30.7.2020 | 02:46
Af árinu 1869
Tíðarfar var mjög óhagstætt árið 1869 og kalt í veðri, janúar að vísu fremur hlýr, en óvenjukalt var í júlí, september og nóvember og kalt í febrúar, mars, apríl, maí, ágúst og desember. Meðalhiti í Stykkishólmi var aðeins 1,7 stig, en 3,2 stig í Reykjavík. Meðalhiti er áætlaður 3,5 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum - en mælt var við Ofanleiti þetta ár og þau næstu. Hafís var með mesta móti síðvetrar og hélst við land mestallt sumarið. Eitt af erfiðustu árum 19.aldar.
Í Stykkishólmi teljast 33 dagar sérlega kaldir og dreifast á alla mánuði nema janúar, október og desember. Að tiltölu varð einna kaldast dagana 5. til 9.apríl. Listi yfir alla þessa daga er í viðhengi. Enginn dagur varð mjög hlýr.
Úrkoma mældist 581,6 mm í Stykkishólmi, árið telst því þurrt þar. Janúar og febrúar voru þó nokkuð úrkomusamir, en óvenjuúrkomulítið var í október og nokkuð þurrt í maí og september líka.
Þrýstingur var mjög lágur í janúar og líka lágur í febrúar, en annars í meðallagi eða ofan þess, einna hæstur að tiltölu í mars, maí og ágúst. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi á nýársdag, 948,1 hPa, en sá hæsti þann 9.mars 1042.6 hPa.
Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum.
Janúar. Tíð þótti hagstæð og fremur hlýtt var í veðri, jafnvel svo að gróður tók við sér.
Baldur birti 24.mars úr bréfi úr Þingeyjarsýslu, dagsett 3.febrúar:
Tíðarfarið hefir mátt heita ágætt það sem af er vetrinum, hafa frost verið mjög lítil, en oft hlákur og þíðvindar, en aldrei komið stöðugar eða grimmar hríðar, síðan í haust í miðjum október, að hinir miklu fjárskaðar urðu á Austurlandi; hér í Þingeyjarsýslu urðu þeir óvíða tilfinnanlegir. Fram að nýári voru hér alls staðar nægir hagar fyrir sauðfé, og þá víða ekki farið að gefa fullorðnu fé, en síðan hefir að mestu leyti verið haglaust inn til dala og heiða, en auð jörð í öllum útsveitum. Menn eru því yfir höfuð lítið búnir að gefa af heyjum sínum, svo líkur eru til, að eigi verði hér almennur heyskortur í vor, ef skaplega vorar. Öðru máli er að gegna um bjargræði handa mönnum, því margt hefir orðið til að rýra það, einkum hin erfiða og óhagkvæma verslun; þó lítur ekki enn út fyrir, að stórkostlegt hallæri verði hér í ár, því kornmatur hefir allt af fengist til þessa tíma bæði á Húsavík og Akureyri, sem seldur hefir verið á 12, 14 og 15 rd. Fiskiafli var hér mjög lítill í sumar og haust, og því alls staðar mjög litlar fiskibirgðir.
Febrúar. Umhleypingasamt og kalt, sérstaklega þegar á leið. Nokkur snjór á jörðu, einkum norðaustanlands.
Séra Þórarinn í Reykholti segir frá jarðskjálftum í mánuðinum. Fyrst kl.3 síðdegis þann 5.febrúar, síðan kl.10 að kvöldi þ.7. og kl.11:45 [ekki lítill] og 12 þann 8. Enn voru jarðskjálftar þ. 21. kl.5 að morgni og kl.10 að kvöldi og þann 23. kl.8 að morgni og 10 að kvöldi. Þann 25.febrúar segir hann af fjársköðum í stórkafaldi og fannkomu af norðri og norðvestri.
Þjóðólfur birti þann 10.apríl frásögn af skiptapa og manntjóni í Vestmannaeyjum 26.febrúar, við styttum frásögnina nokkuð hér:
[Þ.25.febrúar] reru alls 17 skip úr eyjunum, og var eitt þeirra 4 mannafar, 4 þeirra reru norður fyrir eyjarnar, en hin 13 héldu suður með eyunni. En áður en öll skipin voru komin á fiskileitir, brast á ofsalegur stormur af vestri, og fylgdi þar með mesti gaddur. 3 af skipum þeim, er héldu norður fyrir eyjuna, gátu náð landi á Eiðinu, milli Heimaeyjar og Heimakletts; og gekk það slysalaust. Af hinum 14 skipunum komst eitt undir Ystaklett, sem svo er kallaður, og lá þar í skjóli við klettinn, þangað til kl. 3 um nóttina; þá slotaði storminum lítið eitt, og náði það þá lendingu með heilu og höldnu. Hin 12 skipin og báturinn komust nærri upp að höfninni, en urðu þá að láta undan síga og austur fyrir Bjarnarey, sem er hér um 1/2 [mílu] austur frá Heimaey. Í skjóli við eyju þessa lágu þau öll saman frá því mitt á milli hádegis og dagmála, allan daginn og nóttina eftir. Daginn eftir hélst stormurinn; en þá er fullbjart var orðið, var mannað eitt af skipum þeim, er landi höfðu náð deginum áður, með 22 hinum hraustustu mönnum, til að flytja þeim matvæli og hressingu. Tókst það og að skip þetta komst til Bjarneyjar; voru þá 2 menn látnir af þeim, sem úti höfðu legið um nóttina, af kulda og vosbúð. Skipverjar hresstust við sendingarnar, og með því að þá slotaði veðrinu nokkuð í svipinn, lögðu flest skipin á stað, til að reyna að ná landi, og tókst það 7 þeirra, auk þess sem sent hafði verið, en 3 urðu að hverfa aftur til Bjarneyjar, sökum storms og andstreymis; var þá eigi um aðra leið að velja en um brimboða, er Breki er nefndur. Tvö skipin komust austur fyrir Bjarnarey aftur, en hið 3., er síðast fór, sexæringur, er nefndist Blíður, fórst þar á boðanum, og drukknuðu þar allir skipverjar, 14 að tölu. 1. formaðurinn hét Jón Jónsson, hafnsögumaður þar á eyjunum, 26 ára; ... Við manntjón þetta urðu þar á Vestmanneyjum 6 ekkjur, en 8 heimili forstöðulaus. Þau skip, sem lágu kyrr við Bjarnarey, og þau, sem aftur hurfu og af komust, lágu þar til kvelds. Gengu þá skipverjar af einu skipinu og bátnum, og á hin skipin, með því að þeir voru af sér komnir af kulda og vosbúð; og komust þessi þrjú skip loks til Heimaeyjar um kveldið. Týndist þannig þennan dag 17 manns, 3 skip og bátur; 2 báta að auk tók ofviðrið og braut í spón, og bát sleit enn frá hákarlaskútu, er lá á höfninni, og rak til hafs.
Norðanfari segir 28.febrúar:
Nú um tíma hefir veturinn verið með harðara móti, hvassviður og snjókoma, en sjaldan mikill gaddur; víða hér fyrir norðan Öxnadalsheiði, er sagt mjög jarðskart og flestir hestar komnir á gjöf hér og hvar hefir orðið vart við fjárpestina, en hún þó óvíða fækkað mörgu. Hvergi hér nyrðra er nú gelið um fiskafla, nema fyrir skemmstu lítið eitt á Skagaströnd, eða austanvert við Húnaflóa.
Mars. Ill tíð og köld. Óvenjumikill snjór um landið sunnan- og vestanvert.
Baldur segir 24.mars:
Veðuráttin á góunni hefir, að undanteknum fáum dögum í lok hennar, verið köld og stormasöm með mikilli snjókomu fyrri partinn, svo að víðast hér í nærsveitum mun vera orðið hagskart fyrir útigangspening, þó munu skepnur víðast hvar í góðum holdum. Sunnan úr Garði og Keflavík spurðist fyrst fiskiafli 5. þ.m. varð þar þá vel þorskvart í net; í Höfnum höfum vér frétt, að um sama leyti hafi aflast mest 13 í hlut af þorski, en höfum eigi síðan haft neinar áreiðanlegar fréttir þaðan. Í Njarðvíkum, Vogum og á Vatnsleysuströnd aflaðist allvel í net 17. þ.m. og höfum vér helst heyrt þess getið, að Ólafur bóndi Guðmundsson frá Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi hafi aflað 220 þorska í 6 net eftir nóttina. Eftir bréfi af Eyrarbakka dags. 9. þ.m. öfluðu þar 3 skip vel hákarl, þar á meðal skip G. Thorgrímsens 26 að tölu; sömu dagana varð þar og fiskvart, en það mun mest hafa verið ýsa. Síðar höfum vér og frétt þorskafla úr Þorlákshöfn austur. Hér aflaðist fyrst 20. þ.m. á færi 13 í hlut af stútungsfiski, en lítt vart í net, og eru nú flestir héðan komnir suður í veiðistöður. Hafa menn nú allgóðar vonir um fiskiaflann.
Í vestanveðrunum fyrri hluta þ.m. urðu fjárhrakningar víða á Mýrum og vestur þar. Á sex bæjum á Mýrum hafði fennt nær allt fé, og á einum þeirra var, af 300 fjár, 60 ófundið, hitt fannst á lífi. Úr Múlasýslum fréttum vér, að út líti fyrir almenna neyð þar eystra, og það svo, að fólk býður sig til vistar; sveitarþyngsli kváðu vera svo mikil, að sumir sé þeir hreppir, að sveitarómagi er á hverjum bæ og tveir víða.
Rétt fyrir miðjan mars varð Jóhannes Guðmundsson mýrasýslumaður úti við annan mann skammt frá Hjarðarholti í Stafholtstungum. Ítarlegasta frásögn af þessu slysi birtist í bréfi frá Stefáni Þorvaldssyni [hann var prestur í Stafholti] sem birtist í Þjóðólfi 15.maí. Ástæða þess að við birtum meginhluta hennar hér er sú að um öld síðar var þetta slys mönnum enn hugleikið í Borgarfirði og frá því sagt - þó enginn samtímamanna væri þá enn á lífi. Ritstjóra hungurdiska þykir það umhugsunarvert. En það sama á örugglega staðbundið við um fjölmörg slík óhöpp um land allt, þau lifa enn á vörum fólks, ættingja og annarra í heimabyggð, þó samtímamenn séu löngu látnir.
Miðvikudaginn, þan 10. [mars] næsta dag eftir strand-uppboðið" á Vogfjörum á Mýrum lögðum vér upp frá Vogi 9 saman. Helgi hreppstjóri Helgason í Vogi, sem leiðbeindi þeim skipherra O.W. Nilsson og aðstoðarmanni hans Hinr. Siemsen, kaupmannssyni úr Reykjavík, Einar Zoega verslunarmaður úr Reykjavík; Christofer Finnbogason bókbindari frá Stórafjalli, Runólfur Jónsson hreppstóri á Haugum, Jóhannes sýslumaður Guðmundsson, Guðmundur Jónsson óðalsbóndi, meðhjálpari á Hamarendum, og hér undirskrifaður. Meðfram af því, að svo margir urðu í samförinni, var í seinna lagi lagt upp frá Vogi téðan dag, nálega hér um bil kl.10. Veður var hægt, en þokuhula í lofti, og leist mér, en kannski fáum öðrum, loftsútlit heldur ískyggilegt; hafði ég orð á því strax að morgni og vildi mjög komast fyrr af stað, en auðið varð; ferðin var heldur þung, því snjór var allmikill á jörð, svo að víða varð að ganga, til að koma áfram hestunum og til að hlífa þeim. Þó gekk ferð allvel hér suður yfir hreppana, Hraunhrepp og Álftaneshrepp, og er það alllangur vegur; aðeins á einum bæ í Álftaneshrepp, Langárfossi, komum vér og fengum þar endurnæringu oss og hestum vorum; þaðan héldum vér allir samt að Hamri í Borgarhrepp, þar urðu leiðir að skilja, því leið sunnanmanna lá þá suður yfir Hvítá og um Andakíl, fór hreppstóri Helgi þá með þeim, og fékk sér til fylgdar Gunnar bónda Vigfússon á Hamri; en vér hinir 5 héldum áfram heim í leið og höfðum í huga að koma að Eskiholti sem þá var og í beinni leið vorri, mun þá hafa verið komið nálægt sólarlagi er vér skildum, var þá komið muggufjúk með hægð, en eftir því sem skyggja tók, jókst mjög að því skapi muggan og fjúkið, svo að bráðum sást næsta lítið frá, fyrir dimmu fjúki með afar-fannkomu; þannig héldum vér áfram, uns vér komum að Eskiholti, og þótt að þeir Runólfur og Kristófer væri báðir nákunnugir, ætlaði oss að veita erfitt að finna bæinn, enda var þá liðið að dagsetri. Að vísu ætluðum vér í fyrstunni að halda þaðan heimleiðis að Stafholti, en það þótti oss óráðlegt, þar myrkur var af nóttu og ófærðin og fannfergjan mikil, vér urðum þar því allir um nóttina, og gistum hjá Jóni hreppst. Helgasyni.
Morguninn eftir, þann 11.mars lögðum vér þaðan upp í sama eða líku veðri, nefnilega svælings-kafaldi á austan landnorðan, en hvorki var frosthart né hvasst, og með því nú var dagur, og nokkuð grillti til næstu kennileita, þótti ekki áhorfsmál að leggja upp og halda heim, enda gekk það allgreiðlega eftir því sem ófærðin var þó mikil, þeir skildu við oss hér á árbakkanum fyrir vestan túnið, Runólfur og Kristófer en vér hinir þrír, sýslumaður Jóhannes Guðmundsson og Guðmundur á Hamarendum komum hér heim kl.1 1/2 til 2. Þó að nú mætti að vísu sýnast svo, sem komið væri úr mestallri hættu, lagði ég þó innilega að þeim, sýslumanni og Guðmundi að setjast hér að, og hirða ekki um að keppa heim, þar hestar þeirra væru farnir að lýjast, en, með því svo langt var komið áleiðis, og þá langaði til að komast heim, vildu þeir alls ekki sæta því, enda var vel fært að Hamarendum, og þangað aðeins stutt bæjarleið, en veður var þó ískyggilegt þeir lögðu því héðan af stað hér um kl. 2 1/4, og munu hafa komið að Hamarendum nálægt kl.3 eða um nónbil. Fór þá veður heldur að versna og hvessa á landnorðan, en rofaði þó til á milli. Þar, á Hamarendum, hafði enn orðið nokkur viðdvöl; en nú vildi þó sýslumaður þó fyrir hvorn mun ná þeim; því hann var hinn ötulasti ferðamaður og heimfús mjög, eins og mörgum góðum mönnum hættir til, sem að góðu eiga að hverfa heima, og taldi þó heimilisfólkið á Hamarendum hann af því; og, með því nú voru ekki aðrir viðlátnir til fylgdar við sýslumann en Guðmundur sjálfur, þá lögðu þeir aftur af stað báðir saman hér um bil kl. 34, en frá Hamarendum að Hjarðarholti er löng bæjarleið; ófærðin var mikil, þar þunga snjókoma hafði verið allan daginn og nóttina fyrir. En þegar þeir, á að giska, hafa verið komnir á miðja leið, brast á einhver ógurlegasti harðneskju-norðanbylur með brunagaddi, sem engum manni sýndist unnt að rata í, eða komast áfram, og hélst hann alla þá nótt og næstu 2 daga, þó að lítið eitt rofaði þá einstöku sinnum.
Sunnudaginn 14. [mars] fengu menn fyrst að vita hvað skeð var, og eigi varð fyrr leitað; fannst þá sýslumaðurinn sálaður á sléttum flóa skammt út frá túni á Hjarðarholti, og stóð þar þá yfir honum úrvals- og uppáhaldshestur hans, er hann nefndi Bullufót og hafði hann staðið þar með hnakknum og beislinu í full 6 dægur [3 sólarhringa] í sömu sporum, sem maðurinn hafði helfrosinn hnigið niður af honum, og má þetta virðast undarlegt og því nær óskiljanlegt. En það er líka auðsætt, að fyrir þetta atvik fannst hinn framliðni svo fljótt, að hesturinn stóð hjá líkinu, sem annars hefði grafist í fönn.
(Viðbætt 21. dag apríl) Nú í dag, eftir nokkurra daga hláku og eftir margítrekaðar leitir, tókst um síðir að finna lík Guðmundar sáluga Jónssonar frá Hamarendum, undir 3 álna djúpum snjó skammt þar frá, í lækjarhvammi þeim, er hestur hans var áður fundinn 27. [mars] og var líkið auðsjáanlega umbúið og lagt til á vanalegan hátt, hvað eð bar ljósan vott um það að sú tilgáta er sönn, að sýslumaðurinn sálugi hafi þar búið um hann og ekki skilið við hann, fyrr en hann var liðinn; en farið svo sjálfur að brjótast til bæjar; enda var hann á nokkurn veginn réttri leið þar, er hann fannst, og átti aðeins skammt heim að bænum, eins og áður er sagt. ... Stafholti í apríl 1869. Stephán Þorvaldsson.
Norðanfari birti þann 15.apríl úr bréfi úr Árnessýslu, dagsett á pálmasunnudag, 21.mars:
Tíðin hefir verið hér góð langt fram í janúar, en síðan mikil harðindi, og svo er mikill snjór á Eyrarbakka, að varla mun hafa komið annar eins í 20 ár, eftir því sem ýmsir hér hafa sagt mér.
Norðanfari birti þann 27.júlí tvö bréf rituð í Skaftafellssýslu síðla vetrar (stytt hér):
[Hornafirði, 27.mars] Tíðin framan af vetrinum var æskileg, og menn muna varla svo góða veðuráttu hér um svæði; á þorranum sáust nær því útsprungnar sóleyjar, en sú blíða snerist brátt með góunni upp í grimmdarfrost og snjóbylji; frostharkan var framúrskarandi, og menn muna eigi eftir eins miklum gaddi til sjós í hafíslausu; hagarnir héldust við, en urðu eigi notaðir sökum grimmdanna, en aftur á móti eru hér flestir vel heybirgir, eftir hið blessaða sumar sem Guð gaf okkur.
[Öræfum, 28.mars] Vetrarveðurátta var hér góð fram á seinni hluta níuviknaföstu, en úr því hörð frost til í 3. viku góu, en síðan á Maríumessu hafa þau verið miklu vægari. Mestur snjór hefir komið hér í miðjan kálfa. Hér hefir verið mikið hart millum manna, og talsvert er farið að sjá á fólki, sem mest hefir að þessu síðan á þorra, lifað á vatnsblandaðri mjólk Á sumum heimilum þar sem eru 58 manns, hafa verið 5 merkur mjólkur; en nú er farið að aflast í Suðursveit svo þar eru komnir 200 fiska hlutir. Á þrettánda dag jóla (6.janúar) fórust hér 2 menn í snjóflóði, er áttu heima á Hnappavöllum ...
Apríl. Kalt í veðri, sérstaklega fyrri hluta mánaðarins, einnig var þá mjög hríða- og illviðrasamt.
Þjóðólfur segir af góðum afla í pistli þann 10.apríl:
Fiskiaflinn var allstaðar hér innan Faxaflóa fremur lítill alla dymbilvikuna [21. til 27.mars] nema í Inn-Garði og Leiru; þar aflaðist að sögn fremur vel í net fyrri part þeirrar viku, hafði þar og verið fremur góður afli vikuna fyrir pálma; hér á Seltjarnarnesi og Álftanesi varð almennt vel vart fyrir og eftir hátíðina, en bæði dró úr því þegar á vikuna leið, og svo kom um næstliðna helgi [3. til 4.apríl] þessi grimmdar-norðangarður, er gjörði það, að hvergi hér um veiðistöðvarnar varð litið að sjó eður vitjað um net fyrr en í fyrradag; vorn þá flest net full hér hjá Seltirningum og Reykjavíkurmönnum, og það svo, að nokkrir voru er eigi gátu innbyrt allan fiskinn; þeir voru og flestir hér mjög vel fiskaðir í gær ... Miklu minni spyrjast skemmdir og tjón á netum eftir ofveðrið 4.8. þ. mánaðar heldur en við var búist.
Norðanfari birti þann 2.júní bréf úr Múlasýslu, dagsett 9.apríl:
Allan fyrri hluta vetrarins var frosta- og snjóalaust að kalla, en því meiri krapa- og regnveður, svo fóðurpeningi veitti eigi af hjúkrun, auk þess sem hann var herfilega útleikinn undan áfellinu í haust. Með þorrakomu fór heldur að spillast, og í síðustu viku hans dreif mjög mikið og kom þá stór snjór á Úthéraði og í flestum Fjörðum, síðan hefir mátt kalla mjög harða tíð, því þó víðast hafi verið meiri og minni hagar, en fannfergja hvergi tiltakanleg, þá hafa frostin verið í frekasta máta og næðingarnir. Það er óefað, að hafísinn er hér á næstu grösum kringum Austfirði, ef eigi orðinn sumstaðar landfastur.
Þjóðólfur birtir þann 1.maí úr bréfum af Vestfjörðum:
[Af Vestfjörðum] 14. apríl: Ég hefi verið mikið á ferðalagi í vetur, meðal annarra þegar Jóhannes sýslumaður varð úti, og í þessu óttalega snögga áhlaupi, 1.apríl, var ég á Skaga í Dýrafirði. Hér urðu mikil slys af því áhlaupi, stúlka varð úti í Dýrafirði; hún var að rifa hrís skammt frá bænum; fé hraktist allvíða og fórst; á sumum bæjum á Langadalsströnd drapst svo að segja hver einasta kind. [Eftir öðru bréfi af Langadalsströnd, samtals um 400 fjár], enda hestar hröktust í sjó og drápust frá bæjum á Snæfjallaströnd. Fé týndist og í Arnarfirði og Dýrafirði, og sjálfsagt víðar, þó eigi sé enn af því frétt. Í miðjum mars varð maður úti á Gemlufallsheiði.
Þjóðólfur segir ísfréttir 1.maí:
Þegar póstskipið nú kom, leitaði það á að koma við á Djúpavog, en þótti þess engi kostur vegna hafíss, og varð svo frá að hverfa; eins var um Fylla. Neðanmáls við bréf af Ísafirði 14. [apríl] segir svo: Hafísinn fyrir öllum Húnaflóa, Ströndum og Vestfjörðum.
Baldur segir 8.maí:
Í ofsaveðrinu á sumardaginn fyrsta 22. [apríl] kollsigldi sig bátur á uppsiglingu á Kollafirði, og fórust þeir er á voru. Formaðurinn var Egill Ingjaldsson, giftur maður ungur og búsettur á Steinum í Selshverfinu. ...
Maí. Kuldatíð framan af, en síðan heldur skárra. Hafís olli vandræðum við Norður- og Austurland.
Séra Þórarinn í Reykholti segir að ís hafi lagt á vötn þann 25. og 26.maí.
Þjóðólfur birti þann 4.júní tvö bréf frá Ísafirði, dagsett í maí (nokkuð stytt hér):
[10. maí] Síðan ég skrifaði seinast, hefir ástandið og útlitið tekið hér skjótum og góðum bótum. Norðangarður nú í 3 daga með 56° frosti og hafís fyrir Djúpkjafti.
[19.maí] Fiskiaflinn helst enn hinn besti hér í Djúpinu, en lítill um alla Vesturfirðina. Hákarlaaflinn á fiskiskipunum hefir verið í meðallagi, frá 20 til 60 tunnur. ... Væri ekki hafísinn nú, mætti útlitið heita hið besta, en hann hefir af og til lokað Djúpinu og sett hroða inn um það, sem hefir skemmt lóðir og hindrað sjóferðir; en veðrið er einstaklega gott, bæði logn og sólskin dag eftir dag, og ekkert ský á loftinu hefir sést í hálfan mánuð eða meir, en 35° frost á hverri nóttu og norðanvindur einlægt úti fyrir; heiðar leysir því seint í ár. Fjörðurinn hér er varla skipgengur fyrir hafskip vegna rekíss, og skip Ásgeirs kaupmanns varð að halda inn á Súgandafjörð og bíða þar í 2 daga til að geta komist inn í Djúpið. Hann ætlaði fyrir Langanes en varð að snúa aftur suður fyrir vegna íss, og kom á Eskifjörð, þar var bjargarlítið. ...
Þjóðólfur segir í pistli þann 15.maí af ís eystra í apríllok (stytt hér):
Capit. lient. O. Hammer sást síðasta vetrardag [21.apríl] koma siglandi inn mynnið á Berufirði og furðaði menn á því að engi sást gufan upp úr Tomas Roys. Um þessa daga var hafíshroði inn á Djúpavog, svo að ekki var þangað skipgengt og hélt hann svo inn eftir firðinum sjálfum, lagðist við akkeri fyrir framan bæinn að Skála, og lét þar berast fyrir, þangað til ísinn tók burtu af höfninni, en þá fór hann út þangað rétt fyrir mánaðamótin. Svo stóð á þessu ferðalagi Hammers, að ekki hafði hann verið nema eina 2 daga um kyrrt eða við selaveiðarnar norður í Grænlandsísnum, og hafði hann á þeim 2 dögum aflað 1600 sela og útselskópa, þegar þá bar svo inn milli meginísa, að ísbjörgin læstu skipið milli sín, og marðist og bilaðist við það skipið, en einkum gufuvélin svo, að hún varð frá kyndingu til gagns, og var svo eigi annars kostur en að forða sér út úr ísnum sem fyrst, og gekk þó næsta treglega, eins og ferðin hingað suðureftir.
Þann 2.júní birti Norðanfari bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 17.maí:
Ég hefi ekkert að skrifa nema hörmungar einar héðan úr plássum; menn eru orðnir aflvana fyrir bjargarskort, sem er svo almennur, að enginn munur er á þeim efnaðri og fátækari; víða er farið að drepa niður fénaðinn, og þykir gott meðan hann hrökkur, en hvað tekur þá við aftur? Eða að fá um þetta leyti ársins viku stórhríðar með frostgaddi og hafísreki; enda hafa tapast í kringum Tjörnes hátt á annað hundrað grásleppunætur, sem búið var að leggja, og þetta hefir þá verið meir en 300 rd. virði; auk þessa töpuðust um 20 lágvaðir á Tjörnesi, Kelduhverfi og Axarfirði, og hver þeirra á 25 rd. eða allir 500 rd. 12 höfrungar náðust í hafísvök rétt við fjöruna utanvert í svokallaðri Baugastaðahöfn á Tjörnesi. 78 en eigi 100 marsvín náðist í vetur á einmánuði á Ásbúðum á Skaga.
Baldur segir af ís og neyð þann 28.maí:
Eftir skipi, sem nýkomið er af Austfjörðum er hafísinn sagður kominn nær því suður að Hornafirði, og að vestan er hann kominn á Ísafjörð og enda sunnar. Sem vænta má er því ekkert skip enn komið á Norðurland, og er neyðin þar manna á milli sögð almenn, eins hjá bestu óðalsbændum sem armingjum, og mun vera í ráði í Húnavatnssýslu, að senda hingað suður eftir korni, enda hefir og nokkuð verið sótt og talsvert pantað. Kuldar kváðu þar hafa verið miklir og að mestu gróðurlaust, en heyföng nóg og skepnur í góðum holdum, en bændur farnir að skera niður kýr, fé og hesta sér til bjargar.
Norðanfari segir 2.júní:
Hafísinn er nú sagður fremur lítill hér allstaðar úti fyrir frá Hornströndum og austur að Langanesi, og hvergi svo þéttur, að hann eigi sé siglandi eða róandi. Aftur er sagt haft af honum í Langanesröstinni, sem hvorki verði komist í gegnum né út fyrir, sem víst hamlar skipunum að austan. Hér á Eyjafirði er töluvert af hafís á vissum köflum, en aftur autt á millum. Þrisvar sinnum hefir hafísinn rekið nú í vor hér inn á Leiru, og er nokkuð af honum enn landfast þar, og allstaðar með öllum löndum meira og minna.
Þjóðólfur dregur saman vetrar- og vortíð í pistli þann 4.júní:
Hér var yfir allt land besta vetrarfar með frostleysum og marauðri jörð frá lokum októbermánaðar í haust, allt fram yfir 1.viku þorra; en þá spilltist veðrátta víða, og helst á Vestfjörðum, þótt eigi brygði til algjörðra harðinda, fyrr en frá fyrstu viku góu; þá kom snarpt harðindakast með mikilli fannkomu og jarðbönnum víðsvegar um landið, og helst um 3 vikna tíma, nema hvað vægara varð nokkuð um Skagafjörð, Borgarfjörð og Dali vestra. Með 1. viku einmánaðar brá til bata og fóru smám saman að koma upp jarðir, og hefir veðráttan að öllu samtöldu verið síðan heldur frostalítil, þótt einstöku íhlaup hafi verið, t.a.m. 10.ll. apríl, og aftur 6.10. [maí]. Fylgdi því íhlaupi hin mesta fannkoma austur um Skaftártungu og Síðu, svo að þar fennti fé að mun hjá sumum, og nokkur hross. En einstaklega úrkomulaus hefir veðráttan verið fram til síðustu helgi, og hafa þar með fylgt þyrringskuldar og einstakt gróðurleysi, er sjálfsagt hefir staðið af hafísnum, er legið hefir í allt vor fyrir öllu Norðurlandi, svo að hafþök hafa verið allt fram yfir miðjan [maí], úti fyrir frá Bolungarvík og austur og suður fyrir Langanes, og var hafís og rekís kominn fast inn á firði og orðinn landfastur, er síðast spurðist, allt austan frá Miðfirði og vestur fyrir Horn. Af þessu yfirliti má ráða það, sem er, að veturinn sem leið má heita góður vetur og hagstæður að veðráttunni til og öllu vetrarfari. Aftur hefir hann verið einn hinn erfiðasti og þyngsti að allri afkomu landsmanna, einkum til sveita.
Júní: Mjög kalt framan af og snjóaði oft að mun í byggðum, en eftir miðjan mánuð hlýnaði talsvert og góðir dagar komu nyrðra. Þá rigndi syðra.
Fyrrihluta júní voru tíð næturfrost í Reykholti.
Þann 10.júlí segir Þjóðólfur af skipskaða:
[Þ.12.júní] strandaði skonnertskipið Iris, 36 lestir að stærð, skipstjóri Mortensen, við Siglunes í Eyjafjarðarsýslu; hafði það legið á 11.viku í ís fyrir Austur- og Norðurlandi; hefir það sjálfsagt laskast svo í ísnum, að ákafur leki var að því kominn, þá er það loks komst að Siglunesi, svo að skipverjar sáu sér eigi annað fært, en hleypa þar í land; var síðan allur varningur, sem var töluvert skemmdur af sjónum, seldur við opinbert uppboð, ...
Baldur segir af veðráttu í pistli 16.júní:
Veðuráttin hefur til þessa í vor hér sunnanlands verið mjög þurr og fjarskalega köld, svo að víst má telja, að næturfrost hafi verið því nær á hverri nóttu, þegar frá sjó dregur og gróðurinn því mjög vesæll, svo að varla munu komnir kúahagar að gagni, og má því telja þetta vor eitthvert með þeim gróðurtregustu, er menn muna.
Norðanfari birti þann 27.júlí bréf dagsett í júní (mikið stytt hér):
[Eskifirði 7.júní]: Hér er allt fullt með hafís, en þó liggja hér 3 verslunarskip ...
[Fáskrúðsfirði 14.júní]: En áður en ég minnist á annað, trúi ég, að é varla geti sneitt hjá, að byrja á því, sem fram af mér gengur nú, en það er tíðin, því lengur sem líður framá, æ því meir versnar. Nú er hvínandi norðanstormur með snjóhraglanda, svo skepnum er illa vært; ég held ég megi segja, að ég muni ekki annað eins vor. Allur maímánuður, og það sem af er þessum mánuði hefir verið svona; hafísinn hefir ekki í margar vikur leyft skipum útsiglingu af fjörðum, margar frakkneskar duggur hafa brotnað í ísnum og sokkið með áhöfn, og hér hafa nú nokkrar vikur setið tepptar inni yfir 50 frakkneskar fiskiskútur, þó ísinn hafi stundum rekið út, hefir hann jafnóðum komið aftur. Grimmd náttúrunnar sýnist óseðjanleg, ekki dugir að reyna til um fiskafla. Svona ganga allir bjargræðis útvegir.
[Að austan (ótilgreint hvar) 18.júní]: Enn er hér stangl af hafís, Vorið hefir verið hér hart og kalt, mikil frost um nætur, en golu næður um daga, aldrei regn, einstöku sinnum krapaskúrir. Töluverð fönn um nóttina 12 þ.m, þá var fuglinn farinn að setjast. Æðarvörpin sýnast ætla að verða lítil. Æðarhreiður hefir fundist á hafísjaka, köld og slæm er sú bújörð. Hafísinn hefir legið inni síðan í apríl, og einlægt verið að hrekja út og inn, en aldrei frosið saman.
[Kelduhverfi 18.júní] Nú er fátt gott að frétta, tíðin er einstaklega bág, sífelldir norðanstormar og hríðar nema 23 dagar bærilegir á milli, þó yfirtæki næstliðna daga. Þann 14. þ.m. var stórhríð og lítið betra þann 15., nærri því jarðlaust orðið annarstaðar, hafþök af ís það til sést, mófuglar liggja hópum saman dauðir af hor og kulda, þetta munu dæmafá harðindi, því elstu menn muna ekki því lík. Fé er farið að falla, ærpeningur orðin horaður og gagnslaus, þó í góðu standi væri fyrir sauðburð, kýrnar því nær orðnar geldar, þar flestir eru nú og margir fyrir löngu síðan orðnir heylausir fyrir þær.
[Húsavík 23.júní]: Svo að þetta bréf verði eigi með öllu tíðindalaust, má ég geta þess, að 14 júní, var með aftureldingu brostin á snjóhríðar bylur, svo ill ratljóst var bæja á millum, hríðin með talsverðu frosti hélst til kvelds, þá birti hríðina en herti frostið, en þenna sama dag var bjartviðri fram í Kinn og gránaði ekki í rót, og var þar beitt út kúm, og enn heldur fram í Ljósavatnsskarði, víða króknaði rúið fé og á fremstu bæjum í Kelduhverfi tróðst það inn í hella og drapst þar.
[Árnessýslu 20.júní] Hér í Árnessýslu er komin landplága, er naumast mun hafa komið hér áður jafnmikil. Í Gnúpverjahrepp er kominn svo mikill maðkur í gras, að undrum gegnir. Ég hefi heyrt, að þegar gengið sé um túnin, þá komi vilsan upp yfir skóvarp af hinum drepna maðki, Maðkur þessi eyðileggur allt gras. Hið sama er sagt að eigi sér stað ofan til í Rangárvallasýslu. Það getur verið, að nokkuð sé ofaukið í fregnum þessum, en töluvert mun þó vera satt. Landlæknir dr. Hjaltalín var hér á ferð á trínitatis, og er hann á þeirri meiningu, að Ísland fari æ versnandi, og að jöklarnir séu alltaf að stækka.
Norðanfari segir frá 24.júní:
Síðan 17. þ.m hefir hér verið besta tíð, sunnanátt og leysing mikil til fjalla, svo öll vötn liggja á löndum uppi. 20. þ.m. var hér 1920 gr. hiti á R. í forsælunni [24-25°C] og 18 gr. um nóttina [22,5°C]. Dálítið hefir rignt, svo gróðurinn hefir á þessum fáu dögum tekið furðanlegum framförum. Eigi að síður er þó enn sagt allt fullt með hafís hér úti fyrir, frá Hornströndum í Rauðanúp, og líklegast þar fyrir austan suður með fyrir öllum Austfjörðum, eins og áður, því þótt nokkuð hvessi af landi úteftir fjörðum, eru utan fyrir landi kyrrur og logn, straumarnir ráða líka oft meira ísnum en veðrið. Seinast þá fréttist af barskipinu Eminu, var það fast í ísnum norður af Flatey á Skjálfandaflóa.
[Langanesi 15.júní] Hörð er tíðin hér norður um. Ekki blíðviður né þíður síðan um sumarmál. Gaddur mikill til fjalls; gróðurlaust alveg niður um. Áfelli um hvítasunnu [16.maí] og hríðaráfelli mikið 14.15. þ.m., snjór talsverður á jörðu, ís augalaus á Þistilfjarðarflóa.
Þjóðólfur segir frá skipsköðum í pistli þann 30.júní (nokkuð stytt hér):
Nóttina milli 2. og 3. dags [júní] missti tvísiglt fiskiskip, Felicite frá Ísafirði, fremra siglutré sitt og bugspjót, og komst þannig inn í Hafnarfjörð. ... Laugardaginn 12. [júní] fórst bátur frá Þórukoti á Álftanesi með 4 mönnum, 2 var bjargað þegar, en 2 drukknuðu: formaðurinn Stefán Halldórsson ungur maður og efnilegur, og Smundur austan úr Tungum; en 17. þ.m. dó annar þeirra, sem bjargað var, ... Sunnudaginn l3. þ.m. fórst bátur í Strandasýslu með 2 mönnum, ... Ætluðu þeir út á Reykjanes við Reykjarfjörð (Kúvíkur) að sækja við.
Baldur segir af tíð þann 7.júlí:
Síðan 16. dag [júní] er óhætt að segja, að veðuráttan hafi breyst til batnaðar hér sunnanlands, með því hinir miklu kuldar rénuðu um það leyti, og hefur síðan verið nokkuð votviðrasamt og vindur einlægt við suðurátt. Eftir síðustu fregnum að norðan er ísinn alveg horfinn úr Húnaflóa, en aftur mikill á Skagafirði og Eyjafirði, svo að þar voru eigi komin nein skip, en í Höfðakaupstað, á Hólanes og Borðeyri kváðu vera komin skip.
Kafli úr bréfi úr Árnessýslu, 21.júní: Hér hafa gengið rigningar nú í nokkra undanfarna daga og var orðin þörf á þeim, því að Flóinn var svo þurr, að fágæti var, og voru menn á glóðum um, að við jarðspjöllum mundi liggja sakir ofþurrka, því svo var að sjá sem allur grasvöxtur og það, sem í garða var sáð, mundi gjörónýtast, en þá kom rigningin og bætti úr öllu.
Júlí. Mjög kalt í veðri, suddi og súld fyrir norðan og austan, en betri þurrkar sunnanlands.
Þann 6. og 7.júlí segir séra Þórarinn í Reykholti kóf og él á fjöllum.
Norðanfari birti þann 14.ágúst bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett í júlí (mikið stytt hér) - eftir þetta lenti Norðanfari lengi í algjörum pappírsskorti vegna samgönguleysis:
Ennþá liggur ísinn á Vopnafirði og grisjar ekkert í hann. Skip komast því ekki inn, en við sitjum heima með allar vörurnar ... Í Vopnafirði er grasbrestur mikill; þó munu flestir fara að slá úr þessu. Hér á Jökuldal er heyskapur nýbyrjaður. Á austursveitum er betur sprottið og allt að hálfum mánuði, síðan sumir byrjuðu að slá, en ekki lítur nú hvað best út með nýtinguna. Daglega er sífelld þoka og súldir með kulda á utan og austan. Tún kólu fjarskalega hér á Jökuldal, svo varla er hugsandi til, að menn geti haldið kúm sínum nema því betur rætist úr. Það eru ekki litlar hörmungar, sem hafa dunið yfir menn frá því í fyrra.
Norðanfari segir 24.júlí:
Ennþá er ísinn að reka fram og aftur á fjörðunum, svo oft hefir varla verið skipgengt; hann er líka nú, allri venju fremur í svo stórum hellum eða breiðum, að þær tóku sumar meir enn yfir fjörðinn landa á millum eða á aðra mílu, ein hellan brúaði sundið millum Flateyjar og lands, svo fara mátti þar sem á landi, tvær ísbreiðurnar brúuðu yfir Eyjafjarðarmynnið.
Þjóðólfur segir hafísfréttir þann 28.júlí:
Hafísinn húsaði að vísu nokkuð frá Norður- og Austurlandi um seinni hluta [júní], svo að kaupskip náðu þar þá höfnum um síðir á Borðeyri, Skagaströnd og Sauðárkrók; á Akureyri kom skip fyrst 30. [júní]. En aftur rak inn að landinu og sumstaðar inn á firði talsverðan ís fyrir öllu Norður- og Austurlandinu um næstliðin mánaðamót; skip eitt er ætlaði þá til Vopnafjarðar seinast í júní varð að snúa frá vegna íss og sigla til baka til Berufjarðar; sagt er og að eigi fá frakknesk fiskiskip, er voru að sigla út frá Fáskrúðsfirði eða ætluðu þangað, hafi laskast meira og minna og sum verið algjört yfirgefin af skipverjum.
Norðanfari segir 2.ágúst fyrst af skipaferðum og hrakningum í ís (lítillega stytt hér) - en síðan af veðráttu:
Um morguninn hinn 30.[júní] kom hingað fyrst þetta ár lítil skonnerta, sem ætluð er til hákarlaveiða og heitir Akureyri" skipherra M. Rasmussen, frá Kaupmannaböfn, eign kaupmanns L Popps, fermd mat og fleiru; hún hafði lagt af stað að heiman 18 apríl, en mætti ísnum við Austurland, og varð svo að hverfa frá honum og suður- og vestur fyrir land, síðan þaðan norður fyrir Hornstrandir, að vestan gegnum meiri og minni ís, þar til hún komst hingað. Sama daginn um kveldið, náði og briggskipið Hertha, skipherra J. Eiríkson loksins hér höfn: hafði hún lagt af stað frá Kaupmannahöfn 14. mars, en kom að ísnum við Austurland á annan í páskum (29.mars); þar var hún að sigla fram og aftur með ísnum til þess á annan í hvítasunnu (17. maí), er hún sigldi suður- og vestur fyrir land, uns hún komst inn á Skutulfjarðarhöfn, þar lá hún ásamt Akureyri" í 14 daga. þaðan komst hún gegnum ísinn fyrir Hornstrandir og inn á Norðurfjörð, sem gengur í útnorður af Trékyllisvíkinni austan til á Ströndunum, þar lá Hertha í 2.daga og komst þaðan yfir á Skagaströnd, hvar hún affermdi ýmislegt. Þaðan komst hún eftir 2. daga á Siglufjörð, þar varð hún enn vegna íssins að dvelja 2. daga, síðan komst hún hingað. Menn glöddust eigi alllítið við þessar skipakomur sem búið var að þrá eftir síðan um páska, og menn svo mjög vegna bjargarskortsins þörfnuðust, auk margs annars er hér var á þrotum, og komið var meðal flestra í einstakar nauðir, svo varla munu dæmi til á þessari öld. Þó skip þessi væri búin að vera svona lengi á leiðinni, sér í lagi Hertha" í 109 daga, þá hefir samt alls engra skemmda verið getið á kornvörunni. Með þessum skipum komu bréf og blöð. 28. [júlí] náði barkskipið Emma Aurvegne" skipherra Jensen, heilt á húfi hér höfn, sem lagði að heiman 1. apríl, og mætti sem hin skipin ísnum við Austurland, og einlægt síðan setið í honum, dýpra eða grynnra undan landi og við land á Gunnólfsvík og Gegnisvík, og skipverjar oft eigi annað séð, en skipið mundi þá og þá leggjast saman eða liðast sundur af ísnum. Það er sagt að maturinn í því sé enn óskemmdur; og ætti það ekki að vera lítill fögnuður fyiir alla þá, sem hér þurfa að fá mat, að vita að hingað komnar svo þúsundum tunnum skiptir af kornvöru, ...
Allan júlímánuð hefir veðurátta hér norðanlands, verið oftast útnorðan, með þokum, köld og næðingasöm, en sjaldan stórviður, og oft framan af mánuðinum gaddharka á nóttunni í sveitum, hvað þá til fjalla. Grasvextinum hefir farið mjög seint fram, nema helst þar sem votlent er eða vatnsveitingum hefir orðið komið við. Nóttina hins 6. og 8. [júlí] snjóaði talsvert á fjöll, og í sumum byggðum varð alhvítt; seinni hluta mánaðarins hefir verið óþerrasamt og erfitt meö þurrkana, ofan á grasbrestinn, og það sem jörð er víða kalin og allt mýrlendi komið á flot. Málnytan var sögð fyrst eftir fráfærurnar víðast í meðallagi, en eftir að frostin, hretin og kuldarnir fóru aftur að koma, þá kvað henni mikið hafa kopað. Hafísþök eru enn sögð ýmist grynnra eða dýpra norðan fyrir landi, svo enn horfir ólíklega til að bætist við skipakomurnar hér á norðurhafnirnar.
Ágúst. Kalt í veðri. Hafísinn hvarf ekki fyrr en undir lok mánaðar.
Þann 8.ágúst segir Þórarinn í Reykholti af kafaldséli um morguninn og miklu næturfrosti nóttina á eftir.
Þjóðólfur segir af hafís og veðráttufari þann 17.ágúst:
Af hafísnum, veðáttufarinu Norðanlands og því vandræðaástandi er þar með er samfara, fréttist nú með prófastinum síra G. Vigfússyni, og Sig. Sæmundsen af Seyðisfirði að hafísinn hefði enn verið þar víðsvegar fyrir öllu Norðurlandi, framanverðan [ágúst], svo langt austur sem til spurðist, hafi Hrútafjörður verið svo fullur með ís, að ekkert skipanna komst út þaðan eins og þá stóð. Fylgdu þessu sífelld næturfrost og kólgur og hafískuldar um daga, svo engir voru heyþurrkarnir; illa sprottin öll slægjujörð, en bithagar til fjalla fjarska graslitlir, svo að sumstaðar sá ógjörla lit á jörð, og málnytufénaður gjörði vart hálft gagn; það er því eigi að undra, að allmargt kaupafólk, er norður fór héðan að sunnan, er nú komið aftur. ... Um Landeyjar og Eyjafjöll og allt þar fyrir austan, var mjög óþerrisamt allt fram til 8. [ágúst], og engi baggi náður þá í garð á sumum bæjum. Hér um nærsveitirnar austanfjalls, um Borgarfjörð og Mýrar, enda vestur um Dali, eru tún sögð vel sprottin eða víst í góðu meðallagi, og hefir veðráttan verið hér víðsvegar hin hagstæðasta það sem af er slættinum, eins til góðrar nýtingar eins og til heyafla yfir höfuð að tala.
Baldur birtir 8.september bréf ritað í Eyjafirði þann 26.ágúst:
Fyrir fáum dögum er orðinn skipgengur sjór fyrir Norðurlandi og skipin komin á flestar hafnir hér. Tíðin var hér góð fyrri part [ágústmánaðar] eða þá mátti segja að héti sumar, en nú má aftur heita kominn vetur, því í fjóra daga hefir verið stórrigning í byggð en hríð á fjöllum, og þar kominn snjór mikill, svo að skepnum mun vart óhætt. Fiskiafli má heita sáralítill á Eyjafirði og enda víða norðanlands.
Baldur segir þann 27.ágúst:
Að því er síðast hefur spurst af Norður- og Austurlandi, var hafísinn enn um miðjan fyrri mánuð [júlí] landfastur við Langanes og lá með fram Austurlandi fyrir framan alla fjörðu suður fyrir Seyðisfjörð, en aftur íslaust frá Langanesi og vestur þar til í Húnaflóa. Á Seyðisfirði lágu um verslunartímann 5 lausakaupmenn og höfðu allir talsverða verslun, enda gáfu þeir og þau kjör, sem vart hafa fengist á öðrum verslunarstöðum landsins.
September. Óvenjukalt og illviðrasamt.
Baldur segir 6.október frá tjóni í illviðri 11.september - og að hafís sé farinn:
Með skólapiltum fréttist nú, að ísinn væri frá Norður- og Austurlandi. Hafði hann losnað þaðan um höfuðdag. En ófagrar fréttir fara þó af veðráttunni, engu að síður, þar sem sumstaðar fyrir austan hafði eigi orðið stundaður heyskapur sakir snjóvar í viku fyrr en piltar fóru þaðan. Fyrir norðan t.d. í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, höfðu og oft verið hríðar til fjalla og enda snjóað í byggð. Alls staðar fyrir norðan og austan lítur því mjög illa út; heyskapurinn lítill sakir grasbrests og illrar nýtingar. Að vestan fréttist hér um bil hið gagnstæða, bæði hvað tíð og bjargræði snertir. Í norðangarðinum 11. [september] sleit upp á Siglufirði öll skip þau, er þar lágu, 7 að tölu; 2 þeirra, jagtina Söblomsten og skonnortskipið Valdemar, átti Thaae kaupmaður, en hið þriðja, skonnortskipið Maríu, hafði hann leigt; hið fjórða var skip lausakaupmanns Lund, sem í mörg undanfarin ár hefur rekið verslun þar og víðar um Norðurland; hin 3 voru ensk fiskiskip, er höfðu leitað þar inn sakir ofviðris. SkonnortskipiðMaría kvað vera alveg óhaffært og talið óvíst, að nokkurt hinna muni komast út aftur. Allir skipverjar komust lífs af. Í sama veðrinu 12. [september], urðu skipverjar á skonnortskipinu Meta, eign Clausens stórkaupmanns, sem þá lá í Stykkishólmi, að höggva fyrir borð siglutrén, svo að skipið eigi bæri á land.
Þjóðólfur segir frá septemberillviðrinu í pistli þann 8.nóvember (nokkuð stytt hér):
Í ofsastorminum er gekk yfir allt Vesturland og vesturhluta Norðurlandsins dagana 11. 13. september sleit upp eigi færri en 7 hafskip samtals á Siglufirði, þau lentu flest eður öll á grynningum þeim, er Leðran nefnist, og stóðu þar grunn um hríð, en náðust samt öll á flot aftur með heilu og höldnu að mestu, og var meðal þeirra eitt skip, Söblomsten kallað, er var á leið til Hofsóss frá Kaupmannahöfn með allskonar nauðsynjavörur; en 7. skipið, María, er þar barst á, og var komið heim í leið frá Hofsós til Danmerkur með íslenska vöru, en hafði átt að koma við á Siglufirði til að taka þar viðbót, bilaði svo og bramlaðist, að gefa varð upp skip og farm til uppboðs. Sama dag (12.september) var eitt skip Clausens agents og general-Consuls, er nefndist Metha, á innsiglingu til Stykkishólms; það kom vestan af Ísafirði með því nær alfermi af ull og lýsi, átti nú að fylla lestina í Hólminum og fara svo þaðan til Hafnar, en er skipið skyldi ná inn á höfnina, bar ofviðrið það svo fast inn að landi (Stykkinu?), að eigi varð annað úrræða, en höggva niður bæði siglutrén (möstrin) til þess að draga úr rekinu og gangi skipsins, og varð það svo þar að strandi; en mönnum öllum var bjargað. Þetta er 4. skipið, er agent H. A. Clausen hefir mist á þessu ári.
Þjóðólfur birti þann 8.nóvember bréf frá Ísafirði, dagsett 9.október:
Í þessum stormi (11.13.september) skemmdust víða útihús og hey að mun, og sumstaðar róðrarskip og bátar, enda þykjast elstu menn eigi muna meira veður og verra um þann tíma árs. Í fyrradag [væntanlega 7.október] hvolfdi af kastvindi sexæring á leið hingað úr Álftafirði; skipið var undir seglum og lurkfarmur á því. Drukknaði þar tómthúsmaður og vinnukona bæði héðan úr kaupstaðnum, en öllum hinum varð bjargað af kjöl 2 stundum síðar, og var sýslumaður okkar einn þar á meðal. Að þeir allir komust af þarna, var mest því að þakka, að akkeri var í skipinu með alllöngum streng og föstum í því, sem náði botni, hélt skipinu vindréttu og svo kyrru, að það eigi ruggaði meira en svo, að þeir gátu haldið sér i kilinum, þó sjórinn og rokið gengi yfir þá, og sýslumaðurinn þar að auki haldið stúlkunni þar líka; hún hafði ekki strax komist á kjölinn, en sýslumanni tekist að ná henni þangað, og batt hann þá trefju sinni um hana, og hélt henni þannig; en hálfri stundu áður en þeir komu, sem björguðu, var hún örend, og um sama leyti missti hinn maðurinn sem fórst, halds á kjölnum og seig niður af honum án þess hinir gæti náð honum, og var hann þá að þeir héldu með mjög litlu lífi. Sama dag rak hval á Snæfjallaströnd.
Október. Hiti ekki fjarri meðallagi. Þurrviðrasamt lengst af um landið vestanvert. Illviðrasamt var um tíma, en annars þótti tíð nokkuð góð.
Norðanfari segir loks fréttir þann 10.nóvember:
Veðuráttan var hér í sumar um nærsveitirnar, og eins víða hvar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, með köflum fremur góð, og nýtingin eftir því; en grasvöxturinn sárlítill, einkum á harðvelli, svo heyin eru nálega allstaðar með minnsta móti, og sumstaðar svo lítil, að fá eru sögð dæmi til, er helst tekið til þessa fram til dala, sérílagi í Bárðardal og á sumum útsveitum, t.a m. á Úlfsdölum í Hvanneyrarsókn, fengust 20 hestar af heyi, af sömu víðáttu og venjulegast áður höfðu fengist 100 hestar heys. Í ágúst og september, dundu stórrigningar og stórhret yfir, með ærinni snjókomu til fjalla og sumstaðar í byggðum, svo alhvítt varð og gaddur, sem um hávetur, kýr og ær komu á gjöf og hagskart varð fyrir fé og hross. Sumstaðar varð að hætta heyvinnu dögum og vikum saman; heyin, sem lágu undir gaddinum, urðu eigi varin fyrir skepnunum, svo þau átust og ónýttust meira og minna. Þegar uppbirti varð frostið stundum 67 gr á R [-7 til -9°C] á nóttunni og nokkrum sinnum frost á daginn. Á nokkrum stöðum voru tún eigi hirt fyrri enn í október, og þar áður enginn útheysbaggi kominn undir þak. Af sumrinu taldist að eins hálfur mánuður, sem hefði verið hagstæð heyskapartíð. Hafísinn var hér fyrir Norðurlandi og Austfjörðum, landfastur fram yfir 20 ágúst, og þá fyrst var það, sem kaupskip gátu siglt hér upp allar hafnir við Norðurland. Hafísinn fór ekki alveg frá landinu fyrri enn seinast í ágúst (2.sept 1754), en nú hafði hann horfið allt í einu, svo fljótt, eins og hann hefði allur sokkið. Þó nú sumstaðar væri nokkrar heyfyrningar frá í fyrra, þá hrökkva þær skammt á leið með hinum litlu nýju heyjum, til að geta sett á, einsog í minnsta lagi að undanförnu; skepnufækkunin hlýtur því að verða ógurleg, þegar horft er fram á ókominn tíma, enda hefir fjöldi fjár verið rekinn til sláturs í kaupstaðina, og hefði þó verið en fleira, ef salt og tunnur, eigi hefði orðið á þrotum.
Í dag mér morgun þér". Í Múlasýslunum og víðar urðu eins og kunnugt er í fyrra í október dæmafáir ef eigi dæmalausir fjárskaðar, en á Norðurlandi þá að kalla litlir og sumstaðar engir; þar á móti hefir forsjóninni þóknast og að hirta Norðurland með hinni dæmafáu útnorðan stórhríð, stórflóði og stórbrimi, er hér skall á 12.dag októbermánaðar 1869, því þá urðu svo miklir fjárskaðar, að eigi eru dæmi til; og nokkrir misstu helming af fé sínu og nokkrir urðu að kalla sauðlausir; féð fennti eða hrakti í sjó, ár og vötn, kíla og tjarnir, gil og grófir, og 5 eða 6 hesta fennti í Skagafirði austanmegin Héraðsvatnanna. Þótt mikið hafi fundist aftur, miklu fleira dautt en lifandi, þá vantar, að sögn, enn að samtöldu svo mörgum hundruðum skiptir, einkum í syðri hluta Þingeyjarsýslu, Blönduhlíð og Hólmi í Skagafjarðarsýslu, og í Húnavatnssýslu, en að tiltölu langfæst í Eyjafjarðarsýslu. Að samtöldu mun hið dauða fé, sem fundist hefir og það sem enn vantar, nema mörgum þúsundum, þó það sé ef til vill færra enn í Múlasýslunum í fyrra.
Þjóðólfur segir af októberillviðrinu þann 8.nóvember:
Öðru ofsaveðrinu laust á af norðvestri (útnorðri) réttum 30 dögum síðar, eður 12.[október], víðsvegar hér um land, eða þá víst allt frá Eyjafirði og vestur úr að norðanverðu, einnig og svo hér sunnanlands, neðanfjalls; hér var stormurinn ofsamikill, þar sem hann þó stendur af landi hér með þeirri átt; en engi var hér snjókoma með, þó að gránaði í hæstu fjöllum ofan til miðs; fyrir norðan fylgdi ofviðri þessu eitt hið mesta snjókyngi, og stóð þar yfir full 2 dægur eður fram á daginn 13. f.m. Daginn fyrir, mánudaginn 11., sást til skips inn Húnaflóa, og var það briggskipið Valborg, 63 lestir, eign Hillebrandts stórkaupmanns, er á Skagastrandar- eður Höfðakaupstaðinn; kom nú skip þetta frá Höfn fermt allskonar nauðsynjum: kornvöru, salti o.fl., en vita-saltlaust hafði verið fyrir þar um norðurkaupstaðina svo til vandræða horfði; veður var þá stillt og gott, fremur landvari, þegar upp á daginn kom, svo að lít vannst fyrir þeim uppsiglingin; segja þó nokkrir, að skipið hafi verið komið sem næst inn á móts við Höfðann (Spákonufellshöfða), en þá sletti í logn, svo allan gang tók af skipinu um hríð. En morguninn eftir laust á þessu hinu mikla ofsaveðri af útnorðri með myrkviðrisbyl; varð þá skipið að leggja til drifs; bar þá síðan smámsaman vestur yfir flóann og að Vatnsnesinu utarlega og þar upp í klettana eður klappir fyrir landi jarðarinnar Krossaness, nálægt kl.3, og fór þar í spón; þeir 3 af skipverjum, er haldið er að fyrst hafi leitað til að bjarga sér, voru skipstjórinn Olsen, ungur háseti annar, og hinn 3. kand, phil. Stefán Thorstensen, sonur sál. landlæknis og jústizráðs Jóns Thorstensens; hann hafði tekið sér far með skipi þessu til Skagastrandar, og ætlaði skrifari til mágs síns jústizráðs og sýslumanns Christianssonar á Geitaskarði; en þessir 3 fórust þarna allir, og gátu eigi hinir 4 skipverjarnir, er af komust, skýrt frá því með greinum, hvernig þeim hefði auðnast að komast lífs á land, auk heldur hitt, með hverjum atvikum að hinir 3 hafi farist, og vera má að það sé ekki annað en laustilgáta, er nokkrir segja, að þeir 3 muni allir hafa komist lífs upp á flúðirnir, en þá hafi jafnsnart komið ólag og sogað þá út. Þeir 4 skipverjarnir, er af komust, komu hingað í ferð norðanpóstsins, 23.[október], og Hillebrandt hinn yngri, og fengu sér far til Skotlands allir 5, með galeas Áfram, C.F. Siemsens, er lagði út úr Hafnarfirði 5.þ.m. Hinn sama dag sleit upp skip Sveinbjarnar kaupmanns Jacobsens, galeas Hanne, skipstjóri Petersen, þar sem það lá fyrir akkerum í Kolkuósi (fyrir innan Grafarós), rak þar upp á land skammt frá Elínarhólma (varphólma frá Viðvík), og mölbrotnaði um nóttina, svo að gefa varð upp skip og farm til uppboðs; allir skipverjar komust af með heilu og höldnu og bárust í hríðinni upp að Brimnesi.
Þjóðólfur birti þann 8.nóvember pistil um árferði og aflabrögð:
Sumarveðráttan var um land allt fremur köld, og einkum þó fyrir austan og norðan land, og á Vestfjörðum vegna hafíssins; en allt um það var grasvöxtur hér sunnanlands í betra lagi, en fremur rýr í öðrum hlutum landsins, einkanlega öll útjörð, en aftur var veðrátta hin hagstæðasta allt fram til höfuðdags, og síðan aftur næstu tvær vikurnar fyrir réttir, til allrar heyvinnu og nýtingar, svo að hey hirtust vel. Um höfuðdag brá að vísu til mestu kuldahreta yfirhöfuð, og fylgdi snjókoma um allt Austur- og Norðurland og Vestfirði, svo að þar á Vestfjörðum er oss ritað að kýr hafi eigi verið gjafarlausar nema svo sem 1011 vikur á sumrinu. Af þessu leiddi, að töluvert úthey lá allan septembermánuð undir snjó um nyrstu sveitir landsins og víða upp til dala norðanlands; varð því heyskapurinn víða endasleppur norðan- og vestanlands og heyfengur lítill vöxtum, en í góðri verkun. Hér syðra, allt austur að Mýrdalssandi, var septembermánuður fremur kaldur og hretasamur framan af, en snerist til þurrka og hagstæðrar veðráttu fyrir allan heyskap hinn síðasta [hálfan] mánuð sláttarins; var því heyfengurinn allstaðar austanfjalls einhver hinn besti, og öll hey talin í einkar góðri verkun yfir höfuð; hið sama má segja um Borgarfjörð og Mýrasýslu, þó að grasvöxtur yrði þar minni, einkum á flæðiengi; vestur um Dali lítur út fyrir að heyskapurinn hafi orðið nokkru endasleppari. Úr Skaftafellssýslunum var sagður talsverður grasbrestur einkum á túnum og velli, er einnig var víða skemmt stórum af grasmaðki. Sagt er og að meltakið (villikornið) þar í vestursýslunni (milli Mýrdalssands og Skeiðarársands) hafi nú orðið allt að því í meðallagi, og í betra lagi um Álftaver og Meðalland; sú verulega bjargarbót hefir brugðist þar að mestu eður öllu um 3 ár undanfarin. Hér sunnanlands í öllum láglendari sveitum heppnaðist og garðræktin vel og gaf ávöxt vel í meðallagi bæði af jarðeplum og einkum af rófum; vér ætlum, að um næstliðin 68 ár hafi aldrei sést blóm á jarðeplagrasinu hér syðra, þangað til í sumar, enda hefur jarðeplauppskeran verið fráleit öll þessi undanfarin ár þar til í sumar. Allan næstliðinn mánuð (október) var hér syðra og vér ætlum allstaðar hin besta og blíðasta veðrátta með frostleysum og marauðri jörð, oftast enda talsverðum hita (+37°R [4 til 9°C]), nema þann eina ofveðursdag 12. f.mán., er varð svo mannskæður norðanlands, og með mestu fjársköðum þar víðsvegar um Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu, með drápshríðinni er fylgdi, og því snjókyngi að einsdæmi þykir svona á auða jörð, er fé bæði fennti og hrakti í vötn og tjarnir og drapst þar; var eigi nærri tilspurt allra þeirra fjárskaða, er póstur fór þar suður um, og verður hér því aðeins getið þess að sinni, er þá sannspurðist um fjárskaða þessa: á Hnausum í Húnavatnssýslu 60 fjár; á Bakka í Hólminum (Skagafjarðarsýslu) 60 70 fjár, er menn ætla að hafi verið sem næst öll fjáreign búandans; það hafði allt hrakið í tjörn eina, og drepist; 60 fjár frá Hofstöðum og Hofstaðaseli, er fannst dautt þar í eyjunum (í Héraðsvötnum) fyrir norðan Hofstaði daginn eftir veðrið; en þar víðsvegar annarstaðar vantaði fé meira og minna, þótt
eigi væri fyllilega tilspurt, hvað mikið farist hefði; hross fenntu og sumstaðar um þau byggðarlög, og sum til dauðs.
Með norðanlandspóstinum bárust og fregnir um, að í hinu ofsalega fjárskaðaveði, 12. [október] mundu samtals 56 manns hafa orðið úti og farist; voru nefndir 2 frá Flatatungu í Skagafirði, er hefði ætlað að gæta fjárins eða bjarga því, og bóndinn frá Illugastöðum í Laxárdal fremri (Húnavatnssýslu); en eigi hafa menn áreiðanlegar sönnur fyrir þessu; að maður hafi þá orðið úti í Vatnsdalnum, eins og nokkrir sögðu, mun mishermt.
Nóvember: Erfið tíð og óvenjuköld.
Norðanfari birti þann 15.desember bréf úr Suðurmúlasýslu, ritað 17.nóvember:
Það var kalt og þurrt í vor. Sauðburður lánaðist framar vonum. Grasið spratt seint og heldur lítið. Hafísinn var við langt fram í ágústmánuð. Seint varð byrjað að slá, víðast í 14. viku og nýttist allt vel fram yfir höfuðdag. Þó kom áfelli í 16. viku með snjó og illviðrum. Varð sumstaðar jarðlaust fyrir kýr nokkra daga og hætt heyskap nærri í viku. Þriðja eða fjórða september, byrjaði ótíð með rigningum, svo krapaveðrum, fannfergju og frosti í miðjum mánuðinum og héldust harðindi til síðasta september. Menn áttu óvenju úti af heyi, víðast undir gaddi. Fyrstu daga af október voru blíðviðri en litlar þíður, þá náðu þeir heyjum, sem áttu þau á lágum nesjum og mýrum; en það sem var til hálsa og fjalla eða í móum, kom aldrei upp, því fyrir miðjan október kom aftur áfelli með snjó og grimmdum. Þá urðu 2 menn úti í Möðrudal og hrakti fjölda fjár. Fór margt til dauðs í fannir og tjarnir. Eins fór sumstaðar á Jökuldal að fé hrakti og fennti og vantar enn margt af því. Aftur hlánaði nokkuð um veturnætur og náðu þá sumir dálitlu af heyi. En margir eiga þó enn úti hey í Fjörðum og út á Héraði undir snjó, því veturnáttabatinn varð lítill og skammvinnur. Byrjuðu bráðum aftur harðindi, sem haldast enn og er víða komin fannfergja.
Þann 29.janúar 1870 birti Norðanfari bréf - rituð í nóvember 1869:
[Seyðisfirði 18.nóvember]: Veturinn er nú lagstur hér að með hörkum, stormum og snjókomu, svo nú er hér í sveit jarðlaust að kalla, og allar skepnur komnar á gjöf nema gaddhestar. Aflabrögð hafa og farið að þessu skapi í haust, því bæði hafa gæftirnar hamlað sjósókn og fiskigangan óvenjulega treg, og langt að ná til hennar; allir eiga því því með langminnsta móti af fiski. Heyskapur manna varð að lokunum mjög endasleppur, því bæði riðu að rigningarnar og ótíðin löngu áður en honum var lokið, og svo misstist fólkið svo víða frá verkum um þær mundir vegna veikindanna. Eigi óvíða varð heyið úti undir snjó og gaddi, og náðist sumstaðar aldrei en sumstaðar nokkuð skemmt.
[Eiðaþinghá 14.nóvember] Vorið allt var dæmalaust kalt og gróðurlaust, með frostnóttum en úrkomulítið, og fyrir það sama urðu fjárhöldin vonum betri, þó að töluvert færi af lömbunum hjá sumum, og búsmali yrði heldur gagns lítill í sumar. Já, þvílíka tíð þykjast elstu menn eigi muna eins og á þessu sumri og hausti, því sjaldan kom í vor eða sumar svo úrkoma, að það væri ekki snjór til fjalla, og oft frost á nóttum niður í byggð, svo grasið var hvítt af hélu á túnunum um hásumarið. Enn þó tók yfir 9. og 10. ágúst, því þá var hér dimmviður og kafsnjór, svo kúm og ám varð að gefa inni, og hér varð ekki snert á heyvinnu í 3. daga. Síðan kom þolanlegur kafli; en upp úr hundadögunum gekk yfir með voðalega ótíð, ýmist þoku og rigningum eða krapahryðjum, þetta hélst þar til 16. og 17. september, þá gekk alveg í dimmviður og snjóa mörgum dægrum saman, og kom mesta kyngi af snjó, bæði hér og víða annarstaðar, en í sumum sveitum gránaði varla; hér var jarðlaust að kalla hálfan mánuð, svo sumir ráku féð burt á jörð; svo komu að vísu þíður, enn alltaf hefir tíðin verið mjög óstöðug og köld, og nú eru búin að ganga harðindi um hálfan mánuð, og kominn mikill snjór og búið að taka lömb í hús og á hey, og kýr hafa staðið hér inni síðan 20 vikur af sumri; þykir okkur heldur þungt nautgripahaldið, þegar verður að gefa kúm 40 vikur af árinu. Það flýtur því af sjálfu sér, að heyskapur muni ekki hafa gengið vel í slíkri tíð, fyrst spratt grasið mjög seint en varð þó víða í meðallagi á endanum, svo heyskapur byrjaði með seinasta móti; töðunum náðu flestir hröktum, en næsta litlu af útheyi, því þá dundi ótíðin á, og þar ofan á bættust almenn kvefveikindi, sem þá gengu yfir meir og minna. Í haust og vetur hafa menn verið að berjast við, að ná saman stráum sínum þegar blotarnir hafa komið, og þó eiga nokkrir töluvert af heyi úti enn; en í þeim sveitum, sem minnst snjóaði þar náðu menn heyjum sínum, eigi að síður má þó heita, að menn sé almennt illa staddir, með heybjörg þó það sé mjög misjafnt.
Þann 10.febrúar 1870 hélt Norðanfari bréfabirtingum áfram:
[Jökuldal 13.nóvember] Síðan ég skrifaði yður seinast, hafa ýmsar hretskúrir dunið yfir og skollið á oss Austfirðingunum. Sumarið varð æði endasleppt. Í 21. viku sumars þegar rigningunum linnti, gjörði frost og snjóviðri, og urðu flestar heiðar nær því ófærar. Aðalheybjörg manna, er lá á engjum óhirt huldist gaddi, útlitið var því hörmulegt og illar heimtur á fénaði. Ekki var hugsandi að reka fé í kaupstaðina fyrir fannfergjunni, hversu mikið sem þörfin og skuldirnar ráku á eftir. Um þetta leyti eða í 22. viku sumars, mátti á heiðunum víða ríða eftir vötnunum, og mun það sjaldgæft 5 vikum fyrir vetur. Skömmu fyrir veturnæturnar kom besta hláka, þá tók snjóinn víða svo, að menn hér á Jökuldal náðu heyjum sínum, og ótrúlega lítið skemmdum, en mikið höfðu þau ódrýgst, því þau voru óverjandi fyrir hrossum og fénaði. Víða í Vopnafirði inn til dala tók snjóinn aldrei svo upp, að menn gætu náð heyjum. Hinn 12.[október] gjörði hríð mikla, að kveldi þess dags, en varð þó engum að tjóni. Á Fjöllunum var veður þetta geysilega mikið, og hefir Sigurður í Möðrudal sagt mér, að hann ekki myndi eftir slíku veðri.
[Bjarnanesi í Hornafirði 24.október, var 102 daga á leið til Akureyrar] Sumarið hefir verið kalt og þurrkasamt; frost voru hér, sem þó ekki er vanalegt í júlí og ágúst. Grasbrestur var hér mikill, og allvíða vantar menn mikið til að ná venjulegum heyskap, en aftur á móti er heyið grænt og gott, og það bætir mikið um. Það má telja nýlundu, að tangi sá sem gengur fram á austanverðan Breiðamerkursand úr Vatnajökli, gekk í sumar fram til sjós með óvanalegum hraða, svo á tæpum tveim mánuðum, júní og júlí, var jökultanginn kominn fram undir sjávarkamb á fjörunni, og var alfaravegur í töpun hefði jökullinn farið lengra, en þarna hætti hann við. Svo ýtti jökullinn fast á auröldurnar, sem undan honum gengu, að þær ultu fram yfir sig, eins og snjóflóðið, og var hætta búin ef menn fóru nálægt, fyrir grjótfluginu, sem úr þeim hrundi. Um sömu mundir breytti Jökulsá á Breiðamerkursandi farveg sínum, og flutti sig austur fyrir þenna jökultanga, og samlaga sig, svonefndri Veðurá; báru þær brátt aur undir sig, og fóru að taka af túnið á Felli, sem er vestasti bær í Suðursveit, samt hugðu menn, að bænum væri engin hætta búin, og fór það fjarri, því á skömmum tíma, tóku þær (árnar) bæinn gjörsamlega af, og það með þeim hraða, að engu af húsunum varð bjargað í burtu, heldur hvíla þau úti undir 67 álna þykkum stórgrýtis aur. Fell var áður ein með betri jörðum hér um sveitir, en smámsaman hafði það misst mestan hluta af slægjum sínum, og úthaga fyrir vatnagang, það var því nú orðin engin tiltaka.
Þjóðólfur segir þann 12.janúar 1870:
Í dag kom hér maður norðan úr Blöndudal og færði bréf 3.-5 . [janúar]; segir í einu þeirra: allt fylltist hér með ís á jólaföstunni", ennfremur að illviðrin og jarðbannirnar, heyskortur og bjargarskortur hafi allt farið þar vaxandi fram yfir árslokin. Hér sunnanlands gerði 2 daga blota-hláku um sólstöðurnar, og bötnuðu hagar víða um Borgarfjörð, og í syðri og láglendari sveitunum austanfjalls, þar sem snjóa- og svellaminna var en í hálendari sveitunum varð lítil eður engi hagabót að þeirri hláku, en svellalög og hálkur meiri; í öllum láglendari sveitunum austanfjalls, einkum austan frá Þjórsá og það austur til Mýrdalssands, eru bestu jarðir og sem næst alautt; illviðri og harðindi ... austan yfir Mýrdalssands.
Norðanfari segir fréttir þann 19.nóvember:
Hér um nærsveitirnar og annarstaðar, þaðan sem fregnir hafa borist hingað, er mikill snjór kominn, og sumstaðar farið að gefa fé. Það af er vetrinum, hefir frostið orðið hér mest 9 þ.m. 13 til 14 stig á Reaumur [-16. til -18°C]. Síðan pollinn lagði, þá hefir töluvert verið dregið af fiski upp um ísinn á svo nefnda pilka". Þá stórhríðin skall á 12.október hafði margt fólk legið við grös fram á Grímstunguheiði og Haukagilsheiði; höfum vér eigi heyrt þess getið; að nokkurn þessara hafi kalið eða orðið úti.
Þjóðólfur birtir fréttir þann 25.nóvember
Af fjársköðunum og manntjóninu norðanlands í ofsaveðrinu 12.[október] fréttist nú lítið eitt greinilegra en fyrr hafði spurst og getið var í síðasta blaði; fjárskaðarnir í Húnavatnssýslu voru almennastir um Ásana, er fé hrakti þar í Svínavatn frá ýmsum bæjum, og í Þinginu; eins miðsvæðis í Skagafirði, beggja megin Héraðsvatna. Báðir mennirnir; frá Flatatungu, er talið var að mundi hafa orðið úti, komu lífs fram: en unglingsmaður (frá Saurbæ) í Vatnsdal hafði orðið úti, og var hann fundinn dauður. Sömuleiðis staðfestist fregnin um, að Þorsteinn bóndi Jónsson frá Illugastöðum á Fremra-Laxárdal varð til í hríðinni, og hafði fundist dauður í Blöndu; hann hafði fyrr búið í Holtastaðakoti í Langadal.
Desember: Fremur kalt. Umhleypingar gengu og illviðri. Ís rak inn á Húnaflóa.
Þórarinn í Reykholti segir að ár hafi rutt sig og orðið ófærar þann 3.
Þjóðólfur segir þann 9.desember:
Með Miðfjarðarmanninum ... bárust þær fregnir, meðfram úr bréfum frá skilvísum mönnum, sem rituð voru 23.-24. [nóvember], að þá hefði þar nyrðra gengið hörkur með jarðbönnum um næstliðinn 3 vikna tíma, eður sem nst frá byrjun f.mán. [Þ.7. nóvember, 24.sunnudag e.trinitatis] hafði þar rekið í eina hina hörðustu hríð með ofsaveðri; hrakti þá mjög víða fé þar um sveitir, því við ekkert varð rábið, og menn frá fénu, er villtust og náðu eigi heimilum sínum fyrr en síðar. Kveldinu fyrir hafði unglingsmaður sonur Gísla bónda á Fosskoti í Miðfirði, Sigurður að nafni, náttað sig í Barkarstaðaseli og fór þaðan árdegis 7. [nóvember] og ætlaði heim til sín og átti undan veðrinu, en komst aðeins rúma bæjarleið áfram, niður fyrir túnið á bænum Núpsdalsseli, og hafði orðið þar til, því þar fannst hann úti orðinn og örendur eftir veðrið. Áþekkar hörkur hafa gengið hér syðra mestallan [nóvember], bæði um efri sveitirnar í Mýrasýslu, einkum Norðurárdal, Þverárhlíð og efri hluta Stafholtstungna, og um allar efri sveitir Árnessýslu og um miðjan [nóvember] var mestallur útifénaður kominn á gjöf um Þingvallasveit, efri hluta Grímsness, Biskupstungur og Hreppana, en miklu betri jarðir um eystri og láglendari sveitirnar. Sömu jarðleysur voru í aðsigi og ágerðust um sveitirnar fyrir austan Mýrdalssand, frá því fyrir miðjan [nóvember], svo að undir lok [hans] var fullorðið fé komið víða á gjöf þar á bestu hagajörðum og enda fullorðnir sauðir framan til í Skaftártungu, hvað þá norðar. Hina síðustu daga hefir hér syðra kyngt niður miklum blautasnjó og hagar stórum spillst í öllum nærsveitunum.
Þjóðólfur birti þann 9.febrúar 1870 bréf úr Suður-Múlasýslu, dagsett 2.desember 1869 (nokkuð stytt hér):
Vorið var kalt langt fram á sumar og spratt grasið seint og lítið; Ísinn lá við fram í miðjan ágústmánuð. Eftir það fór hann að færast frá Austurlandi. Engin höpp fylgdu honum, nema hann hamlaði skipum, svo aðeins tveir lausakaupmenn urðu að fara inn á Seyðisfjörð og versla þar, þó þeir ætluðu annað. ... Sláttur var byrjaður í 14. og 15. viku sumars, og gekk vel fram í 16. viku (9.11. ágúst). Þá kom áfelli og snjóaði ákaflega sumstaðar, svo gefa varð inni kúm, og varð eigi sinnt heyskap heila viku. Í sumum sveitum mátti þó slá lengst um þá daga. Eftir það kom þurrkatíð og hirtust vel töður manna og lítið eitt af útheyi. Töður urðu mikið minni en vant var, sumstaðar þriðjungi, og útengi mjög graslítið. 3. september brá til ótíðar, með rigningum og krapaveðrum, og tók ákaflega að snjóa eftir miðjan mánuðinn, svo hey manna lentu undir gaddi. 30. september þiðnaði og tók víða af heyi, svo það náðist. En batinn stóð of stutta stund og voru litlar þíður. 11. október brá aftur og gerði harðindi. 13. mánaðardaginn gerði svo mikið foraðsveður, að 2 menn urðu úti í Möðrudal og fjölda fjár hrakti þar og fennti. Þá fennti nóg fé á Jökuldal, og frést hefir úr Norðurlandi að þar hafi orðið stórkostlegir fjárskaðar. Þetta var degi áður en svaraði því, er gekk í fjárskaðaveðrið mikla í fyrrahaust (1868), þegar fórst um Austurland á 13.þúsund fjár. Nú fórst hér eigi fé til muna, nema það sem ég nefndi; um veturnætur batnaði aftur eina viku, og náðu þá sumir inn heyrudda sínum. Þó er töluvert af heyi enn undir gaddi í sumum sveitum. Síðan um byrjun fyrra mánaðar [nóvember] hafa verið megn harðindi. Í dag er komið þíðviðri.
Norðanfari birti þann 19.mars 1870 bréf úr Skagafirði, dagsett 2.desember:
Mikið tjón gjörði hríðin hér 12. október, dreif þá ógrynni í snjó af skepnum, því hríðin kom á rauða jörð þó skreið margt úr fönninni aftur, þegar blotaði, en útgjört að holdum; vantar samt enn mikið. Sjórinn gekk þá langt upp yfir takmörk sín og mölvaði andvirki manna, er staðið höfðu um langan aldur óhögguð; 14 bátar og byttur, er sagt að brotnað hafi frá Kolkuós út að Höfða, 7 þeirra fóru alveg og sást ekkert eftir af þeim.
Þjóðólfur segir í pistli þann 26.janúar 1870, m.a.:
Allan fyrri helming næstliðins desember gengu um Húnavatnssýslu einlægar norðanhríðir, með fannkomu svo mikilli, að um 20. [desember] mátti þar heita jarðlaust mest sakir fanndýptar, svo að enda hestar gengu hungraðir".
Norðanfari birti þann 10.febrúar 1870 bréf úr Barðastrandarsýslu, dagsett 23.desember:
[Barðastrandarsýslu 23.desember] Ég tel við hefðum af seinastliðnu sumri 3 vikur sumarveðuráttu; graslítið var hér mjög á útengi, en tún sæmileg; flestir heyjuðu í lakasta meðallagi, þó hygg ég fáa, sem engan, er fækkaði skepnum sínum en nú er veturinn kominn og heldur harðsnúinn, svo nú er búið að gefa meira hey fé, enn í fyrra um miðjan vetur. Hafís sagður kominn inn í Ísafjarðardjúp og inn í Steingrímsfjörð, svo líklega er hann fyrir öllum vesturströndum og máski Norðurlandi, og sé það, þá álít ég best að fara að fækka ásetningi, og það gjöri ég batni eigi með nýárinu. Hér er nýafstaðið grimmhríðarhret með ógnarfrosti, svo varla hefir hjá mér orðið kaldara í húsum en nú.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1869. Lítilsháttar upplýsingar um mælingar eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 1.8.2020 kl. 22:27 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 934
- Sl. sólarhring: 1119
- Sl. viku: 3324
- Frá upphafi: 2426356
Annað
- Innlit í dag: 831
- Innlit sl. viku: 2987
- Gestir í dag: 812
- IP-tölur í dag: 748
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.