29.8.2021 | 22:18
Af höfuðdegi
Í dag er höfuðdagur - tengdur sögunni af lífláti Jóhannesar skírara. Þessi dagur hefur löngum verið tengdur veðrabrigðum - halla tekur að hausti. Dagurinn hefur ætíð tengst þeim hluta kirkjuársins sem fylgir almanaksdögum, eins og flestir dýrlingadagar og jólin. Höfuðdagurinn er 29.ágúst ár hvert, rétt eins og jólin eru 25.desember. Í kirkjuárinu eru líka það sem er oft kallað hræranlegar hátíðir - allar meira og minna tengdar páskum. Leifar úr gömlu tungltímatali gyðinga og þar með vorkomu á Gyðingalandi.
Hin ýmsu kirkjuþing fjórðu aldar reyndu að búa til eins konar samræmt kirkjutímatal - fella páskatímatalið á reglubundinn hátt að hinu rómverska tali sem langoftast er kennt við Júlíus Cæsar - júlíanska tímatalið.
Smám saman kom í ljós að árið var örlítið of langt í júlíanska talinu, munaði tæpum þremur dögum á því og réttu sólarári á hverjum 400 árum. Þetta þýddi að bæði sólstöður og jafndægur fluttust smám saman til - urðu fyrr og fyrr á dagatalinu. Þannig séð skipti það ekki svo stóru máli fyrir flesta hluti - hver kynslóð fyrir sig varð ekkert vör við þetta misræmi - jól voru eftir sem áður alltaf 25.desember. Hins vegar fóru páskar á flot - vegna þess að þeir eru tengdir fullu tungli nærri jafndægrum. Reiknimeistarar kirkjunnar sáu að um síðir myndi stefna í óefni, þeir hugsuðu nefnilega langt fram í tímann. Að því myndi koma að níuviknafasta fyrir páska færi að rekast á jólahaldið - var orðið furðustutt í það á 16.öld - og að því kæmi. Og á endanum (eftir þúsundir ára að vísu) rækjust páskarnir á jólin.
Þessi hugsun var nægilega óþægileg til þess að ljóst var að eitthvað yrði að gera. Margt kom til greina. Það hefði einfaldlega verið hægt að festa páskana í ákveðinna daga fjarlægð frá jólum - en dálítið subbuleg lausn ein og sér - almanaksárið væri enn of langt miðað við sólarárið. Það hefði líka verið hægt að láta þá villu sem safnast hafði fyrir halda sér - en sjá til þess að árið yrði af réttri lengd eftir það - og gera ekki meir.
Ritstjóri hungurdiska þekkir hinn trúarlega þátt umræðunnar lítið sem ekki neitt - en honum er þó ljóst að það var mikilvægt að ekki væri unnt að efa réttmæti dagsetningar páskanna. Þar var ákveðin samkeppni við gyðinga, rétt skyldi vera rétt - var augljóslega orðið vitlaust þegar komið var fram á 16.öld. Það var hins vegar kannski bara ágætt að jólin var að reka frá sólstöðunum (og sólstöðuhátíðum heiðingja).
Fyrst ákveðið var að flytja páskana á réttan stað gagnvart sólargangi (og þar með vori) þurfti að ákveða hvernig það skyldi gert. Einfaldast þótti að sleppa þeim 10 aukadögum sem júlíanska tímatalið hafði í ófullkomleika sínum bætt við árið frá því kirkjuþingin voru haldin á fjórðu öld.
Í kaþólskum löndum var þetta gert haustið 1582, en misvel gekk að leiðrétta annars staðar, hér á landi ekki fyrr en haustið 1700. Þá hafði 11 dagurinn bæst við villuna. Leiðrétta tímatalið er kennt við Gregoríanus páfa, en oftar er hér á landi talað um nýja og gamla stíl þegar fjallað er um breytinguna.
En hvað hefur þetta allt með höfuðdaginn og veðurspávísi þá sem honum tengist að gera?
Jú, í gamla stíl var höfuðdagurinn eins og nú 29.ágúst. Haustjafndægur voru hins vegar 12.september. Í íslensku almanaki sem gefið ver út á Hólum í Hjaltadal 1671 segir: Þann 12. september gengur sól í metaskálar (vogarmerkið), þá er dagur og nótt aftur jöfn, frá uppgöngu sólar að reikna til niðurgöngu.
Höfuðdagur var þannig 14 dögum fyrir jafndægur árið 1672 - í nýja stíl eru jafndægur að hausti hins vegar 22.september. Höfuðdagurinn er því 24 dögum fyrir jafndægur nú á dögum. Allir sem fylgjast með veðri vita að sé einhver tímatalsregla á því á annað borð tengist hún fremur gangi himintungla (sólar) heldur en heilagramannadögum. Þetta olli því að veðurreglur tengdar messudögum urðu allar á svipstundu fremur ótrúverðugar. Margir héldu þó enn í og töluðu um gamla höfuðdaginn - 14 (eða 13) dögum fyrir jafndægur - sem þann sem taka skyldi mark á, 8. eða 9. september í nýja stíl.
Fleiri messudagareglur komust við þetta í uppnám - við rekjum það ekki hér og nú (kannski síðar?).
En tökum annað dæmi. Árið 1672 bar fyrsta vetrardag upp á 12.október - hann var þá 30 dögum á eftir jafndægrum - og að meðaltali var hann í gamla stíl jafnlangt á eftir jafndægrum og er nú á dögum - um mánuði. Íslenska misseratímatalið var nákvæmara heldur en það júlíanska, en var hins vegar ekki tekið upp fyrr en í kringum árið 1000. Ekkert þurfti því að hringla með veðurreglur gagnvart því. Gallinn er hins vegar sá að flest gömul veðurspeki er innflutt, tengd annað hvort kirkjuárinu eða gangi himintungla - samin suður í Evrópu. Hér er hvorki vit né rúm til að rekja þau mál - þó ritstjóri hungurdiska gæti malað sitthvað - án ábyrgðar (hann er ekki menntaður í forn- eða miðaldaspeki).
Eftir að nýi stíll var tekinn upp var hægt að leita á náðir misseristímatalsins og velja fimmtudag í 21.viku sumars þann dag sem mark skyldi taka á - þá hófust réttir.
Útgefandi Hólaalmanaksins 1671 getur ekki veðurreglu tengda höfuðeginum, en nefnir aðra - sem reyndar er enn á floti á okkar dögum - eða var það alla vega þegar ritstjóri hungurdiska var ungur maður. Þar segur um Egedíusarmessu 1.september:
Þurrt veður á Egedísusarmessu halda sumir merki þurrt haust.
Ritstjóri almanaksins tekur ekki afstöðu til reglunnar - segir aðeins að sumir haldi. Við gætum tekið eftir því í ár hvort reglan gengur eftir - svo gætum við líka litið til gömlu Egedíusarmessu sem er (miðað við jafndægur) þann 11.september í ár (eða þann 12. ef það hentar betur).
Þessi breyting - að sleppa 11 dögum úr árinu - hefur verið mörgum meiriháttar höfuðverkur. Nú á dögum væri þetta einfaldlega ekki hægt - ímyndum okkur öll tölvuvandræðin sem myndu af þessu skapast.
En hvað með höfuðdaginn í ár, 2021?
Hér má sjá stöðuna á Egedíusarmessu (miðvikudag 1.september) úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar af þeim má ráða vindátt og styrk. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Eitt helsta átakasvæði norðurhvelsins er við Ísland. Óvenjuöflug hæð vestan Skotlands dælir til okkar mjög hlýju lofti úr suðri. Þykktin er mikil, þó ekki alveg jafnmikil og í mestu hlýindunum í síðustu viku. Reiknilíkön eru helst á því að hæðin gefi heldur eftir í lok vikunnar, afl hennar minnki og að hún hörfi heldur austur á bóginn. Ekkert er þó enn gefið í þeim efnum.
Ógurlegur kuldapollur er yfir Norðuríshafi - og haustsvipur á honum. Hann er búinn að vera þarna um nokkra hríð - sækir heldur í sig veðrið með lækkandi sól. Langtímaspám gengur ekki mjög vel að ráða í framtíð hans - þær sjá þó að hann mun færa sig nær Kanada næstu daga - en hvort eða hvernig hann kemur hér við sögu er enn óljóst - fer af því fjölmörgum sögum sem við getum ekki verið að rekja hér. En vel má vera að þessi kuldapollur nái að gangsetja haustið hér á landi.
Til gamans (fyrir þrekmikla) er hér meira um tímatalsbreytinguna:
Tímatalsbreytingin gekk hratt fyrir sig hér á landi - tilkynning konungs er dagsett 10.apríl og skyldi lesin upp á Alþingi um sumarið: Forordning om Almanakkens Forandring til Brugelighed paa Island og Færöe. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki aðgang að prentaða frumritinu, en tilkynningin er prentuð í Lovsamling for Island, 1.bindi, s.550 til 552. En dagatal nóvembermánaðar fylgdi. Þar má sjá Marteinsmessu 11.nóvember, fullt tungl þann 15., laugardag 16. og síðan er næsti dagur sunnudagur 28.nóvember, 1.sunnudagur aðventu. [Enginn svartur föstudagur þetta árið] - og jól bar brátt að.
Alþingi brást við og gaf út sérstaka tilkynningu um hvernig skyldi farið með íslenska misseristalið (sama heimild, s.553-554). - Hún hefst svona - orðalag í svokölluðum kansellístíl sem ritstjóri hungurdiska hefur stundum verið sakaður um að nota (en er því miður ófær um):
Hans Kóngl. Maj[st] allranáðugustu befalníng, sem hér fyrskrifuð er, með stærstu undirgefni að hlýða og eptir lifa, var af lögmönnum með ráði forstandugra manna innan og utan vebanda svo skikkað og fyrir sett (eptir því sem þeim skiljanlegt er) um eptirkomandi ára timatal þess nýja stíls, sem næst kynni gánga tímatali fyrirfarandi ára eptir þeim gamla stíl, sem ei er svo allt glöggt í dönsku almanaki að finna, en þarf þó, eptir nauðsynlegu landsins og búskaparins háttalagi að aðgætast, svo enginn misskilningur og tvídrægni útaf hljótist meðal innbyggjaranna:
Síðan koma fyrirmæli: i) um vetrar komu [og miðsvetrar þorrakomu, sumar komu og fardaga tíð], ii) um vertíðar hald, iii) vinnuhjúa skildaga, iv) auxaráralþing, v) hey-annir.
Að lokum segir:
Hverir helzt sem vera kunna hér i landi, andlegrar stéttar eður veraldlegrar, sem lærðir eru uppá rímtal, eru vinsamlega umbeðnir (eptir sínu viti) íslenzkt rím uppsetja eptir þeim nýja stíl, undir approbationem eður staðfestu eðla og velæruverðugra herra biskupanna þessa lands, svo því síður misskilningur eður sérvizka kunni meðal þess fáfróða almúga af hljótast, heldur sérhver láti sig af sér hyggnari manni góðmannlega sannfæra, svo því síður nokkur verði fundinn í því, sig mót Hans Kóngl. Maj[st] allranáðugustu befalningum óhæfilega að forgrípa.
Allt til þess að gera mjög einfalt - en samt ótrúlega ruglandi. Fyrir breytinguna voru jólin komin 14 dögum aftur fyrir sólstöður - í stað þeirra 3 sem rétt var talið (eins og var á tíma Níkeuþingsins árið 325). Til leiðréttingar þurfti að sleppa 11 dögum úr árinu - nóvember varð fyrir valinu.
En hér á landi gekk tímatalsbreytingin þó mun betur heldur en bæði í Englandi og Svíþjóð. Svíar lentu í óttalegri martröð - í þeirra dagatali er m.a. 30.febrúar 1712 en í Englandi þurfti að flytja áramótin líka - þau voru áður á jafndægrum eða sýndarjafndægrum (ég veit ekki hvort). Páskadagsetningar milli 1582 fram að nýja stíl eru líka hálfgerð martröð - misjafnar eftir löndum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 13
- Sl. sólarhring: 156
- Sl. viku: 1934
- Frá upphafi: 2412598
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 1687
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Stórfróðleg samantekt og fróðleg.Kærara þakkir fyrir þó að ég hafi ekki næapa ap skilja þetta allt, t.d. hvernig Enskir fluttu áramótin og hvernig það kemur út í kóngasögum og stjórnar.
Halldór Jónsson, 30.8.2021 kl. 15:18
Þegar ég var jarðvinnuverktaki sagði ðég mönnum að búa sig undir að frost myndi hamla 15.október og fannst mér það yfirleitt verða að veruleika að fyllingarvinna tæfist þá.
Halldór Jónsson, 30.8.2021 kl. 15:21
Enskir fluttu áramótin árið 1752 (en skotar höfðu gert það þegar árið 1600). Ég veit ekki hvenær það gerðist hér á landi - en hafði ekki verið gert við kristnitöku. Þetta getur valdið umtalsverðum ruglingi (og gerir) þegar maður les enska sögu - maður heldur að atburður sem gerist t.d. í febrúar 1666 hafi gerst 1665 - því það er ártalið sem var notað. Þar að auki sést að seinni tíma söguritarar „leiðrétta“ þetta sumir - aðrir ekki. Rétt að hafa í huga. - Um þetta má lesa t.d. hér: https://en.wikipedia.org/wiki/Old_Style_and_New_Style_dates
15. október er algengt að frost séu að hefjast - fyrsti snjór á jörð í Reykjavík verður oft í kringum 20. til 25. október.
Trausti Jónsson, 2.9.2021 kl. 01:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.