Af árinu 1867

Árið var kalt, þó ekki alveg jafnkalt og árið áður. Fyrstu sjö mánuðir ársins voru allir kaldir, janúar og apríl mjög kaldir, en aftur á móti var hlýtt í nóvember og desember, hiti var í meðallagi í ágúst, september og október. Meðalhiti var 2,4 stig í Stykkishólmi, 0,2 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan, en nærri 1,5 stigum hlýrra en hið sérlega kalda ár 1866. Meðalhiti í Reykjavik er áætlaður 2,5 stig, en skortur er á mælingum á Norðausturlandi. 

ar_1867t

Tólf dagar ársins teljast mjög kaldir í Hólminum, allir komu þeir fyrstu sjö mánuði ársins. Kaldast að tiltölu var þann 15.mars. Enginn dagur telst hafa verið mjög hlýr. 

Árið var í þurrara lagi í Stykkishólmi, úrkoma mældist 540,3 mm. Úrkoma var þó óvenjumikil í september og rétt ofan meðallags í nóvember og desember. Sérlega þurrt var í janúar og í mars, apríl, maí og júlí var úrkoma einnig fremur lítil. 

ar_1867p 

Þrýstingur var mjög lágur í ágúst og lágur í febrúar, apríl, september og október, sérlega hár í mars og maí og hár í janúar, júlí og nóvember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 953,9 hPa þann 14.desember, en hæstur þann 19.janúar, 1038,0 hPa. Þrýstiórói var með allra minnsta móti í janúar og bendir það til þess að þá hafi lengst af verið hægviðrasamt. 

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar.  

Baldur segir í stuttu máli frá árferði 1867 í pistli 9.janúar 1868:

Veturinn eftir nýár 1867 var hér sunnanlands snjóalítill yfirhöfuð, en þó frost nokkur, helst í janúarmánuði og febrúarmánuði; varð það hæst nær 14 mælistigum. Norðanlands og austan varð veturinn harðari með frosti og snjóum, voru skepnur teknar á gjöf þegar hálfan mánuð af vetri í Múlasýslum og víðar; héldust harðindin veturinn út, og urðu menn að kaupa sér korn handa skepnum sínum. Um páskaleytið rak inn hafís undir Norðurland og Austurland og lá við til þess í 12.viku sumars. Á Suðurlandi var árferði betra; var þar afli allgóður, og urðu hlutir með hærra móti. Einnig er sagt að verið hafi góður silungsafli við Mývatn. Vorið var víðast um land hið kaldasta og gróður lítill um sumarið; fór sumstaðar á Norðurlandi eigi klaki úr jörð allt sumarið. Í vorharðindunum felldu menn víða skepnur sínar; varð fjárdauðinn mestur í Skaftafells-, Múla- og Þingeyjarsýslum, og það svo, að á sumum bæjum varð stráfellir. Heilsufar manna mátti allgott heita yfir höfuð; þó gekk taugaveiki í Múlasýslum, og stakk sér enda víðar niður. — Sumarið varð rigningasamt, einkum sunnanlands, að fráskildum júlímánuði. Varð því nýting ill á heyjum á Suðurlandi, en í Norðurlandi í meðallagi. Um veturnæturnar gjörði snjókast yfir Suðurland, svo jarðbönn urðu um tíma. En á Norðurlandi kom þetta kast eigi. En í lok október-mánaðar gjörði hlákur, tók þá upp snjó allan; hefir síðan verið auð jörð og hlákur, og hefir svo haldist til nýárs; en rigningasamt og stormasamt hefir hér verið; hefir, að því er vér höfum frétt, eigi fallið snjór að heita má á Íslandi, frá veturnóttum til nýárs. Fiskiafli hefir verið góður kringum land; hafa orðið háir hlutir við Faxaflóa. Með sendimanni að norðan höfum vér frétt hið sama úr Eyjafirði; höfðu þar orðið háir hlutir, einkum í Svarfaðardal, frá 700 til 2200 í hlut. Á Langanesströndum hefir og verið góður afli, er það þó fágætt þar um þennan tíma. Síld gekk að landi á Langanesi, og höfum vér heyrt að maður einn hafi fengið 20 tunnur af síld í einum drætti, og er slíkt fágætt.

Janúar: Mjög kalt, en lengst af mjög hægviðrasamt og snjólítið. Þó mun hafa snjóað nokkuð austan- og norðaustanlands. 

Norðanfari segir frá 8.janúar:

Fyrir nokkrum dögum síðan komu hér 2 menn af Langanesströndum og úr Þistilfirði, sem tjáðu þar sömu harðindin af snjóþyngslum og áfreðum, sem hér um sveitir. Líkt er og að frétta úr Vopnafirði og öðrum útsveitum í Múlasýslum, en betra til sumra dala, einkum í Fljótsdal. Í þrem nyrstu sveitunum í Þingeyjarsýslu, er mælt, að búið sé að slá af í vetur 90 hross, sem þó áttu í haust að setjast á vetur. Svo nú ekkert til fyrir þorrann, hafa ýmsir við orð að fækka skepnum sínum, sem að sögn, í útigangssveitunum, eru talsvert farnar að láta holdin. Það er borið til baka að hafís hafi nýlega sést hér norður af Gjögrum og Tjörnesi. Í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, eru harðindin sögð svipuð og hér nyrðra.

Þjóðólfur segir af tíð og aflabrögðum þann 22.janúar:

Síðan um jól hafa gengið einstök staðviðri, hreinviðri og lygnur fram á þenna dag; frosthart nokkuð fyrra helming mánaðarins, og þó aldrei meira hér en rúmar 14 R [-17,5°C]. Varla munu elstu menn muna jafnlangar stillur og logn í janúarmánuði eða jafnlítil ísskrið á sjó með slíku frosti, er þó hefir verið, eins og nú. Faxaflói fjær og nær hefir verið eins og rjómatrog, og varla nokkurn dag matað í fuglsbringu, en himinninn oftast heiður og skýjalaus; hafi skýjagráða dregið upp, þá hefir hann verið farlaus og svo mildur og gagnsær eins og þegar best viðrar hér í maí og júní; loftþyngdarmælirinn hefir og haldist stöðugt á „fögru og góðu veðri“ allan mánuðinn, fram til þessa dags. Eftir þessu hafa gæftirnar verið yfir allt, og fiskiaflinn einstakur hér syðra um Garðsjó og Miðnes. Af Seltjarnarnesi og Álftanesi eru flestir búnir að sækja 3 hleðslur eður meira þangað suður af vænum stútungsfiski, hvað þá Strandar og Vogamenn og Njarðvíkingar. Í Grindavík hafa þeir og getað róið og aflað nokkuð, og í gær sagði ný fregn að þá væri kominn sem næst 1 1/2 hundraðs hlutur af vænum þorski í Höfnum, og um 100 á Miðnesinu. Fregnir úr Vestmanneyjum frá miðjum þ.mán. segja þaðan besta hákarlaafla, og að þá hafi verið farinn að fiskast þar þorskur með löngu og lúðu; einnig þorskvart í Mýrdalnum. Besti afli umhverfis Ísafjarðardjúp fram á jólaföstu (6. f.mán.) og eins norðar undir Jökli fram til jóla. Víða sagt hagskart og sumstaðar haglaust um láglendissveitirnar austanfjalls, enda kreppt allmjög að högum um Hreppa, Grímsnes og Biskupstungur, eins vestur um Mýrar og hið efra um Borgarfjörð, en allgóðir hagar á Landinu og hið efra um Holt og Rangárvelli, svo að eigi var þar farið að gefa rosknu fé fyrir fáum dögum.

Þjóðólfur birti 23.mars bréf frá Ísafirði dagsett 4.febrúar:

Í janúar fórst skip í hákarlalegu með 9 manns, það var áttœringur frá Haukadal í Dýrafirði; formaðurinn var Jón Egilsson bóndi á Brekku og voru auk hans 3 giftir menn á skipinu, þar á meðal fyrrverandi hreppstjóri Benoný Daðason (prests að Söndum),  ...

Norðanfari segir þann 12.febrúar:

Mestan hluta af janúarmánaðar voru hér kyrrur eða bjartviður, en fáa daga mikil snjókoma. Frostið varð hér mest 2 jan. 20. gr. [-25°C] og 10. og 12., 16 gr. [-20°C], en frostlaust eða bloti 27. Vegna áfreða, svellalaga eða snjóþyngsla er nálega allstaðar sagt hagskart og sumstaðar haglaust.

Febrúar. Kalt í veðri. Snjór sagður mikill norðaustan- og austanlands, en syðra var heldur betri tíð. Nokkuð skipti um til hlýrra veðurs í bili seint í mánuðinum.

Og Norðanfari heldur áfram þann 22.febrúar:

[Þ.] 16 þ.m. kom austanpósturinn Þorkell Þorkelsson hingað á Akureyri, og hafði hann lagt af stað frá Eskjufirði 25. f.m., beið [einn] dag á Völlum eftir bréfum úr Seyðisfirði, verið hríðartepptur undir og á Fjöllunum 7 eður 8 daga, en þó aldrei legið úti. Fannfergjan, áfreðarnir og jarðbannirnar, er sagt yfir allt eystra nema í Fljótsdal, hvar útigangspeningur hefir í vetur víða verið léttari á fóðrum en sumstaðar annarstaðar. Daginn áður enn póstur kom hingað, kom og maður, er sendur hafði verið úr Eyjafirði austur að Sauðanesi á Langanesi; hann sagði sömu ótíðina og jarðbannirnar yfir Þingeyjarsýslu, sem á Austurlandi. Hafíshroða sá hann 9. þ.m. fyrir Melrakkasléttu og Tjörnesi; einnig er sagt að ísinn hafi nýlega sést hér norðan fyrir landi, svo og fyrir Skaga og útaf Húnaflóa. Allstaðar hvað meira og minna tæpt með heybirgðirnar og sumir í voða haldist harðindin fram um páska [21.apríl].

Þann 1.mars segir Norðanfari:

Harðindin haldast, því lítið svíjar til og 20 gr frost [-25°C] var hér 26. [febrúar] Flestir telja sig í voða staddir með skepnuhöld sín komi eigi góður bati fyrr en um sumarmál. Nokkrir eru farnir að reka af sér. Einstakir að skera; skepnur hafa líka í harðindasveitum verið alveg á gjöf síðan um veturnætur. Á Látrum í Þingeyjarsýslu voru það næstliðið sumar einar 10 vikur, sem kýr gengu úti. Afli úr sjó er hér nú enginn norðanlands. Hafíshroði hefir, sem áður er getið, aðeins sést, allt fyrir það eru menn hræddir um að meginísinn muni eigi langt undan landi. — Í næstliðnum mánuði hafði bjarndýr komið upp á Skaga, sem þegar var skotið af Jóni nokkrum Gottskálkssyni í Hraunkoti; dýr þetta hafði verið ungt og magurt.

Þann 26.júní segir Þjóðólfur af skipskaða sem varð 9.mars:

Laugardaginn 9.mars reri almenningur í Keflavík undir Jökli (Neshrepp ytri) í góðu veðri, en rann heim á norðan um hádegi og varð ofsaveður þegar fram á daginn kom, svo að 2 eða 3 náðu þar eigi lendingu. Á uppsiglingu og þegar skammt eitt var komið frá miðum, sigldi sig í kaf eður kollsigldi, skip eitt úr Keflavík með 9 manns, týndust 6 mennirnir þar með formaðurinn Magnús Guðmundsson frá Ósi á Skógarströnd 45—50 ára, en 3 bjargað annað skip undir formensku Guðmundar Gíslasonar frá Staðarfelli.

Mars. Látið allvel af tíð fyrstu vikuna, en hún síðan talin hörð og fremur illviðrasöm. 

Þjóðólfur segir þann 23.mars:

Vetrarhörkurnar og jarðleysurnar héldust að því er sannspurst hefir með póstinum og öðrum ferðum víðsvegar að um hina síðustu daga, allt framundir lok [febrúar] nema um eystri hluta Rangárvallasýslu og máski í Mýrdalnum, þar kom hagstæð hláka þegar 18. [febrúar] svo að á 3.—4. degi þar frá komu upp nægir hagar þar um allar sveitir allt út að ytri Rangá. En 27.—28. [febrúar] eður miðvikudaginn og fimmtudaginn fyrstan í góu hófst batinn yfir allt, að því er spurst hefir, eins vestast á Vestfjörðum (vér höfum bréf þaðan frá 3. þ.m.) og um Eyafjarðar- og Þingeyjarsýslu, eins og hér syðra, svo að telja má víst, að hann hafi gengið og náð yfir land allt; yfir höfuð að tala komu þá allstaðar upp nægir og góðir hagar, þó að minna tæki upp í hálendu útkjálkasveitunum norðanlands, t.d. út á Skaga, og aftur hið sama um láglendustu sveitirnar hér sunnanlands þar sem allt var orðið undirlagt margföldum klakastokk úr jökli, eins og var um allan Flóann og miðsvæðis og að sunnanverðu, og hið neðra um Holtin og Útlandeyjar. Þessi blessaði bati var öllum til bjargar og öllum sveitabúum hrein velferðargjöf, þó að menn væri misjafnt aðþrengdir af harðindunum; því þó að svo mætti kalla, að þau legðist allstaðar að með vetri að öllu veðurlaginu til, þá komu samt jarðleysurnar næsta misjafnt niður; snjóburður var óvíða mikill og vart teljandi víðast hér sunnanlands, en helst voru það blotarnir og áfreðarnir á mis, er öllu hleyptu í einn kopar og gjörðu það, að sumstaðar tók algjört fyrir haga fyrr og seinna á jólaföstunni, víðast uppúr jólunum, en aftur eigi að öllu fyrr en með þorra í nokkrum sveitum. Fyrir þetta var búið að gefa sumstaðar i 17—18 vikur öllum fénaði þegar batinn nú kom, víðast 7—10 vikur, en aftur sumstaðar hér sunnanlands eigi nema síðan með þorra eður í 4 vikur. Norður um Þingeyjarsýslu og á Skaga var lengst gefið, en í flestum öðrum sveitum norðanlands og víðast vestanlands komu eigi allar skepnur né algjört á gjöf fyrr en um og eftir jól. Víðast horfði því til mestu fóðurþurrða og almennra vandræða, hefði harðindin lengur haldist; sumstaðar nyrðra voru menn farnir að skera af heyjum ýmist kú og kú á bæ, eður og 1—2 kúgildi: lömb og ær, en eigi svo fáir hross, um Húnavatnssýslu; töldu þeir sér það sem næst skaðlaust, þar sem þeir brúkuðu átuna af hrossinu svona í góðum holdum, eins og enn var þá, til fóðurdrýginda handa öðrum fénaði, bæði nautpeningi og lömbum. Húnvetningar segja og skrifa, að skurður sá er menn hafi þar gjört, verði eigi álitinn meinskurður yfir höfuð að tala.

Sendimaður einn er kom hér 20. [mars]. vestan úr Arnarfirði og hafði farið um í Stykkishólmi sagði að þá er hann var þar staddur, hafði þangað verið nýspurður skipskaði undan Jökli hér að sunnanverðu, og að þar hefði farist 9 manns, en eigi hafa sannari eða nákvæmari fregnir borist af tjóni þessu að svo komnu.

Norðanfari segir þann 26.mars:

Fyrstu dagana af þessum mánuði var hér og víða annarstaðar, sem til hefir spurst, góð hláka og leysing mikil, svo í öllum snjóléttari sveitum kom upp nokkur jörð, en aftur til flestra dala og í útsveitum lítil og sums staðar alls engin. Veðráttan hefir oftast síðan batanum hætti verið frostasöm t.a m. vorinngöngudaginn [jafndægur á vori] 19.gr frost á R [-23,7°C] og með harðviðrum en lítilli snjókomu, og oft eigi ástöðuveður fyrir langdregnar og magrar skepnur, sem hér og hvar er verið að fækka, því alltaf sverfur meira og meira að með heyskortinn, og peningar margra, ef til vill, á heljarþröminni, 6. þ m. komu aftur að sunnan 2 þingeyingar, er farið höfðu suður í Reykjavík, tjáðu þeir líkt um tíðarfar og jarðir syðra og vestra, eins og þar sem hér er skást. Engin almenn veikindi og merkra manna lát engin. Oss var ritað með þessari ferð, að vetrarfar syðra hefi verið þurrviðrasamt og síðan um nýár úrkomulaust að kalla og einlægar stillingar og bjartviðri, oftast landnyrðingur og frost til muna og um uppsveitir víðast hvar hagleysur, af svellum og áfreðum; en í vetur með öllum Faxaflóa sunnanverðum mátt heita fiskafli í betra lagi. Í hlákunni miklu, sem sagt er frá hér að ofan, h1jóp vatn í fjárhús á Sauðanesi á Ásum í Húnavatnssýslu, svo þar köfnuðu inni 40 ær, og við sjálft lá, að gemlingar þar í öðru húsi, færi sömu leiðina. Fyrir miðjan þ.m. voru Grímseyingar hér, og sögðu þeir harðindin þar, sem yst á útkjálkum.

Þjóðólfur segir þann 27.mars:

Harðviðrin og stöðugt gæftaleysi helst hér syðra, menn gátu aðeins vitjað um net sín í fyrradag, hér innfrá en eigi syðra, en engi gat rennt færi; urðu þá nokkrir vel varir í etin þeir er höfðu flutt þau dýpra út eður af grunni og hraunbrún til sviðs 23. þ.mán., nokkrir þeirra fengu þá í (25. þ.m.) eftir 2 nætur frá 80—150 í tvær trossur en aftur urðu sumir eigi fisks varir, og engir þeir er áttu netin grynnra; ... Að því skapi sem gæftaleysið er hér, eru og harðindin til sveitanna, bæði sakir snjókyngi er féll með landnyrðingsroki her syðra, en einkum austanfjalls, dagana 18.—21. þ.mán,, og sakir storma, skafbylja og feyki moldryks, er síðan hafa gengið, lotalaust að heita má, hafa því hagar verið víða bæði litlir og illir, en þó ástöðuveður þessa síst fyrir sauðfénað.

Þjóðólfur segir þann 8.júlí frá skipstrandi þann 7.apríl:

Aðfaranóttina 7.apríl rak frakkneskt fiskiskip upp í Borgarhafnarfjörur í Suðursveit bar þar, að sögn, heilt og óskaddað upp á land, og það svo langt upp fyrir vanalegt flæðarmál, að eigi tókst skipverjum — en þeir vorn 21 að tölu og sakaði eigi neinn þeirra, — að koma skipinu á flot aftur, þótt þeir gerði sér það í von og biði því hinna næstu stórstrauma hvers af öðrum áður en þeir gæfi upp skip og farm. En svo varð þó að vera í endanum, og var þá allt selt á uppboðsþingi.

Apríl. Mjög köld og óhagstæð tíð. 

Þjóðólfur segir frá 11.apríl:

Landnyrðingsherpingur með mikilli fannkomu til fjalla og uppsveita hefir haldist daglega hér syðra frá því um lok [mars] og til þessa dags; hagleysur og ófærð sögð víða austanfjalls og hið efra um Borgarfjörð beggja megin Hvítár og víða sögð orðin heyþröng og fóðurskortur um þær sveitir. Að norðan hefir eigi frést síðan um 20. [mars]. Gæftaleysi hefir her verið yfir höfuð í öllum veiðistöðvum fyrir innan Hólmsberg, og miklu fiskitregara hér Innfrá og mjög fiskilítið á Akranesi þá sjaldan að gefið hefir; um og aflíðandi næstu helgi þótti aftur líflegra í færi um Garð og Leiru og góður afli um Vatnsleysurnar og í Hafnarfirði bæði á færi og þó einkum i net. 

Þann 27.apríl birti Þjóðólfur slysafregnir eftir bréfi úr Rangárvallasýslu 13.apríl:

[Þ.] 11. [apríl] reru nokkur skip fyrir Landeyjasandi, bæði frá Útlandeyjum og Austurlandeyjum, en úr sumum vörunum reru eigi nema fá skip, t.d. úr Áfhólavörum í Útlandeyjum eigi nema 2 skip af 10, því veður var ískyggilegt framan af deginum, en réðist betur þegar fram á leið. Fyrir öðru skipinu, er reru þenna dag úr Álfhólavörum var formaður Sigurður Halldórsson frá Álfólahjáleigu, ungur og efnilegur formaður, ókvæntur; þar var hann kunnugur sjávarföllum (sjóarskiptum) og lendingu, og vildi því sjálfur lenda þar aftur nú eins og fyrri; en fyrir tilmæli og áeggjan formannsins á hinu skipinu, bæði áður en þeir reru, því sá hafði staðráðið að flytja sig austur í Hallgeirseyjarvarir, þar sem hann þekkti vel til, — og aftur út á sjó þá um daginn er hann fullvissaði Sigurð um að þá væri þar ekkert að óttast, af að leggja að í Hallgeirseyjarsandi, þó að honum væri það fjærri skapi sjálfum, með því líka að hásetar hans lögðu það til, því þeir áttu allir hægri fiskidrátt þaðan úr sandinum heim til sín, heldur en úr Álfhólasandi, nema formaðurinn einn. En er skipið var komið inn að legu, inn af svonefndum hörslum, stóð það á sandhrygg (því lágsjóað var), og í sama vetfangi reið yfir það mikil holskefla er sópaði mönnum út úr skipinu í grænan sjó að fráteknum manni og dreng er tolldu í skipinu. Skipverjana er út tók bar alla í lón eitt fyrir innan sandhrygginn, nálega 60 faðma breitt; en annað skip var nýlent þar á undan Sigurði, og var skipshöfnin öll þar til staðar er þeim Sigurði barst á. Formaðurinn fyrir því skipi, Ólafur Jónsson, bóndi á Hólminum í Austurlandeyjum, einhver besti formaður og snarræðismaður, var þá eigi höndum seinni að láta vaðbinda sig og nokkra háseta sína og fengu þeir þannig bjargað allri skipshöfn Sigurðar, — hann komst sjálfur í land án mannhjálpar, — nema 3 er drukknuðu þarna.

Norðanfari segir fréttir þann 30.apríl:

[Þ.] 15.apríl kom norðanpósturinn að sunnan; með honum fréttist lítið annað en sömu harðindi og jarðleysur, sem hér um sveitir, einkum vestra, en nokkuð skárra syðra. Fyrir mestöllu Norðurlandi, að meðtöldum Hornströndum hefir sést hafíshroði á ýmsum tímum í vetur, en nú hafa lausar sagnir sagt hann horfinn, að minnsta kosti, hér norður undan. Síðan úr páskum [21.apríl] hefir verið austanátt og hiti nokkur, svo í flestum snjóminni sveitum, mun nú vera komin upp sæmileg jörð, enda munu flestir komnir á nástrá, og skepnuhöldin vera næsta óviss.

Þann 28.maí segir Þjóðólfur frá strandi franskrar skonnortu á skeri milli Heimaeyjar og Bjarnareyjar í Vestmannaeyjum. Virðist hafa gerst 30.apríl: „Veður var mjög hvasst á austan og lá nær því roki og ógurlega háar bárur og ylginn sjór er allt bar inn á höfn. ... Mikið af farmi skipsins hefir á 3 dögum verið bjargað, en þó flestu skemmdu og skipið sjálft er mölbrotið ... “.

Þann 8.júlí segir Þjóðólfur óbeint frá ís við Austurland í maíbyrjun:

Skonnert Harriet, skipstjóri O. Vandal frá Khöfn, eign P.C. Knudtzons & Sön og ætlaði nú að færa vörur til verslunar hans á Seyðisfirði, kom til Eskifjarðar 3.maí og og hafði áður haft hrakninga í ísnum þar fyrir framan um 2 daga; bar það nú, er til Eskifjarðar kom, upp í Daltanga, svo að við strandi lá, og bilaðist og varð svo lekt, að skipverjar gátu eigi varið; lagði samt þaðan til Reyðarfjarðar, og inn til Breiðavíkurstekkjar, var þá 2 álna sjór kominn í lestina, og var skipið tekið mjög svo að síga í sjó, svo skipverjar sáu eigi fært að halda lengra inn í fjörðinn, og settu því skipið þarna á land til þess að bjarga sér, og gáfu þar upp skip og farm til uppboðssölu, en þá var hann þegar farinn að skemmast ... 

Þann 7.ágúst birti Norðanfari úr bréfi af Snæfellsnesi, dagsett 4.maí:

Í byrjun aprílmánaðar þegar hafísinn reið í garð, er mælt að allir Bolvíkingar við Ísafjarðardjúp, hér um 36 bátar, hafi misst allar fiskilóðir sínar, sem eru með hverju skipi frá 16 til 20. ... Vetur lagðist hér að með linara móti, til þess eftir batann á góunni, að vindstreymi og frost hafa þyngt vetrarfarið.

Maí. Kalt í veðri og tíð erfið. 

Þjóðólfur rekur tíð, skepnuhöld og aflabrögð í pistli þann 10.maí:

Eftir yngstu fregnum víðsvegar að, er vér höfum úr Eyjafjarðarsýslu og öllu Norðurlandi þar fyrir vestan, frá 27. [apríl], hér á Suðurlandi austan frá Skeiðarársandi suðurúr, og úr héruðunum vestanlands allt fyrir sunnan Þorskafjarðarheiði frá því um sumarmál, en úr Barðastrandar-, Ísafjarðar og Múlasýslunum fram til miðs [apríl], því hafa vetrarhörkurnar haldist fram til sumarmálanna víðsvegar um land, nema um austari hluta Rangárvallasýslu einkum í hinni víðlendu og fjölbyggðu Eyjafjallasveit (undir Eyjafjöllum), því þar í sveit hefir mátt heita snjóa og ísalagalaust síðan um miðgóu; allur seinni hluti vetrarins hefir og verið miklu vægari að hörkum og hagleysum í Mýrdalnum (4 kirkjusóknir með nálega 130 búendum) heldur en í sveitunum fyrir austan Mýrdalssand. Allstaðar að, nema úr sveitunum milli Mýrdalssands og Rangár berast samróma fregnir um hagleysur, en einkum um stöðug og fádæma illviðri gjörvallan einmánuðinn, svo að víða var það að eigi var fénaði haldið á beit þótt hagsnöp væri, af því ekki var ástöðuveður fyrir fénaðinn, en allstaðar gengu heyin mjög undan, svo að draga þurfti af gjöfinni því meir sem hörkurnar urðu langþreyttari; hér af leiddi þá almennt heyleysi og flestallir komnir í fóðurþrot nú um sumarmálin, fáir sem engir er voru sjálffærir lengur auk heldur að þeir gæti öðrum hjálpað að neinum mun. Fénaður var því orðinn svo magur og dreginn yfir höfuð að tala, að víðast þótti einsýnn meiri og minni fjárfellir, ef eigi kæmi hagstæður bati þegar upp úr sumarmálunum; á þessa leið er oss skrifað úr flestum héruðum. En eigi er þess getið, svo vér vitum, að sauðfénaður hafi beinlínis verið farinn að falla fyrir og um páska, nema í Hraunhrepp í Mýrasýslu og í Múlasýslunum eftir því sem capt. Hammer færði fregnir af; þar um sýslur hafði hvergi séð á dökkan díl um páskaleytið [21.apríl] öræfa og sjávar í milli, og fénaður þá víða farinn að falla þar, enda hefði það verið þar almennt mál, að slíkur harðindavetur hefði þar eigi komið um hin síðustu 30 ár, eigi tillíka við þennan. Á 4-5 bæjum á Skaga er allur fénaður sagður fallinn.

Einmánaðarhörkunum fylgdi og hið mesta gæftaleysi um alla Ísafjarðarsýslu; gæftir voru öllu betri bæði undir Jökli en einkum hér syðra að minnsta kosti seinasta ½ mánuð vetrarins, en einmuna gæftir hér allstaðar sunnanfjalls síðan um páska. Eftir því sem ráða er af fregnum austan yfir fjall hafa þar og verið gæftirnar vel í meðallagi. Hlutarupphæðir í Mýrdalnum, (Dyrhólahreppi) og undir Eyjafjöllum vitum vér eigi gjörla, en þar mundi heldur lágir hlutir, — rúmt hundrað tólfrætt, eins er um Stokkseyri, Þorlákshöfn og þá í Selvogi miður en 2-3 hundraðahlutir fyrir Landeyjasandi og í Þykkvabænum.

Norðanfari segir af tíð þann 20.maí:

Veðráttan hefir nú síðan um sumarmál, verið oftar austan og suðaustan með frostnæðingum, svo lítið hefir tekið upp snjóinn; menn segja líka að í snjóasveitunum og á útkjálkum enn gaddur yfir allt og að kalla jarðlaust. ... Allt hvað séð verður nú til hafs er íslaust, en sumstaðar er aftur fullt af honum inn í víkum, fjörðum og flóabotnum. 

Enn segir Norðanfari fréttir þann 31.maí:

Austanpósturinn Sveinn Sveinsson, sem lagði héðan dögunum austur 5. þ.mán. er nú kominn hingað aftur í gær. Hann hafði farið frá Eskjufirði 18. þ. m. Með honum fréttist að austan, að veturinn þar í fjörðunum og á útsveitum hefði verið svo harður sem hér nyrðra, og að elstu menn muna eigi slíkan á þessari öld. Hafísinn rak þar að um miðjan apríl og fyllti alla firði. Heyleysið varð að kalla almennt og nokkrir voru búnir að fella pening sinn. Margir höfðu eins og hér nyrðra gefið skepnum sínum korn. Gaddur hafði enn um þær mundir að póstur fór að austan verið í flestum fjörðum og á útsveitum yfir allt, svo ekki sást sumstaðar á dökkan díl, þar á móti miklu betra í Héraði og Fljótsdal og láglendið snjólítið. — Fyrir fáum dögum síðan fyllti hér fjörðinn og næstu firði með hafís inn á Leiru, svo hann varla varð skipgengur; tók þá um leið fyrir hrognkelsaafla, sem kominn var sumstaðar talsverður og víða orðið vart við hann allri venju framar. Hafísinn er nú kominn að mestu aftur hér af firðinum; útifyrir er sagt íslaust, það sem eygt verður, en aftur hafið fyrir framan dýpstu mið fullt af honum.

Þann 26.júní segir Þjóðólfur af skipsköðum í maí:

Laugardaginn 4.maí reru þeir 2 bátar er gengu í vor í Beruvík (Breiðavíkurhreppi undir Jökli), fremur var gott veður daginn út, þó að nokkuð hvessti er á leið; öðrum bátnum, með formanni Grími Jónssyni frá Hellu, lentist vel, en er hinn báturinn sem var á uppsiglingu, átti skammt til lands hvolfdi honum, hann var líka tómur eður fisklaus, og drukknuðu 4 mennirnir en 2 fékk fyrrnefndur Grímur bjargað, það voru bræður tveir, Elías hreppstjóri frá Görðum, og formaðurinn Daníel Vigfússynir. ... Daginn fyrir uppstigningardag [u: 30.maí], fór héðan úr Reykjavík skip með 5 manns í beitufjöru inn í Hvalfjörð, 31. [maí] lögðu þeir þaðan aftur með hlaðfermi, en fremur var hann þver og heldur hvasst, og hefir því að líkindum verið ágjöf nokkur; víða af Kjalarnesi hafði til skipsins sést er það fór suðrum, og en sást það úr Brautarholtshverfinu, að skipið sökk með öllu, er það var komið lítið eitt suður á Kollafjörð, ...

Júní. Kalt var framan af mánuðinum en síðan hlýnaði nokkuð. 

Séra Þorleifur Jónsson í Hvammi í Dölum segir fjúkél hafa gert að kvöldi þess 12.júní.

Norðanfari birti tvo pistla í júní um tíð - þeim ber ekki alveg saman. Einna helst að síðari pistillinn sé ritaður snemma í júlí þó dagsettur sé í júní:

{17.]  Veðuráttan hefir allt að þessu verið að kalla hin sama og fyrr, norðan og austan næðingar með kulda og stundum frosti á nóttunni. Víða er kvartað að um að jörð sé kalin, einkum túnin, sem lautótt og láglend eru, en minna hólar og hálendi.

[29.] Síðan um miðjan f.m. hefir oftast verið sunnanátt og hlýindi, svo mikið hefir tekið upp snjóinn, þó kvað enn á sumum útkjálkum og til sumra byggðra dala vera baldjökull og varla komin upp sauðjörð. Sama er sagt um marga afrétti. Gróðurinn er sagður yfir höfuð fremur lítill nema í hinum veðursælustu sveitum og þar sem eigi er þá kalið. Aftur er sagt að gróðurinn sé betri og skepnuhöldin fyrir vestan, einkum í Húnavatnssýslu, en hér norður undan.

Norðanfari birti þann 7.ágúst tvö bréf, dagsett í júní:

[Sunnan af Mýrum, 12.júní] Skepnuhöld hafa í þessari sveit verið bærileg, en hér í næsta hrepp, hafa menn misst 60—70 fjár á sumum bæjum, en hinum þá minna. Þessi vetur er talinn með þyngstu vetrum, sem menn muna; var hér í hörðustu sveitum gefið inni undir 30 vikur.

[Axarfirði 22.júní] Tíðarfarið í vetur og vor var svo að elstu menn hér muna eigi eins langsöm harðindi og eins almennt heyleysi, sem þá áleið vetur, margir urðu heylausir fyrir kýr á sumarmálum. Jarðlaust var sagt um hvítasunnu [9.júní] víða í Þistilfirði, nokkuð mun hafa fallið þar af fé, en þó meira í Presthólahrepp, þar er orðin stórkostlegur peningsfellir og sumir bændur nær því sauðlausir. Í Axarfirði hafa margir misst töluvert og eitthvað í Kelduhverfi, en það sem eftir slórir gagnslítið eða gagnslaust; það lítur því svo út fyrir mestu vandræði manna á meðal framvegis.

Norðanfari birti þann 29.júní bréf af Jökuldal, dagsett 19.júní:

Frá því á veturnóttum og til hvítasunnu var á ýmsum sjóarkjálkum í Múlasýslum haglaust að kalla. Af þessu leiðir að margir af fjarðarbúum eru orðnir sauðlausir. En til dala og á uppsveitum var veturinn þolandi til jóla, en þá tók nú að sverfa að svo margir voru komnir hætt þá Guð gaf batann á góunni, er öllum skepnum, er enn lifa varð til lífs, þó jarðlaust yrði að mestu um Múlasýslur frá því með góulokum og til páska [21.apríl], en þá fór aftur að svíja til í snjóléttari sveitunum, enda var þá komið á síðustu tröppu fyrir öllum, því flestir þeir heybirgari voru búnir að gjöra sig ófæra fyrir annarra gripi.

Þjóðólfur segir af vorinu 1867 í pistli þann 24.júní:

Víðast hvar eður allstaðar um land, eftir því sem bréf og fregnir segja, linnti harðindunum útúr sumarmálunum og brá til þeirrar veðráttu, er hafði í för með sér viðvarandi bata. Þó að maímánuður mætti heita fremur kaldur eður með kaldasta lagi, eins og vér höfum séð af hitamælisskýrslunni, og væri með fullhörðum frostaköflum hér sunnanlands, svo að um gróður var eigi að ræða allan þann mánuð út, og það eigi hér suður við sjóinn aukheldur til uppsveita, þá varð veðráttan frá sumarmálum svo hagstæð að öðru leyti sem framast gat verið, þurr, snjóalaus og hretalaus; en kjarngott víðast það sem leysti undan snjónum og klakanum, er byrgði og þakti alla jörð á alauðu í svo mörgum sveitum, allt frá veturnóttum og til sumarmála. Þetta veðráttufar gjörði, að sauðburðurinn afklæddist vel yfir höfuð að tala og í flestum sveitum, þar sem ekki varð fellir, og enda einnig í sumum sveitunum þar sem þó nokkuð féll. ... Um syðsta hluta Suður-Múlasýslu mun fellirinn engu minni, eftir því sem bréf og fregnir sögðu er bárust með skipi af Papós um byrjun þessa mánaðar [júní]; sömu fregnir sögðu og allmikinn fellir um Lón, og um Suðursveit (Borgarhafnarhrepp) í Austurskaftafellssýslu, en lítinn um Nes og Mýrasveit (Bjarnaneshrepp), en allstaðar illan sauðburð um þær sveitir vestur að Breiðamerkursandi, hið sama má telja sannfrétt af sauðburðinum um Öræfasveit og alla Vestur-Skaftafellssýslu, en þar að auki talsverður fjárfellir um Skaftártungu, um Síðusveit hið ytra allt austur að Geirlandsá, miklu minna um Austur-Síðu, engi um Fljótshverfi, Meðalland og Mýrdal og lítill í Álftaveri. En allt frá Jökulsá á Sólheimasandi og vestur að Langá á Mýrum engi fellir, nema máski lítið eitt á einstöku bæ, og sauðburður í besta gengi um öll þau héruð.

Þann 8.júlí segir Þjóðólfur frá skipskaða í júní [líklega]:

Undir lok fyrra mánaðar rak skip tvímastrað upp fram af Hítarnesi í Mýrum og voru margbreyttar sagnir er út af fregn þeirri spunnar með fyrsta; en nú þykir áreiðanlega fregnað, að þetta sé skonnertan „Tilfældet", var lítt eða ólaskað að sjá, bæði skip og reiði; 2 menn fundust dauðir í skipinu, annar í káhyttu en hinn í skipverjaskálanum. Skip og farmur er seldur við uppboð þessa daga.

Júlí. Kalt. Sæmilegir þurrkar vestanlands og sennilega líka nyrðra, en annars bleytur. 

Séra Þorleifur í Hvammi segir frá éljadrögum þann 4.júlí og fjúkéljum um kvöldið. 

Þann 29.ágúst lítur Þjóðólfur til heyskapartíðar:

Heyskapurinn hefir gengið mjög misjafnt yfir til þessa; grasvöxtur vestan- og sunnanlands næsta rýr einkanlega á túnum, og voru þau þar að auki kalin víða til stórskemmda víðsvegar hér um allt Suðurland; um Múlasýslurnar leit út fyrir þann grasbrest á túnum eftir því sem oss er skrifað þaðan, um 12.— 14. f.mán. [júlí], að þar yrði eigi borinn ljár í gras fyrr en allra seinast í þeim mánuði eður í byrjun [ágúst], en um Eyjafjarðar-, Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu segja fregnirnar grasvöxtinn allt að því sem í meðalári. Nýtingin hefir verið góð nyrðra og vestra allt fram til miðs þessa mánaðar, og það allt hér suður til Hellisheiðar, en aftur fyrir austan fjall megn óþurrkatíð, einkum úr því kemur austur fyrir Þjórsá; var það t.d. á allmörgum bæjum í Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum að eigi var kominn einn baggi í garð um miðjan þ. mán., en menn vona, að 3 næst undanfarnir góðir þerridagar hafi bætt mikið úr.

Ágúst. Kalt og óþurrkasamt nyrðra, en hlýrra sunnan- og vestanlands.

Séra Þorleifur í Hvammi segir að þann 26. hafi snjóað á fjöll og hálsa og um daginn hafi verið fjúkél og „grapi“. Hann heyrði í eldgosinu í Vatnajökli þann 29.ágúst: „Strax að morgni heyrðust dynkir miklir, svo tók undir í klettum og það öðru hverju að deginum með frekri brennisteinsfýlu er eins viðhélst allan daginn“.

Þjóðólfur segir þann 22.október frá skipskaða á Skagaströnd 5.september:

[Þ. 5.september] sleit upp á Skagastrandarhöfn í Húnavatnssýslu franskt fiskiskip: Le Fleche, skipstjóri Gonsselin, frá Dunqerken, reiðari Matth. Pool, voru skipverjar 20 alls og lést einn þeirra eða var fyrr látinn, en hinir 19 komust heilir af. Skipið hafði innanborðs 396 tunnur af söltuðum þorski, 49 tr. lýsis (líklega óbrædd lifur) og 8 tr. af kverksigum söltuðum, er þeir kalla „fiskitungur" og þykir hið mesta sælgætisfiskmeti þar í suðurlöndum. Skipið með rá og reiða og allur farmurinn var selt þar á Skagaströnd á uppboðsþingi en skipverjarnir 19 voru fluttir hingað, og sigla þeir nú allir með þessari gufuskipsferð.

September. Mjög votviðrasamur um landið sunnan- og vestanvert, en fleiri þerridagar virðast hafa komið nyrðra.  

Norðanfari segir af tíð þann 10.september:

Næstliðinn ágústmánuð hefir tíðarfarið verið hér norðanlands stormasamt, kalt og óþurrkasamt, nema dag og dag svo heyi lá við skemmdum. Einkum aðfaranótt hins 18. [Þ.] 25.-26. [ágúst] snjóaði hér mikið til fjalla og dala; en um mánaðamótin kom hér sunnanátt og besti þerrir svo flestir gátu náð heyjum sínum. Vegna grasbrestsins mun heyskapurinn en vera með minna móti. Í lok júlímánaðar voru hér horfur á að jarðeplavöxtur mundi verða í ár í góðu meðallagi, en síðan til óþerranna og kuldanna brá, hefir verpt skugga yfir þessar vonir, þar á móti er kálvöxtur hér með besta móti. 

Þjóðólfur segir þann 16.september af eldgosi:

Fimmtudaginn 29.[ágúst] (höfuðdaginn) var hér í Reykjavík, og vér ætlum víðast hér sunnanlands, þykkt veður og spakt, og andaði heldur af austri-landnorðri framan af deginum en svo lítið að varla varð þess vart. Þegar uppúr dagmálunum, fór að finnast allmegn fýla úti við og síðan inní húsunum einnig, og hélst hún við allan daginn; þeir sem kunnugir eru jöklunum í Skaftafellsýslu og hafa ferðast þar um Breiðamerkur- og Skeiðarársand, og yfir Jökulsá á Sólheimasandi í góðu veðri og þegar vatn er sem minnst í henni, fundu brátt að þetta var hin megnasta „jökulfýla“ og eigi annað. [Neðanmáls: Þessi hin sama fýla fannst bæði víðsvegar um sveitirnar fyrir austan fjall, víst allt austur að Markarfljóti og um Borgarfjörð; á Gilsbakka var prestskonan og ein systir hennar aðkomandi, á skemmtigangi þar um hinn fagra skóg fyrir neðan, á áliðnum degi, og brá þá fýlunni svo snöggt og megnt þar yfir, og eigi fyrri, að hún tók fyrir allan skógar- og grasailminn].

Þegar fram á daginn kom, fóru að heyrast dynkir og brestir miklir í fjallabyggðunum og hér um nesin einkum Kjalarnes og Kjós og Akranes, þangað er hin miklu fjöll Esjan og Akrafjall drógu til sín drunurnar, hið efra um Borgarfjörð heyrðust þær eigi fyrr en undir kveld; en hér í Reykjavík og á nesinu urðu fáir þeirra varir nema einstaka maður lítið eitt er voru staddir á hæðum uppi hér fyrir ofan, og þó óglöggt; hér liggja heldur ekki nein fjöll að í nánd eins og allir þekkja. Daginn eftir, föstudag 30. [ágúst] varð eigi vart neinnar fýlu neinstaðar, en brestir heyrðust þá en víða og þó daufar en hinn fyrra daginn. En eftir sólsetur um kveldið, eður eftir kl. 7 1/2 sást eldgosið glögglega og eldurinn gjósa upp og leggja á loft upp, bæði héðan úr Reykjavík og víðsvegar að úr öðrum sveitum fjær og nær, norðanlands og austur í Hornafirði víðsvegar um þær sveitir; frá Heinabergi í Suðursveit sást eldurinn enn laugardagskveldið 31. en eigi höfum vér sannar sögur af að hann hafi sést annarstaðar að þann dag, og hvergi dagana þar á eftir eður síðar. Öskufalls hefir hvergi orðið vart, svo að menn hafi tekið eftir, nema um sveitirnar beggja megin Breiðamerkursands, Öræfasveit að vestan og Suðursveit að austan. Þar varð öskufallið svo mikið, að jörð brá lit og kál varð svart í görðum, en hvergi fyrir vestan Skeiðarársand né norðanlands. Af því eldurinn sást svo glögglega af láglendinu hér syðra, töldu flestir engin tvímæli á því með fyrsta, að hann hlyti að vera eigi alllangt héðan, og eftir stefnunni héðan miðja vega milli réttvísandi austurs og landnorðurs, töldu menn því líklegast að hann mundi vera í hinum gömlu brunafjöllum austur af Skjaldbreið, milli suðurenda Langjökuls eður Baldjökuls og fjallanna norður af Laugardalnum. En brátt barst fregn úr uppsveitum Árnessýslu, hina næstu daga á eftir, að eigi væri eldurinn um neinar þær stöðvar, en aftur fullyrt um hríð, að hann mundi vera í Rauðukömbum norður af Hreppamannaafrétti, er brunnu ár 1344 eður um þau missiri og gjöreyddist öll byggð í Fossárdal af þeim eldi, heil kirkjusókn með 11 jörðum, eftir því sem annálar segja. En öllum er stefnunnar gættu, mátti vera fullljóst að þetta gat eigi verið með neinu móti, því Rauðukambar eru sem næst í háaustur, réttvísanda, héðan, og því síður gat það komið heim við eldstefnuna frá öðrum stöðum, þar sem hún var nákvæmlega miðuð, t.d. hið efra um Borgarfjörð, af Eyrarbakka, og frá Bjarnanesi og kirkjustaðnum Holtum í Hornafirði; enda barst Rauðukambafregnin brátt til baka með fullum sanni, þó að menn væri í lengstu lög tregir að gjöra sér í hugarlund og því síður að trúa því, að eldur þessi gæti verið vestan- norðvestan til í þeim hluta Vatnajökuls er Skaftárjökull nefnist, sakir fjarlægðarinnar, þar sem eldurinn sást svo glöggt víðs vegar að hér vestra; fóru þá nokkrir að miða hann við Skaftárgljúfur og um sömu stöðvar sem jarðeldurinn 1783 kom upp, en þetta er einnig móti réttri stefnu, enda ber og öskufallið það til baka, í sambandi með því að engi sáust þess leiðis ummerki á Skaftá eða að neins öskufalls yrði vart hvorki um byggðir né afrétti Suðurmanna né heldur um Skaftártungu. Og þó að menn austur um Hornafjörð teldi líklegast að eldurinn væri í Grímsvötnum eður um þær stöðvar, þá getur það með engu móti samrýmst við stefnuna frá Holtum í Hornafirði, og Bjarnanesi hinumegin Fljótanna, en báðir þeir kirkjustaðir liggja einmitt, á 64°N því þaðan var eldurinn að sjá „í miðaftanstað“ eður hávestur réttvíssanda, einsog aftur frá Stafholti, Reykholti, Hjarðarholti og Gilsbakka í Borgarfirði, en allir þeir staðir liggja ýmist rétt fyrir sunnan eður rétt fyrir norðan 64°40'N, virtist eldurinn vera að sjá í há-austur eður suðuhallt austur; frá Eyrarbakka bar eldinn miðja vega milli Búrfells á Hreppamannaafrétti (vestanvert við Þjórsá í óbyggðum) og Heklu þó fremur nær Búrfelli, þ.e. í hálandnorður réttvísanda. Kaupskipið Cito skipstjóri Stephansen frá Khöfn, var á hingað siglingu vestur með landi sá eldinn, tók hann þá „hæð“ eður stefnu eldsins yfir Portlandshöfðann að sjá, og varð þá eldurinn þar í norður af.

Nú er menn bera saman allar þessar stefnur og draga saman í eina heild, þá hlýtur að bera að þeirri niðurstöðu að eldur þessi hafi gosið upp einhversstaðar úr hinni vestustu öxl Vatnajökuls eður Skaftárjökuls er liggur vestur úr meginjöklinum milli upptaka Tungnár að sunnan og fjallgarðsins þar fyrir sunnan (milli Tungnár og Skaptár) er liggur austur af Skælíngnum og Uxatinds fast upp i jökulinn og er sá fjallgarðurinn allmikill, en Tungnafellsjökuls og Köldukvíslar að norðan, og Fiskivatna að vestan. Það virðist óefandi, að eldurinn hafi komið upp í sjálfri jökulöxl þessari en eigi á öræfunum þar vestur af, eftir því sem ráða er af hinni miklu jökulfýlu, er lagði svo víðsvegar og náði yfir slíka fjarlægð, 29. f.mán. Nokkrir kynni að segja, að þá hefði vatnsflóð sjálfsagt orðið að hlaupa í Tungná og svo þaðan í Þjórsá í byggð; en það er engan veginn víst að þessi hin nýja eldgjá hafi spúð vatnsflóði, eins og t.d. að er tíðast um Kötlu, heldur lýtur að hinu gagnstæða það, hvað eldurinn sjálfur var bjartur og stöðugur og lagði hátt á loft upp, því það mun sjaldan eður aldrei með vatns og vikurgosi, heldur einmitt með hrauneðju eður hraunsteypugos.

Eldstöðvar þessar virðast því að hafa verið í jökulöxl þeirri, er nú var sýnt, milli 64°10' og 64°25'N, og 30°45'31 — 10' vestl.l., talið frá hádegisbaug Kaupmannahafnar; eldgjáin virðist og hafa spúð hraunefni en eigi vatnsflóði né heldur vikursandi eður ösku að neinum mun. Dagana 29.—31.[ágúst] og 1. þ.mán. var aldrei heiðskírt veður heldur þykkfengið, svo að eigi sá til sólar neinn þann dag hér syðra, og mátti því eigi sjá hvaða áhrif eldurinn hafði á sólina og birtu hennar, en síðan 1. þ. mán. hefir sólin haft sinn eðlilegan lit og borið eðlilega birtu, hefir og heiðríkjan þar upp yfir eldstöðvunum verið hrein og tær síðan og ræður því að öllum líkindum, að gos þetta hafi verið á enda sjálfsagt 2.-3. þessa mánaðar.

Þann 22.október birtir Þjóðólfur enn fregnir af gosinu - og leiðréttingar:

Af eldgosinu eystra, dagana 29.ágúst - 3. september höfum vér fengið mjög fáar fregnir til umbótar eður leiðréttingar á skýrslu vorri í blaðinu 16. f.mán. Síra Ísleifur Gíslason á Stokkalæk hefir ritað oss 20. [september] nokkuð gjörr um eftirtekt sína á eldinum, stefnuna sem hann var í þaðan að sjá ofl., dynkir miklir og jökulfýlan eigi fyrr en hér, 30. ágúst. Eldurinn sjálfur sást eigi fyrr en hér, nefnilega daginn eftir „á 3 stöðum og með talsverðu millibili“; svo var og reyndar hér í Reykjavík að kveldi sama dags, (30.) því að oss láðist eftir að geta þess hið fyrra sinni. Millibilið milli eldstólpanna héðan að sjá var þannig, að hið norðasta leiftur bar við norðustu öxlina á Lágafellshömrum, en bið syðsta um miðbik þessa sama fjalls eður við háhrygg þess. Síra Í.G. skrifar enn fremur, að eldsins hafi þar „orðið öðru hverju vart um vikutíma, þ.e. til 5. [september] en úr því ekki, ennfremur segir hann, að þaðan hafi eldinn verið að sjá „framan undir Vatnafjöllum“, sem eru rétt fyrir sunnan Heklu". En stefna þessi getur eigi vel samrýmst við hinar allar er vér höfum fyrr frá skýrt, því eftir landsuppdrættinum leiðir hún suður fyrir Tungnárupptökin. Aftur kemur stefna sú, sem eldurinn var miðaður við frá Haukadal í Biskupstungum, nefnilega í miðsmorgunsstað þaðan eður réttvísanda háaustur, alveg heim við hinar fyrri og lendir í Skaftárjökli fyrir norðan Tunguárupptökin. Haukadalur er nefniloga á 64°20'N. alveg eins og Bjarnanes og Holtar (það var prentvilla fyrr : 64°N ístað 64°20') þaðan sem eldurinn sást í miðaftansstað, en hvorttveggja ber og saman við stefnuna bæði frá Eyrarbakka og héðan úr Reykjavík. Af því síðar fréttist, að í Jökulsá á Skeiðarársandi hefði komið eitt hið mesta hlaup 27.ágúst, hún hleypur þannig gjarnast 5. og 6. hvert ár, — þá héldu nokkrir, að þaðan væri sprottin hin mikla og almenna jökulfýla, en þetta getur vart átt sér stað, því t.d. vestur í Rangárvallasýslu hefði hana þá hlotið að leggja miklu fyrr en á 3. degi, og svo eru víst engi dæmi þess að jökulfýlu úr Skeiðarárhlaupi leggi hingað suður og vestur um land og svo norður um allan Skagafjörð, en þar var einnig hin megnasta fýla yfir allt 29. ágúst.

Norðanfari birti þann 31.janúar 1868 bréf úr Öræfum, dagsett 15.september:

Fréttir hefi ég ekki nema þær að mikill brestur var hér í grasvexti og þurrk, svo töður hröktust á túnum allt fram um höfuðdag, og sama er að segja um utantúnsheyafla, því ég get eigi sagt, að í sumar síðan um mitt sumar, hafi komið þurr dagur til enda. Þann 27. ágúst hljóp Skeiðará með vatnsflóði og ísjökum yfir allan Skeiðarársand, að svo miklu við sáum til, og í sjó fram. Á þriðja degi fór vatnið nokkuð að þverra. Svo var mikil íshrönn eftir á sandinum að eigi sást í hann fyrr en nokkuð leið frá. Vatnsflóðið gekk hér allstaðar upp á lönd, og skemmdi meira og minna af þeim með sandleðju. 29. s.m, sást eldur í jöklinum norður af Skaftafelli, hér um bil til 8.-9. sept., síðan hefi ég ekki heyrt getið um að neinn hafi séð eld. Aska féll hér norðast í sveitinni, en þó ekki til neinna muna, nema á Hnappavöllum, hvar sagt er að öskufallið hafi orðið mest, þannig að jörðin varð grásvört í rótinni.

