Góugróður?

Góa er 5.mánuður íslenska vetrarmisserisins. Í grein sem Árni Björnsson ritaði um góu í Árbók Fornleifafélagsins 1990 má lesa margvíslegan fróðleik um góu, sem hófst með konudegi síðastliðinn sunnudag (21.febrúar). Þar er einnig fjallað um veðurspeki sem tengist mánuðinum. Hún rifjast upp í blíðunni þessa dagana. Árni bendir réttilega á að ekki sé algjört samkomulag hvað hana snertir og nefnir dæmi úr orðskviðabók Guðmundar Jónssonar prests á Staðarstað [1830]: „Góður skyldi góudagur hinn fyrsti, annar og þriðji, þá mun góa góð verða“ - þar er „grimmur“ í sviga á eftir „góður“. Geta spakir rifist um hvort er sér til heilsubótar - annað eins er nú rifrildistilefnið á samfélagsmiðlunum. 

Flestir eru hins vegar sammála um að gróður sem kviknar á góu sé heldur viðkvæmur og ekki líklegur til að endast til vors. Sumir ganga svo langt að telja að hann boði beinlínis illt vor - eins og segir í vísunni (Árni vitnar í margar gerðir hennar):

Ef hún góa öll er góð,
öldin skal það muna,
þá mun harpa hennar jóð
herða veðráttuna.

Harpa er sem kunnugt er fyrsti sumarmánuður misseristímatalsins gamla - byrjar á sumardaginn fyrsta. Einmánuður er á milli góu og hörpu. Þegar flett er í erlendum alþýðuveðurspáritum kemur fljótt í ljós að þessi vantrú á mildum vetrarköflum einskorðast ekki við Ísland - slíkir kaflar eru oftar en ekki taldir illis viti - eins og flestöll gömul veðurspeki er hér um innfluttan varning að ræða.

w-blogg220221a

Blaðaklippan sem hér fylgir er úr Morgunblaðinu 27.febrúar 1964 - en þá var tíð fádæma góð. Blaðið ræddi við Jón Eyþórsson veðurfræðing, það er dálítið skondið [fyrir ritstjóra hungurdiska] að hann minnist á að menn séu þá þegar búnir að gleyma blíðunni í fyrra (1963) - en þá fór í raun og veru mjög illa. Vorið 1964 slapp hins vegar til - og vel hugsanlegt að einhver góugróður hafi lifað af. Svipað gerðist svo tíu árum síðar, 1974. [Textinn verður læsilegur sé myndin stækkuð].

En lítum nú á hita á góu og hörpu. Við notum mælingar úr Stykkishólmi 1846 til 2020 og reiknum meðalhita þessara mánaða. Góa nær venjulega yfir tæpan þriðjung febrúar og rúma tvo þriðju hluta mars, en harpa tæplega síðasta þriðjung apríl og fyrstu tvo þriðjunga maímánaðar. 

w-blogg220221

Ekki alveg einfalt að sjá - en einfalt samt (skýrari og mjögstækkanlega pdf-gerð má finna í viðhengi). Hiti á góu er sýndur á lárétta ásnum, kaldast var á henni 1881, en hlýjast 1929. Hiti á hörpu er á lóðrétta ásnum. Köldust var hún 1882, en hlýjust 1935. Fylgnin reiknast marktæk (fylgnistuðull er 0,33) - en sannleikurinn er sá að megnið af henni orsakast af almennri hlýnun beggja mánaða. Við ættum strangt tekið að byrja á því að taka hana burt - einnig á strangt tekið líka að taka tillit til þess að breytileiki hitans í mánuðunum tveimur er mjög mismunandi - mun meiri á góunni heldur en á hörpu. [Staðalvik á góu er 2,4°C, en 1,6°C á hörpu, munur á hæsta og lægsta góumeðalhita er nærri 16 stig, en ekki „nema“ 8,8 stig á hörpu]. 

Strax vekur athygli að meðalhiti á hörpu var svipaður árið 1881 og 1929 - nánast í meðallagi tímabilsins alls, góa 1881 er hin kaldasta, en 1929 sú hlýjasta. Þess er að vænta að tilfinningin hafi samt verið gjörólík þessi tvö ár. Harpa 1881 virtist mild og hlý miðað við veðráttuna frostaveturinn mikla 1880-1881, en heldur svöl 1929 miðað við hin sjaldgæfu vetrarhlýindi þá. Kalt var á góu 1882 - og mjög kalt á hörpu. Hlýtt var á góu 1974 og líka hlýtt á hörpu. Erfitt er greinilega að nota góuhitann sem spá um hita á hörpu.

Sé leitni reiknuð kemur í ljós að síðustu 170 árin hefur að jafnaði hlýnað um 1,7 stig á öld á góu, en „aðeins“ 0,7 stig á öld á hörpu. Þetta sést vel á næstu mynd.

w-blogg220221b

Súlurnar sýna mun á hita þessara tveggja mánaða frá ári til árs, rauða línan markar 10-árakeðjumeðaltal. Munur hefur minnkað - ekki þó jafnt og þétt. Hann hefur lítið breyst síðustu 50 árin. Hann var meiri á hlýskeiðinu fyrir miðja öldina (1925 til 1965) heldur en á núverandi hlýskeiði og töluvert miklu meiri á 19.öld heldur en nú. Það hefur þrisvar gerst að góa hefur verið hlýrri heldur en harpa, það var 1929, 1932 og 1963. Góa var afbrigðilega hlý öll þessi ár - og viðbrigðin því mikil. 

En hitafar var ekki það eina sem skipti máli á hörpu - leiðin til hins fullkomna vors er flóknari en svo. 

Þó góa byrji vel nú og þorrinn hafi verið harla hagstæður um meginhluta landsins (ekki þó alveg allstaðar) hefur hiti enn sem komið er ekki verið í hæstu hæðum og keppir ekki í bili að minnsta kosti við hlýjustu vetur. Við lítum á meðalhita fyrstu þriggja vetrarmánaðanna um næstu helgi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1017
  • Sl. sólarhring: 1110
  • Sl. viku: 3407
  • Frá upphafi: 2426439

Annað

  • Innlit í dag: 906
  • Innlit sl. viku: 3062
  • Gestir í dag: 882
  • IP-tölur í dag: 816

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband