Um miðjan mars 1969

Mars 1969 var fengsæll uppskerutími veðurnörda. Mikill hafís var við land og Austur-Grænlandsísinn náði líklega sinni mestu útbreiðslu frá því fyrir 1920, þakti þegar best lét um 1 milljón ferkílómetra. Á síðari árum þykir helmingur þess býsna mikið. Norðanáttir voru sérlega kaldar og sveiflur í hita frá degi til dags öllu meiri en venjulegt er. 

Af einstökum veðuratburðum mánaðarins má nefna þrjá sértaklega minnisstæða. Í fyrsta lagi illviðrið mikla þann 5. og gjarnan er kennt við verksmiðjuna Lindu á Akureyri. Um það veður höfum við fjallað nokkuð ítarlega á hungurdiskum. Önnur lægð, minni kom í kjölfarið þann 7. og fór alveg fyrir sunnan land. Tveir bátar (Fagranes og Dagný) fórust í því veðri og með þeim sex menn. Það skall snögglega á með mikilli ísingu á sjó. Fleiri bátar og togarar lentu í vandæðum. Næsti dagur, 8. mars, er sá kaldasti á landinu frá því fyrir 1920. Meðalhiti í byggð reiknast -17 stig. Nokkur strekkingur var og álag á hitakerfi mikið. Hitaveita Reykjavíkur slapp þó mun betur en köldustu dagana árið áður. Að þessu sinni var ekki svo mjög hvasst í höfuðborginni. Fjölmargir lentu þó í erfiðleikum og í Morgunblaðinu þann 9. segir frá því að aðstoða hefði þurft um 600 til 700 bíleigendur við að koma bílum í gang eftir hríð og heljarfrost. 

Þriðja minnisstæða veðrið stóð síðan í marga daga, þann 13. til 16. Er það meginefni þessa pistils. 

w-blogg081121i

Hér má sjá gang loftþrýstings yfir landinu í mars 1969. Rauði ferillinn sýnir lægsta þrýsting á landinu á 3 stunda fresti, en grái ferillinn mun á hæsta og lægsta þrýstingi á sama tíma - svonefnda þrýstispönn. Spönnin er góður vísir á vindhraða - því meiri sem hún er því meiri er vindurinn. Ekki er þó alveg beint samband á milli - vegna þess að landið er lengra í austur-vestur heldur en norður-suður. Sömuleiðis vanmetur spönnin vindinn sé kröpp lægð yfir landinu sjálfu. 

„Lindulægðin“ kemur fram sem örmjó dæld í ferlinum. Lægðin var mjög kröpp - en gekk hratt yfir. Þá varð þrýstispönnin mest í mánuðinum, um 26 hPa. Lægðin sem olli sjósköðunum fór líka hratt hjá, og spönnin fór í um 21 hPa. Lágþrýstingurinn sem réði ríkjum dagana 13. til 17. var annars eðlis. Þrýstingur fellur jafnt og þétt í þrjá daga, fyrst hægt en síðan hraðar. Eftir það koma um 3 sólarhringar þar sem lægsti þrýstingur landsins breytist lítið, en síðan rís hann aftur ákveðið í 3 til 4 daga. Ekki varð alveg jafn hvasst í þessu veðri og þeim fyrri. Hámarksspönn var um 16 hPa. 

Næsta mynd virðist í fljótu bragði nokkuð flókin - en það borgar sig að rýna aðeins í hana. Skýrara eintak (og mjög stækkanlegt) er í viðhenginu. 

w-blogg081121ii

Hér má sjá hita á 6 veðurstöðvum dagana 11. til 17. mars 1969. Tölurnar eru við hádegi hvers dags. Mjög kalt var á fjórum stöðvanna þann 11., frostið á Akureyri var -19,2 stig kl.3 aðfaranótt þess dags. Lítið frost var í Reykjavík og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Um hádegi þann 12. hafði vindur snúist til suðurs og síðdegis var frostlaust á öllum stöðvunum. Næst gerist það að hiti á Galtarvita hríðféll að morgni 13. (rauður ferill). Klukkan 6 var þar 3 stiga hiti, en kl.9 var komið þriggja stiga frost. Á Hornbjargsvita (ekki er mjög langt á milli) fór hiti ekki að falla fyrr en eftir kl.15. (grænn ferill) Þá var þar 3 stiga hiti, en kl.18 var komið -8 stiga frost - og fór niður í meir en -14 stig um nóttina. Á báðum stöðvunum hlýnaði aftur - nokkuð snögglega - fyrst á Galtarvita en síðan á Hornbjargsvita.

Kuldastrokan kom úr norðri. Að kvöldi þess 14. var aftur hláka um land allt - og hélst svo allan þann 15. Þá komu mjög hægfara kuldaskil inn á landið úr vestri. Handan þeirra var svalt vestanloft - ekki nærri því eins kalt og norðanloftið, en samt frysti. Skilin fóru nú til austurs yfir landið - en afskaplega hægt. Það má sjá á því hversu ósamstíga ferlarnir eru. 

Þessu hægfara kerfi fylgdi allan tímann mjög mikil úrkoma á mjóu belti og olli hún umtalsverðum vandræðum. Fyrst á Vestfjörðum - en um síðir líka suðvestanlands (sjá neðar). Við lítum nú á fáein veðurkort (þau verða skýrari séu þau stækkuð). 

w-blogg081121r1

Eins og áður sagði var hláka um land allt mestallan þann 12. Þá gerði gríðarmikla úrkomu á sunnanverðum Vestfjörðum. Norðanloftið sótti aftur að þann 13. og kortið sýnir stöðuna kl.18 þann dag. Þá var -8 stiga frost á Hornbjargsvita, en 5 stiga hiti í Kjörvogi á Ströndum. Hiti var við frostmark í Æðey, en -8 stiga frost á Galtarvita. 

w-blogg081121r2

Veðurkortið síðdegis þann 13. sýnir skilin skörpu við Vestfirði - endurgreining japönsku veðurstofunnar nær staðsetningu þeirra býsna vel. Suðaustan skilanna sækir hlýtt loft af suðlægum uppruna að, en norðvestan þeirra liggur gríðarkaldur strengur úr norðri. Mikil úrkoma er á mjóu belti í skilunum. Hér má vart á milli sjá hvort hefur betur, kalda eða hlýja loftið. 

Staða sem þessi er ekki algeng, en ekki beinlínis óalgeng heldur. Hér er það kuldinn í norðanloftinu sem er hvað óvenjulegastur miðað við það sem við síðar höfum kynnst við ámóta aðstæður. Það sem við sjáum er skarpt lægðardrag á milli tveggja öflugra háþrýstisvæða. Hæðin yfir Grænlandi og þar vestan við er köld sem kallað er - hún gerir meira en að fylla upp í mikla lægð (Stóra-Bola) í háloftunum. Austari hæðin er af blandaðri uppruna - hlý í háloftum, en í henni er líka kalt loft úr norðri, það er meira áberandi þegar kemur austur yfir Skandinavíu og Finnland. 

Í lægðardraginu má kannski greina litla, lokaða lægð yfir Breiðafirði eða Vestfjörðum. Hún gróf smám saman um sig, mjakaðist vestur fyrir og hlýja loftið náði yfirhöndinni um tíma. Norðanloftið hörfaði. Þegar lægðin komst norðvestur fyrir Vestfirði sneru skilin við - í þetta sinn sunnan hennar - sem hefðbundin kuldaskil. 

w-blogg081121r3

Hér má sjá háloftakort á sama tíma og sjávarmálskortið að ofan, síðdegis þann 13. Gríðarlega köld lægð er við Norðvestur-Grænland - meir en barmafull af köldu lofti, þannig að úr verður háþrýstisvæði við sjávarmál. 

w-blogg081121r4

Úrkoman vestra að kvöldi 12. og aðfaranótt þess 13. olli skriðuföllum og krapaflóðum á Vestfjörðum, og tjón varð bæði á Bíldudal og á Þingeyri, auk þess sem krapasnjóflóð féll á fjós á bænum Múla í Kirkjubólsdal. Textinn í fréttinni er lesanlegur sé myndin stækkuð. 

w-blogg081121r5

Aðfaranótt 16. komu kuldaskilin síðan úr vestri inn á sunnanverða Vestfirði og Snæfellsnes. Síðdegis þann dag lágu þau um landið þvert, milli Eyrarbakka og Hellu, vestan við Hveravelli og á milli Blönduóss og Sauðárkróks, 9 stiga munur var á hita þessara stöðva kl.18.

w-blogg081121r6

Á sjávarmálskortinu sjáum við að austari hæðin hefur lítt eða ekki gefið eftir, en dregið hefur úr afli köldu hæðarinnar. Kuldapollurinn mikli þokaðist norður og vestur. 

Í lok febrúar 1968 (árið áður) gerði eftirminnilegt stórflóð í Elliðaám og víðar á Suðvesturlandi. Í mars 1969 var snjór heldur minni en þá, en allt land gaddfreðið, tók ekki við neinni úrkomu. Sigurjón Rist vatnamælingamaður orðaði þetta skemmtilega í fyrirsögn í Vísi þann 17.mars: „Landið eins og stálskúffa“ - tók ekki við neinu. Enda flæddi víða. Sagt var að kjallarar í Keflavík hafi verið eins og lækjarfarvegir og víða flæddi í hús á höfuðborgarsvæðinu. (Textinn verður lesanlegur sé myndin stækkuð).

visir_1969-03-17

Það vekur eftirtekt að í fréttum er minnst á eina mestu sólarhringsúrkomu sem gert hafi í Reykjavík, talan sem nefnd er í Vísisfréttinni er 49 mm. Samt kemur þetta atvik ekki fram sem slíkt í sólarhringstöflum Veðurstofunnar - týnist (eða hvað?). 

Sé málið athugað nánar kemur í ljós að sú venja að skipta úrkomusólarhringum kl.9 skiptir magninu í þessu tilviki í tvo ámóta stóra hluta, úrkoma milli kl. 18 þann 15. og 9. þann 16. mældist 20,0 mm (og bókast á síðarnefnda daginn), en úrkoma kl.18 þann 16. mældist 28,6 mm og bókast á þann 17. (engin úrkoma mældist eftir kl.18 þann 16., né þann 17. Þetta eykur líkur á því að þessi mikla úrkoma hreinlega gleymist í úttektum. Hefði hún fallið „rétt“ í sólarhringinn væri hún í 6. sæti á lista mestu sólarhringsúrkomu í Reykjavík og sú næstmesta í mars.

Gríðarleg úrkoma var víða vikuna 12. til 18.mars. Hún var hvergi jafndreifð á dagana - og eins og fjallað var um hér að ofan var mesta úrfellið vestra ekki samtímis úrfellinu suðvestanlands. Vikuúrkoman var mest í Kvígindisdal við Patreksfjörð, 189,0 mm, 172,7 mm í Mjólkárvirkjun og 151,5 í Andakílsárvirkjun. Á höfuðborgarsvæðinu mældist úrkoma mest á Hólmi fyrir ofan Reykjavík, 110,3 mm. Á Reykjavíkurflugvelli mældust 71,7 mm. 

Meðan á þessu stóð var úrkoma lítil norðaustanlands. Á Vopnafirði mældist vikurúrkoman aðeins 0,8 mm. 

Eins og að ofan greindi er veðurstaða sem þessi kannski ekki beinlínis óalgeng eða einstök en skemmtileg er hún fyrir ung veðurnörd - og jafnvel holl tilbreyting fyrir vakthafandi veðurfræðinga. Þegar hana ber að eins og í mars 1969 getur hún orðið býsna illskeytt, vegna flóða, skriðufalla, snjóflóða, samgöngutruflana og kerfisbilana af völdum ísingar. Fjölmargir forfeður okkar hafa orðið úti í veðrum sem þessum, fjárskaðar orðið og sjóskaðar. Við skulum því ekki smjatta um of af ánægju einni saman. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband