Rauð er sólin ...

Eina lag danska tónskáldsins Carl Nielsen sem komist hefur í íslenskar söngbækur (heldur ritstjóri hungurdiska) er „Solen er saa rød Mor“ við texta Harald Bergstedt - og birtist það í „Nýju söngvasafni fyrir skóla og heimili“, þar númer 137, og heitir „Rauð er sólin mamma“. Textann þýddi Margrét Jónsdóttir. Ekki sló það í gegn hér á landi frekar en önnur smálög tónskáldsins mikla. En þessi titill kom í hugann í kvöld þegar sól var sérlega rauð séð frá ritstjórnarskrifstofum hungurdiska - þrátt fyrir að lítið hafi borið á skýjum. Loft var sérlega móskulegt í dag og skorti nokkuð á eðlilegan bláma himins. Mikið ryk hefur verið yfir landinu undanfarna daga í hvassri norðanáttinni - kannski hefur eitthvað af því borist hátt í loft og snúið aftur - ekkert veit ritsjórinn um það. En þegar þetta gerist getur verið fróðlegt að líta á vefsíðu (Copernicus) þar sem nálgast má spár evrópureiknimiðstöðvarinnar um deyfi- (eða lýsiþykkt) lofthjúpsins. Hún er mælikvarði á það hversu mikið ljós sem í gegnum hann fer deyfist frá sól (eða öðru). 

Myndin sýnir kort kvöldsins, gildir mánudag 19.ágúst kl.18.

w-blogg190819a

Hvíti liturinn táknar „hreint loft“, bláu litirnir eru væg deyfing, en þeir gulu og rauðu sýna svæði þar sem hún er mikil. Á vefsíðunni má líka finna kort þar sem greint er á milli nokkurra gerða ars eða agnúða þess sem deyfingunni veldur. Helstu tegundir eru ryk, salt, lífefnaaska og súlföt. Við sjáum að deyfingargildi eru mjög há fyrir vestan og norðan Ísland. Sé tegund flett upp segir greiningin að þetta sé hvorki salt né ryk, en deilist nokkuð jafnt á brunaleifarnar og súlfötin. Höfum í huga að sú greining er ekki endilega rétt - ágiskun gervihnattamælinga og líkans. 

Sé flett nokkra daga aftur í tímann - til að leita uppruna flekksins kemur ekkert í ljós - hann bara birtist þarna á svipuðum slóðum í gær eða fyrradag. Kannski er þetta „gamall“ reykur frá Síberíu eða Alaska? Móðan sést allvel á gervihnattamyndum - einkum fyrir vestan land. Fróðlegt væri að vita nákvæmlega hvað er á ferðinni. Spyr sá sem ekki veit. 

Einhverjir gætu rifjað upp fornan pistil hungurdiska þar sem skyggni, ryk og agnúði koma við sögu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg230325a
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 103
  • Sl. viku: 1341
  • Frá upphafi: 2455667

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1201
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband