17.7.2019 | 16:54
Af árinu 1944
Mikil breyting varð á tíðarfari hér á landi upp úr 1920. Mest munaði um hversu mikið hlýnaði, en úrkoma varð einnig heldur meiri en áður, snjóalög urðu minni og hríðarveðrum fækkaði. Hafís varð mun minni við strendur landsins en hafði verið um langt skeið. Þrátt fyrir þetta var talsverður munur á veðurlagi frá ári til árs, sum ár þóttu umhleypingasöm og óhagstæð atvinnuvegum, en fleiri voru hagstæð. Hlýnunin var svo mikil að lítill munur var á hita köldustu áranna eftir umskiptin og þeirra hlýjustu fyrir þau.
Þó hlýindin stæðu í full 40 ár, alveg fram á sjöunda áratuginn var síðari hluti þeirra almennt ekki alveg jafnhlýr og sá fyrri. Mjög hlýjum sumrum fækkaði fyrr en hlýjum vetrum. Árið 1943 var á landinu það kaldasta sem komið hafði í nærri 20 ár og veðurlag heldur hryssingslegt lengst af. Sumarið var t.d. sérlega kalt á Norðurlandi og hafís ekki fjarri ströndum landsins. Sá uggur lagðist að mönnum að nú væri hlýskeiðinu að ljúka. Svo var þó ekki.
Árið 1944 varð öllu hagstæðara, en samt var það í flokki þeirra svalari á hlýskeiðinu fram að því. Tíðarfarið var frekar umhleypingasamt nema í júlí og framan af ágústmánuði, þá var einmuna góð tíð. Þegar við hugsum til baka til ársins 1944 ættum við að hafa í huga að heimsstyrjöldin síðari var enn í fullum gangi og landið hernumið, en töluverður efnahagsuppgangur tengdur hernum. Styrjöldin hafði áhrif á allt mannlíf.
Kalt var í janúar og nóvember, en hlýtt í júlí. Myndin sýnir hitavik á landsvísu. Hafa ber í huga að vetrarhiti er mun breytilegri en sumarhitinn og jákvæða hitavikið í júlí því í raun ámóta mikið og neikvæðu vikin í janúar og nóvember (1,1 staðalvik). Hiti var nærri meðallagi í öðrum mánuðum.
Dagana 18. til 22. júlí gerði óvenjulega hitabylgju um stóran hluta landsins. [Í gömlum hitabylgjupistli á hungurdiskum má sjá hana talda þá fjórðumestu á landinu frá 1924 til 2011] Það var misjafnt eftir stöðvum hvaða dagur varð hlýjastur. Hæst komst hitinn í 26,7 stig í Síðumúla í Borgarfirði þann 21. og sama dag mældist hitinn 26,5 stig á Þingvöllum. Þetta reyndist hæsti hiti ársins. Í Reykjavík fór hitinn þessa daga hæst í 22,3 stig og 23,1 stig á Víðistöðum í Hafnarfirði. Mánuði áður, þann 23.júní hafði hiti komist í 26,0 stig á Akureyri. Veðurathugunarmaður í Papey segir hámarkshita þar hafa komist í 22,0 stig þann 19.júlí - en ekki hefur það staðið lengi, slíkur hiti er mjög óvenjulegur þar um slóðir. Dægursveifla hitans var mikil þessa daga inn til landsins. Veðurathugunarmaður á Hallormsstað segir t.d. þann 17. að kartöflugras hafi skemmst. Lágmarkshiti næturinnar þar var 0,2 stig, en hámarkshiti dagsins varð 25,0 stig. Aðra mjög væna hitabylgju gerði snemma í ágúst. Nokkrir óvenjuhlýir dagar komu líka í september.
Mesta frost ársins mældist í Núpsdalstungu í Miðfirði þann 9.janúar, -23,5 stig. Morguninn eftir mældist frostið í Reykjavík -15,4 stig. Í lok júlímánaðar, eftir að hitabylgjunni lauk komu fáeinar mjög kaldar nætur og fraus jafnvel á nokkrum stöðvum. Mesta frostið mældist -4,0 stig í Núpsdalstungu að morgni þess 27. Sama morgun fór hiti niður í 0,5 stig á Akureyri, það næstlægsta sem þar hefur nokkru sinni mælst í júlímánuði. Næturfrost gerði einnig í byggð í ágúst.
Þurrt var um landið norðanvert í febrúar og mars, og víðast hvar á landinu í júní og júlí. Júlí er einn hinn þurrasti sem vitað er um á landinu norðaustanverðu. Ágúst var úrkomusamari og mjög úrkomusamt var vestanlands í október. Nóvember var í þurrara lagi.
Lægsti loftþrýstingur ársins mældist á Eyrarbakka 18.janúar, 941,9 hPa, en hæstur á Akureyri 25.febrúar 1046,3 hPa.
Veturinn 194344 (des mars) var frekar umhleypingasamur, snjólétt var framan af, en mikill snjór um miðjan vetur (janúar til febrúar).
Vorið (apríl maí) var óhagstætt og umhleypingasamt. Hafís var fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum fram eftir vori.
Sumarið (júní sept) var óhagstætt framan af, og fór gróðri seint fram. Tíðin breyttist mjög til batnaðar seint í júní og varð sérstaklega hagstæð til heyskapar og nýttust hey með afbrigðum vel.
Haustið (okt nóv) var umhleypingasamt og kalt en frekar snjólétt.
Janúar.
Tíðarfarið var umhleypingasamt, votviðrasamt og kalt. Haglítið var og gæftir slæmar.
Þ.10. strandaði flóabáturinn Laxfoss við Örfirisey, Mannbjörg varð, en skipið laskaðist mikið. Þ.11. Lentu bátar frá Vestmannaeyjum og Keflavík í hrakningum. Þök fuku af húsum í Grindavík. Símabilanir urðu og fjallvegir tepptust. Elliðaárnar stífluðust af snjó, og rafstöðin rofnaði úr sambandi. Erlent skip strandaði við Lundey skammt frá Geldinganesi. Mannbjörg varð. Togarinn Max Pemberton fórst út af Snæfellsnesi með allri áhöfn. Þ.17. sökk bátur hjá Húsavík; skipverjar björguðust nauðlega. Þ. 20. bjargaði Sæbjörg vélbát frá Neskaupstað, sem náði ekki til lands vegna veðurs. Þ. 29. strandaði vélbáturinn Baldur frá Stykkishólmi skammt frá Fellsströnd, en skemmdist lítið. Sama dag hvolfdi bát með 11 manns hjá Djúpavogi, og drukknaði einn maður. Undir lok mánaðarins var mikil ófærð suðvestanlands og mjólkurskortur í Reykjavík.
Febrúar.
Tíðarfarið var óhagstætt og umhleypingasamt. Stormasamt var, snjóþungt og mikil svellalög. Búfé var víðast á fullri gjöf. Gæftir voru stopular, en dágóður afli þegar gaf á sjó.
Þ.3. fauk þak af húsi í Berufirði og skemmdir urðu á vindrafstöðvum á Djúpavogi. Í ofviðrinu þ.12. fórust þrír vélbátar, Freyr og Njörður frá Vestmannaeyjum og Óðinn frá Gerðum, með allri áhöfn, samtals 14 mönnum. Vélbátnum Ægi hvolfdi út af Garðskaga, og drukknaði einn maður. Nokkrir aðrir bátar skemmdust og veiðarfæratjón varð gífurlegt. Stýrið brotnaði á strandferðaskipinu Esju, en skipið komst til Reykjavíkur af eigin rammleik. Þ.14. fauk þak af húsi á Höllustöðum í A-Húnavatnssýslu. Nóttina milli 17. og 18. var færeyskt skip hætt komið út af Reykjanesi, en var dregið til hafnar af erlendu skipi.
Þ.4. kl.17:32 varð allsnarpur jarðskjálftakippur norðanlands. Fannst hann bæði á Akureyri og Húsavík, á síðarnefnda staðnum duttu munir úr hillum. Kl.17:57 fannst vægur kippur á Húsavík og smáhræringar voru þar af og til næstu nótt. Þ.6. kl.16:06 varð annar kippur á sömu stöðum. Fannst hann einnig á Akureyri og Húsavík og mun hafa verið álíka sterkur og kippurinn þ.4. kl. 07:32. Kl.16:09 fannst smákippur á Húsavík, og lítils háttar hræringar síðar um daginn. Þessir jarðskjálftar fundust einnig á Hólsfjöllum, í Kelduhverfi og Bárðardal. Þ.10. kl.02:20 varð enn vart við jarðskjálfta í nágrenni Húsavíkur. Fólk vaknaði allvíða.
Mars.
Tíðarfarið var frekar milt nema tvo fyrstu daga mánaðarins. Á Suðurlandi var umhleypingasamt, en hagstæðara á Norður- og Austurlandi. Gæftir voru yfirleitt góðar og afli með betra móti.
Þ.1. rak færeyskt fisktökuskip á land í Djúpavogi og laskaðist það talsvert. Reykjavík var lengst af rafmagnslaus þessa daga vegna þess að krap stöðvaði rennsli að rafmagnsvélum á Ljósafossi. Þ.7. strönduðu þrjú erlend skip milli Veiðióss og Nýjaóss í V-Skaftafellssýslu, og fórust fjórir menn, en 39 komust til byggða. Sama dag skemmdust brýrnar á Tungufljóti í Skaftártungu og Geirlandsá á Síðu vegna vatnavaxta. Einnig urðu skemmdir á smábrúm undir Eyjafjöllum, og í Mýrdal. Þ.10. fauk bátur í Ögurnesi,og hús skemmdust á Eyri í Seyðisfirði. Þ. 23. hrepptu bátar við Faxaflóa illviðri, og varð mikið tjón á veiðarfærum.
Allmikill hafís var úti fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum mestallan mánuðinn. Tálmaði hann siglingum norður fyrir land og olli veiðafæratjóni víða á Vestfjörðum. Þ.7. varð Esja, sem var á leið norður fyrir Langanes, að snúa aftur vegna hafíss. Þ.12. ætlaði togarinn Vörður frá Patreksfirði suður fyrir Látrabjarg, en varð að snúa aftur vegna þess hve ísinn var kominn nærri landi. Næsta dag lokaðist fjörðurinn alveg af þéttri ísbreiðu, en hún hvarf aftur eftir þrjá daga. Þ.16. fylltist Bolungarvík af ís og næstu daga barst ísinn víðar inn í Ísafjarðardjúp og var Djúpið ófært nokkra daga. Í lok mánaðarins lokaði ísinn alveg höfninni á Raufarhöfn.
Apríl.
Tíðarfarið var með mildara móti nema rétt fyrstu daga mánaðarins. Gæftir voru dágóðar og afli sæmilegur. Mikið snjóaði sums staðar austanlands.
Þ.21. strandaði vélbáturinn Rafn við Hornafjarðarós og sökk, mannbjörg varð. Suðvestan stormur sunnan lands þ.26. Þá slitnaði vélbátur upp af bátalegu og sökk á Skerjafirði.
Hafís var landfastur kringum Raufarhöfn mestan hluta mánaðarins. Í byrjun mánaðarins varð ís landfastur við Siglunes, en hvarf aftur á þriðja degi. Um miðjan mánuð rak hafís upp að Horni og voru allar víkur suður með Ströndum fullar af ís til mánaðarloka. Íshrafl sást suðaustur af Dalatanga þ.3.
Maí.
Tíðarfarið. Tíð var köld með köflum, einkum framan af mánuðinum. Gróðri fór seint fram, og mikil vanhöld voru á lömbum. Gæftir voru dágóðar og afli sæmilegur. Snjór var nokkur framan af mánuði og um tíma til trafala á vegum fyrir norðan. Öxnadalsheiði varð ófær - og var ekki rudd vegna verkfalls vegavinnumanna. Veðurathugunarmaður á Húsavík segir að stórhríð hafi verið þar þann 12. og frostið var þá meira en -4 stig um miðjan dag. Alhvít jörð var í Reykjavík að morgni þess 13.maí. Ekki kom aftur alhvítur maímorgunn í Reykjavík fyrr en 1963.
Júní.
Tíðarfarið var kalt og þurrviðrasamt, einkum framan af mánuðinum, og óhagstætt öllum gróðri, en hlýnaði síðari hlutann og spruttu tún þá óvenju fljótt.
Rigningin á Þingvöllum á lýðveldisdaginn 17.júní er vafalítið þekktasta veður ársins. Veðurkortið á myndinni sýnir veðrið kl.17 síðdegis þennan dag.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar, vindörvar sýna vindátt og vindraða, rauðar tölur hita. Að auki er veðurs, skýjafars og loftþrýstings getið. Línan sem dregin er þvert á jafnþrýstilínurnar eru skil sem fóru austur um landið þennan dag. Mest rigndi þegar þau fóru yfir - á Þingvöllum einmitt við lýðveldisstofnunina. Kl.17 hafði var þar gengið í skúraveður. Hiti um landið sunnanvert var yfirleitt á bilinu 9 til 10 stig, en hlýtt var nyrðra. Á Akureyri var t.d. 18 stiga hiti í sunnanþey kl.17. Lægð fór til norðausturs um Grænlandssund.
Þ.24. urðu talsverðar skemmdir á kartöflugörðum á Eyrarbakka í hvassviðri. Aðfaranótt 26. fórust þrír Færeyingar af opnum vélbát nálægt Siglufirði. Varð árekstur milli bátsins og stærra skips. Þ.27. drukknaði maður í Dýrafirði.
Júlí.
