Af árinu 1815

Vetur þótti í mildara lagi, vorið heldur laklegt, sumarið í betra lagi syðra, en verra nyrðra og eystra. Við vitum af mælingum á aðeins einum stað á landinu, hjá séra Pétri Péturssyni á Víðivöllum í Skagafirði - ekki langt þar frá sem vegagerðin mælir verður og heitir Miðsitja. Mælir Péturs var ekki varinn og um hádaginn að sumarlagi komst að honum bein eða óbein geislun, trúlega hefur bleyta einnig átt greiða leið að mælinum. En mælingarnar eru samt miklu betri en ekki neitt. 

ar_1815t

Mælingar voru gerðar snemma að morgni allt árið, en einnig um miðjan dag að sumarlagi. Við sjáum sveiflukenndan vetrarhita, frost aldrei þó mjög mikið eftir því sem gerist á þessum slóðum og hlákur margar. Ákveðnara kuldakast gerði á jöklaföstu næsta vetur (desember) og haustið kom nokkuð snögglega um miðjan október. Býsna svalt var flestar nætur í ágústmánuði - heldur óþægilegt þætti okkur - en hugsanlegt er að mæliaðstæður valdi hér nokkru - miðað við nútímastaðla. Frosts er þó ekki getið nema tvisvar í júní til ágúst, 23.júní og 29.ágúst. Séu tölur teknar bókstaflega var kaldara í ágúst heldur en september, það kemur enn fyrir. Mælingarnar eru notaðar til að giska á árs- og mánaðameðalhita í Stykkishólmi. Ársmeðalhitinn reiknast 3,1 stig, lítillega undir meðallagi áranna 1961-1990. 

Annáll 19.aldar greinir svo frá tíðarfari ársins:

Frá nýári til þorraloka voru góðviðri mikil víðsvegar um land; eftir því fór tíðarfar að spillast, harðnaði að mun með miðri góu, var norðanátt með hörkum og jarðbönnum til páska [26.mars], hófust þá geystir útsynningar, er héldust til hvítasunnu [14.maí]. Kom þá norðan áhlaupshríð með hörku, er víða reið útigangspeningi að fullu, einkum norðan- og vestanlands. Sumar var votsamt og eitthvert hið örðugasta nyrðra, en syðra með hinum bestu, spillti þá grasmaðkur mikill víða túnum manna og görðum. Haustið var hrakviðra- og vindasamt. Veður mikil um jólaföstu og umhleypingar allt til ársloka. ... Hlutir voru lágir kring um allt land. 

Annállinn getur að vanda fjölda mannskaða. Hér eru aðeins þeir taldir sem dagsetningar fylgja og tengst gætu veðri. Þann 28.febrúar drukknuðu 9 menn af skipi frá Gufuskálum. Þann 29.mars varð skipskaði á Eyrarbakka, 8 fórust (að sögn Jóns Hjaltalín). Þann 22.apríl fórust 12 menn af skipi frá Vestmanneyjum milli lands og eyja, 20. júní fórust 9 af skipi frá Bökkum við Fljót.  

Við reynum að rekja okkur í gegnum árstíðirnar með hjálp samtímaheimilda - brot úr tíðavísum Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín eru þó aftan við. 

Vetur:

Brandsstaðaannáll: Góður vetur til mars, utan viku snjógangur og harðviðri eftir þrettánda, en áður og eftir hláka góð. Á þorra var blíðviðrasamt, svo hann taldist með þeim bestu. Stillt sunnan-og vestanátt hafði yfirráð. Frostharka var nokkra daga síðast á þorra. Með mars vestanéljagangur og snjómikið. Eftir miðgóu hríð mikil á norðan og hörkufrost. Á góuþrælinn [20.mars]  varð jarðleysi mikið með fannkyngi og rigning ofan í.

Espólín: Eftir það með jólum, og svo allan þorra, gjörði góðviðri mikil, en síðan þyngdi aftur veðurátt; var gæftalítið undir Jökli, en aflalítið annarstaðar. (s 77). Þá týndist skip á Gufuskálum með 9 mönnum, og var þungur veturinn ofanverður og snjóamikill, og vorið kalt og gróðurlítið sakir þurrka; kom svo mikill grasmaðkur, að sumstaðar var allt krökkt, spillti hann bæði túnum manna og görðum; var þá harla lítill afli fyrir sunnan, en vestra sæmilegur. (s 78).

 

Vor:

Brandsstaðaannáll: Lítil snöp kom með apríl. Aftur kafaldskast 5.-11. apríl, síðan sumarmálahríð og harðviðri, en 27. kom hláka og upp nóg jörð; eftir það snjógangur og skammt á milli. Kuldar og gróðurleysi gjörðu vorharðindi mikil. Misstust lömb mörg. Líka var, hvar sem til spurðist, dýrbítir, og hræfuglar lögðust líka á þau. Hættur voru venju framar fyrir snjó og frost um vortímann. Ísinn var að hrekjast hér úti fyrir, sem jók á vorharðindin.

(Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) [Var 1815 á Eyrarbakka]

Vinteren hengik dog langt bedre, end bun havde ventet; den var meget mild. I Foraaret 1815 havde hun et kort Anfald af sin gamle hysteriske Sygdom, der gjorde hende meget forknyt; men det mildere Veir gjorde snart en glædelig Forandring i hendes Tilstand.(s129)

Í lauslegri þýðingu segir af frú Gyðu: „Veturinn varð þó mun betri en hún hafði búist við; hann var mjög mildur. Vorið 1815 fékk hún skammvinnt kast af sínum gamla hysteríska sjúkdómi sem gerði hana mjög þunglynda; en með mildara veðri batnaði ástand hennar á ánægjulegan veg. 

 

Sumar:

Brandsstaðaannáll: Gróður kom í 6. viku sumars [25. til 31. maí]. Fór honum seint fram, því næturfrost og þurrkar yfirgnæfðu. Þó voru lömb rekin á fjall í júnílok. Með júlí lögðust lestir suður. Var þá gróðurleysi á leið þeirra, með því hestagrúinn þurfti mikils við í áfangastöðum. Í júlí var grasviðri besta. Eftir mitt sumar byrjaði sláttur. Gáfust hægar rekjur og meðfram nægur þerrir; líka stormasamt, hvar vestanáttin nær sér. Allmargir náðu ei töðu inn fyrr en í 17. viku sumars [10.ágúst]; eftir það votviðrasamt, svo hey hraktist hjá mörgum og leið langt á milli, að hirt varð, því einsýnn þerrir gafst ei utan 3 dagar í 19. viku [24. til 30.ágúst]. Grasvöxtur varð í betra lagi og heyskapur til framsveita, en bágt sumar á útkjálkum.

Espólín: LXXIII. Kap. Það sumar var afli nokkur fyrir norðan. Þungt var þá um fiskifang og aðdráttu alla; varð að sækja suður, og þó heldur vestur að norðan, og fékkst ei, fyrir stórum boðum útlendra við fiskinum, nema lítið eitt og með afarkostum, en grasár var þá í allgóðu lagi, en þótt óþurrkasamt, og ill nýting víða. (s 82).

 

Reykjavík 30-8 1815 (Bjarni Thorarensen): Heyskapur hefir í sumar verið góður allstaðar hvar til hefir frést, en fiskiafli var hinn rýrasti í vor, svo illa lítur út fyrir sjávarbændum í haust, þar matvörur nú eru engvar í kaupstöðum, en það sem af þeim var gekk mest til sveitarbænda.

Haust:

Brandsstaðaannáll: Hret gjörði um gangnatímann. Eftir þær, 18.-20. sept. náðu fleiri inn miklu heyi og alhirtu. Eftir það rigning, er gerði þeim (s70) síðbúnu nokkurn skaða. Haustið varð gott og þíðusamt, snjóalaust og frostlítið fram í nóvember. Eftir þann 5. lagði á snjó og aftur þann 14. feiknafönn, sem upptók eftir þann 25.; síðan allgott til 15. des., að skorpa byrjaði með hörku og fönn. Á Þorláksdag mesta hríð á norðan og í árslokin jarðleysi yfir allar sveitir. Málnyt og skurðarfé var nú í lakara lagi; heyjanægtir og aukafúlgur miklar fyrir fyrningar undanfarin 3 vor. (s71)   

Espólín: LXXVII. Kap. Nú kom á vetur snemma, með jöfnum snjó, blotum og jarðbönnum; var fiskafli góður syðra á honum öndverðum, en enginn síðan, en vestra var hann lítill, nema nokkur í veiðistöðum út, var laungum ógæftasamt. Þá voru reknir upp hnýðingar 1500 í Njarðvík, en reyðarkálf rak í Reykjavík, sjór var gagnlítill fyrir norðan, sem fyrri, og mjög þungt árferði, en áþján svo mikil af sveitarþyngslum, að enginn þóttist mega undir rísa. (s 85). Fyrir jólin voru veður mikil; var eitt á Þorláksmessu, það braut sakristíið, er kallað var, af Hólakirkju, og víðar gjörði það mein. (s 85).

Í Norðanfara 1.júlí 1864 er þess getið (úr dagbók úr Ólafsfirði) að árið 1815 hafi þar komið íshroði í miðjum marsmánuði en farið eftir mánuð. 

Tímaritið Annals of Philosophy birti 1815 (s395) bréf frá Magnúsi Stephensen, dagsett 16.ágúst 1815. Þar segir um tíðina:

From thence [desemberlok 1814] to the middle of March succeeded very fine mild weather, without frost; yet often so windy that the fishing could not begin during all that period. Afterwards the weather became calm and agreeable, which continued; and we have scareely had any frost in 1815 here in the south and the eastern parts of the island: but in the northern part, the winter being milder from September to January, afterwards changed to very stormy, with snow. It continued thus until far in the spring: the consequence of which as been a great loss of sheep in the north country, where  the grass came late, and was very scarce every where: besides which it was in some parishes eateen quite away by a caterpillar last spring, which was exceedingly cold, although no drift ice has appeared this year on the northern coast.

Í lauslegri þýðingu: „Þaðan af (frá áramótum) og fram í miðjan mars fylgdi mjög gott og milt veður, frostlaust, en oft svo hvassviðrasamt að hamlaði fiskveiðum allan þan tíma. Síðan varð lygnara og hagstæðara, hélst áfram svo að varla hefur nokkurt frost gert á árinu 1815 um landið sunnan- og austanvert: en nyrðra var milt í september til janúar, en snerist þá til illviðra með snjókomu sem hélst svo til vors. Norðanlands hefur fjártjón orðið mikið og gras greri seint og illa, auk þess sem það var í sumum sóknum étið upp af maðki síðastliðið vor, sem var sérlega kalt, þó enginn hafís hafi birst á þessu ári á norðurströndinni. [Þetta með ísleysið er ekki alveg rétt - eins og nefnt var að ofan]. 

Að vanda er reynist ritstjóra hungurdiska erfitt að komast fram úr dagbókum, bæði Jóns á Möðrufelli í Eyjafirði sem og Sveins Pálssonar í Vík. Hann reyndi þó að krafsa í þessar bækur og hér er það helsta (án ábyrgðar um að rétt sé lesið):

Jón segir janúar 1815 hafa verið mikið góðan að veðráttu, stilltur hafi hann verið og snjóléttur. Febrúar einnig dágóðan, en óstöðugan. Mars virðist hafa verið harður vegna jarðbanna. Maí allur mikið bágur. Júní sæmilegur og september með rétt góðri tíð. Október ágætur og nóvember allsæmilegur, en mikill snjór hafi verið um miðbikið. Desember dágóður. Árið telur hann hafa verið í sumu tilliti bágindaár, en að sumu leyti hafi það verið fínt. Veðráttufar í sveitinni að kallast í betra lagi og grasvöxtur rétt góður. 

Sveinn segir af -9,7 stiga frosti í Vík 7.janúar, 8.mars segir hann frostið vera -15,0 stig. Næturfrost segir hann 4.september. Þann 16.desember segir hann frostið vera -14 stig og -13 á aðfangadagskvöld. 

Þeir sem rita um árið hafa drjúgmiklar upplýsingar úr tíðavísum þeirra Jóns Hjaltalín og Þórarins í Múla. Það er gaman að lesa þessar vísur - en við birtum hér aðeins hluta.

Jón Hjaltalín 1815

Vetur stirður víða hvar
varði hulda engið
fönnum byrgður vangur var
vorið kulda fengið

Himnar þræða lands um laut
lukku buðu standi
öld því gæða heyskap hlaut
helst á Suðurlandi

Haustið rosum hlaðið títt
hreyfði lúru grundum
vallar losað farið frítt
fékk því skúr á stundum

Mána þó að grundin góð,
grimmdum hér ei beitti,
nægan snjó á náttar jóð
nóvember þó veitti


Þórarinn í Múla

Veðuráttin síst til sveita
sem ei misstu jörð
þorra mátti þeigi heita
þjóðum bist og hörð.

Skapstór allmjög hríða hreggi
hreytt þó fengi' á lóð
eða karlinn skyrpti' úr skeggi
skorpa' ei lengi stóð

Fallin storka' á fyrra ári
frostið harða við
mest réð orka fákum fári
fóður- og jarðleysið.

Ofan í lungu góa gapti,
geystum fram úr hvopt
hríðar sprungu hörðum krafti
hörku rammar oft.

Fannir á krapa feldi jókust
færð mesta nauð
allar snapir af þá tókust
eins fyrir hest og sauð.

Þá einmáni hörku harði
hér ei seldi grið
storð og rán með stormum barði
sterkt sem héldust við.

Ekki skaut upp einni þúfu
eður að heppni bar
heyið þraut en hungurs skrúfu
hjörðu skepnurnar

Fólkið píndi angurs ótti
aldrei hlána vann
hestar týndu holdi' og þrótti
hver svo máni rann.

...
Veðurátt mikið bar að beinni
bættist þrautin hörð
sumars viku síðar einni
sauðum skaut upp jörð

...
Hvíta- þó nær - sunnu síðar
sóaðist fengin hægð
féllu' á snjóar frost og hríðar
fékkst þá engin vægð.

...
Bylurinn reisti baga mönnum
bús með smalann hart
kafnaði eystra féð í fönnum
frosti kalið margt.

Ljósin blánuð lífsins gæða
leið að höllun þjóð
hálfan mánuð skorpan skæða
skaðvæn öllu stóð.

...
Ofan á þetta' ei upp nam taka
að sólhvörfum snjó
lönd afrétta lágu klaka
læst með jöðrum þó.

...
Miðsumars gæða mánuð fengum
mjög svo fashægan
vindar bæði' og vætur gengu
vel upp grasið rann

Sunnanvindar blésu blíðir
bleyttu stífan gadd
elja rindar og um síðir
öðlaðist rífan hadd

...
Ágústus með ægum baugum
úða skýja rann
vætu gusum veitti' úr augum
vært ei því um hann.

Sælir blésu sunnanvindar
septembers um mið
eðli hlés og elju rindar
aptur hressa við.

Meðan norðurlandsins lýði
löður vætu rann
syðra storðar þerrir þýði
þjóðir kæta vann.

...
Haustið ól oss heyja snauðum
hægð og gleði jók
veturinn kjóli víða rauðum
vist sér með oss tók.

Skjótt um kjóla skipti síðan
skorti fóður hjörð
fyrir jólaföstu þíðan
færði' oss góða jörð.

...
Framar þessu hafbrims harði
hríðar bylur um frón
Þorláks messu báta barði
og gyttur til í spón

Hóla því að kirkju kreisti
Kári oft og sló
sakristíið sundur leysti
súð í loftið fló.

Þess má geta að í apríl varð hið stórkostlega eldgos í Tambórafjalli í Indónesíu og er talið að það hafi haft áhrif á veðurfar heimsins næstu 2 til 3 árin á eftir. Öskuskýið hefur væntanlega farið að sjást hér á landi um haustið - og reyndar nefnir Sveinn Pálsson að sólarlag hafi verið óvenjurautt - við eltum það e.t.v. betur uppi ef lestrarhæfni ritstjórans batnar (varla von til þess).  

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1815. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis (nærri því ekki neitt) af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 154
  • Sl. sólarhring: 219
  • Sl. viku: 1119
  • Frá upphafi: 2421003

Annað

  • Innlit í dag: 136
  • Innlit sl. viku: 985
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 129

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband