September sem sumarmánuður

Í marslok birtist hér á hungurdiskum pistill sem nefndist „apríl sem vetrarmánuður“. Þar var leitað að aprílmánuðum sem voru svo kaldir að þeir mega teljast fullgildir vetrarmánuðir. Fáeinir fundust. Nú gerum við svipað fyrir september og sumarið. September telst reyndar til sumarsins í árstíðaskiptingu Veðurstofunnar. En meðalhiti hríðfellur á þessum tíma árs og það er því sjaldan sem september er svo hlýr að hiti hans nái meðalhita hinna sumarmánaðanna þriggja - en það hefur komið fyrir. 

Til leitarinnar notum við landsmeðalhita í byggð. Reyndar er sú gagnaröð ekki sérlega áreiðanleg framan af - og stenst varla alvarlega rýni - en við látum sem ekkert sé í þessum leik. Við gætum leitað á sama hátt fyrir einstakar stöðvar - og gerum það e.t.v. einhvern tíma í framtíðinni (eða kannski gera lesendur það bara sjálfir). 

Það háði leitinni nokkuð fyrir aprílmánuð að hann hefur hlýnað umtalsvert á síðustu 150 árum - og veturinn líka. Þetta er heldur minna vandamál fyrir september - að meðaltali hefur leitni hita hans aðeins verið um 0,4 stig á öld - varla marktæk, hitinn hefur sveiflast mikið, líka á langtímavísu. Sumarið hefur hlýnað lítillega meira. Þrátt fyrir þetta notum við sömu aðferð við að leita sumarseptembermánuði uppi og við notuðum í vetraraprílleitinni á sínum tíma. 

w-blogg140919a

Það sem við sjáum á myndinni er þetta: Lárétti ásinn vísar til síðustu 200 ára (tæpra), en sá lóðrétti er hitakvarði. Græna feita línan sýnir 30-árakeðjumeðalhita (alþjóða-) sumarsins, til þess teljast mánuðirnir júní til ágúst. Sumur áranna 1989 til 2018 eru því lengst til vinstri - en línan hefst við árabilið 1824 til 1853. Græni ferillinn hefur í heildina þokast upp á við, en þó er sveiflan sem við sjáum í 30-ára hitanum enn meiri en hlýnunin er.

Rauða þykka línan sýnir það sama - en á við september. Þessi lína hefur þokast upp á við líka - fjöláratugasveiflurnar enn meira áberandi en sumarhitasveiflurnar - en fylgist að mestu að í tíma.

Þreparitið sýnir hins vegar landsmeðalhita einstakra septembermánaða - mjög breytilegur greinilega. Allt frá hinum illræmda september 1979 (og fáeinna ámóta eldri til hlýindanna miklu 1939 og 1941.

Við merkjum sérstaklega þá septembermánuði þegar meðalhiti er hærri en meðalhiti næstu þrjátíu sumra á undan. Sannir sumarmánuðir. Við megum líka taka eftir því að hinir fjölmörgu hlýju septembermánuðir þessarar aldar hefðu sumir hverjir komist inn í sumarflokkinn fyrir hundrað árum - það munar um hlýnunina þó ekki sé hún mjög mikil.

Þetta eru alls 8 mánuðir sem við merkjum. Langsumarlegastir voru septembermánuðir áranna 1939 og 1941, september 1958 líka ekta sumarmánuður - sem og 1996 (þó heldur hafi hann verið drungalegur sunnanlands - en það er kannski dæmigert sumareinkenni). 

Við getum líka spurt hvor það öfuga hafi gerst - hefur sumarið í heild (það er að segja júní til ágúst) nokkru sinni verið kaldara heldur en 30-ára meðalhiti septembermánaðar? Nei, það hefur ekki átt sér stað á þessu tímabili. Að vísu munaði nær engu árið 1882 (0,1 stigi).

September hefur einu sinni verið hlýjasti mánuður ársins á landsvísu. Það var 1958 (kalt var í ágúst og kuldi norðanlands í júlí dró þann mánuð niður). Í Reykjavík hefur september aðeins einu sinni verið hlýjasti mánuður ársins, það var 1877. Á Akureyri gerðist það aðeins 1958. Að september sé hlýjastur gerist oftar við sjávarsíðuna, sérstaklega austanlands. Það hefur t.d. gerst 7 sinnum á Dalatanga þó ekki hafi verið mælt þar nema í 80 ár. Síðast gerðist það þar bæði 2014 og 2015. 

Við sjáum af ofansögðu að september keppir sjaldan í hlýindum við aðra sumarmánuði - en hann er samt sem áður langoftast einn af fjórum hlýjustu mánuðum ársins. Ef við teljum í 145 ár, aftur til ársins 1874 er það í 128 skipti af 145. Maí hefur aðeins 15 sinnum lent í hópi fjögurra hlýjustu mánaða ársins, júní 144 sinnum og október þrisvar. Eigi sumarið að vera fjórir mánuðir að lengd (til samræmis við veturinn) er september tvímælalaust sumarmánuður - miklu frekar en maí. 

En eins og margoft hefur verið fjallað um hér á hungurdiskum áður er um fjölda haustmerkja að velja í náttúrunni. Það fer algjörlega eftir því hver tilgangur árstíðaskiptingar er hvaða merki eða vísi við veljum - allt frá sólstöðum á sumri og fram til upphafs skammdegis. 

September sem haustmánuður? Hefur einhver september verið kaldari en 30-ára meðalhiti haustsins (október og nóvember). Svarið er nei - og má sjá það á myndinni hér að neðan.

w-blogg140919b

Það vantar mikið á að september hafi nokkru sinni verið svo kaldur að hann hafi keppt við haustmeðalhitann. Hann liggur því mun nær því að vera sumarmánuður heldur en haust - þrátt fyrir mun fleiri hausteinkenni heldur en hinir sumarmánuðirnir. Hausthitinn hefur heldur aldrei verið hærri en 30-ára meðaltal septemberhita. Það hefur heldur aldrei gerst að septemberhiti hafi verið lægri heldur en meðalhiti október og nóvember sama ár - en hins vegar hefur það komið fyrir að september hefur verið kaldari en október (um það höfum við fjallað hér áður), en aldrei kaldari en nóvember. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið við þessar vangaveltur þínar, Trausti, er að þú virðist endilega vilja hafa sumarmánuðina fjóra, jafn marga og "vetrar"mánuðina. Athyglisvert er að á alþjóðavísu hafa menn ekki áhyggjur af því (þrír mánuðir, óháð fjölda vetrarmánaða). Einnig er spurning hvort að vetrarmánuðurnir séu bara fjórir, þ.e. að telja ekki nóvember til vetrarmánaðar. Eðlilegra finnst mér að telja þá vera fimm (nóv-mars). Tveir haustmánuðir (sept., okt.) og tveir vormánuðir (apríl-maí).
Ég held að í hugum flestra Íslendinga sé litið svo á. Þetta kemur vel fram í fjölmiðlum hvað september varðar. Nær undantekingarlaust er sagt þessa daganna að komið sé haust enda veðrið ansi haustlegt nú um stundir! 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 15.9.2019 kl. 08:17

2 identicon

Tilfinning mín er sú að september sé sumarmánuður amk fyrri hluti hans enda detta strax upp í hugann fleiri en eitt skipti þar sem bestu dagar sumars komu á þeim tíma td 2010. Er það ekki rétt að gömlu mánuðirnir falla betur að meðal árstíðarskiptum? Haustmánuður byrjaði nálægt haustjafndægri og boðaði komu haustsins. Skerpla byrjaði nálægt 25.maí og boðaði komu sumars. Langtímahitastig 23-25.maí og 23-25.sept er ekki ósvipað meðan byrjun júní er nokkuð hlýrri en mánaðarmótin sept-okt. Þar fyrir utan er nótt orðin lengri en dagur í lok september sem er jú ekki mjög sumarlegt. 

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 15.9.2019 kl. 18:22

3 identicon

Biðst afsökunnar á henni, ef þessari spurningu hefur hér á bloggi verið svarað áður. 

Í pistli 26/1 2017 segirðu "Við sjáum líka að hlýskeið 19. aldar stóð sig líka nokkuð vel, hæsta talan þar er á árunum 1808 til 1837, 4,1 stig á öld. "

Hefurðu einhverjar getgátur eða meir en það hvað hafi valdið þessari hlýnun þá?

Þykir þér líklegt að sú hlýnun hafi verið af mannavöldum svo sem vegna bruna jarðefnaeldsneytis,skurðgreftri og þar með bruna mýra, nú eða einhvers annars stúss okkar manna?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.9.2019 kl. 23:50

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Um árstíðaskiptin hefur mjög oft verið fjallað á hungurdiskum - setja má þau nánast hvar sem er - það er tilgangurinn sem skiptir máli. Merking hugtakanna er ekki föst - mér er næst að segja að merking hugtaka sé aldrei föst nema fastrar skilgreiningar sé beinlínis þörf (svosem í stærðfræði). Haust er ekki eitt þeirra hugtaka sem þurfa eina og aðeins eina merkingarskilgreiningu. 

Bjarni Gunnlaugur: Við vitum ekki fyrir víst hvað veldur áratugasveiflum í hitafari - þær eru miklar hér á landi og enn meiri á Grænlandi. Þær hafa í sjálfu sér ekkert með hina hnattrænu hlýnun sem við nú upplifum að gera - hún kemur ofan á þær. Toppar hlýskeiðanna þriggja sem mælingar hafa nú náð til hafa hver á eftir öðrum hækkað um það bil sem nemur hnattrænni hlýnun. Sama má segja um kuldaskeiðin þrjú - botnar þeirra hafa hlýnað um það bil sem nemur hnattrænni hlýnun. Fari fram sem horfir verður næsti botn (hvenær sem hann nú kemur - það vitum við ekki) jafnhlýr eða hlýrri heldur en hlýjasti toppur 19.aldarhlýskeiðsins. Mikilvægt er að átta sig á því að þessar áratugasveiflur eru ekki reglulegar - kuldaskeið 19.aldar stóð í nærri 70 ár, en 20.aldarkuldaskeiðið var um það bil helmingi styttra. Hlýskeið 19. aldar var ívið styttra (og götóttara) en 20.aldarhlýskeiðið - við vitum ekki hversu langt þriðja hlýskeiðið - það sem við nú lifum - verður - það er þegar orðið um 20 ára langt - kannski verður það 40 - kannski 30 - kannski 60? 

Trausti Jónsson, 16.9.2019 kl. 01:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 19
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 984
  • Frá upphafi: 2420868

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 863
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband