Þráviðrið

Nú eru litlar breytingar á veðri frá degi til dags. Þó þetta verði að teljast heldur köld tíð miðað við árstíma hefur samt ekki beinlínis farið illa með veður. Gróður fer sér hægt og þurrkar eru til baga. Gróðureldahætta umtalsverð um landið sunnan- og vestanvert, og harla dauft norðaustanlands - en ekki þó stórhret. 

Við skulum nú líta á hvernig staðan er í háloftunum á norðurhveli og reynum að átta okkur aðeins á henni. Kort evrópureiknimiðstövðarinnar gildir kl.18 á mánudag, 10.maí.

w-blogg080521a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Grænu litirnir eru þrír. Á þessum árstíma ættum við að vera í þeim í miðjunni, sem sýnir þykkt á bilinu frá 5340 metrum upp í 5400 metra, sumarylur byrjar í kringum 5460 metra (í gula litnum). Hér má sjá að landið er ekki í grænum lit heldur bláum - og ekki einu sinni þeim ljósasta. Þykktin yfir landinu á mánudaginn (10.maí) þegar kortið gildir á að vera 522ö metrar - svipað og meðaltalið í janúar og um 130 metrum undir meðallagi maímánaðar. Það þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs er 6-7 stigum neðan meðallags. Vik meðalhita í mannheimum eru heldur minni, trúlega 4-5 stig. 

En kortið sýnir að mikið hefur slaknað á afli vestanvindabeltisins - sumarið nálgast á norðurhveli. Breytingar eru orðnar heldur hægari en fyrr í vor. Við höfum nú lent dálítið á milli veðrakerfa - lægðagangurinn er langt fyrir sunnan landið - en meginkuldinn líka nokkuð langt undan - nærri norðurskauti. 

Á kortinu er strikalína sem markar eins konar landamæri milli áhrifa lægðanna í suðri og heimskautaloftsins í norðri - þessi lína hefur legið á svipuðum slóðum nú um hríð - færir okkur hálfgerða veðurleysu - hvað vind og úrkomu áhrærir - en ekki mikla von um breytingar.

Það er einkum tvennt sem getur breytt þessari stöðu. Annars vegar eitthvað langt að sunnan sem fær einhverja bylgjuna fyrir sunnan veðurleysuna til að hreyfa við henni - lægðin sem nú er vestur af Bretlandseyjum er einmitt af þessu tagi - hún beinir nú mjög hlýju lofti norður um alla Evrópu - en hreyfir ekki við neinu hér á landi - við þyrftum að fá bylgju af þessu tagi aðeins vestar - það er rétt hugsanlegt að lægðin þessi beini til okkar hlýju pústi úr austri - en lítil von þó.

Annar möguleiki til breytinga er að kuldapollurinn mikli við norðurskautið (við sjáum fjólubláan blett í honum) fari eitthvað á skrið. Fari hann suður um Kanada gæti hann um síðir rótað upp í veðurleysunni og komið hlýrra lofti til okkar úr suðri. Við viljum hins vegar alls ekki að hann komi suður um til okkar - hvorki rétt vestan við eða austan við. Þá fengjum við illviðri af einhverju tagi - jafnvel hríðarveður. Þau eru ekki skemmtileg á þessum tíma árs (en ekki óskaplega óalgeng). Best er ef svona kuldapollar heldi sig sem fastast þar sem þeir eiga heima. 

Kannski gerist ekkert af þessu - veðurleysan heldur bara áfram. Þá hlýnar einfaldlega hægt og hægt vegna vaxandi sólaryls - án grundvallarbreytinga. Gott veður í einhverjum almennum skilningi - en harla óheppilegur þurrkur og nætursvali. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg120424c
 • w-blogg120424b
 • w-blogg120424a
 • w-blogg110424b
 • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (16.4.): 236
 • Sl. sólarhring: 264
 • Sl. viku: 2015
 • Frá upphafi: 2347749

Annað

 • Innlit í dag: 208
 • Innlit sl. viku: 1740
 • Gestir í dag: 199
 • IP-tölur í dag: 192

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband