21.11.2020 | 20:18
Af árinu 1856
Árið 1856 var óvenjulegt og talið sérlega hagstætt. Lítið var um illviðri. Janúar og desember voru óvenjukaldir, en marsmánuður sá langhlýjasti á 19.öld, í Stykkishólmi varð mars 1929 ívið hlýrri - og 1964 svipaður. Þessi hlýindi mundu menn svo lengi sem þeir lifðu. Einnig var óvenjuhlýtt í október og hlýtt var einnig í apríl og ágúst. Júlí og nóvember voru fremur kaldir. Vorið olli nokkrum vonbrigðum því það var fremur þurrt og næðingasamt - en samt gerði ekki verulega illskeytt hret. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var 4,0 stig, 0,6 stigum ofan meðalhita næstu tíu ára á undan. Áætlaður ársmeðalhiti í Reykjavík er 4,5 stig, og 2,8 stig á Akureyri.
Eins og áður sagði var kalt í janúar og desember, 10 kaldir dagar í Stykkishólmi í fyrrnefnda mánuðinum og fjórir í desember. Tveir dagar í október voru óvenjuhlýir.
Úrkomumælingar hófust í Stykkishólmi í september. Óvenjuúrkomusamt var í október - mikill sunnanáttamánuður.
Þrýstifar var óvenjulegt á árinu 1856 - við sjáum af myndinni að árstíðasveiflu gætti lítt. Þrýstiórói var líka með minna móti. Munur á hæsta og lægsta þrýstingi sem mældist á landinu á árinu hefur aldrei orðið minni (höfum þó í huga að mælingar voru mun færri en nú er og því erfitt um raunhæfan samanburð). Hæsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 2.mars, 1032,8 hPa og hefur aðeins einu sinni síðan verið lægri (1863). Lægstur mældist þrýstingurinn í Stykkishólmi 969,5 hPa, 31.mars. Lægsti þrýstingur ársins hefur aðeins einu sinni verið hærri en þetta á landinu í heild. Það var 1829 - en þá var aðeins ein mæling á dag gerð á landinu.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Í blöðum var minna rætt um veður en stundum áður. Líklega má skrifa ástæður þess á hina góðu og hagstæðu tíð.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Fyrri part janúar stillt sunnan- og austanátt, snjólítið og frosthægt, síðari part sterk frost og fraus mjög fyrir litla bæjarlæki og gjörðist mikil óhægð þar af. Með febrúar frostaminna, lengst góðviðri, snjólítið. Storka var á jörð um 2 vikur, jarðlaust fyrir fé á snögglendi, alls staðar hrossajörð, aldrei hríð að mun. 21. febr. kom besta vorblíða með stilltri þíðu. 28.-29. varð stórflóð í vatnsföllum með ruðningi til stórskemmda, er gekk hærra en vanalega. Hlákan varði til miðgóu, svo góðviðri og næturfrost, svo varla komu skarir að ám og vegir voru þurrir á páskum í góulok.
Þann 14.janúar segir athugunarmaður á Siglufirði að hafís komi inn á Fjörðinn.
Þorleifur í Hvammi segir í veðurskýrslu sinni í lok febrúar: Nú er þelaleyst jörð og hvervetna öríst, nema í giljum og stórum fjallaskurðum, en svell sjást í einstaka stað á mýrum. Þann 17.mars segir hann: Stöðugt eins og best á vordögum, sjólæða, þoka.
Þjóðólfur segir frá þann 16.febrúar:
Bæði að norðan og vestan er að frétta hina sömu veðurblíðu sem hér; og þó að töluverðum snjó kyngdi niður víða til fjalla á öndverðum þorranum, hér sunnan fjalls gætti þess mjög lítið, en um Biskupstungur og Hreppana varð snjókoman til megnrar ófærðar og lá við hagleysum, ... Hafís kom inn með Hornströndum og inn með Húnaflóa þegar fyrir jól; hann var heldur í rénun um 10.[janúar], hið eystra um flóann, en lá þá enn milli Bjarnarnes- og Vatnsnestáar, sem frost á fjörðum, og allir firðir fullir norður með Ströndum; síðan um jól hafa Strandamenn aflað hákarl til góðra muna upp um ísinn, og voru komnar 3 og 4 lýsistunnur til hlutar af þessum afla hjá hinum heppnustu. Aflalaust að kalla hér syðra, það sem af er þessum mánuði, nema í Garði og Leiru; hafa Seltirningar róið þangað og sótt fiskhleðslur.
Norðri segir af ferðum pósta í pistli þann 28.febrúar:
Níels póstur Sigurðsson kom til Akureyrar 30. [janúar]. Hafði hann farið frá Eskjufirði 14. s.m. og þá um nóttina legið úti hérna megin Eskjufjarðarheiðar. Hér og hvar á leiðinni að austan, hafði hann verið hríðtepptur og víða fengið illa færð og hörð veður. Hann sagði að tíðarfarið eystra og nyrðra, hefði verið líkt og hér síðan að spilltist eftir nýárið, og sumstaðar hagskart vegna áfreða. Í næstliðnum janúarmánuði rak hér hafíshroða inn á fjörð allt að Oddeyri, náðust þá 19 hnísur í vök undan Dálkstöðum á Svalbarðsströnd. Það er mál manna, að þá hafi og komið talsvert af fiski, en sem vegna íssins ekki varð sætt. Norðanpósturinn byrjaði héðan ferð sína suður til Reykjavíkur 8.[febrúar], en 3 dögum síðar eða 11.[febrúar] kom Benjamín aukapóstur að sunnan hingað, og hafði farið úr Reykjavík 27. janúar Talsverður snjór hafði verið kominn syðra og á leiðinni norður hingað, en þó víða gott til haga. Kvillasamt hafði verið syðra og fólk legið.
Norðri segir fréttir þann 15.mars:
Fréttir innlendar eru engar aðrar en öndvegistíðin sama og áður er getið. Nú er sagt íslaust hér norðan fyrir landi. Á þorranum höfðu 2 bjarndýr tekið land á Sléttu, og urðu þar bæði unnin, en þó náðist ekki nema annað, því hitt lagði frá landi, en komst skammt og sökk. ... Síðla í janúar hafði aldraður bóndi að nafni Jón Magnússon frá Ísólfsstöðum á Tjörnesi orðið þar úti, og fannst fyrir skemmstu kominn langt afvega til heiðar. ... Nokkru síðar varð og maður úti í hríðarbyl á Axarfjarðarheiði, og hét sá Einar og átti heima á Sjávarlandi í Þistilsfirði.
Þjóðólfur segir af skiptöpum og öðrum slysförum þann 29.mars:
Nálægt Fagurey fyrir vestan varð bátstjón 2. jan. (eða febrúar); voru 3 menn á bát að flytja sig til Jökulferðar, drukknaði einn, en hinum var bjargað. 31.janúar varð úti á Fróðárheiði fyrir vestan ungur maður frá Búðum, að nafni Bjarni Bjarnason, talinn einhver hinn mesti frískleikamaður"; aðrir skrifa: að þessa slysför víst megi eigna ofnautn brennivíns". 17.[febrúar] fórst bátur með 2 mönnum frá Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd og drukknuðu báðir; þeir fóru norður yfir að sækja færur sínar í Garðahverfi, en drukknuðu heim í leið. 24.[febrúar] um kvöldið var bóndinn Otti Gíslason í Hrísakoti í Kjós á heimleið til sín hann hafði um morguninn brugðið sér bæjarleið erinda sinna, en daginn eftir fannst hann örendur milli bæja í Brynjudalnum; veður var þar hvasst og úrkoma mikil, en maðurinn heldur óhraustur; hann var álitinn einhver efnilegasti bóndinn þar í sveit, ráðdeildar- og atorkumaður, og á besta aldri".
Enn segir Norðri fréttir þann 31.mars:
Hinn 21.[mars] kom Vigfús póstur Gíslason að sunnan aftur til Akureyrar; hafði hann lagt af stað úr Reykjavík 8.[mars]. Að sunnan og vestan fréttist sama árgæskan á landi, sem hér hefur verið frá í febrúar allt fram á þenna dag. ... Slysfarir: 10.[mars] fórust 2 menn af byttu vestanvert við Tjörnes í Þingeyjarsýslu, og er hald manna, að þeir muni hafa kollsiglt sig. Um sömu mundir hvolfdi bát með 4 mönnum í lendingu á Ísafirði, og fórust þeir allir. Annar bátur var þar á leið í fiskiróður með 6 mönnum, og sigldu þeir sig um, 4 komust á kjöl og varð bjargað, en 2 drukknuðu. Rétt áður en pósturinn fór að sunnan höfðu 2 menn drukknað af báti suður á Vatnsleysuströnd.
Norðri segir af árgæsku þann 16.apríl:
[Þann 10.apríl] kom austanpósturinn hingað, og sama dag sendimaður sunnan úr Borgarfirði, og er allstaðar að, að frétta sömu veðurblíðuna og hér hefur verið. Farið er að sjá í jörð og víða byrjuð vinna á túnum, að húsabyggingum, jarð- og garðyrkju.
Þjóðólfur segir af öndvegistíð - en óþrifum í fénaði í pistli þann 19.apríl:
Hér hjá oss helst stöðugt þessi einstakasta veðurblíða yfir allt landið, og það er annálavert, að meir en 30 manns úr ýmsum héruðum Norðurlands, Bárðardal, Eyjafirði og Skagafirði, skuli nú á góunni hafa farið hina stystu sumarvegi suður yfir þver fjöll, Vatnahjalla- eður Eyfirðingaveg og Kjalveg, suður til Hreppa og Biskupstungna til hundakaupa. Hundafárið var, þegar síðast spurðist, farið að ganga austur um sveitir, og komið austur til Rangárvalla. Þrátt fyrir þessa einmuna tíð, þá eru fjárhöld ill fyrir austan fjall og víða um Borgarfjörð, einkum um Eystri-Biskupstungur, Hreppa, Skeið, Hvolhrepp og Landeyjar; einkum þrífast gemsar sárilla og drepast úr svo nefndri skitupest" og ormum, er finnast bæði í innyflum og lungnapípum þá kindin er dauð; nokkrir bændur eystra kvað þegar hafa misst meir en helming gemsa sinna á þenna hátt. ... [Þann 7.mars] fórst bátur með 4 mönnum í lendingu, á Sandeyri á Snæfjallaströnd, og drukknuðu allir mennirnir. Sagt er að skömmu siðar hafi báti borist á úr Bolungarvík, og farist 2 menn af, en 4 verið bjargað.
Norðri segir frá þann 30.apríl:
Þann 21.[apríl] fréttist hingað að sunnan og vestan, að þar væri sama árgæskan sem hér nyrðra og eystra, enda munu þess fá dæmi síðan er land þetta byggðist, að jafngóðviðrasamur vetur hafi komið sem hinn næstliðni, að undanskildum kaflanum frá nýári til miðs febrúar sem var býsna harður og hretið í næstliðinni viku sem sumstaðar varð stórkostlegt, Skepnuhöld eru allstaðar góð í tilliti til heybirgðanna, en aftur ekki óvíða, helst vestra, kvartað yfir vanþrifum og veiki í fé, helst lömbum, og 1 bóndi fyrir sunnan, er sagt að hafi misst 80 af 90 lömbum hann setti á í haust. Á Suðurlandi höfðu hlutir af fiski verið orðnir í meðallagi, undir Jökli 5 hundr. hlutir á páskum, og við Ísafjarðardjúp fiskhlutir 100 rd. virði. ... Allt að þessu í vor, hefur hér verið gæftalítið, og ekki nema einstakir aflað vel hákarlinn. Nokkrir hafa farið héðan að norðan úr Bárðardal yfir Sprengisand, úr Eyjafirði Eyfirðingaveg, og úr Skagafirði Kjalveg suður í Árnes- og Rangárvallasýslur til hundakaupa næstliðinn mars og apríl, og er án efa sjaldgæft um þann tíma yfir slík firnindi og jökla, sem eru 45 þingmannaleiðir byggða á millum, auk þess sem stór vatnsföll eru á leiðinni.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Fyrir sumar grænkuðu tún, svo þá var mátulega búið að breiða þau. Þar á móti var þá sumstaðar óborið á þau ytra. Sóley sá ég (s191) fyrst 6. apríl. Lítið föl gjörði þriðjudag síðasta í vetri og 5. maí, en ei oftar á þessu stillta vori, en lengi voru þurrviðri og næturfrost oft til sólstaða og fór gróðri seint fram. Flæði vantaði nú af ám og lækjum og orsakaði grasbrest á mörgu góðu flæðiengi.
Norðri segir tíðar-, afla- og slysafréttir í maí:
[16.] Í dag (9.maí) eru öll hákarlaskip sögð komin heim fyrir hátíðina [hvítasunna 11.maí], og tjáist að sumir hafi aflað vel í seinustu legunni 2052 kúta í hlut, aftur nokkrir minna, og fáeinir sárlítið Hafís tjáist töluverður djúpt norðan fyrir landinu, og sum skipin höfðu ekki frið fyrir honum í legunni og 2 eða 3 urðu að höggva á stjórafæri sin, og skilja þau eftir með akkerum í botninum. ... 5.[maí] var hákarlaskip eitt frá Haganesi í Fljótum meðal annarra á uppsigling úr legu. Landnorðan veður var með snjókomu, svo varla sá út fyrir keipana. Vissu þá skipverjar ekki fyrri til en komnir voru uppundir svonefndan Svarthöfða fram af Siglunesi, og enda of grunnt. Stórsjór var og albrima. Formaðurinn hlaut að bera um, en í því sló veðrið sigluásnum á hann svo fleygðist langt á sjó út og varð ómögulega bjargað, drukknaði því þegar.
[31.] Veðuráttufarið hefur allan þenna mánuð, verið hér nyrðra úrkomulítið og kalt, og oft frost á nóttunni, svo gróður, að tiltölu við hvað hann byrjaði snemma, tekið litlum framförum. Hákarlsaflinn hefir enn í vor verið mjög misfenginn. Ógæftirnar og hafísinn, sem enn er hér norðan lands, hafa töluvert hamlað aflabrögðunum. Nýskeð er fiskur kominn aftur hér út í firðinum.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Eftir fráfærur hitar sterkir og stundum hélufall, er spillti grasvexti. Sláttur byrjaði 10.-12. júlí. Fengust rekjur og þerrir, mikil taða og hey af flæði, sem notuð varð. Grasbrestur varð á vanaslægjum þurrlendum, en sina var víða í slægjum og þar spratt vel. Alla hundadaga eða 29 daga rigndi ekkert í miðsveitum og gekk seint á harðlendar slægjur. Heyskapur varð mikill á flóum og fjallaslægjum. Sláttartími hinn lengsti og kaupafólksfjöldi kom nú hinn mesti, svo sumt sneri aftur. Hirðing á heyi varð góð, en snemma dofnaði jörð. 16.-18. sept kom mikið hret og föl réttardag, 24. september.
Athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði segir að ökklasnjór hafi fallið þar 17.september.
Norðri segir í júlíblaði - án dagsetningar:
Veðráttan það sem af er sumrinu hefur allstaðar, sem ég hefi til spurt hér á Norðurlandi, verið fremur köld, og hefur það eflaust að nokkru leyti valdið, að ís hefur einlægt legið hér í norðurhöfunum ekki langt undan landi. Grasvöxtur er því ekki meir en í meðallagi á túnum, og úthagi með snöggasta móti, einkum í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, svo að ekki lítur vel út með heyskapinn, en það bætir úr, að bæði voru víðast hvar miklar heyfyrningar, og svo getur úthagi enn batnað mikið, ef vel viðrar. Fiskiaflinn hefur verið í besta lagi víða hér nyrðra, þó að ég hafi ekki heyrt enn um hlutahæð.
Norðri segir í ágústblaði - án dagsetningar - ræðir heyskap og kornrækt:
Sumartíðin hefur það sem af er slætti verið hin ágætasta um allt Norður- og Austurland. Tún hafa verið sprottin í góðu meðallagi í Húnavatnssýslu, en í minna meðallagi í öllum hinum sýslunum, og vatnsveitingar á tún hafa víða brugðist sökum þess að vatnið fékkst ekki nóg vegna vorkulda og þurrka, þannig skorti 100 hesta töðu eftir meðalári á Arnheiðarstaðatún í Fljótsdal, er sjaldan er vant að bregðast; en aftur á mót hefur nýting á töðum manna verið hin besta. Engjar eru allstaðar sársnöggvar, og það eins í hinum mestu heyskaparsveitum, t.a.m. Eiða- og Hjaltastaðaþinghám í Múlasýslum og hér í Eyjafirði. Bestur hefur úthagi verið á Jökuldal eystra og í Bárðardal, þar sem vér höfum séð. Ekki höfum vér enn fengið neinar skýrslur um hvernig jarðyrkjutilraunir hafa gefist hér á Norðurlandi, en allmiklar eru þær nú orðnar víða hvar í samanburði við það sem áður hefur verið, og víða höfum vér séð hafragras mikið og fagurt, og eru þeir blettir fagrastir hér nyrðra og eystra í þessu grasleysisári; þó ætlum vér, að þeir verði óvíða fullvaxnir, en hafragrasið er þó hið ágætasta fóður, og þó það launi ef til vill ekki enn alla fyrirhöfn og kostnað, sem fyrir því er haft, þá er þar þó mjór mikils vísir, og vér erum þess fulltrúa, að ekkert efli svo fljótt og vel grasvöxtinn eins og að plægja og sá; því þó að hinar útlendu korntegundir geti ef til vill ekki orðið fullþroska hjá oss, þá getur þó ekki hjá því farið, að það flýti mjög fyrir því að rækta jörðina til grasvaxtar.
Norðri segir í ódagsettu septemberblaði:
Veðráttan hefur verið hin besta og hagstæðasta um allan sláttinn þangað til mitt í þessum mánuði. Rétt við byrjun gangnanna gjörði hið mesta áfelli, svo að það snjóaði niður að sjó og hin mesta fannfergja kom á fjöllin, og það jafnvel svo, að geldfé var á sumum stöðum dregið úr snjó, og munu því heimtur víðast hvar ekki góðar, hvort sem seinna bætist úr því. Sökum þess að grasvöxtur var svo sárlítill, voru menn enn við heyskap þegar ótíðin byrjaði, og allmargir eiga því enn hey úti, og er hætt við að það nýtist lítt.
Þjóðólfur segir af strandi í pistli þann 27.september:
[Þ. 2.september] sleit upp á legunni í Keflavík jagtskip er kaupmaður P. Duus átti og nýkomið var þá frá Kaupmannahöfn og Noregi með korn, timbur og aðrar nauðsynjar, og var litlu sem engu búið að ná upp úr því áður; skipverjum varð öllum bjargað, en skipið sjálft mölbrotnaði og allur farmurinn fór í sjóinn, en rak upp, og var hvorttveggja selt á uppboðsþingi.
Þjóðólfur birti þann 1.nóvember bréf dagsett í Árnessýslu 1.október:
Nú eru heyannir á enda kljáðar þetta sinn; hér í Árnessýslu sem annarstaðar, hefir sú tíð verið mjög blíð og veðurátt hagstæð; grasbrestur var að vísu á sumum stöðum, helst á þurrlendum mýrarreytings-jörðum, enda brugðust líka einstöku góðengi, t.d. Bræðratunguey, sem er orðlagt slægjupláss; engu að síður má þó fullyrða, að heyafli er yfir hér um að tala í betra lagi að kostum og vöxtum.
Brandsstaðaannáll [haust - og vetur til áramóta]:
Haustið var gott og þíðusamt. Síðast í október þíða mikil og jöklaleysing og 5 vikna tíma fyrir 20. nóv. snjólaust góðviðri, þó stundum rosasamt. Skipti þá um með austanfönn og sterkum frostum á eftir. Með desember ísingarbloti, er gjörði jarðlítið. Jólafasta hörð með köföldum, hörkum og áhlaupshríðum. Varð lítið notuð beit þann mánuð. Hross tekin af heiðum vegna snjóþyngsla. (s192)
Norðri segir í ódagsettu októberblaði:
Síðan í miðjum septembermánuði, er hretið gjörði um gangnaleytið, hefur allt hingað til (í lok októbermánaðar) haldist hin blíðasta sumartíð, svo að vér munum ekki annað eins veður hér á Íslandi nokkurn tíma um sama leyti.
Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:
Veðráttan hefur enn verið hin besta til þessa tíma (26. nóvember), og það er ekki nema rúm vika síðan snjór kom á jörð. Að vestan er oss skrifað, að sumartíðin hafi verið hin besta, grasvöxtur góður á túnum, en lakari á engjum, nýting hin besta. Hákarlsafli rétt góður á þiljuskipum.
Þjóðólfur ritar yfirlit um árið 1856 í pistli þann 20.desember (segir þá árið á enda):
Árið 1856 er nú þegar á enda, og þarf varla meira en miðlungs til þess að sjá, að það er og mun verða í flestu tilliti eitt hið minnisstæðasta ár þeim fulltíða Íslendingum sem nú eru uppi, og þó, að því sem enn er fram komið, ekki minnisstætt að öðru en stakri árgæsku og svo að segja allskonar hagsældum þegar á allt er litið. Hvorutveggju vetrarkaflana, einkum þann frá nýári til vordaga, og jafnvel eins hinn frá haustnóttum víst fram til loka [nóvember], viðraði svo um allt land, að varla hét að nokkur vissi að vetur væri; og fæstir núlifandi menn ætlum vér muni það vor er hafi sýnt jafnt yfir allt land jafnfæran og fríðan útifénað undan vetri eins og vorið er leið; það var almennt álitið, að geldsauðir hefðu tekið að slást við um sumarmál, og jafnvel á einmánuði; að vísu var vorið sjálft ekki að því skapi blítt eða gróðursamt sem veturinn var staklega mildur; það var jafnvel fremur en í meðallagi kalt og næðingasamt og þurrt í Múlasýslunum og staklega gróðurlítið, en þó að sumarið gæfist og í þeim sýslum með þurrasta, kalsamesta og gróðurminnsta slag fram yfir messur, og þó að grasvöxtur yrði yfir höfuð að tala vart meiri en í meðallagi á túnum og valllendi, en mýrlendi með sneggsta slag víðast, þá bætti úr því hin einstaklega góða nýting heyjanna, svo að segja yfir allt land, svo að heyföng urðu ekki aðeins í fullkomnu meðallagi að vöxtum víðast hvar heldur og svo vel verkuð að varla munu í annan tíma hafa verið betri hey í görðum hjá almenningi; meginhluti vestari Skaftafellssýslu, einkum Síðan og Skaftártungan, varð furðulega afskiptur í þeim efnum þar kvoluðust töður mjög svo og hröktust sakir stöðugs þerrileysis, og þessa verst útheyin; en yfir höfuð að tala viðraðist gjörvallt sumarið einstaklega blíðlega og hagstætt til allra athafna og bjargræðisútvega; næstliðið haust má og kalla með hinum betri haustum, en þótt það væri fremur rigningasamt.
Þann 24.nóvember sá athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði hafís í fjarska.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1856. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:22 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.11.): 105
- Sl. sólarhring: 117
- Sl. viku: 2349
- Frá upphafi: 2411769
Annað
- Innlit í dag: 85
- Innlit sl. viku: 1999
- Gestir í dag: 80
- IP-tölur í dag: 77
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.