Norðanfari segir af veðráttu og fleira 9.október:

Yfir höfuð hefir tíðin verið óstillt og votviðrasöm og erfitt með nýting á heyjum, þó hafa komið í milli þerridagar, svo flestir hér í nærsveitunum hafa náð heyi sínu allvel verkuðu. Nokkrir eiga hey úti enn. 1.—2. [október] var hér töluverð snjókoma og hvassviður norðan, og þriðja 9 gr. frost á R. Nú er sagður minni landburður af fiski hér utan til á firðinum en var í sumar, ógæftirnar hafa líka nú um tíma verið miklar. 

Október. Nokkuð umhleypingasamt, ekki mjög kalt en hrakviðri nokkur.

Þjóðólfur segir af tíð þann 30.október:

Allur síðari hluti sumars frá miðjum ágúst, hefir verið næsta rigningasamur víðast en þerrilaus nálega allstaðar um land; lágu svo útheyin yfir höfuð að tala óhirt að mestu leyti ýmist reidd heim á tún en ýmist á engjum allt frá því í vikunni fyrir höfuðdag, og var það víðast, en sumstaðar viku yngri, og framundir miðjan [október] er norðangarð gjörði i 3 daga eður meir, og þó einstaklega frostvægan, svo að flestar nætur var hér frostlaust niður við sjóinn. Þessa dagana 11.—14. [október] mun víðast hafa verið alhirt undan, og má nærri geta, að það hey hljóti að vera lélegt fóður, en allur fyrri heyskapurinn varð að standa ólagfærður í görðum og óuppgerður til fulls allan þenna tíma, svo að víða voru þau hey orðin drepin meira og minna. þannig lauk heyskapnum í ár, engjaheyskapur hrakinn, rýr og illur, ofan á mikinn og almennan grasbrest nálega allstaðar um land, bæði á túnum og engjum, en töður þar að auki meira og minna hraktar austanlands þegar kom austuryfir Þjórsá, en einkanlega í öllum Skaftafellssýslunum og Suðurmúlasýslu, því um þær sveitir allar þykir heyskaparóárið allt að því eins eða litlu betra en sumarið 1835. 

Nóvember. Tíð almennt talin hagstæð. Hiti yfir meðallagi.

Norðanfari birti þann 31.janúar 1868 bréf af Héraði, dagsett 19.nóvember:

Hér tók alltof snemma fyrir heyreytu manna með grimmum frostum, Heyföng eru minni en mörg ár áður. Túnin kól óttalega í Fjörðum, svo slíkt hefir engin séð fyrr svo víða, og mikið kól líka í Héraðssveitunum víðast hvar. Grasbrestur var hins vegar almennur nema á mýrum, sem seinast komu undan gaddi, þar óx víða í betra lagi. Tún og þurrlendi brast mest. Töður urðu þriðjungi og allt að tveim þriðjungum minni en í meðalári og víðast skemmdar af hrakningi og slæmri hirðingu. Fyrir þetta hafa nautgripir orðið að fækka í haust, og fækkuðu þó töluvert í vor eð var. Lömb voru fá til og þó óvíða nú sett á. Flestum var lógað miklu fleiri en vant er. Það er torvelt að telja tölum, allan þann skaða, sem menn hafa hlotið hér á þessu ári. Hausttíðin hefir mátt heita góð, þó hret og stórviður hafi komið stundum, og enn er alautt.

Í sama blaði Norðanfara (31.janúar 1868) er bréf úr Dalasýslu, dagsett 24.nóvember:

Um Breiðafjarðardali var grasár í lakara lagi og nýting bág, þar á ofan hafa inn komin hey skemmst meira og minna af hinum stöðugu úrfellum í haust bæði af regni og snjó. Snjór féll hér í langmesta lagi fyrst í nóvember, svo lá við sjálft að jarðlaust yrði. Nú er hér örísa og besta tíð.

Þjóðólfur segir þann 28.nóvember frá skipstrandi við Papós, líklega undir lok október, fleira kemur og fram í pistlinum:

Kornskip það sem von var á í haust til Papós-verslunarinnar í Austur-Skaftafellssýslu, strandaði þar eður bar upp í klettana á innsiglingunni, undir lok þ.mán. [október?] og öllum skipverjum var bjargað en þeir gáfu upp skipsfarm til yfirvaldsmeðferðar og var hvort tveggja selt á uppboðsþingi; nokkuð af kornmatnum hafði verið lítt skemmt en sumt af því „komið í graut", eftir því sem sunnanpóstur, er kom að austan 24. þ.mán. segir eftir þeim sýslumanni er komu þaðan að austan um þá dagana er póstur kom að Kirkjubæjarklaustri. Hitt er ótrúlegra, sem póstur hefir eftir þeim að tunnan af óskemmdu bankabyggi hafi komist að 20 rd. á uppboðsþinginu, en um 10 rd. tunnan af hinum skemmda mat.

Fregnir bárust hingað fyrr í haust um það, að hér og hvar um Skaftafellssýslu vestari og jafnvel einnig austan til í Rangárvallasýslu hefði rekið tunnur fullar með steinolíu í síðastliðnum septembermánuði. Nú er oss skrifað með þessari póstferð, að 6 muni vera orðnar samtals steinolíutunnur þær sem reknar væri hér og hvar þar í Skaftafellssýslu, og að jafnframt hafi rekið víðsvegar ýmis önnur brot af skipi um sama leyti, og heilt þilfar úr hafskipi á Kirkjubæjarklaustursfjöru; Strandreks þessi fór eigi að verða vart fyrr en nokkrum dögum eftir að hið mikla jökulhlaup kom í Skeiðará, 27.ágúst; hafi þá, segir bréfskrifandinn, rifjast upp fyrir mönnum, að fyrir nokkrum árum hafi sést kaupfar sökkva fyrir framan Öræfasveit (þar sem Skeiðará fellur fram með allri sveitinni vestanverðri suður til sjóar); hafi svo verið, hefir það sjálfsagt sandorpist þar í jökulleðjusandinum þegar í stað. Er nú getið til að strandrekið muni vera af þessu skipi og hafi þetta hið mikla jökulhlaup í ánni sumpart grafið undan því og sópað utan af því sandinum, en sumpart hafi hin miklu jökulbjörg er áin ryður fram með sér í hlaupunum (þau eru eins og stærstu hús) mölvað skipskrokkinn og leyst hann allan í sundur.

Desember: Fremur hlýtt í veðri og tíð almennt talin hagstæð. Mikið veður skömmu fyrir miðjan mánuð.

Norðanfari birti 31.janúar 1868 úr bréfi rituðu í Hjaltastaðaþinghá 2.desember:

Haustið og það sem af er vetrinum, hefir verið einstaklega gott, og varla komið snjór, svo að teljandi sé, og hlánað undir eins aftur. Fiskafli hefir allt að þessu verið sums staðar inn í fjarbarbotna og það mikill; einnig síld. 

Þjóðólfur segir enn af skipstrandi í frétt þann 13.desember:

Að kvöldi 7. [nóvember] sleit upp á Hofsóshöfn í Skagafirði skonnertskipið Aurora 28 lestir, skipstjóri P. M. Jensen frá Kaupmannahöfn; var þá hið mesta ofsaveður af útnorðri þar norðanlands, og hafði staðið á 4 dægur, og skipið eins og það væri í kafi af særokinu.

Þjóðólfur segir 29.janúar 1868 frá skiptapa á Breiðafirði í desember:

[Þ. 17. desember] lagði skip út Eyrarsveit vestra í hákarlalegu, veður var þá allgott en rauk upp um nóttina eftir af austri landsuðri með ofsaveðri er hélst daginn eftir eins og hér; póstskipið Arcturus hrakti þann dag vestur með landi og vestur fyrir Snæfellsjökul. Eigi að síður vonuðu menn þar víðsvegar um Snæfellsnes, að skipi þessu hefði auðnast að hleypa vestur í Breiðafjarðareyjar eða vestur í Barðaströnd, því formaðurinn Gísli Gunnarsson nálega 50 ára að sögn, var annálaður þar vestra fyrir formennsku og dugnað sinn, og kunnáttu alla til sjóverka, og allir hásetar hans, 10 að tölu, ungir og röskvir menn. Gekk svo um hríð, að engar ferðir né fregnir komu þar vestan að; en um síðir barst áreiðanleg fregn bæði úr Flatey og ofan af Barðaströnd, að eigi hefði þar komið annað fram, en rekin seglás með umvöfðu segli í Flatey, og koffort rekið uppá Barðaströnd.

Þann 15.febrúar 1868 birti Norðanfari bréf úr Hrútafirði, dagsett 24.desember:

Tíðin hefir mátt heita afbragðsgóð síðan á allraheilagramessu, oft þíðviðri með nokkrum rigningum og snjólaust upp í háfjöll. Laugardaginn 14.þ.m. kom hastarlegt norðanáhlaup með stórsjó og afarmikilli flæði, svo sjórinn gekk hærra á land en venjulega, braut víða framan til úr bökkum og tók út sem laust var, bæði báta við og fleira þar sem eigi var aðgætt; sjólöðrið gekk rétt að verslunarhúsunum á Borðeyri. Ekki hefir spurst að neinn skaði hafi orðið að þessu veðri.

Þjóðólfur segir af árferði, aflabrögðum og fleira í pistli þann 31.desember:

Vér höfum séð að allan október og nóvembermánuð var fremur hiti en frost að meðaltali, og kuldinn í desembermánuði varð víst aldrei að neinum mun meiri heldur en hlýindin. Haustveðráttan og vetrarveðráttan fram á þenna dag hefir því verið einstaklega hlý, svo að fáir þykjast muna jafnsnjólausa tíð, frostalausa og hlýja framanverðan vetur til ársloka eins og þessa. Sauðfénaður allur er líka sagður í bestu haustholdum fram á þenna dag hér víðsvegar um Suður- og Vesturland; en veðráttan hefir jafnframt verið hretviðra- og rigningasöm, því oftast hefir verið hafátt, en fyrir þetta hefir hrosspeningur hrakast mjög; hretviðri þessi voru mest allan framanverðan október, og ollu því, að svo seint náðist í garð allur þriðjungur útheysins, er þá var orðinn að lélegasta hrakningi, svo heyin stóðu lengi ólagfærð og óuppgerð til fulls og drap svo mjög víða, og sumstaðar til stórskemmda, það sem i garð var komið; þess vegna þykja heyföng manna bæði lítil og óáreiðanleg víðast hvar um land.

Ofsaútsynningsveðrinu 11.—12. þ. mán. fylgdi eitthvert hið mesta flóð og brimrót, sem elstu menn muna, og varð mikið tjón að því víðsvegar hér um öll nesin; víða tók út skip og báta; 3 skip og 3 bátar mölbrotnuðu á Akranesi, en þó er sagt að hvað mestur hafi orðið skipastólsmissirinn á Hvassahrauni og á Vatnsleysu (hjá Guðmundi bónda á Miðengi). Hjallhús fór þá hjá Vilhjálmi í Kirkjuvogi, og allt, farviður og búsgögn, er þar voru geymd, og gafla braut undan bæjarhúsum að Lónshúsum? í Garði. Víðsvegar þar syðra gekk sjórinn óvanalega hátt á land upp, og umrótaði öllum görðum og girðingum, er fyrir voru, byrgjum og skipanaustum. „Á Akranesskaga stórskemmdust tún á 3 jörðum, og fleiri lönd og vergögn fordjörfuðust,margir misstu bæði herslufisk og saltaðan úr hjöllum og byrgjum, og fleira þess konar, sem í þeim er vant að hafa“ (úr skýrslu frá hr. H.J. til Þjóðólfs l7. þ.m.).

Norðanfari birti þann 31.janúar 1868 úr bréfi úr Borgarfirði. Það er dagsett 29.desember:

Veðráttan hefir hér í vetur á Suðurlandi verið einstaklega ofviðrasöm með stórflóðum og brimum, en þó skaraði fram úr flóðið, og þó einkum brimið, fimmtudagsmorguninn 12 þ.m.; þá braut hér syðra bæði hús, skip og garða, með sjávarsíðunni, og geta menn með nokkurri vissu sagt, að þvílíkt brim hafi ekki komið í næstliðin 3—500 ár — en flóð oft annað eins, og vissulega það sem kom 1799 —, og nefni ég þá fyrsta atvikið af þremur, eins og sönnun fyrir einstaklega framúrskarandi brimafli. Það finnst í þrjúhundruð ára gömlum máldögum, að klettur sem nefnist Grásteinn og hafði staðið allt til þessa morguns (12.des.), eins og á hlóðum, og þau hlóð á fastaklöpp óhaggaður, en nú bylti brimið honum af hlóðunum, færði hann 5 álnir og sneri því upp sem niður var. Mér er sagt að steinn þessi sé 12 álnir ummáls og 4 álnir á hæð. Annað merkilegt atriði var það, að menn voru að bjarga skipum undan sjó á einum bæ á Seltjarnarnesi, en þegar búið var að bjarga heimaskipum kom eitt skip af sjó inn í vörina, sem náðist alheilt, og á meðan verið var að setja það, þá kom annað, sem líka náðist að mestu heilt; þau voru bæði rekin sunnan yfir Skerjafjörð, eða sunnan af Álftanesi ½ viku sjávar gegnum sker og boða. Við Reykjavíkursand mölbrotnaði hvort skip, sem ekki var sett nema einn bátur, sem því nær stóð lægst ofan til við gamlan þaragarð, en þegar brimið gekk að, sveiflaði það þaragarðinum yfir bátinn og grófst hann þar í sandi og þara, og var mokaður þar upp þegar út féll. Í einni lendingunni er sagt, að 6 för hafi tekið út, sem einn maður átti, og í Höfnunum hafi brimið brotið og tekið út timburhús með 2—300 tunnum af salti og fleira".

Suðurnesjaannáll [Birtist í Rauðskinnu hinni nýrri, III] segir frá veðrinu þann 11.desember: „Ógurlegt sjávarflóð með hafróti varð hér 11. desember um morguninn. Fórust bæði skip og hjallar, og tún biðu víða stórskemmdir. Hafði ei þekkst áður í manna minnum, og ekki minna því Bátsendaflóði“. 

Þann 18.júní 1868 birti Norðanfari tvö bréf úr Snæfellsnessýslu. Engin dagsetning er á fyrra bréfinu - en greinilega samt ritað 1867, greint er frá tíðarfari þess árs. Síðara bréfið er dagsett 24.febrúar 1868 - en fjallar að nokkru um veðurlag ársins 1867:

Frá því ég skrifaði þér í vetur héldust harðindin, harðviðri og jarðbann þangað til 5.apríl 1867, en minnilegast var þó norðanofviðrið 5.mars, enda var hér öldungis óstætt með megnasta frosti og kafaldssorta, sleit veðrið hér grjót úr fjöllunum og stórskemmdi með því mörg tún, og braut timburþak á kirkju á Knerri í Breiðuvík. Þegar batinn kom 5.apríl, voru margir komnir í heyþrot, og hefði dregist viku lengur, mundi víða hafa fækkað fénaður; batinn mátti heita að stæði fram til mánaðarlokanna, þó stöku kuldadagar kæmu á milli. 3. maí var hér mesta grimmdarveður, og aftur 18., 19. og 20. [maí] með mikilli fannkomu, og eins 26. og 27. Yfir höfuð var vorið kastasamt og gróður lítill, þó voru skepnuhöld fremur vonum, góð, og fráfærur allstaðar í seinasta lagi. Sláttur var hér víðast byrjaður seint í 14. vikunni, var þá almennur grasbrestur, bæði á túni og engjum, en af því veðuráttan var þurr, stöðug og góð, frá því og þangað til vika var liðin af september varð heyafli nálægt meðallagi, og allt hey með bestu nýtingu, en síðan hefir haustið verið dauðans bágt, ýmist norðan ofviðri, t.d. 28 f.m. eða kuldastormar með snjó og krapa, eða þá stórfelldar sunnan rigningar, dægrum og jafnvel sólarhringum saman.

Úr öðru bréfi frá sama manni, d. 24.febr. 1868: Eitthvað dálítið verð ég að minnast á veðuráttuna, því í henni er fólginn svo mikill partur af tímanlegu hagsældinni og tímanlegu bágindunum. Ég mun eitthvað hafa minnst á hana í sumri var fyrir það, sem þá var liðið. Bærileg veðurátta og nýting hélst hér um sveitir fram í miðjan september (1867), en þá tóku úrfellin til fyrir alvöru, með ákaflegum rigningum og litlum lotum, en engum verulegum þerridögum á milli; hraktist þá og ónýttist það, sem úti var, en það sem inn var komið drap og skemmdist, sauð niður eða fruggaði en brann sumstaðar. Minnilegastir rigningardagar voru: sept.16, 20.og 25, æstust þá ár og lækir, og gjörðu víða stórskemmdir, og 30; en í október 9. og 24 .; í nóv. 6. og 23 ; og í des. 3. 6. 13. En af stórviðrisdögum eru mér þessir minnilegastir í sept. 21. og 30., í október sá 25.; í nóv. 6. og 7.; og í des. 12. var hér óttalegt hafrót og stórflóð, gekk þá sjór sumstaðar fulla bæjarleið á land, braut upp land, bar upp á land stórgrýti, möl og sand, tók út og braut skip, og vann hér víða mikið tjón við sjó þar sem vindur stóð hlífðarlaust á land, og 25. um kvöldið.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar árið 1867. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 153
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 2415
  • Frá upphafi: 2410404

Annað

  • Innlit í dag: 124
  • Innlit sl. viku: 2155
  • Gestir í dag: 118
  • IP-tölur í dag: 112

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband