veðursins. Björn.
Tíminn birti 21.nóvember fréttabréf af Ströndum - þar er fjallað almennt um árferði:
Úr fréttabréfi af Ströndum: Árferði. Allt frá síðustu áramótum hefur ríkt hér einstök árgæska. Veturinn var, eins og allir vita, einhver sá mildasti, sem menn muna - Þó fannst mér hlýindi og gróður, ekki vera til jafns við það, sem var á útmánuðum 1923 og 1928 en til að skera úr um það skortir allan raunhæfan samanburð Fénaður létti sér vel á fóðrum og hross komu aldrei á hús sums staðar, en gengu þó ei undan. Vorið var líka hagstætt og gott. Gróður kom snemma og kulnaði aldrei. Fénaður gekk vel undan vetri og hey entust vel hjá flestum. Fóðurkostnaður varð þó meiri en venjulega, því flestir bændur urðu að kaupa meira og minna af heyinu og fóðurbæti fyrrahaust eins og alkunnugt er. Vorið var áfallalaust og lömb þroskuðust vel. Sumarið var einnig með því besta, sem hér gerist. Grasspretta varð víða með ágætum, og yfirleitt meiri en menn höfðu gert sér vonir um. Kalsár undanfarinna ára greru að miklum mun. Nýting heyja er einnig með besta móti, enda höfum við ekki lengi fengið jafn sólríkt sumar. Bændur eru því nú betur undir vetur búnir en þeir hafa verið síðustu árin. Haustveðráttan hefur einnig verið ágæt. Getur varla heitið að fest hafi snjó til þessa.
Nokkuð snjóaði fyrir miðjan desember, og síðan gerði asahláku:
Tíminn segir 13.desember:
Mikil ófærð er nú á vegum og má heita að ófært sé um mestan hluta Suðurlands og þungfært víða í öðrum landshlutum. Mjólkurbílarnir frá Selfossi, sem áttu að ná í mjólk á Suðurlandi, urðu að snúa við og er í dag unnið við að ryðja vegina.
Tíminn 15.desember:
KJ-Reykjavík, 14. des. Seljalandsá flæðir nú yfir veginn fyrir neðan Seljalandsfoss, sunnan við brúna á ánni. Tíminn hafði í kvöld tal af Ólafi Kristjánssyni oddvita á Seljalandi og sagði hann, að aðfaranótt laugardagsins hefði hvesst og myndast krap í ánni. Rynni nú ekkert vatn eftir árfarveginum, því að hann væri fullur af krapi, en á 100200 metra kafla á veginum sunnan við brúna á ánni, flæðir áin, og er vegurinn nú orðinn illfær. Stórir bílar og jeppar hafa skrönglast yfir veginn, en ófært er fyrir litla bíla um veginn. Ólafur sagði, að nú væri 45 stiga frost þar eystra, en ef frostið herti og færi upp í 810 stig, mætti búast við að vegurinn yrði illur yfirferðar. Fjörutíu sentímetra jafnfallinn snjór var kominn yfir allt áður en hvessti, var þetta mikið til lausamjöll, sem fauk í burt, en þó er alhvítt yfir allt í dag. Vegna krapaelgsins á veginum fyrir neðan Seljalandsfoss, er ófært á litlum bílum í eystri hluta Rangárvallasýslu svo og í Vestur-Skaftafellssýslu og verður svo þar til vegurinn hefur verið hreinsaður.
