Af árinu 1781

Flestar heimildir hrósa heldur tíðarfari ársins 1781, en þó er ljóst að erfiðleikar voru ýmsir. Veturinn var hagstæður framan af, en síðan nokkuð umhleypingasamur. Sumir tala um gott vor, en aðrir segja frá felli. Tvö nokkuð langvinn og leiðinleg hret gerði um vorið. Annað í kringum páskana (um miðjan apríl), en hitt þegar nokkuð var komið fram í maí. Þá virðist hafa snjóað nokkuð víða um land, meðal annars á Suðurlandi. Grasspretta var góð - en misvel gekk að hirða um landið sunnan- og vestanvert. Nóvember var harður, en desember mildur. Almennt fékk haustið góða dóma. 

Færeyskur maður, Nicolai Mohr, dvaldist hér á landi veturinn 1780 til 1781, birti veðurathuganir á bók og notum við okkur það. Við lítum líka lauslega í dagbækur Sveins Pálssonar í uppskrift Haraldar Jónssonar í Gröf. Sveinn var aðallega í Skagafirði, en var þó í nokkrum ferðalögum suður á land. Annálapistlar eru fengnir beint úr Íslenskum annálum Bókmenntafélagsins (stundum styttir lítillega). 

ar_1781t-lambhus 

Myndin sýnir hitamælingar Rasmusar Lievog í Lambhúsum á Bessastöðum. Þó mælirinn sé e.t.v. ekki alveg réttur, sjáum við marga atburði mjög vel. Hlýtt var í nokkra daga fyrir miðjan janúar, en eftir það talavert frost afgang mánaðarins. Ekki er sérlega kalt í febrúar og mars, en talsvert kuldakasti apríl. Eftir mjög hlýja daga um mánaðamótin apríl/maí gerði leiðinlegt kuldakast. Eftir það er stórtíðindalítið í hitamálum, en seint í ágúst kólnaði snögglega, Mjög kalt varð seint í október og í nóvember, en hlýrra í desember.

Við skiptum frásögnum annálanna á árstíðir til að samanburður verði auðveldari. 

[Vetur]: Veturinn fær allgóða dóma. Helst að Espólin sé þungorður - blotaumhleypingar eru auðvitað engin úrvalstíð í Skagafirði þótt snjór sé e.t.v. ekki mikill. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti: Vetrarveðurátta frá nýári og fram yfir sumarmál var að vísu óstöðug, með sterkum frostum og köföldum á milli, þó ætíð nægilegar jarðir;

Úr Djáknaannálum: Vetur mjög frostalítill svo klaki kom fyrst í jörð á þorra að kalla mátti. Veðrátta síðan óstöðug með regnum og útsynningsfjúkum, sérdeilis alla góu, einkum syðra og vestra, svo færri mundu þar slíka umhleypinga.

Höskuldsstaðaannáll: Veturinn var í betra lagi, ekki langsamar stórhríðir né jarðbönn, þó fjúkapáskar í síðustu vetrarviku.

Íslands árbók: Gjörðist vetur í meðallagi og þó nokkuð betur, án stóráhlaupa. Á langaföstu kom ein dugga (s100) inn á Eyjafjörð ... lá hér fram á vor fyrir hindran af hafís, lagði í millitíð út til Hríseyjar og mætti þar áfalli af veðri og hafís ... [Hér er áreiðanlega átt við sama skip og Mohr talar um að komið hafi til Akureyrar 1. apríl og hann hitti síðan í Hrísey í maílok]. 

Espihólsannáll: Veðurátta frá nýári og fram á gói ærið góð, þaðan af stríðari með umhleypingsfjúk- og áfreðahríðum, so oftar var annað dægur regn, en annað frosthríð, og þessi veðurátt varaði fram á sumarmál í Eyja- og Skagafjarðarsýslum. . (Vetur frá nýári til þorraloka góður. Versnaði þá veðurátt, so þaðan af fram yfir sumarmál var mesta ónotaveður.

Ketilsstaðaannáll: Vetur til nýárs harður, en þaðan af góður, ...  

Espólín: XXVI Kap. Veturinn versnaði með þorra lokum, og var allillur fram yfir sumarmál, var þá svo mikill bjargarskortur, að hrossakjöts át gjörðist tíðara en nokkurn tíma fyrr hafði verið, frá því er kristni kom á land þetta. (s 27).

Janúar (Mohr):
Þann 1. blástur með þéttri snjókomu, 2. bjart veður 5 stiga frost, 3. og 4. þykkviðri og blástur, 2 stiga hiti, 5. og 6. órólegt veður með éljum. 7. sterkur blástur með þéttri snjókomu, birti upp undir kvöld, 5 stiga frost. 8. blástur og regn, 9. sterkur stormur með stórum hrannarskýjum, 8 stiga hiti. 10. og 11. næstum logn og bjart veður, 6 stiga hiti. 12. sama veður, 0 stig. 13. sama veður 4 stiga frost, 14. og 15. misskýjað, hægur vindur 0 stig. 16. þykkviðri, 3 stiga hiti. Að morgni 17. hægur, síðdegis stormur og þétt snjókoma, 2 stiga frost. 18. hryðjur 6 stiga frost. 19. lítill vindur og hreinviðri, framan af degi 7 stiga frost, 12 stiga frost undir kvöld. 20. og 21. hægur og hreinn, 16 stiga frost. 22. sama veður 7 stiga frost, 23. misvindi 4 stiga frost. 24. hægur, 12 stiga frost. 25. hægur vindur, 7 stiga frost, 26. og til mánaðarloka skiptust á bjart veður og snjókoma 10 til 14 stiga frost.

Febrúar (Mohr):
Þann 1. heiður, næstum logn, vindur af suðaustri 4 stiga frost. Um kvöldið sáust óvenjusterk norðurljós, næstum því í hvirfilpunkt; þar léku, eins og oft, margir sterkir litir og snerist í hring eins og mylla á óvenjulegum hraða, hélt sér, án þess að breytast verulegar frá klukkan 8 til 9 um kvöldið. Flestir spáðu harðviðri næsta daga, en þá varð samt hægviðri og skýjað með köflum og 14 stiga frost. Þ. 3. og 4. þykkviðri og snjókoma 4 stiga hiti. 5. bjart, nokkur blástur, 6 stiga frost. 6. hægur, 4 stiga hiti. 7. og 8. hægur og snjókoma, 2 stiga hiti. 9. og 10. bjart, 1 stigs frost. 11. og 12. stormur og snjókoma 9 stiga frost. 13. bjartur og hægur 5 stiga frost. 14. sama veður 11 stiga frost. 15. lítilsháttar snjóél 2 stiga frost. 16. og 17. þykkviðri, 0 stig. 18. bjartviðri, 2 stiga frost. 19. blástur, 3 stiga hiti. 20. sterkur blástur, bjartviðri, 6 stiga hiti. 21. blástur og skafrenningur, 6 stiga frost. 22. næstum logn og bjartviðri, 10 stiga frost. 23. til 27. skiptist á bjartviðri og snjókoma, frost 4 til 10 stig. 28. þykkviðri fyrir hádegi með lítilsháttar snjókomu, 8 stiga frost; undir kvöld sunnanvindur, 5 stiga hiti.

Sveinn Pálsson segir 3. febrúar: „Góðviðrið varir með frosti“. Þann 18.: „Skipti um til hláku“. 9. mars: „Hláka góð og mari“. 

Mars (Mohr):
Þann 1. sterkur blástur með regnskúrum, 5 stiga hiti. 2. sama veður, undir kvöld 0 stig. 3. til 8. breytilegt veður, milli 2 stiga hita og 2 stiga frosts. 9. þykkviðri með regni, 5 stiga hiti. 10. til 22. breytilegt, enginn stormur og stundum logn, milli 3 stiga hita og 3 stiga frost. 22. logn og bjart, 5 stiga frost. 23. sama veður, 2 stiga hiti. 24. til 28. milt veður með vestlægum áttum og skiptist á regn og bjartviðri, 4 til 6 stiga hiti. Hávella sást í fyrsta sinn þessa daga. 29. blástur og snjór, 3 stiga frost, um kvöldið 7 stiga frost. 30. og 31. logn og fagurt veður, 5 stiga frost.

[Vor] Eftir slæmt páskahret kom mjög góður kafli, en snerist svo til kulda þegar fram í maí kom. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti: ... síðan góðviðri fyrsta sumarmánuð, þar eftir fram yfir fardaga sterkir norðankuldar og hretviðrasamt; hafísar miklir, einkum fyrir Norður- og Vesturlandi;

Úr Djáknaannálum: Gjörði norðanhríðir um páskana [15. apríl], en batnaði aftur með næsta sunnudegi eftir þá, sem var sá fyrsti í sumri og gjörði góða veðráttu. Vorið gott og snemmgróið, kom þó stórhret um krossmessu svo í lágar komu óklífir skaflar. [Strangt tekið er krossmessa 3. maí, en hún er samt oft í heimildum talin þann 13., mun svo hér]. Hafís kom fyrir sumarmál, umkringdi Strandir og allt Norðurland. Varð þó ei til spillingar veðri. ... Í Árnessýslu kom hríð sú miðvikudag [23.maí] næsta fyrir uppstigningardag, að í Ölvesi dóu af henni 19 kýr og ei allfáar annarsstaðar, ... Um vorið horféllu bæði kýr og sauðfé syðra, því heyin voru lítil og ónýt. ... Í Árnessýslu féllu 260 kýr, 4355 sauðfjár og 334 hestar.  Sæmilegt árferði á Austfjörðum. ... Hafísinn, sem vofraði fyrir norðan fram í Júlium hindraði stundum róðra á Skagafirði. (s228) g3 Um vorið var víða hart til matar, svo fólk dó sumstaðar úr ófeiti, helst í Árnessýslu. ... Þetta og fyrirfarandi ár fækkaði á 8 mánuðum 989 manns á Íslandi. g4. ... 2 bátar fórust syðra. 

Höskuldsstaðaannáll: Vorið og svo í betra lagi (og gott í tilliti til flestra). Grasvöxtur fljótur og góður síðan Urbanus [25. maí]. ...

Íslands árbók: Vorið þótti kalt, þó ei framar venju. 

Espihólsannáll: Vorið var eftir stillt. Í Majo seint kom áhlaup so mikið, að sunnan lands og vestan dó mikið af kúpeningi og öðru fé. Var þetta óaldarvor þar, einkum við sjósíðu, og varð mannfellir mikill.

Espólín: XXVI Kap. Varð þá mannfellir mikill við sjóinn vestra og syðra, þvíað vor var illt, og kom svo mikil hríð miðvikudaginn fyrir uppstigningardag, að á þeim bæjum einum saman, er liggja niður með Varmá, miðreitis í Ölfusi, dóu 19 kýr, og eigi allfáar annarstaðar [beint úr Mannfækkun af hallærum (s104)]. Dó sauðfé framar venju, og eignuðu sumir vanþrifum, er fylgdu hafís; urðu þá jarðir víða lausar í sveitum, því að peningslausir menn lögðust í sjóbúðir, og var þó ekki þessi vetur almennt talinn með harðindisárum. (s 27)

Apríl (Mohr)

Þann 1. hægur vindur, bjartviðri, 0 stig. 2. til 4. stöðugt þykkviðri með snjókomu, 2 stiga frost. 5. logn og bjart, 7 stiga frost. 6. ti 8. þykkviðri og snjóél, 5 stiga frost. 9. til 16. lengst af bjartviðri; stundum þó él, lítill vindur, oftast logn, 6 til 10 stiga frost. 17. til 19. óstöðugir vindar, 0 stig og 1 stigs hiti. 20. blástur og heiðríkt, 5 stiga frost. 21. til 25. hægir vestanvindar 4 til 6 stiga frost. 26. til 30. bjartviðri með sterkum hafvindi um skeið á daginn, hin svokallaða „haf-gola“. Á kvöldin og nóttunni, logn 5 til 7 stiga hiti.

Sveinn Pálsson, 19. apríl: „Kuldi á norðan með fjúkrenningi“, 20.: „Heljar kuldi á sunnan, þó sólskin“ , 23.: „Vestan rosi, snerist í hláku, hvessti mjög“, 3. maí: „Þykkveður og hita molla“, 10. maí: „Hríð með frosti og snjófergja, rak inn hafís“, 13.: „Fjörðurinn fullur af ís“.  

Maí (Mohr)
1. til 6. sama veður og í apríllok. 7. og 8. órólegt veður, 9. blástur úr norðri, 4 stiga frost. 10. til 12. bjartviðri með blæstri, 2 til 4 stiga frost. 13. stormur og skafrenningur, 3 stig frost. 14. til 18. óstöðugt, með blæstri og regni, 2 til 5 stiga hiti. 19. mikil snjókoma allan daginn 0 stig. 20. bjart og logn, 3 stiga hiti. 22. til 24. sterkur blástur, stundum stormur, 4 stiga hiti. 24. til 29. næstum stöðugt logn, 6 stiga hiti. 30. blástur að deginum, logn undir kvöld, 3 stiga hiti. 31. logn og þoka, 1 stigs hiti.

Efnisleg og stytt mjög lausleg þýðing á efni tengt veðri í ferðaskýrslu Mohr um vorið: 

Um miðjan maí varð veður mildara, ís og snjór bráðnuðu hrátt og víða varð grænt. Mohr fór 29. maí með einu af verslunarskipunum frá Akureyri til Hríseyjar (Risöe). Þar hitti hann fyrir fyrsta vorskipið, þar sem kom til Akureyrar 1. apríl eftir erfiða ferð í ísnum við Langanes og víðar undan Norðurlandi. Svo kaldur hafði sjórinn verið að ís hafi hlaðist á reiða og stýrið hafi frosið fast nokkrum sinnum. Eftir að hafa athafnað sig á Akureyri hafi þeir siglt út úr firðinum snemma í maí, en hafi strax séð Grænlandsísinn sem hafði legið allt frá Langanesi til Horns. Skipið sigldi nokkra daga fyrir innan ísbrúnina í von um að finna leið út, en án árangurs. Þvert á móti hefði ísinn nokkrum sinnum þrengt að landi og skipstjórinn var feginn að hafa sloppið aftur inn til Hríseyjar, en var orðinn fárveikur af vökum og kulda og dó um borð á skipinu 4. júní. Þann 31. maí fór Mohr úr Hrísey yfir að Karlsá (utan við Dalvík). Þokuloft var, komnir nær hafísnum sem oftast er umkringdur þykkri þoku. Nokkuð stór ísjaki var strandaður undan landi og kelfdi þegar þeir sigldu hjá, með svo miklum brestum að það var eins og fjöllin væru að hrynja. Frá Karlsá var haldið út í Ólafsfjörð og síðan að Siglunesi. Undrast Mohr það hversu stilltur sjórinn var, eins og siglt væri á stöðuvatni. Þó ísinn væri í 5 danskra mílna fjarlægð (um 35 km) hefði hann samt áhrif á sjólagið. Hið milda og hlýja loft sem lengi hafi viðvarað inni í Eyjafirði var ekki merkjanlegt hér. Ísinn kastaði frá sér svo miklum kulda að meðan sól var lágt á lofti var jörð frosin og grýlukerti og ísskæni mynduðust alls staðar þar sem vatn lak eða rann. Mohr fór síðan aftur til Karlsár, síðan í hvítasunnumessu að Ufsum og síðan yfir á Grenivík. Þá segir hann að allan daginn hafi verið hafgola (sem hann nefnir svo og skýrir út orðið: „Vind fra Havet, der især um Foraaret blæser stærk med klar Luft visse Timer næsten daglig“.

Ýmislegt athyglisvert kemur fram í ferðalýsingunni: Hann skýrir út gerð svonefnds „bruðnings“ úr þorskhausum og uggum, sömuleiðis kæfugerð. Fjallar um ólæti svarfdælskra barna utan við kirkju á messutíma, segir frá tónlistariðkun við messuna og síðan lýsir hann siglingu inn Eyjafjörð. Harmar að menn fáist ekki til að nota áttavita hans í þoku (landar hans í Færeyjum geri það hins vegar með góðum árangri), en lýsir „fokkusiglingu“ í mjög hægum vindi (eftir að hafgolan datt niður).

[Sumar] Sumarið þótti flestum hagstætt. Þó gerði hret norðaustanlands í júnílok og sömuleiðis snjóaði í byggð í lok ágúst. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti þaðan af [eftir fardaga] var sumarið rétt gott, grasvöxtur mikill yfir allt og heyjanýting góð, jafnvel þó sumarið væri öðru hverju vætusamt fram að höfuðdegi;

Úr Djáknaannálum: Sumar hlýtt, (s227) var þó stundum úrfelli af suðvestri. Gras tók helst að spretta með hvítasunnu [3. júní] og varð grasvöxtur einn hinn besti í manna minnum, nýttust líka hey víða vel. En ei gaf af regnum að heyja til muna upp frá því 20 vikur voru af sumri. Var sumar þetta af mörgum kallað Grassumarið mikla. Af ofurregnum skemmdust hey í görðum syðra.

Höskuldsstaðaannáll: Fleiri skip kom út á Akureyri um sumarið, víst 3 alls, tvö í Hofsós, eitt í Höfða, hvert lengi lá við Hrísey, umkringt af hafísi, hver ís kom fyrir sumarmál og umkringdi Strandir og allt Norðurland. [Enn er sagt frá sama skipi við Hrísey - það var þar alls ekki umkringt ís - en komst hvorki austur né vestur um] (s580) ... Fóru flestir að slá í 11. og 12. viku sumars. Nýttust hey sæmilega. Þó var stundum óþerrir af suðvestri, svo ei verkaðist allt sem best. ... Ísinn hraktist fram í Julium. (s581) Tilburður hryggilegur við Eyrarbakka í Septembri. Fórst þar í stórviðri póstduggan, sem út skyldi sigla, við Þorlákshöfn með sjö mönnum og þar til 12 menn á slúpum [bátum með sérstöku lagi] sem vildu lóssera hana inn, 19 menn alls (að fortalið var).... .

Íslands árbók: Gjörði þó um sumarið góðan grasvöxt með kyrrum og hlýviðrum og hagstæðri veðuráttu um allan heytímann ... (s101).

Espihólsannáll: Sumar hið æskilegasta. Heyskapur góður. Nýting eins. 

Viðaukar Espihólsannáls (1): Allramesta gæðasumar í Múlasýslu, ei einasta upp á landið, heldur og sjóinn ... (s228)

Espólín: XXVI Kap. XXIX. Kap. og var þá hið besta sumar, og góður heyskapur og nýting, en menn höfðu þó fækkað í landi þann árshring nær um þúsund. En þó hey yrði mikil, þóttu mönnum þau létt, þvíað eigi varð troðið fjórðungs þyngd í hálftunnu; varð gott haustið (s 30)

Júní (Mohr):

Frá 1. til 9. bjartviðri með blæstri um miðjan dag, undir kvöld og á nóttunni var logn, 7 stiga hiti. 10. til 12. lítill vindur með lítilsháttar regnskúrum, 6 til 9 stiga hiti. 13. og 14. þykkviðri með mikilli rigningu, 5 stiga hiti. 15. til 27. bjart og lengst af logn, frá 10 til 15 stiga hiti. 27. blástur með mikilli rigningu úr norðri, 4 stiga hiti. 28. og 29. lítilsháttar snjókoma, 3 stiga hiti. 30. logn og bjart, 9 stiga hiti. Síðari hluta mánaðarins var Mohr á ferð um Suður-Þingeyjarsýslu til Húsavíkur og síðan Mývatns.

Mohr getur þess að þegar hann var á Húsavík 29. júní hafi ísjaka rekið inn á leguna þar svo óttast var um skipin. Allt slapp þó vel til. 

Júlí (Mohr):
Þann 1. til 4. blástur, þykkviðri og snjókoma, 4 stiga hiti. 5. til 11. bjartviðri og log, frá 10 til 14 stiga hiti. 11. til 13. þykkviðri, dálítil rigning og blástur, 7 stiga hiti. 14. til 17. fagurt, hægt veður, 12 stiga hiti. 18. blástur og regn, 19. til 21. gott hægviðri, 10 stiga hiti. 22. og 23. þoka. 24. til 28. hægviðri og bjart, frá 8. til 12 stiga hiti. 29. blástur með regni, 6 stiga hiti. 30. og 31. fagurt veður. Mohr var fyrst við Mývatn en fór síðan austur á Hérað, á Eskifjörð og loks á Djúpavog. 

Ágúst (Mohr):
Þann 1. og 2. stormur og regn. 3. til 6. bjart og fagurt veður, síðasta daginn 17 stiga hiti (21°C). 7, til 10. gott veður, 11. þykk þoka. 12. til 18. hægviðri, stundum þoka, 10 til 14 stiga hiti. 19. blástur og mikil rigning, 6 stiga hiti, 20. til 28. fagurt veður, 29. og 30. sterkur blástur og regn. 31. gott veður.

Sveinn Pálsson:
28-8 Snjóaði fyrst i fjöll og byggð. 22-9 Stórviðri reif hey. 23-9 Kafald á norðan. 

[Haust og vetur til áramóta]. Nokkuð umhleypingasamt framan af, en síðan frosthart - en ekki sérlega illviðrasamt til landsins. Allmiklir skaðar urðu á sjó - eins og annálarnir rekja. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti þaðan af fram yfir veturnætur óstöðugt, með hríðum, krapa- og kafaldahretum á milli; síðan gott til nýárs.

Viðvíkjandi almennilegu ástandi, þá jafnvel þó veturinn væri í betra lagi, gengu þó ei að síður yfir, þá á leið, stór harðindi og mesti bjargræðisskortur allvíða meðal manna af undanförnum bágindum og sumstaðar, einkum austan- og sunnanlands, ekki lítill mannfellir af hungri og öðru þar af leiðandi, sömuleiðis stórt peningahrun. Vorvertíðar- sumars- og haustfiskirí var yfir allt að heyra mikið gott, sem ásamt þeim góða heyfeng og hvalarekum í nokkrum stöðum gjörði þaðan af gott árferði. ... Póstduggan strandaði á Eyrarbakka um haustið; skrifað þar hefðu farist 18 manns með þeim, er fram til hennar fóru, ... (s400)

Úr Djáknaannálum: Haust óstöðugt framan af með miklum sunnanregnum, komu skörp frost eftir veturnætur, hlánaði aftur með jólaföstu; stillt síðan. 10 menn drukknuðu á Patreksfirði, 8 í Barðastrandasýslu... Í Sept. forgekk póstduggan, er hét Síld, fyrir Þorlákshafnarskeiði í stormi og stórsjó, drukknuðu þar 18 menn, 8 af duggunni og 10 íslenskir, sem fóru fram til að hjálpa henni í góða höfn, því þá að þessir voru (s230) upp á hana komnir, sleit hana upp og brotnaði. ... 14da sama mánaðar [nóvember] í snögglegu norðan áhlaupsveðri urðu 2 skiptapar nyrðra. (s231). 21ta Dec. varð skiptapi úr Keflavík undir Jökli á rúmsjó með 10 mönnum. ... Varð úti öndverðan vetur maður milli Rifs og Ólafsvíkur, ... og í Nóv. maður á Hnausamýrum í Breiðuvík, ... Jón Andrésson, múrsveitt, ... varð úti hjá Baulu í Norðurárdal. ... Ólafur bóndi Guðmundsson á Vindhæli á Skagaströnd missti um haustið sexæring, er brotnaði. Farmaskip amtmanns Ólafs, sem að kvöldi lá fermt við bryggju í Hafnarfirði, brotnaði um nóttina og tapaðist góssið. (s231)

Höskuldsstaðaannáll: Að kvöldi 14. Novembris undan Árbakka á Skagaströnd fórst fiskibátur við lendingu með fjórum mönnum ... . Sama dag forgekk skip við Reykjaströnd með 5 mönnum ... Bóndinn á Vindhæli, Ólafur, missti um haustið skip, sexæring, í sjóinn. Brotin bar upp í Selvík (s584). Haustið í betra lagi að veðuráttu og fiskafli á Skaga. Skorpa frá allraheilagramessu fram undir aðventu með sterkum frostum og nokkrum fjúkum. En góðviðri síðan í Decembri og fram um jól til Knúts [7. jan.]. (s585)

Espihólsannáll: Haust og vetur til nýárs í betra lagi. Hey reyndust um veturinn víða mjög létt og dáðlítil. (n)) --- Fáeinar manneskjur dóu af hor í Eyjafjarðar– og Skagafjarðarsýslum. (s168) ... Skiptapi verður með fjórum mönnum á Skaga, annar á Reykjaströnd ogso með fjórum mönnum sama daginn. Í Barðastrandarsýslu verða 2 skiptapar með 7 mönnum, og voru á öðru 4 bræður, duglegustu menn til lands og sjóar ... . Tveir skiptapar syðra, annar á Seltjarnarnesi, annar undir Vogastapa. Þann 21. Decembris týndist áttæringur í Keflavík undir Snæfellsjökli með 9 mönnum af holsjó undir segli. ... Einn skiptapi í Beruvík með Jökli. Týndust 2 menn, en 2 komust lífs af. 3 bátstapar með mönnum sunnan Snæfellsjökuls. Einn skiptapi á Breiðdal austur með fjórum mönnum. (s169)

Ketilsstaðaannáll:  ... á eftir fylgdi ein sérdeilis blíð sumartíð með góðum grasvexti og heynýtingum fyrir vestan, norðan og austan, en fyrir sunnan urðu töður manna fyrir nokkrum hrakningi. Harðindi, einkum á Suður- og Vesturlandi, allmikli manna á meðal, ... (s450) Einninn orsakaðist af þeim skemmdu heyjum frá því árið fyrir stórmikill peningafellir fyrir sunnan og vestan ... (s451) Fannst um vorið Höfðaskip strandað undir Smiðjuvíkurbjargi, sem nú kallast, í Almenningum á Ströndum. Strandaði póstjaktin fyrir sunnan. Á henni voru 7 menn sem allir drukknuðu, sömuleiðis 11 menn aðrir, er mót henni voru sendir til að hjálpa henni til hafnar, ... Hér að auk urðu fyrir sunnan og vestan 10 skiptapar, einn fyrir norðan á Skaga og einn í Breiðdal fyrir austan með fjórum mönnum, (s452)

September (Mohr):
Þann 1. blástur með éljum, 3 stiga hiti. 2. til 9. mest bjartur og hægur, 5 til 9 stiga hiti. 10. þykkviðri með blæstri og mikilli rigningu, 11. til 15. hægviðri og bjart, 5 til 8 stiga hiti. 16. til 24. blástur, stundum snjókoma og rigning, 1 til 5 stiga hiti. 24. til 30. hægur, bjartur með lítilsháttar næturfrosti, 1 til 5 stiga hiti.

Október (Mohr):
Þann 1. og 2. gott veður, 4. sterkur blástur og regnskúrir. 4. og 5. fagurt veður, 6. blástur og regn. 7. og 8. blástur, 9. og 10. stormur, 11. og 12. fagurt veður. 13. til 15. sterkur blástur með hryðjum.  

Sveinn Pálsson segir um nóvember:

Þennan allan mánuð hafa gengið mjög mikil frost, með austan átt. Snjólítið hér um sveit, utan hlánaði þann 28. og frysti svo aftur þann 30.

Hér lýkur umfjöllun hungurdiska um tíðarfar og veður á árinu 1781. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir mestallan innslátt annála og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska).

Við sjáum til hvernig eða hvort átjándualdarhjakki ritsjóra hungurdiska miðar eður ei. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband