19.8.2020 | 20:19
Af árinu 1872
Tíð var talin hagstæð árið 1872. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,3 stig, 0,7 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig og 4,7 stig á Stórhöfða. Ekki hefur verið giskað á meðalhita ársins 1872 á Akureyri. Kalt var í janúar, október og desember, en hlýtt í febrúar, júlí og ágúst. Júlimánuður er meðal þeirra hlýjustu sem vitað er um, var þá sá hlýjasti sem komið hafði í Stykkishólmi (frá 1846). Ámóta hlýtt var þó þar í júlí 1855 og ágiskanir benda til þess að sömuleiðis hafi orðið ámóta hlýtt eða hlýrra í júlí 1838. Ágúst var líka sá hlýjasti sem komið hafði fram til þessa í Hólminum.
Í apríl urðu gríðarlegir jarðskjálftar norðanlands, mest við Skjálfandaflóa.
Sérlega kaldir dagar voru aðeins tveir í Hólminum (8. mars og 2. október), og tveir dagar voru sérlega hlýir (16.júní og 24.ágúst). Í Reykjavík voru 31.maí og 2.október köldustu dagar ársins (að tiltölu), en 14.júní og 20.ágúst hlýjastir.
Árið 1872 var mjög þurrt í Stykkishólmi, ársúrkoma mældist aðeins 483 mm. Þetta var þurrasta ár frá upphafi úrkomumælinga (haustið 1856) - en enn þurrara varð síðan 1878 og 1881.
Loftþrýstingur var að tiltölu hæstur í ágúst, en lægstur í janúar. Þrýstingur var einnig tiltölulega lágur í júní. Þrýstingur mældist lægstur í Stykkishólmi þann 17.janúar, 950,8 hPa, en hæstur þann 20.apríl, 1039,5 hPa.
Fréttir frá Íslandi taka saman veðurlag ársins:
Veðuráttufar á Íslandi næstliðið ár var eitt hið besta, er verið hefur á þessari öld; raunar voru vetrarhörkur miklar og langar í einstökum héruðum, en í flestum sveitum mundu menn varla að öllu samtöldu jafngóða tíð. Framan af vetrinum 187172 var veðurátta allgóð sunnanlands og vestan, en mjög breytileg norðanlands og austan, og svo var allt til ársloka. Eftir nýár tók veður að verða nokkuð óstilltara sunnanlands og vestanlands, en þó einkum á Vesturlandi. Þó var snjófall þar mjög lítið, og sömuleiðis á Norðurlandi allt austur að Yxnadalsheiði. Milli Yxnadaisheiðar að vestan og Reykjaheiðar að austan var aftur allmikil fannkoma i janúarmánuði, einkum þegar á leið mánuðinn; en er lengra kom austur, varð fannkoman minni, bæði í Norður-Þingeyjarsýslu og svo um allt Austurland. Snjóflóð hlupu fram um þær mundir á nokkrum stöðum nyrðra, og ollu nokkru fjárljóni, einkum í Suður-Þingeyjarsýslu. Frostlítið var víðsvegar um land framan af janúarmánuði, en seint í mánuðinum kom kuldakast, er náði um allt land; í Reykjavík varð frostið mest 12 stig (eftir Réaumurs mæli [-15°C]), en 20 stig [-25°C] á Akureyri. Bráðum hlýnaði aftur og gjörði nú stillt veður og frostlítil viðast um land þar til seint í marsmánuði; þá kom annað kuldakast, er náði yfir allt land, en varð minnst á Austurlandi; fylgdi því fannkoma og stormar; þá rak ís undir land nyrðra,fyrst fyrir Hornströndum, en síðan austur með öllu landi og austur fyrir Langanes; þó varð hann hvergi landfastur að mun. Í miðjum aprílmánuði hörfaði ísinn aftur nokkuð frá, og brá þá veðuráttu aftur mjög til batnaðar. Síðari hluta aprílmánaðar og meginið af maímánuði var allgóð tíð, einkum á Suðurlandi og Austurlandi; nyrðra og vestra var veðurátta nokkuð óstilltari, og var einkum stormasamt á Vesturlandi. Síðast í maí gjörði síðasta kastið, og var það allhart, en eigi langt; 29.30. maí var stórhríð nálega yfir allt land. Fyrstu dagana af júnímánuði var einnig kalt og stormar miklir, en upp frá því gjörði hvervetna algjörðan bata. Allt þangað til hafði hafíshroði öðru hverju sést fyrir Norðurlandi, en nú hvarf hann úr landsýn að fullu og öllu. Þegar á allt er litið, hafði veturinn verið ágætur á Austurlandi og Suðurlandi, og sömuleiðis í betra lagi á Vesturlandi og meginhluta Norðurlands; að vísu hafði verið nokkuð stormasamt, en frost og fannkoma að öllu samtöldu mjög lítil. Í einum hluta landsins hafði veturinn verið bæði harður og langur, og einhver hinn lakasti, er nú hefur komið í mörg ár, en það var í Suður-Þingeyjarsýslu, eða héruðunum milli Vaðlaheiðar að vestan og Reykjaheiðar að austan. Frá veturnóttum og fram að nýári hafði þar verið allhart, og að jafnaði harðara en í öðrum sveitum. Eftir nýár harðnaði þar enn meir, og upp frá því máttu þar heita sífelld harðindi og megn snjóþyngsli allt fram að fardögum. Harðast var hríðaráfellið í lok maímánaðar; kyngdi þá niður feikimiklum snjó, og fennti fé víða og lömb króknuðu; á Höfðaströnd voru fannalögin svo mikil, að prestur gekk á skíðum á útkirkju sína 2.júní. En nú var og veturinn á förum. Frá fardögum (6.júní) og til höfuðdags (29.ágúst) voru sífelldir hitar og blíðviðri um allt land, og kom varla deigur dropi úr lofti allan þann tíma. Hitinn var mestur í miðjum júlímánuði; í Reykjavík varð hann 18 stig í skugga, en 24 stig á Akureyri. Þegar leið á sumarið, tók hitinn nokkuð að þverra, en þó mátti heita veðurblíða fram í miðjan septembermánuð. Íshroða hafði orðið vart seinast í ágústmánuði fyrir utan Hornstrandir og Skagaströnd, en hann hvarf bráðum aftur. Seinast i ágúst og fyrst í september rigndi dag og dag, en þó svo lítið, að þurrviðri mátti kalla um allt land fram í miðjan mánuðinn. Ertir miðjan septembermánuð brá veðuráttu norðanlands og austan; komu þá köld norðanveður nyrðra með frosti og fannkomu, en eystra gjörði austanátt með rigningum og umhleypingum. Sunnanlands og vestan brá fyrst veðuráttu snemma í októbermánuði, og kyngdi þá niður miklum snjó í sumum sveitum. Um þær mundir harðnaði enn meir norðanlands og austan. Þó létti hretviðrunum bráðum af aftur víðsvegar um land, og gjörði góða tíð þar til seinast í októbermánuði; þá komu aftur hörkur og hretviðri, er stóðu yfir þangað til í miðjum nóvember. Eftir miðjan nóvembermánuð brá aftur til bata, og var tíðarfar hvervetna allgott upp frá því fram að árslokum. Undir árslokin var aftur farið að harðna; síðari hlutann af desember var stormasamt víða, en veður þurrt og kalt og hreint.
Þrátt fyrir hinar litlu jarðabtur, sem gjörðar hafa verið, var þó heyskapurinn hvervetna í betra lagi næstliðið ár, og sumstaðar ágætur; olli því veðurblíðan og hið ágæta árferði. Reyndar byrjaði vorið seint í sumum sveitum, en þegar það kom, þá þaut gras upp á skömmum tíma, og þar einna mest, er snjór hafði legið lengst yfir. Rigningaleysið dró nokkuð úr grasvextinum, en hitinn var aftur nógur, og sumstaðar jafnvel of mikill; var það eigi óvíða, að jarðvegurinn sviðnaði og gras skrælnaði af of miklum hita. Eigi að síður spratt harðvelli að jafnaði betur en mýrar og votlendar engjar. Sláttur byrjaði almennt í fyrra lagi. Rigningar og óþurrkar um sláttinn spilla oft góðum heyskap á Íslandi, svo að það kemur að litlu gagni, þótt jörð sé vel sprottin, en nú voru þar á móti sífelldir þurrkar meginið af slættinum, og varð því nýting á heyjum hin besta um allt land, einkum um túnasláttinn og sömuleiðis talsvert framan af engjaslætti. Þó varð heyskapurinn endasleppur sumstaðar, einkum austanlands, og ollu því rigningarnar og votviðrin, sem gengu síðari hluta septembermánaðar. Heybirgðir manna undir veturinn voru þrátt fyrir það í besta lagi, eigi að eins að vöxtum, heldur og einnig að gðum. Kályrkja og kartöflurkt heppnaðist víðast í besta lagi. Hafrar og bygg spruttu einnig vel, þar sem þeim hafði verið sáð. Melurinn í Skaftafellssýslu spratt einnig vel, en eyddist af stormum.
Janúar. Kalt í veðri og nokkuð óstillt. Mikill snjór norðaustanlands en lítill suðvestanlands.
Þjóðólfur birti þann 22.febrúar bréf ritað í Vestmannaeyjum 23.janúar:
Frá Vestmannaeyjum er skrifað 23. f.mán. að þar hafi að vísu verið besti vetur, en hretviðra og hrakningasamt, svo að útifénaður var megri vonum, eftir svo gott haust og vetur; mest -6°R [-7,5°C] (á Gilsbakka 19°C, hér í Reykjavík -1213°R [-15°C]); bráðapest lítil sem engi, eigi heldur í Elliðaey þar sem einmitt kvað drepast frá þriðjung til helmings af lömbum sem þangað eru sett til haust- og vetrargöngu. Síðustu dagana af nóvember og hina fyrstu af desember, og aftur 19.22.[janúar], (allan desember og fyrri hluta janúar var þar gæftalaust), aflaðist þar langa og lúða að miklum mun; í seinni róðrunum (í janúar) varð og þorskvart.
Norðanfari segir af tíð 29.janúar:
Síðan um næstliðið nýár hafa hér um sveitir verið einlægar jarðbannir af áfreðum og snjóþyngslum, en oft frostlítið og gott veður. 27. [janúar] hér 16° frost [-20°C] en 19° [24°C] á Þverá í Laxárdal. Aflalaust er hér nú með öllu og gæftalítið.
Þjóðólfur segir þann 8.febrúar:
[Frá] 26.27. [janúar] og þar til 3.[febrúar] tók hér fyrir gæftir svo almennt ræði hefir eigi mátt heita hér inn frá fyrr en dagana frá 5. þessa mánaðar og þar til í dag.
Tíminn segir 14.febrúar:
Eftir bréfum og blöðum að norðan, sem komu hinn 5.[febrúar] með sendimanni frá Akureyri fréttist, að veðráttu hafi brugðið til snjóa og frosta um jólaleytið í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, svo að um miðjan janúarmánuð hafi víða verið jarðbönn um þau héruð. Aflalítið á Eyjafirði. ... Hér sunnanlands hefir haldist hin sama veðurblíða, en frost hafa verið stöku sinnum sérdeilis dagana 21. og 22. [janúar] m. 812° frost á R. Snjófall aldrei, nema 3. [febrúar] var að eins sporrakt um morguninn, enn tók af strax aftur samdægurs. Um þetta leyti árs hafa menn ekki átt að venjast jafngóðu fiskiríi, sem nú hefir verið hér.
Febrúar. Hagstæð tíð og hlý. Snjór sjatnaði nokkuð norðaustanlands.
Norðanfari segir tvisvar frá tíð í febrúar:
[14.] [Þ.10.febrúar] bárust hingað þær fréttir, að meðfram sjó á Langanesi, Þistilfirði og Sléttu væri snjólítið, jarðir því nægar og lítið búið að gefa fullorðnu sauðfé; aftur hart í Núpasveit, Axarfirði, Kelduhverfi og um allan innri hluta sýslunnar eða millum Reykjaheiðar og Vaðlaheiðar; einnig hafa hér um Eyjafjarðarsýslu verið miklar jarðbannir þar til nú næstliðna daga að hér hefir oftast verið þítt nótt og dag, svo snjórinn hefir sígið og þar sem snjóléttast er skotið upp hnjótum, en svellalögin eru svo mikil, að skepnur varla geta komist millum hnjótanna. Í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, er víða sagt gott til haga.
[20.] Veðuráttufarið hefir enn verið hér um sveitir hin sama stillta og blíða, sem í næsta blaði hér á undan er sagt frá, 46 enda 8° hiti [+10°C] á daginn og oftast frostlaust um nætur, svo nokkuð hefir rýmst um í þeim sveitum þar sem gaddurinn var minnstur. 16 þ.m. kom austanpóstur hingað; hann hafði farið 1.[febrúar] síðla dags frá Eskjufirði og komist þá um kvöldið að Þuríðarstöðum í Reyðarfjarðardölum, en um nóttina og daginn eftir var blindbylur svo hann náði með herkjum til póststöðvanna, sem eru á Egilsstöðum á Völlum, hvar bréfin frá Seyðisfirði, eru látin í töskuna eða tekin upp. Fréttist þá þar, að sendimaðurinn úr Seyðisfirði Pétur Eyjólfsson frá Pétursborg á Vestdalseyri hefði orðið úti og fundist allslaus hjá svonefndum Miðhúsum nálægt Egilsstöðum; nokkru síðar fannst það maðurinn hafði af bréfum og öðru meðferðis, þetta tafði fyrir svo póstur komst ekki frá Egilsstöðum fyrr en þann 4 þ.m. Að austan er að frétta líka veðuráttu og hér, og jarðbannir yfir allar Múlasýslur.
Mars. Hagstæð tíð lengst af, en nokkuð kast um miðjan mánuð. Hiti ekki fjarri meðallagi. Þurrt um landið vestanvert.
Tíminn segir frá 21.mars:
Sama veðurblíðan hefir haldist við síðan blað vort kom út síðast; vestan- og norðanpóstar komu hingað hinn 15.[mars], er það helst að frétta, er vér höfum fengið í bréfum og blöðum. Á Vesturlandi hefur verið lík veðurátta og hér sunnan lands. Við Ísafjarðardjúp hefur verið afli með minna móti næstliðið haust og vetur; kringum Jökul hefur og aflast lítið, enn nú er sagt að fiskiríið sé farið að aukast nokkuð, og fiskur hafi gengið inn eftir Breiðafirði; hefir hans orðið vart á Stykkishólmi. Úr Norðurlandi tökum vér lesendum vorum til fróðleiks almennar fréttir úr bréfum þessum: (Frá Austfjörðum 30172). Vetrarfarið hefir að þessu verið næsta mislint; fyrst gjörði íhlaup í haust um veturnæturnar; svo að víða varð jarðlaust með öllu, og skepnur fenntu sumstaðar, hélst það hálfan mánuð, síðan hlánaði aftur, að allan snjó tók upp, og varð þannig öríst fram að jólum, og allt þangað til gefið fullorðnu fé, enn með jólum skipti aftur um, og snerist til ískomu og snjóburðar, og hefir því jafnaðarlegast farið fram síðan, og nú hefir verið alveg jarðlaust samfleytt á aðra viku, og engin skepna séð út fyrir dyr, þann tíma; snjórinn er illa lagður og blotar hvað eftir annað, enn hey eru með fyllsta lagi, og þola menn því nokkra skorpu. Fiskiafli var ágætur í haust; bráðapestin hefir gjört vart við sig hér og þar, en ekki orðið eins mögnuð og á Norðurlandi. Kornbirgðir voru litlar í austurkaupstöðum, nema á Djúpavogi. ... (Úr þingeyjarsýslu 26.2.72): Vetrartíðin til jóla var góð, spilltist þá veðuráttan og gjörði snjó mikinn, með blotum og áfreðum, og urðu jarðbönn yfir allt; þorratíðin var allgóð, enn frost voru nokkur fyrst á honum, síðan blotar með landsunnan vindi, seig þá snjór nokkuð, og komu upp hnjótar, enn gaddur og hjarn í milli og fljúgandi færi um allt. (Úr Vaðlaþingi 27.-2.-72): Tíðin er nú góð, hinn liðni þorri er einn með hinum bestu, er ég hefi lifað, enn á honum hefir þó komið hið mesta frost, er komið hefir á þessum vetri, það af er, það var laugardaginn fyrstan í þorra, 13°R [-16°C], allt fyrir það, hefir frostið að meðaltali, ekki orðið meira enn 1/2 gráða. Hafíshroða rak um jólin að Sléttu og inn á voga í Þistilfirði, og tveir ísjakar komu inn á Fjörðu. Íshroði þessi fór strax aftur.
Norðanfari birti þann 25.maí bréf úr Strandasýslu, dagsett 25.mars:
Veturinn sem að nú er næstum liðinn hefir mátt heita veðuráttugóður og frostalítill, en stöðugar jarðleysur hér í sýslu síðan á jólum af blotum og áfreðum, svo víða er nú kominn 15 vikna innistaða fyrir allt sauðfé, og sumstaðar eins lengi hross; þetta er að sönnu alvenja í þessari sýslu, og því er hún svo fjárfá.
Apríl. Erfið kuldatíð lengst af.
Norðanfari birti tvo tíðarpistla og bréf að auki í apríl:
[8.] [Þ.2.apríl] um háttatíma kom norðanpóstur Magnús Hallgrímsson aftur að sunnan hingað í bæinn; hann hafði farið úr Reykjavík 21.[mars]. Að sunnan og vestan, er að frétta góða tíð og snjóleysur allt norður á Yxnadalsheiði. Úr bréfi úr Húnavatnsýslu dagsett 20.mars. Tíðin er alltaf hin sama frostalítið og frostleysur og oftast stillt, nema 7. og 8.[mars] var hér norðanhríð.
[19.] Veðuráttan hefir nú um tíma verið stillt og oftar úrkomulítið og frostin eigi mikil, en vegna hafáttar, dimmviðra og þoku sjaldnast getað notið sólar, og heldur ekki hlánað. Gaddurinn er því mikill og óvíða jörð, og sumstaðar engin síðan um veturnætur millum Yxnadalsheiðar og Axarfjarðarheiðar. Nokkrir eru vegna heyleysis farnir að reka af sér, og nokkrir sagt að hafi við orð að skera. Heyin hafa líka verið sögð yfir höfuð mikilgæf. Aftur er sagt að hafi verið hinn besti vetur í flestum plássum meðfram sjó, t.a.m. á Langanesi, Þistilfirði, Sléttu og Tjörnesi. Fyrir vestan og og sunnan, er alltaf sögð hin besta tíð og snjóleysur.
Með Pálmasunnudegi [24.mars] breyttist tíðin til landnorðanáttar, élja og nokkurrar snjókomu nú í páskavikunni. 6. mars lagði unglingsmaður, Árni Friðriksson, frá heimili sínu Garði í Fnjóskadal til ferðar norður á Melrakkasléttu og ætlaði að fara Gönguskarð, sem er fjallvegur milli Fnjóskadals og Köldukinnar hér um ½ þingmannaleið bæja á millum. Þegar nú Árni var komin meiri hlutar leiðar eftir fjallveg þessum, fór veður og færi versnandi, svo hann treysti sér eigi að rata og settist því að, en næstu dagana voru einlægar stórhríðar með frostgaddi, svo hann lá út í 6 dægur og réði það af með veikum burðum að snúa til baka heim að Garði, talsvert kalinn á fótum. Litlu eftir þetta var hann fluttur inn í Akureyri. Álitið er að piltur þessi missi tærnar af báðum fótunum og máski meira af öðrum.
Úr bréfi úr Hjaltastaðaþinghá Norðurmúlasýslu dagsett 2.apríl. Fréttir eru fáar héðan, nema það sem almennt gafst veðurblíðan og jarðirnar hér í harðindasveitunum. Á þorranum höfðu mýrar í Borgarfirði hér eystra, verið ristuþíðar á þorra.
Tíminn segir af tíð í pistli þann 5.apríl:
Um næstliðin mánaðamót, hefir hér syðra, skipt um hina góðu veðráttu, og verið oft norðan eður landnorðan kuldastormur; nóttina milli hins 2. og 3. [apríl] og morguninn eftir setti og niður töluverðan snjó, og má það í raun réttri heita sá fyrsti snjór, er hér á suðurnesjum hefir sést í vetur. Fiskafli er sagður fremur lítill og misjafn, hér við sjávarsíðuna, um þessar mundir.
Tíminn segir aprílfréttir þann 1.maí:
Með vestanpóstinum, er kom 29.[apríl] fréttist hörð kuldaveðrátta af Vesturlandi, og víða bágt manna milli á Vestfjörðum, sökum þess að fiskur hefir brugðist þar í vetur; kaupför voru komin á Ísafjörð, þá póstur fór þaðan; Hafíshroði hafði sést við Strandir um sumarmálin.
Norðanfari birtir fréttir úr mars- og aprílbréfum 3.maí - þar á meðal af jarðskjálftunum miklu:
Úr bréfum úr Þingeyjarsýslu, dagsett 30. mars og 18. apríl 1872. Úr Laxárdal: Héðan er ekkert gott að frétta, jarðbönnin hið sama og verið hefur í allan vetur og nú daglega stórhríðar og fannkoma og margir komnir í heyþrot; heyin hafa reynst mjög létt og uppgangssöm. ... " Úr Bárðardal: Harður hefir þessi vetur verið hér í framsveitum Þingeyjarsýslu, svo sem Reykjadal, Mývatnssveit, Bárðardal, Kinn og fram Fnjóskadal, þar sem sumstaðar hefur staðið tíð gjöf fé og hross síðan á jólaföstu, enda eru nú hartnær allir orðnir örþrifsráða og uppnæmir og margir búnir að gefa út fé sitt fram til fjalla. Héðan úr Bárðardal, er komið nær 1000 fjár fram á afrétt á litla hagabletti, því þar hefir verið snjógrynnra en útsveitunum. Ekki get ég kennt þetta slæmum ásetningi, því um þessar sveitir voru menn vel að heyjum komnir í haustið var, heldur kenni ég það heyléttu og jarðbönnum". Frá Húsavík: Harðindi og heyleysi hér nyrðra er orðið svo almennt, að það er talið víst, að hér í sýslunni verði grófur skepnufellir; einkum mun vera mest hætta búin: í Reykjadal, Kinn og Bárðardal. Mývatnssveit er sögð yfir höfuð mikið illa stödd. Aðfaranótt hins 18. þ.m. hafa hér verið svo miklir jarðskjálftar, að búast hefur mátt við á hverju augnabliki að húsin hryndu ofan yfir menn. Margir smábæir hér í kring hafa hrunið meira og minna, svo fólkið hefur ekki haft önnur ráð en flýja burt í hin húsin, sem enn standa minna brákuð og brotin; jarðskjálftarnir hafa komið á hverjum 5 mínútum. Hér er því orðið mikið tjón á húsum og öllu brothættu". Eftir munnlegum fregnum hingað, er sagt að 14 smábæir kringum Húsavík séu hrundir að grundvelli og sýslumannshúsið og assistentshúsið liðið miklar skemmdir, svo í þeim sé alveg óbúandi. Nær því 100 manns, er sagt húsvillt og bjargarlaust. Frá Þorvaldsstað og út á Húsavíkurleiti, kvað jörðin vera með einlægum smærri og stærri sprungum, og ein þeirra hátt á aðra alin á breidd, er nær yfir langa leið. Á nokkrum mógröfum hafði ísinn og jörðin langt að neðan sprengst upp, og á einum stað á Húsavíkurbakka var sem ryki upp úr jörðunni, menn eru því á glóðum um, að eldnámi sé þar undir eða í grennd. Hér og hvar um aðrar sveitir, höfum vér heyrt, að hús hafi meira og minna skekkst, brotnað eða hrunið. Á Kaðalstöðum í Hvalvatnsfirði í Þingeyjarsýslu, hafði einn jarðskjálftinn sprengt fram snjóflóð úr fjalli, ofan á allt fullorðna féð sem þar var á heimilinu, er búið var að reka til beitar í fjöruna. Á Látraströnd er sagt að fjöldi af snjóflóðum hafi fallið, en hvergi til tjóns, það er menn en vita, Úr sumum björgum hafði fallið hver stórskriðan af annarri, og grjóthrunið orðið hið ógurlegasta. Menn telja víst að slík ósköp hafi víðar gengið á hér nyrðra. Seinna vonum vér að geta greinilegar sagt frá afleiðingum jarðskjálfta þessa, einkum á Húsavík, hvar hann, að því leyti vér höfum frétt, hefir orðið lang stórkostlegastur og ollað mestu tjóni. Undanfarna daga hefir hér verið snjókoma og ekkert rýmt um á daginn, og á nóttunni 67° frost; enda er nú sagður svo mikill hafís hér norðan fyrir landi, að skipstjóri óðalsbóndi Jónas Jónsson á Látrum, er lagður var af stað frá sér að heiman til hákarlaveiða út í Grímsey, gat eigi komist nema eitthvað út á sundið, hvar hann varð að snúa heim aftur.
Þann 24.maí greinir Þjóðólfur frá jarðskjálftunum nyrðra:
Góðfúslega meðdeilt Þjóðólfi af hr. stúdent Páli Þorlákssyni frá Stórutjörnum. Seint um kvöld 17. dag [apríl] urðu menn varir við jarðskjálfta á Norðurlandi og víðar; fannst til þeirra aftur og aftur næstu nótt, einkum nær kl.4. Daginn eftir 18. [apríl] bar mest á þeim um kl.10, l0½ og 11 f.m. og þóttust menn verða varir við smákippi af og til í 2 sólarhringa eða meir. Eigi má með vissu segja, hve lengi kippirnir hafa varað í hvert skipti, en mestur og lengstur þótti sá sem kom hér um kl. 11 f.m. þann 18.; þá var það, að skaðinn varð mestur á Húsavík. Þar hrundu 23 kot meir og minna og 3 timburhús skekktust og röskuðust á grundvellinum, svo að eigi þóttu byggileg að svo stöddu. Viða á Húsavík og þar í kring sáust eftir á sprungur í jörðu, og kvað mest að einni, lá hún í gegnum höfðann fyrir norðan bæinn, frá sjó og upp eftir svonefndum Laugardal. Í húsunum hrundi allt það niður, sem laust var á hillum og í skápum, og brotnuðu öll leirílát og annað, það sem brothætt var. Enginn maður eða skepna fórst eða meiddist í jarðskjálftum þessum, en talið er, að 100 manns hafi orðið húsvilltir. Þóttust menn finna, að jarðskjálftinn kæmi frá útsuðri. Ekki varð víðar tjón að jarðskjálftunum, að því er spurst hafi, en hvervetna, þaðan er frést hefir af Norðurlandi, hafa þeir fyllilega fundist; eigi hafa menn enn frétt úr Norður-Þingeyjarsýslu.
Í Norðanfara þ.17.maí birtist löng umfjöllun um jarðskjálftana á Húsavík - við styttum hana lítillega hér:
Aðfaranóttina þess 18. apríl kl.11 um kvöldið, kom hér jarðskjálfti svo mikill, að mönnum leist ekki ugglaust að vera inn í húsum, ef annar kæmi jafn snarpur; en litlu þarna á eftir komu þeir svo títt, að ekki liðu nema 48 mínútur milli þeirra. Engir voru þeir mjög stórkostlegir fyrr en kl.4 um nóttina; þá kom einn svo harður, að húsin léku til og frá, teygðust sundur og saman, og mikið af því sem rótast gat gekk úr sínum skorðum. Smábæirnir hérna í kringum kaupstaðinn urðu þá strax fyrir svo miklum skemmdum, að fólkið flúði úr sumum þeirra til hinna bæjanna, er minna hafti sakað. Allt fólk hér á Húsavíkurbakkanum fór nú á flakk við þessi undur, því ekki var lengur friðlegt í húsunum. Að afliðnum þessum mikilfenga jarðskjálfta kl.4, kom um nokkurn tíma enginn er gæti álitist hættulegur, þó alltaf væru smáskjálftar með litlu millibili þangað til kl.10 daginn eftir.
Þá var ég staddur á veitingahúsinu, og ætlaði mér eftir venjulegum hætti að fá mér snæðing; en rétt í sömu andránni laust á húsið svo óttalegum jarðskjálfta, að mér kom til hugar að ég væri knúður til að mölva mig út um glugga, því með því móti hugsaðist mér, að ég kynni að hafa mig út áður en húsið væri fallið, því ekki var annað sjáanlegt en það mundi á svipstundu falla til grunna; en af því að rykkirnir voru svo grimmúðlegir ýmist fram og aftur eða þá á hlið, gat ég enga stjórn á mér haft meðan á þessum ósköpum stóð, sem vafalaust hafa staðið í hálfa aðra mínútu; loksins eftir að ég var kominn út varð mér fyrst að líta í kringum mig, til að vita hvort nokkuð af smábýlunum hér í kring mundu uppistanda; sá ég þá að fólkið streymdi hópum saman hingað ofan eftir með þá sorglegu fregn, að allir húskofar sínir væru fallnir til grunna; þetta er það sviplegasta augnablik sem ég hef lifað, því mæðurnar komu með börnin á bakinu hálfnakin, þær einnig sjálfar ekki betur útbúnar; enginn vissi hvert flýja skyldi til að geta verið óhultur um líf sitt, og nú bættist það ofan á, að jarðskjálftarnir voru svo miklir og tíðir meðan fólkið var að þyrpast saman, að ekki gátu staðið á bersvæði nema styrkustu menn; hér var ekkert til ráða nema flýja, og streymdi fólkið því sumt út á Tjörnes og aðrir inn í Reykjahverfi. Allan þennan dag voru jarðskjálftarnir, og leið mikið skammt á milli, en engir þeirra voru eins voðalegir og sá sem kom kl. 10 um morguninn, eins og að framan er getið. Allir bæir hér í kring eru fallnir og fólkið úr þeim komið eitt í hverja áttina. Húsavíkurbærinn stendur ennþá að því leyti, að fólkið hefir ekki yfirgefið bann, en kvað þó vera mjög mikið fallinn og alveg óbyggilegur nema með viðgjörð með framtíðinni; annar bær stendur hér uppi ennþá, sem Sigmundur Þorgrímsson á, og eru þá talin þau torfhús, sem uppi standa og búið var í. Nú er að minnast á timburhúsin hérna, 3 af þeim sem höfð voru til íbúar urðu fyrir svo miklum skemmdum, að eins og þau standa nú, eru þau aldeilis óbyggileg; fyrst er hver einn einasti steinn fallinn úr reykháfunum, og annað hitt, að ofnarnir eru í mörgum pörtum og í þriðja lagi eru húsin sjálf öll rammskökk og að sumu leyti brotin, þökin rifin svo víða að snjóar inn um þau. Þú munt vilja fá að vita hverjir bjuggu í þessum húsum, og eru það: sýslumaður okkar, verslunarmaður S.Jacobsen og veitingamaður S. Jónatansson; þessir máttu allir yfirgefa hús sín og er ekki að hugsa til að þeir geti haft þeirra not fyrr en þau hafa fengið mikla viðgjörð.
Hús það, sem Factor Gudjohnsen býr í, sætti einna minnstum skaða af húsum þeim sem hér voru í grenndinni, en samt ber það víða á sér ljósan vott þess hvað mikið það hefir reynst; til allrar lukku stóð meiriparturinn af skorsteininum, og hrundu þó allir ofnar niður. Hefði þetta hús farið eins og hin, þá hefði ekki legið annað fyrir, en að allir úr timburhúsunum hefðu orðið að leita sér húsaskjóls annarstaðar. Miklar skemmdir urðu á ýmsum vörutegundum hér, einkum á öllu leirtöje og vínflöskum.
Ég hef enn þá sleppt því að minnast þess, hvernig jörðin varð í þessum miklu umbyltingum. Fyrst og fremst meðan á mestu hræringunum stóð, gekk hún öll í smáöldum, síðan rifnaði hún þvert og endilangt, sumstaðar voru rifurnar svo breiðar, að þær álitust að vera fullkomin 2 kvartil á breidd, og ein þeirra, er liggur ofan frá svo nefndu Húsavíkurfjalli og ofan allan Laugardal, skammt fyrir norðan Húsavík, var í fyrstu l 1/2 alin á breidd þar sem hún var breiðust, og víða kvað hafa legið heil jarðarstykki, sem kastað hefir upp úr jarðrifunni; ein liggur líka að norðanverðu í höfðanum skammt fyrir utan og neðan Húsavík sem svo mikill hiti er í, að það rauk upp úr henni stöðugt í 4 sólarhringa. Ég var ásamt fleirum héðan að skoða þessi undur, og þá var svo mikill hiti í rifunni, að maður aðeins þoldi að halda hendinni yfir efst viðjarðbrún. Nú kvað reyknum vera slotað og rifan farin að lykjast aftur. Ennþá ganga hér jarðskjálftarnir, þó ekki svo mikilfenglegir að þeir olli skemmdum, enda væri óskandi að fólk ætti ekki eftir, að líða annað eins og hér er gengið á undan. Við þetta ógurlega tilfelli hafa 104 manns orðið hér húsnæðislausir, og það litla, er flestir þeirra höfðu undir höndum hefir skemmst, og sumt tapast til fulls og alls, og geta þeir því ekki átt neina von fyrir að geta brúkað það með framtíðinni. Skepnutjón varð eigi mikið vegna þess að þær munu flestar hafa verið úti þegar mestu ósköpin dundu yfir; en bóndinn Sigurjón Björnsson á Kaldbak, sem býr hér skammt frá, missti 6 ær, sem orsakaðist með þeim hætti, að skepnur hans voru í fjöru skammt frá bænum, en mjög háir hamrar voru yfir, hafði því sprungið úr björgunum og þær orðið undir hruninu. Víðar hafa orðið nokkrar skemmdir enn í þessu plássi, þó ekki sé í neinni líking við það sem hér er, t.a.m. á Héðinshöfða skekktust og hrundu að nokkru 4 fjárhús, einnig baðstofa á Mýrarseli kvað vera hrunin að mestu og á Núpum urðu flest bæjarhús fyrir miklum skemmdum, og miklu víðar þó eigi sé hér upptalið.
Til þess að nokkurn veginn sé hægt að gjöra sér hugmynd um það, hvað sterkur jarðskjálfti þessi hafi verið, af þeim sem ekki hafa reynt hann, vil ég geta þess, að 100 pd. lóð, sem stóðu á bekk niður við gólf í vigtarbúðinni hér á staðnum, köstuðust fram af bekknum og nokkuð út á gólfið. Einnig hentist efra lagið af brennivínsfötum, sem lágu á hliðinni upp í pakkhúsi, ofan á gólfið og stóðu þar á endum hérumbil 1 alin frá því sem þau voru áður. Þegar að þessi ógurlegi jarðskjálfti kom, hurfu tveir lækir sem hér runnu ofan í jörðina, öðrum skaut upp aftur eftir nokkra stund en hinum ekki. Einnig tóku menn eftir því, að strax við byrjun jarðskjálftanna urðu allar ár hér í grenndinni með jökullit; ár þessar eru ætíð mjög tærar, einkum um þennan tíma, þegar ekki eru hlákur og vatnsrennsli í þær. Mest bar á lit þessum í Köldukvísl hér á Tjörnesinu og Búðaránni, sem rennur hér fast við verslunarhúsin, og hefir þessi jökullitur haldist allt fram að byrjun maímánaðar. Fjaran hér neðan við Húsavíkina, sprakk öll í sundur við jarðskjálftann og varð um leið heit að mun, upp úr sprungunum spýttist vatn og lagði þar upp af bláa gufu er líktist bláum eldsloga; margir kváðust og hafa séð bláleita gufu eða eld skjótast upp úr jörðinni hér utan við höndlunarhúsin hjá svonefndum Brennisteinshrísum, er féllu í jarðskjálfta fyrir 5 árum, og líka út á svo nefndum Húsavíkurhöfða. Skrifað í maímánuði. L.J. Finnbogason.
Norðanfari birti þann 25.maí fáein bréf dagsett í apríl:
Úr bréfi að austan 30 apríl 1872. Veturinn hefir verið hér hinn frostaminnsti, sem lengi hefir komið, svo hér um bil mílukafli af Lagarfljóti hefir aldrei lagt, nema skæning endrum og sinnum. Fram að jólum var mjög snjólítið víðast hvar, en áfrerar tíðir einkum inn til dala Frá jólum fram yfir þrettánda komu býsna miklir snjóar og varð víða jarðlaust en þá komu hlákur með miklum rigningum og leysti meiri hluta snjóa. Voru síðan fram til einmánaðar ýmist þíður eða bleytusnjóar og lítil frost milli. En skarpt varð stundum um jörð, einkum inn til dala af storkum og varð sjaldan beitt til hlíða. Síðan um pálma [24.mars] hefir verið hretasamt og hvikul tíð og þó frosta lítil en jarðir víðast, og svo er enn. Þó veturinn hafi mátt heita mikið góður og mildur hafa gefist mikil hey fullt eins og í meðalvetri því beit hefir verið létt og heyin eins en fénaður heilsulítill.
Úr bréfi Álftafirði 9.apríl Héðan er fátt að frétta nema góðan vetur, en heyfrekan, og eru nú margir komnir í mestu vandræði af heyleysi; versta skorpan sem komið hefir í vetur stendur en yfir, síðan þriðjudaginn eftir pálmasunnudag.
Úr bréfi af Flateyjardal í Þingeyjarsýslu dagsett í apríl 1872. Á fimmtudaginn 18.[apríl], um hádegisbil, kom hér voðalegur jarðskjálfti, svo menn hafa orðið fyrir miklum skaða, og eigi hægt að lýsa því nákvæmlega, meðan snjór er á jörð og húsveggir frosnir. Á flestum bæjum hafa hús skekkst og rótast meira og minna, sum alveg hrunið niður og veggir og þekjur sprungið. Á Eyri hér á dalnum, hrundu flest bæjarhús svo fólkið flúði úr bænum, og hefir þar enginn verið síðan. Á Kaðalstöðum töpuðust í snjóflóðum um 60 kindur, og fór það allt í sjóinn, en nokkuð af því rak á land aftur í Flatey og upp á Vargsnesreka. Það gegnir allri furðu, að sjá hvernig jörðin hefir farið, og er þó minnst af því hægt að sjá núna; úr öllum fjöllum hafa hlaupið snjóflóð, og allt er sundursprungið á láglendinu, sumstaðar sér langt ofan í jörð, á tjörnum er allur ísinn sundursprunginn og stórir leirgarðar báðu megin við sprungurnar upp úr botninum, og það þótt djúpar tjarnir séu. Jarðskjálftarnir fundust fyrst 16. þ.m., og hafa alltaf gengið að þessu, en engir stórir nema tveir".
Norðanfari birti þann 1.mars 1873 bréf úr Flatey á Skjálfanda, dagsett 18.desember 1872 þar sem greint er frá jarðskjálftunum í apríl það ár:
Aðfaranóttina hins 18.apríl urðu menn varir við jarðskjálfta en þó allir litlir er héldust alla nóttina en um morguninn kl.10 f.m. kom einn stór, svo hlutum lá við hruni, og hér um kl.11 kom annar er tók langt yfir hina alla; sjórinn sogaðist fyrst út, og í sama vetfangi skelltist hann aftur á land, sem stór alda; jörðin gekk í bylgjum, við hvað hún sprakk víða í sundur, og upp um sprungurnar gekk sjór og sandur. Öll hús skemmdust, nokkur hrundu, og tveir bæir alveg; i einum bænum urðu 2 kvenmenn undir hruninu, en náðust þó lítið meiddar. Kirkjan hér rótaðist á grundvelli sínum, er hún þó bundin með 5 járnböndum. Jörðin sprakk víða hér í Þönglabakkaprestakalli svo í sundur að ómögulegt var að fá heila torfu eða streng. Skaðinn á húsum og munum var metinn allt að 600 rd. Fiskiafli var hér í sumar kringum Flatey í meðallagi af þorski, nokkur af skötu en með minnsta móti af heilagfiski. Gæftir voru einstaklega góðar fram að göngum, þar á móti í haust og allt að þessu framúrskarandi ógæftir og sífelld brim, svo haustaflinn varð mjög lítill.
Þjóðólfur greinir frá mannsköðum og skipsköðum í pistli þann 4.maí (nokkuð stytt hér):
Á siglingunni hér vestur með landinu 26.[apríl] ... hreppti herskipið Fylla ofsaveður og ósjó mikinn; féll þá inn og brotnaði um leið á skipinu holskefla ein mikil og tók út 4 skipverjana með útsoginu, og auðnaðist eigi að bjarga nema 2 þeirra, en 2 drukknuðu. Eftir bréfi frá Sigurði bónda á Vífilsstöðum, Vigfússyni, [dagsett á] Auðnum á Vatnsleysuströnd 21.[apríl] Í fréttaskyni leyfi ég mér að láta yður vita að í gær [20.apríl] var hér hörð norðankæla en illt sjólag; samt reru allmargir, en engir sátu lengi því veður spilltist, sigldu því allir í land tómkjala; en á uppsiglingunni fórst bátur með 2 mönnum af útveg Guðmundar bónda Guðmundssonar hér á Auðnum; formaður var Þorbjörn Jónsson frá Hvanneyri í Andakíl, sonur Jóns bónda Símonarsonar á Efstabæ í Skorradal, ungur maður og mætavel að sér gjör til munns og handa. Hinn maðurinn var Ásmundur Jónsson, Sigurðssonar frá Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd ... ". Sama dag (laugardag 20.apríl] varð skipskaði fyrir Loftstaðasandi í landróðri; drukknuðu þar 4 menn en 2 varð bjargað, eins og gjörr er frá skýrt í skýrslu þeirri, er hér kemur, og sóknarpresturinn síra Páll Ingimundarson hefir góðfúslega sent oss: 20. apríl 1872, fórst á uppróður í stinnhvössum norðanvindi bátur frá vestri Loftsstöðum, líklega af ofhleðslu í slæmum sjó. Voru á honum þennan dag 6 menn sá 7. náði ekki. Af þeim 6 drukknuðu 4. ...
Maí. Kuldatíð lengi vel, en skárri kaflar komu þegar á leið. En mánuðinum lauk þó með slæmu hreti.
Norðanfari birti þann 25.maí bréf dagsett í Laxárdal í Þingeyjarsýslu þann 9.maí:
Ástand manna hér um pláss er óttalegt, gaddur yfir allt og hvergi jarðarbragð, meiri og minni hríð og frost á hverjum degi (í gærkveld 910 stig á R [að 12°C]); einlægt er rifið út kornið handa fénaðinum og hann víða farinn að falla, dregnar og horaðar skepnur reknar, ýmist inn í Eyjafjörð eða út að sjó, eða hvort þangað, sem einhver von væri að draga í því lifið, en allt sýnist muni koma fyrir ekkert, að hér verði sá almennasti og stórkostlegasti fellir, sem við höfum lifað, því þeir fáu, sem voru sjálfbjarga, eru orðnir eins fyrir hjálp við hina, sem fyrst urðu þrotum, og þannig er hjálpin orðin að engu og allir í jöfnum voða, sem þó er voðalegast.
Þann 30.maí segir Tíminn af tíð:
Síðan Tíminn kom út seinast, hefir mátt heita hér sunnanlands stillt veðurátta, en fremur köld, sökum hafíshroða sem enn er sagður liggja við Norðurland. Næturfrost voru hér allt að 34°, bæði kringum hinn 9. og 18. þ.m. hefir því gróður farið lítið fram, þar til vikuna sem leið, er veðuráttunni brá til vestanáttar með hægri úrkomu.
Norðanfari segir þann 3.júní frá hreti í maílok:
[Þ. 29.30. maí] skall hér á enn eitt stórhretið, svo víða kom mikil fönn, og sumstaðar illkleyf; og nokkuð af fé sem úti lá, fennti eða hrakti til dauðs; auk þess sem skepnufækkunin með ýmsu móti öðru heldur áfram og lambadauðinn sem yfir tekur. Lítið sem ekkert aflast nú úr sjó; það virðist því, sem að hinni almennu velfarnan sé nú sýnt í tvo heimana. Fátt hefur frést af hákarlaskipunum, sem flest höfðu verið á hafi úti og
mikil hætta búin, af ísnum og stórhríðinni er var austanlandnorðan, og einhver hin mesta með snjókomu og veðurhæð er í manna minnum hefir um þennan tíma komið hér.
Norðanfari birti 13.júlí bréf úr Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 26.maí:
Veturinn var góður og frostvægur til loka febrúarmánaðar, en miklar rigningar og súld, en síðan úrkomulítið og stöku sinnum norðan stormar, og alltaf frostvægara en menn hafa minnt til. Fyrir hvítasunnu [19.maí] kom hér grimmdarveður, sem hélst fulla viku, og skemmdi mikið gróðurinn; alltaf er úrkomulítið en loftið kalt ...
Norðanfari segir fréttir af tíð og afkomu þann 14.júní- aðallega fjallað um áfellið í maílok:
Í stórhríðinni 29.30.[maí] hafði eitt hákarlaskipið, er Veturliði hét, frá Bakka á Tjörnesi með 10 mönnum, farist og fundist á hvolfi, brotið þvert yfir fyrir framan káetu og fast þar við akkeri, festar og vaðarhöld m.fl. er lágu til botns. Einn maður af því fannst á Botnsfjöru í Þorgeirsfirði, ásamt mulinu úr afturhluta skipsins og fleira, og þar á meðal gaflfjöl með nafni skipsins. Á Stóru-Reykjum í Reykjahverfi, hafði í stórhríðinni á dögunum 50 fjár hrakið til dauðs í svo nefnda Reykjakvísl, og fé víðsvegar fleira og færra fennt. Á Grenjaðarstað, Múla og Narfastöðum í Reykjadal, eru á hverjum bænum fyrir sig, dáin 60 lömb. Á nokkrum bæjum er sagt að muni verða sauðlaust. Sumstaðar er fannfergjan sögð enn svo mikil, að varla sjáist á dökkan hnjót, og eigi verði komist bæja né sumra byggða á milli nema á skíðum, og ekkert nú, í 7 viku sumars, að gefa kúm nema við og korn. Með manni af Hólsfjöllum fréttist hingað 10. [júní] að áfellið seinasta, hafi þar verið minna en hér og fyrir norðan, og skepnuhöldin yfir höfuð allgóð. 9. þ.m. voru dregnar hér á Akureyri á land yfir 500 tunnur af síld, sem öll var gengin út á 2 dögum, ... Að sunnan er að frétta aflaleysi, og jörð þar mjög skrælnaða og gróðurlitla. Víðast hvar eru meiri og minni vanhöld á skepnum. Einkum í Hrútafirði og Skagafirði hafa sést ormar eða pöddur í snjóum, að stærð sem flær, sem menn halda að skriðið hafi upp úr jörðunni, og meðal annars, geti verið orsök til þess, að svo víða hefur orðið vart við yrmlinga í innyflum fénaðarins. Á þingeyrasandi hafði nýlega rekið 2 seli dauða, en 9 í Hrútafirðinum á tveimur bæjum, 7 á öðrum en 2 á hinum, og víðar hefir orðið vart við reka þennan. Það eru því getgátur manna, að einhver dáran sé í selnum, sem getur verið eins og í skepnunum á landi.
Júní. Mánuðurinn byrjaði með kuldatíð, en fór mjög batnandi er á leið.
Norðanfari birti 13.júlí tvö bréf, dagsett í júní:
[Vesturlandi 13.júní]: Veturinn var mildur allt fram á pálmasunnudag [24.mars]. Síðan hefir verið mikil kulda- og harðviðratíð og er enn með mjög stuttum góðviðraköflum. Gróður er í minnsta lagi. Sauðfénaður er af langvinnum, drætti og næðingum orðinn mjög grannur, en óvíða hefir drepist að mun. Lambadauði er talsverður í sumum sveitum. Um Breiðafjarðardali munu fénaðarhöld vera einna best hér vestra.
[Þorgeirsfirði í Þingeyjarsýslu 19.júní]: Miðvikudagskvöldið 29. maí skall hér á landnorðan stórhríðarbylur með mesta ofsaveðri og grófustu fannfergju ofan á gamla gaddinn, sem mikill var fyrir, stórhríðin hélst alla nóttina og fimmtudaginn fram undir kveld, fór þá að rofa lítið eitt; það fylgdist allt að, veðurhæðin snjókoman, dimman og stórbrim. Nú í viku hefir verið gott veður og mikið tekið upp snjóinn, þó er eigi meira en hálf tekið fyrir framan bæinn hjá mér, og hálft túnið enn undir gaddinum. Ám og hestum er ég nú búinn að sleppa en kýr komast vart út þó tíð verði góð, fyrri enn 10 vikur af sumri, og er það langur gjafatími síðan í fyrra sumar 5 vikum fyrir vetur (41 vika). Ekki er mikill fellir hér á fullorðnu fé, en lambadauði talsverður.
Þjóðólfur segir 1.júlí: Grasveður hið besta síðastliðnar 3 vikur, og horfir grasvöxtur á túnum vel við, en miður á útjörð.
Júlí. Óvenjuhlý og hagstæð tíð.
Norðanfari birti tíðarfarspistil þann 13.júlí:
[Þ.9.júní] fór veðuráttan að batna. en þó einkum er kom fram í miðjan mánuðinn og síðan hefur verið sumarleg öndvegistíð og nú horfur á því, að grasvöxtur verði í meðallagi ef eigi betri. Skepnufækkunin er í sumum sveitum orðin mikil, einkum á sumum bæjum í Reykjadal, Kinn og Bárðardal og við Mývatn. Af fénu, sem búið var að reka fyrir hretið fram til afrétta, er sagt að Bárðdælingar hafi tapað á þriðja hundrað fjár, er sumt fennti, sumt drap dýrið og sumt féll af hor. Mývetningar höfðu og misst talsvert. Þó tekur lambadauðinn yfir því að hann hefir gengið meira og minnanlega yfir allar sveitir og að sama hlutfalli er málnytubresturinn, Nokkrir eru farnir að byrja slátt. Víða hér fyrir Norðurlandi er nú sagður kominn meiri og minni afli af fiski, og fremur vænn, einkum þá síld ...
Tíminn segir af blíðu þann 16.ágúst:
Sama veðurblíðan helst alltaf við hér sunnanlands, með staðviðrum og hitum, sem verið hefir í júní og júlí. Fiskiafli má heita enginn hér á Seltjarnarnesi og Suðurnesjum. Frakkneska herskipið Le Cher, er fór héðan 28. [júlí] vestur um land, og um leið ætlaði norður til Akureyrar, kom hingað aftur í gær, en ekki komst það til Eyjafjarðar sökum hafís og þoku útifyrir, eftir því sem skipverjar segja; ýmislegt, er fara átti til Akureyrar t.a.m. bækur, var sent með skipinu, sem kom með því aftur.
Norðanfari ritar um þurrka og veðurblíðu þann 23.júlí:
Veðurblíðan hefur að kalla alla jafna haldist, og eigi komið dropi úr lofti frá því 6.[júlí] og til hins 17.[ágúst] að hér var nokkur úrkoma, er samdægurs stytti þó aftur upp. Þessa munu fá dæmi hér á landi, að 41 dagur hafi liðið millum skúra, eða að enginn dropi eða fjúk hafi komið úr lofti. Það má því nærri geta, að töður og úthey, sem er í garð komið sé með hinni bestu nýtingu. 12. júlí var hér mestur hiti 24° á Reaumur [30°C], en 18° [22.5°C] um kvöldið í forsælunni, en 16. þ.m. 20° [25°C], en 14° [17,5°c] um kveldið.
Norðanfari birti þann 2.nóvember bréf úr Bjarnarneshrepp í Hornafirði, dagsett 18.ágúst:
Allan maímánuð var köld og stormasöm tíð, sem hélst til sólstaða; síðan og til 15. þ.m., hefur verið æskilegasta tíð, úrkomulaust, hægveður og tíðum sólskin og logn; 15. og 16. var hér hin mesta steypirigning. Grasvöxtur á túnum og harðvelli var vel í meðallægi, en þó víðast miður en í fyrra; töður allar hirtust grænar hér og í nærsveitum og muna menn ekki slíka nýting.
Richard Burton lýsir morgni [23.júlí] á Reynivöllum, tíðarfari - og svo heilsufari í Reykjavík [úr bók hans Ultima Thule 2.bindi (1875).
Ágúst. Hlý og hagstæð tíð um land allt.
Tíminn segir 3.september:
Síðan að seinasta blað Tímans" kom út, hefur hér á Suðurlandi verið lík veðurátta og áður, að fráteknum 2 eða 3. rigningardögum seinast í næsta mánuði; hitar hafa verið miklir og langvarandi venju framar í sumar, þó munu þeir ei hafa orðið meiri en 1718 gráður við sjávarsíðuna, ... Í sumar hefur hér verið alveg aflalaust, nema litið eitt af þaraþyrskling og það næsta óverulegt.
Tíminn birtir úr bréfum að austan og norðan þann 27.september:
[Frá Austfjörðum 22.ágúst]: Tíðarfarið er eitthvert hið ágætasta er orðið getur, grasvöxturinn góður, þurrkurinn og nýtingin á heyinu þar eftir; hver vogur og vík krökkt af fiski, svo varla þarf annað en fara út á tanga og klappir til að fá í soðið, má slíkt heita að taka hlut á þurru landi.
[Frá Eyjafirði 23.ágúst] Veðuráttan stillt og þurr, sem er hið affarabesta til heyskaparins.
September. Lengst af hagstæð tíð, en mikið illviðri um miðjan mánuð.
Norðanfari birti þann 2.nóvember bréf úr Berufirði, dagsett 20.september:
Af fréttum er það helsta, að tíðarfar var hér um svæði hið ákjósanlegasta í sumar, einkum í júlí og ágústmánuði, með logni, hita og mollum oftast, en síðan með september fremur óstillt 17. [september] kom hér mesta austanveður, og eins til sjós með einstaklegri stórrigning, svo skaðar urðu á Austfjörðum á hjöllum og fiski við sjó; einnig urðu öll 4 hákarlaskipin, er voru héðan af Djúpavog á sjó, fyrir meira og minna tjóni, því 3 þeirra voru næstum týnd, og 1 maður misstist alveg af einu þeirra.
Norðanfari segir 26.september:
[Þ.16.18. september] skall hér á norðanátt með hvassviðri, rigning í byggðum en snjókomu á fjöllum, svo hvítt varð ofan undir bæi, Allir eru búnir að heyja með mesta móti og fá hey sín í garð með bestu verkun; þó eiga margir enn hey úti og flestir eldivið sinn. Fremur eru horfur á því, að jarðeplin muni hér verða með meira móti, hjá þeim er höfðu gott útsæði í vor.
Október. Kalt í veðri og nokkuð umhleypingasamt. Úrkomusamt um landið vestanvert.
Norðanfari segir 15.október frá kaldari tíð:
[Sjöunda september] og síðan, nema dag og dag, hefir veðuráttan verið norðlæg og köld og stundum frost á nóttunni, krapi og snjókoma, svo sumstaðar var alhvítt orðið ofan í sjó og ár. Nokkrir eiga hey úti.
Norðanfari birti þann 2.nóvember bréf að austan, bæði dagsett í október:
[Breiðdal, 10.október] Héðan er fátt að frétta, nema að heilsa manna er góð og tíðin einnig í sumar, en nú umhleypingasöm. 22.[september] fórst bátur á Berufirði með 10 manns á, meðal þeirra 5 börn kammerassessors Weywadt, 2 fullorðin, cand. juris N. Weywadt og elsta dóttir hans og þrjú ung, tveir drengir og ein stúlka, undirkaupmaður Meilbye og tveir beykjar danskir og drengur, sonur Jóns bónda Jónssonar á Borgargerði og hin 10 var stúlka fyrir innan fermingu. Ekki er nema einn maðurinn fundinn af þessum aftur, og heldur ekki báturinn.
[Seyðisfirði 13. október] Tíðarfarið hefur verið heldur óstöðugt um næstliðnar 3 vikur, bæði að stormum, úrkomum og enda töluverðum frostkuldum. Heyskapurinn varð því fremur endasleppur, og ekki sem affara bestur að lokunum, en þó svo að flest allir munu nú byrgir af góðum heyjum eftir þetta blessaða sumar.
Þann 23.nóvember segir Þjóðólfur nánar af slysinu hörmulega á Berufirði, eftir bréfi sem ritað er í Papey 29.september:
Þeir fóru frá bújörð assessors Weywadts, Teigarhorni, er liggur viku sjávar fyrir innan Djúpavog, og ætluðu að sigla út í kaupstaðinn. Var hægur norðanvindur og gott leiði úteftir firðinum; þegar þeir voru komnir nokkuð út með ströndinni, sáu menn af landi, að báturinn lítið fjögramanna far sökk allt í einu að framan, og stóð það ekki á svipstundu, að hann var allur sokkinn. Ekkert hefir annað fundist enn þá af mönnunum og bátnum, nema nokkrar húfur, segl, möstur og árar; hund, er verið hafði með í bátnum, hefir rekið dauðan á land.
Dagana 16. og 17. [september] var hér á Austfjörðum ofsaveður svo mikið á austan, að gamlir menn muna eigi annað eins af þeirri átt. Sjórinn umhverfðist og rauk allur sem þyt mjöll. Misstu margir hjalla sína með öllum sumarafla í, víða tók og hey manna og báta í loft upp, og sást nálega ekkert af síðan. Með ótta og kvíða biðu menn eftir að frétta af hákarlaskipunum (sem nú eru 4 á Berufirði, 3 eign þeirra kapt. Hammers og stórkaupmanns Melchiors í Kaupmannahöfn, og 1 eign assessors Weywadts), er þá voru öll úti; en nú eru þau öll komin til skila, meir eða minna brotin. Hafði þremur þeirra reitt mjög illa af í ofviðrinu. Eitt þeirra, Else", skipstjóri Kristján Jónsson bróðir Jóns þess, er fórst 22. þ.m. og getið er um hér að framan, missti einn mann útbyrðis, Arnbjörn nokkurn Rögnvaldsson, og náðist hann eigi aftur. Hafði seglfestan (ballasten) og allur farmurinn losast í Else" og kastast í aðra hliðina, svo skipinu sló flötu og lá þannig lengi, uns það reisti sig við aftur. Eins var það og með hin tvö skipin, Ingolf" er hinn alþekkti dugnaðar- og heppnismaður Jóhann Malmqvist stýrir og Þórdísi", skipstjóri Keyser, að allur farmurinn losnaði í þeim og kastaðist til, svo þau voru í miklum háska stödd. Af Þórdísi " hafði 2 eða 3 menn tekið út, en varð náð aftur. Skip þessi hafa öll brotnuðu mjög ofansjávar; og nálega öllu því, sem á þilfarinu var, bæði lausu og föstu, hafði sjórinn sópað burt; þau munn því naumast verða gjörð almennilega sjófær, fyrr en efniviður kemur frá Kaupmannahöfn til að bæta áföllin. Fjórða skipið, Bonnesen", skipstjóri Einar Jónsson, það er eign assessors Weywadt, varð best reiðfara skemmdist lítið.
Norðanfari birti þann 21.desember bréf úr Strandasýslu, dagsett 25.september:
Tíðarfarið hefir verið hið blíðasta og besta síðan í 8.viku sumars [seint í júní], þó vorið væri kalt, varð þó grasvöxtur með mesta móti og nýting á heyjum hin besta, og eru því hey með mesta móti og eftir því góð að sjá, 4 vætudagar hafa verið allan þennan sláttartíma, og þó ekki nema smáskúrir.
Þjóðólfur segir þann 22.október af skiptapa í september:
Mánudag 16. [september] lagði kaupafólk, 4 karlar og 4 konur, eður samtals 8 manns frá landi frá Keiksbakka [Keisbakka] á Skógarströnd, á sexrónum báti og ætluðu suður til heimila sinna í Eyrarsveit og máski í Neshreppunum; Formaðurinn var Finnur Bergsson úr Eyrarsveit, maður á besta aldri og röskur sjóliði; en af því hvorki var hann né neinn hinna kunnugur sjóleiðinni (af Skógarströnd þar út eftir), þá tóku þeir kunnugan mann til leiðsagnar, Benedikt frá Gerðey þar á Skógarströnd. Veður var hvasst af austri með rigningu, urðu þeir samt vel reiðfara allt suðurundir eður á móts við Stykkishólm þar sem Svartitangi heitir og sást um það leyti til bátsins þaðan úr Hólminum; þar við Svartatanga kvað leiðir skilja (eftir því hvort maður vill lenda í Hólminum eður halda lengra út eftir), og hafði þá veðurstaðan verið sú, að annaðhvort hefði orðið að beita upp í nokkuð til þess að komast fyrir tangann, eður halda undan og inn á Maðkavík, og nálægt eður innundir Bauluhólma. Þegar skömmu síðar var farið til að gá að hvað bátnum liði, sást hann á hvolfi rétt hjá Bauluhólma og einn maðurinn á kjöl; var þá undið við og farið þangað en eigi varð öðru bjargað en þessum eina manni, það var leiðsögumaðurinn Benedikt, en hinir átta höfðu drukknað allir þá þegar; rak þá 4 kvenmenn nokkru síðar, en allir 4 karlmennirnir voru ófundnir er síðast spurðist. Aftur rak mestallan farangurinn þegar á land, og hafði verið seldur við uppboð.
Þann 26.nóvember birti Tíminn bréf af Austfjörðum, dagsett 14.október:
Tíðin hefir nú verið stirð næstliðinn 3 vikna tíma, sífelldir rosar annað slagið með frostkuldum og úrkomum, heyskapurinn varð endasleppur, en þó allmikill og góður, fiskiaflinn sem var ágætur í sumar, fór nú að réna eftir miðjan september og hefir hann nú um tíma verið mjög reytingssamur, auk þess sem ógæftirnar hafa spillt fyrir.
Tíminn segir 15.nóvember frá slysi við Brákarsund, eftir bréfi úr Mýrasýslu, dagsett 27.október:
[Úr Mýrasýslu, 27.október]: Ég fór úr Rvík þann 13. og upp á Akranes, var þá hroðaleiði, hvass og regn; þann 17. á fimmtudag fórum við af Akranesi, og voru í samflota 4 skip, var þá gott leiði fyrst á sunnan, en hvessti þegar upp á daginn leið, svo þegar við komum inn hjá Höfn, var komið sterkviðri, og undan Þjófaklettum gátum við ekki siglt nema með litlum lappa af framseglinu yfir á Brákarpoll. Þar urðum við að liggja nærri því 5 tíma til að bíða eftir aðfallinu; á þessum 4 skipum voru formenn: Björn hreppstjóri á Svarfhóli, Runólfur Jónsson á Haugum, Jón Jónasson frá Arnarholti, og Jón nokkur frá Brennistöðum í Borgarhrepp; hann bar af skipi sínu þar í Borgarnesi. Kl.4 1/2 fór Jón Jónasson af stað undan eyjunni, þar höfðu skipin legið, því hvergi var hlé annarstaðar; lagði hann út suður sundið; sundið er örmjótt og ákafur straumur í því, en stórviðrið sama, var þar öldugangur mikill og tíður og sjókrappur mjög, þó gekk okkur vel þar út og settum upp segl, þegar við komum skammt út úr sundinu, sigldum síðan tafarlaust upp í Norðurá, var þá um dagsetur, er við lentum. En þegar Jón var að seglbúa, lagði Runólfur á stað og Björn þegar á eftir, en í því Runólfur kom út í sjálft sundið, nálægt því er kaupskip hafa legið, sló skipi hans flötu, fyllti þegar og fór um, örstutt var í land, en landtaka ill, klettar og sjógangur mikill; 9 menn voru á skipinu og komust 5 þeirra á kjöl, og gátu haldið sér þar uns skipið bar að klettunum, og brotnaði það þar i spón, en þessir 5 gátu þó bjargað sér upp á klettana, einn kvenmaður náðist á floti, en 3 drukknuðu, formaðurinn Runólfur Jónsson frá Haugum, Jón bóndi Magnússon frá Arnarholtskoti og yngisstúlka Vilborg Melkjörsdóttir frá Hreðavatni. Lík Runólfs sáluga fannst um nóttina; var Björn á Svarfhóli þar nóttina yfir til að bjarga farangri þeim er náðist, og mun hafa náðst mestur hluti þess er á skipinu var, en margt skemmt; síra Stefán í Stafholti átti skipið. Lík stúlkunnar fannst nokkru síðar, en lík Jóns er ófundið enn. Þannig tókst þetta til bæði mæðulega og slysalega; var mikil eftirsjá að Runólfi sáluga, því hann var bæði góður bóndi, og einhver með greindari leikmönnum í þessari sýslu.
Nóvember. Hlýindi um miðjan mánuð, en annars fremur kalt og tíð talin fremur stirð. Þó var óvenjuþurrviðrasamt bæði austanlands og vestan.
Eftirfarandi frásögn er í Norðanfara 11.desember. Þar segir E.E. Möller verslunarstjóri frá hrakningum sem enduðu með skipskaða snemma í nóvember:
Skonnortbrigg Frederik" sigldi héðan af höfninni 1.nóvember í hálfslæmu veðri og komst heppilega héðan, því að þann dag lagði hér allan Pollinn. Þann dag komst skipið ekki lengra en út fyrir framan Glæsibæ, og lá það þar næsta dag í hríðarveðri. 3. nóvember fór skipið frá Glæsibæ, og komst út að Hrísey þann dag og lagðist þar. 4.nóvember var komið bjart veður og suðvestan froststormur; lagði þá Frederik" frá Hrísey og fékk besta leiði út fjörðinn. Sama dag kl.4 e.m var skipið komið út hjá Grímsey, gekk þá vindur til suðausturs og fór að hvessa, var svo haldið til hafs um nóttina. 5.nóvember var komið austan hvassveður með hríð, svo minnka þurfti öll segl því að alltaf herti veðrið og stórsjóinn, svo að næsta morgun þann 6. var búið að binda öll segl nema aðeins tvö alrifuð; jókst alltaf ofviðrið og eins ósjórinn, svo stöðugt gekk yfir skipið og færðist vindur þá til norðausturs. Kl.5 sama morgun kom brotsjór einn mikill, sem gekk yfir skipið, fleygði því á hliðina, mölvaði 15 stólpa og alla háreiðina niður við þilfar framan frá kinnungi, aftur fyrir miðju og stórseglsásinn, reif um þvert stórseglið, sleit skonnortuseglið frá mastrinu, mölvaði eldhúsið og tvær vatnsámur, sleit lausan stórbátinn, sem þó ekki skolaði út, molaði í sundur pramma, sem var á þilfarinu, og allt sem ofan þilfars var skolaði út eða brotnaði. 7.nóvember var sama ofveður með stórhríð, svo ekki réðist við neitt, nema láta reka; kl.7 um kvöldið gekk yfir skipið annar brotsjór, sem mölvaði eldhúsið að nýju, það sem búið var að lappa upp á það og reif stagfokkuna. 8.nóvember um morguninn fór að lægja veðrið og sáu þá skipverjar, að þeir voru útaf Skagafirði, og réðu þá af að halda inn á Hofsóshöfn, sem var nst, því eftir brotið á stórseglsásnum gátu þeir ekki stjórnað skipinu til að beita neitt nema halda undan veðrinu. Kl.3 e.m. sama dag, komst Frederik" inn að Hofsós og lagðist þar á vanalegri skipalegu. Var þá strax tekið til að gjöra að skipinu sem best mátti og efni voru til, og var starfað að því verki með miklum dugnaði, og af því veður var gott þá dagana, var búið að gjöra að öllu þann 12. um kvöldið, og var þá skipið alveg seglbúið og átti að leggja af stað snemma næsta morgun. En um nóttina milli 12. og 13. gekk upp suðvestan ofsaveður, voru þá látin út bæði akkeri og festar gefnar út á enda. Kl.3 um nóttina hrökk í sundur önnur festin og tók þá skipið að reka með hinu akkerinu, allt til þess grynnsla kenndi, voru þá höggvin möstrin og jafnframt, var skipið strax orðið svo laskað, af að höggva niðri á grynnslunum, að sjór var genginn upp í lestina. Komust skipverjar í land um morguninn, með því að skríða á mastrastúfunum. Skipið bar að landi mitt á milli óssins og nafarinnar við Hofsós.
Þann 8.janúar 1873 birti Norðanfari bréf rituð í nóvember:
[Barðastrandarsýslu, 6. nóvember]: Síðastliðið sumar, var hér á Vesturlandi, eins og víst hvervetna, óminnilegt að veðurblíðu, og yfir höfuð sem menn segja, veltiár til lands og sjóar; heyafli hér með mesta móti og nýtingin þar eftir. Þessi góða tíð hélst til þess 1. október; en síðan til þess í dag fremur stirð, norðan með frosti og nokkurri snjókomu. Heilsufar manna hefir einnig verið með besta móti;
[Steingrímsfirði 9. nóvember]: Eftir að ég skrifaði yður, varð veturinn hér æði harður, og vorið fram eftir bætti ekki um, urðu því slæm höld á fé manna, og sumir misstu mikið og unglambadauðinn varð fjarskalegur. Málnyta varð sárlítil, mun það mest hafa verið af vatnsleysi. Hafís lá hér á öllum Húnaflóa, samt varð nokkur afli á Gjögri, og bestur vegna þess, að hákarlinn var allur fluttur í land fram á miðjan maímánuð. ... Næstliðið sumar var hér grasvöxtur og nýting á heyjum hin besta og heilsufar manna eins. Votengi spratt best, en þar grunnt var ofan á grjót, brann grasið af til stórskaða; fífa spratt hér svo mikil, að ég held hún gjöri heyin óæt og kenni fé að éta af sér ullina. Í ágúst strandaði hér frakknesk fiskiskúta frá Paimpol á skeri við Steingrímsfjörð, ... Síðan í 23. viku sumars hafa verið sífelld illviðri og snjóhríðar; skurðarfé reyndist í haust mjög rýrt; heimtur voru með versta móti, sem kennt er hinni góðu tíð og vatnsleysinu, þar sem margir lækir og enda smáár þornuðu upp. ...
Tíminn segir af tíð í pistli þann 15.nóvember:
Árferði hér sunnanlands hefir verið síðan blað þetta kom út 16.[október] á þessa leið: Oftast norðanátt með stormum, og frost nokkur seinni hluta októbermánaðar, en með þessum mánuði og það sem af honum er, hafa frostin orðið meiri 56° og snjókoma nokkur verið til sveita en tók upp aftur, 14.15. þessa mán. Sjógæftir hafa sjaldgæfar verið sökum storma það sem af er haustvertíð þessari, en fiskast hefir nokkuð af þorski og stútungi þá gefið hefir að neyta þess.
Tíminn segir þann 27.nóvember frá skipbroti á Bíldudal - dagsetning óviss:
Úr bréfum er bárust með vestanlandspóstinum fréttist að jaktin Trende Brödre frá Bergen, er færa átti vörur til Hákonar kaupmanns á Bíldudal, og mjöl hingað í Rvík til norska bakarans, hafi slitið upp á dögunum af ofviðri á Bíldudal, og rekið í land; sagt er að brotnað hafi gat á hana, og mjölið að líkindum farist, en vörur kaupmannsins voru allar áður í land komnar.
Norðanfari birti þann 21.desember úr bréfi úr Húnavatnssýslu, dagsett 30.nóvember:
Veðuráttan um fjártökutímann svo ill, að oft mátti ófært heita, einkum yfir ár, og sumir höfðu lofað fé til Englendinga, þó að vísu sá fastsetti tími væri útrunninn, áður en fjártakan var úti. Eins og annarstaðar var æskilegasta heyskapartíð hér í sumar og grasvöxtur góður, jafnvel á sumum stöðum eins og í fyrra. Á stöku stöðum einkum fram til dala, varð vart við grasmaðk, helst í úthaga, en ekki varð það til stórskaða, en meiri skaði varð að því, hvað brann af harðvellistúnum, með því þau unnust líka seint vegna þurrkanna og kvefveikinda, sem þá voru hér mjög almenn. Heyskapur varð yfir höfuð í betralagi og hey almennt meiri og betri en nú hefir verið í mörg ár. Með október fór tíð að verða mjög óstöðug með talsverðum fannkomuíhlaupnm og blotum á víxl. 2. október varð hér sumstaðar til sveita 12 stiga frost á Reaumur [-15°C], og daginn eftir 10 [stig]. Fyrstu vikuna af þessum mánuði (nóvember), voru oftast norðaustanhríðar, og kom mikill snjór, en 3 og 4 vika vetrar var besta tíð oftast þíður. Nú er aftur komin nokkur snjór. Mjög hefir verið storma- og ógæftasamt, svo víða hefir haustafli orðið rýr, en þó fiskur fyrir þegar róið hefir verið.
Norðanfari birti þann 21.desember úr bréfi úr Skagafirði, dagsett 4.desember:
Tíðin er stirð með slögum, eins og mun vera fyrir norðan, og gæftaleysi afleitt fyrir Sléttuhlíð; hefir svo verið jafnaðarlegast í haust, að gefið hefir á sjó aðeins einu sinni í viku, helst á mánudögum og þó eigi í hverri viku, því er afli hér mjög lítill og ekki meiri en um 200 og þar fyrir innan. Aftur er á Höfða kominn hlutur á 6. hundrað og viðlíka á öðrum stað á Höfðaströnd. Aðeins hefur rekavart orðið, en eigi að neinum mun.
Þjóðólfur segir af skipbroti og tíð í pistlum þann 7.desember:
Einhvern síðustu daganna [í nóvember] hafnaði sig á Ísafirði skipið Louise, nálega 30 farmlesta, skipstjóri Rasmussen, frá Kaupmannahöfn eftir 89 vikna útivist. Skipið var eign Clausen generalkonsúls og stórkaupmanns, hlaðið kornvöru, kaffi, sykri og annarri nauðsynjavöru, er skyldi vera til vetrarforða við verslanir hans á Ísafirði og Stykkishólmi. Skipið lagðist fyrir akkerum inni á Pollinum", en hann var þá með allmiklum ískrapa, er setti í hrönn utanum skipið og varð allt samfrosta hina fyrstu nótt; en er frá leysti, daginn eftir (líklega af þey er þá gerði eður dró úr frosti), og tók að brotna utan af skipinu, losaðist þar með tjöruverks-diktingin" milli byrðingsplankanna, á ýmsum stöðum, svo skipið tók þegar mikinn leka, og gekk svo sjór í lestina, að við ekkert varð ráðið, áður en nokkru yrði upp skipað, heldur tók skipið mjög að sökkva. Var þá af ráðið að gefa upp skip og farm sem annað strand, og var allt selt við opinbert uppboð 2. [desember] fyrir nálega. l0.000 rd. allt til samans; ...
Tíðarfarið frá því um höfuðdag og fram til jólaföstunnar hefir mátt heita gott að vísu til landsins yfir höfuð að tala; eiginleg illviðri óvíðast, og því síður hörkur eða umhleypingar; haustið og fyrstu 6 vikurnar af vetrinum hefir verið einstaklega þurrt og rigningalaust, milt og frostvægt nálega yfir allt; október og nóvember talsvert yfir eða +0°R að meðaltali. En snjóasamt víða um útsveitir norðanlands, og stormasamt yfir allt með köflum. Eftirtektarvert er því hve svo einstaklega hagstætt sumar sem þetta er leið, mátti kalla yfir allt land, varð erfitt og hjáleitt í einstökum héruðum, og batt þar endahnútinn á með verulegum spilli þess bjargræðis, sem í þeim héruðum eru sérstakleg og til stórra bóta. Ofsa-austanveður af austri og landsuðri eyddu eigi aðeins fílungatekjunni í Vestmanneyjum og í Mýrdalnum meir en til helminga við vanalega eftirtekju, heldur skóku þau veður svo villikorn eður melstöngina í Skaftafellssýslu vestari einkum um Álftaver og Meðalland, af því nú var axið einstaklega vel þróað sakir hins óvanalega sumarhita, að þegar kom að uppskerunni, þá var burtu skekinn víðast hvar, meira en 2/3 kornsins, og það svo, að um hina efri bæi í Álftaveri mátti engi heita eftirtekjan þegar til melskurðarins kom. Það var og eftirtektavert með héruðin í Vestur-Skaftafellssýslu milli Skeiðarársands að austan og Steigarháls eða einkum Reynisfjalls að vestan, að þar náðu menn mjög litlu undan af töðu sinni fyrr en komið var fram um 20. ágúst, svo þurrt og hagstætt til töðuverkunar og annarra heyanna sem sumar þetta reyndist annarstaðar yfir land allt; en þá tóku við þar eystra stormveður þau, er fyrr var minnst, og voru þau svo afarhörð, að röskir menn austan yfir Mýrdalsand, urðu að liggja þau af sér hér megin sandsins, um 3 daga, af því þeir treystust eigi að komast austur yfir í móti, rétt sem vetrarbylur hefði verið hinn harðasti. Álíka snjóhríð, með ofsa-austanveðri, skall á þar eystra 1. dag [nóvember]; kyngdi þá niður svo miklu snjófergi þar um byggðir og Mýrdalsand, þann dag og 2 dægrin næstu, að menn er ætluðu vestur yfir sandinn með fé, og svo öðrum héraðsmönnum þótti alófært yfir sandinn að komast hinn næsta 1/2 mánuð sakir ófærðar; en fé fennti víða um sveitirnar fyrir austan sandinn, og var verið að grafa það upp úr fönn smámsaman fram undir miðjan [nóvember], flest að vísu tórandi er það var fundið, en margt þá ófundið. Bóndinn á Strönd í Meðallandi (nýbýli frá Rofabæ) missti þá í bylnum milli 20 150 lamba og eitt hross er allt hrakti í Kúðafljót og fórst þar, en fljótið sjálft rak þá saman með helluís þá eina nótt (milli 1. og 2. [nóvember]) og munu þess engi dæmi, síst svo snemma vetrar, því það er allra vatna tregast að leggja og ekkert vatn, svo menn þekki að ísinn þeyi af eður bili jafn treglega, sem á Kúðafljóti, enda hefir í almælum verið þar um sveitir, að lagnabarís á Kúðafljóti þyldi 1/2 mánaðar þey jafnvel þótt fram á útmánuði væri komið.
Desember. Kalt í veðri, en ekki miklar úrkomur. Tíð almennt talin óstöðug.
Þann 8.janúar 1873 birti Norðanfari úr nokkrum bréfum sem rituð voru í desember auk frétta úr póstferð í sama mánuði:
[Eiðaþinghá 6. desember] Það er merkilegt að ég hefi hvergi séð þess getið að í sumar 21. ágúst heyrðist bæði hér á hæ og víðar hér nálægt dynkir og ógurlegir brestir; þeir voru tíðastir um morguninn, og taldi ég 30 frá því kl.9 til 11 f.m. Brestirnir virtust að vera hér um nónstað og leiða til útsuðurs, en það er héðan í stefnu á öræfin inn af Fljótsdal. Menn töldu víst, að þetta væri eldgosabrestir, en ekkert hefir heyrst um það meira".
[Breiðdal 12.desember] Með allraheilagramessu setti niður stórsnjó, en hann tók aftur upp að mestu eftir Marteinsmessu [11.nóvember], því þá gekk í þíður og rigningar nokkra daga, en eftir það fór tíðin að kólna með snjókomum og blotum; eftir aðventu varð haglaust fyrir allar skepnur, er síðan hafa staðið við gjöf.
[Reyðarfirði 13. desember]: Veðrið hefir verið mjög bágt þetta haust og það sem af er vetri, stöðugt norðaustanátt og norðan með stormum og ógæftir einstakar, en þá sjaldan hefir verið róið, er afli víðast, helst utarlega á fjörðum, Snjólítið hefir verið og jarðir allstaðar til þess fyrir hálfum mánuði síðan, gjörði þá krapahríðar og frost á milli, varð láglendi allt gaddað og síðan setti niður snjó, svo nú má heita jarðlaust í hálfan mánuð yfir allt Austurland. Ef það helst lengi við, mun sneiðast um heybirgðir manna þótt miklar þættu víðast í haust.
[Úr öðru bréfi úr Reyðarfirði, 15.desember] Ég man aðeins eftir 8 logndögum í 12 vikur.
[Fljótsdalshéraði 14. desember]: Hausttíðin var mjög óstillt og gæftir á sjó mjög bágar, svo haustaflinn varð lítill og víða enginn, þó afli væri fyrir. Oft rigndi býsna mikið og ýmist snjóaði. Í byrjun þessa mánaðar snjóaði mikið, og er nú orðið haglaust að öllu eða mestu um allt Austurland, nema ofarlega á Jökuldal. En ég hefi frétt úr mörgum sveitum. Í dag er að byrja þíða hvað mikið sem úr henni verður".
[Þann 22.desember 1873] kom norðanpósturinn hingað aftur að sunnan. Skiptapi hafði orðið á Hrútafirði 10.[desember] með 5 manns, er voru að flytja sig heim úr fiskiveri austur yfir fjörðinn, ... 4. desember voru 4 menn á Kjalarnesi staddir sjóleiðis í Reykjavík, og tóku að sér að flytja 2 menn upp á Akranes, en þaðan á heimleiðinni höfðu þeir drukknað, er haldið þeir hafi farist í svonefndu Músarsundi. Morguninn eftir fannst skipið rekið ásamt 2 árum og spriti fram á Skipaskaga á Akranesi. Þá er Níels póstur lagði héðan austur um næstliðin mánaðamót nóvember og desember var komin svo mikil fönn, að hann varð að fara í kring Tjörnes. Hann hafði hest í eftirdragi, er sleit frá honum í svonefndum Hallbjarnarstaðakambi og hrapaði þar ofan í fjöru til dauðs, og aftur á Hólssandi var Níels nærri því búinn að missa annan hest af ófærð og klakabrota, en þá er hann kom að Hofteigi fékk hann þar gisting og lét farangur og reiðtygi sín nema pósttöskuna inn í skemmu þar á hlaðinu, en seint um kvöldið þá út var komið, var skemman brunnin að mestu með því sem í henni var til kaldra kola. ... Níels póstur kom aftur að austan hingað 26.[desember] hafði hann alla leiðina að austan fengið illviður og illkleyfa færð.
Norðanfari segir af tíð þann 11.desember:
Yfir höfuð hefir veðuráttan hér nyrðra alltaf verið óstillt og oft úrkomu- og hríðasöm, og nú er víða komin mikil fönn, og hagskart sumstaðar vegna harðfennis og áfreða.
Norðanfari birti þann 26.febrúar 1873 bréf úr Hornafirði, dagsett 20.desember:
Héðan er ekkert að frétta nema góða heyjatíð til loka og næg hey, en síðan í septembermánaðarlok, hefur alltaf verið stormasöm og óstöðug tíð. [Þ.2.nóvember] kom hér mikill fjárskaðabylur; fennti þá víða fjölda fjár, því frost og fannkoma var óskapleg og óvanaleg hér um þann tíma árs, en til allrar hamingju stóð það ekki nema eitt dagsmark. Flest féð er fundið, sumt dautt og sumt lifandi.
Norðanfari segir almennt um tíð þann 21.desember:
Síðan að seinasta blað Nf kom hér út (11.þ.m.) hefur veðuráttan verið tilkomulítil nema 17.þ.m. að töluvert rigndi, en daginn eftir frost, svo nú er talsvert lakara til jarðar en áður. Hvergi er þess getið, ... Maður var hér af Flateyjardal 18. þ.m. er sagði að þar væri búið að gefa fé inni í 7 vikur. Einnig sagði hann að þar hefði nýlega orðið vart tveggja jarðskjálfta og að annar þeirra hefði verið býsna harður.
Tíminn segir af veðráttu 31.desember:
Síðan að Tíminn kom út seinast, hefir veðuráttufarið verið á þessa leið: oftast norðanátt með frostum, er mest hafa orðið 11°. Kólga og norðanstormur var um hátíðina, en mestur á Þorláksmessu, 2. og 3. í jólum. Í árbókum 19. aldar þessa lands, má telja ár þetta sem nú er að renna út, eitthvert hið besta og hagfelldasta í flestum greinum, af þeim 72 árum, sem af henni eru liðin í skaut eilífðarinnar.
Þjóðólfur segir af tíð í desember í pistli þann 3.janúar 1873:
Veðráttan hefir allan [desember] verið köld fremur, og snjóa sem úrkomulaus, en fjarska norðanstormar hér dagana 26.-29.; síðastnefndan dag framanverðan var hér snarpast frostið 10°R [-12,5°C]. Útjörð öll mjög veðurbarin og hæst, einkum þar sem berlendi er og hátt liggur; nú komin jarðbönn.
Tíminn birti þann 3.maí 1873 bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett á nýársdag:
Nú sem stendur er hér fremur snjómikið og jarðlítið, því mikil snjókoma hefir verið um öll jólin. Afli var hér inn á firði (Eyjafirði) fast fram að jólum, því síld fékkst alltaf til beitu á jólaföstunni.
Lýkur hér að sinni yfirliti hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1872.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Takk fyrir thetta.
Virkilega skemmtilegur fródleikur.
Magnad hversu mikid var ritad i blod á thessum tíma.
M.b.kv.
Sigurður Kristján Hjaltested, 22.8.2020 kl. 04:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.