Morgunblaðið 19.desember
Bergþórshvoli, 18. desember. Mikil harðindi hafa verið hér eystra og óvenju mikill snjór í Landeyjum. Frost hefir verið upp í 18 stig og allur fénaður á gjöf. 'i gær gerði snögglega asahláku með hvassviðri og mikilli rigningu. Orsakaði þetta mikla vatnavexti, ekki síst í neðanverðum Landeyjum þar sem skurðir hafa ekki við að flytja vatnið áfram. Urðu því vegaskemmdir talsverðar og er Vestur-Landeyjavegur í sundur á fjórum stöðum. Verður erfitt að lagfæra þetta á morgun, þar sem vatn er ekki farið að sjatna enn. Eggert
Í blöðunum má nú finna tvö stutt viðtöl við Jón Eyþórsson veðurfræðing, hið fyrra um jökla en hið síðara almennt spjall um kulda:
Tíminn 11.desember:
Jöklar hafa minnkað heldur minna í ár en undanfaríð, samkvæmt þeim niðurstöðum jöklamælinga, sem nú liggja fyrir, að sögn Jóns Eyþórssonar veðurfræðings og sumir hafa jafnvel lengst nokkuð. Blaðið átti í dag tal við Jón Eyþórsson, veðurfræðing, sem að öðrum ólöstuðum er allra manna fróðastur um breytingar á íslenskum jöklum og hegðun þeirra. Yfirleitt hafa jöklar styst á langflestum mælingastöðvunum, sagði Jón, en með minna móti eins og eðlilegt er eftir fremur kalt sumar, og á stöku stað hefur orðið lítilsháttar framgangur. Mörg árin hafa allir jöklar styst, svo að þetta ár hefur orðið nokkur afturför í þróuninni. Til dæmis hefur Kvíárjökull lengst um 52 metra og Fellsjökull um 20 metra. Aftur á móti hefur Breiðamerkurjökull styst um 70 metra.
Morgunblaðið 16.desember:
Sunnlendingum þykir mikið til um snjóinn og frostið um þessar mundir enda óvenjulegt að geri um 20 stiga frost við sjóinn á Suðvesturlandi, eins og var síðasta sunnudag. Jóni Eyþórssyni, veðurfræðingi, fannst þó ekki mikið til vetrarhörkunnar koma, þegar Morgunblaðið vildi fara að ræða málið við hann. Hann rakti þó sögu frostsins: Fyrir helgina var komið 17 stiga frost á Jan Mayen, sem er óvenjulegt þar. Aðfaranótt sunnudags flæddi svo kalda loftið þaðan og á sunnudagsmorgun var komið 15 stiga frost norðanlands, en hafði lækkað niður í 510 stig um kvöldið. Þá var kaldast á Suðurlandi, um eða yfir 20 stig á Þingvallasvæðinu og flæddi kuldinn með Soginu og Ölfusá niður yfir Eyrarbakka. Á Hellu var þá 17 stiga frost um kl. 6 síðdegis, en farið að hlýna uppi á Hæli í Hreppum, þar 14 stig. Í dag, þriðjudag, er svo 6 stiga frost í innsveitum og 2 stig niður við ströndina. Og nú eigum við von á að hlýni með kvöldinu. Sunnanátt og frostleysa er á sunnanverðu Grænlandi, og breiðist austur af. Hins vegar þori ég ekki að lofa almennilegri hláku, þetta verður kannski ekki nema hlákubloti sunnanlands. Það hefur verið reynsla undanfarið að lægðir sem fara vestur fyrir Grænland, hafa smeygt sér austur með suðurströndinni og valdið skammvinnum hlákublotum, en síðan færst í norðan- og norðaustanátt aftur. Svo ekkert er því til fyrirstöðu að við fáum hvít jól, þó nú hlýni um sinn. Annars var haustið milt og gott, að vísu dálítið umhleypingasamt, en tiltölulega betra en sumarið, segir Jón ennfremur. Nóvember í fyrra [1963] var t.d. áberandi miklu kaldari, meðalhitinn 1 stig, sem er 3,6 stigum undir meðallagi. Mesta frost í Reykjavík var þá 11,6 stig. Nú var meðalhitinn í nóvember 3,1 stig og mesta frost í ár 10,4 gráður í nóvember.
Snjórinn, sem nú er á landinu, er ekki nema 10 daga gamall. Hér sunnanlands snjóaði alltaf annað slagið af ýmsum áttum sl. viku, aðallega á vestan, en fyrir norðan með norðanáttinni. - En hvað er mesta frost, sem komið hefur hér í Reykjavík? - Síðan veðurstofan tók að mæla, við skulum segja síðan 1925, varð frost mest í janúar 1956, þá 17,1 stig. Ég heyri að þér Norðlendingnum finnst lítið til um þetta? Já, mér finnst ósköp lítið til þessa koma. Ég vandist á að vera á rjúpnaveiðum með framhlaðning í 20 stiga frosti og það er kuldaverk. Fyrst að fara í vasann og taka skammt af púðri og gæta þess að taka ekki á hlaupinu meðan það er sett í, því þá festist maður við það. Svo er tekinn hæfilegur skammtur af blaðapappír, hann vafinn saman í kúlu og troðið í með svokölluðum krassa eða hlaðstokk og þjappað vel niður. Þá er tekinn hæfilegur skammtur af höglum í lófann og sett í hlaupið og svo forhlað eða meiri pappír. Þess þarf að gæta að púðrið hafi náð fram á pinnann og stundum að taka nokkur púðurkorn og bæta á pinnann. Loks er tekin hvellhetta og sett á pinnann. Þá er maður tilbúinn til að skjóta. Og rjúpan bíður á meðan öllu þessu fer fram? Það þótti nú vissara að ganga með hlaðna byssu, ef rjúpa skyldi sjást, segir Jón Eyþórsson kíminn.
Tíminn 20. desember
Í roki og á háflóði í morgun slitnuðu tveir bátar upp í Hafnarfjarðarhöfn og rak annan þeirra hátt á land. Einnig barst talsvert rusl og grjót á land á Skúlagötu og Kirkjusand í Reykjavík og varð um tíma að aka með gætni eftir Skúlagötunni. Hámarki sínu náði veður og flóð á sjöunda tímanum í morgun. Þá slitnuðu tveir bátar upp í Hafnarfjarðarhöfn. Annar báturinn var Reynir II frá Neskaupstað, sem lá bundinn utan á öðrum bát við uppfyllinguna. Rak hann að bryggjunni og rakst á hana og munu bæði bátur og bryggja hafa skemmst eitthvað. Báturinn Særún frá Siglufirði, sem er 50 lesta bátur, lá bundinn utan á Apríl við hafskipabryggjuna. Særún slitnaði frá togaranum og rak upp á land, eins langt og hún flaut á stórstraumsflóðinu og upp undir grjótkantinn neðan við Apótekið. Særún mun lítið eða ekkert hafa skemmst og mun reynt að ná henni út í kvöld. Báðir bátarnir voru mannlausir. Lögreglumenn, sem óku eftir Skúlagötu í Reykjavík um þetta leyti, sáu að sjór gekk yfir götuna og hafði borið með sér talsvert af grjóti. Mest brögð voru að þessu á svæðinu milli Völundar og Sláturfélagsins. Var það mikið af grjóti á götunni, að aka varð með gætni, en grjótið var þó fremur smágert. Einnig voru niðurföll orðin stífluð. Einnig barst eitthvað af grjóti á land inn við Kirkjusand í veðrinu. Starfsmenn Áhaldahúss borgarinnar unnu við að hreinsa niðurföllin og göturnar í morgun.
Tíminn 24.desember:
Veðurfræðingar Veðurstofunnar voru léttir í bragði, þegar við náðum tali af þeim í dag og spurðum frétta af veðurfarinu yfir jólin. Þeir höfðu sagt okkur fyrr í vikunni, að jólin yrðu flekkótt að þessu sinni, og vildu halda sig við þá spá, svona til öryggis. Þeir sögðu okkur að lokum að húsveggir yrðu áreiðanlega auðir, en játtu því þó, að þar sem fólk byggi enn í torfbæjum gæti orðið undantekning frá þessari reglu. Norðanlands hefur verið hríðarveður í dag og frost hefur verið um allt land. Á Vestfjörðum og út af þeim voru 7 vindstig, þegar hvassast var í nótt, en nú er vindhraðinn kominn niður i 3-4 vindstig. Veðurfræðingurinn sagði að norðanáttin myndi ganga niður. Svo væri hörkulægð að nálgast Suður-Grænland og spáði það góðu.
Mikið illviðri gerði á landinu milli jóla- og nýárs, fyrst með hríð og umtalsverðum umferðarvandræðum á Suðvesturlandi en síðan norðanáhlaupi um meginhluta landsins.
Tíminn segir frá 29.desember:
MB-Reykjavík, 28. desember. Síðdegis í dag skall hríðarveður á í Reykjavík og í kvöld má segja, að blindbylur hafi verið kominn um allt sunnan og vestanvert landið, og var búist við að illviðrið myndi ná yfir landið allt í nótt. Búist er við að eitthvað bloti í nótt við ströndina hér suðvestanlands, en óvíst að þar verði um neina hláku að ræða. Veðrinu var spáð þegar í morgun, en margir virðast hafa haft aðvaranir veðurstofunnar að vettugi, sumir jafnvel lagt upp með ungbörn í fólksbílum á heiðarvegi, og má það teljast ótrúlegt ábyrgðarleysi. Hér í Reykjavík varð algert umferðaröngþveiti í kvöld og bílar voru klukkustundum saman að brjótast milli Kópavogs og Reykjavíkur og margir urðu að yfirgefa bíla sína. Allir vegir á Suður- og Vesturlandi munu kolófærir og bíll frá vegagerðinni reynir í nótt að brjótast austur yfir Hellisheiði til að aðstoða bíla, sem óttast er að séu fenntir á heiðinni. Páll Bergþórsson veðurfræðingur sagði blaðinu í kvöld, að telja mætti víst að illviðrið myndi ná um allt land í nótt og búast mætti við slæmu veðri víða á morgun. Ekki má búast við neinum blota, nema rétt við ströndina suðvestanlands, með morgninum er líklegt að hann gangi í norðaustrið og kólni að nýju og bjóst Páll við éljagangi á morgun. Klukkan átta í kvöld var farið að snjóa víða norðanlands. Veðri þessu olli lægð, sem dýpkaði mjög ört á Grænlandshafi, en í kvöld var hún hætt að dýpka og taldi Páll, að mesti krafturinn væri úr henni.
Eins og nærri má geta urðu allir vegir á Suður- og Vesturlandi ófærir og hér innanbæjar varð mikið umferðaröngþveiti. Fréttamenn Tímans fóru um sjöleytið í kvöld suður á Öskjuhlíð og var þá óslitin bílaröð frá Miklatorgi og suður fyrir Fossvog. Fjöldi bíla sat fastur, og höfðu margir þeirra drepið á sér í bylnum. Fjórir strætisvagnar í Kópavog og Hafnarfjörð voru þá stansaðir á leiðinni niður í Fossvog og komust ekki áfram vegna annarra bíla. Blaðið hafði tal af manni, sem lagði af stað suður í Kópavog um klukkan sex í gærkveldi, en varð að skilja við bíl sinn sunnan í Öskjuhlíð um klukkan níu, því að þá sat samfelld bílaröð, og sums staðar margföld, föst neðan frá Miklatorgi allt inn að Fossvogsbrú. Það má segja, að algert öngþveiti og stjórnleysi hafi ríkt þarna. Menn óku af Miklatorgi upp Öskjuhlíðina án þess að vita, hvað þar beið. Snjór var að vísu nokkur, en þó sæmilega fært í stórum bílum á keðjum eða snjóhjólbörðum. En ýmsir undu ekki biðinni og fóru úr slóðinni, jafnvel út um holt og hæðir til þess að reyna að komast áfram, ýmsir festust þar og þannig sat þvagan. Ég reyndi að halda mér við slóðina, sagði maðurinn og forðast að fara út í ófæru og mjakaðist þannig áfram suður á Öskjuhlíðina. En sunnan í henni stöðvaðist allt gersamlega. Þar beið ég nær tvær klukkustundir, og var þá mjög fennt að mörgum bílum þar í röðinni, enda var allhvasst og hríðarkóf mikið, svo að í hrinum sá aðeins nokkra metra frá sér. Var augljóst áð margir bílar sátu þarna alveg fastir. Einnig urðu sumir bílarnir bensínlausir, því að menn þorðu ekki annað en láta þá ganga allan tímann.
Ingólfur Pétursson hjá vegagerðinni sagði blaðinu í kvöld, að allar tiltækar vinnuvélar væru í gangi til að reyna að opna vegi og halda þeim opnum. Stór bíll með drifi á öllum hjólum og snjóplóg er að reyna að ryðja bílum leið austur yfir fjall. Hann var kominn austur í Svínahraun en sneri þar við á móts við áætlunarbílinn að Selfossi og fleiri bíla og ætlar að aðstoða þá austur í nótt. Þrátt fyrir aðvaranir Veðurstofunnar í allan dag lögðu menn á Hellisheiði. Meðal annars lögðu hjón með ungbarn upp að austan í dag á fólksbíl og var farið að óttast um þau og búið að kalla út hjálparsveit Slysavarnafélagsins í Reykjavík, þegar fregnir bárust um að fólkið hefði fengið að fljóta með jeppa í bæinn en orðið að skilja við bíl sinn á leiðinni. Búist var við að fleiri bílar kynnu að vera tepptir á leiðinni, en vonast var til að vegagerðarbíllinn myndi hjálpa þeim til byggða. Verður að teljast furðulegt ábyrgðarleysi að leggja upp í slíka ferð, eftir margendurteknar aðvaranir. Þá sagði Ingólfur, að búið væri að ryðja sjálfa Ártúnsbrekkuna og virtist ekki vera mikill snjór á veginum í Mosfellssveit, en illviðrið væri svo mikið, að ekki sæist út úr augum og bílar því stansaðir af þeim sökum. Um tíuleytið í kvöld tókst loks að opna Hafnarfjarðarveginn til Kópavogs, en það gekk mjög erfiðlega, bæði vegna veðursins og svo vegna yfirgefinna bíla, sem stóðu á veginum. En laust eftir miðnætti, þegar blaðið var að fara í prentun var þessi kafli aftur orðin ófær. Á Arnarnesi voru fjölmargir bílar fastir og var hjálparsveit skáta í Hafnarfirði komin þeim til aðstoðar með teppi og heita drykki og var reynt að hlúa að fólkinu, sem sumt var með ung börn með sér, eftir föngum. Strætisvagnaferðir fóru allar úr skorðum og sömu sögu er að segja um leigubílaakstur. Til dæmis sögðu símastúlkur á Hreyfli og BSR okkur að löng bið væri eftir bílum þar og leigubílar sátu þá fastir um allan bæ. Lítið var um áætlunarferðir úr bænum, eins og vænta má, þó var reynt að brjótast í Borgarnes, Mosfellssveit og Keflavík. Keflavíkurrúturnar voru á Arnarnesinu og í Hafnarfirði um tíuleytið, Mosfellssveitarrútan sneri við Elliðaárnar og Borgarnesrútan var þá á Kjalarnesinu og miðaði skammt.
Morgunblaðið segir 29.desember af sama áhlaupi:
Síðari hluta dags í gær skall á suðaustan hríðarbylur á Suður- og Vesturlandi og var vindhraðinn um 8 vindstig. Skapaðist fljótt hið mesta öngþveiti í umferðinni sökum dimmviðris og varð ófært bifreiðum strax og kom út fyrir Reykjavík. Þar að auki varð víða fljótlega mjög snjóþungt. Þannig höfðu Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur teppst og vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur varð ófær. Mikill fjöldi bifreiða stöðvaðist þar sökum færðarinnar en einnig vegna þess að fennt hafði inn á vélar þeirra og þær þá drepið á sér.
Versta ástand í mörg ár. Samkvæmt frásögn lögreglunnar í Reykjavík versnaði ástandið eftir því, sem leið á kvöldið. Þá höfðu strætisvagnaferðir í Kópavog einnig stöðvast og fengust þá þær fregnir af leiðinni milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, að umferð var stöðvuð á Öskjuhlíðinni og óslitin bilaröð frá Kópavogslæk og suður fyrir Arnarneshæð. Um tíuleytið voru komnir vegheflar til að skafa snjó af Reykjanesbraut á Öskjuhlíð, en voru þá orðnir hálffastir sjálfir. Fjöldi bíla hafði fests þannig, að þeir sneru þversum á veginum og lokuðu honum um leið. Stöðugar beiðnir bárust í allt gærkvöld til lögreglunnar um aðstoð frá fólki sem ekki komst leiðar sinnar og reyndi lögreglan eftir því, sem unnt var að sinna þeim, en það var ekki hægt nema að mjög takmörkuðu leyti. Telur lögreglan í Reykjavík, að hér hafi verið um versta ástand að ræða, sem skapast hefur af þessu tagi í mörg ár.
Tíminn segir enn frá þann 30.desember:
Það var vissulega vetrarlegt um að litast, þegar Reykvíkingar og nágrannar þeirra risu úr rekkjum sínum í morgun. Hvarvetna blöstu við kaffenntir bílar og samgöngur allar voru í hinum mesta ólestri, hvergi leigubíl að fá og strætisvagnar á eftir áætlun. Út um land hafa orðið minni samgöngutruflanir af völdum illviðrisins en við hefði mátt búast, og er til dæmis í kvöld bílfært austur í Vík og norður til Húsavíkur. Illviðrið var gengið yfir í morgun hér í Reykjavík og á Suðurlandi, og má segja að besta veður hafi verið á þessum slóðum í dag. Klukkan sex í kvöld var komið vont veður á annesjum norðanlands, 810 vindstig með snjókomu og einnig var hvassviðri og snjókoma á Austurlandi. Norðan til á Vestfjörðum var sömu sögu að segja, og einnig var vonskuveður á Snæfellsnesi. Annars var þurrt að kalla á Vesturlandi og fyrir austan fjall. Knútur Knudsen veðurfræðingur sagði blaðinu, að búast mætti við að vindur yrði norðaustanstæðari á næstunni og ekki myndi kólna verulega í veðri, nema eitthvað suðvestanlands. Knútur kvað nú vera alhvítt um allt land.
Hjörleifur ólafsson hjá Vegamálaskrifstofunni sagði blaðinu, að búið væri að ryðja vegi um Suðurnes og að bílfært væri um allt Suðurland um Þrengslin, austur til Víkur, og í Árnes- og Rangárvallasýslum væri yfirleitt fyrirstöðulaus vegur. Vesturlandsvegur lokaðist algerlega i Kollafirði og í Hvalfirði. en nú væri búið að ryðja þar og einnig Bröttubrekku og væri nú allfært allt vestur i Gilsfjörð. Í dag stóð til að ryðja vegi á Snæfellsnesi, en þar gerði að nýju blindbyl og varð að hætta við allt saman. Ágætt færi er til Akureyrar og þaðan til Húsavíkur. Holtavörðuheiðin varð aldrei ófær í hríðinni og yfirleitt mun minnst hafa snjóað á vestanverðu Norðurlandi. Á Austfjörðum voru vegir þungfærir vegna mikillar lausamjallar, sagði fréttaritari blaðsins á Egilsstöðum, var þar um hnédjúp lausamjöll og þar var komið hvassviðri í kvöld og má búast við að allir vegir á Austfjörðum verði kolófærir. Vegir á Suðausturlandi voru þungfærir, fréttaritari blaðsins í Hornafirði sagði okkur, að mjólkurbíll hefði ekki komist innsveitis í dag. Fréttaritarinn á Klaustri sagði okkur, að trukkar væru á leiðinni úr Vík til að sækja mjólkina, en þeim sæktist ferðin seint.
Eins og kemur fram í frétt á öðrum stað í blaðinu, lenti fólk í talsverðum hrakningum á milli Reykjavíkur og Kópavogs og Hafnarfjarðar í gærkvöldi, og raunar hér innan bæjar líka. Dæmi eru til þess að fólk hafi verið þrjá klukkutíma í strætisvagni til Kópavogs og sjö til Hafnarfjarðar og margir tóku það til ráðs að gista hjá kunningjum eða á hótelum í borginni. Í morgun voru samgöngur enn í ólestri, en þegar leið á daginn færðust þær smámsaman í eðlilegt horf.
Hér má sjá vindrit úr Stykkishólmi 29. og 30.desember. Þar var fárviðri um tíma að kvöldi 29. Þetta er næstmesti vindhraði sem mælst hefur í Hólminum, 34 m/s, hann var ívið meiri (35 m/s) í illviðrinu mikla 16. febrúar 1981 - þá blés af suðsuðaustri, en norðaustri hér.
Tíminn 31.desember:
MB-Reykjavík, 30. desember. Vonskuveður er nú um allt land og verst norðanlands. Er snjókoma suður í Borgarfjörð og hvassviðri mikið, til dæmis voru 12 vindstig á Hvallátrum klukkan fimm í dag. Hér í Reykjavík var úrkomulaust í dag, en hvassviðri mikið, svo ekki var meira en fært milli húsa í verstu hrinunum. Vegir eru ófærir um allt landið. Hjörleifur Ólafsson á Vegamálaskrifstofunni sagði blaðinu í kvöld, að lýsing hans á ástandinu á þjóðvegunum gæti verið stutt í þetta skiptið: Það eru bókstaflega allir vegir á landinu ófærir. Ég skal ekki fullyrða að ófært sé fyrir stærstu bíla um Suðurnes, en það er þá eini kaflinn. Mjólkurbílar lögðu af stað frá Selfossi klukkan 6 í morgun og brutust til Reykjavíkur og komu hingað klukkan þrjú í dag. Sést af því að leiðin austur er kolófær. Ingólfur Pétursson í áhaldahúsi Vegamálaskrifstofunnar, sagði okkur, að lítið væri hægt fyrir þeirra menn að gera utan Reykjavíkur fyrr en lægði. Hann kvað marga starfsmennina hafa lagt nótt með degi að undanförnu og mætti segja að þeir hefðu unnið á meðan þeir stóðu uppi. Í áhaldahúsi borgarinnar var okkur tjáð að öll tiltæk tæki, hvort sem þau væru í eigu borgarinnar eða annarra, væru í gangi við að reyna að halda götum borgarinnar opnum, en mikil ófærð er innanbæjar.
Ekki er fyrirsjáanlegt að dragi úr vetrarríkinu hérlendis fram yfir áramótin. Þó mun veðrið eitthvað lægja að áliti veðurfræðinga. Um áramótin áætla þeir að norðanáttin verði enn ríkjandi, úrkomulaust sunnanlands en éljaslitringur norðanlands. Eins og fyrr segir var foráttuveður um mestan hluta landsins klukkan fimm í dag. Þó er ekki mjög kalt í veðri og sums staðar var hitinn yfir frostmarki. Til dæmis var þriggja stiga hiti á Raufarhöfn og hafði þá hlýnað þar um 67 stig á þremur klukkustundum. Í Reykjavík var þá hvassviðri, 89 vindstig. Bjartviðri var á Austfjörðum og með allri suðurströndinni. Búist er við mjög slæmu veðri norðanlands í nótt. Þrátt fyrir þennan veðurofsa, er ekki kunnugt um nein alvarleg óhöpp, og ekki hefur verið leitað til Slysavarnafélagsins um aðstoð.
Lýkur hér skrifum hungurdiska um árið 1964, fjölbreytt talnaefni er í viðhenginu. Þar má sjá meðalhita, úrkomumagn og margt margt fleira.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:40 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 13
- Sl. sólarhring: 156
- Sl. viku: 1934
- Frá upphafi: 2412598
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 1687
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.