18.2.2021 | 20:54
Af árinu 1842
Árið 1842 var umhleypinga- og úrkomusamt, en sennilega eitt af fimm hlýjustu árum 19.aldar. Meðalhiti í Reykjavík var 5,4 stig, 1,5 stigi ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Aðeins einn mánuður ársins var kaldur, það var nóvember, en sjö mánuðir hlýir, janúar, mars til maí, og júlí til september. Óvenjulega hitabylgju gerði í júlí og mjög hlýir dagar komu einnig seint í apríl og snemma í október. Sjaldan frysti að ráði á útmánuðum. Rigningar spilltu fyrir heyskap um landið sunnanvert.
Mjög kaldir dagar í Reykjavík voru aðeins þrír, 8.maí, 23.ágúst og 24.október. Mjög hlýir dagar voru fimm.
Árið var mjög úrkomusamt, alla vega um landið sunnanvert. Úrkoma í Reykjavík mældist 1201 mm, það mesta á tíma úrkomumælinga Jóns Þorsteinssonar (1829 til 1854) og hefur aðeins einu sinni mælst meiri, það var 1921. Úrkoma var sérlega mikil í janúar og febrúar, en nóvember var þurr (tölur í viðhenginu).
Loftþrýstingur var sérlega lágur í febrúar og ágúst, en mjög hár í október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 11.febrúar, 943,6 hPa, en hæstur þann 18.október 1031,9 hPa. Þrýstiórói var óvenjumikill í desember, en óvenjulítill í september.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Annállinn segir þó: 19. febrúar fórst bátur úr Svarfaðardal á heimleið frá Siglunesi. Drukknuðu þar fimm menn. 19.mars (næsta laugardag fyrir páska) fórust 4 bátar nálægt Brunnastöðum á leið til Njarðvíkur. Voru þeir úr Kjós og af Hvalfjarðarströnd með 9 eða 10 mönnum.
Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1842 - en ekki fyrr en í 1. árgangi, 1847:
Ár 1842 voru umhleypingar miklir; þá var vetur þíður og snjóalitill; sunnanáttir langvinnar, veður ókyrr og úrfelli mikil. Svo voru hægviðri sjaldgæf, að hina þrjá seinustu mánuðina komu ekki nema fjórir logndagar, hinn 2. okt., 7da, 28da og 29da des. Grasár varð í góðu meðallagi, og var sumstaðar tekið til sláttar um sólstöður, en nýting bág, á öllum þeim afla, er þurrkast þurfti, fyrir votviðra sakir. Hlutir undir Jökli tvö hundruð og þaðan af minni; í Dritvík líkt og árið áður, en vestur á Sveitum aflaðist steinbítur vel.
Árið 1842 í janúar týndust 2 drengir á Skutulsfirði. Í marsmánuði fórust 2 skip frá Gufuskálum og 1 frá Ólafsvík, öll í fiskiróðri með 30 manns. Um haustið týndist kaupskip frá Búðum á framsiglingu með 8 mönnum, var þar á Guðmundur kaupmaður Guðmundsson, ungur maður, virtur og saknaður. Þá fórst og skúta ein frá Ísafirði á framsiglingu sama haustið með 12 mönnum, og önnur á siglingu hingað út vorið eftir. Tjáist og, að skip hafi þá týnst á framsiglingu frá Hafnarfirði og hafi því verið 18 manns.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Um nýár leit vetur út þunglega, því jarðlaust var yfir allt. Mundu menn, að mestu harðindavetur voru 1802, 1812 og 1822 og allhart 1832 og líkur til þess yrði eins. Í janúar var nú blotasamt, frostalítið og fjúkasamt, oft snöp, en svellalög þau mestu. Mátti allt láglendi á skautum fara. Fyrri part febrúar stóðu hross við. Var þeim hér að mestu inni gefið 14 vikur. 8.-9. febr. hláka og gaf vermönnum vel suður. Í febrúar oft stormar og bleytiköföld, en frostalítið. Í mars stillt. Annars var á Ásum og Skagafirði á láglendi hrossajörð eftir þrettánda, utan þar ísar lágu á. Með einmánuði hláka, svo víðast kom upp jörð. ... Nóttina 15. febr. brann frambærinn í Blöndudalshólum; nýbyggt eldhús, bæjardyr og stofa ... Veður var þá hvasst og kafald. (s140)
Í veðurbók frá Odda á Rangárvöllum segir af jarðskjálfta 6.janúar.
Séra Þorleifur í Hvammi segir frá óvenjulegri snjódýpt 1.febrúar.
Séra Jón Austmann í Ofanleiti segir í veðurskýrslu í mars: Það umgetna (ofsa) veður þann 28. þ.m., tjáist elstu mönnum, það mesta sem þeir til minnir.
Brekku 2-3 1842 (Páll Melsteð): Það hefur ekki verið gaman að ferðast í vetur síðan um nýár, því veðrin hafa verið svo mikil að allt hefur ætlað í loft upp, og ennþá eru stormar á hverjum degi, svo sjaldan verður á sjóinn komist, og þó er fiskur fyrir hér á Sviði; eins hefi ég frétt að fiskur sé kominn í Þorlákshöfn. Nú er hart í sveitum hér syðra, því snjóa rak niður í útsynningunum fyrir fáum dögum, en allir sveitamenn eru vel birgir af heyi.
Bessastöðum 5-3 1842 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s201) Vetur var frostamikill til jóla, síðan geysistormar og umhleypingar, sem enn haldast við. Frostin, þegar þau voru mest, hafa líklega verið hér um bil sextán gráður.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Á miðjum einmánuði [snemma í apríl] (s138) kom rigning mikil og vatnsgangur með skriðuárennsli um tún og engi. Síðar lá snjór á vikutíma og fyrir sumarmál vorblíða, svo tún litkuðust og nægur sauðgróður með maí. Fóru kýr víða út um sumarmál, en lambahey allmargra var þrotið á góu. Vorið varð allt gott og blítt.
Magnús Jónsson segir af veðri í Grímsey: 23. apríl: Mistur allt í kring, 28. apríl: Hitamóða allt í kring og 26.maí: Mistur allt í kring.
Annáll 19.aldar segir um sumarið:
Sumarið var þurrt og gott til hundadaga. Eftir það stórfelldar rigningar fram yfir Mikaelsmessu [29.september]. Nýttust töður vel, en úthey miður. Varð heyjafengur norðanlands í betra lagi, en lakari syðra.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
[Þ]urrkasamt í júní, lestarferðir búnar með júlí og kauptíð úti þann 10. júlí. Sláttur hófst í 12. viku og stóð yfir um 10 vikur. Tíðin gafst vel, rekjur nógar og þurrkar meðfram og töðufengur mikill, útheyskapur eins og á þurrlendi, en votengi flóði mjög seint í ágúst. Hraktist þá hey mikið allvíða og á Suðurlandi var ónýting. Um göngur náðist allt hey inn utan á Laxárdal.
Jón Austmann í Ofanleiti segir frá byl að kvöldi 2.júní og frost þá næstu nótt. [ath]
Séra Þorleifur í Hvammi segir 7.júní af stórflóði í vötnum, þann 9. júní frá mistri í suðurlofti, þrumuleiðingum kl.4.e.h. þann 10.júní og næturfrosti 18.júní.
Næturfrost var þann 12.júlí í Odda á Rangárvöllum.
Magnús í Grímsey segir: 17. júní Snjóél um morguninn og aftur um kvöldið [hiti var 2-3 stig allan daginn], 18. júní: Sleit úr honum snjór um morguninn, 20. júní: Krapi um morguninn. 4. júlí: Stinningskaldi í morgun og krapahryðjur. 6.ágúst: Ísjakar á stangli norðvestur og norðaustur af eynni. 9. ágúst: Frost í nótt. 23. ágúst: Gránaði í rót af éli. 24. ágúst: Alhvítt land hvar sem til sást niður til byggða. 30. ágúst: Gerði storm á SV með krapahryðjum. 31. ágúst: Alhvítt í landi hvar sem tilsást.
Þann 17. og 19.júlí gerði óvenjulega hitabylgju á landinu, e.t.v. þá mestu á allri 19.öld. Hámarkshitamælir var aðeins í Reykjavík. Hiti fór mjög víða yfir 20 stig og á fjölmörgum stöðvum yfir 25 stig. Í Reykjavík mældist hitinn 20 stig eða meira 6 daga í röð (17. til 22.), fór hæst í 27,5 stig þann 18. og 26,3 stig þann 19. Vegna mæliaðstæðna er þó ekki hægt að staðfesta þetta sem met. Á Valþjófsstað mældist mesti hiti 29°C þann 19.- þar var enginn hámarkshitamælir. Í Odda á Rangárvöllum fréttist mest af 26 stigum þann 18.júlí. Í Saurbæ í Eyjafirði mældust mest 25 stig þann 19., 24 stig mældust á Reynivöllum í Kjós þann 19. Í Glaumbæ í Skagafirði var hiti 25 stig bæði þann 18. og 19. Á Gilsbakka í Hvítársíðu mældist hiti mest 23 stig (að morgni). Athugunarmaður segir: 18.júlí. Víða í sveitinni varð fólki illt af höfuðverki og uppköstum. Hiti virðist ekki hafa náð 20 stigum í Hítardal, í Grímsey fréttist mest af 19 stigum [þann 19. - kafþoka var um kvöldið] og á Eyri í Skutulsfirði (Ísafirði) mest af 16 stigum, þann 18., 20. og 21. og minna á Hrafnseyri í Arnarfirði. Á Ofanleiti í Vestmannaeyjum fréttist mest af 18°C. Ekki hafa allar veðurskýrslur verið rannsakaðar og líklegt að fleira leynist í þeim um þennan merka viðburð.
Á Melum í Melasveit fór hiti í 25 stig þann 18. - Jakob Finnbogason athugunarmaður segir mælinn kvarðaðan í R, en það er 31°C - eiginlega handan marka hins trúlega - nema að sólarylur komi eitthvað við sögu. En hann mælir þó þrisvar á dag. Hann lýsir veðri þessa daga og mældi hita kl.7, 12, og 18:
17. Austan stinningskaldi. Jafnþykkt loft, mistur- og morfullt. Létti til kl.9, varð heiðríkur, gekk í norðanaustankalda mor til kvölds. [Hiti 16, 21, 24 stig] 18. Norðaustan kaldi, fögur heiðríkja um allt loft. Þerrir, útræna á áliðnum degi. [Hiti 25, 25 og 20 stig] 19. Logn og norðan andvari. Heiðríkja um allt loft. Þoka næstliðna nótt, útræna á áliðnum degi. Þoka um kvöldið. [Hiti 22, 22, 20 stig] 20. Norðankaldi. Fögur heiðríkja um allt loft. Þoka næstliðna nótt, snörp útræna um hádegi, lygndi með kvöldinu. [Hiti 20, 15, 15 stig].
Úr veðurbók á Valþjófsstað 15. ágúst: Sólin blóðrauð kl. 6-8 fm.
Þann 30.ágúst snjóaði niður í byggð í Hítardal.
Bessastöðum 25-9 1842 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s205) Sumarið hefur verið vott og kalt, nýting í lakara lagi. Norðanlands hefur það verið betra, einkum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
Saurbæ 6-10 1842 [Einar Thorlacius] (s103) Vorið og sumarið eitthvert það fegursta og veðurblíðasta. Í apríl var hitinn í skugganum oft liðugar 20 gr. og í dag er hann 12. Þó hafa sífelldir þurrkar ásamt þeim sterka hita ollað víða á harðvelli grasbresti, og sumstaðar urmull af grasmaðki gjört mikið tjón. Þar á móti er mikið látið yfir tjóni af rigningum á Suður- og Vesturlandi.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið þíðusamt og þrisvar stórrigning fyrir miðjan október. Flóði þá mikið yfir flatlendi, síðan frost og snjór með smáblotum. Með nóvember vikuþíða, síðan landnyrðingur og meðallagi vetrarveður, á jólaföstu lengi auð jörð. Á jóladaginn brast á norðan stórhríð og lagði þá að vetur með fönn og frostum. Sunnanlands varð bágt árferði, rigningavetur og slæm peningshöld, aflalítið og slæm verkun á fiski, heyskemmdasumar og urðu kýr gagnslitlar.
Þann 16.október segir veðurbók af miklum skruggum snemma að morgni í Odda á Rangárvöllum og þann 28.nóvember segir: kl. 6 e.m. sást í hálofti líða til vesturs teikn á himni að stærð viðlíka og stór stjarna, og var birtan af því eins mikil og af skæru tunglsljósi, var líka sem ljósrák eftir þar sem það leið um og eins að sjá sem daufari og minni stjarna þar sem það endaði. Aðfaranótt 16.desember var þar mikill skruggugangur.
Annáll 19.aldar segir frá því að 13. nóvember hafi tveir ríðandi menn horfið niður um ís á Þjórsá. Lík annars þeirra fannst, en hitt ekki. Þetta gerðist á leið milli Kambs og Skeiða-Háholts.
Jón Austmann í Ofanleiti segir af óstjórnandi ofsaveðri aðfaranótt 1.desember og sömuleiðis þann 5. desember var eitthvert hið mesta ofsaveður suðvestan. Hófst það síðdegis og varaði allt til miðrar nætur, og nóttina millum nær 23. og 24. desember var líka ófært veður frá suðri, aftur hljóp í suðvestur.
Þorleifur í Hvammi segir þann 30.nóvember: 8 e.m. hófust svo mikið leiftur, áður snæljós, sem ljós væri borið fyrir dyr og glugga.
Magnús í Grímsey segir: 21. október: Heyrðist undarlegur gegnum(kringandi) hvinur í sjónum í kvöld, sem þeir kalla hér náhljóð sjóar, og segja að boði annað hvort skiptjón eða illviðri. 24. október: Urðu -9 stig milli hádegis og dagmála 21.nóvember: Varð vart við þrjár jarðskjálftahræringar. 22. nóvember: Jarðskjálftahræringar. 20. desember: Mesta sjórót sem komið hefir í Grímsey á þessu ári. Í lok mánaðar er þessi athugasemd: Mestallan þennan mánuð hefir verið undarleg óstilling og tíðast blásið af tveimur áttum á dag.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1842. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 639
- Sl. sólarhring: 772
- Sl. viku: 2434
- Frá upphafi: 2413454
Annað
- Innlit í dag: 598
- Innlit sl. viku: 2198
- Gestir í dag: 589
- IP-tölur í dag: 573
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.