Af árinu 1868

Kalt ár, en hagstæðir kaflar vor og haust björguðu miklu. Febrúar var mjög kaldur, og einnig var kalt í mars, júní, júlí, ágúst og október, en fremur hlýtt í apríl og nóvember. Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,8 stig, 0,3 stigum ofan meðalhita næstu tíu ára á undan. Þó mælingar úr Reykjavík séu nokkuð óvissar virðist sem meðalhiti þar hafi verið um 4,1 stig. Árið áður var hitamunur stöðvanna tveggja hins vegar minni. Lítið var um mælingar um landið norðanvert þetta ár.

ar_1868t

Níu dagar teljast mjög kaldir í Stykkishólmi, 17. og 18.október hvað kaldastir að tiltölu, en einnig 8., 9. og 10. ágúst. Enginn dagur telst hafa verið mjög hlýr. 

Úrkoma mældist 741,7 mm í Stykkishólmi, talsvert meiri en árið áður. Að tiltölu var úrkomusamast í júní, en úrkoma var einnig mikil í febrúar, júlí og október. Mjög þurrt var hins vegar í desember og einnig var þurrt að tiltölu í ágúst og nóvember.  

ar_1868p 

Þrýstingur var óvenjulágur lengi vel, sérstaklega í mars, maí, júní og október, en hæstur að tiltölu í september. Þrýstiórói var sérlega mikill í febrúar og hann var einnig mikill í júní. Er það nokkur vísbending um hvassviðrasama tíð. Aftur á móti var óróinn lítill í september. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 13.mars, 956,5 hPa, en sá hæsti mældist þann 18.nóvember, 1039,1 hPa. 

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar.  

Janúar. Tíð þótti afbragðsgóð í janúar, nema helst var kvartað undan hvassviðrum á Snæfellsnesi. Þegar leið á mánuðinn skipti rækilega um veðurlag, tímarit Skoska veðurfræðifélagsins hefur eftir Árna Thorlacius í Stykkishólmi að við hafi tekið tveggja mánaða nær samfellt hríðarveður. 

Frá Flögu í Þistilfirði: „Var mjög snjólítið eftir hið besta tíðarfar í desember 1867 og reyndar frá veturnóttum“.

Baldur segir 9.janúar:

Árið (1868) byrjaði hér með stormi og rigningu, gjörði ofsaveður á nýárskvöld, svo að kaupfarið „Spica“ (44 1/2 lest), er sent var hingað til þess að sækja saltfisk til consuls Siemsens, sleit upp af höfninni og rak upp á kletta hjá Örfarsey; var skrokkurinn sjálfur seldur við uppboð 7. dag þ.m. fyrir 217 rd.

Þjóðólfur segir þann 13.janúar:

Í ofsalandsynningsveðrinu á nýársdagskvöld, slitnuðu sundur aðrar akkerisfestarnar er skipið Spica lá við hér á höfninni, tók hana þá brátt að reka fyrir ofveðrinu, er eigi voru nema einar festarnar eftir, fyrst á „grandann“ og vestur af honum, fóru þá skipverjar til og hjuggu burtu möstrin niður við þilfar, bar síðan skrokkinn upp í Hólmana (vestur af Örfarsey) og brotnaði þar.

Tíðarfarið hefir verið svo einmunagott þenna fyrsta hálfa mánuð af nýja árinu, að elstu menn muna vart jafn einstaka og stöðuga veðurblíðu fyrra hluta janúar: frostlaust nótt sem dag, og jörð hér syðra alveg snjólaus yfir allt, þar til lítið föl kom í morgun, og þelalaus; færð eins og þegar þurrast er um á sumardag. Um veturnæturnar kom allmikill hafís inn á Ísafjarðardjúp svo að óskipgengt var Djúpið um nokkra daga en fór svo aftur, og þykir þar vita á góðan vetur að hann kom þar inn svo snemma.

Norðanfari birti þann 21.mars bréf ritað á Grundarfirði 15.janúar:

Veðuráttufarið hefir verið einstaklega bágt, sífelldir umhleypingar, rok og rigningar, frost og kraparegn til skiptis, oft á sama dægrinu. Illviðri þessi hafa valdið því að fiskafli er víða hér mjög lítill, og hey mjög drepin og skemmd, meira og minna.

Norðanfari birti þann 15.febrúar bréf úr Langadal í Húnavatnssýslu dagsett 22.janúar:

Tíðarfarið hefir eins og allir hérlendir menn vita, verið að mestu það af er þessum blessaða vetri, svo gott að fá eru dæmi til, og það ekki í næstliðna 35 vetur [síðan 1833?]; alltaf að kalla þíður og auð jörð millum fjöru og fjallatinda, svo að vinna hefði mátt sem oftast að húsastarfi, garðhleðslu og jarðyrkju. Allur búpeningur, nema kýrnar á básunum, gengið sjálfala fram að jólum, og þar sem landkostir eru góðir allt fram að miðjum vetri. Í næstliðnum desember voru á Víðikeri í Bárðardal, sem þar er meðal fremstu bæja, heyjaðir 27 baggar af ísastör. Þar í grennd var sagt að kýr hefði um þær mundir gengið úti. Í Skagafjarðardölum og víðar, sást í janúar 1868, víða sprungið út á víði og fjalldrapa. Sama árgæskan hefir að kalla verið í sjónum nær því umhverfis land allt.

Baldur segir 7.febrúar:

Síðan „Baldur“ kom út seinast hefur lítið gerst til tíðinda, því fáförult hefur verið lengra að, nema nokkrir norðlingar, sem komið hafa suður til sjóróðra, geta þeir eigi annars, en sama veðuráttufars og hér; — kvefveikin hafði gengið þar líkt og áður. Sæmilegur fiskiafli hafði verið í haust og fram á vetur við Strandir og á Hrútafirði, minni við Skagaströnd og Vatnsnes. Snemma vetrar hafði hafís komið við Strandir, en rekið skjótt burtu aftur. Fram að 23. [janúar] voru hér stillt veður, en frost nokkur, hæst 10—12°, sást þá fyrst snjór, en með Pálsmessu [25.janúar] og þar eftir, gerði útsynninga, og dreif niður snjó mikinn, og eru því jarðbannir.

Úr bréfi úr Húnavatnssýslu er svo skrifað: „Veðráttufar og tíðarfar er hér um sveitir eitthvert hið blíðasta og besta og skemmtilegasta, sem hugsast getur“.

Febrúar. Kalt var og umhleypingasamt. Snjór töluverður um landið vestanvert, en minni eystra og betra tíðarfar þar.

Á Flögu í Þistilfirði 6.febrúar: „Hafís rak að landi“. 

Baldur birti 23.mars bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 13.febrúar:

Eins ágætur vetur fram að þorra, og þessi hefir verið, hefir nú eigi komið síðan 1804—5, 1818—19 og 1832—33 um Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslur. Í Þingeyjarsýslu var meðaltal hitans í októbermánuði (1867) 1°, í nóvember 1/3°, í desember 1°, í janúar (þ.á.) 3°, í febrúar hæst frost 12° til hins 8. dags, en þá 16—20°. Engir hafa nafnkenndir dáið. Maður einn varð úti hjá Syðri-Haga í Eyjafirði; hann hét Bjartmar; það varð í þeirri einu hríð er á þorranum kom.

Þann 18.júní birti Norðanfari bréf ritað í Snæfellsnessýslu 24.febrúar:

Á þessu ári (1868) eru mér tvö rokviðri minnilegust; 1. janúar og 5. febrúar, sem bæði urðu hér að tjóni, af því sem ég áður gat um, má ráða, að vetrarundirbúningurinn var hér ekki búmannlegur, enda eru þegar farnar að heyrast umkvartanir um heyleysi, þó gjafatíminn byrjaði ekki fyrri en litlu fyrir miðjan vetur. En síðan umskipti með þorrakomunni hafa sjaldan komið kafaldsupprof, svo fanndýptin er hér orðin í mesta lagi og ófærð að því skapi ókleyf. Ávextirnir af áminnstum rokviðrum, eru meiri skemmdir á ýmsum jörðum hér en á öllum undanförnum árum síðan 1850, til samans teknum, svo t.a.m. þrjár af þeim mega teljast með ollu óbyggilegar, tveim árum áður var ein af þeim skástu farin með sama móti, svo ég má segja líkt og haft er eftir konu Axlar-Bjarnar, „heldur saxast á limina hans Björns míns".

Baldur segir frá 28.febrúar:

Með ferðamönnum, sem nýlega hafa komið norðan úr Eyjafirði, hefir það frést, að fram til þorrakomu hafi verið hin æskilegasta tíð um allt Norðurland, svo að um nýár hafi litur sumstaðar verið kominn á tún, sem á vordag. Með því skepnuhöld voru og góð, munu menn þar víðast hvar vera færir um að taka á móti útmánuðum, þótt þeir yrði nokkuð harðir. Aftur hafði litið illa út þar, eins og víða annars staðar um land, með bjargræði, þar sem málnyta var lítil eftir sumarið, en kornbirgðir litlar í kaupstöðum, enda er verð á kornvöru svo, að fátæklingum er um megn, að kaupa hana, en kaupmenn tregir á að lána. Mun þetta með fram vera orsök til þess, að menn sækja hingað venju fremur til sjóróðra. En hér er litlu betur ástatt, svo til vandræða horfir, ef eigi verður afli góður. Með þeim fréttist og, að eldur hefði sést á gamlársdag, á sama stað og í sumar. Þá hafði og orðið vart við jarðskjálfta í Norðurlandi; bar eftir því meira á honum sem austar og norðar dró; höfum vér heyrt, að hús hafi hrunið á Húsavík. Eldur þessi hafði og sést um sama leyti vestan af Mýrum. Menn skyldu hafa ætlað, að austanpósturinn, sem kom hér 23. þ.m., mundi færa oss nákvæmari fregnir um hann, en það varð þó eigi; enda höfum vér eigi fréttir austan yfir Skeiðarársand frá því fyrir jól. — Austanpósturinn, Sigurður Bjarnason, kom hingað 23. [febrúar] Hafði hann verið lengi á leiðinni og fengið slörkutíð. Var hann öðru hverju hríðtepptur sakir illviðra og snjóa, er hann hreppti næstum hvern dag. Taldi hann megn harðindi og snjóa síðan um þorrakomu allt austur úr, en afbragðstíð til þess. Harðæri hafði verið manna á meðal, einkum í Meðallandi og Álftaveri, svo að fólk var þar farið að skera skepnur til matar sér þótt nógar væri heybirgðir.

Úr bréfi úr Múlasýslu er svo skrifað 17. des. [1867]: „Héðan er ekki að frétta nema einstaka tíð. Vér höfum varla séð hér snjó. Frost hafa komið hér mikil og ákafir stormar, er þó hafa sjaldan staðið meira en dag; annars hafa verið suð-vestan-blíður. Nokkur afli hefur verið á Reyðarfirði, og er enn úti í firðinum, og mokafli í Norðfirði. Hvergi er hér í fjörðum farið að kenna lömbum át“.

Hér á suðurnesjum hefir frá þorrakomu verið mjög stirð tíð; nálega sífeldir stormar og snjókomur; hefur því eigi gefið að leita fiskjar, þótt ætlan manna sé, að afli kunni að vera fyrir.

Ekkja nokkur öldruð, frá Vatnshlíð [?] á svonefndum Múlabæjum í Húnaþingi, hafði farið frá heimili sínu til næsta bæjar, laugardag 8. febrúar, gjörði þá kafaldsbyl, og hefur hún eigi fundist að því, er síðast fréttist. — Sjóróðrarmaður að austan ætlaði úr Keflavík suður í Hafnir, varð hann úti á þeirri leið.

Baldur birti þann 28.mars úr bréfi sem dagsett var í Snæfellsnessýslu 23.febrúar:

Tíðarfarið hefur verið framúrskarandi stirt síðan þorri byrjaði, höfuðáttin hefur verið útsynningur, þó oft hafi leikið á öðrum áttum stund og stund, fannkoman hefur verið áköf, og nú í dag, sem er fyrsti dagur góu gömlu, er útsunnanveður með skafrenningi og alveg jarðlaust; sumstaðar hér í kring hefur fé staðið inni í 3 vikur. Undan Jökli er að heyra alveg fiskilaust, og eru slíkt mikil bágindi. Um miðjan þorra urðu hér 2 stúlkur úti milli bæja í sunnanbyl, er skall á; sama laugardagskveld varð gömul kona úti á Hrútafjarðarhálsi. 

Þjóðólfur greinir frá árferði 29.febrúar:

Fram til þorrans framhélst hin sama einmuna veðurblíða er skýrt var frá í f.mán.; en fremur var hrakviðrasamt á hrosspeningi hér sunnanlands fram til jólanna; veðurblíða þessi náði yfir gjörvallt land að því sem spurst hefir, og hitinn virðist að hafa verið öllu meiri norðanlands um þetta tímabil, því t.d., í Hegranesi var daglega +4 til 6°R. [6 til 8°C] fyrstu vikuna af árinu. Harðindin dundu yfir með þorranum og hafa haldist fram á þenna dag með einu hinni mesta og jafnasta fannfergi sem menn hafa hér af að segja, svo að hér sunnanlands eru nú viða jarðbönn yfir allt, en aftur víðast jarðir uppi fram til miðs þessa mánaðar bæði norðanlands og um Dalasýslu, þegar ástöðuveður var. Mjólkurhey reynast víðast næsta létt og þar af leiðandi málnytuskortur og fremur skart manna í milli til sveitanna; mest mun samt kveða að því um Vestur-Skaftafellssýslu, enda biðu þeir annan verulega bjargræðishnekki í haust þar sem „melurinn" eður sú kornuppskera þeirra brást að mestu eður öllu. — Gæftalaust um öll nes til þessa; hvergi undir Jökli komið á sjó gjörvallan þorrann.

Mars: Kalt, nokkuð umhleypingasamt, en þó talin skárri tíð heldur en í febrúar.

Á Flögu í Þistilfirði: „Þennan mánuð voru mjög mikil harðindi. 1.mars rak hafís á fjörðinn; 23.mars, hafísrek og frost mikið; 28.mars, rak hafís úr landsýn“. 

Baldur birti þann 23.mars úr bréfi sunnan úr Garði, dagsett 6.mars:

Síðan þorranum sleppti og sjófært hefir verið stundum, hefir lítill verið aflinn, lítið eitt á Vatnsleysuströnd, og nokkuð um Voga og Njarðvíkur. 

Norðanfari birti þann 21.mars bréf ritað í Húnavatnssýslu 8.mars:

Mikið hefir tíðin verið óstöðug og hríðasöm síðan með þorra og lítið orðið notuð útbeit, þó jarðir hafi verið, sem nú eru víða orðnar litlar, og víðast búið að taka hross flest, þessa viku eða næstliðinn þriðjudag, gjörði blota er rýmdi ögn um hnjóta sumstaðar.  

Þjóðólfur segir frá 18.mars:

Síðan um miðja 1.viku góu og frá byrjun þessa mánaðar hefir veðráttan að vísu verið miklu spakari, frostvægari og minni snjókoma yfir höfuð víðsvegar hér sunnanlands, heldur en var á þorranum að minnsta kosti allt fyrir utan Ölfusá, en allmikill snjór féll framanverða miðgóu um allar sveitir milli Ölfusár og Markarfljóts, en lengra að austan eru engar fregnir yngri en um miðjan [febrúar]; óvíða komnar upp jarðir þar eystra né hér, síst að neinum mun, og víðsvegar að bæði austanfjalls og beggja vegna Hvítár þykir almennur heyskortur, fóðurvandræði og peningsfellir liggja opin fyrir ef eigi raknar úr hinum almennu jarðleysum með eindregnum bata nú upp úr góunni. — Þorraharðindin spyrjast hin sömu eður mjög lík og hér um allan vestari hluta Norðurlands eður norður til Eyjafjarðar, en þar virðist hafa verið miklu snjóminna, enda einnig frostvægara heldur en hér, og úr Þingeyjar- og Norðurmúlasýslu er sögð öndvegistíð með allt slag fram til miðs [febrúar]. — Undan Jökli er oss í bréfi 25. [febrúar] skrifað hið sama af harðindum til landsins og bjargleysum, eins og hér er syðra, og að almenningur hafi eigi hey lengur en út góuna ef eigi komi bati fyrr.

Norðanfari segir þann 21.mars:

Fyrir jólaföstuna hafði hafís rekið að Vestfjörðum og inn á á mitt Ísafjarðardjúp, en fór þaðan eftir vikutíma, og hefir eigi sést síðan. Með þorra komu fór veðráttu hér nyrðra og í hinum fjórðungunum, að svo miklu vér höfum frétt, helst að kólna og spillast bæði með snjókomu, hvassviðrum og frostum, sem síðan hefir oftast haldist, þó nokkrir dagar hafi verið frostlinir eða þíðir, er hleypt hafa í gadd, svo víða varð jarðskart, líka vegna snjóþyngsla. Frostið varð hér mest þá kom fram í febrúar, og á Akureyri 7. s.m. rúm 20 stig á Reaumur [-25°C]. 4. og 5 febrúar skall á fyrst eystra og svo hér nyrðra, hin mesta landnorðanstórhríð er komið hefir í vetur með ofsaveðri, snjókomu og 7 gr. frosti, urðu menn þá víða úti; suma af þeim kól, svo við limatjóni lá og nokkrir sem biðu bana. Eftir fréttum, sem nýlega hafa komið hingað af Sléttu og Langanesi, hafði töluverðan hafíshroða rekið þar að á dögunum, en eftir fáa daga rekið þaðan úr augsýn. 

Þjóðólfur segir þann 24.mars:

Með fregnunum um jarðleysurnar yfir allt hér sunnanlands og i Borgarfirði, — og allir sjá að snjókyngið og jökullinn hefir aukist daglega um næstliðinn vikutíma, — berast jafnframt æ hátalaðri og ískyggilegri fregnir um almennan bjargarskort til sveitanna manna í milli.

Norðanfari birti þann 15.apríl bréf úr Skagafirði og af Langanesi:

[Skagafirði 13.mars]: Tíðin hefir mátt heita hin besta, þótt lítið hafi verið um þíður síðan með þorra, og fremur umhleypingasamt. Útigangspeningur hefir því töluvert látið hold, og hestar víða hvar nú í engu betra ef eigi verra útliti, en í fyrra um þetta leyti, heyin, hvaðan sem til spurst hálfu lakari og léttari en í fyrra, og þótt séu með góðri verkun. Allt um það þó góð sé tíðin örlar á heyleysi hér í sumum sveitum, svo sem Blönduhlíð og Tungusveit.  

[Langanesi 25.mars]: Tíðin gengur jafnt yfir innra og hér, jarðlítið er hér nú víðast og jarðlaust sumstaðar. Ís kom hér seint í janúar en fór aftur, skildi hann aðeins eftir klakagarð í fjörum, og gjörði þær ónýtar til beitar. Í fyrradag kom ísinn aftur, og fyllti Axarfjarðarflóann, en flæktist mest allur burt aftur. 

Baldur birti þann 30.apríl bréf úr Rangárvallasýslu (ódagsett):

Þótt ég vildi láta yður fá um leið dálítinn fréttapistil, þá verður hann efnislítill því ekkert ber sérlegt til tíðinda hér um nálægar sveitir, nema hið bágborna tíðarfar, sem að líkindum gengur nokkuð jafnt yfir, að minnsta kosti hér sunnanlands; veturinn hefir verið hér úrskurðarmikill, hann mátti fyrst heita afbragðsgóður allt fram að þorra, en þá dundu á snjóar og illveður með stöðugu jarðbanni, sem hvorttveggja viðhélst fram í fyrstu viku góu; þá fór að spekja veðrið en sjógangur og jarðleysa hélst enn hið sama alla góuna og allt til þess 27. og 28. [mars], þá kom góður veðrabati svo jörð mátti heita alauð að viku liðinni og varir þessi æskilegi veðrabati enn í dag, svo nú sést ekki að kalla snjór í byggð. Þessi veðrabati var því dýrmætari, sem menn voru í langlakasta lagi undir búnir að taka á móti löngum og ströngum harðindum, og ég má segja að jafn illur undirbúningur, sem nú, hefir ekki átt sér stað um undanfarin ár, þó slitrótt hafi þótt með eitt og annað; sumarið var bæði grasleysis- og mesta rosasumar, haustið rigningasamt, svo þessi litlu hey og hröktu eyðilögðust fyrir þær i görðum, enda hefur fénaður fóðrast nauðailla og fengið víða ýmsa ótjálgni framar venju, svo fénaðarhöld eru almennt í slæmu horfi, heyskortur almennur, en þar af leiðir að menn verða að sleppa langt um of snemma hendinni af fénaði illa fóðruðum til þess að lifa af jörð eingöngu, enda þó hún ekki brygðist. Það bar margt til þess í þetta sinn, að heyið mundi verða viðsjált til fóðurs; það náðist svo að segja enginn baggi óhrakinn eða ókvolaður í garð, og svo komu þær miklu haustrigningar áður en menn gátu gengið frá í görðum, en ekki hvað minnst tilefnið mun þó hafa verið frostin, sem voru framar venju í fyrravor um gróandann, því ég hefi áður veitt því eftirtekt, að mikið frost um gróandann ónýtir grasið bæði til fóðurs og ávaxtar að fullum þriðjungi. Þessar illu afleiðingar hafa ekki síður komið fram í þetta sinn á kúnum, því þær hafa almennt ekki gjört hér meir en hálft gagn, en þar af hefur leitt stórkostlegan bjargarskort manna á milli framar venju, og þar á ofan er nú aflaleysið af sjónum, því hér fyrir öllum Rangársandi hefir ekki enn í dag verið á sjó komið á þessari vertíð; skip þau, sem héðan fara til sjóróðra í Vestmanneyjar, komu þangað ekki fyrr en í miðgóu, og sum ekki fyrr en í fyrstu viku einmánaðar, og þá með illan leik, þar sem færur þeirra margra sitja uppi enn í dag; Úr Vestmanneyjum varð landferð í miðgóu, og var þar þá fiskilaust, en í kaupstöðum þar var bæði að fá kornvöru og aðrar nauðsynjar með kauptíðarverði.

Þjóðólfur segir af skiptapa í pistli þann 18.apríl [stytt hér]:

Miðvikudaginn var, 15. þ.mán., reri almenningur hér innra en hvessti harðan á landsunnan þegar að hádegi leið og herti veðrið eftir því sem uppá daginn kom; voru það því eigi fáir hér af Seltjarnarnesi, þeirra er vestur höfðu róið, er eigi náðu lendingu; nokkrir hleyptu í Seltjörn og settu þar upp, en þrennir hleyptu uppá Akranes. Eftir því sem svo reyndist, hefir og sú verið fyrirætlan Jóns Eyjólfssonar tómthúsmanns á Steinum hér í Selhverfinu; hann reri um morguninn við þriðja mann á 4 manna fari, því 4. hásetinn sem ráðinn var, Jón bóndi á Reynisvatni, var að vísu alkominn hingað frameftir til sjóar kvöldinu fyrir, en atvikaðist svo, að hann fór eigi rakleiðis að Steinum um kvöldið, þar sem hann ætlaði að liggja við og náði svo eigi í róður um morguninn. En í suðurleið af Akranesi, daginn eftir, varð þetta skip Jóns Eyjólfssonar fyrir þeim á hvolfi og með segli og fokku uppi, og hvorttveggja rígbundið, og þótti þá auðséð hvað orðið var, að þeir myndi hafa kollsiglt sig og farist þarna allir 3.

Apríl. Fremur hlý og hagstæð tíð. 

Norðanfari birti 18.júní bréf úr Dalasýslu, dagsett 23.apríl:

Hér voru jarðleysur frá þorrabyrjun til þess viku af einmánuði, síðan hefir verið öndvegis tíð, og var þess, ekki vanþörf, því að heyjaskortur var hér orðinn venju framar, þó ekki væri orðin innistaða nema hérum 10 vikur; ollu því bæði létt hey, og skemmdir af haustveðuráttu. Harðæri, er svo mikið af bjargarskorti að elstu menn muna ekki annað meira, og ekki lítur út fyrir að batni þó að verslun byrjaði í Hólminum með nýkomna vöru.

Þjóðólfur segir 9.maí frá nokkrum vetrarslysförum:

Fyrr á þorranum urðu 2 mæðgur af Skógarströnd, úti á Narfeyrarhlíð, stúlkan var aðeins 11 vetra. — Um miðþorraleytið var unglingsmaður um tvítugt, Pétur að nafni, sendur frá Bjargi við Hellna með hest ofan til sjóar til að sækja hákarl; gaddbylur var og herti veðrið, svo hann missti frá sér hestinn út í veðrið, og hefir líklega farið að leita hans — og fannst hann látinn nokkrum vikum síðar eftir ítrekaða leit. — Sunnudaginn 22. mars (seinasta sunnudag í góu) var norðanlands einn hinn versti og harðasti gaddbylur þegar uppi á daginn kom, en allspakt veður fyrst um morguninn; þá hrakti fé víða um Skagafjörð, og var sagt í lausum fréttum, að nálægt undir 100 fjár frá Stóru-Gröf í Sæmundarhlíð og frá nálægum bæjum, hefði hrakið fram í Víðmýrargil og fennt þar og sumt orðið til undir fönninni; þá hrakti nálega 50—60 sauði frá Stafni í Svartárdal ásamt smalamanninum, 18—20 vetra; eftir ítrekaðar leitir fundust allir sauðirnir lifandi, nema einn, lengst fram á fjöllum, en smalamaðurinn var enn ófundinn þegar síðast spurðist.

Baldur segir frá 15.maí:

Af Norðurlandi er það helst að frétta, að þar er alveg hafíslaust með öllu Norðurlandi og Austurlandi, þó hefir sést til hans aðeins, svo sem sjá má af bréfi frá Seyðisfirði. Veðráttan hafði síðan á páskum [12.apríl] verið einkar góð, eins og hér sunnanlands hefir verið, en skepnuhöld betri þar, en hér eru. Hákarlaskip lögðu þar út þegar úr páskum, en voru eigi komin aftur.

Úr bréfi af Seyðisfirði 27. mars: „Veturinn hefir mátt kallast ágætur um allt Austurland, einkum fram að þorra, því að þangað til getur varla sagst að snjór hafi sést; en síðan hefir verið umhleypingasamt, en aldrei miklar snjókomur. Hafísinn hefir sést úti fyrir norðurfjörðunum, en nú eru suðvestan-stormar, og rekur hann því langt í haf aftur sem betur fer“.

Maí. Tíð þótti almennt hagstæð. Hret kom þó í lok mánaðar. 

Þorleifur í Hvammi segir þann 30.maí: „Snjóaði að nóttu í sjó niður“. 

Þann 18.júní birti Norðanfari bréf dagsett í maí:

[Húnavatnssýslu 15.maí] Ekkert er nú að segja héðan nema allt hið besta, hvað tíðarfar snertir og veðuráttu. Hún hefir verið hér hin æskilegasta síðan á páskum. Reyndar hefir verið nokkuð þurrviðrasamt og þyrrkingar, svo túnin voru hvít, og allt harðlendi skrælnaði, en fyrir rúmri viku síðan hefir komið breyting á þetta. Við og við hafa komið hægar vætuskúrir með þoku á nóttum, svo tún eru farin töluvert að spretta víðast hvar.

[Skagafirði 20.maí] Héðan er fátt að frétta, vorið hefir verið hér eitthvert hið hagstæðasta, þó næturfrost hafi verið töluverð fram til hins 6. [maí] Nú er hér kominn nægilegur sauðgróður, svo það lítur fremur líklega út með fénaðarhöld, þar sem hann gekk bærilega undan; í dag læt ég rýja allt mitt geldfé. Fuglafli er sagður góður þessa daga við Drangey, en ekki hefir hér enn orðið fiskvart.

Júní. Nokkuð hretasamt og úrkoma víða mikil. Kalt, sérstaklega um landið vestanvert. Skárra þó nyrðra.

Þorleifur í Hvammi í Dölum segir þann 14.júní: „Snjóaði að nóttu á fjöll og láglendi“. Á Flögu í Þistilfirði segir þann 9.: „Varð síðla vestanhríð“. Séra Þórarinn Kristjánsson í Reykholti í Borgarfirði segir að þar hafi snjóað aðfaranótt 2.júní og þann 10.gerði alhvítt um stund fyrir hádegi í miklu útsynningséli - og sömuleiðis gerði þar kafaldsél þann 15. og krapaél næstu daga á eftir. Fjóra daga taldi hann þurra í júní.

Norðanfari segir af hafís 18.júní:

Hafísinn hefir að öðru hvoru verið meiri og minni, einkum fyrir Hornströndum og allt austur undir Grímsey, og hamlað sumum hákarlaskipum afla, sem flest hafa komið heim, úr fyrstu og annarri ferð sinni.

Norðanfari segir frá 4.júlí:

[Þann 10. júní] kom Sveinn póstur Sveinsson hingað að austan, einnig fyrrverandi póstur Níels Sigurðsson ... Ferðamennirnir að austan, sögðu engar nýjungar, nema að þá voru, er þeir fóru að heiman, búnar um tíma, að ganga dæmafáar rigningar. Víða höfðu hlaupið skriður og skemmt tún og engi. einkum á Skógum í Mjóafirði, hvar tún og engi tók að mestu af, en bærinn hafði þó staðið óhaggaður.

[Úr bréfi úr Húnavatnsýslu, 10.júní] Ekkert er héðan merkilegt að segja, nema tíðin var hér einstaklega góð, frá því ég skrifaði yður, litlu eftir krossmessuna og fram um mánaðamót [maí/júní], þá varð hret nokkurt fyrir hvítasunnuhátíðina [31.maí], og svo eftir hana fyrir Trínitatis. Snjóaði þá víðast á láglendi, og sumstaðar varð fönnin svo mikil, að hana tók ekki upp af túnum, fyrr en 4. og 5. dögum seinna. Ekki varð samt meint við það, hvað skepnuhöld snertir svo ég viti, og ekki gjörði það túnum mikið til, einkum þar sem snjórinn lá á, því þar gat síður kalið. Núna eftir Trínitatishátíð, hefir aftur slegið upp í kuldahret, og snjóað víðast á láglendi, og tekur þessi kuldi æði mikið uppá geldféð nýrúið og svo lambféð, samt er því næstum óhættara þar sem er í góðu standi og vel hirt.

Þjóðólfur segir af skipbroti í pistli þann 10.júlí:

[Þ. 29.júní] var hér fremur spakt veður og úrkomulaust framan af, en þegar leið að hádegi, fór að ganga skúrum og reka á stinnings hryðjur af vestri útsuðri, og herti vindinn þegar á daginn leið og gjörði nokkurt brim. Norska timburskipið „Falkeri", er kom hingað 22.[júní], lá þá hér á höfninni meðal margra fleiri skipa, og eigi nema fyrir einu akkeri þá, en hafði upp undin flest segl sín, til þerris, meir en til hálfs; en einmitt er svo vildi til um miðdegisleytið að skipstóri var genginn á land og allir aðrir skipverjar, nema kokkurinn einn, voru og farnir frá borði með timburbát, þá rak í eina skúra-hryðjuna er fyllti öll segl, sleit akkerisfestarnar, og rak svo skipið austur í Arnarhólsklettana áður en við yrði snúist að bjarga; lá svo skipið þar og lamdist við klettana, þar til því varð náð á flot um kveldið og komið aftur út á höfn; en þá reyndist skipið brátt svo laskað, að eigi væri sjófært, og var því selt fram í hendur réttarins með rá og reiða til uppboðs.

Júlí. Mjög rigninga- og kalsasamt veður. Skárri kaflar komu þó fyrir norðan. Í Reykholti segir Þórarinn að sjö dagar hafi verið þurrir. 

Þorleifur í Hvammi segir þann 29.júlí: „Næturfrost með hélu kl.5“ (að morgni),

Baldur segir frá 11.júlí:

Úr Múlasýslu hefir frést ágæt veðurátta og grasvöxtur í betra lagi. Skepnuhöld kváðu og hafa verið þar góð, en heilsufar manna í lakara lagi; hefir megn taugaveiki gengið þar um; henni hefir fylgt lungnabólga, en fáir hafa þó úr þessu dáið, þeir sem teljandi séu. ... Að kvöldi 8. þ.m. kom Björn norðanlandspóstur; gat hann eigi um annað, en gott árferði, hvað skepnuhöld snertir, og grassprettu álitlega, góðan hákarlsafla og fiskvart, ef eigi væri beituvant; heilsufar manna sagði hann allgott að norðan.

Norðanfari segir þann 18.júlí:

Af Vesturlandi fréttist hingað nýlega, með hákarlaskipunum, er komu vestan fyrir Strandir og af Ísafirði, að tíðarfarið þar í vor hefði verið miklu kaldara en hér, og stundum frost og hríðar þá hér var gott veður. Í hretunum fyrir og eftir hvítasunnuna [31.maí], hafði komið feikna fönn. Gróður og grasvöxtur var því þar miklu minni en hér nyrðra. ... Allt til skamms tíma, voru hafþök af ís upp fyrir dýpstu hákarlamið, og alltaf stormar og kuldar, og stundum hríðar til hafsins, þótt á landi hafi verið gott veður. ... Tún eru sögð orðin með besta móti. Þeir fyrstu hér, byrjuðu slátt á mánudaginn í 10. vikunni, og svo hver af öðrum.

Þjóðólfur lýsir rigningatíð í pistli þann 30.júlí:

Síðan um hvítasunnu [31.maí] en þó einkum síðan um Trínitatis [7.júní] hafa gengið lotulaus votveður og rigningar allt til 27. þ.mán., og það svo, að hér syðra hafa eigi komið nema einir tveir þerrir dagar frá morgni til kvelds á öllu þessu tímabili, en margir dagar svo í röð, og vikum saman, að eigi tók af steini. Þessi sama rigningatíð hefir gengið um Dali, umhverfis allan Breiðafjörð, um Strandasýslu og jafnvel einnig Húnavatnssýslu vestanverða, og yfir gjörvallt Suðurland austur að Mýrdalssandi; austar að höfum vér eigi fregnir ekki heldur úr Þingeyjarsýslu, en um Eyjafjörð og Skagafjörð voru miklu vægari rigningar allt framundir framanverðan þennan mánuð, sama er að ráða af bréfum af Vestfjörðum um sama leyti. Allur saltfiskur, er búið var að taka úr saltstakk og verka upp til þerris, lá fyrir skemmdum, og var orðinn skemmdur frá að vera gild og góð vara hjá mörgum manni, ekki að tala um vorafla, er ætlaður var til harðfisks; mórinn og annar eldiviður er þurrka skyldi, hefir beðið stórskemmdir og mikla rýrnun, og eldiviðarvandræðin allstaðar til sveitanna einstakleg, en miklu vægari við sjóinn hér syðra, þar sem nægð steinkola hefir verið hér að fá við vægu verði. Víða er og kvartað yfir því til sveitanna, að allur málnytufénaður en þó einkum ásauðurinn hafi gelst stórum i þessum sífeldu kalsarigningum. Kaupstaðarullin hefir og verkast fremur illa og margur lagður komið blakkur og miður þurr til kaupstaðar að þessu sinni; öllum gefur að skilja, hve erfitt hefir verið fyrir alla sveitamenn að reka kaupskap sinn og að komast um jörðina í þessari ótíð. Grasvöxtur var og er orðinn í besta lagi víðsvegar um land, og það jafnt á túnum sem útjörð; þess vegna tók almenningur nú til sláttar allt að því viku fyrr en almenn venja er til, var því einkum að skipta um Breiðafjörð og í héruðunum þar um kring, einstöku menn hér syðra tóku til sláttarins fyrir og um mánaðamótin; en sá mánaðar-hrakningur mun verða næsta rýr til mjólkurnytja, þótt hann þorni. þessa 3 dagana 28.—30. þ.m. hefir verið besti þerrir, og sýnist nú veðráttan brugðin til eindregins þurrveðurs um sinn.

Ágúst. Fremur köld tíð og úrkomusöm. Þurrkakaflar komu þó sem nýttust við heyskap, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Á Flögu í Þistilfirði segir 7.ágúst: „Brimæsingur og nær því var frost og hinn 8. eins sjávarólgan“. 11.ágúst: „Rigning aðfaranóttina en hríðarél um daginn“.   

Þorleifur í Hvammi segir þann 9.ágúst: „Snjóaði og festi á ferðamönnum“. Á 

Baldur segir af tíð 5.ágúst:

Tíðarfarið hefir hér sunnanlands verið mikið erfitt sökum óþurrka, er nú hafa gengið í nær átta vikur, og munu fáir muna meiri óþurrkatíð, er nú lifa, svo eldiviður er óþurrkaður og sumt af honum orðið skemmt, víða mór óútreiddur; sama er að segja um fisk, að menn hafa verið í vandræðum með hann. Allur vorfiskur er víst alls staðar óþurrkaður, en vetrarfiskur er víst flestur kominn undan skemmdum. Hjá þeim, sem byrjuðu hér snemma að slá tún, skemmdist taðan mikið svo vart verður að henni meira en hálft gagn, en hingað til eru það ekki nema fáeinir menn sem fyrir þessum skaða hafa orðið. Tíðin er því erfið hér fyrir mörgum, sem von er, þegar þetta bætist við þungbæra verslun; það eina, sem hér hefir hjálpað mikið, er, að hér hefir fiskast mikið af þorski og ýsu, og er ennþá góður afli. Sumar af fiskijöktunum hér í Faxaflóa hafa líka fiskað dável þorsk í seinast liðnum mánuði. Hákarlsafli hefir verið sagður góður á Búðum, en ekki höfum vér nákvæmlega frétt hlutarupphæðina. Tíðarfarið er gott að frétta að norðan, úr Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu, og þurrkur og grasvöxtur góður, og afli allgóður; úr sveitunum hefir ráðið og óráðið kaupafólk verið gjört afturreka, og er það víst af slæmri tíð og skorti á matföngum.

Baldur birti þann 18. ágúst bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 7. ágúst:

Hvað veðuráttu snertir, þá var hér mjög votviðrasamt, eins og fyrir sunnan, frá því um Jónsmessu og fram í 14.viku sumars (fram um 20.júlí). Almennt var tekið til sláttar í 12. vikunni og sumstaðar öllu fyrr. Tún voru mætavel sprottin og svo mun harðvelli vera víðast hvar. En nærri lá, að töður mundi stórlega skemmast og rýrna í vætum þeim, sem stöðugt gengu framan af túnaslættinum, því taðan var víða orðin hálfsmánaðar áður en nokkurt strá væri þurrt af henni. En þá kom þerrir í samstæða viku, svo töðurnar hirtust og nýttust vel á endanum, það var um lok júlímánaðar. Það sem af er slættinum, er hinn skemmtilegasti sumartími, sem flestir hafa nú lifað i mörg ár hér fyrir norðan; það er mér óhætt að segja. Ef sumar þetta ræðst vel hvað veðuráttu snertir fram til hausts og menn hafa svo gætur á að setja skynsamlega á hey sín, sem reynslan ætti að vera búin að kenna hverjum, sem ber bónda-nafn, þá er það ekki vafamál, að menn rétta við stórum eftir árið sem leið, eða öllu heldur blómgast, og er þó satt að segja, að bændur hafa átt við ramman reip að draga þar sem verslunin er síðan í fyrra sumar. Þá máttu þeir segja: „Allt kvam senn at svinnum“. [Grettissaga,47] Þá var mikið grasleysi eftir mesta harðindisvetur. Fénaður gekk fram langkvalinn og horaður. Um þriðjungi minni og helmingi minni en vant var. Verð á útlendri og innlendri vöru undir eins hið lakasta. Kornmatur fékkst því ekki nærri að þörfum. Málnyta einhver hin rýrasta, sem menn vita til. Heynýting einstaklega bág. Af þessu er auðsætt ástand manna hér fyrir norðan í fyrra haust. En af því að menn skáru niður lömbin vegna heyleysisins og lögðu mikið fé frá, þá komust menn af veturinn sem leið. Nú þó verslun batnaði ekki að sinni þá var þó allt betra.

Norðanfari segir frá 10.október:

Seint í næstliðnum júlímánuði lögðu hér nokkur þilskip út til hákarlaveiða, og meðal þeirra skipið Ingólfur sem eigi er komið aftur, telja menn því víst, að það muni hafa týnst í illviðrunum sem gengu hér nyrðra í 16. vikunni [kringum 10.ágúst], því um þær mundir voru hér norðanveður og snjókoma allt ofan undir bæi; þá var og líka á leið skipanna nokkur hafís, er því helst getið til, að Ingólfur muni hafa á siglingu eina nóttina lent á hafísjaka, sem brotið hafi gat á skipið og það sokkið þegar, því ekkert hefir enn rekið af því, enda var skipið þá menn vissu seinast til þess, fram í reginhafi.

Norðanfari segir í pistli þann 28.ágúst:

Í sumar voru á Austfjörðum allt fram í júlímánuð, svo miklar rigningar, nema í viku fyrir fardagana, að menn eigi mundu slíkar í næstliðin 30 ár. ... Með manni, sem kom hér nýlega úr Árnessýslu, fréttist, að allt fram seint í júlí, var enginn baggi kominn í garð undir Eyjafjöllum og um vestri hluta Skaftafellssýslu, en síðar kom góð þurrkatíð sem byrjaði 28. júli svo allir voru búnir að hirða töður sínar og sumir með góðri verkun, og margir þegar fengið töluvert af útheyi.

Þjóðólfur segir af strandi í pistli þann 2.september:

[Þ. 29. ágúst] (höfuðdaginn) var hér syðra slagveðursrigning og stormhvass fram yfir miðjan dag, fremur landsyntur hér innra, og þegar dró að hádeginu, varð rokveður um Keflavík og Njarðvíkur ofarlega á austan. Þá lágu 2 kaupskip á Keflavík: Bertha (skipst. Vandal) eitt af skipum Knudtzons, og slupskipið Cathinka eign Duus kaupmanns, ... skipstjóri Larsen; var þetta skipið búið að fá í sig fullfermi af fiski, lýsi og ull, og átti að fara 1—2 dögum siðar alfarið til Kaupmannahafnar. Þegar komið var yfir kl.11, slitnaði önnur akkerisfesti Cathinku, skipti þá engum svifum áður hin brast líka, eður að það akkerið sleppti botnfestunni, og var skipið á sömu svipstundinni komið til drifs og uppí klettana utantil í Keflavíkurmölinni, rétt niðurundan húsum eigandans, og skipti litlu meir en 1/4 stundar, frá því er akkerisfestin brast og þangað til allt skipið var komið þarna mélinu smærra, og vörufarmurinn allur víðsvegar um ströndina, en allir 5 skipverjarnir drukknaðir og brimrotaðir; það sást til þeirra, að þegar skipið sleit upp, köstuðu þeir sér út að þilfarinu víðsvegar og héldu sér þar dauðahaldi meðan máttu; einn skipverjanna sást bregða fyrir á fleka í því skipið var að fara í spón, það ætluðu menn að væri stýrimaðurinn, en hvarf aftur í sömu svipan. Engi vegur var til að reyna að bjarga neinu með svo skjótum atburðum sem hér urðu. — Sama daginn sleit upp fiskijagt (slup) þeirra Njarðvíkurmanna (Ásbjörns hreppstjóra Ólafssonar, Jóns Péturssonar o.fl.?) þar á víkinni og brotnaði í spón; hún var mannlaus.

Baldur birti þann 12.október úr tveimur bréfum að austan - rituðum í september:

[Jökuldal 9. september] Tíðin hefir verið mjög hagstæð í sumar til heyskapar og hafa flestir heyjað vel, en fremur er þó illa sprottið engi, og verða menn víða að hætta í fyrra lagi vegna þess. Að líkindum verður fé vænt í haust, því bæði gekk það vel undan og fór snemma að fitna, þar tíðin var svo hagstæð í vor.

[Vopnafirði 11.september] Sumarið hefir verið allgott, grasvöxtur sæmilegur og skepnuhöld góð; í júlí og ágúst-mánuði voru hér miklir óþurrkar, en það sem af september er, hafa verið þurrkar og besta heyafla-tíð, svo það lítur út fyrir góðan heyskap, enda hefir heilsufar manna verið gott heyanna-tímann. Á Vopnafirði hefir mátt heita fiskilaust í allt sumar.

September. Lengst af hægviðrasöm og ekki óhagstæð tíð. Hret þó í lokin.

Á Flögu í Þistilfirði segir að roði hafi verið mikill á sólu bæði þann 10. og 30.september.

Þjóðólfur rekur tíð þann 12.september:

Tíðarfarið og veðráttan í sumar eða síðan um fardaga hefir allstaðar verið köld víðsvegar um land, og eigi að vísu næturfrost með jafnaði eður að mun, en kalsa- og krapaéljaíhlaup gjörði dagana 1l.—12. ágúst hér syðra og vestanlands (einkum um Dala- og Hnappadalssýslu, vestar að höfum vér engi sannar fregnir um þetta svo að snjóaði ofan í byggð og varla var standandi að heyvinnu á votlendi. Hér syðra hét varla að verða maðkaflugu eða maðks vart á vanalegum maðkatíma. Tún voru snemmsprottin og í betra lagi, víðsvegar um land, og velli eður valllendi sömuleiðis víðast hvar hér syðra, en allar hálendar mýrar og til heiða, illa sprottnar eða í lakara meðallagi og yfirhöfuð allt það mýrlendi hér sunnanlands, vestanlands og um Múlasýslur, þar sem ekki er vatnsagi eður flói, eins og er t.d. um Breiðumýri í Flóa, Safarmýri í Landeyjum, Ölfusflóðin og flæðiengjarnar í Andakíl, — allar þesslags engjar voru sprottnar í meðallagi eða vel svo, en vatnsfyllingin í Flóanum meinaði mönnum að færa sér í nyt þá grasnægð og gjörði engjaheyskapinn mjög endasleppan í þeirri sveit. — Túnaslátturinn var byrjaður í fyrra lagi víðast hér syðra, og vestanlands af því tún voru nú víðast snemmsprottnari en vanalega, varð og besta nýting á töðum að sögn víðsvegar um Norðurland, Múlasýslurnar og enda Skaftafellsýslurnar vestur að Mýrdalssandi, einnig góð töðunýting um Borgarfjörð og Mýrar og annarstaðar vestra, þar sem eigi hafði verið tekið því fyrri til sláttar, en rigningaótíðin hélst hér sunnanlands allt fram í fyrstu hundadagavikuna, og enda allt að viku lengur um Eyjafjöll og Mýrdal, þess vegna hröktust hinar fyrsta töður nokkuð hjá sumum, og þó eigi almennt til skemmda eða verulegrar rýrnunar, hefði það ekki bæst ofan á, að mörgum var það, að hirða djarft þegar í hinum fyrstu þerrum, og fyrir það hafa og eigi fáir búendur hér orðið að leysa upp töður sínar sakir ofhita. Síðan um júlílok hefir heynýtingin verið fremur góð hið syðra þó að þerrar hafi verið bæði styttri og stopulli hér, heldur en norðan- og vestanlands ...

Norðanfari birti þann 10.október bréf úr Múlasýslu, dagsett 21.september:

Sumarið hefir verið hér hið allra besta og hagstæðasta, þó ágústmánuður væri þurrkalítill, þá hefir september bætt úr því. Hafa nú lengi verið þurrkar og hitar svo miklir, eins og í júlímánuði, þá best lætur, Grasvöxtur var með besta móti víðast hvar á túnum og þurrlendi, en fjarska lítill víða á mýrum, nema á votengi. Til fjalla hefir verið graslítið, því frost komu þar, þegar hálfnaður var grasvöxtur og kyrktu hann. Sömu frostin spilltu í byggð öllu deiglendi. Menn hafa víðast heyjað með betra móti og heyin með bestu hirðingu. 

Norðanfari birti þann 18.desember bréf af Snæfellsnesi, dagsett 24.september:

Heyskapurinn hefir í sumar gengið hér víða með stirðara móti; fyrst var grasvöxturinn mjög misjafn; við sjávarsíðuna, var hann að vísu allstaðar góður, en fram til sveita og dala aftur lakari; og þar næst hefir þessi óstöðuga tíð og iðulegu umhleypingar og rigningar haft skaðleg áhrif; nýtingin hefir orðið tæp, einkum á töðum; aftur láta menn betur yfir útheyinu. Sumstaðar, svosem t.d. í Staðarsveit hefir hey fokið í stormum til töluverðs skaða.

Baldur segir frá 24. september:

Í gær kom hingað vestanpósturinn og norðanpósturinn kom i morgun. Að norðan fréttist einmuna tíð og bestu þurrkar. Vegir höfðu verið svo þurrir að það var mesta moldrok að ríða, en það rýkur samt ekki í augu mönnum af þurrkunum hérna i Reykjavík. ... Eftir því sem fréttist er að sjá, sem norðausturhluti landsins hafi haft þurrkatíð, en suður- og vestur-hlutinn rigningar og óþerra. Að vestan er oss sagt um tíðarfar, að þótt eigi sé þurrkasamt, þá megi þar þó heita bærileg tíð og eigi svo votviðrasöm, sem hér; vellíðan manna á meðal nokkurn veginn þolanleg og eigi með lakasta móti. Hér er eigi gott útlit til vetrarins. — Jarðeldurinn kvað vera uppi í sama stað og áður er frá skýrt, nefnilega í vestanverðum Vatnajökli; og hafa menn nýlega í Rangárvallasýslu orðið varir við öskufall.

Október. Köld tíð og þó nokkuð illviðrasöm. Sérlega kvað að illviðri um miðjan mánuð.

Þjóðólfur segir í pistli 13.febrúar 1869 af brimsköðum í Dýrafirði 2.október:

Eftir bréfi frá merkum manni í Dýrafirði vestra, kom þar stórflóð með brimgangi föstudaginn 2. dag októbermánaðar í haust; við það urðu ýmsir þar fyrir sköðum á skipum og ýmsu öðru; 3 skip tók þá út á Söndum við Dýrafjörð; voru það 2 bátar, og náðust þeir aftur heilir, en 3. skipið, sexæringur, brotnaði svo að ónýtt varð. Nýr sexæringur mölbrotnaði í Svalvogum, og töluvert af fiskifangi fór þar og i sjóinn. Nokkrir menn úr Arnarfirði voru þá að sækja korn að Þingeyri, urðu þeir að leggja að landi, þar sem Sveinseyri heitir; héldu þeir skipinu heilu, en misstu allan farminn.

Norðanfari birti þann 12.nóvember úr bréfi að sunnan, dagsett 4.október:

Tíðin var ágæt seinni hluta septembermánaðar. Besta fiskirí á Sviði á lóðir af vænni ýsu, þurrkur nokkra daga, svo sveitamenn náðu heyjum sem seinast voru slegin, og mikið bættist úr með eldiviðinn. [Fjóra] fyrstu dagana af þessum mánuði hafa gengið stórrigningar og krapahríðar svo snjóað hefir ofan í miðjar fjallahlíðar. 

Baldur birti þann 9.nóvember úr bréfi frá Seyðisfirði, dagsett 9.október:

Veðráttan var hér allan [september] hagstæð og blessuð bæði til lands og sjávar, svo heyföng manna urðu víðast hvar í besta lagi og nýting ágæt; aftur skipti um undir mánaðamótin, og gekk í rosum og úrkomu síðustu daga hans og fyrstu dagana framan af þessum; snjóaði þá svo á fjöll, að lítt varð fært með hesta, fyrir héraðsmenn einkum, er þá voru að byrja haustrekstra sína og lestaferðir í kaupstað, en ófært að öllu fjarða á milli; en nú hefir stillt til aftur og besta veður verið allmarga daga undanfarna.

Norðanfari segir af tíð þann 22.október:

Veðráttufarið var að kalla einlægt hér hið blíðasta og besta allan september, og til hins 6. þ.m., að það breytti sér og kom norðan hrakviður með éljum og snjókomu, til fjalla og ofanundir byggð, birti þá aftur upp og örísti næstum nema efst á fjöllum; enda var hér þann 10. þ.m. mesta ofviður útsunnan og stólparok fram á kvöld. Þann 13. hófst aftur norðanáttin, hríðar og fannkoma á hverjum degi til hins 18. birti þá aftur upp og blotaði 20. s.m. Fönnin kvað mikil yfir allt það frést hefir. 

Þjóðólfur segir þann 24.nóvember af tjóni að fjallabaki í október (talsvert stytt hér):

Sunnudaginn 11.[október] lögðu 4 menn upp úr Skaftártungu og ætluðu allir suður á Suðurnes til sjóróðra vetrarlangt; ... Þeir lögðu allir fjórir af stað úr byggð sagðan sunnudag, með 4 hesta, en engan áburð, því þeir voru búnir að koma færum sínum á undan sér suður; nokkrir segja, að hvorki hafi þeir haft tjald né neinn göngustaf. ... [og munu] þeir hafa lagt upp úr byggð fyrri hluta dagsins eður jafnvel um morguninn, því Sæmundur Jónsson bóndi á Ljótsstöðum fylgdi þeim vestur á fjöllin „vestur undir Hellur eður Helluhraun", sem kallað er (vér ætlum það sé vestantil á Mælifellssandi); náði hann austur yfir aftur heim til sín um kveldið eður nóttina, og sagði hann svo af ferðum hinna, að þeir mundu hafa náð í Hvanngil um sólsetur; en þykkfengið hafði þá verið og þoka mikil á fjöllunum. Hvanngil mun vera sem næst miðja vega á Fjallabaksleið milli byggða að vegalengdinni til; Rangvellingar eiga kofa þar í Hvanngili, er afréttisleitarmenn þeirra liggja við, og er allgott skýli fyrir eigi fleiri menn. En daginn eftir, 12.[október], skall á með gaddbyl af landnorðri hvervetna þar eystra með feikimiklu snjókyngi og stóð 3—4 daga, enda ef til vill allt það hið mikla norðanveður af — þar upp á fjöllunum milli meginjökla Torfajökuls að norðan en Mýrdalsjökuls og Tindfjallajökuls að sunnan. — Víst er um það, að fullum 1/2 mánuði síðar voru þeir hvergi komnir fram í byggð hvorugu megin fjallanna, og er því talið tvímælalaust, að þeir hafi orðið þarna til allir 4, en eigi hægt að ætla á, með hverjum tildrögum eður atvikum það haft orðið, að öðru leyti en því, að það þykir ráða að líkindum, að þeir hafi eigi haft þreyju á að liggja af sér bylinn þar í Hvanngili, heldur hafi lagt upp máski þegar á næsta degi, og ætlað að ná vestur af, sjálfsagt þá leiðina, er nú er tíðast farin af lausríðandi mönnum og gangandi: yfir „Brattháls" og Markarfljót „á Króknum", sem kallað er, en eigi hina fornu Vegahlíðarleið og í „Grashagann", en sú leiðin er miklu greiðfærari, hættuminni og vissari, þótt nokkuð kunni hún að vera lengri eftir stefnunni. ...

Nóvember. Tíð talin mjög hagstæð, hlýtt var í veðri.  

Baldur segir af jarðskjálftum í pistli þann 7.nóvember:

Aðfaranótt hins 31. [október], og hins 1. og 2. dags nóvembermánaðar urðu menn hér varir jarðskjálfta. Mest mun hafa að þessu kveðið síðustu nóttina; þá komu tveir kippir um kl. 12, og voru þeir einna mestir, einkum hinn síðari þeirra. Bæði þá nótt og hinar á undan komu fleiri kippir um næturtímann, og sumir, er vöktu, þóttust enda hafa orðið varir við hristing við og við alla aðfaranótt hins 1. dags nóvember. Eigi var jarðskjálfti þessi svo mikill, að tjón yrði að; þó færðust víst í tveim stöðum hér í Reykjavík ofnar úr stað í húsum, og í einu húsi brotnuðu tveir lampar. Sitthvað lauslegt í húsum, t.a.m. myndir á veggjum o.fl. þesslags datt ofan, og í húsum með múruðu lofti féll víða kalkryk niður. Hin nýbyggða og glæsilega skólavarða beið þó ekkert verulegt tjón af þessu, því að þótt kalk nokkurt hryndi úr henni, þá er auðgjört við slíku. Um stefnu jarðskjálftans getum vér ekki fullyrt neitt, þar eð hún mun eigi hafa verið rannsökuð með verkfærum, en að því, er að finna var og sjá, mun eigi fjarri sanni, að hann hafi gengið frá (norð-?) vestri til (suð-?)austurs. Jarðskjálfti þessi varð því eigi mikill teljandi hér, en óvist er, hvernig hann hefir við komið annars staðar, og væri fróðlegt að fá að vita slíkt. — Það þykir mega telja mjög líklegt, að eldsuppkoma sé eða hafi verið einhvers staðar, þótt óvíst og ófrétt sé enn, hvar það hefir verið, hvort heldur hér í landi, eður annars staðar. Á Bessastöðum á Álftanesi féll helmingur fjárhúss inn öðrum megin; eigi varð þó tjón að þessu, enda þótt fé væri í húsinu, þvi að það hafði allt staðið í garðanum þeim megin, er eigi féll inn.

Séra Þórarinn í Reykholti getur tveggja stærstu skjálftanna. Þann 12. eða 13. sá hann eldbjarma í austri. 

Þjóðólfur segir af jarðskjálftunum í pistli þann 13.nóvember:

Nóvembermánuður byrjaði hér á Suðurlandi með allmiklum og mörgum jarðskjálftum. Fyrsti kippurinn kom aðfaranóttina hins 1. dags nóvembermanaðar litlu eftir kl. 4 og var sá kippur allsnarpur. Eftir hann komu 4 eða 5 kippir þá um morguninn til kl. 7, en allir smáir. Næsta kveld eða sunnudagskveldið kl. nálægt 11 ½ kom aftur allharður kippur, og fundust þá nótt við og við smákippir. Mest kvað þó að þessum jarðskjálftum mánudagskveldið, hinn 2. dag nóvembermánaðar; kom þá allharður kippur nálægt kl.11, og litlu síðar annar, og var sá langharðastur allra þessara jarðskjálfta, og svo harður, að naumast mun annar jafnharður hafa komið hér í Reykjavík í langa tíma. Á milli þessara tveggja kippa virtist ekkert algjört hlé verða á hristingnum. Eftir þennan hinn harða kippinn kom með litlu millibili að minnsta kosti einir 6 rykkir, en allir smáir, og þó enn nokkrir síðar um nóttina. Síðan fundust við og við smájarðskjálftar fram eftir vikunni, og hinn síðasti nóttina milli föstudags og laugardags [7.nóvember], en síðan hefir þeirra eigi vart orðið. Jarðskjálftar þessir virtust að koma hinir fyrstu úr austurlandnorðri, en hinir úr háaustri, og ganga til vesturs. Eigi höfum vér heyrt þess getið, að jarðskjálftar þessir hafi neinar verulegar skemmdir unnið; en við jarðskjálftann á mánudagskveldið færðust þó nokkrir ofnar úr stað hér í Reykjavík, og tveir lampar brotnuðu, en engin hús skemmdust að neinu.

„Baldur" segir, að jarðskjálftarnir hafi byrjað aðfaranóttina hins 31.október, en þess jarðskjálfta höfum vér eigi heyrt getið, enda uggir oss, að „Baldur" hafi aðeins dreymt þann jarðskjálftann. Eins mun hann eigi hafa núið vel augun, er hann leit á klukkuna hina síðustu nóttina; því að síðasti kippurinn var kl.11, en eigi kl.12.

Þjóðólfur segir fleira af jarðskjálftunum þann 24.nóvember:

Í síðasta blaði gátum vér jarðskjálfta þeirra, sem gengu hér fyrstu vikuna af nóvembermánuði. Jarðskjálftar þessir gengu og yfir Borgarfjarðarsýslu og Mýrasýslu, og virðist svo, sem kippirnir hina fyrstu tvo dagana hafi orðið þar hér um bil jafnharðir og hér, en þó höfum vér eigi heyrt þess getið, að nokkurt tjón hafi af þeim orðið, nema að á Leirá í Borgarfirði hafi hrunið veggur undan fjárhúsi eða fjárhústóft, og hafi nokkrar sauðkindur undir orðið, svo að þær varð að skera; hvergi norðanlands vart við jarðskjálfta. Í Skaftafellssýslu varð jarðskjálfta þessara alls eigi vart fyrir austan Mýrdalssand, en í Mýrdalnum og í sveitunum þar fyrir vestan allt að Ytri-Rangá hafði hræringanna vart orðið að kvöldi mánudagsins, eður „nóttina milli 2.og 3.þ.mán.“, eftir því sem segir í bréfi af Rangárvöllum 9. og ferðamenn austan af Síðu staðfestu. Aftur segir í bréfi austan úr Upp-Holtunum (milli Rangár og Þjórsár) 14.: „Jarðskjálftar voru hér snarpir fyrstu tvær næturnar af þ.mán“.; og eins var t.d. í Þingvallasveit; urðu þar harðir rykkir og miklar hristingar, þótt ekki yrði skaði að. — Í hinu síðarnefnda bréfi, úr Upp-Holtunum segir, enn fremur: „fleiri sáu mikinn eld upp kominn í gærmorgun (13. þ.mán.) á sömu stöðvum sem í fyrra“; og „í nótt, er leið milli 13. og 14.) sáu þeir menn, „er á ferð voru, nógar eldglæringar í norðri, þó að þoka væri á afrétti og nokkur úrkoma“.

Norðanfari segir af tíð þann 12.nóvember:

[Fimm] dagana fyrstu af mánuði þessum voru hér norðan hvassviður og snjókoma á hverjum degi, svo varla var skepnum fært út úr dyrum, en 6. þ.m. birti upp og síðan hefir verið gott veður og stundum þítt og nokkuð tekið upp snjóinn, er mikill kvað kominn í sumum sveitum. Í hríðunum 14.—18. október, er sagt að 50 fjár hafi fennt í Möðrudal en 20 á Grímsstöðum á Fjöllum, margt í Mývatnssveit og svo hér og hvar norður undan. þá varð og úti á Hólssandi kvenmaðurinn, sem getið er um í næsta blaði hér á undan. 

Norðanfari birti í aukablaði 18.desember nokkur bréf. Í þeim fer mest fyrir umfjöllun um veðrið mikla um miðjan október:

[Breiðdal 9.nóvember] Tíðarfarið var breytilegt á næstliðnu sumri; það gekk með meiri óblíðusvip úr garði, heldur en það að jafnaði hafði sýnt sig áður, því heita má að það yrði eitthvert hið arðsamasta og hagstæðasta, sem nýlega hefir komið, hvað viðvíkur heyskap og nýting á honum. Grasvöxtur varð hér með betra móti einkum á túnum. Skurðarfé hefir reynst með besta móti. Í byrjaðri seinustu viku sumars gekk í dimmviðrisbyl, er stóð alla jafna í 8 dægur með ofviðri og snjókomu. Setti hér þá svo mikinn snjó niður, að menn muna eigi eftir, að annað eins hafi komið niður í einu. Fjárpeningur var óvís víðast hvar og margir í kaupstað, svo sumir bæir voru karlmannslausir, eða þá eigi nema unglingar heima, og varð því engu eða litlu bjargað í veðrinu þar sem svona var ástatt. Í veðri þessu fórst fjöldi fjár og hestar sumstaðar, þar af 5 til dauðs hér í sveitinni. Með stöðugum leitum hafa menn fundið flest aftur af skepnunum bæði dautt og lifandi, svo eigi vantar tiltakanlega nema á tveimur bæjum eða þremur, hvar vanta mun nálægt þriðjunginum.

[Hjaltastaðaþinghá 11.nóvember] Vorið og sumarið var gott nema fjarska úrkomur í vor. Fjárhöld voru góð í vor, eins og nærri má geta, eftir jafngóðan vetur. Grasvöxtur varð í betra lagi, sumstaðar ágætur og sumstaðar óvanalega snemma byrjaður; varð því heyafli hjá almenningi mjög mikill, og allt sýndist vera að lifna, það er að segja að því leyti tíðarfarið snerti; en þá dundu þau undur yfir er flestum munu minnisstæð, því 15.—18. október voru hér á Austurlandi dæmafá illviður, bæði vegna ofviðurs, snjókomu og sjógangs í Fjörðunum. Snjóþyngslin urðu framúrskarandi; hestar fenntu víða, og fé svo, að ég ætla að varla muni dæmi til slíks; að vísu hefir margt fundist bæði dautt og lifandi, en þó vantar óttalega enn, því féð rak líka í sjó og vötn, gil og gljúfur; sumir hafa misst helming, þriðjung, en flestir eitthvað nokkuð. Í þeim veðrum dó ekkja Helga Árnadóttir í sæluhúsi, sem er í Eskifjarðardalnum. Fjölda braut af bátum er tók úr naustum, líka afla manna og margt fleira. Kaupfarið brotnaði á Vopnafirði og 1 skip Hammers á Norðfirði. Síðan hefir verið bærileg tíð en heldur óstillt og ógurlegt skefli (stórfenni); einnig útlit um hagi manna er nú hið ískyggilegasta, því það er eins og verslunin ætli að gjöra sitt til að eyðileggja menn með árferðinu.

[Fáskrúðsfirði 14.nóvember] Nýjungar hafa fáar að borið síðan ég skrifaði yður seinast, nema sú alkunna og almenna, nefnt „skaðaveðrið mikla" 15. til 18. október, og hefir slíkt varla og ekki í manna minnum komið fyrir. Rétt á undan, þann 14. og þá daga, var veður gott og snjólítið og jörð meiri part rauð. Allt fé hér á bæ nema 2 lömb fannst, þó sumt væri þjakað orðið; sumir sauðir og ær lágu á hryggnum enda lifandi, sumt stóð á höfði, því veðið hafði fleygt því sem soppum, 30 hestar fuku af heyi og þök af húsum. Ógurleg fjártjón hafa orðið víða, en úr því kemur suður í Álftafjörð og Mýrar fer að minnka um skaðana; sumir ríkismenn hafa misst svo hundruðum, já mörgum hundruðum skiptir. Í öndverðum þessum mánuði voru hér og norðan illviður með miklu frosti, en snjókoma minni. Nú er hér mikið til rauð jörð.

[Seyðisfirði 15.nóvember] Fréttir eru héðan eigi góðar. Nóttina milli þess 14. og 15. október, breyttist veðrið í það mesta snjóburðar- og skaðaveður, sem komið hefir hér austanlands á þessari öld — að mér er óhætt að fullyrða, og hélt því samfleytt nótt og dag, að heita mátti, til þess þann 19. Fannfergjan varð óttaleg, svo þvílík hefir eigi komið í mestu veðrum um hávetur. Fjárskaðinn varð allstaðar mikill, þó enn meiri í Héraðinu helst til uppsveita, t.a.m. í Fljótsdal. Margir töpuðu helmingi og meira af fé sínu. Sjógangur varð hér að sínu leyti eins fjarskalegur, báta- og aflatjón, mikið úr naustum þeim, sem óhult hafa geymt báta síðan um aldamót, t.d. á Hánefsstöðum hér, síðan þar byggðist kaupstaður, tók nú út báta og braut, sama er að heyra hér umhverfis; hér hjá mér gekk sjórinn eftir landslagi hér um frá 5 til 20 faðma lengra á land upp en venjulega stórstraumsflóð. Nú er komin góð tíð og farið að hlána nokkuð þó mikið sé eftir. Fiskur hefir verið hér nokkur, þó með minna móti.

[Norðfirði 16.nóvember] Héðan er ekkert að frétta nema sumarið var gott, svo það heyjaðist með betra móti hér fyrir austan, þó varð fremur slæm hirðing á töðum víða hvar. En þann 15. f.m. gjörði hér svo mikinn austanbyl með grófri snjókomu og sjógangi, að ég sem er nú 50 ára og man vel eftir mér ungum og hefi verið hér í sveitinni alla tíð og svo haft tal af gömlu fólki greindu, sem segist eigi muna þvílíkan sjógang á land og eigi annað eins drepandi veður, því féð fannst rotað og beinbrotið, og var þó eigi gljá (hálka) á jörðu, en ekki létti snjókomu og fannfergju fyrr en þann 19. Fjárskaðar urðu grófir yfir báðar Múlasýslur og svo mesti bátaskaði yfir allt. Hér í Norðfirði sleit upp jagt, sem Hammersfélagið átti og rak á land millum þess 15.—16. október. Einn skipsbátinn misstu þeir í spón, en annar brotnaði í landtöku; jagtin hét Berufjörður, frönsk, keypt á strandi á Berufirði í fyrrasumar. Kapteinninn hét Asmundsen, hann lá hér á Norðfirði frá því um höfuðdag og var búinn að afla 8000 af fiski og ýsu. Skipið er mikið brotið, farminum varð bjargað og mennirnir komust á land, er mikið misstu af fatnaði sínum.

[Af Fjöllum 21.nóvember] Um það mikla fjártjón, sem orðið hefir í Múlasýslum í haust, get ég ekkert áreiðanlegt skrifað, enda munu þeir gjöra það, sem betur vita að skrifa yður um það, einmitt get ég sagt, að mig vantar um 60 og um 30 fundið dautt, en víða er sagt miklu meira fjártjón.

Svo segir blaðið:

Seint í fyrra mánuði kom hingað maður af Jökuldal, sem segir, að eftir fyrstu hríðina þar, hafi vantað 1200 fjár, en síðan fundist nokkuð, þó hafi í miðjum fyrra mánuði [nóvember] enn vantað eftir því er hann taldi upp á hverjum bæ, samtals 920. Hann segir að í Vallahrepp hafi eftir hríðina vantað hér um 1400, og mælt að séra Einar í Vallanesi ætti þar af l80 fjár. Deginum áður en hríðin skall á, er talað, að 700 fjár hafi á Brekkugerði í Fljótsdal verið rekið þar ofan fyrir bæinn, en aðeins í nóvember fundin 200. Oss hefir verið skrifað, að séra Þorgrím í Þingmúla vantaði hátt á annað hundrað fjár, og enda fleiri. Þessi dæmafáa fannkoma, sem seinustu dægrin var með ofsa landnorðan veðri og gaddi, er sagt að hafi orðið skæðust frá Jökulsá á Fjöllum, og að kalla allt suður að Lónsheiði. Yrði nú komið tölu á þenna fjármissi um allt Austur- og Norðurland, og þar sem hann máski víðar hefir orðið, þá mundi hann nema mörgum þúsundum fjár og að dala tali hundruðum þúsunda, og svo að slíkt fjártjón, hefir ef til vill aldrei hér á landi orðið annað eins; og þegar þar við bætast skipaströndin og tjónið á stærri og smærri förum. Hér getur því varla málshátturinn sannast, „hollur er haustskaðinn".

Þjóðólfur birtir þann 14.desember kafla úr fréttabréfi úr Suður-Múlasýslu, það er dagsett um 20.október:

[Þ. 15.október] í haust komu býsn mikil yfir allt Austurland; það var fjárskaðaveður óvenjulegt, er stóð í 8 dægur [4 sólarhringa]. Drapst og fennti í veðri þessu ógrynni fjár. Fjöldi manna missti frá 100—200 fjár, og sumir urðu því nær sauðlausir. Langmest varð fjártjón þetta um upphérað allt og Jökuldal, minna á úthéraði og í fjörðum; mjög margt lenti samt í sjónum. Fjöldi báta brotnuðu, og þar á meðal kaupfarið í Vopnafirði. Sjór gekk svo langt á land upp, að enginn mundi trúa nema séð hefði. Í Fljótsdal er fjártjónið talið um 2000; á einum bæ fórst á þriðja hundrað, á mörgum frá eitt til tvö hundruð, og mjög fáum fyrir innan hundrað. Á Völlum fórust 1400, og í næstu sveitum fór að tiltölu eins mikið, t.a.m. á Jökuldal, Fellum og Skriðdal. Fátt er fundið af fé þessu nú eftir fimm vikur. Í veðri þessu hvarf mestallur afli, er áður var hér heldur að aukast, og hefir því mjög lítið aflast í haust, hjá því sem haustin að undanförnu. ...

Þjóðólfur segir enn af októberveðrinu mikla þann 5.janúar 1869:

Póstgöngurnar á Íslandi eru enn eigi orðnar svo góðar, að vér höfum getað enn fengið nákvæmar fregnir um tjón það, sem varð af veðri þessu. En í „Dagbladet“ 12. nóvember [1868] stendur ágrip af bréfi, dagsettu á Seyðisfirði 24. október til fiskiveiðafélagsins danska, og er þar sagt, að þessa nefndu daga hafi þar verið slíkt ofsaveður af landsuðri [svo], og snjókoma svo fjarskaleg, að fágætt sé. Hafi þá þegar fyrsta ofviðrisdaginn eitt af skipum fiskiveiðafélagsins, Berufjörður, strandað í Norðfirði og brotnað í spón, allur aflinn hafi farist, en mönnunum verið bjargað allslausum. Á Vopnafirði hafi og rekið á land skonnertskipið Socrates, sökum þess, að báðir akkerisstrengirnir hafi slitnað, og verði skipið að líkindum eigi haffært. Verslunarskipið á Eskjufirði hafi og rekið á land, en að sögn hafi það lítið eða ekkert skemmst. 

Norðanfari birti 20.febrúar 1869 úr bréfi úr Norðurmúlasýslu, dagsett 23.desember:

Mikið og almennt er það tjón, er menn biðu hér af ofsakafaldshríðinni dagana 15.—18. október í haust. Það mun skipta þúsundum, er liggur dautt af sauðfé manna undir fönn og í vötnum hér í Múlasýslum. Þar að auki tók sjórinn fjölda af bátum, því sjávargangurinn var dæmalaus; sumstaðar tók bátana ofan af háum sjávarbökkum úr vetrarnaustum og braut í mél.

Þjóðólfur segir þann 24.nóvember af árferði og aflabrögðum:

Haustveðráttan var hér á Suðurlandi fremur umhleypinga-og stormasöm heldur en rigningasöm framanvert haustið og þar til í 24. viku sumars. Þá brá hann hér yfir gjörvallt Suðurland, og það vestur undir Breiðafjörð, lengra að vestan höfum vér eigi fregnað — til landnyrðingsstorma með frosti, og mikilli fannkomu upp til dala og hálendari héraða, t.d. í Þingvallasveit. Í Skaftafellssýslu varð því mikil fannkoma um þetta skeið ... og í Mýrdalnum varð bylurinn svo mikill og fannkoman, að illfært þótti innanum sveitina, og gaddur svo mikill, að kól fullfríska menn vel klædda, er gengu til fjár. Hörkur þessar héldust, en að vísu eigi alltaf með jafnmikilli grimmd og fannkomu, fram undir októberlok. En með jarðskjálftunum 1. og 2. þ. mán. brá til besta bata, og hefir mátt heita einstök veðurblíða síðan. Besta tíð norðanlands til 16.þ.m.

Norðanfari birti 18.desember bréf úr Skagafirði, dagsett 20.nóvember:

Tíðarfarið var hér í sumar eitthvert hið æskilegasta, svo heyföng manna munu hér víðast með mesta móti. Haustið hefir yfir höfuð mátt heita gott; þó hafa hér komið 3 köst, það fyrsta kom 7. [október], annað þann 15.; þá var hér stórhríð í 4 daga; þriðja 1. 3. og 4. [nóvember], kom hér þá svo mikið snjófall, að sumstaðar var orðið rétt jarðlaust, einkum til fjalla og dala; en hlákan frá 7. til 17. þ.m. bætti úr því öllu saman, svo nú er allur snjór horfinn, enda var hér þá 5—7 gr. hiti á Reaumur á hverjum degi. 

Norðanfari segir þann 12.janúar 1869:

Úr bréfi af Eyrarbakka 7.desember 1868: „Tíðin hefir verið hingað til einstaklega góð, og halda hér allir, að jarðeldur sé einhverstaðar uppi“.

Desember. Hagstæð tíð lengst af. Þurrt um landið vestanvert. 

Baldur segir 9.desember:

Hér fyrir sunnan hefir tíðin verið nokkuð umhleypingasöm, og sjaldan gefið á sjó, en afli fyrir, þá er gefið hefir. Suður á Strönd og í Njarðvíkum fiskaðist vel framan af haustvertíðinni; hvað landbúnaðinn snertir, þá hefir hér um mánaðar tíma verið mikið blíðviðri. 

Norðanfari birti 12.janúar 1869 úr bréfi úr Mýrasýslu, dagsett 15.desember:

Mikið hefir veðuráttan verið góð og hagstæð það sem af er vetrinum, að undanteknu þessu eina hreti í haust, en þó urðu 2 mæðgur úti á Kerlingarskarði, og fé fennti þá nokkuð vestur í sýslunni, svo varð hann snarpur í hretinu; síðan hafa gengið stöðug góðviðri, svo óvíða er farið að kenna hér lömbum át. Fiskiafli hefir verið einhver hinn besti hér syðra, þá gefið hefir, og það fremur venju hér upp á Mýrum.

Norðanfari birti þann 20.febrúar 1869 bréf úr Suðurmúlasýslu, dagsett 13.janúar það ár - nefnd eru tvö óvenjuleg náttúrufyrirbrigði:

Á milli Breiðdals og Berufjarðarstrandar liggur vegur, sem kallaður er Fagradalsskarð; á því hefir staðið um langan aldur steinn einn, sem á hlóðum væri af mönnum settur, þó nokkuð stórfenglegur, kantaður á þykktina máski tæpar 3 álnir, en ummálið allt um kring nær því 12 álnir; í honum var svartleitt grjót, sem járnkennt væri, og ólíkt öðru grjóti þar umhverfis, og hefir verið nefndur Grettistak. Eftir trúverðugra manna frásögn er steinn þessi horfinn burtu á tímabilinu millum næstliðins höfuðdags og haustgangna, og búið að leita hans þar allt í kring, engin sérlegur bratti eða skriða þar nálægt, er hefði getað velt honum burtu, enda sjást engin umrótsmerki á neinn veg. Það væri gaman að vita hvað náttúrufræðingarnir vildu gjöra úr þessu. Hér á jólaföstunni sást tvívegis fyrir daginn að morgni langan tíma, sem logandi eldur út til hafsins, sem ýmist jókst eða minnkaði. Slíkt muna menn ekki; ætla menn það hafi verið af megnri úrkomu í hafinu, sem fram hefir komið síðan og enn muni koma.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1868. Lítilsháttar upplýsingar um mælingar eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 971
  • Sl. sólarhring: 1107
  • Sl. viku: 3361
  • Frá upphafi: 2426393

Annað

  • Innlit í dag: 866
  • Innlit sl. viku: 3022
  • Gestir í dag: 846
  • IP-tölur í dag: 780

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband