Af árinu 1873

Tíðarfar ársins 1873 var heldur óhagstæðara en næstu ár á undan, en taldist samt í meðallagi þess tíma. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,0 stig, +0,4 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Í Reykjavík var meðalhiti 3,6 stig og 4,2 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (mælt var við Ofanleiti). Ekki hefur verið giskað á meðalhita ársins á Akureyri 1873. Vetur lagðist illa að um haustið. Allmikið eldgos varð í Vatnajökli snemma árs. 

ar_1873t

Tveir mánuðir, mars og apríl teljast hlýir, mars sá hlýjasti frá 1856, en aftur á móti var kalt í janúar, maí, júní, júlí og síðustu þrjá mánuði ársins. Október var sérlega kaldur. Í Stykkishólmi var einn dagur mjög hlýr, 9.apríl, en 15 dagar mjög kaldir, kaldast að tiltölu 25.nóvember. Í Reykjavík var kaldast að tiltölu 17. og 18.júlí og 29.ágúst.  

Úrkoma mældist 775 mm í Stykkishólmi. Óvenjuúrkomusamt var þar í mars og desember, en þurrt í apríl og maí - og sérstaklega í nóvember. Apríl, maí, ágúst, september og nóvember voru með þurrara móti á Teigarhorni. 

ar_1873p

Þrýstingur var lágur í janúar, júní og ágúst, en tiltölulega hár í febrúar, apríl og nóvember. Lægstur mældist þrýstingurinn á Teigarhorni þann 18.janúar, 945,0 hPa, en hæstur 1043,5 hPa þann 10.febrúar, einnig á Teigarhorni. Þrýstiórói var óvenjumikill í október. 

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum. 

Séra Valdimar Briem ritar tíðarfarsyfirlit ársins í „Fréttir frá Íslandi“:

Veðuráttufar á íslandi næstliðið ár var yfir höfuð að tala í meðallagi. Í byrjun ársins var víðast hart. Framan af janúarmánuði voru frost og fannkomur því nær um allt land; um miðjan mánuðinn komu blotar víða, en seinni hlutann spilltist aftur veðuráttan, og gjörði stórhríðar og harðindi yfir allt Norðurland, Austurland og svo Vestfirði; syðra var veðuráttan nokkru mildari. Um mánaðamótin brá aftur til bata, en það stóð eigi lengi, því að þá kom hafísinn undir land, og harðnaði þá enn meir en áður; ísinn var að rekast fyrir landi nokkra hríð, en hvarf aftur seint í marsmánuði. Meðan ísinn var undir landi voru hörkur allmiklar norðanlands og austan, en umhleypingar, stormar og rosar sunnanlands og vestan. Þegar ísinn var rekinn frá, batnaði mjög tíðin yfir allt land; gjörði þá hlákur, þíður og blíðviðri, og leysti víða upp snjó allan. Upp frá því mátti kalla gœðatíð víðs vegar um land það sem eftir var vetrar, og var sumstaðar kominn talsverður gróður um sumarmál. Hafís sást aftur fyrir norðan og vestan land um vorið; hann hvarf þó bráðum aftur, en vart varð hans enn við og við fram eftir sumrinu. Um vorið og framan af sumri voru kuldar og þurrviðri norðan- og vestanlands, en hlýtt veður og vætusamt sunnan- og austanlands; þó komu stundum kuldahret á milli, er spilltu mjög gróðrinum, og náðu þau yfir mestan hluta landsins; harðast var hríðaráfellið, er gjörði seint í maímánuði, og kvað einkum að því á Norðurlandi. Síðari hluta júnímánaðar og fyrri hluta júlímánaðar var veðurátta víðast köld með hornriða, kólgum og krapaskúrum, en eftir miðjan júlí hlýnaði aftur, og upp frá því var oftast hlýtt og blítt veður fram í miðjan september. Seinast í september gjörði stórrigningar sunnanlands, en él og hríðir nyrðra. Þá tók veðurátta óðum að harðna, en einkum er á leið októbermánuð. Seinustu dagana af október voru stórhríðar nálega yfir allt land með miklu frosti og fannkomu, og tók þá skjótlega fyrir haga alla; en víða var það, að fé náðist eigi, og ýmist fennti eða hrakti í vötn og sjó, einkum á Hvalfjarðarströnd syðra og í Skagafirði og Bárðardal nyrðra. Í miðjum nóvember hlýnaði aftur, og var nú um hríð allgóð tíð víða, einkum á Suðurlandi; var þá hœg norðankœla um daga en stirðnandi um nætur. Framan af desember fór veðurátta aftur kólnandi; um miðjan mánuðinn hlýnaði nokkuð, en harðnaði aftur drjúgum undir árslokin. Ís kom undir land nyrðra seint í nóvembermánuði og rak sumstaðar hroða inn á firði; en það er sjaldan, að ís kemur svo snemma vetrar.

Heyskapur landsmanna næstliðið ár var víðast í minna lagi. Vorkuldarnir á Norðurlandi og Vesturlandi spilltu mjög grasvextinum. Á Suðurlandi og Austurlandi var grasvöxturinn talsvert meiri, en þó vart í meðallagi. Af túnum fékkst víða allt að þriðjungi og sumstaðar allt að helmingi minna en næsta ár áður, en þó voru tún og harðvelli því nær allstaðar betur sprottin að tiltölu en engjar og mýrlendi. Við grasmaðk varð víða vart í túnum, einkum nyrðra, og dró hann mjög úr grasvextinum. Sláttur byrjaði víðast á venjulegum tíma, en sumstaðar nokkru seinna. Þótt grasvöxturinn væri fremur lítill, þá bœtti það aftur úr, að nýting varð víðast góð; þrátt fyrir óþerrana, sem gengu framan af slættinum, þá voru tún að jafnaði alhirt í miðjum ágústmánuði; aðeins í einstökum sveitum, svo sem á Sléttu nyrðra, hröktust töður manna; úthey náðist því nær allstaðar óhrakið, nema það, sem úti var í sláttulok, þegar brá til rigninganna og hretviðranna. Á nokkrum stöðum nyrðra varð hey úti undir snjó, og náðist aldrei. Heyafli manna varð þá um haustið yfir höfuð að tala fremur lítill, en allvíðast góður eða vel hirtur. Heyfyrningar frá undanförnum árum bœttu og úr heyskortinum hjá mörgum. Kál, kartöflur, hafrar, bygg og aðrar sáðjurtir spruttu víðast í meðallagi.

Janúar. Umhleypingasamt og kalt í veðri.

Tíminn birti þann 25.apríl dagsett í janúar:

[Þingeyjarsýslu á nýársdag 1873]: Nú sem stendur er hér fremur snjómikið og jarðlítið, því mikil snjókoma hefir verið um öll jólin. Afli var hér inn á firði (Eyjafirði) fast fram að jólum, því síld fékkst alltaf til beitu á jólaföstunni.

[Múlaþingi 31.janúar] Tíðin hin stirðasta í allan vetur og haust, hefir snjórinn verið ákaflega mikill til sveita og fjalla, og aldrei meiri síðan 1836, en við sjó og í fjörðum hefir jarðgrunnt verið, en svellalög mikil og jarðleysur víða, sökum blota og umhleypinga af norðri; afli hefir verið í Reyðarfirði í allan vetur til þessa, en ótíðin svo mikil, að ekki hefir orðið róið nema einu sinni í viku, og stundum alls ekki. Flestir eru víst allvel staddir með hey, því heyskapur gekk mæta vel í sumar. Sagt er að rekar séu til og frá, mol úr hafskipi, í fjörðum, Vopnafirði, Héraðsflóa og Ströndum, er sagt að rekið hafi steinolíutunnur fullar og tómar. Nú hefir verið hláka í 4 daga, með 4—5° hita, er vel autt orðið með sjó fram og líklega jörð upp í Héraði. Dunur heyrðust miklar hér eystra frá 31. desember til 14. janúar, og eldur sást jafnvel úr Héraði í landsuðri, en um þann ll.[janúar] féll aska mikil, var hún svo mikil í Héraði öllu, Vopnafirði og Álftafirði, að snjór varð dökkur allur um tíma sem auð jörð væri, og mönnum gekk illa að koma skíðum áfram fyrir stemmu, í fjörðum varð hún minni, en þó dökknuðu öll fjöll meira og minna.

Þjóðólfur segir af eldgosi í pistli þann 21.janúar:

Að morgni fimmtudags 9. [janúar] milli kl. 3 og 4 sást héðan úr Reykjavík, og eins víðsvegar austanfjalls, eftir því sem síðar spurðist, mikill eldur koma upp, héðan að sjá í austri lítið hallanda til norðurs eftir hádegisátt héðan að sjá úr miðri Reykjavík (Grjótaþorpinu) bar eldinn norðanhalt við bæinn að Lágafelli. [Sá var stefnumunur, héðan að sjá frá sama punkti, á þessu eldgosi og því er gaus upp 29.ágúst 1867, að þá bar eldgosið yfir norðanverða Lágafellshamra og þaðan yfir Grímannsfell þar sem hæst er, og eftir þeirri sömu línu, beint í austu réttvísanda í suðvesturkrika þann á Skaftárjökli, þar sem sett eru Tungnárupptökin á Íslands-kortinu, var því þá talið líklegra, að það gosið hefði ekki verið í jöklinum sjálfum, heldur í fjallaóbyggðum þeim, fyrir sunnan og austan Fiskivötn, beggja megin Tunguár, er þar liggja að jöklinum, — en aftur var stefna þessa eldgoss sú, að eldinn var nú að sjá norðanhalt við þingstaðinu að Lágafelli, Sé lína dregin á kortinu beint eftir þessari stefnu, gengur hún yfir Sandey í Þingvallavatni, þá nálega miðja vega milli bæjanna Vatnsleysu og Bræðratungu í Biskupstungum, — um norðurenda eldfjallsins Rauðukamba, um suðurenda fjallsins Búðarháls, þá yfir Fiskivötn og nálega miðjan Stórasjó til Skaftárjökuls, og þannig nálega 2 [til] 2½ mílum norðar heldur en áætlað var um eldgosið 1867]. Það var að sjá með fyrsta, einn hinn mesti eldur ummáls, er menn hafa séð, enda héðan aukheldur austanfjalls. Á Eyrarbakka og víðar þar sunnan og utantil í Árnessýslu hugðu menn í fyrstu, er eldurinn sást, að hann hlyti að vera í Heklu, svo mikilfengur og samfelldur var hann til að sjá, og ummálsmikill í fyrsta bili, og gat því engi gjört sér í lund að hann væri í slíkum fjarska sem þó varð raunin á. En er betur birti og reykjarmökkinn lægði og til fjalla sást, kom brátt í ljós, að eldurinn var í miklum fjarska. Hér og hið efra um Árnessýslu héldu og allir að slíkur eldur gæti eigi í miklum fjarska verið, og af og frá lengra undan en í Rauðukömbum eður um þær fjallastöðvar. Aftur austur um Holtasveit og Landeyjar, sáu menn brátt af stefnunni þaðan, að eldurinn væri austar miklu, þótt hann væri öllu mikilfengari þaðan að sjá, heldur en úr ytri sveitunum. Þegar morgna tók, lægði eldbálið eður eldstrókinn sjálfan nokkuð svo, að minnsta kosti héðan að sjá, og doðnaði niður, en smærri eldfleygum fór aftur að skjóta upp úr mekkinum og víðsvegar utan í honum að vestan og norðan, en þess á milli sló eldleiftri um mökkinn allan ofanverðan. Þessu gekk áfram um kvöldið og fram á næsta morgun fram yfir birtingu eður svo lengi sem dagsbirtan byrgði eigi fyrir auganu; en strjálli miklu urðu eldflugin, hér að sjá, þegar fram á vökuna kom, víst með köflum, og eins hina næstu nótt og morgun; aftur urðu þau mjög tíð um eitt skeið kvöldið eftir (10.) milli kl. 7—9. Svona gjörði eldurinn vart við sig við og við hina næstu 2 dagana 11. og 12., og sá þá jafnan meiri og minni mökk, einnig virtust nokkrar menjar sjást 13. þ. mán. (mánudag) en síðan eigi neinstaðar að, það spurst hefir. Hvorki á undan gosinu né síðar urðu neinir jarðskjálftar, eigi heldur heyrðust neinar dunur eða dynkir í jörðu fjær né nær, allt austur að Markarfljóti, en lengra að austan hafa eigi fregnir borist. Öskufalls hefir og hvergi vart orðið, né annarskonar elddufts eður móðu. En jökulfýla var mjög megn yfir allt einnig hér í Reykjavík, fram eftir deginum 10. Landeyingar sögðu að svo hefði einnig verið þar eystra fyrsta daginn gossins, en hér urðu menn þess eigi varir þann dag, en þar á móti fannst sumum hérað loftið væri mjög þungt og strembið fyrri daginn, einkum frá kl. 3-5 e.m., með allmiklum brennisteins- og púður-eim, líkast og úr byssu sem nýbúið er að hleypa skoti úr. Aldrei brá sólin lit né tunglið, og eigi dapraðist sólarbirtan; heiðríkjan var og hrein og tær yfir allt loft alla þessa daga, nema yfir mekkinum og í kringum hann. Hér var og vindstaðan mest utanátt alla þá dagana, frá útnorðri og til vestur útsuðurs, og fremur hægt og spakt veður. 10. þ.m. eður annan dag gossins hafði hann verið á austan landnorðan með stinningskalda þar austur um Landeyjar, hafði þá mekkinum slegið hátt á loft upp og eldmistrið byrgt allt austurloftið, en eigi vart neins öskufalls þá að heldur. Til þess að geta ætlað nokkuð á um það, um hvaða bil að eldstöðvar þessar eður eldgjá muni vera, höfum vér leitast við að fá sem nákvæmasta skýringu ýmsra manna og úr ýmsum plássum um það, í hvaða stefnu að eldurinn hafi sýnt sig frá þeirra bæjum hvers fyrir sig. Þannig var eldinn að sjá frá Sumarliðabæ í Holtum í há-landnorður („hálfgenginni sól til miðsmorguns“) mitt á milli Búrfells (á Hreppamannaafrétti) og Heklu. Partabæjum (sem kallaðir eru) í Flóa fast austur við útfall Þjórsár, — laust fyrir norðan Heklu (en þó eigi norðan í fjallinu). — Miðey í Landeyjum eystri — (litlu austar en Kross) — yfir Tindfjallajökul miðjan. Þegar sín bein línan eftir hverri þessari stefnu, er tekin á Íslands-kortinu og lengd síðan austurnorður eftir þar til þær, hver fyrir sig snerta eður skera stefnulínuna héðan úr Reykjavík, þá er segir hér að framan, (því Reykjavík er norðust, að hnattarafstöðu, allra þessara staða er nefndir voru), þá lendir skurðarpunktur sá í Skaftárjökli (vestur til suðvestur hallanda Vatnajökuls) rétt austur af Stórasjó; skerst Reykjavíkurlínan í vestar af Partabæja-línunni, — en hún er og fastast og glöggast ákveðin, — heldren af hinum 2 er ganga báðar lítið eitt (nál. 1/3—1/2 mílu) austar og ofar á jökulinn áður þær snerti Reykjavíkurlínuna. Yrði eftir því í eldsupptök þessi að vera milli 64°7'— 64°10'N og 30°45'—30°55'V frá hádegisbaugi Kaupmannahafnar.

Af tíð [í Reykjavík] Skakviðri og gæftaleysi hefir verið her framúrkeyrandi allan þenna mánuð, svo að eigi hefir almenningur getað róið og setið nema 1 dag.

Þjóðólfur segir enn af eldgosinu í pistli þann 8.febrúar:

Af Eldgosinu 9.[janúar] hafa síðar borist nokkrar fregnir austanyfir, ýmist á stangli úr prívatbréfum, eða munnlegar, og svo dagaskýrsla ein, dags. 27. f.m., rituð af hr. Guðmundi Guðmundssyni skrifara sýslumannsins á Velli á Rangárvöllum. Þar í skýrslunni segir frá upptökum og framgangi eldsins m.fl. hina næstu daga mjög áþekkt því, er um það var sagt í síðasta blaði; stefna sú er gosið sást í frá Velli, raskar ekki á áætlun síðasta blaðs um eldstöðvarnar. Um dynki og jarðskjálfta segir svo í skýrslunni. „Hérumbil kl. 7 1/2 [fyrir hádegi] (fyrsta daginn 9.f.mán.) heyrðust fáeinir lágir dynkir“. „Um miðnætti (milli 9. og 10.[janúar] heyrðist þungur dynkur, og fannst hægur en nokkuð langur jarðskjálfti; seinna um nóttina heyrðist aftur dynkur“. — „Þ. 12.[janúar] snarpur kippur fannst kl. 7 1/2 [síðdegis]“ — Þegar „um kl.8 [árdegis] (þ.9.) fór að finnast megn brennisteinsfýla, er hélst við allan daginn og næsta dag, en hvarf svo að mestu“. Um öskufall eður móðu á jörðu segir svo: „kl.1 [síðdegis] (9.) þegar rofaði til, sást að snjófjöll þau sem hér eru norður af tóku að verða dökkleitari“. „10. (annan dag eldgossins) þegar framyfir dagmál kom, tók mistrið að leggja um allt norðrið, sortnaði það og dreifðist um allt hvolfið, þá á daginn leið; þó sást lítið sem ekkert á snjóföli sem var í byggðinni, en menn sem úti voru um kvöldið sögðust hafa fundið braka undir tönn lítið eitt“. Svo virðist, eftir því sem enn hefir til spurst, að hvað mest hafi borið á öskufallinu þar austur um hvorutveggju Hreppana ofantil, og svo úteftir um Grímsnes hið efra og út í Laugardal; þar um byggðina sá reyndar aðeins grána lit á snjónum en aftur á Ytri-hrepp, umhverfis Hruna er sagt að snjórinn hafi orðið dökkmórauður. — Skýrslunni frá Velli og öllum fregnum víðsvegar að ber saman um það, að eigi hafi neitt til eldgoss þessa sést síðan mánudaginn 13. [janúar], og þó engir blossar, þann dag, heldur aðeins lágamökkur um morguninn.

Nægir og góðir hagar allstaðar her nærsveitis, síðan um byrjun þessa mánaðar [febrúar], en fremur ill ástöðuveður og hrakningasöm þessa viku. Fjárhöld hin bestu yfir allt.

Norðanfari segir frá tíð og öskufalli í pistli þann 21.janúar:

Nú í meira en viku hafa hér gengið hríðar á hverjum degi og óvanalega mikil fönn komin hér yfir Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur og haglaust víðast hvar; en aftur snjólítið í Skagafirði og víðast hvar í Húnavatnssýslu. 16. og 17. þ.m. blotaði hér og komu upp þar sem snjógrunnt var, dálitlar snapir, en nú komnar aftur stórhríðar og fannfergja ofan á gaddinn sem fyrir var.

Aðfaranótt hins 11.[janúar] og daginn eftir varð hér vart við sandfall og það sumstaðar töluvert, einkum fremst í Eyjafirði, þó miklu meir um miðbik Þingeyjarsýslu. Jafnframt sandfallinu sást og eldur uppi, hér um í hádegisstað. Úr Skagafjarðardölum, hefir oss verið skrifað: „Föstudaginn þann 10.[janúar] í hálfrökkrinu, heyrði ég dynk mikinn, og hér um bil að hálfum tíma liðnum sást eldur austan til við hádegisstað, sem hélst við til þess kl.12 um nóttina að farið var að hátta. Næstu kvöld til mánudags [13.] sást hið sama; ekki varð þess vart, að sandi eða ösku rigndi, en fyrsta kvöldið, sem eldurinn sást, var sem mökkur eða reykur deyfði birtu logans, er oft tók hátt á loft“.

Norðanfari birti þann 31.janúar úr bréfi úr Siglufirði dagsett 17.janúar:

Á hverjum degi síðan á jólum, hafa verið hér hríðar og illviður. Laugardaginn 11.[janúar] var snjórinn hér öskulitaður um morguninn, og þegar nákvæmar var aðgætt, var þetta sandur; nóttina og daginn á undan var vindur að sunnan og suðaustan, og mun því sandfall þetta vera af eldi þeim, sem sagður er nú uppi suður á fjöllum, eftir ágiskun í Vatnajökli.

Enn segir Þjóðólfur af eldgosinu í pistli þann 26.febrúar:

Af eldgosinu í Skaftárjökli, því er upp kom í [janúar], hafa nú ritstjórn þessa blaðs enn borist skýrslur og fregnir úr ýmsum héruðum, og kvað nákvæmastar úr sveitunum milli Mýrdalssands og Skeiðarársands í Skaftafellssýslu vestari, með sunnanpósti, er kom nú hingað aftur 17.[febrúar] úr miðsvetrarpóstferð sinni, frá Kirkjubæ á Síðu. Voru það einkum þessir 4 menn, síra Jón prófastur Sigurðsson á Mýrum, Ingimundur hreppstjóri Eiríksson á Oddum í Meðallandi, Jón Jónsson bóndi á Seglbúðum, og síra Páll alþingismaður Pálsson á Prestbakka, er góðfúslega gjörðu það, -fyrir tilmæli sem póstur færði þeim héðan i austurleið sinni, — að senda nú greinilegar skýrslur um aðfarir eldgossins og ýmis þau atvik er af honum stafaði, og helst myndi mega þykja nokkurs um vert fjær og nær. Skýrslur þessar eru skráðar og dagsettar 4.—7.[febrúar], og segja tvær þeirra (síra J.S. og síra P.P.), að gossins hafi þar vart orðið 8.[janúar], aftur segir í Seglbúðaskýrslunni að þar hafi eigi verið eftir eldinum tekið fyrr en 9. um morguninn, en Oddaskýrslan til nefnir reyndar „fimmtudaginn 8., er af því líklegra, að dagsetningin „8“ sé pennafeill, en „fimmtudagur“ (9.[janúar]) sé rétt; af Prestbakkaskýrslunni er helst að ráða, að eigi hafi það verið jafnvel nema „öskumökkur“ er sást þaðan af Síðunni 8. Var mestan eldinn að sjá dagana 8.—11. af Siðunni, og úr Meðallandi, á morgnana fyrir daginn og á kvöldin þegar dimma tók; þessi kvöldin (segir í skýrslu hr. I.E.) „var það líkt eins og þegar blossi skýst uppúr kolabrennu, fyrst þegar eldurinn fer að blossa upp. Eldingar þær sáust ýmist rétt niður við, ýmist skaut þeim hátt á loft upp og í ýmsar áttir. En mest held ég hafi kveðið að eldganginum sunnudagskvöldið næsta eftir þrettánda (12.[janúar]; þá eftir dagsetrið eftir því sem flestum hér ber saman um var í landnorðrinu að sjá allt einn eldblossa, víst uppá mitt loft, sem aldrei slokknaði, að heita mátti fyrr en undir kl.9 um kvöldið.

[Innskot] Þetta mikla eldbál er eigi framtekið í hinum skýrslunum sérstaklega, og í engri þeirra er heldur lýst bálinu eins feikimiklu og samfelldu eftir því sem það kom fyrir sjónir hér og víðsvegar um Árnes- og Rangárvallasýslu um dægramótin 9.[janúar], eins og lýst var. ... Til þessa liggja þær náttúrlegu orsakir, að þegar veðurstaðan og vindurinn um eldstöðvarnar, er sú að öllum reykjar- og misturmekkinum heldur undan eður frá þeirri áttinni er í móti horfir og fram á þann er að eldinum snýr, þá hlýtur mökkurinn að byrgja sjálft eldgosið og eldblossann upp úr gígnum, fyrir sjónum manna, svo að eigi sést annað þeim megin [er í móti veðurstöðunni horfir] heldur en eldfleygar þeir og eldglæringar er skýtur upp úr mekkinum að utan allt um kring, eins og hér í skýrslu hr.I.E. er lýst hvernig eldurinn kom í ljós þá fyrstu 3 dagana þar suðaustast í Meðallandi. Aftur þegar veðurstaðan, um sjálfan eldgíginn, stendur af sömu átt eða svo að vindurinn þar standi beint af þeim sem á horfir, þá slær öllum reyk og mökk undan og af eldstöðvunum, svo að eldbálið eftir eldgosið sjálft hlýtur þá að sjást fyrirstöðulaust eins og það er, hvort sem meira er eður minna.

Á fimmtudagsmorguninn (9.[janúar] fyrir daginn, mun hann hafa verið litlu minni. Aftur í skýrslu síra P.P. segir svo: „Eldurinn sást héðan mestur 8.—11.janúar, svo að auðsætt var, að niðri við upptökin væri sífeldur logi, sem þó eigi sást héðan (frá Prestbakka), nema sem ákaflega þéttar (tíðar) eldingar upp af gjánni sem lögðu í allar áttir“. Í öllum skýrslunum segir, að til eldsins hafi þar séð síðast 23.[janúar], en lítið annað en til mökksins síðustu 4—5 dagana. Hvergi þar um héruð heyrðust dynkir né merktust jarðskjálftar. — Öskufalls og móðu varð þar víða vart, meira og minna, 10. og 11. um Síðubyggðina, svo, að ferilrækt varð eftir fénað á auðri jörð; í Meðallandi og Álftaveri 10. og 12., mistur og móða (— eigi vikuraska eða öskufall) svo að hvítur leirdiskur mundi hafa alsvartur orðið.

Sendimaður einn er hér kom norðan frá Húsavík 7. þ.mán. sagði þar hafa öskufall orðið svo dagana 9. og 10., að dökkar eður svartar hefði orðið fannir þar um Húsavík og víðar fyrir norðan Vöðluheiði, en 13. hefði öskufallsins helst orðið vart um Akureyri og víðar þar um kring. í skýrslu síra P.P. segir enn fremur svo um öskufallið: „Um næstu daga, 11.—13. brá hér vindinum fyrir af útnorðri (NV), og þá veitti öskufallinu austur af jöklinum; í Suðursveit (þ.e. Borgarhafnarhreppur, næsta sveitin fyrir austan Breiðamerkursand) og á Mýrum (næsta sveit þar fyrir austan, eður Einholtssókn, vestari hluti Bjarnarneshrepps, vestan Hornafjarðarfljóta), varð að sögn nálægt í skóvarp askan, þar, en svo aftur minni eftir því sem austar kom. þarí móti varð öskufalls varla vart í Öræfum (Hofshrepp, milli Breiðamerkur- og Skeiðarársands) og í Fljótshverfi (Kálfafells sókn á Síðu). Allar skýrslurnar segja greinilega afstöðu eldsins eftir því sem hún varð miðuð við þau kennileiti til fjallanna sem alþekkt eru þar um sveitir í og norður-norðaustur af Síðubyggðinni; en eigi þykir þörf að fjölyrða um það hér, þar sem fæstir lesenda vorra þekkja þau, enda fæst þeirra nefnd á uppdrætti Íslands. Síra Páll miðaði eldinn frá Kirkjubæjarklaustri, og Kárstöðum í Landbroti, um kvöldið 11. janúar í heiðskýru veðri, ásamt fleiri greindum mönnum; og með því Kirkjubæjarklaustur og Kirkjubæjarheiði (fjallsbrúnin rétt upp yfir staðnum) og enn fremur fjallið Kaldbakur eru þríhyrningspunktar á landkorti voru, og afstaða þeirra er því óyggjandi, þá skal þeirrar (Kirkjubæjar-)stefnu hér getið, eftir bréfi síra P.P. að eldinn var að sjá (frá Klaustri) „yfir Keldunúpsháls og austanvert við Kaldbaksöxl“, og er þar bætt við: „En mjög norðarlega“. En þessi Kirkjubæjar-Kaldbakslína sker Beykjavíkurlínuna — þá sem einkennd var í blaðinu 21. f.mán., — einmitt um sama punkt, sem Austur-Landeyja- og Holtalínan, eða þá aðeins litlu einu austar. En að Reykjavíkurlínan sé dregin eður áætluð nærhæfis rétt, þ.e. hvorki sunnarlega né norðarlega um of að neinum mun, það staðfestist enn ítarlega af stefnu eldsins frá Gilsbakka í Borgarfirði, þeirri er síra Jón Hjörtsson hefir tekið, og skrifað oss að sé í austur-landsuður þaðan, — skammt fyrir austan Húsafell og yfir norðanverðan Geitlandsjökul; austurlandsuður stefnulína (réttvísandi áttar) frá Gilsbakka, mun skera Reykjavíkurlínuna nærhæfis um sama punkt sem fyrr var getið, eður lítið eitt austar. Í skýrslu síra P.P. segir enn, «að eldinn hafi borið beint í norður af Núpstaðarskógum; sú stefna verður nú hvergi tekin, svo áreiðanleg sé, nema af þeim sem staddur væri vestantil á Skeiðarársandi beint suður af skógunum; getur og vel verið, sð svo hafi gjört greindar-bóndinn þar á Núpstað Eyjólfur Stefánsson, eður og Öræfingar er fóru út yfir Skeiðarársand um þá dagana. Þessi stefna yfir Núpstaðarskógana í hánorður kemur og nærhæfis heim við hinar stefnurnar og rekst hún á Reykjavíkurlínuna litlu eður engu austar en þær, síst þegar þess er gætt, að dagsmörk öll munu haldi þar um byggðir, eins og víðast er til sveita, nokkuru fyrr (allir þekkja „búmannshádegið), heldur en réttvísanda hádegi eður sólskífu-hádegi; en hér af leiðir, að allar höfuðáttir (hádegisstaður, dagmálastaður o.s.frv.), eru einnig haldnar ofar nokkuð eður norðar, heldur en réttvísandi áttir eru. Vér sjáum því eigi, að eldur þessi geti verið norðar í jöklinum heldur en fyrr var áætlað hér í blaðinu, eður rétt austur af Stórasjó; þar í móti er eigi ólíklegt að hann kunni að vera frá 20—30'(eður 4-7 mílum austar í jöklinum, heldur en áætlað var í blaðinu 21. [janúar].

Hlaupin Skeiðará [Eftir bréfi síra Páls Pálssonar í Prestsbakka, 4.[febrúar]. „Eftir rúm 6 ár, (sem er talinn almennur meðgöngutími Skeiðarár), fór Skeiðará nú í vetur á jólaföstunni að þverra, og um jólin sást ekki hvar hún var, var þá talið víst að hún mundi þegar hlaupa, enda leið ekki lengra um en til 6. janúar þá hljóp hún fram árdegis, en Súla kom ekki fram fyrr en um kvöldið sama dag, en hún er einatt vön að hlaupa 1—2 dögum síbar. Vatnsflóðið varð að vísu fremur með minna móti við það sem vant er, en þar á móti brotnaði eður sprakk fram í mesta lagi, Jafnvel meira en nokkurntíma áður, af jöklinum einkum að vestanverðu, svo stórt gljúfur skarst inn í jökulinn, og jökulhrönnin lá eftir farveg Núpsvatnanna langt fram á sanda. Engan skaða ætla menn vatnsflóðið hafi gjört, nema ef vera kynni að nokkur ferköntuð tré hafi tekið út á austurfjörunum. [Mælt er að eigi fá rekatré og köntuð tré hafi rekið, öll með fjörumörkum og einkennum, út á Eyrarbakka er sjálfsagt mun vera af þeim trjám er hlaupið hefur tekið].

Norðanfari birti þann 8.febrúar bréf ritað í Húnavatnssýslu 23.janúar:

Frá því á jólum hafa oftast verið hríðar norðan og landnorðan, og mikill snjór fallið hér í vestursýslunni, en austan til lítið, þar til nú fyrir viku, að þá gjörði fyrst blota og bleytuhríð 16.[janúar] svo allt flóði í krapaelg og vatni, og svo kom frosthríð ofan á þetta allt saman. Síðan hafa oftast verið meiri og minni hríðar með frekustu fannkomu, og langverst á mánudaginn 20.[janúar] og ofsaveður um nóttina. Það er því mikið víða lítið um jörð fyrir fé og og sumir búnir að taka hross. Snjófall þetta er sagt jafnmikið, eða þvínær, vestur að Breiðafirði.

Norðanfari birti 26.febrúar nokkur bréf rituð í janúar:

[Berufjarðarströnd, 30.janúar]: Síðan um Mikaelismessu [29.september] hefur veðuráttan verið óstöðug og umhleypingasöm, svo sjaldan hefur komið lognstund, og veðurstaðan oftast norðan, nema einstaka sinnum hlaupið í hroða útsynninga; snjókomur hafa því orðið miklar og hagleysur upp til lands, en meðfram sjávarsíðunni, hefir oftast mátt heita auð jörð, og best á útnesjum, og sama er sagt hér suður með öllu landi allt suður yfir Öræfi, og snjór að kalla enginn komið. Um jólaleytið varð hér fyrst vart við eldgos, en mest eftir nýárið, og þá með dunum og dynkjum; einnig sást til elds víða frá bæjum, héðan nokkru sunnar en í miðaftansstað. Öskufall er sagt að mikið hafi komið yfir Nesja-, Mýra og Suðursveitir, svo víða sé þúfnafyllir á auðri jörð, og flestan pening hafi orðið að taka á gjöf. Bæði hér og um uppsveitir hefur og orðið vart við öskufall, en enn ekki orðið að tjóni það ég til veit. Menn geta helst til, að eldsupptökin séu í austanverðum Vatnajökli. Allt til skamms tíma hafa menn þóst sjá reykjarmökkinn. Svo mikið vatnsflóð hafði hlaupið í Skeiðará, að hún síðan hefir verið bráðófær fyrir menn og skepnur nema fuglinn fljúgandi.

[Suðurmúlasýslu 30.janúar]: Tíðin var hér óstöðug og gæftaleysi við sjó; veturinn bleytu- og snjóasamur og jarðbannir lengi hér; þar sem sjaldan verður jarðlaust var eigi bragð í mánuð, en nú komu stórrigningar og stórviðri, svo hvorki snjór eða svell hefur staðið fyrir, var þó svellið orðið ótrúlega þykkt, en hér nú orðið bráðum alrautt.

[Seyðisfirði 31.janúar]: Veðuráttufarið hefur verið hér svo afdæmislegt, að menn eru orðnir hreint orðlausir af undran yfir þrálæti þess. Fyrir utan það að hér hefur verið ókleyft millum húsa, hvað þá millum bæja, af fannfergju svo ekki hefur upp úr staðið nema hæstu klettar í byggð og ekkert jarðarbragð fyrir neina lifandi skepnu síðan um sólstöður, já sumstaðar ekki síðan fyrir jólaföstu. Þá hafa illviðrin og rosarnir geisað svo gífurlega, eða ýmist froststormar og stórhríðar, eða þá hvessings kuldablotar og stórviðri af hafi, svo illstætt hefur verið stundum á bersvæði. Sauðfé hefur því sumstaðar ekki séð út fyrir dyr síðan hér um bil mánuð af vetri, nema til brynningar, og hestar á sumum stöðum staðið við síðan um miðja jólaföstu. ... Í vikunni eftir þrettánda bar hér á eldgosvottum, bæði með dynkjum og öskufalli. Ýmislegt timbur og brot af skipspörtum hefur að sögn verið að smáreka hér á austurströndum í vetur, og þykir það órækur vottur þess, að skip hafi týnst hér einhverstaðar úti fyrir í haust eða vetur, og er helst getið til, að það hafi verið timburskip norskt eða finnskt. Steinolíuáma kvað og hafa rekið á Húseyjarreka, kirkjujarðar frá Kirkjubæ og flösku með bréfmiða í, og eitthvað þar á, einhverstaðar annarstaðar á Héraðssöndunum, og ætla menn að hvortveggja þetta sé af sama skipi.

[Fljótum í Skagafirði 28.janúar]: Fannfergja er hér mikil komin, enda bregður okkur Fljótamönnum ekki við það; alveg bjarglaust fyrir allar skepnur; hey reynast vel;

Norðanfari birti 1.mars bréf úr Laxárdal í Þingeyjarsýslu, dagsett 3.febrúar:

Héðan er ekkert merkilegt að frétta, tíðin var hér hin harðasta til þorrakomu, fannfergi gróft og haglaust yfir allt, síðan má heita að verið hafi góð tíð, sunnanátt og lítið frost, en engar verulegar þíður, sumstaðar hefur skotið upp litlum hnjótum, til dálítils léttis, meðan svona stendur, en einskis þegar ofan á kemur aftur; heyin munu reynast almennt heldur vel, og langtum betur enn í fyrra, enda munu þau allstaðar með góðri verkun, en þó þykja mönnum kýr ekki reynast að því skapi vel.

Norðanfari segir í pistli þann 8.febrúar:

Nú er sagt víðast hvar í Skagafirði komin nóg jörð og eins í Húnavatnssýslu. Í hríðunum á dögunum höfðu 4 hestar, frá Bjarnastöðum í Kolbeinsdal, lent í snjóflóði. Næst undanfarna daga hefur hér um sveitir verið gott veður, svo dálítið hefir rýmst um, þó best 4.[febrúar] og aðfaranóttina hins 7. og nokkur snöp komin þar sem snjógrynnst var.

Febrúar. Óstöðug tíð. Nokkuð hlýtt var fram eftir mánuði, en síðan kólnaði verulega. 

Tíminn segir 26.febrúar af tíð - (og eldgosi - en endurtekur þar Þjóðólf):

Tíðarfarið hefir verið nokkuð vindasamt á sunnan og útsunnan og óstöðugt síðan 22.[janúar]. Þíðviðri og rigningar miklar hafa öðru hverju gengið til þess 15. [febrúar], og gekk þá í vestan átt og éljagang er hélst til hins 19. Síðan hefir verið norðankólga með gaddfrosti, sem varð 14° [-17,5°C] hér í Reykjavík þann 22. þ.m. Með austanpóstinum fréttist að væri besta tíð, en rigningar miklar þar eystra. Nóttina milli hins 18.—19. [febrúar] gjörði ofsa sunnanveður, er gekk til útnorðurs daginn eftir með 5° frosti, sleit þá upp á Vogavík þilskipið „Dagmar“, eign þeirra síra Þ. Böðvarssonar í Görðum, Þ. Egilssonar faktors í Hafnarfirði o.fl. Það var að leggja út á hákarlaveiðar, en hleypti þar inn, mennirnir komust af, en skipið laskaðist eitthvað. Eigi hefir heyrst getið um annan skaða af veðri þessu.

Tíminn birti þann 25.apríl bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 26.febrúar:

Almennustu fréttir eru: Öndverðlega vetrar hófust hér harðindi, með jarðbönnum af áfreða og snjó, oftast norðaustan, fyrst með bleytu (krapa)- hríðum sem olli áfreða og jarðbönnum þegar fraus, síðan snjókomuhríðir með frosti frá því á jólaföstu til miðsvetrar, þá var kominn hér svo mikill snjór, að tíðum hefir ekki orðið meiri yfir heilan vetur. Með þorra má kalla að batnaði nokkuð veðurátt, létti þá hríðum og linaði frost, hafa síðan verið smáblotar með köflum, snjór sigið mikið við það, og víða komið upp nokkur jörð fyrir sauðfé, en í seinustu viku þorra gjörði norðan snjóhríðar með frosti og snjókomu, svo nú er mjög jarðlítið og tíðarfarið ískyggilegt, það má því segja að harðindin séu eigi búin að skilja við oss Þingeyinga ennþá.

Tíminn segir 8.maí frá strandi franskra skipa 6.mars. Finna má ítarlegri lista yfir skipin í Þjóðólfi þann 3.maí:

Skipströnd á 4 frakkneskum fiskiduggum urðu aðfaranóttina 6.mars í Hornafirði, komust lífs af 31 af öllum skipunum en hinir allir týndust [56 að sögn Þjóðólfs].

Norðanfari segir þann 1.mars:

Síðan aðfaranótt hins 19. [febrúar] og til þess í gær hafa stöðugt verið illviður með hvassviðri, fannkomu og hörkum, er hér urðu mestar 27.[febrúar] 15 stig á R [-19°C], en hríðarnar grimmastar 19.—21., svo víða er komin mikil fönn, og fé eigi beitandi vegna hörku og harðviðra. En þá þykjast menn smátt og smátt hafa orðið varir þess, að sandi hafi rignt. Kvartað er á sumum stöðum um veikindi í fé, helst þar, sem því hefir verið mest beitt, kenna menn það sand- eða öskufallinu. ... Aðfaranótt hins 20.[febrúar] lágu 7 menn að norðan, úti í stórhríð í svonefndri Hallandsvík, gagnvart Oddeyri, er grófu sig í fönn, en sakaði þó ekkert; voru þó sumir þeirra meira og minna votir og 2 alveg upp í mitti. Síðan að hríðunum létti af, er sagt að hafís hafi sést norður um Grímsey. ... [Þ.] 18. [febrúar] höfðu 6 eða 7 menn á báti úr Svarfaðardal lagt á stað þaðan, er ætluðu á hvalfjöruna [hval rak á Látraströnd], en um nóttina brast í landnorðan garð og snjókomu. svo ekkert sást, en tunglskinslaust; urðu því áttavilltir og þorðu hvergi að leita lands, þar til daginn eftir að dálítið birti upp og sást til lands og náðist í Hrísey, var þá einn maðurinn látinn, ... og 2 aðrir langt leiddir, er lakast höfðu verið útbúnir ...

Norðanfari birti þann 12.mars bréf úr Siglufirði dagsett 3.mars:

[Þ.] 20.[febrúar] lögðu 3 vetrarskip héðan, úr Fljótum hlaðin af kornvöru og nokkrum hákarlsafla, eitt þeirra, sem síbast kom inneftir, gat ekki lent vegna þess hvað lágsjávað var og var það því lagt á floti og beðið flóðs, enn um kvöldið gekk í blindbyl, sleit þá skipið upp og hvolfdist; drukknuðu þar 2 menn, sem höfða átt að ausa skipið, einnig fórst þar mikið af kornvöru, sem fátækir menn í Fljótum áttu.

[Blaðið bætir við] Auk þessa hefir oss verið sagt frá tildrögum að tjóni þessu þannig: Að nefndar 3 skipshafnir hefðu öndverðlega á þorranum róið til hákarls, og fengið dálítinn afla, en vegna ofviðurs legið stutt og með herkjum náð Siglufirði, síðan gengið frá skipunum og heim. Að nokkrum tíma liðnum var farið aftur að vitja skipanna og lagt af stað umgetinn dag úr Siglufirði í góðu veðri, en þá áleið daginn laust á nefndum blindbyl; þeir fyrstu höfðu náð Mósvík í Fljótum og hleypt þar skipinu flötu upp, til þess að það fylltist síður, Hinir er næst komu héldu að fyllt hefði hjá þeim er á undan voru, sneru því við frá Mósvíkinni og austur á Haganesvík og lögðust þar, var þá þriðja skipið komið fyrir upp í sand, lét þá formaður þess sækja mennina á byttu fram á skipið, nema 2 af þeim, sem áður er getið, urðu eftir, ... er átti að sækja í næstu ferð sem ómögulegt varð. Svo hafði hríðin verið grimm, að strengdur var kapall úr skipinu og upp í búðirnar til að fara eftir, að suma sleit af honum. Um síðir höfðu þó skipverjar allir, er á land komust, náð einni búðinni og orðið að láta þar berast fyrir um nóttina.

Úr bréfi úr Flatey á Skjálfandaflóa, [4.mars] Fátt er héðan að frétta nema framúrskarandi óstillingu í veðuráttunni. Oftast nær rok úr hvaða átt sem veðrið er. Hér á eyjunni, er nú sem stendur góð jörð og líka á Flateyjardal handa útigangspeningi. Þriðjudaginn 18. [febrúar] kl.4 e.m. lagði bytta sem átti hér heima, með 3 karlmönnum og 2 kvenmönnum úr Naustavík í Náttfaravíkum (þaðan og hingað eru rúmar 3 vikur sjáar), en um kveldið brast í austan hríðargarð, svo byttan fórst, líkast til fram undan Þorgeirshöfða, sem gengur fram milli fjarðanna hér vestur frá, því að þar hefur rekið ýmislegt úr byttunni árar og fleira, en engan manninn hefur enn rekið.

Mars. Fremur hlýtt í veðri en nokkuð úrkomu- og umhleypingasamt, sérstaklega framan af. 

Úrkomumælir á Teigarhorni fauk á hliðina í stormi þann 18.mars. Illa var gengið frá þessum mælum fyrstu árin. 

Þjóðólfur segir af mannsköðum og tíð í pistlum þann 14.mars:

Mánudaginn 3.[mars] fóru nokkur [4—6?] skip af Álftanesi „inn í Fjörð" (Hafnarfjörð), til þess að sækja sér salt og aðrar nauðsynjar til vertíðarinnar; fyrir einu því skipi var Sveinn Sigurðsson bóndi í Árnakoti, við 6. mann; urðu þeir síðbúnari til heimferðar úr Firðinum heldur en hinir, og þó eigi frekar en svo, að sá er var næst á undan þeim, Jón trésmiður Steingrímsson í Sviðholti, var einmitt nýbúinn að ná lendingu í sínum vörum, þegar datt á um miðmundabil með él sem haldið er, að skipi þessu hafi grandað þar á Brekkugrynningum framundan Hliðsnesi. Skipinu hvolfdi þarna með öllum mönnunum, og var það brátt róið upp í Hliðsnes, og voru þá 2 skipverjanna fastir í öðru seglinu. — Unglingstúlka ein 14 vetra (átti að verða staðfest í vor), stjúpdóttir bóndans í Húki í Miðfirði, var send út yfir Hrútafjarðarháls fimmtudaginn síðastan í þorra (20.[febrúar] og var eigi undrast um hana, þótt eigi kæmi hún aftur um kveldið, né næsta daginn, enda hafði þá verið illt veður þar nyrðra; en von bráðar spurðist vestanyfir, að stúlkan hafði lagt á stað samdægurs (20.f.m.) heim á leið, upp á hálsinn, fannst einnig nokkru síðar örend um þær stöðvar.

Norðanfari segir 19.mars:

Með Pétri Ólafssyni, sendimanni Lárusar sýslumanns Sveinbjörnssonar á Húsavík, er kom hingað 14.[mars] úr ferð sinni sunnan úr Reykjavík og austan af Eyrarbakka, ... fréttist, að syðra hefðu alltaf verið nægar jarðir, því að einlægt hafði verið blóðrautt, en hvassviðra samt og stundum stór veður, svo víða fauk meira og minna úr heyjum, en þó mest hjá einum manni í Lundareykjadal, er tapaði um 30 hestum, og bátur hafði fokið á Hvalfjarðarströnd. Fyrir austan Hellisheiði hafði varla sést snjór millum fjalls og fjöru, og Ölfusá marauð og skaralaus í sjó út.

Þjóðólfur segir enn af eldgosinu þann 21.mars:

Hvergi að er það að heyra, að vart hafi orðið eldgossins, eður neinna menja þess nær né fjær, síðan um 23.[janúar] eftir því sem hermt var hér í blaðinu 26.[febrúar], eftir skýrslum Skaftfellinga, því hvergi hér um vestari sveitirnar urðu menn eldsins varir, svo að til hafi spurst eða vissa þyki fyrir, lengur en til 13.—14. janúar. Reyndar voru nokkrir sjómenn úr Biskupstungum og Laugardal á því, að laugardaginn. 15.[febrúar] hefði þar um slóðir sést glögglega mökkur, um sömu stöðvar sem eldurinn sást í janúar; og vera má að svo hafi verið, en getur líka hafa verið missýning.

Tíminn segir þann 19.mars:

Pósturinn að norðan kom hér kl. 9 að morgni. Hann fór hinn 3.[mars] frá Friðriksgáfu [Möðruvöllum í Hörgárdal], og fékk sífellda ófærð sökum snjóa er dreif niður 1. og 2. [mars]

Úr bréfi að vestan: „Hin blíða sumarveðrátta endaði með septembermánuði, því með byrjun október tóku til kaföld og frostgangur með sunnan og landsunnanbleytu-kaföldum og blotum og þessi veðurátta hélst þar til með byrjun desember, þá kom hér um 20 daga hagstæð veðurátta, eftir það tóku til norðankaföld og kólgugarður, þar til síðustu dagana af janúarmánuði, þá gerði blota og síðan hláku, er hélst enn í dag 7.febrúar. Vetrarfarið hefir því sumstaðar verið í harðara lagi og janúarmánuður að samtöldu sá 3.—4. kaldasti nú í 30 ár (-5°R)“.

Tíðarfarið síðan 20.[febrúar] hefur verið á þessa leið: Norðanátt oftast með töluverðum stormi og frostum, frá 21. til 27.[febrúar] frost hæst 14° [-17,5°C] þann 25. Þ. 28. var þítt og gott veður. 1. og 2. [mars] dreif hér niður hinn mesta snjó er menn muna eftir á Suðurlandi um þenna tíma árs, snjó þenna tók upp aftur að mestu með sólbráði og hláku þann 14. og 15.; frá þeim 3. til 11. var vindasamt af landsuðri og vestri og óstöðugt ýmist með blotum eða frosti. 11.—14. var heiðríkt og gott veður, 12° frost hinn 13.

Þjóðólfur segir þann 9.apríl frá skipskaða sem varð 24.mars:

Mánudaginn 24.[mars] lögðu nokkur skip og bátar héðan að innan út í syðri veiðistöðvarnar; 2 þessara báta átti Geir Zöega; þegar kom suður á móts við Seltjarnarnes hvessti hann og varð þverari, svo að jafnvel báðir þeir bátarnir leituðu lendingar að Hliði á Álftanesi, en víst annar, sá er Guðmundur vinnumaður G. Zöega var formaður fyrir. Hann var aðeins við annan mann, — Ingólf, er kallaður hefir verið hinn sterki hér syðra, Sigmundsson, upprunninn af Skagaströnd og bóndi þar um mörg ár, en fluttur nú fyrir fám árum norður á Höfðaströnd í Skagafjarðarsýslu. Kvenmaður einn fór með þeim héðan að innan. Nú er þeir voru lentir fyrir nokkru þar á Hliði, virtist þeim, að veðrinu lægði svo að alfært væri í Vogana þaðan, og ýttu þeir svo fram aftur og lögðu af stað, hversu sem þeir voru þess afeggjaðir af Hliðsmönnum; fóru þeir þá 2 einir, því kvenmaðurinn lattist fararinnar, enda var eigi sjálf áfram um það, og varð hún svo eftir. Hefir eigi spurst síðan til báts þessa né manna. ...

Norðanfari birtir nýleg bréf og segir fréttir þann 9.apríl

[Suðurmúlasýslu 21.mars] Í gær frétti ég úr lausafregn, að ofsaveður sunnan, sem kom hér 6.[mars] hafi rekið á land suður í Lóni 4 fiskiskútur og brotið flestar í mola.

[Barðastrandarsýslu 10.mars] Heilsufar manna hefir verið bæði árið sem leið, og það sem af þessu er liðið með besta móti. Veðuráttufar á þessum vetri hefur verið fremur vinda- og umhleypingasamt en víðast hefur alltaf verið jörð fyrir útigangspening. Fiskiafli er og hefir verið allt af meiri og minni við Ísafjarðardjúp, ... Frost hefur hér orðið mest 12° á R [-15°C] en ekki nema fáa daga, því strax á eftir var komið 1° hiti.

[Svo segir blaðið] Í einu stórviðrinu vestra höfðu 30 hestar af heyi fokið á Ballará á Skarðsströnd í Dalasýslu og timburþak af hlöðu á Óspakseyri við Bitrufjörð í Strandasýslu. ... Síðan um miðjan fyrra mánuð [mars], hefir nálega á hverjum degi verið hér nyrðra um allar sveitir hin mesta öndvegistíð, hlákur eða þíður svo í öllum snjóléttum sveitum er að kalla orðið öríst, og enda sumstaðar farið að votta fyrir gróðri. Hér og hvar er sagt að geldfé sé farið að liggja úti.

[Reyðarfirði 24.mars] Mjög hefir verið óstöðugt og veðrasamt þorrann og góuna og oft komið harðsnúnir byljir og hroðalegir. Frostlítið og snjólítið um alla Fjörðu, en meiri snjór í Héraði. Þó eru þar nú allstaðar jarðir nema á Útmannasveit og svo í Tungu, þar eru mikil svellalög og jökull. Veturinn hefir verið harður sumstaðar og sumir orðnir heylitlir.

[Eskifirði 21.mars] Veturinn frá þorrabyrjun hefir verið einkar góður, svo hér í sveit er nú marautt upp undir fjallatinda. Út á Héraði er enn jarðlaust og á Jökuldal nýkomin snöp fyrir sauði. Aflast hefir hér þegar leitað hefir verið, en sökum vangæfta hefir eigi verið hægt að fiska nema stöku sinnum. Nóttina milli hins 6. og 7. [mars] var hér ákaflega hvasst austanveður, svo aldrei linnti roki; Drengur varð hér úti 16.[febrúar] á Vöðlavíkurheiði, sem liggur millum Reyðarfjarðar og Vöðlavíkur; þann dag var ofviður mikið og blindhríð, sáu menn, þá drengurinn fannst, að honum hafði slegið niður.

Og enn segir Þjóðólfur af eldgosinu í pistli þann 22.apríl:

Hið eina er barst með póstum í [mars] um eldgosið upp úr Skaftárjökli eður Vatnajökli 9. janúar, að því leyti að eigi hefir verið fyrri minnst á hér í blaðinu, er það, hvenær og hvernig eldgos þetta kom í ljós í Norðurmúlasýslu. Um þetta þykir kafli sá, er hér kemur úr bréfi frá síra Þorvaldi Ásgeirssyni á Hofteigi dags. 26. janúar verður þess, að hann komi fyrir allra augu: „Þegar komið var út um morguninn 11. þ. mán., sást ekki á dökkan díl fyrir öskufalli, og í Möðrudal á Fjöllum tók eigi að birta í húsum fyrr en sól var komin upp, því að þá fór að birta í suðrinu. Öskufall þetta nær um allt Austurland, en mest á fjöllum uppi. Í Möðrudal mun aska hafa verið fingurs þykk, og einnig á fjöllunum. Dunur og dynkir heyrðust hér hinn 12., en þá var öskufallinu létt. Ekki vita menn neitt hér hvaðan þessi ófögnuður stafar, þá að helst sé grunur um Vatnajökul þar eð eldroði síst mikill í þeirri átt að kvöldi hins 11., og það svo, að miklu meir lýsti af honum en tunglinu er þá var í fyllingu. Þessi aska er nú öll komin í kaf, og var það máski mikið lán, að hún skyldi koma ofan á svo mikinn snjó".

Apríl. Hlý tíð og hagstæð lengst af. 

Norðanfari birti þann 28.maí bréf úr Seyðisfirði, dagsett 28.apríl:

Þá er nú komið sól og sumar, og það meira en að nafninu einu, og má segja, áð tvennar séu tíðirnar, núna um miðsvetrarleytið í vetur, þegar engri skepnu var vært né stætt fyrir stórhríðum og snjókyngi. Nú er svo langt frá, að nokkurstaðar sé svell eða snjó að sjá í byggð, að túnin eru talsvert farin að grænka og haginn að lifna, allstaðar orðið ristu- og stunguþítt, og víða búið að vinna á túnum. Sauðfé og hross ganga sjálfala um hlíðar og haga og eru þegar farin að taka bata og bragðast, og þó kúm sé ennþá haldið inni af því nú mun víðast nóg fóðrið, þá má fullyrða að þær hafi einatt endrarnær verið leystar út á lélegri haga á skömmu fyrir fardaga enn nú eru komnir. Sjávarafli er kominn góður, bæði af fiski og hákarli, og sumir þegar búnir að hluta vel.

Tíminn segir 8.maí:

Norðanpóstur kom hingað 3. [maí]. Úr bréfum sem bárust með honum er bestu tíð að frétta um allt Norðurland síðan í mars, skip komu inn þar snemma venju framar, hafíslaust, síldarafli viðunarlegur á Eyjafirði og aflavart orðið. Vestanpóstur kom hingað 5. [maí], með honum fréttist, að besta tíð sé á Vesturlandi, og einmánuðurinn hafi verið sérlega góður; fiskilítið undir jökli, en ágætur fiskafli á Ísafirði. — Í fyrri mánuði ráku 2 hvalir á land í Strandasýslu undan hafíshroða, er snöggvast rak þar inn.

Maí. Köld og þurr tíð. Slæmt hret um og uppúr miðjum mánuði.

Séra Þorleifur í Hvammi segir í athugasemdum í maí: [19.] Festi snjó í byggð og fjöllum að nóttu. [21.] Snjóhríð að nóttu með hvassviðri og kófi að deginum. [23.] Snjóhríð með éljum [síðdegis]. 

Norðanfari segir af tíð þann 28.maí:

Síðan eftir kóngsbænadag [9.maí] hefur oftast verið hafátt og kuldar og stundum 4—6° frost á nóttunni og einstöku sinnum frost á daginn. Gróðurinn sem kominn var, hefur því varla getað haldist við, jörðin líka af hinum langvinnu þurrkum orðin svo skræld, en fyrir það óvíða kalin. Heybirgðirnar eru allstaðar sagðar nægar og skepnuhöldin með besta móti. Áður en kuldarnir byrjuðu, voru nokkrir farnir að láta út kýr sínar. Vegna hinnar góðu veðuráttu, sem var í vor, hófst útivinna miklu fyrr en að undanförnu sem mörgum hefur komið vel. ... Hafísinn er sagður mikill, þá kemur 12—16 mílur [væntanlega danskar] undan landi, og skipin því oft orðið að flýja undan honum frá meiri eða minni afla.

Júní. Fremur kalt og fremur þurrt lengst af, þó vætti nokkuð þegar á leið.

Tíminn segir þann 16.júní:

Síðan norðanveðrinu slotaði, er varaði frá 15.—24.[maí], með gaddi og snjó til sveita helst á Norðurlandi; í Mýrdalnum var þúfnafyllir af snjó á uppstigningardag [22.maí], en síðan hefir verið dágott veður á Suðurlandi en þó oftast kalt. — Sagt er að endrum og sinnum sjáist i Skaftárjökli reykjarmökkur á þeim stöðvum er eldgosið var í vetur, og öskufalls varð vart víða þar eystra í fyrra mánuði þegar póstur var þar á ferðinni.

Norðanfari segir af tíð 17.júní:

Lengst af í vor, hafa hér nyrðra verið þurrviðri og kuldar svo gróðrinum hefur lítið farið fram, allt til þess í næstliðinni viku, að hér rigndi dálítið, svo nú eru allgóðar horfur á grasvexti; þá er aftur kvartað víða yfir grasmaðki, einkum á harðvelli, sem menn segja að þegar sé orðið töluvert mein að, og skepnur flýi. Lítið hefur síðan á dögunum aflast af hákarli, bæði vegna sífelldra ógæfta og hafísþaka upp fyrir hin dýpri mið. Aftur hafa nokkur skipin fengið svo tugum skiptir af sel, er sleginn hefir verið á ísnum. — Mikill fiskafli er nú sagður kominn hér úti fyrir þá beita er góð. Að sunnan er að frétta miklar rigningar og ótíð, á meðan þurrkarnir voru hér, en hlaðfiski þá gaf að róa.

Júlí. Kalt í veðri lengst af. Nokkuð slæmt hret upp úr miðjum mánuði. 

Þann 10.júlí hófust veðurathuganir aftur í Grímsey. Séra Pétur Guðmundsson athugaði. Þar segir hann frá krepju þann 18. - og hiti um miðjan dag var 0,0 stig. 

Séra Þorleifur í Hvammi segir þann 18.: „Fjöll alsnjóa að nóttu“.

Tíminn birti þann 12.ágúst bréf úr Suður-Múlasýslu, ritað 11.júlí:

Hér hafa gengið rigningar hálfan mánuð, svo menn muna varla aðrar eins á þeim tíma. Grasvöxtur er allgóður, sauðburðurinn gekk allstaðar vel, því féð var vel fært í vor. ... Afli er nú góður við allt Austurland; vörp skemmdust í miðjum júní af rigningum.

Tíminn greinir af tíð þann 12.júlí:

Árferðið hefir verið síðan „Tíminn“ kom seinast út, á þessa leið: Oftast þurrviðri, austanátt og stundum landnyrðingur með krapakalsa og hornriða til fjalla, hitadagar hafa fáir verið, nema dagana frá 18.—22., 26. og 30. [júní] Grasspretta er enn talin víðast í minna lagi, einkanlega á túnum. Fiskiafli hefir verið hér innan Faxaflóa í meðallagi, eins kringum Jökul og á Breiðafirði. Um tíma hefir verið gæftalítið, en þá gefið hefir, hefir verið líflegur afli af þorski og smáfiski. Þilskipaafli hefir verið allgóður síðan á dögunum. Nú er um þessa daga norðanátt og þerrir.

Norðanfari birti þann 9.ágúst bréf úr Aðaldal í Þingeyjarsýslu, dagsett 21.júlí:

Fimmtudaginn þann 17.[júlí] var hér allra versta veður, fyrst með stórrigningu viðlíka og á hausti og upp út því snjókomuhríð ákaflega mikil, svo alhvítnaði hér um dalinn, en norður undan er að sjá svo mikinn snjó til heiða og afrétta, að menn halda að fé hafi fennt sumstaðar, þó það ef til vill hafi seinna skriðið úr fönn við vatnsverið, sem tók við eftir snjófallið. Síðan bága sumarið 1848, muna menn ekki eftir jafnlitlum grasvexti og nú bæði á túni og engi, sem hvortveggja lítur hörmulega út, þó jörð sýnist hvergi rótkalin, er þó svo mikill kyrkingur í grasvextinum að furðu gegnir.

Víkverji greinir frá tíð þann 4.ágúst:

Af tíðarfari á Vesturlandi sunnan Breiðafjarðar er það að segja, að allan júlímánuð allt til hins 20. hafa gengið norðan- og austnorðanstormar með kalsakrapa, og einstaka sinnum snjógangi til fjalla. Hitinn um hæstan daginn hefir verið mest: 11°, minnst: 2°R. í skugganum. Loftþyngdin hefir verið milli 27"—28" [franskar, 974 til 1010 hPa], og varla nokkurn tíma þar yfir. Grasvöxtur á túnum mjög lítill og sláttur byrjaður allstaðar í síðasta lagi; málnytja mjög rýr.

Þjóðólfur segir enn af eldgosinu í Vatnajökli þann 9.ágúst:

Eldsins þess er upp kom í Vatnajökli eftir nýárið, varð að því leyti vart þar eystra, um Síðu og Meðalland, fram eftir öllu vori og fram yfir miðjan júnímánuð að jafnaðarlega sást reykjarmökkur um sömu stöðvarnar þegar heiðskírt var, meira og minna; en aldrei sást eldur og einskis öskufalls varð vart, svo að eftir væri tekið. — En eftir því sem síra Jóhann prófastur Briem hafði skrifað Guðmundi kaupmanni Thorgrímssen nú um mánaðamótin (bréf G.Th. hingað 6. [ágúst] um þetta, hefir oss góðfúslega sýnt verið, en þar er eigi getið dagsetningar á bréfi síra J.K.Br.), heldur segir þar, aðeins: „Um þessa dagana hefir þar um Ytri-hrepp (ofantil?) komið öskufall svo mikið, að miklu meira varð en þegar mest var í janúar er leið, og hafði allur málnytufénaður hríðgelst eður dottið úr honum öll málnytan“.

Ágúst. Hretasamt veðurlag, sérstaklega norðanlands. Sumir telja þó hagstætt veðurlag þegar á heildina litið. 

Þann 2.ágúst hófust veðurathuganir í Papey. Jón Þorvarðsson athugaði. Aðaláhersla var lögð á sjávarhitamælingar. 

Séra Þorleifur í Hvammi segir: „Snjóaði að nóttu ofan í miðjar hlíðar, f.m. éljadrög að aftni“. 

Norðanfari segir frá 9.ágúst:

Á útkjálkum og fram til dala varð hér í Eyjafjarðarsýslu og sumstaðar fyrir vestan alhvítt ofan í sjó og ár, enda um miðjar sveitir. Þegar uppbirti var að sjá ærinn snjó til fjalla, og öll líkindi til að fé hefði fennt, en vegna þess að snjóinn tók fljótt upp aftur, hefir líklega ekki orðið tjón að honum til muna. Nú í seinustu óveðrunum, er sagt að víða hafi hér norðanlands rekið talsvert af rekavið, er þetta nýlunda, þar sem um mörg undanfarin ár, hefur alls ekkert rekið.

Endur og sinnum hafa menn þóst verða varir við, að sandi og ösku hafi rignt, sem eðlilegt er, þar sem fullyrt er að eldur sé enn uppi í Vatnajökli. Yfir allt hér nyrðra er kvartað um málnytubrest mikinn. Alltaf haldast hér óþerrar miklir, svo töðurnar liggja undir skemmdum.

Þann 11.september segir Víkverji fréttir að vestan - virðast dagsettar 27.ágúst:

Um 20.júlí eður með byrjun hundadaga brá til hlýviðra eftir hina langvinnu kuldastorma, sem áður höfðu gengið. Voru útnyrðingar og landsynningar á víxl, sem hér eru taldar hagstæðustu áttir, í fullan hálfan mánuð. Hitinn var frá 10 til 14°R. Loftþunginn fyrst milli 29 — 30" og síðar milli 29—28". Eftir það gjörði austnorðanstorma með kulda og snjó til fjalla (14.—15. ágúst) og á Vestfjörðum snjóaði sumstaðar i sjó. Hitinn varð þá að eins frá 8 til 4° og loftþunginn lék á milli 28 og 27". Því næst hlýnaði aftur (8—9°) og létti í lofti (28") og gjörði logn eður andvara fram til hins 20., en síðan hafa verið hægviðri að jafnaði með nokkurri rigningu og er hvað mest regn af landsuðri í dag, hinn 27.ágúst.

Víkverji segir þann 4.september (dálítið stytt hér):

Veðráttufar í Reykjavík í 19.viku sumars: [Þ.28.ágúst] Stormur af norðri, við og við sólskin, hafði snjóað í fjöll um nóttina, 29. stinningsnorðankul, heiðríkt loft, 30. hæg norðangola, heiður himinn, 31. um morguninn þykkt loft, eftir dagmál hægur norðankaldi, heiður himinn. 1., 2. og 3.[september] Lygnt veður og heiðríkt. Engin úrkoma alla vikuna.

Norðanfari birti þann 27.október bréf úr Hrútafirði, dagsett 6.september:

Frá aprílmánaðarlokum og fram í miðjan júlí var köld veðurátta með smá snjóhretum og frostum, varð því mjög graslítið bæði á túnum og engjum, þó er nokkuð betur sprottið gras til fjalla og hálsa þar sem graslendi er. Eftir miðjan júlí hefir oftast verið hlýrra veður og nægir þurrkar, þó hafa síðan komið 2 snjóhret. Það sem liðið er af þessum mánuði, hefur verið logn og blíða nema í dag.

Tíminn birti þann 15.október bréf af Austfjörðum, dagsett þann 8.september:

Tíðarfarið hefir verið hér eitthvert hið hagfelldasta á þessu sumri, þegar á allt er litið, einkum í fjarðarsveitunum, þar sem sjaldan sem aldrei býðst nóg, hvað þá heldur of mikið af þurrviðrunum; upp til dala og uppsveita, hafa þurrkarnir jafnvel orðið heldur til miklir og orðið því til grashnekkis, grasbrestur hefir annars verið tilfinnanlegur í sumar, sér í lagi á útengi, en vegna þurrkanna hefir nýtingin gefist svo, að heyafli manna víðast hvar lítur út fyrir að verði viðunandi eða jafnvel í góðu meðallagi; þá hefir eigi síður látið í ári fyrir þeim er við sjóinn búa, hefir hann i sumar mátt heita krökkur upp í þurra landsteina af flestum fiskitegundum, og að því skapi mun dæmafár afli á land kominn, um þetta leyti árs hjá sumum þeirra er því hafa sætt.

September. Lengst af nokkuð hagstæð tíð, en þó ekki illviðralaus. 

Þjóðólfur segir þann 6.október frá slysförum nærri réttum í september:

Mánudaginn 22. og þriðjudaginn 23.[september] þá almennt stóðu yfir fjallgöngur og afréttasöfn hér sunnanlands var hér slagveðursrigning yfir allt, eigi síst til fjalla, og mátti [vantar línu í ljósmynd af blaðinu] er fellur um afrétt Gnúpverja og í Þjórsá. Fyrra daginn (22.) koma 4 Flóamenn (er ætluðu að starfa að fjallsafninu og framrekstri þess til réttar neðan héraðið og ætluðu uppyfir Þverá, riðu 2 þeirra út í ána og slarkaðist öðrum uppyfir, en hinn Helgi Helgason frá Hellukoti S Eyrarbakka, losnaði við hestinn „í kafinu og fórst hann þar", því straumurinn og iðukastið, sem mikið var, bar hann brátt ofan í Þjórsá, en hesturinn komst upp úr. — Daginn eftir 23. í áliðnum degi, var afréttarsafn þeirra Hreppamanna og Flóamanna, — því Flóamenn og Skeiða eiga afréttarlönd sín mitt í milli afrétta þeirra Gnúpverja og Hrunamanna — komið fram undir byggð; riðu þá frá safninu og safnsmönnum öðrum, er lágu þar í tjöldum sínum og œtluðu fram til efstu byggðar, jafnvel allir að bænum að Hrunakrók, 5 menn, flestir eður allir neðan úr Flóa; riðu þrír þeirra útí Stóru-Laxá ófæra, gagnvart Hrunakrók, slarkaði einn yfir en 2 losnuðu við hestana og drukknuðu báðir: Guðmundur Þórarinsson frá Þorleifskoti hjá Laugardælum og Jón Magnússon frá Sölvholti; segir sú fréttin að 2 hafi horfið frá, er þeir sáu harðar farir hinna og eigi lagt út í ána; en önnur frétt og hún enda skrifuð segir að mennirnir hafi verið aðeins 4 alls og allir riðið út í, hafi einn komist yfir og 2 farist, eins og nú var mælt, en hinum 4 er losnað hafi við hestinn, hafi skolað upp (við ytra landið og komist lífs af.

Víkverji birtir þann 16. október úr bréfi af Skógarströnd, dagsett 30.september:

Hinn 28. ágúst brá til þurr- og kyrrviðra og næturfrosta -2°R og hélst til 5.september, þá rigndi 2 daga; eftir það máttu heita þurr- og hlýviðri, oftast á austan landsunnan, til hins 17., þá gjörði norðangarð með frosti. Að morgni hins 20. var útnorðan andvari, en 4° frost [-6°C]. Hinn 21. gekk veðrið til suðurs með ofviðri og rigningu. Hinn 22. sneri veðrinu til norðurs, og gjörði mikla fönn til fjalla og enda nokkra sumstaðar í byggð. Í dag er útnorðanhægð, þokuslegið loft og í morgun 6° frost [-7,5°C].

Víkverji lýsir veðri í Reykjavík í nokkrum pistlum (nokkuð stytt hér):

[18.september] Veðráttufar í Reykjavík í 21.viku sumars: Þ.11. og 12. hægur landnyrðingur, heiður himinn. 13., 14., 15. og 16. hvassviðri af suðri og austri með regnskúrum. 17. hægur austræningur, hálfskýótt loft.

[25.september] Veðráttufar í Reykjavík í 22. viku sumars: Þ.18., 19., 20. hægur landnyrðingur, heiður himinn. 21. hægur landsynningur, skúrahryðjur. 22. sunnanstormur með helliskúrum. 23. sunnanstormur með skúrahryðjum. 24. sunnangola, hálfskýótt loft, einstakar skúrir.

[2.október] Veðráttufar í Reykjavik í 23. viku sumars. Þ.25 hægur landsynningur með skúrum; 26., 27., 28., 29., 30.[september] og l.[október] stöðugt norðanveður, mjög hvasst 27., en lygnara hina dagana. 28. um miðaftan kom él, er gjörði snjóföl á jörðu, annars engin úrkoma en heiður himinn með frost, snjór í öllum fjöllum.

[9.október] Veðráttufar í Reykjavik í 24. viku sumars: Þ.2. landnyrðingur, þegar á daginn leið austan og landsunnangola, rigning um kveldið. 3. hvass útsynningur með skúrahryðjum, 4. landsynningsrigning. 5. hvass á útnorðan með krapaskúrum, 6. hæg norðangola, 7. hvassviðri af norðri, 8. andnyrðingsgola.

[16.október] Veðruáttufar í 25. viku sumars: Þ. 9., 10. og 11. rokviðri af austri síðar af landnorðri, 12. og 13. norðangola, 14. hægviðri af austri, hafði snjóað ofan í sjó um nóttina, 15. hvassviðri af austri með suddarigning.

[25.október] Veðráttufar í Reykjavík í 26. viku sumars og á veturnóttum: Þ.16 útsynningsstormur og rigning, 17. og 18. lygn útsynningur með éljadrögum , 19. snjóaði fyrri hluta dags, hvassviðri af norðri, þegar á daginn leið, 20 austangola, 21. logn, síðan norðangola, 22., 23. og 24. norðanrok, lygndi um miðjan dag 24. og var komið logn um miðaftan.

Október. Óhagstæð tíð, illviðrasöm og köld. 

Norðanfari birti úr bréf að austan 31.desember, bréfið er dagsett 9.október:

Tíðarfar og árangur síðan um seinasta nýár hefur verið þessi í stuttu máli: Mikil jarðbönn og áfrerar frá nýári til þorra — þá rigningar og eyður ýmist krapaveður, frost og svellalög út þorra og góu gafst mikið hey. Á einmánuði besta tíð og sauðgróður um sumarmál og fé í besta standi, Frá krossmessu til fardaga kuldar, en fé lifði á gróðri. Sauðburður hinn besti og fénaðargagn mikið eftir fráfærur, þá komu kuldarigningar í 3 vikur og óx ekkert gras, en málnyta minnkaði meira en um þriðjung; síðan besta þurrkatíð fram í 22. viku; grasvöxtur lítill á útengi og túnum, þó voru tún í Fjörðum í meðallagi; nýting almennt hin besta og heyföng í meðallagi hér víðast. ... Hausttíð hefur verið umhleypingasöm og rigningalítil, en frostasöm. Í dag er mesta illviðri landnorðan.

Tíminn segir þann 15.október.

Síðan „Tíminn“ kom út seinast 24. [september] hefir oftast verið norðanátt með kulda og stormum til þessa tíma; 26. og 28. kyngdi miklum snjó niður á fjöllum, og þann síðarnefnda festi svo á þau, að hvítt varð af snjó, niður til sjávar. 5° frost var bæði þann 26. og aftur 1.[október].

Norðanfari segir af tíð og fleiru þann 27.október:

Aðfaranótt föstudagsins 10.[október] var hér nyrðra stórrigning með krapa og ofsaveðri landnorðan, svo að möstrin brotnuðu á [tveimur] kaupskipum er lágu á Skagastrandarhöfn, Jasyni og Alfredu, eign stórkaupmannanna Guðmanns og Hillebrandts. Aftara mastrið á Jason hafði brotnað niður við kjöl og um leið 6 plankar í þilfarinu. 2 járnfestar, er héldu Jason frá landi, höfðu báðar hrokkið í sundur. Fiskibát hafði veðrið tekið upp á Árbakka á Skagaströnd og fleygt fram á sjó, og síðan ekki sést. Um þetta leyti hafði fjártakan á Skagaströnd og Hólanesi staðið sem hæst yfir. Á Skagaströndinni hafði fyrir göngurnar verið mikill afli af þorski og ýsu. Veðuráttan hefur oftast verið í haust úrkomu og hretviðrasöm, einkum síðan á leið, svo að þeir sem seinast voru að heyskap, eiga enn meira og minna undir gaddinum og í Skagafirði eru á stöku stað sagðir enn úti frá 50—100 hestar heys. Nokkrir eiga og úti mestan sinn eldivið og víða óborið á tún. Vegna ótíðarinnar hefur sjaldan orðið róið til fiskjar, en þó talið víst að fiskur muni fyrir; nýlega voru Sigfirðingar hér, og sögðu þeir þar nokkurn afla þá gæfi að róa. Fjártakan hefur verið hér og á Húsavík (annarstaðar að höfum vér enn ekki frétt) með mesta móti, sem leiðir af grasbrestinum, því flestir munu hafa heyjað með minna móti, líka hið háa verð á kjötinu, einkum því besta; svo munu skuldirnar hafa knúð margan til að farga úr búi sínu, meira enn hann máski hefði mátt missa til að geta heitið þolanlega birgur heima. Féð hefur reynst með vænna móti á hold, en tæpast í meðallagi á mör.

Norðanfari birti 17.janúar 1874 bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 12.október 1873:

Mjög víða var tilfinnanlegur grasbrestur næstliðið sumar, og víða gjörði grasmaðkur mikið tjón, og mun það hafa orðið hvað mest þar ég hefi tilspurt í Skagafjarðardölum, og varð þar sumstaðar ekki byrjaður sláttur fyrr enn í 14 viku sumars. Yfir höfuð hefur sumar þetta verið með þeim kaldari og frost orðið mjög skörp, t.a.m. 2° seinast í ágúst og fyrst í september í samfleyttar 3 nætur eður meir, og mun slíkt fágætt um þann tíma; féll þá gras mjög, einkum á valllendi og vöxtur í sáðgörðum skemmdist. Að öðru leyti var heyskapartíð hin hagkvæmasta yfir allan sláttinn, þurrkar og votviðri til skiptis, svo harðvelli vannst vel fyrir þessa skuld, og líka hinsvegna, að engjar voru að spretta fram eftir sumri allt að höfuðdegi, varð útheyskapur ríflegri en líkindi voru til í fyrstu, en töðubrestur varð mjög tilfinnanlegur, og hafa flestir fengið frá þriðjungi allt að helmingi minni töður en fyrirfarandi ár, og er því mjög lógað nautpeningi, sem orðinn var með flesta móti. Um réttaleytið brá til meiri úrkomu með snjó til fjalla, og þann 27.[september] byrjaði algjörð snjókoma í byggð og hefir síðan verið mjög óstöðug, með iðulegum hríðarbyljum, stundum með litlu frosti, en þó tók yfir í fyrradag hinn 10.[október], var þá hið mesta ofsaveður á austan landnorðan með bleytuhríðardimmu, brotnuðu þá möstur af báðum kaupskipunum á Skagaströnd, en mennirnir voru sóttir á áttæringi, og vart eða ekki var stætt á landi stuðningslaust; fiskhjall, sem stóð fyrir vestan húsin á Skagaströnd tók burtu með öllu í var. Fuglafli var með besta móti við Drangey næstliðið vor, og fengu nokkrir, sem höfðu góðan flekaútbúnað 1000 til hlutar, ...

Þjóðólfur segir af skipströndunum fyrir norðan þann 22.nóvember:

Bæði skipaströndin þar við Skagastrandarkaupstaðina Hólanes og Höfðakaupstað báru að í ofsalandnyrðingsveðri 10.[október]. Það var á föstudag; var hér þá einnig landnyrðingsrok mikið sama dag. Úr báðum skipunum hafði verið búið að flytja i land og heim til búða „svo að segja alla“ útlendu vöruna er þau höfðu haft að færa; aftur var búið að skipa út „nokkru af tólg og gærum og nálega 150 tunnum af saltkjöti“. Undir eins og ofsaveðrið brast á, höfðu bæði skipin höggvið burtu möstur sín, rak þau síðan í land, löskuðust lítið að öðru, en fóru alveg í strand. Voru skipin bæði og allt þetta strandgóss selt við uppboð 20. f. mán. ... Þess var fyrr getið (á 190 bls, 25. árs) að annað haustskipa þeirra tveggja er Húnaflóa- eður Borðeyrar-Grafaróss-félagið hafði átt von á með vörubirgðir í haust frá Bergen, hefði náð höfn á Borðeyri að kvöldi 9.[október] en þá var eigi frétt til hins er á Grafarós skyldi fara, annað en þetta, að það hefði lagt út frá Bergen 2 dögum fyrri heldur en Borðeyrarskip þetta, er Pétur Fr. Eggerz forstjóri félagsins kom nú sjálfur á. En síðar fréttist, að Grafarós-skipið hefði náð þar höfn einmitt sama daginn, 9. f. m. Má telja það sérstaklega hamingju, að bæði félagsskip þessi skyldi ná svona höfn einmitt þar sem til var ætlað, kvöldinu fyrir þetta mikla veður daginn eftir (10.) er bæði Skagastrandarskipin sleit upp, eins og fyrr var sagt; og var talið vist þar nyrðra, að ekkert skip hefði getað haldist við eða „verið líft“ þar á Húnaflóa téðan dag. Á Borðeyrarhöfninni kvað ekkert skip geta sakað í hvaða stórviðri sem er, en aftur vildi þá svo vel til fyrir Grafarósskipinu, þar sem skipalegan kvað vera miklu ótryggari fyrir ofsaveðri af norðvestri og hánorðri, að ofsaveður þetta stóð af landnorðri eðr norðaustan, en sú átt kvað eigi skæð vera þar við Grafarós.

Víkverji birti þann 6.desember bréf úr Steingrímsfirði, dagsett 27.október:

Vetrarveðráttan hófst á þessum kjálka landsins um og framúr Mikaelsmessu [29.september] og hefir haldist síðan, snjókoman hefir verið svo mikil, að yfir ýmsa fjallgarða er alveg ófært nema á skíðum, og illfært með hesta í byggð, svo að segja haglaust á sumum stöðum, en kýr teknar inn 5 vikum fyrir vetur. Fiskiafli hefir verið í minna lagi í haust vestra við Ísafjarðardjúp, en hér við Steingrímsfjörð með minnsta móti. Sauðfé hefir skorist í besta lagi, heilsufar manna er og hefir verið gott. Það er sagt, að allt sé fullt af hafís fyrir Hornströndum enda sýnist veðráttan eigi leyna því.

Víkverji segir frá fjárskaða í frétt 1.nóvember:

Í norðanroki því, er var 23.[október], hrakti víða fé, þó eigi yrði til stórskaða, að því er heyrst hefir, nema í Þverárkoti á Kjalarnesi. Féð hélt þar við hús í rokinu, en veðrið sleit það frá húsunum og hrakti það í ána sem þá var næst fyrir, og köfnuðu þar milli 20 og 30 fullorðins fjár. Líkur fjárskaði er sagður frá Hlíðarfæti í Borgarfirði.

Þjóðólfur segir frá þann 5.nóvember

Póstskipið Diana, er átti að leggja héðan heimleiðis eftir fararskránni, 18.[október] árdegis, komst eigi af stað fyrr en að morgni 20. (mánudag); var hér besta veður allan þann dag, hægur andvari á norðan, og eins alla aðfaranóttina þriðjudagsins [21.]. Kom það því flatt á alla ofan, er Diana sást koma kæfandi hér norður og inn Flóann, aftur aflíðandi dagmálum, með fullu gufuafli í móti útbyrnum eftir því sem veðurstaðan var hér, og hafði verið síðan morguninn fyrir; en þetta var samt, sem sýndist; póstskipið Diana kom þarna aftursnúið, í móti veðrinu eftir því sem vindstaðan var hér, því norðanrokið sem hér stóð yfir hina næstu 2 dagana, var þá einmitt í hægum uppgangi 21., en náði mestum ósköpunum 22. og 23., þá dagana stóð garðurinn hér lotulaust, en lægði nokkuð og sneri til niðurgangs aftur föstudag 24. Alla þessa fleygibyrsdaga, þegar svona var beint á eftir, suður á leið, lá nú Díana hér, og lagði um síðir af stað í annað sinn að morgni 25.[október]. ... Með síra Páli Jónsyni á Hesti, er hafði riðið norður að Melstað rétt fyrir byrjun fyrra (22.—25.[október] norðanveðursins, og hreppti þá svo hart veður á Holtavörðuheiði að hann náði eigi norðuryfir til byggða, heldur varð að grafa mágkonu sína, er hann fylgdi norður, í fönn, binda hestana á streng en varð að vera sjálfur á rjátli alla nóttina, — en kom aftur norðan yfir heim til sín 27.-28.[október] ...

Enn reið hér að sterkur norðangarður með ofsaveðri, er stóð yfir dagana 30.—31.[október] og fram eftir deginum 1.[nóvember] og var hann engu vægari en fyrri 22.-24., er teppti póstskipið, eins og fyrr var minnst. Í þeim (fyrra) garðinum varð frost hér aldrei meira en 3-4°R og eigi nema lítinn tíma, oftast 1—l 1/2 R, en á Gilsbakka í Borgarfirði náði frostið þá dagana -12°C 2.[nóvember], um morguninn var hér - 5,5 R [-7°C].

Norðanfari ræðir tíð stuttlega þann 7.nóvember og birtir kafla úr bréfum sem rituð voru í október:

Veðurátta hér nyrðra var næstliðinn mánuð [október] oftast landnorðan úrkomu- og stormasöm, ýmist með mikilli kraparigning eða snjókomu, en þó mest 10.—12. og aftur 22.—24., var þá hér að kalla stórhríð með fjarska fannkomu, svo kindur, enda hesta fennti til dauðs. Víðast er nú sagt haglaust vegna áfreða og snjóþyngsla og víðast farið að gefa fullorðnu fé og hrossum.

[Djúpavogi 4.október] Tíðarfar hefur verið hér í sumar um allt Austurland eitthvert hið besta, svo elstu menn muna ekki jafnmikið blíðviðri og langvinna þurrkatíð; grasvöxtur varð með rýrara móti, en nýtingin hin ákjósanlegasta; fyrst 16 september fór veðuráttan að kólna; fölvað hefur hér nokkrum sinnum ofan í mið fjöll.

[Berufjarðarströnd 6.október] Sumar þetta hefur verið eitthvert hið ágætasta hér um svæði með veðuráttufar. Í júlí kom nokkurra daga bras með talsverðum snjó á fjöllum og nokkru frosti ofan að sjó, sem orsakaði hnekki á grasvexti, samt varð hann í meðallagi á túnum og valllendi, en mikið lakari á mýrlendi; helst er á orði að heybirgðir hjá mönnum, muni vera líkastar þeim í fyrra. Frá miðjum júlí voru einstök logn, þokumollur oftast og maðkatíð, en hitinn 12—14—16° á R [15 til 20°C]. Sama tíð mátti beita þrjá fjórðu hlutana af ágúst, en þá kom norðanbras, sem ég er viss um að Norðurland hefur fundið til. Aftaks blíða aftur með september, og mátti heita þrjá fjórðu hluta hans; síðan hefur veðuráttan breytt sér, svo nú eru þessa dagana umhleypingar með hroðaútsynningi og landátt.

[Jökuldal 10.október] Blessað sumarið er nú þegar á enda, það var farsælt og nýting hin besta, en grasbrestur var víða að mun. Fé er með vænsta móti á hold en ekki mörvað að því skapi. Heldur hefur tíðin verið ískyggileg síðan um göngur og mun fjarska snjór kominn á heiðar. Í gær var landnorðan krapahríð, en í dag norðlægari og hroðahvass með köflum.

[Húsavík 29.október] Héðan er ekkert nýtt að frétta, nema að hér eru sífelld norðan stórveður og feikna fannkoma, svo hér má kalla jarðlaust. Harríet komst heil á húfi héðan sunnudaginn 27.f.m. [sennilega er átt við október, 27. en sá dagur var mánudagur, 27.september var hins vegar laugardagur] eftir að hafa staðið af sér hið mikla norðan ofsaveður, er byrjaði 21. og hélst við til þess 24.[október?] og í hverju festarnar, er lágu frá landi í skipið, hrukku í sundur, svo að ekkert var sjáanlegra en að það mundi reka á land, en til allrar hamingju héldu akkeri og festar skipsins þar til veðrinu slotaði. Það má geta nærri, hve áhyggjufullur tími þetta var fyrir skipshöfnina, eins og fyrir okkur í landi; dag og nótt var vörður haldinn, og á nóttunni var ljósið í landi látið standa í gluggunum; vökumennirnir gengu með ljós í luktum, því að menn hugsuðu eigi annað, en að veslings skipið mundi á hverju augnabliki reka á land; en Drottinn hélt sinni verndarhendi yfir því.

[Skagaströnd 29. október] Hér er nú um þessar mundir mesta illviður, sem menn muna eftir, og ég man ekki eftir jafnmiklum snjó um veturnætur sem nú er kominn. Hingað hefur frést að bær hafi brunnið á Sveðjustöðum í Miðfirði. ... Mælt er að jarðskart sé orðið um allan Skagafjörð og hross víða komin á gjöf.

[Svarfaðardal 30. október] Héðan er að frétta mestu ótíð, síðan eftir miðjan september og fyrir nokkru síðan er hér komin svo mikil snjókyngja, að hestar komast varla dagsláttu lengd frá húsi, og því samfara er aflaleysi og stöðugar ógæftir til sjóar.

Nóvember. Hlýtt um tíma fyrir miðjan mánuð, en annars mjög kalt. Úrkomulítið lengst af. 

Víkverji birti 6.desember bréf úr Skagafirði, dagsett 14.nóvember:

Mikið hefur tíðin verið stirð það sem liðið er af haustinu. Þegar eftir réttir komu norðankaföld mikil, og varð því heyskapurinn víða endasleppur, og erfiðleikar miklir á því að eiga við ýmis haustverk; sumstaðar urðu hey úti og það að mun. Mestallan fyrra mánuð [október] gengu sífelld illviðri og mun víst meira hafa fennt og hrakið af fé og hrossum, en mönnum enn er kunnugt, og er það þó eigi lítið; á Sjávarborg hrakti þannig um 60 fjár í Miklavatn og fórst það þar allt.

Norðanfari birti 17.janúar 1874 bréf úr Barðastrandarsýslu, dagsett 15.nóvember 1873:

Hið síðastliðna sumar var stutt en hagstætt hvað veðuráttu snertir um heyskapartímann, og fyrir það heyjaðist hér í meðallagi, einasta voru töður töluvert minni en í fyrra og úthey léttara því nýslægja var hvergi ljáberandi, en fornslægja sinumikil, því grasvöxtur var góður í fyrra. ... Síðan í 23. viku sumars og til þessa bata sem nú er, var mjög stirð veðurátta norðanstormar og fannkoma og mest frost 5° á R var svo víða orðið nema til nesja jarðlaust áður þessi bati kom, nú er hvervetna komin upp nóg jörð.

Víkverji birti 10.desember bréf úr Miðfirði, dagsett 14.nóvember:

Veðráttufar hefir verið hér hið stirðasta, svo að elstir menn muna eigi þvílíka tíð allt frá réttum og til 8. nóvember, að brá til sunnanáttar og hláku. Það er, ef til vill, eitthvað hið ónotalegasta, sem fyrir sveitamanninn getur komið slík haustáfelli. Öll haustverk voru ógjörð, hús niðri og óborið á tún og allar skepnur hafa hrakist fjarskalega í staðinn fyrir að taka haustbata, sem er svo einkar áríðandi með búsmala, sem lítið fitnar fyrr en á haustum, þegar hætt er að mjalta hana. Í einum af moldviðrisbyljunum í fyrra mánuði brann til kaldra kola bærinn á Sveðjustöðum.

Tíminn birti þann 23.desember tvö bréf af Norðurlandi, dagsett í nóvember:

[Úr Húnaþingi 10.nóvember] Ég hygg ekkert efunarmál, að nú höfum við Norðlendingar lifað að minnsta kosti að sumu leyti eitthvert hið bágasta haust sem ég hefi heyrt um getið, það mátti heita sífeldar hríðar ýmist með frosti eða krapasletting í sveitum, og mikilli fannkomu jafnast frá 27. september til 2. nóvember, og algjörð innistaða á fé við hús og hey á mörgum stöðum frá 22. október, og sumstaðar voru tekin inn hross, og þó nú hafi verið lítil þíða 2 daga, er þó með öllu jarðlaust á sumum stöðum. Þetta hygg ég dæmalaust, um jarðbannir fyrir allraheilagramessu. Þó illviðrin hafi verið svona stórkostleg, hef ég samt eigi heyrt getið um stórfellda fjárskaða nema á Sjávarborg og Höfða í Skagafirði.

[Úr Eyjafirði, 9.nóvember] Í allri Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu, er komin meiri fannfergja en elstu menn muna, og allstaðar allar skepnur á gjöf nú i hálfan mánuð, en kýr og lömb voru tekin inn mánuði fyrir vetur. Voru þegar komnar jarðbannir fyrir allraheilagramessu, er það fágætt; að sönnu tók almennt fyrir jörð á þeim tíma hér norðanlands af eintómum snjóþyngslum harðindaveturinn 1801—1802. Í gær og í dag er hlákubloti, svo fönnin sígur nokkuð, þó sést hvergi á dökkan díl. Hér má heita lítill sem enginn afli vegna gæftaleysis og lasleika, þar honum verður eigi sætt.

Víkverji segir af nóvemberveðri í Reykjavík (nokkuð stytt hér):

[8.nóvember]: [Þ.1. og 2.nóvember] norðanstormur, 3. og 4. norðangola hreinviðri, hvessti um kveldið 4., en lygndi aftur 5., og um dagmál var komið hér lygnt hreinviðri er helst daginn eftir. 7. austangola dimmt loft. Engin úrkoma alla vikuna.

[15.nóvember] [Þ.] 8., 9. og 10. dimmt loft, 11. heiður himinn, 12. hrímþoka mikil, birti upp um nón, 13. heiður himinn; alla þessa daga hæg austanátt eða logn, 14. hægt landsynningur. Menn reru á Svið alla virku dagana og fiskuðu allvel.

[22.nóvember] Að norðan í fyrradag kom kaupstjóri Húnvetninga Pétur Eggerz og Böðvar bóndi á Sveðjustöðum Böðvarsson hingað. Með þeim spurðust meðal annars þessi tíðindi: Um sama leyti og hér brá til hlýinda hafði komið hláka á Norðurlandi og 10. [nóvember] voru komnir upp hagar um alla Húnavatnssýslu. [Hér] blíðviðri, hæg sunnanátt og dimmt loft alla vikuna, 18., 20. og 21. var brim um morguninn og leit hvassviðrislega út. Jafnvel þó næstliðin vetrarvertíð í ýmsum veiðistöðum innan Faxaflóa, t.d. Njarðvíkum, Vogum og Vatnsleysuströnd gæfi langt undir meðalafla, mun samt að öllu samtöldu mega fullyrða, að ár það, sem nú er að líða, muni vera hið þriðja besta aflaár síðan 1858, og munum vér að nokkru leyti eiga það að þakka framförum þeim, er sjómenn vorir sýna í því að bæta skip sín bæði til siglinga og annarra sjósókna.

[29.nóvember] Veðráttufar í 5.viku vetrar. Aðfaranóttina að 22. um óttu snerist veðrið í norðanátt með frosti og helst það við alla vikuna 24. kom nokkur snjór, en 26. var hér þykkur landnorðan snjóbylur, er þó stytti upp um kveldið eftir nokkra fannkomu. ... [Þ.] 28. reyndu 2 menn að róa, en urðu að snúa aftur, fyrir hvassviðri, þegar komið var út fyrir eyjar. Hina dagana var eigi að hugsa til að róa.

Þjóðólfur hrósar tíð þann 22.nóvember:

Blíðviðrin sem nú var minnst og haldist hafa stöðugt allan þennan mánuð, hafa verið eins einstakleg, og það yfir allt Suðurland, — og sjálfsagt norðanlands með; því hæg hafátt með lygnum hefir jafnan verið hér veðurstaðan, — eins og gjörvallur [október] var hörkukenndur og stormasamur og með fannkomu norðanlands, og blindbyljum einstöku daga, [t.d. norður í Miðfirði 22.[október]]. Frostharkan var eigi nærri að því skapi, vart meir en -1 til 2°R að meðaltali allan [október], þótt frostið yrði hér einn morguninn -5,5°R [-7°C]. Nú það sem af er, nóvember hefir blíðan og frostleysan farið saman, mjög sjaldan stirðnandi um nætur með -1°R, en oftar +2,5-3°R og 17.—18 þ. mín. +6 [7,5°C] um hádaginn. Gæftirnar til sjóarins hafa því verið fágætar allan þennan mánuð hér yfir allar veiðistöður, og haustaflinn einstaklega góður og mikill hér yfir allt frá byrjun þessa mánaðar.

Norðanfari birti úr bréf af Héraði 31.desember, dagsett 23.nóvember:

Hausttíðin var hér frostasöm og lagði mjög snemma snjókyngi á fjöll. 10 október var hér mesta foraðsveður, stórrigning með stórviðri á hafaustan, en var allt snjór á fjöllum niður undir bæi og sumstaðar varð haglaust, urðu öll fjöll ófær og fjöldi manna tepptist í kaupstöðum. Síðan voru jafnan vetrarveður frost og snjór til 1. [nóvember], þá kom annað bleytuillviðrið, sem gjörði haglaust um flestar sveitir, þar sem áður var hagi. Síðan voru hægviðri og nú til 21. þ.m. oft frostlítið og þítt um 3 nætur, svo hagi kom þar sem eigi var orðið nema storka áður. Mikið gæftaleysi hefir verið á sjó fram á þennan mánuð og enginn afli, en nú orðið víða vel vart.

Norðanfari birti þann 29.apríl bréf úr Steingrímsfirði ritað 28.nóvember 1873:

Enginn kom sá mánuður yfir allt sumarið, að ekki snjóaði nokkuð, sem von var, því hafísinn lá alltaf skammt undan Hornbjargi. Síðan eftir fjallgöngur hafa verið frost og hríðar. Heyskapur varð hér endasleppur, víða urðu hér hey úti undir gaddinum, og ekki varð tyrft kringum þau er heim komust. Víða hrundu snjóflóð og urðu sumstaðar skepnur manna undir þeim.

Norðanfari segir frá þann 3.desember:

Í Bárðardal er sagt að í hríðunum á dögunum hafi tapast yfir 100 fjár sumt fennt og sumt hrakist í vötn; nokkuð af þessu fé hafði verið ofan frá Mývatni. 8.[nóvember] fór hríðunum að létta af og veðrið að birta og batna, en 14.[nóvember] fyrst að hlána, og síðan var nær því á hverjum degi meiri og minni þíða, svo að í snjóléttum sveitum var kominn upp næg jörð fyrir fullorðið sauðfé og hross, en aftur í snjóþungu sveitunum mátti heita, að varla sæist á dökkan díl. 24.[nóvember] spilltist veðuráttan að nýju með norðanátt hörku og snjókomu, svo víða mun verða lítið um jörð haldist þessi tíð til lengdar. [Þ.] 25.[nóvember] var frostið 15° á Reaumur [-19°C]. Eftir miðjan [nóvember] aflaðist hér svo tunnum skipti af vænni spiksíld, sem þegar var róið með og öfluðu allir meira og minna mestpart af smáum fiski;

Þriðjudaginn hinn 11.[nóvember] voru sjómenn að beita línu í Syðri-Haga á Árskógsströnd, sáu þeir þá glampa mikinn á norðvesturloftinu í stefnu yfir Krossahnjúk, brátt varð glampi þessi svo mikill, að svo var sem eldi eða loga slægi á loft upp fjöllum hærra, og varaði nokkra stund. Nú lögðust menn þessir til svefns. Morguninn eftir reru þeir til fiskjar og námu þar staðar á miði, er Hagabær var í stefnu við Krossahnjúk. Litlu fyrir dag sáu þeir aftur glampa eða eld í svipaðri eða sömu átt, en miklu meiri en kvöldinu fyrir, bæði meiri um sig og miklu hærra á loft upp, en svo virtist, sem vindur stæði á logann af vestri, því logann lagði mjög til austurs. Þegar lína er dregin á uppdrætti Íslands frá Haga yfir Krossahnjúk lendir hún norðan við Hornstrandir. Þannig hefir Jóhann timbursmiður í Syðri-Haga skýrt frá sýn þessari og fullvissaði um, að menn þeir, sem sáu, væru aðgætnir og sannorðir menn. ... Í fyrradag [1.desember] fréttist með mönnum, sem hér voru utan af Látraströnd, að hafís sé kominn hér undir land, og hroði af honum inn í fjarðarmynnið en fáeinir jakar inn að Hrísey; mun það fádæmi að ís hafi kornið hér svona snemma.

Desember. Óhagstæð tíð og fremur köld. 

Norðanfari birti 17.janúar 1874 bréf dagsett í desember 1873:

[Húnavatnssýsla óstaðsett 6.desember] Það hygg ég einmælt, að næstliðið haust hafi verið hið lakasta er menn til vita, með stöðugum hríðarbyljum og grimmustu fannkomu til allraheilagramessu svo allstaðar var farið að gefa fullorðnu fé fyrir veturnætur. Víða jarðlaust með öllu, og á sumum stöðum var búið að taka öll hross á gjöf, og mun með öllu dæmalaust bæði að fornu og nýju, og þannig hafi tekið fyrir jörð hér í sýslu um þann tíma. Um þriðju vetrarhelgina svíaði nokkuð um hálfsmánaðartíma, og mátti fremur kalla að það væri góðviðri en verulegar þíður, þá kom upp nokkurn veginn jörð, og á sumum stöðum í lægstu sveitum varð snjólaust. Næstliðinn hálfan mánuð hafa oftast verið norðaustanharðviðri og stundum hríðar. Fiskur er alltaf fyrir þá róið verður, en ógæftir hinar mestu. Hafísjakar voru fyrir jólaföstu komnir bæði á Húnaflóa og Skagaströnd, og ætla ég fá eður engin dæmi til að það hafi fyrr orðið.

[Víðidal 9.desember] Héðan er að frétta harða tíð og snjókomu allmikla. Nú er mjög mikill snjór, en þó er hér eigi jarðbönn, nema langt fram til dala. Ís er sagður kominn inn á firði. Að undanteknum miðhluta nóvember hefir tíðin verið þannig, síðan með byrjun októbermánaðar, og má þó öllu fremur telja það frá 27. september. Nú fyrir fáum dögum rak upp skip með seglum á Vatnsnesinu lítið brotið í roki miklu er þá var; vita menn enn eigi neitt um það hvaðan skipið var, ... eða hve margir menn hafa verið á því, fyrri en nú í þessari svipan að fréttist, að föstudaginn 5.[desember] týndist bátur með 3 mönnum á, ...

Tíminn segir þann 23.desember:

Norðanpósturinn kom hingað 29.[nóvember] hafði hann fengið óveður og illa færð á leiðinni, 30. s.m. kom vestanpóstur, og hafði hin sömu illviðri og ófærðir. Eru sömu harðindi að frétta af Vesturlandi sem að norðan, haust þetta og það af er vetrinum.

Þjóðólfur segir af tíð í pistli þann 12.desember

Veðráttan hefir hinar síðustu 3 vikur verið mjög stirð, og nú um rúma viku hafa hér verið hinir verstu útsynningar, með svo að segja stöðugu kafaldi, en eigi allhörðu frosti, og er því fallinn talsverður snjór og víða orðið hagskart og megn ófærð á fjallvegum. Nú í gær og dag hefir verið góð hláka. Eigi hafa hér á nesinu verið nein tiltök til róðra um þennan tíma, því að eigi hefir mátt heita fært þverfirðis á sjó, og komst norðanpósturinn því eigi af stað héðan úr bænum fyrr en í fyrradag, með því hann varð að sæta sjóvegsferð upp á Kjalarnes.

Víkverji rekur veður í 7. og 8. viku vetrar í pistli þann 24.desember

[Þ.6.desember] útsunnangola, 7., 8. og 9. útsunnanstormur, 10. sunnangola, 11. hvassviðri af suðri með rigningu, 12., 13., 14., 15., og 16. landsunnan og austangola, 17.hvassviðri og rigning af austri, 18. austangola, 19.norðangola og frost. ... Síðan er lygndi 10. þ.m. hafa fleiri menn hér af Seltjarnarnesi róið á Svið og Grunn, en hvergi orðið fiskvarir þar í mót hefir mikill fiskur verið fyrir í Garðs- og Leirsjó, og hafa menn farið þangað suður þessa dagana og fiskað ágætlega.

Norðanfari segir af tíð til loka árs þar um slóðir í pistli 17.janúar 1874:

Veðuráttan hefur verið hér nyrðra síðan 22. nóvember og til 13.[janúar] oftast hvassviðra- og frostasöm með meiri og minni snjókomu nema dag og dag, svo varla, hefur fé orðið beitt þó góð jörð væri sumstaðar til hins 28. desember að gjörði regnskúr um miðjan daginn en frysti aftur um kvöldið, svo mikið skemmdi á jörð. ... [Þ.] 18.—19. desember var hér norðanbylur, misstist þá á stöku stöðum bátar og byttur, og á 2 bæjum í Þistilfirði fauk úr heyjum allt að 30 hestum. Einnig hafði tekið út á Tjörnesi eitthvað af kornmat, er nýlega hafði verið komið með úr kaupstað.

Þjóðólfur segir þann 7.janúar 1874 frá desembertíðinni:

Veðráttan var síðari hluta [desember] mjög umhleypingasöm og óstöðug hér sunnanlands. Snjór féll reyndar eigi mjög mikill hér við sjóinn; en aftur á móti gjörði nokkra blota, svo jörð hljóp öll í svell, svo nú má telja jarðbann fyrir allan fénað, og svo er, að því vér höfum frétt, hér í nágrenninu og austur um allar sveitir. Frost varð á, þessum tíma hér í bænum mest (22.desember) 13°R [-16°C], en oftast var það 3—7°R. Hér hefir því verið mikið vetrarríki, og lítur enn eigi út til neins bata, og fáir menn munu muna, að vetur hafi lagst hér svo snemma að sem í ár;

Víkverji rekur veður í Reykjavík síðasta hluta desember:

[Þ.] 20. norðan gola, 21., 22. og 23. norðan stormur, 24., 25. og 26., norðan gola, 27. hvassviðri af austri, 28. austan gola, 29. sunnan rigning, 30. landsunnan gola, 31. landnorðan gola, en hvessti um kvöldið, 1. og 2. [janúar] Umhleypingar, en höfuðáttin á norðan.

Norðanfari birti þann 18.febrúar bréf dagsett í desember og janúar. Við grípum hér þær lýsingar bréfanna sem eiga við árið 1873:

[Austur-Skaftafellssýslu 24.desember 1873] Héðan er lítið að frétta, nema grasbrest, í sumar sem leið, en gæftir góðar og stöðuga þurrkatíð, þar til með október, að brá til kulda og snjóa og mestu stormatíðar; aftur var oftast í nóvember mild og stillt tíð. Í [desember] hefur verið umhleypingasamt og tvívegis óttaleg grimmdarveður, með óvanalega hörðu frosti, þó hafa hér oftast verið jarðir uppi. ... Sagt er að nýlega hafi enn sést loga upp úr Vatnajökli um sömu stöðvar og í fyrra.

[Húnavatnssýslu 25.desember 1873] Frá 9.—20. [desember] var allgóð veðurátta og stundum blotar, en 21.—22. landnorðan harðviðrishríð, síðan hreinviðri og mikið frost. 5.[desember] fórst bátur á Miðfirði með 3 mönnum, er haldið að þeir hafi rekist á hafísjaka eða bátnum hvolft af vangá, ... 16.[desember] lagði skip af Vatnsnesi úr Skagastrandarkaupstað heimleiðis, en vindur suðlægur, eftir það gekk veðrið meira til útsuðurs og vesturs, svo lítil líkindi þykja til að þeir hafi getað náð nesinu.

[Berufirði 9.janúar 1874] Veðuráttan var sífellt hörð frá því í haust með norðanátt, frostum og snjóum til þess vika var af jólaföstu, þá brá til útsynninga og vestanáttar, svo meira og minna hlánaði víðast um allt Austurland, komu þá upp meiri og minni hagar, en áður höfðu verið jarðbannir. Á jólaföstunni var stilling og gott vefur í hálfan mánuð, síðan óstilling með umhleypingum, ýmist landnorðan eða útsynningar ...

[Suður-Múlasýslu 22.janúar 1874] Mikið hefur á gengið síðan ég ritaði af stormum, frostum og snjóum; frá 20.desember. var tíð mjög óstillt, gjörði ýmist snjóa og frost, eða blota, og fylgja því jafnan stormar. Voru jarðir víðast er veður leyfði. Eftir sólstöðurnar tóku hörkur að harðna og veðrin að vaxa, jafnan af norðvestri; gjörði þá svo harða svipi, að allt járnþakið sleit af annarri hliðinni á Liverpool, verslunarhúsi Jakobsena á Seyðisfirði; höfðu sperrurnar staðið einar eftir; þá fauk hús er Norðmenn höfðu byggt á Seyðisfirði og selt í sumar seyðfirskum manni; til þess sjást enginn merki nema grunnurinn, timbur fauk allt á sjó út. Í því bjó enginn. Þá fuku og hjallar víða um fjörðu.

[Seyðisfirði 22.janúar 1874] Rosarnir og illviðrin hafa verið framúrskarandi, stormarnir fjarskalegir, frostin fágæt; snjóþyngsli hafa ekki haldist til lengdar, þó talsverðu hafi annað slagið sallað niður, því stórviðrin hafa sópað að mestu öllu upp og saman, og stundum jafnvel heilum og hálfum þúfunum með, svo svört flögin hafa staðið eftir. Sauðfé hefur svo að kalla ekki séð út fyrir dyr, síðan fyrir og um veturnætur nema geldsauðir dag og dag; ... Tvívegis hafa þó veðrin orðið hér mest, í fyrra skiptið 16.—18. desember. Byltust hér um 2 timburhús og hjallur, og ónýttist að mestu leyti; meginhluti þaksins fór af hinu þriðja nefnilega verslunarhúsi Jakobsens, svo aftur varð að leggja annað nýtt; hey tók upp að kalla ofan að veggjum, og bátur fauk, svo varla sást neitt eftir af; þar fyrir utan urðu ýmsir fleiri minni skaðar. [Um síðara veðrið lesum við í samantekt um árið 1874]

[Siglufirði 22.janúar] Nóttina fyrir 18. desember, var hér svo mikið norðaustan stórviðri með hríð, að rosknir menn segjast ekki muna annað eins; það gjörði á nokkrum stöðum skaða á skipum og heyjum, en fjárskaða gjörði það ekki, enda var þá fé geymt í húsum.

Lýkur hér að sinni yfirliti hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1873 - fáeinar tölur er að finna í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband