Villtar veðurspár

Veðrið er nokkuð villt þessa dagana - og spár jafnvel enn villtari. Gríðarlegt háþrýstisvæði er að ná sér á strik fyrir sunnan land og líklegt að þrýstingur hér á landi verði sá hæsti í mars síðan 1962. Þrýstingur í miðju hæðarinnar stefnir yfir 1050 hPa sem er óvenjulegt á þessum slóðum á flestum tímum árs (eins og rifjað var upp í síðasta pistli).

w-blogg280320a

Kortið sýnir stöðuna á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að hún verði síðdegis á sunnudag, 29.mars. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykkt er sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á þessum árstíma telst græni liturinn hlýr og mun þeirra hlýinda gæta sums staðar á landinu, einkum þó eystra. Mikill varmi fer þó í að bræða snjó og því ekki á vísan að róa með tveggjastafatölur á þeim slóðum. 

Ýmsum marsháloftametum frá Keflavíkurflugvelli er ógnað, en ekki þó útséð um hvort af slíku verður - við fylgjumst með.

Önnur háloftahæð - en minni - er norðvestur af Alaska. Hún virðist eiga að stugga við kuldapollinum mikla, Stóra-Bola sem er býsnaöflugur en liggur á sínum heimaslóðum. Flestar spár gera ráð fyrir því að hann taki á rás til austurs eða suðausturs og rekist á Grænland. Hvað þá gerist er mun meiri óvissu undirorpið og hafa skemmtideildir reiknimiðstöðvanna verið með miklar flugeldasýningar undanfarna daga. 

Það er vart við hæfi að fara að velta sér mikið upp úr þeim - vegna hinnar miklu óvissu. En kannski er í lagi að sýna spákort úr hádegisrunu reiknimiðstöðvarinnar, sjávarmálskort (og 850 hPa hita) sem gildir um hádegi fimmtudag 2.apríl. En taka verður fram að þessi staða sem sýnd er er með töluverðum ólíkindum og kemur varla fram í þessari mynd (en maður veit samt aldrei).

w-blogg280320b

Hér er sýnd 954 hPa lægðarmiðja fyrir austan land með ískaldri hríðarstroku yfir Íslandi - 1066 hPa hæð er vestan Grænlands. Þó svona háar tölur séu heldur algengari yfir Norður-Kanada heldur en hér á landi má samt fullyrða að þetta er samt nærri því út úr korti - eins og sagt er. Ritstjórann minnir (en bara minnir) að norðurameríkuháþrýstimetið sé um 1070 hPa.

Þetta eru ekki auðveldir tímar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.11.): 14
  • Sl. sólarhring: 237
  • Sl. viku: 2258
  • Frá upphafi: 2411678

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1922
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband