Atlaga að loftþrýstimeti ágústmánaðar

Þegar þetta er skrifað er þrýstingur á Önundarhorni undir Eyjafjöllum kominn í 1036,3 hPa. Þetta er meira en „opinbert“ eldra met ágústmánaðar, sett í Grímsey 13.ágúst 1964 (1034,8 hPa) og vel yfir því sem hæst hefur áður mælst á þessari öld (1032,2 hPa á Gufuskálum 25.ágúst 2003).

Eitt hærra gildi er til í gögnum Veðurstofunnar, 1036,7 hPa sem mældust í Stykkishólmi þann 28.ágúst árið 1869 - fullleiðrétt til frostmarks, sjávarmáls og breiddarstigs. Við vitum þó ekki mikið um þessa loftvog eða hversu rétt stillt hún var við framleiðslu. Það styður þó þetta met að sama dag mældi Sr. Björn Halldórsson í Laufási við Eyjafjörð 1037,6 hPa á loftvog sína, bæði að morgni og kveldi. Í þeim tölum eru þó engar leiðréttingar - og talan nær örugglega nokkuð of há. - En þetta er þó hæsta tala sem Björn festi á blað í ágústmánuði á löngum mæliferli sínum (1854 til 1882). 

Ágúst 1964 er mjög eftirminnilegur. Veðráttan segir um tíðarfarið:

„Tíðarfarið var sæmilega hagstætt fyrrihlutann, en síðar mjög kalt og óhagstætt. Fjallvegir urðu þungfærir og jafnvel ófærir með köflum norðanlands, og fé fennti á stöku stað. Sunnanlands féll kartöflugras í frostum og hvassviðri. Góður þurrkur var um sunnanvert landið, og náðist hey inn, en nýting var víða slæm“.

Hiti fór yfir 20 stig fimm daga mánaðarins, en á móti kom að næturfrost var einhvers staðar í byggð 15 daga. Snjódýpt mældist 7 cm á Hólum í Hjaltadal að morgni þess 21. og daginn eftir lokaði snjóflóð veginum um Siglufjarðarskarð. Þann 20. varð allmikill jarðskjálfti á Suðurlandi - sem lítið er um talað. Þó urðu talsverðar skemmdir, húsveggir hrundu, innveggir hrundu í húsum í byggingum, hitakerfi eyðilögðust og jörð sprakk. 

Ritstjóri hungurdiska minnist veðurlags háþrýstidagana vel - eins og það var í Borgarnesi. Það hefði átt að vera sæmilega hlýt - og hefði átt að vera sólskin. Sólin sýndi sig að vísu í gegnum ískaldar þokuslæður sem lögðust inn af Faxaflóa. Hiti komst þessa daga í tæp 19 stig í Síðumúla og kannski hefur verið enn hlýrra fram í Hvítársíðukrók og á Húsafelli - en þar var ekki mælt. Rúmri viku síðar (21.) var sólarhringsmeðalhiti á landinu ekki nema 4,6 stig. 

w-blogg310821a

Hér má sjá kort japönsku endurgreiningarinnar 13.ágúst 1964. Allt virðist í lukkunnar velstandi. Mikið og hlýtt háþrýstisvæði í háloftum yfir landinu - og þykktin vel yfir 5500 metrum (rétt að geta þess að ameríska endurgreiningin sýnir minni þykkt þennan dag). 

Við norðurjaðar kortsins er mjög snarpur kuldapollur. Hann átti aldeilis eftir að valda leiðindum. Þokaðist suður og réðist að landinu aðfaranótt þess 15. og yfirgaf okkur ekki fyrr en á höfuðdaginn (29.ágúst).

w-blogg310821-timinn1964-08-22

Fyrirsögn úr dagblaðinu Tímanum laugardaginn 22.ágúst 1964.

Mikill kuldi fylgdi háþrýstingnum undir lok ágúst 1869, meðalhiti þá daga í kringum 5 stig í Stykkishólmi. Stórrigning var næstu daga á undan fyrir norðan, en mikil hríð á fjöllum (sjá ítarlega umfjöllun hungurdiska um árið 1869).

Annað er uppi á teningnum nú - til allrar hamingju. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Feb. 2024
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29    

Nýjustu myndir

 • w-1949-iskort
 • Slide19
 • Slide18
 • Slide17
 • Slide16

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (28.2.): 0
 • Sl. sólarhring: 87
 • Sl. viku: 1182
 • Frá upphafi: 0

Annað

 • Innlit í dag: 0
 • Innlit sl. viku: 1059
 • Gestir í dag: 0
 • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband