Hungurdiskar í 9 ár - ritstjórnarþankar

Í dag er blogg hungurdiska 9 ára, hófst með stuttri færslu 19.ágúst árið 2010. Pistlarnir eru nú orðnir 2500 - margir mjög langir, sumir líka mjög efnismiklir en aðrir óttaleg froða. Ekki kom ritstjóranum til hugar að úthaldið yrði þessu líkt - en rétt að nota tækifærið til að þakka bæði tryggum lesendum og þeim sem aðeins líta stöku sinnum við fyrir góðan stuðning allan þennan tíma. Þó nær allur texti hafi verið ritaður utan hefðbundins vinnutíma þakkar ritsjórinn Veðurstofunni fyrir margt viðvik, gögn og aðstöðu - ómetanlegt allt satt best að segja. 

Þó hér sé nú saman kominn meiri fróðleikur um veðurfar á Íslandi (og veðurfræði almennt á íslensku) heldur en annars staðar liggja fjölmargir þættir enn óbættir hjá garði og mjög margt er enn í fórum ritstjórans - óskrifað - eða ekki tekið saman. Sömuleiðis þarfnast nokkur hluti (ekki þó stór) pistlasafnsins endurnýjunar vegna nýrri atburða. Fátt er þó beinlínis úrelt. 

Stærsta verkefnið sem liggur á borði ritstjórans er áframhald samantektar veðurannála tímabilsins 1749 til 1924. - Sumir kunna að spyrja hvers vegna þetta tímabil er valið. Ástæðan er sú að veðurlýsingar áranna 1925 til 2005 liggja fyrir í tímariti Veðurstofunnar, Veðráttunni, aðgengilegar á timarit.is. Árið 1749 markar hins vegar upphaf veðurmælinga hér á landi. Ágætt rit Þorvaldar Thoroddsen „Árferði á Íslandi í þúsund ár“ endaði árið 1900 þannig að slæm eyða var á milli ritanna tveggja [1901 til 1924] og mikil nauðsyn að brúa hana. Við athugun kom líka í ljós að við höfum nú aðgang að ýmsum upplýsingum, sérstaklega mælingum, sem Þorvaldur hafði ekki, þannig að full ástæða er til að taka þær saman á einhvern hátt. Hins vegar hefur ekki mikið bæst við af rituðum upplýsingum eða slíku frá því fyrir 1749. Hvort ritstjóri hungurdiska mun þegar þar að kemur reyna við það tímabil líka verður bara að koma í ljós. Þó allvel hafi miðað við ritun þessa nýja annáls er mikil vinna óunnin. Hungurdiskaannállinn nær þó nú til áranna 1749-1751, 1763, 1805 til 1814, 1820-1827, 1833, 1839, 1876-1877 og 1881-1924, alls 68 ár af þeim 176 sem í undirbúningi eru, 9 umfram þriðjung, en vantar 20 upp á helming. Ljóst að verkefnið mun taka nokkur ár til viðbótar. 

Fjöldi annarra sæmilega skilgreindra verkefna bíða, auk þeirra sem alltaf koma upp á líðandi stund. Eitt er það mál sem veldur ritstjóranum nokkrum vandræðum, mikilvægt er það svo ekki sé meira sagt. Hér er auðvitað átt við loftslagsmálið svonefnda. Því miður er orðið furðuerfitt að tjá sig um það án þess að verða fyrir stórkostlegu gargi og áreiti beggja fylkinga, annarrar eða beggja samtímis. Eins gott að opna ekki þá ormagryfju hér. Þetta er mjög bagalegt ástand, niðurdrepandi fyrir alla frjóa umræðu og auk mjög heftandi fyrir loftslagsvísindamann eins og ritstjóri hungurdiska gefur sig út fyrir að vera. Áttar hann sig betur og betur á að svonefnd „sjálfsritskoðun“ er raunverulegt vandamál og það sem verra er að hún leggst smám saman á ósjálfráða taugakerfið þannig að sá sem þjáður er af henni gerir sér ekki grein fyrir því. 

Vonandi hefur ritsjórinn þrek til þess að halda áfram og fer t.d. að verða tími til kominn að fjalla aðeins um þurrkana sem farnir eru að valda ákveðnum vandræðum um landið sunnan- og vestanvert um þessar mundir. Kannski tóm verði til að fjalla eitthvað um þá áður en þeim linnir skyndilega? Þangað til geta áhugasamir rifjað um gamlan pistil sem ritstjórinn skrifaði á vef Veðurstofunnar fyrir nákvæmlega 10 árum [upp á dag] (þegar líka var þurrt). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 47
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 1671
  • Frá upphafi: 2349631

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1513
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband