4.9.2022 | 17:58
Hugsað til ársins 1930
Tíðarfar ársins 1930 var talið fremur óhagstætt og úrkomusamt. Um mánaðamótin febrúar/mars urðu miklir vatnavextir, í Hvítá í Árnessýslu voru þeir hinir mestu um langt skeið. Mjög mörg óhöpp urðu á sjó á árinu og bátar fórust. Ekki er alltaf ljóst í hvaða tilvikum veður kom við sögu og hér er því fárra sjóslysa getið.
Í janúar voru miklir umhleypingar og fannfergi allmikið um nær allt land. Í Reykjavík er hann í hópi snjóþyngstu janúarmánaða sem mælst hafa. Í febrúar var tíð talin hagstæð austanlands, en óhagstæðari annars staðar, storma- og úrkomusamt var vestanlands, en lítil úrkoma á Norðausturlandi. Í mars var hagstæð tíð fyrstu vikuna, en síðan kuldar og fyrir norðan snjóaði. Í apríl gerði nokkur hret, en tíð var annars talin nokkuð hagstæð. Hlýtt var í veðri. Maí var hagstæður og hlýr, þó ekki alveg hretalaus. Sunnanlands var votviðrasamt í júní, snörp norðanhret gerði. Tíð talin hagstæð norðaustanlands. Júlí var hagstæður víðast á landinu, en votviðratíð var í ágúst, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Í september var hagstæð tíð á Vestur- og Norðurlandi, en votviðrasamt syðra og eystra. Í október var góð til á Suður- og Vesturlandi, en talsverður snjór norðaustanlands undir lok mánaðar. Nóvember var vindasamur. Það var talsveður snjór og samgöngur tepptust. Snjór var óvenjumikill í Reykjavík, einn sá mesti í þeim mánuði. Kalt var í veðri. Í desember var óstöðug tíð, þó talin góð á Norður- og Austurlandi. Mjög úrkomusamt suðaustanlands.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum, hjá veðurathugunarmönnum og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Þetta árið var Morgunblaðið leiðandi í fréttum af veðri. Við leyfum okkur að færa stafsetningu til nútímahorfa (að mestu). Talsvert var um að vera í veðri (eins og venjulega).
Við lítum á hvað nokkrir veðurathugunarmenn höfðu um janúar að segja:
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir mátt heita óslitin austan- og norðaustan hvassviðri allan mánuðinn. Enn snjólítið og snjólaust hér, því þó einhver snjór komi, þá er hann óðar farinn af veðrunum.
Þórustaðir í Önundarfirði (Hólmgeir Jensson): Veðrið í þessum mánuði hefur verið mjög óstöðugt. Lengstum austlæg og norðaustlæg átt, með allmikilli snjókomu, svo að kalla má að algjört jarðbann hafi verið síðan eftir miðjan síðastliðinn mánuð.
Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): Versta tíðarfar, ákaflega umhleypingasamt og snjókomur miklar.
Húsavík (Benedikt Jónsson): Veðráttan afa óstillt og stormasöm og úrkomur miklar, en ekki harðindi.
Höfn í Bakkafirði (Halldór Runólfsson): Mánuður þessi allur óhagstæður. Sífelld hríðarveður og rigningar. Í þessum mánuði tekur sjór út mann úr fjöru frá Völlum í Þistilfirði, var hann að ganga fyrir forvaða. Rak hann á land örendan eftir stutta stund.
Fagridalur í Vopnafirði (Kristján N. Wiium): Óslitin ótíð með stórviðrum og áköfum úrfellum með köflum.
Fagurhólsmýri (Ari Hálfdanarson): Tíðarfarið hefur verið óstöðugt og snjóasamt.
Vík í Mýrdal (Haraldur Jónsson): Ótíð. Stormar, umhleypingar, snjókomur og hagleysur. Nóttina milli þess 23. og 24. var hér mikill stormur; sími og rafmagnsvír slitnaði af krapa sem hlóðst á vírinn og símastaurar brotnuðu.
Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Það hefur verið óvenju snjóasamt yfir þennan mánuð.
Eins og áður sagði var mikill snjór í janúar, Morgunblaðið segir frá þann 8.janúar:
Það er langt síðan að öðrum eins snjó hefir kyngt niður hér eins og undanfarna daga. Innanbæjar, hvað þá á vegunum utan við bæinn, hafa bílferðir stöðvast og bílar teppst í snjó. Hefir svo að segja tekið fyrir mjólkurflutninga úr sveitunum til Reykjavíkur, nema það sem flutt hefir verið á bátum eða sleðum. Í fyrradag tepptust bílferðir til Hafnarfjarðar. Komst aðeins einn bíll héðan og var 56 tíma á leiðinni. Aðrir sneru aftur, eða urðu fastir í snjó. Um morguninn hafði snjóbíllinn farið yfir veginn og rutt snjónum út af í hauga báðum megin, en svo fennti og skefldi í farið og varð vegurinn ófær. Bíllinn var síðan sendur upp Mosfellssveitarveginn til að moka þar, en þar varð hann fastur. Í gærmorgun voru 9 bílar frá Steindóri fastir í snjó hingað og þangað höfðu teppst í fyrradag. Þrír þeirra voru fyrir sunnan Hvaleyri, einn í Kópavogi, einn hjá Blönduhlíð, tveir hjá járnbrautinni og tveir syðst á Laufásveginum. Höfðu þessir bílar ýmist ætlað suður eftir, eða voru að koma að sunnan. Auk þess voru ýmsir aðrir bílar fastir í snjó á vegunum, t.d. bæði flutningabílar og fólksbílar á kafi í snjó syðst á Laufásveginum og hjá járnbrautinni, nokkrir inni á Kleppsvegi og víðar. Fólkið, sem var í bílunum, er ætluðu milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, var ekki þannig útbúið að það gæti farið langt gangandi í öðru eins veðri og þá var, og varð að koma sumu þeirra fyrir á bæjunum hér á milli, t.d. í Leynimýri. Er það ósiður, sem fólk ætti að venja sig af, að útbúa sig illa í bílferðir, sérstaklega að vetrarlagi.
Ekki var bara snjór fyrir sunnan, Morgunblaðið segir af hríð á Siglufirði í pistli þann 12.janúar:
Siglufirði FB 11. janúar. Austan og norðaustan stórhríðar hafa verið hér í meir en viku undanfarandi með veðurofsa og fannkomu. Um ellefuleytið í gærkvöldi fauk alveg þakið af húsi Matthíasar Hallgrímssonar kaupmanns. Fólkið bjargaðist nauðlega út, en án þess slys yrði af. Þakið lenti á Félagsbakaríinu og braut þar reykháfinn og þakið, fauk þaðan á hús Jóns Gunnlaugssonar, og braut stórt gat á norðurgafl efrihæðar.Auk þess urðu minni skemmdir á fleiri húsum, svo og á símalínum og ljósameti bæjarins. Stórfenni hefir lagst yfir nokkur fjárhús og geymsluhús. Í dag er austan stórhríð.
Morgunblaðið birti á þessum árum pistla sem það kallaði vikuyfirlit - einskonar forveri Reykjavíkurbréfs líklega. Þar var alloft minnst á veður (en ekki alltaf). Í pistlinum þann 19. janúar segir:
Norðaustangarðurinn sem talað var um í síðasta vikuyfirliti hélst á Norðurlandi fram á miðvikudag [15. janúar]. Þá birti upp. Var bjart og gott veður á fimmtudaginn; en á föstudag skall á norðanhríð að nýju, og hélst fram til helgarinnar. Á Suður- og Austurlandi hefir veðráttan verið breytilegri. Hlánaði á þeim landshlutum á föstudag. En á laugardaginn skall aftur á þar sami norðangarrinn sem áður með frosti.
Svo komu fréttir af snjóflóðum, Morgunblaðið segir frá 22. janúar:
Seyðisfirði, FB. 20.janúar. Snjóflóð nokkur hér við fjörðinn um fyrri helgi og urðu nokkrar símaskemmdir af þeirra völdum. Eitt þeirra féll á sunnudagsnótt þ. 12. þ.m. og tók grindahúsin með bryggju í sjó fram. Gereyðilagðist annað húsið. Í enda hins hússins bjuggu þrír menn. Björguðust þeir allir. Snjóþyngsli mikil. Hreindýraflokkar eru komnir á Úthérað.
Og áfram heldur Morgunblaðið 23.janúar:
Flateyri 21. janúar. Hinn 19. janúar kl.16 féll snjóflóð á bæinn Grafargil í Mosvallahreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Fólkið bjargaðist allt, en bærinn og flest hús brotin og innanstokksmunir allir undir rústunum. Aftaka veður var á. Bóndinn náði þó í mannhjálp, en heimilisfólk hafðist við í bæjarrústunum til næsta dags. Þá var bjargað öllum fénaði nema þrem hrossum og 6 kindum.
Ísafirði FB. 22. janúar: Um síðastliðna helgi féll snjóflóð á Norðureyri í Súgandafirði og fórust 45 kindur, en 15 meiddust. Fjósið skemmdist. Tíð mjög umhleypingasöm. Gæftir því nær engar.
Enn segir af snjóþyngslum í vikuyfirliti Morgunblaðsins 26.janúar:
Sami veðrahamurinn sem var mesta fyrri viku, hélst vikuna sem leið að mestu. Snjóþyngsli eru nú svo mikil víða um sveitir norðan og austanlands, að slík munu ekki hafa þar komið síðasta áratug.
Veðrátta í febrúar var með nokkuð öðrum hætti. Suðlægar áttir ríkjandi með mikilli úrkomu á Suður- og Vesturlandi og endaði með óvenjumiklum vatnavöxtum víða um land.
Lambavatn: Það hefir verið stórgert og óstöðugt. Stórgerð sunnan- og suðvestanátt með stórgerðu brimi og veðrum. Oftast snjólítið.
Hraun í Fljótum: Tíðarfarið hefur verið mjög vindasamt og rosasamt og ónotalegt fyrir menn og skepnur, jafnvel þótt frost hafi sjaldnast verið mikil.
Fagridalur í Vopnafirði: Þann 7. byrjaði að hlána og úr því kom góð tíð og varð góð jörð, alautt síðustu dagana, en nokkuð óstöðugt og vindasamt.
Papey (Gísli Þorvarðsson): Tíðin mjög mild. Tún og úteyjar slá á grænan lit, en mjög vindasamt, stundum stormar.
Vík í Mýrdal: Yfirleitt hagstæð tíð fyrir landbúnað, hlýtt en úrkomusamt, Brimasamt.
Morgunblaðið segir í yfirliti 9. febrúar:
Veðráttan þessa viku hefir verið breytileg, byrjaði með austanátt og hlákublotum, einkum á Suðurlandi, en um miðja vikuna breyttist í stillur með frosti og hreinviðri. Á föstudag brá til sunnanáttar og hláku um allt land. Var asahláka hér á laugardag og rigning, en hiti var þá 7-8 stig um allt land.
Morgunblaðið 16. febrúar - vikuyfirlit:
Tíðarfarið breyttist til batnaðar þessa viku, frá því sem var áður. Samfeld hláka um land allt, fyrstu 4 daga vikunnar, segir Veðurstofan, með suðvestan átt, og allt að 67 stiga hita. Mikil leysing á Norður- og. Austurlandi, svo snjólaust er nú á láglendi, þar sem til hefir frést. Á fimmtudag [13. febrúar] gekk til vestanáttar með snjóéljum, og aðfaranótt föstudags gekk hann í norðrið með 56 stiga frosti á Norðurlandi. Gerði þá lítið föl. Á laugardag hægviðri um land allt, með 36 stiga frosti norðanlands.
Morgunblaðið 23. febrúar - vikuyfirlit:
Vestanáttin og hlákublotarnir sem héldust vikuna á undan, héldu áfram þessa viku til fimmtudags, með snjó- og krapaéljum. Á fimmtudag [20. febrúar] kom á snörp vestanátt með hríðarbyljum um allt suðvestur, vestur- og vestanvert Norðurland. Hélst það veður til föstudagskvölds. Á laugardag snerist til suðaustanáttar. Á Austurlandi hefir verið bjart veður alla vikuna, en stundum hvasst af vestri. Hlýjast þar, t.d. allt að 9 gráða hiti á Seyðisfirði.
Morgunblaðið er með febrúarfréttir af Norðausturlandi þann 4.mars:
Af Langanesströnd. 12.febrúar FB. Telja má að tíðin hafi verið sæmilega góð fram yfir hátíðarnar oftast þítt og snjólétt lengst af. En upp úr nýárinu gekk i sífeldar norðan og norðaustan stórhríðar með frosthörkum og mikilli fannkomu. Setti þá niður svo mikinn snjó, að slíkur mun ekki hafa komið hér í tólf ár. Urðu menn að taka hverja skepnu í hús, því að algerð jarðbönn urðu á öllum bæjum í sveitinni. Voru menn lítt undir þetta búnir og gripahús víða í ólagi. Nú er tíðin aftur farin að batna og snjórinn mikið farinn að síga, en þó er viðast hart til jarðar enn.
Þórshöfn, FB. í febrúar. Ódæma fannkoma. Allt fram að áramótum var hin besta tíð og gekk sauðfé og hestar alsstaðar sjálfala. En upp úr nýári fór að versna tíð og tóku þá flestir sauðfé á hús. Kringum 9. janúar gekk í stórhríðar með fádæma fannkomu, svo nær varð ófært bæja milli. Tóku þá nær allir bændur sauðfé og hesta á fulla gjöf.
Mars byrjaði með flóðum - en síðan snerist vindur til norðlægra átta. Úrkomu var þá nokkuð misskipt, mjög þurrt var sums staðar inn til landsins á Suður- og Vesturlandi. En mestar fréttir voru af flóðum í upphafi mánaðarins - við styttum þær talsvert hér.
Morgunblaðið segir frá 2.mars:
Hláka og þíðviðri hélst svo til óslitið um allar byggðir landsins þessa viku, með sunnan og suðaustan átt. Eftir þeim fregnum, sem Veðurstofan hefir fengið, mun nú vera auð jörð um allar lágsveitir landsins. Á fimmtudagskvöld [27.febrúar] snerist til norðanáttar með nokkurra stiga frosti á Norðurlandi. Gerði þá föl um nóttina, er hvarf aftur næsta dag.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins (jafngild sjávarmálsþrýstingi) síðdegis 28.febrúar. Mikil hæð er yfir Bretlandseyjum [1037 hPa], og vestan við hana er áköf sunnanátt langt sunnan úr höfum, þrungin raka og hlýindum. Mikil líkindi eru með þessari stöðu og þeirri sem var uppi í Hvítárflóðunum miklu 1948 og 1968. Mikil úrkoma og þar að auki gríðarleg snjóleysing á hálendinu.
Og Alþýðublaðið 3.mars:
Þegar fréttist hingað í gær um að Hvítá flæddi yfir Skeiðin og FLóa, héldu menn í fyrstu að hér væri um jakastíflun að ræða. Síðar, þegar fréttist um að óvenjumikill vöxtur væri í Hvítá í Borgarfirði og í Héraðsvötnum í Skagafirði héldu menn að hér hlytu eldsumbrot og jökulhlaup að valda og var þó erfitt að hugsa sér, nema eldsumbrot væri bæði í Langjökli og Hofsjökli. Þegar svo fréttir komu um óvenjulegan vöxt í Eyjafjarðará og Vatnsdalsá, sem báðar eru bergvötn, var auðséð að hér var að eins um óvenjulega leysing að ræða. Skýringin á þessum snöggu og áköfu vatnvöxtum mun vera þessi (og hefir blaðið hana eftir Jóni Eyþórssyni veðurfræðing). Hlákurnar undanfarna viku hafa ekki náð til hálendisins fyrr en föstudag [28.febrúar] og laugardag, en þá verður hitinn hér 89 stig og 10 stig norðanlands. Sjálfsagt hefir verið mikill snjór á hálendinu, sem hefir þiðnað bæði af hlýjunni og af rigningunni, því gera má ráð fyrir að mikið hafi rignt uppi á hálendinu. Hér sunnanlands rigndi 35 mm og 29 mm á Norðurlandi. En það sem hefir valdið þessari feikna hláku er að heitur loftstraumur hefir streymt norður á Ísland, beina leið sunnan frá Azoreyjum. Hefir kaldan loftstraum lagt suður Grænland suður á Labrador og Nýfundnaland og síðan út yfir Atlantshaf. Var 15 stiga kuldi í Suður-Grænlandi, en í Kape Race á Nýfundnalandi var ekki minna en 18 stig frost. Aðfaranótt sunnudags [2.mars] fyllti lægðina, sem var milli kalda loftstraumsins er fór suður og heita loftsins, er streymdi hér norður á Ísland og kólnaði þá hér um 8 stig og þornaði upp.
Víðtal við Auðunn að Dalseli í Vestur-Eyjafjallahreppi milli Ála og Markarfljóts. Blaðið átti í morgun tal við Auðun í Dalseli, er sagði svo frá: Geysilegir vatnavextir hófust hér eystra á föstudag og jukust laugardag og munu hafa orðið mestir aðfaranótt sunnudags. Öll vötn hér uppbelgd af vatni: Dalselsáll, Fauski, Markarfljót, Þverá og Affallið. Engar skemmdir hafa orðið hér það mér sé kunnugt.
Viðtal við Runólf Jónsson á Svínafelli í Öræfum. Hlákur hafa gengið hér afskaplega miklar í 7 eða 8 daga og ógurlegt vatnsrennsli verið úr fjöllunum. Hafa tvær skriður fallið, heil jarðföll, féll önnur á laugardaginn, en hin í gær (sunnudag). Féll hún á hesthús þar sem voru inni sex hestar, Sundraði skriðan húsinu, og varð 4 hestum að bana, en 2 hestarnir sluppu lifandi og ómeiddir.
Viðtal við Einar Brynjólfsson í Þjórsártúni Þjórsá hefir ekki verið svona mikil í mannaminnum, segir Einar, er við áttum tal við hann í morgun, hún var mest í gær, en er nú farin að minnka, en þó er það ekki mikið. Hvítá rann inn á Skeiðin að ég held báðum megin við Vörðufell, en Þjórsá hefir engan skaða gert þó hún sé svona mikil.
Viðtal við Elísabet Fjeldsted að Ferjukoti. Hér byrjaði vöxtur í Hvítá (í Borgarfirði) aðfaranótt föstudags og varð áin mest á laugardaginn. Skemmdir hafa orðið víða þannig, að áin hefir brotið úr bökkum og líka hefir vegurinn skemmst, en aðrar skemmdir hafa ekki orðið. Áin varð álíka mikil og þetta um jólaleytið í hitt eð fyrra.
Viðtal við Halldór Friðjónsson á Akureyri. Hér gengu afamiklar rigningar laugardag og föstudag, sem er alveg einsdæmi með sunnanátt og suðvestanátt og Pollurinn er, af vatni úr Eyjafjarðará, eins mórauður og mest í vorleysingum.
Viðtal við Elínborgu Guðmunds á Sauðárkróki. Hér hafa orðið stórfenglegir vatnavextir og meiri en dæmi eru til. Brú tók af Grafargilsá Seyluhreppi og það flæddi alveg yfir veginn, sem liggur austur Hólminn. Aftur á móti er ekki rétt, sem ég hefi heyrt, að sagt væri í Reykjavík, að vatnið hafi flóð alveg yfir Hólminn. Flóðið er nú mikið minkað, enda komið frost hér.
Morgunblaðið segir af vatnavöxtunum í fréttum þann 4. mars:
Stórkostlegir vatnavextir urðu núna um helgina víða um land, en hvergi þó meiri en í Hvítá syðri. Flæddi hún yfir Skeið og Flóa og muna elstu menn ekki jafn mikinn vöxt í henni. Eftirfarandi skeyti um vatnavexti þessa bárust Morgunblaðinu á sunnudaginn.
Ölfusárbrú, kl. 5 síðdegis Stórflóð skall hér á úr Ölfusá í nótt og fyllti kjallarann í Tryggvaskála. Síðan hefir flóðið farið vaxandi fram að þessu og er vatnið komið upp í stofur skálans og er þar fet á dýpt. Jafnframt er flóðið komið upp í skörð stöplanna undir Ölfusárbrú og hefir grafið sér farveg í gegnum þjóðveginn austan við brúna, svo að þar verður ekki komist nema á ferju. Hvítá flæðir niður Flóann og er Flóavegurinn ófær nálægt Bitru og Skeggjastöðum, svo að landpóstur kemst ekki leiðar sinnar.
Ölfusárbrú, kl.6:45. Bát hvolfdi áðan undir ferjumönnum, sem voru að fara yfir elfuna, er brotist hefir í gegnum þjóðveginn austan við Ölfusárbrú. Lá nærri, að þeir drukknuðu. Fólkið flýr nú úr Tryggvaskála.
Á Skeiðunum. Þaðan fréttist á sunnudagskvöld, að Hvítárflóðið næði alla leið austur að Hlemmiskeiði, og að nokkrir bæir væru umflotnir. Væri ekki hægt að komast nema á ferjum að bæjunum Útverkum, Fjalli, Árhrauni og Ólafsvallatorfu. Alls staðar, þar sem flóðið hefir hlaupið heim á bæi, hefir það valdið miklum skemmdum, sérstaklega á heyjum. Er talið, að vatn hafi komist í hlöður á flestum bæjum á Skeiðum
Kiðjabergi, FB. 3. mars: Eftir miklar úrkomur og lofthita að undanförnu fór Hvítá að vaxa fyrir nokkrum dögum. Áin óx ekki brátt, en stöðugt, og var orðin mikil á föstudag, en á laugardag var komið afar mikið flóð. Muna engir annað eins flóð hér um slóðir. Áin er um 120 faðma breið hér fram undan og mun hafa hækkað fast að sex álnum [3,5 m]. Víða flæddi áin yfir, þar sem enginn man til að flætt hafi yfir áður. ... Áin mun hafa runnið alveg yfir Bræðratunguengjar heim að bæ, yfir alla Skálholtstungu upp að Skálholtshálsum. Bærinn Reykjanes í Grímsnesi, við Brúará, var umflotinn, og varð ekki í tvo daga komist úr bænum. Bátur úr Skálholti komst þangað í morgun. Vatnið var á miðjar síður á hestunum í hesthúsinu í Reykjanesi.
Enginn maður, í þeim sveitum eins vöxt í henni, og þeir, sem kunnugastir eru, fullyrða, að annað eins flóð hafi ekki komið í 64 ár, enda hafði verið látlaus stórrigning í sjö dægur að undanförnu. Flóðið ,fór fyrst yfir Biskupstungurnar og var þar eins og sjó að sjá, sérstaklega umhverfis Bræðratungu. Síðan fór það yfir Skeiðin og voru þau um tíma sem eitt haf. Hljóp flóðið svo í Hestvatn og yfir Grímsnesið neðst. ... Um hádegi í gær hafði vatnsborð Ölfusár lækkað um eina tvo metra frá því sem það var hæst, við brúna. Var áin þó svo vatnsmikil þá, og hrikaleg ásýndum, að svipmikil sjón var að horfa yfir hana, þar sem hún beljaði fram kolmórauð og í hvítfyssandi straumköstum. Bændur austanfjalls eru þess fullvissir, að aldrei hafi komið eins mikið flóð í Hvítá sem nú í síðustu 130 ár a.m.k., með sama hætti og nú. Það furðulegasta er, að öll vötn voru auð, er flóðið skall yfir, og er því eigi um jakastíflur að ræða, sem aukið gætu flóðin. Á Skeiðum mun hafa flætt eins mikið og nú fyrir 64 árum. En þá lögðu þær saman Hvítá og Þjórsá. Nú flóði Þjórsá hvergi yfir bakka sína.
Norðurá í Borgarfirði flæddi svo mikið fyrir neðan Dalsmynni, að vegurinn varð þar algerlega ófær. Á Hvítárbakka fór. flóðið um allt tún, umkringdi fjárhús, sópaði áburði af túninu og eins á næstu bæjum, og skemmdi smábrýr og vegi. Sama máli er að gegna í Stafholtstungum. Hjá Ferjukoti byrjaði flóðið á föstudaginn og varð mest á laugardag rann þá inn í hús þar og víðar. Vegurinn vestan við Ferjukot skemmdist stórkostlega, er nú ófær bílum og hestvögnum, og er það mjög bagalegt, þar sem ekki verður gert við hann á þessum tíma árs.
Morgunblaðið átti tal við sýslumanninn á Blönduósi í gærdag. Var hann þá nýkominn vestan úr sýslunni og sagði, að fyrir helgina hefði verið gríðarmikill vöxtur í öllum ánum þar. Miðfjarðará hljóp yfir alt Melsnesið, og var þ>að eins og einn fjörður yfir að líta, en ekki hljóp áin heim á neina bæi, því að þeir standa svo hátt. Maður, sem fylgdi presti yfir ána á sunnudaginn, varð að hleypa á sund á sunnudaginn til þess að ná brúnni. Víðidalsá og Vatnsdalsá voru með öllu ófærar á laugardaginn.
Daginn eftir, 5.mars, heldur Morgunblaðið áfram með flóðafréttir:
Í gær bárust hingað fregnir um það, að svo mikill hefði vöxturinn verið í Hvítá hjá Brúarhlöðum að hún hefði skollið á brúnni og sópað henni burtu. Á einum bæ í Biskupstungum, Lambhúskoti, sem er ein af jörðunum í Bræðratunguhverfinu, missti bóndinn allar ær sínar nema tvær. Bóndinn heitir Bjarni Gíslason, og voru fjárhús hans á bökkum Hvítár, suður af Pollengi. Þar hefir hann haft ær sínar undanfarna vetur. Á föstudaginn varð ekki komist til fjárhúsanna, vegna flóðsins, og ekki fyrr en á mánudag. Var þar ljót aðkoma, því að þar lágu um 70 dauðar i húsunum, en aðeins tvær voru lifandi og stóðu þær ofan á skrokkum hinna. Að Árhrauni varð ekkert slys.
Tryggvaskála, FB 4. mars. Í gær varð komist að Árhrauni en þar var betur ástatt en búist hafði verið við engin skepna drepist. Menn komust ekki í hús þar fyrr en vatnið fór að fjara út, en þá kom í ljós að vatn hafði ekki náð í húsin til nokkurra muna. Skepnutjónið á Skeiðunum varð svipað og giskað var á í byrjun, um 100 fjár og 1 hross. Í Norðurgarði fórust 47 kindur, á Útverkum 34 og á Minni-Ólafsvöllum 17 fjár og 1 hross. Sauðir frá Vesturkoti voru niðri á svokölluðu Merkurhrauni fyrir sunnan Ólafsvallahverfið og er enn óvíst, hvort þeir hafa sloppið. Ölfusá er nú komin aftur í sinn gamla farveg, en mikið flug er í henni enn. Í allan gærdag var unnið að því að lagfæra veginn við brúarstöpulinn og verður því verki haldið áfram í dag.
Vegarskemmdir hjá Tungufljóti. Torfastöðum, FB 4. mars. Flóðin urðu miklu meiri en jökulflóðin í sumar. Man enginn hér önnur eins flóð. Fjárskaðar urðu hvergi nema í Lambhúskoti. Mun bóndinn hafa átt milli 6070 fjár og misst allt nema 2 kindur. Hins vegar kom vatn upp í öllum hlöðum og skemmdist hey mikið. Sumstaðar var vatnið mannhæð í hlöðunum. Er nú mikið farið að minnka. Skemmdir urðu við Tungufljótsbrúna, þannig, að vatnið gróf sig í gegnum uppfyllinguna bak við eystri stöpulinn, en stöplar brúarinnar og brúin sjálf er ósködduð. Er komið allstórt skarð þarna og verður brúin sem stendur ekki nema fótgangandi mönnum að notum. Hefir stigi verið fluttur að brúnni, svo menn komist yfir í skarðið í uppfyllingunni.
Borgarnesi, FB 4. mars. Í Norðurárdal var afar mikið flóð, en skemmdir litlar, helst smáskemmdir á vegum. Vatnið mun hafa farið í kvið á hesti á kílómeterssvæði, þegar flóðið var mest. Skemmdir eru ekki teljandi af völdum flóðsins nema á veginum yfir Ferjukotssíkið. Vegurinn mun hafa skolast burtu niður að grunni á 12 metra svæði og mun brúnin hafa losnað frá á löngum kafla. Vegurinn hefir farið þarna áður, sem kunnugt er. Er vegarlagningin miklum erfiðleikum bundin, mikil upphleðsla og erfið aðstaða. Engin tök munu vera á að lagfæra veginn svo hann komi að notum fyrr en í vor.
Tungufljót í meira vexti en í sumar. Það sagði síra Eiríkur, að miklu meiri vöxtur hefði komið í Tungufljót núna heldur en í sumar, þegar mikla jökulhlaupið varð. En nú er flóðið farið að sjatna mikið, að vísu vöxtur í ánum, en. þær hættar að flæða yfir bakka sína þar efra.
Morgunblaðið birti þann 9. mars viðtal við Jón Eyþórsson veðurfræðing:
Um orsakir stórflóðanna um síðastliðna helgi, segir Jón Eyþórsson veðurfræðingur. Fyrri hluta vikunnar var sunnan og suðvestanátt með 24 stiga hita í lágsveitum. Eftir því að dæma hafa frostmörk verið í nál. 600. metra hæð. Snjóað hefir á hálendi ofan við 600 metra yfir sjávarmál þá daga, en úrkoma var mikil. Á föstudaginn þ. 28. febrúar skall óvenjuleg hitabylgja yfir landið af suðvestri. Loftstraumar þeir hafa komið langt sunnan yfir höf. Á Suðurlandi var hitinn 810 stig, á Norður- og Austurlandi 1015 stig í byggð. Í 1000 metra hæð yfir sjávarmál, þ.e. upp um hálendið, hefir hitinn þá verið um 57 stig. Nýfennið frá síðustu dögun hefir þá leyst svo að segja i svipan, og af því hafa flóðin fengið mestan vöxt sinn.
Bændur austan fjalls hallast að þeirri skoðun, að jökulhlaup hafi átt sinn þátt í því, hve mikill vöxtur hljóp í Hvítá. En Jón Eyþórsson telur það vart geta komið til greina, heldur sé orsakakeðjuna að rekja til úrfella og hitabreytinga. Um flóðið á Skeiðum fá menn glögga hugmynd af greinargerð Eiríks Jónssonar í Vorsabæ, sem birtist hér í blaðinu.
Í Morgunblaðinu 9, mars má einnig finna ítarlega frásögn Eiríks Jónssonar oddvita á flóðinu á Skeiðum. Þar segir í lokin:
Það má segja að Hvítá flæði hér eitthvað yfir á hverju ári. En venjulega koma flóðin ekki að sök - fénaði t.d. óhætt í húsum þeim sem nú flæddi inn í. Síðasta flóð sem komið hefur á undan þessu er nokkuð kvað að kom í apríl 1907. Kom það þó ekki að sök. En mesta flóð sem núlifandi elstu menn muna komu um jólin (að öllum líkindum) 1865. Í því flóði fórust nokkrar ær. Var þá hætt komið að 2 menn sáluðust úr kulda og vosbúð, er urðu að hafast við uppi á fjárhúsþaki úti í flóðinu heila nótt. En þess á milli hafa komið mörg smærri flóð er eigi fara sögur af. Eftir því sem gamalt fólk skýrir frá, mun þetta flóð hafa verið alt að einum meter hærra en mestu flóð sem sögur fara af. Flæddi í þetta sinn yfir alt að því helming af öllum Skeiðunum, og var flóðið á láglendinu umhverfis Útverk og Ólafsvallahverfi frá 2-4 metrum að dýpt. Nánar verður þetta athugað síðar. Menn telja hér víst að jökulhlaup hafi átt sinn þátt í því hve flóð þetta var mikið. Þótti ekki einleikið hver ört það óx. Frá því klukkan 4 e.h. á laugardag til kl.6 á sunnudagsmorgun hækkaði flóðið um 1,5 meter. Fyrri flóð hafa hækkað hægt og hægt í 2-3 daga, einkum þegar snjór hefir Það má segja, að hvert óhappið hafi rekið annað, sem dunið hafa yfir þessa sveit síðastliðið ár.
Símon Jónsson bóndi á Selfossi hefir skrifað Morgunhlaðinu þessa fróðlegu grein um fyrri hlaup Ölfusár og hvernig á því stóð, að brúin yfir ána var höfð hærri heldur en gert var ráð fyrir í fyrstu.
Þess skal hér getið að álíka hlaup kom í Ölfusá og Hvítá fyrir rúmum 40 árum, hinn 10. janúar 1888. Þá höfðu verið stórrigningar af hafsuðri í nærfellt viku. Áður höfðu verið frost og hreinviðri svo að öll vötn voru á ísi. Braut nú Ölfusá af sér klakann og bar hrannarburð af jökum fram og varð flóðið þá litlu lægra en nú hjá brúarstæðinu. Varð hámark þessa flóðs til þess að Tryggvi Gunnarsson, er stóð fyrir stöplagerð brúarinnar, lét hækka stöplana frá upphaflegri teikningu og lengja landbrúna að austan og gera þann brúarsporðinn sem árstraumurinn reif nú í sundur.
En síðan snerist til norðlægra átta. Morgunblaðið segir frá þann 16.mars:
Svo til óslitin norðanátt hefir haldist alla þessa viku, með allmiklu hvassviðri og hörkufrosti, en lítilli snjókomu. Frostið hefir víðast hvar verið 710 stig, en talsvert meira i köldustu byggðarlögum og komst í 28 stig á fimmtudagsmorgun á Grímsstöðum á Fjöllum.
Morgunblaðið 22.mars:
Siglufirði, FB. 20. mars. Í dag og undanfarna daga stórhríð á norðan með tíu til fjórtán stiga frosti. Í dag er níu stiga frost. Mikil fannkoma. Útlitið bendir til þess að ís sé nálægur. Lausafregn hermir, að tvo hafísjaka hafi rekið á Úlfsdalafjörum í fyrradag og að íshroði sjáist úr Grímsey.
Morgunblaðið 23. mars:
Um helgina var veður stillt um land allt, og fram á þriðjudag. En á miðvikudaginn skall á norðangarður með 812° frosti og ofsaveðri, er hélst fram á föstudag.
Segja má að illa hafi litið út með hafís þann 23. mars. Sumarið áður, 1929, hafði verið töluverður ísslæðingur á Húnaflóa og við Strandir. Ekki var hér langur tími liðinn frá allmiklum hafísárum snemma á öldinni og voru þau í fersku minni fjölda manna - og sömuleiðis hin miklu ísaár síðustu áratugi 19. aldar. En þetta virðast bara hafa verið dreifar, ísinn hvarf fljótlega alveg. Ágæt samantekt um ískomuna 1930 er að finna í Ægi 1931. Sennilega er það Bjarni Sæmundsson sem tekur saman:
Snemma í marsmánuði varð vart við hafís út af Straumnesi og um miðjan mánuðinn sást hann frá Grímsey. Um 22. mars var komið hrafl af ís inn fyrir Reykjarfjörð. Síðast í mánuðinum var hrafl af hafís komið inn á Patreksfjörð, og um líkt leyti var hann orðinn landfastur í Grímsey. Samgöngur tepptust þó hvergi og flest skip héldu áfram ferðum sínum, þó sneri Drottning Alexandrína við á leið sinni 31. mars frá Siglufirði til Reykjavikur og fór austur um land. ísinn stóð stutt við og fór fljótlega aftur, og varð hans ekki vart á grunnmiðum síðar á árinu.
Morgunblaðið 30.mars:
Ísinn sem sást frá Grímsey, Húnaflóa og Ísafjarðardjúpi um síðustu helgi hvarf frá landinu fyrstu daga vikunnar og hefir ekki sést til hans síðar.
Dagur á Akureyri segir af óhappi í pistli þann 3. apríl:
Snjóhengja sprakk fram úr brekkunni í innbænum á laugardaginn [29.mars] og urðu þrír drengir fyrir henni; fóru tveir þeirra í kaf og varð að moka þá upp; var mannhæð ofan á annan, og var hann orðinn dasaður þegar upp kom.
Morgunblaðið 6.apríl
[Sunnudag] 30. mars til 5. apríl. Veðrið. Fyrir síðustu helgi var norðangarður. En um helgina stillti til. Var á mánudag [31. mars] stillt veður, en á þriðjudaginn hvessti af suðaustri og hlánaði á Suður- og Austurlandi. Síðan gekk til sunnanáttar með hlýindum um land alt, og 68 stiga hiti um miðjan daginn. Hefir síðari hluta vikunnar verið mikil leysing á Norðurlandi. Þó er þar ekki enn auð jörð, því mikilli fönn kyngdi niður í norðangarðinum. Ís sást frá Grímsey og Vestfjörðum í byrjun víkunnar, en hann hvarf alveg er brá til sunnanáttar.
Alþýðublaðið segir þann 6. apríl frá hvassviðri í Reykjavík:
Um ellefuleytið í gærkveldi fuku bifreiðaskúrar hjá B.S.R. sem voru byggðir um daginn í gamla B.P. portinu suður á Melum. Skúrar þessir voru fyrir 6 bifreiðar. Um leið og þeir fuku, slitu þeir ljósalínuna suður á Grímsstaðaholt, og brutu tvo ljósastaura. Varð því algerlega ljóslaust á Grímsstaðaholti. Tvær bifreiðar voru i skúrunum, en þær stóðu eftir og skemmdust ekki.
Morgunblaðið 13. apríl:
Vikan 6. til 12. apríl: Hlýindin, sem byrjuðu í vikunni á undan, héldust með sunnan- og suðaustanátt, þangað til á föstudag {11.apríl]. Þá brá til norðanáttar með hríð á Vestfjörðum, og var hríðarveður þar og á Norðurlandi laugardag, með nokkurra stiga frosti. Aðfaranótt mánudags var suðaustan rok á Suðvesturlandi, með mikilli rigningu. Annars hefir veður verið hægt þessa viku.
Morgunblaðið 27.apríl - vikuyfirlit:
20. til 26. apríl. Næstu viku á undan voru hlýindi um land allt með hægviðri. Hélst sú veðrátta fram til 21. apríl [2. páskadags]. Þá snerist til norðanáttar og varð úr hinn versti norðangarður, með fannkomu á Norður- og Austurlandi svo og Vestfjörðum. Frost var þó lítið sem ekkert í lágsveitum, en á Vestfjörðum var nokkurra stiga frost. Á Austur. og Suðurlandi hélst norðangarðurinn fram á fimmtudag [sumardaginn fyrsta, 24. apríl] en á Vestfjörðum alt þangað til á aðfaranótt laugardags. Margir óttuðust að í þessu páska- og sumarmálahreti mundi ísinn koma upp að landinu. En engar ísfregnir fékk Veðurstofan á laugardag. Þá var þó bjartviðri og hefði átt að sjást til íssins, ef hann væri einhversstaðar nærri landi. Illviðri þetta, sem geisaði yfir landið, náði ekki yfir langt svæði. Á Jan Mayen var t.d. hlý austanátt, og eins var gott veður í Grænlandi. En vegna þess hve garðurinn náði lítið yfir Norðuríshafið, hefir hann minni áhrif haft á ísrek. Stormur var og austlægur, og því minni hætta á að ísinn ræki upp að landinu.
Morgunblaðið 4.maí - vikuyfirlit:
27. apríl til 3. maí. Eftir sumarmálahretið, er endaði þ. 26.apríl, brá til hægrar sunnanáttar, er hélst svo til óslitin alla þessa viku, með hlýindum. Á fimmtudag brá þá snöggvast til norðanáttar á Norðurlandi, með snjókomu í útsveitum á Norðausturlandi, og helst kuldinn á þeim slóðum, aðeins 1° hiti á Langanesi og þar um slóðir á laugardag, en annars 610° hiti um land alt. Á föstudag hvessti snöggvast af suðaustri á Suðurlandi. Annars óslitið hægviðri þar með hlýindum, og er jörð talsvert farin þar að gróa.
Vísir birtir fréttir úr Mýrdal 16.maí:
Úr Mýrdal. 1. maí. Tíðarfar allgott, gerði þó slæmt norðankast upp úr páskum. Á annan páskadag [21. apríl] var hér með hvössustu norðanveðrum; gerði þó ekki mikinn skaða. Þó fauk þak af bátaskýli við Jökulsá. Gróður beið ekki stórkostlegan hnekki við norðankast þetta, annars er spretta fremur léleg, sökum of mikilla þurrka.
Morgunblaðið 24. maí:
Siglufirði, FB. 23. maí. Suðvestan ofsarok í gær og dag. Margir bátar voru á sjó í gær, en komust allir klakklaust í höfn.
Morgunblaðið 1. júní - vikuyfirlit:
25.31. maí. Vikan byrjaði með vestan átt og skúrum á Vesturlandi, en þurrviðri á Norður-og Austurlandi. Á þriðjudag [27.maí] gerði norðangarð með hríð og 12 stiga frosti á Vestfjörðum, en rigningu og kalsa á Norður- og Austurlandi. Þetta veður hélst fram á fimmtudag, en þá brá til austanáttar og hlýinda. Á föstudagskvöld [30.maí] gerði suðaustan hvassviðri á Suðvesturlandi, en síðan hefir haldist fremur hæg sunnan- og vestanátt með rigningu, einkum á Suður- og Vesturlandi.
Morgunblaðið 3. júní:
Borgarnesi PB 2. júní. Óþurrkatíð að undanförnu í héraðinu. Grasspretta ágæt. Skepnuhöld eru góð yfirleitt. Þó hefir allmargt af lömbum veikst og drepist í Sveinatungu. Unnið er að viðgerðum á veginum yfir Ferjukotssíkið, sem skolaði burt í flóðunum í vetur. Verkið er erfitt, enda miðar viðgerðinni bágt áfram.
Alþýðublaðið segir af hreti í frétt 13. júní:
Siglufirði, FB 12. júní. Fannkomuhríð í fyrrinótt og gærdag. Setti niður knéháan snjó á öllu láglendi hér í sjó fram. Allur fénaður var tekinn á gjöf. Hríðinni létti í gærkveldi og er nú sæmilegt veður, en norðanstórsjór.
Tjöldin fuku á Þingvöllum aðfaranótt miðvikudags [11.júní], öll sem búið var að setja upp, nema. 50, sem stóðu eftir. Það er byrjað að setja þau upp aftur, en það er töluvert verk, því yfir 1000 tjöld fuku.
Mjölnir spyr 18.júní (vegna tjaldfoksins - vísað er í Alþingishátíðina sem haldin var á Þingvöllum dagana 26. til 28. júní. Þess var minnst að 1000 ár voru liðin frá stofnun þingsins).
Er náttúran farin að gjöra grín að þessari auðborgara-hátíð?
Veðráttan segir: Að morgni 12. júní var alhvítt nyrst á Vestfjörðum, í útsveitum nyrðra (18 cm á Hrauni í Fljótum) og norðaustanlands (22 cm á Grímsstöðum). Alhvítt varð á Akureyri og hnésnjór sagður á Siglufirði. Þann 26. var krapahríð sums staðar vestanlands, en snjó festi ekki í byggð.
Morgunblaðið 20. júlí - vikuyfirlit:
Þurrkdagarnir þessa viku hafa verið mörgum atvinnurekanda dýrmætir. Stórkostlegar fiskbirgðir lágu undir skemmdum sakir langvarandi óþurrka, og eins töður manna, sem slegnar eru, Þar sem landbændur hafa haft tök á því, hafa þeir dregið að slá, uns þurrkurinn rann upp.
Morgunblaðið 10. ágúst - vikuyfirlit:
3. til 9. ágúst. Veðrið. Norðaustanáttátt og mikil rigning á Norður- og Austurlandi og kalsa veður. Á Vestur- og Suðvesturlandi var yfirleitt þurrkur, þangað til á föstudag að brá til austanáttar og rigndi dálítið á suðurströndinni. Á laugardag var allhvasst í Vestmannaeyjum, annars hægviðri um land allt. Undanfarnar vikur, síðan um miðjan júlí hefir yfirleitt verið þurrkur á Suðvesturlandi, nema í Mýrdal og Fljótshlíð héldust stöðugir óþurrkar, þangað til um síðustu helgi að birti upp og komu nokkrir góðir þurrkdagar einnig.
Alþýðublaðið 11.ágúst:
Úr Mýrdal er FB. skrifað: 25. júlí er skrifað: Snemma í þessum mánuði hljóp Hafursá [í Mýrdal] úr farvegi sínum og undan brúnni, sem sett var í fyrra. Þrátt fyrir það hafa hinir þrautseigu bifreiðastjórar Skaftfellinga haldið uppi bifreiðaferðum, þó svallsamt hafi verið með köflum. Hins vegar er hætt við, að ógerlegt reynist að halda uppi stöðugum ferðum, nema bætt verði úr vegartálma þessum, og þyrfti að gera það sem fyrst.
Miklar rigningar urðu austanlands um þann 20. ágúst, Morgunblaðið segir frá 22. ágúst:
Frá Norðfirði. Tjón af skriðuhlaupi. 21. ágúst: Óhemju rigningar hafa verið undanfarið. Í gær hlupu þrjár aurskriður í sjó fram og ollu miklum skemmdum á túnum og vegum. Ein skriðan lenti á útgerðarhúsi og braut það og skemmdi stórkostlega mikið af fiski. Tveir menn, sem voru við vinnu í húsinu björguðust með naumindum. Í dag er hér fjöldi manns önnum kafinn að hreinsa vegina og moka upp fiskstakka af reitum. - Tjónið er talið mörg þúsund krónur.
Veðráttan bætir því við að skriður hafi einnig valdið tjóni í Loðmundarfirði. Heyskaðar urðu í vatnavöxtum á Héraði og kom hlaup í Selfljót á Úthéraði og tók hey á bæjum þar í grennd. Lagarfljót flæddi einnig yfir bakka sína og tók mikið af heyi og einnig símalínu. Hey stórskemmdust á túnum í Eyjafirði.
Háloftakort (500 hPa) þann 20.ágúst. Dæmigerð úrhellastaða á Austurlandi, hvöss og rök austanátt í háloftum, norðlægari við sjávarmál.
Morgunblaðið segir af hlýjum Golfstraumi og fleira 2. september:
Úr allflestum héruðum landsins berast þær fregnir, að óþurrkar hafi verið svo miklir undanfarnar vikur að mikil vandræði stafi af. Hey hrekjast tilfinnanlega, sumstaðar talsvert af töðunni úti enn; hlýindatíð og flæsur dag og dag, gera það að verkum, að hey sem flatt liggur, stórspillist. Hafið umhverfis landið er með allra hlýjasta móti í sumar. Tólf gráðu sjávarhiti hér í Faxaflóa, eins og nú hefir verið, er óvenjulegur. Golfstraumurinn er með öflugasta móti við Noregsstrendur, segja þeir sem það hafa athugað, og eru straumamótin milli Golfstraums og Pólstraums í sumar mikið norðar en venjulega. Hafa þessi tilbrigði haft áhrif á fiskigöngur við Finnmörk. Óvenjuleg hlýindi hafa verið norður á Svalbarða, og leysingar þar meiri en venja er til. Þegar um svo mikil tilbrigði í straumum er að ræða, má vænta óvenjulegrar veðráttu.
Veðurathugunarmenn segja frá tíðarfari í september:
Lambavatn: Það hefur verið hagstætt hlýtt og hæg væta, þar til síðustu dagana að var stórgerð rigning. Heyskapur gekk allstaðar ágætlega.
Hraun í Fljótum: Tíðarfarið hefir verið fremur gott, jafnvel þótt oft hafi verið lítið um þurrka. Hlýindi mega heita að hafi verið meginhluta mánaðarins og stormar sama og engir.
Fagridalur í Vopnafirði: Stórkostlegir óþurrkar svo hey hröktust og skemmdust, en náðust þó um lok mánaðarins.
Teigarhorn (Jón Kr. Lúðvíksson): Til lands óþurrkar áfram til 24. Þá komu 3-4 góðir dagar, náðist þá hey mjög skemmd inn. 26. heyrðust dynkir frá 11-3 í suðvestur af Teigarhorni. 27. síðari part dags mjög mikið öskumistur.
Vík í Mýrdal: Mjög óþurrkasamt. Gamlir menn telja þetta sumar eitthvert mesta rosasumar sem þeir muna. Mikið af heyi eyðilagt. Mjög mikið úti af heyi við lok mánaðarins, en sumt svo hrakið og ónýtt að það verður eigi hirt, þó hægt verði að þurrka það.
Sámsstaðir; Tíðin mjög votviðrasöm yfir allan mánuðinn, þó rigndi sjaldan mikið í neinu. Alltaf súldarlegt loftslag og rakasamt.
Dagur segir af vatnavöxtum eystra í september í pistli þann 26.:
Skaðar af bruna og vatnavöxtum hafa orðið austur á Fljótsdalshéraði. Á Ketilsstöðum á Völlum er talið að hafi brunnið 200 hestar af heyi og á Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð hafa brunnið 150 hestar af heyi hjá Björgvin bónda þar. Þá hefir komið hlaup mikið í Selfljót á Úthéraði, tók það mikið hey frá Ara lækni á Hjaltastað og einnig urðu heyskaðar af sömu völdum á Bóndastöðum þar í grennd. Mikill vöxtur kom og í Lagarfljót og tók nálega alla símastaura, sem búið var að flytja í símalínuna milli Hjaltastaðar og Kirkjubæjar. Þá tók Lagarfljót mikið af heyi á Vífilsstöðum og Dagverðargerði í Hróarstungu og ennfremur urðu þá dálitlir heyskaðar í Húsey í Jökulsárhlíð og víðar. Áður hefir verið getið um heyskaða á Egilsstöðum á Völlum. Nýting á heyjum þar austur frá er sögð mjög bág og óhugur í bændum.
Veðráttan segir að þak af hlöðu og bátur hafi fokið á Barðaströnd í illviðri 15. október. Þá brotnaði og sökk línuveiðari við Lundey á Skjálfanda (Veðráttan segir á Skagafirði). Þann 22. október hrapaði maður til bana í hríðarveðri í Víðidalsfjalli og fé fennti sum staðar inn til landsins nyrðra.
Vísir segir þann 20.október af stórviðri í Reykjavík:
Stórviðri af norðri-norðaustri skall hér á i nótt um miðnætti. Varð Veðurhæðin 10 (rok) nokkra stund og náði jafnvel 11 (ofsaroki) í svip. Fylgdi þessu veðri nokkur snjókoma á fjöllum, en festi lítt hér í bænum. Engar fregnir hafa enn borist um slys af veðrinu, en skemmdir urðu allvíða á símalínum, en ekki stórvægilegar. Mestar urðu þær í Hveradölum. Þar fauk hænsnakofi á símastaur og braut hann. Einhverjar skemmdir urðu á símalínum austan Akureyrar, en nákvæmar fregnir ókomnar, þegar þetta er ritað. Sambandslaust var við Seyðisfjörð i morgun, en ófullkomið samband náðist þangað fyrir hádegi.
Nóvember var snjóþungur, en ekki er þó mikið um fréttir af tjóni af völdum veðurs.
Morgunblaðið 2. nóvember:
Siglufirði, FB 1. nóvember. Hríðar og kuldar að undanförnu og hefir sett niður talsverðan snjó.
Nokkrar snarpar lægðir fóru hratt yfir landið fyrri hluta nóvembermánaðar. Kortið sýnir háloftastöðuna þann 7., en þann dag hvessti mjög um landið austanvert. Veðráttan (nóvemberhefti) segir af sköðum í þessu veðri:
Fé fennti víða og í Lóni hrakti fé út í ár og vötn og fórst. Piltur frá Eldjárnsstöðum á Langanesi varð úti. Miklar símabilanir urðu á Raufarhöfn og staurar brotnuðu við Vopnafjörð. Þak tók af hlöðu í Gunnólfsvík og af íbúðarhúsi á Starmýri í Álftafirði, á Teigarhorni fauk vélbátur og tveir bátar á Djúpavogi. Samgöngutruflanir urðu víða um land næstu daga vegna snjóa, m.a. suður með sjó frá Reykjavík og víða á Suðurlandi var ófærð. Mjólk var flutt á sleðum til Reykjavíkur, fjöldi bíla var tepptur á Kolviðarhóli.
Verkamaðurinn á Akureyri segir þann 15.nóvember:
Tíðin er heldur umhleypingasöm og viðsjárverð. Á þriðjudaginn [11. nóvember] var austan ofsaveður og hláka um kvöldið. Á miðvikudaginn var suðvestan rok framan af deginum, en rauk upp á norðan í rökkurbyrjun og gerði stórhríð á útkjálkum og hafrót afskaplegt. Á Húsavík sukku 4 vélbátar og 4 rak á land. Gereyðilögðust tveir þeirra. Hinir skemmdust nokkuð. Aðeins einn báturinn var vátryggður. Óefað hafa skaðar orðið víðar, þó ekki hafi frést af því enn.
Þann 30. nóvember var lægð í foráttuvexti fyrir suðvestan land og hreyfðist síðan til norðaustur nærri landinu, fór mjög nærri Vestfjörðum snemma að morgni 1. desember og síðan norðaustur í haf. Var þetta mesta hvassviðri á landinu á árinu. Kortið að ofan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinu síðdegis þann 30.nóvember, en kortið að neðan hæð 1000-hPa flatarins á hádegi þann 1. desember, eins og bandaríska endurgreiningin lýsir henni. Lægðin er ívið of grunn í greiningunni (eins og oft er með krappar lægðir), var um 951 hPa í miðju, en greiningin segir 959 hPa.
Ýmiskonar tjón varð í veðrinu, merkast að eldingu sló niður í bæinn Flögu í Skaftártungu. Af því eru fróðlegar frásagnir sem birtust í blöðum, við styttum þær lítillega hér. Togarinn Apríl fórst skammt suður af landinu, líklega í þessu veðri. En lítum fyrst á lauslega lýsingu Níelsar Jónssonar veðurathugunarmanns á Grænhóli við Gjögur og Haraldar Jónssonar athugunarmanns í Vík í Mýrdal:
Grænhóll við Gjögur: Fyrsta desember ofsarok af vestri og sorta krapahríð frá kl. 11:30 til 18:40, en vindmagn 10 frá kl. 12:15 til 13:34. Í því roki tók veðrið þakið af húsi Jóns Sveinssonar kaupmanns hér í heilu lagi alllangan kipp í loftinu, yfir símann sem þó lá hærra. Kom það niður í heilu lagi á smáþýfismóum og molnuðu þar allir viðir, en hékk mikið til saman af þakjárninu, á þakinu var allsver bútur af steyptum reykháf. Einnig fauk bátur og brotnaði í spón og fleira smálegt fauk. Annan desember um dagsetrið sást hér víða í hreppnum rosaljós og leiftur, einnig hér og er það mjög sjaldgæft.
Vík í Mýrdal: Í óveðrinu 1. urðu miklir skaðar. Eldingu laust niður í símann fyrir utan Flögu í Skaftártungu og kviknaði af því í húsinu sem brann til kaldra kola. Á Leiðvelli í Meðallandi fauk fjárhús, á Hunkubökkum fjárhús, á Höfðabrekku tvær hlöður.
Morgunblaðið segir af eldingartjóninu í Flögu þann 3.desember:
Í gær barst sú fregn austan úr Skaftafellssýslu að eldingu hefði slegið niður í íbúðarhúsið í Flögu í Skaftártungu, og að húsið hefði brunnið til kaldra kola. Átti Morgunblaðið tal við Gísla Sveinsson sýslumann í Vík og skýrði hann þannig frá: Aðfaranótt mánudags (1. desember) gerði hér aftaka veður af haf-útsuðri; var það með verstu veðrum sem hér hafa komið. Urðu víða símslit, svo að ekki fengust strax fregnir af veðrinu. Sambandslaust varð á aðallínunni við Skaftártungu, en þó gat stöðvarstjórinn í Vik heyrt óljóst samtöl á aukalínum austan Mýrdalssands. Fékk hann þá þær fregnir að klukkan um 3 aðfaranótt 1. desember hafði eldingu slegið niður í íbúðarhúsið í Flögu í Skaftártungu og húsið brunnið til kaldra kola. Símastöð var í Flögu og hafði fólkið orðið þess vart að eldingu sló niður í skiptiborð símans og klofnaði borið, en húsið stóð þegar í björtu báli. Fólkið komst nauðuglega út og ómeitt, að því er vitað verður, en missti allt sem inni var, búsáhöld, húsmuni, fatnað, matvæli og yfir höfuð allt, smátt og stórt sem í húsinu var.
(Síðan er nánari lýsing) - en að lokum segir: Íbúðarhúsið brann til kaldra kola, ofan frá rjáfri og niður í kjallara. Aðeins múrveggir stóðu eftir; þá hrundi norðurveggur sem var úr steinsteypu og undir honum stóðu kerrur og sláttuvél og molaðist það undir veggnum. Þarna brann, auk verðmæta og peninga, aleiga fólksins. Geymsluhús var áfast íbúðarhúsinu og brann það með öllu sem í var. Þetta var allt ótryggt. Rafmagnsstöðin var ekki í gangi þessa nótt og enginn eldur í húsinu, svo ekki getur minnsti vafi leikið á því, að hér hefir,eldingin kveikt í húsinu. Á Hrífunesheiði voru símastaurar meira og minna brotnir, sumir voru klofnir niður eftir endilöngu, flísar klofnar úr öðrum og nokkrir þverkubbaðir og glerkúlurnar einnig kubbaðar sundur. Á sama tíma og eldingunni hafði lostið niður í Flögu, vaknar stöðvarstjórinn í Vík við brest mikinn í símastöðinni þar og öryggisglös öll brotna. Vík er um 40 km frá Flögu. Einnig höfðu brestir heyrst í stöðinni að Kirkjubæjarklaustri og öðrum símastöðvum í sýslunni. Gísli Sveinsson sýslumaður hefir lagt fyrir hreppstjóra Skaftártunguhrepps, að taka ítarlega skýrslu af viðburði þeim, er gerðist aðfaranótt 1. þ.m. Eftir þeim fregnum, sem fengist hafa, má telja vísa, að elding hafi slegið niður í símalínuna nálægt Flögu og leiðst með símanum inn í húsið. Og þar sem síminn er orsök tjónsins, og hér er um landsímastöð að ræða, er það að sjálfsögðu skylda landsímans að bæta tjón það, sem hér hefir orðið.
Síðar, þann 18. desember birti Morgunblaðið nánari lýsingu:
Nánari frásögn af eldingunni í Flögu. Vigfús bóndi Gunnarsson skýrir þannig frá atburðinum aðfaranótt 1. desember: Um klukkan 3 var ég vakandi; fáum mínútum eða örskotsstund eftir að ég vaknaði; glampaði af mjög sterkri eldingu, svo að mér fannst óvenju bjart af þrumuljósi og heyrði á sama augnabliki hvell mikinn, því næst þrumu, eins og þær eru venjulega. Hnykkti mér nokkuð við hvell þenna, en þegar þruman fylgdi (eða hélt áfram), varð ég strax rólegur og hugði ekkert óvenjulegt á ferðinni, enda þótt hlé yrði milli hvellsins og þrumunnar. Enn glömpuðu 2 ljós og fylgdu þrumur báðum. Heyrðist mér þá annar hvellur koma hér um bil samtímis öðru ljósinu, en daufari eða lægri hinum fyrri. Þriðja ljósinu fylgdi enginn slíkur hvellur, að ég gæti greint. Jafnskjótt eftir 1. eldinguna og hvell þann hinn mikla, er henni var samfara, litum við hjónin á klukku í herbergi okkar, og var hún 10 mínútur yfir þrjú. Vöknuðu allir í húsinu við hvell þenna, nema Gísli sonur okkar, en enginn hugði nánar að, hvað á ferðinni væri, þá þegar. En ekki leið á löngu áður en pilturinn Bjarni Jónsson og stúlkurnar tvær frá Hrífunesi, er sváfu í vesturhlið hússins, urðu vor við reykjarlykt og heyrðu snark nokkurt undir lofti. Fór þá Sigríður Jónsdóttir á fætur, en klæddist þó eigi, og gerði aðvart þeim er voru í öðrum herbergjum, sem eigi höfðu þá varir orðið reykjarlyktar.
Þustu þá allir fram úr rúmum, enda tók þegar mjög að magnast reykjarsvæla. Fór ég þegar ofan á nærklæðum og fylgdi mér pilturinn Bjarni Jónsson. Fór þegar til útidyra og opnaði þær, en allt var þar fullt af reykjarsvælu. Flýtti ég mér sem ég mátti til þess að herða á fólkinu til að bjargast. Komst ég ekki alveg upp stigann, því að þá var kallað til mín, að alt fólk væri að bjargast út um glugga. Hér skal þess getið, að er ég fór fyrst fram til dyra, varð mér litið inn í símaherbergið og sá þá að glórði í eld innan á þiljum til og frá um allt herbergið, en í þessum svifum fékk ég ekki frekar aðgætt, með því að ég flýtti mér upp til fólksins að herða á björgun, sem fyrr segir. Fólkið bjargast með naumindum út um glugga. Björguðust nú allir út um glugga á austurhlið í náttfötum einum, út í óveðrið. Kona mín og börnin komust þannig til reika í mjög lélegt útihús,skammt frá íbúðarhúsinu. Nokkrar af stúlkunum reyndu nú að grípa til þess ráðs, að hverfa aftur inn í reykinn og ná ílátum til þess að skvetta vatni á eldslogana, er nú tóku mjög að gægjast inn um þiljur, en slíkt reyndist að vonum gersamlega þýðingarlaust. Samtímis fór ég inn í símaherbergið, sem var fullt af reyk, en sá þá í glóð gegnum reykinn og að glösin voru úr leiðslunum, þreif til skiptiborðsins, en fann mér til undrunar að það var sundurtætt. Gripum við nú úr símaherberginu skáp símans og lítið eitt af húsgögnum, og köstuðum út.
Fór ég nú að skrifstofunni og (Sveinborg) Sigríður dóttir mín með mér. Lykil vantaði til að opna hurðina, en Sigríði tókst að brjóta hana upp. Bjargaði ég þaðan hreppsbókum þrem: Gjörðabók hreppsnefndar, kassabók og kjörbók og sveitarsjóðnum að mestu. Meira fékk ég þar ekki að gert, því að Sigríður hafði þá farið aftur upp á loft (2. hæð) til þess að reyna frekari björgun, en ég óttaðist um hana. Var þó enn vært þar uppi og tókum við að bjarga rúmfötum og íverufatnaði og kasta út um glugga. Tókst okkur í ofboði að ná þannig mestu af rúmfatnaði og allmiklu af íverufatnaði og kasta út á skúrþak neðan við glugga. Tók nú eldurinn svo að magnast, að ekki var lengur vært inni. Náðu logarnir þegar mestu af fatnaðinum á skúrþakinu og eyddu. Það síðasta, er ég fékk að gert, var að grípa nokkrar hurðir og kasta út. Nú tóku logarnir að gjósa út um gluggana, enda hörfuðum við Sigríður nú alfarin út úr húsinu. Tóku logarnir þegar að flaksa til beggja hliða við útihús það, er kona mín ásamt börnunum hafði flúið í. Kallaði ég þá hátt til þeirra og þeirra, er úti voru, að forða sér burt þaðan, því þar væri ekki fært að vera. Fóru nú allir að kofa þessum. Greip Sigríður dóttir mín þegar Gísla litla og vafði hann sæng, og hljóp með hann frá kofanum og aðrir samtímis. Féll Sigríður þá á svelli, í ofveðrinu, með drenginn, en eldslogarnir geystust yfir okkur; eigi sakaði þó og sluppum við úr eldshættunni fram á túnið. Tók nú við ný þraut, að komast áfram á svellglærunum í ofviðrinu, er nú stóð sem hæst, og í móti veðri og vindi að sækja, til þess að ná útihúsum, þar sem helst þótti öryggi fyrir eldinum, en það var fjárhús ásamt heyhlöðu vestur á túninu. Þetta tókst þó, og leitaði fólkið skjóls í heyinu, mjög aðframkomið af kulda, sem von var, þar sem allir voru í náttfötum einum að kalla mátti, berfættir og berhöfðaðir, í náttmyrkri út á svellaðri jörð, í ofviðri. Enn hurfum við heim að bænum, ég og eldri stúlkurnar; var þá ekki viðlit að koma nærri hænum, nema áveðurs.
Stóð nú húsið allt í björtu báli. Tókum við kýr og hænsni úr fjósi og fluttum með okkur í fjárhúsið. hér var nú staðar numið um hríð. Var þá þakið á húsinu fallið niður um miðju, enda hrundi nú yfirbygging öll á skömmum tíma, og járnið fauk sem skæðadrífa út í veður og vind. Meðan á björgunartilraununum stóð, hafði Katrín Jónsdóttir kennslukona tekið hest og haldið að Hrífunesi, til þess að segja hvernig komið væri og fá hjálp. Er talsverður spölur milli bæjanna, en þó tókst Katrínu, að komast alla leið í ofviðrinu. Kom hún að Hrífunesi um klukkan 5, og segir Jón bóndi Pálsson frá, hvernig hún var útbúin, er þangað kom. Hann segir: Þess skal hér getið, að þegar Katrín kom hingað, var hún berhöfðuð, í skyrtubol, er var slitinn af henni og lafði niður um mitti, en í einum yfirfrakka og í einum lastingsbuxum [bómullarbuxum] og stígvélum. Voru buxurnar mjög tættar utan af henni, enda hafði hún ekki haldist á hesti nærri alla leiðina og orðið sums staðar að skríða vegna ofveðursins. Jón bóndi í Hrífunesi brá skjótt við og fór með menn með sér að Flögu og höfðu þeir með sér fatnað o.fl.
Bilanir á símalínu á Hrífunesheiði. Þess hefir áður verið getið, að umrædda ofviðrisnótt, hafi talsverðar bilanir orðið á Símalínu á Hrífunesheiði. Er sennilegt, að eldingunni hafi fyrst slegið niður þar og síðan leiðst með símanum í húsið í Flögu.
Jóni Pálssyni bónda í Hrífunesi og Gísla Sigurðssyni bónda á Búlandi var falið að athuga símabilanir þessar og gáfu þeir skýrslu um þær. Segir svo í skýrslu Jóns Pálssonar: Ég fór meðfram línunni að kvöldi þess 1. desember og taldi þá níu staura meira og minna skaddaða, og úr sumum klofnar flísar alt að 4 álna langar, mismunandi að gildleika. Ennfremur einn staur, sem brotinn var sundur um efri krókinn á landssímalínunni, krókurinn brotinn sundur neðan við kúluna og kúlan klofin sundur í miðju; enn fann ég einn staur, sem klofinn var eftir endilöngu, frá toppi að jörð, en stóð þó uppi. Þann 3. desember fann ég enn einn staur vestast á Hrífunesheiði, sem brotið var úr. Efri þráður landssímalínunnar lá niðri hjá staur þeim, er brotið var ofan af, en hvergi slitið. Þess skal hér getið, segir Jón enn fremur, að eldingavarar hér í Hrífunesi eru sprungnir, og símaþráðurinn gegn um húsvegginn brunninn í sundur eftir ofviðrið og eldingarnar aðfaranótt 1 desember".
Alþýðublaðið segir af frekara tjóni í veðrinu í pistli 5.desember:
Í ofviðrinu 1. desember síðastliðinn urðu nokkrar skemmdir á Eyrarbakka. Nýtt íbúðar- og fjárhús, er Þorleifur Andrésson pípugerðamaður hafði reyst að Borg í Hraunshverfi, eyðilagðist næstum alveg. Gamla, stóra hlaðan á Stóru-Háeyri fauk upp á mýrar. Rúður fuku úr mörgum húsum. Allt járn og pappi fauk af íbúðarhúsinu Deild, rúður brotnuðu og austurgaflinn á húsinu eyðilagðist. Regn og sandur gerði íbúunum, konu og tveimur dætrum hennar, óvært inni, og flýðu þær í annað hús undir morgun. Elstu menn á Eyrarbakka muna varla eftir verra veðri en þessu. Sjór var kyrr um þetta leyti, en hann hefur þó oft gert mikinn óskunda í ofviðrum þarna eystra.
Afgang mánaðarins var lengst af þokkaleg tíð, en talin hagstæðari nyrðra og eystra heldur en á Suðurlandi.
Vísir 29. desember:
Siglufirði, 28. des., FB. Í gær gerði hér ofsarok af norðaustri með rigningu. Hélst veðrið í nótt, en með morgninum gekk það heldur til norðurs og er nú nokkru hægra með slydduéljum. Sjógangur mikill. Skemmdir urðu nokkrar. Fauk heyhlaða á Hvanneyri af grunni og skemmdist hey og annað, sem þar var geymt. Járn og trjábrak úr hlöðunni gerði skemmdir talsverðar bæði á prestsetrinu og fleiri húsum. Einnig urðu nokkrar skemmdir á ljósaneti bæjarins.
Lögrétta birti þann 31. desember tvö fróðleg bréf sem lýstu tíðarfari ársins, annars vegar í Þingeyjarsýslu, en hins vegar á Fljótsdalshéraði:
Fréttabréf úr Þingeyjarsýslu. Ár þetta, sem nú er að lokum komið, hefir í mörgu orðið óhagstætt atvinnurekstri hér í héraði.En það mun jafnan verða talið mest til gildis hverju ári, að atvinnulífið glæðist og að efnarhagur lands og þjóðar fari batnandi. Því miður mun ekki þetta ár bæta þann kafla sögunnar. Vetur frá nýári til marsloka var hretasamur með miklu fannkynngi og þurfti þann tíma mikil hey handa beitpeningi. Þó gerði hlákublota í febrúar, einkum er á leið mánuðinn, sem lítið unnu þó á gaddinum. En 1. mars var asahláka. Varð hitinn þá hér á Laxamýri 12° á R. En fáum dögum síðar brá til norðanáttar með mikilli snjókomu og frostum, er hélst til loka þess mánaðar. Með aprílmánuði fór tíð batnandi og varð frekar gott og stórhretalaust, þar til dagana 10. og 11. júní að gerði vonda hríð með miklu snjófalli. Varð þó til lítils tjóns fyrir lambfénað. 13. júní hlóðu börnin hér snjókerlingu í varpanum af nýföllnum snjó. 15. júní var hitinn hér 20° á R. móti sól kl. 6 að morgni, og hélst úr því til júlíloka blíð og góð sumartíð, en 1. ágúst dró fyrir sólu með norðanátt og úrkomum úr öllum áttum, sem haldist hafa til þessa að undanteknum þó þurrviðra- og hlýviðra-dögum er vöruðu hér frá 15. sept. til 5. okt. Náðu menn þá síðustu heyjum inn. Heyskapur varð hér í héraði sæmilegur að vöxtum. Töður af fyrra slætti náðust með verkun, en annað hey gekk illa að verka og hröktust hey víða mikið, einkum í útsveitum.
Af Fljótsdalshéraði 12. des. 1930. Síðastliðinn vetur var í gjaffelldara lagi, svo farið var að tala um heyþrot á einmánuði, en til þeirra kom ekki svo ég vissi. Hlákur gerði bæði úr miðjum þorra og miðjum einmánuði. Fénaðarhöld urðu ágæt og í meira lagi tvílembt í uppsveitum, sem talið var að stafaði af því, að upp úr áramótum var ánum gefið inni og vel verkað hey. Dilkar reyndust vel í haust. Meðalvigt á skrokkum var á nokkrum bæjum 35 pund. Það er orðið tíðast um langt árabil, að Lagarfljót leggur seint og með ótryggum ís niður um brúna. Í fyrra vetur lagði það þó þrisvar um Egilstaði og þar inn fyrir. Það var í nóv. er það lagði svo manngengt varð, en braut upp í des.; svo lagði það aftur í jan. inn um Hreiðarstaði, en eftir miðjan febr. braut þann ís út að brú. 1 mars lagði Fljótið inn í botn með traustum ís. Ég man ekki eftir svona umskiptilegum ísalögum á Fljótinu. Nú í nóv. lagði ís á Fljótið inn fyrir Egilsstaði svo manngengt mun hafa orðið, en sá ís er nú horfinn. Þá hefir láðst að geta þess, að í fyrra sumar (1929) var lítill berjavöxtur á Fljótsdalshéraði, var sú orsök til þess að á einmánuði var svo góð tíð að lyng var farið að setja vísir, er svo dó í miklum kuldum er gerð. upp úr sumarmálum. Síðastliðið sumar var grasspretta góð og sláttur byrjaði snemma eða síðast í júní og varð nýting hér á héraði allgóð víðast út júlí. Þá gekk í óþurrk og upp úr miðjum águst gerði stórrigningu, svo engjar á Út-héraði fóru í vatn og þornuðu tæpast úr því. Í Lagarfljótið og Selfljótið kom geysivöxtur svo hey tapaðist eða fór í vatn. Urðu meiri brögð að þessu en oft hefur orðið af því að áður höfðu gengið óþurrkar svo mikið var undir af heyi. Samt var heyskapur fyrir ofan mitt hérað um meðallag. Veldur því aukin túnrækt og sáðgresi.
Lýkur hér frásögn hungurdiska af veðri og veðurfari ársins 1930. Ýmsar tölulegar upplýsingar (mánaðameðalhiti og margt fleira) er í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:15 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 48
- Sl. sólarhring: 147
- Sl. viku: 1969
- Frá upphafi: 2412633
Annað
- Innlit í dag: 48
- Innlit sl. viku: 1722
- Gestir í dag: 47
- IP-tölur í dag: 46
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.