Tíðarfarið var óvenju gott um allt landið og nýting heyja með afbrigðum góð. Hitabylgjan sem ritað var um í inngangi hér að ofan varð pistlahöfundi Alþýðublaðsins Hannesi á horninu tilefni til eftirfarandi skrifa [1.ágúst]:
Fyrir nokkru gengu mestu hitar hér á Suðurlandi, sem menn muna eftir. Bændur um sjötugt, sem ég hef hitt, segjast aldrei hafa vitað jafn mikinn hita og hið sama segja gamlir menn hér í bænum. Einn daginn sá ég að brekkurnar á Arnarhóli voru orðnar gular eins og þær væru að komast í flag. Ég spurði Gísla gamla, sem gætir hólsins eins og sjáaldur auga síns hverju þetta sætti. Hann svaraði að grasið brynni svona af því að ekki væri hægt að vökva það. ... Fólk veiktist í þessum miklu hitum og var til dæmis flutt hingað til bæjarins veikt af sumargistihúsum. Það er víst líka óhætt að segja að við íslendingar kunnum ekki að lifa í svona miklum hitum. Við erum ekki vanir slíku góðgæti. Fólk kann sér ekki hóf þegar slíkir hitar eru. Mér datt í hug að nauðsynlegt væri að gefa út á einhvern hátt leiðbeiningar til fólks um það hvernig það ætti að haga sér í mikilli sól og miklum hitum. Fólk skaðbrenndist í hitunum og það varð veikt í höfði. Sumt fólk svaf í hitanum og sólinni og vaknaði ringlað og veikt. Svona er allt. Jafn vel mestu dásemdir lífsins er hægt að misnota. Að líkindum koma ekki svona miklir hitar aftur í sumar, en fólk ætti að gæta hófs og muna það vel til dæmis af sofa ekki úti í brennandi sólarhita.
Kartöflugrös gjörféllu í Eyjafirði og víðar í næturfrostunum undir lok mánaðarins.
Ágúst.
Tíðarfarið var með hlýrra móti, en næturfrost voru þó sums staðar norðan lands og austan síðari hluta mánaðarins. Heldur var votviðrasamara en í júlí, en hey nýttust þó sæmilega. Gæftir dágóðar en afli tregur.
Aðfaranótt þess 9. strandaði síldveiðiskip í svartaþoku á Skaga, en náðist út aftur. Sama dag strandaði annað síldveiðiskip út af Vatnsnesi á Húnaflóa. Var það einnig dregið út aftur skömmu síðar, lítið skemmt.
September.
Tíðarfarið var frekar umhleypingasamt og votviðrasamt, einkum síðari hluta mánaðarins. Uppskera úr görðum var víðast hvar góð.
Vatnavextir urðu miklir sunnanlands þ.12. Brúin yfir Klifanda skemmdist, og hætta varð að ferja yfir Ölfusá, en strengur í hengibrúnni við Selfoss hafði slitnað nokkrum dögum áður svo hún varð ónothæf ökutækjum. Þ.17. hvolfdi flugvél á Miklavatni í Fljótum í suðvestan ofsaveðri. Flugmenn sluppu ómeiddir, en vélin skemmdist mikið. Þök fuku af húsum, hey fauk og síldveiðiskip misstu nótabáta í þessu veðri, en það mun hafa átt uppruna sinn í miklum fellibyl sem fór til norðausturs skammt undan austurströnd Bandaríkjanna nokkrum dögum áður. Aðfaranótt þ.24. tepptist bifreið vegna fannkomu á Hólsfjöllum. Farþegar og bílstjóri höfðust við í bifreiðinni og sæluhúsi og sakaði ekki.
Október.
Tíðarfarið var óstillt og umhleypingasamt.
Þ.9. rak vélbát á stefni Súðarinnar á höfninni í Patreksfirði og sökk hann þar. Í sama veðri rak trillubát yfir Patreksfjörð og brotnaði hann í spón í brimgarðinum í Örlygshöfn. Þ.27. fennti fé norðan lands og símabilanir urðu víða. Þak fauk af fjárhúsi í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og rafstöðin á Blönduósi skemmdist.
Ís. Um miðjan mánuðinn sást jaki á Miðfirði og þ.19. sást stór borgarísjaki á siglingaleið ANA frá Fagradal í Vopnafirði.
Nóvember.
Tíðarfarið var umhleypingasamt og fremur kalt. Snjór var óvenjuþrálátur í Reykjavík, alhvítt var 21 dag í mánuðinum, snjór var þó aldrei mjög mikill. Þann 1. var óvenjuhlýtt fyrir norðan og austan. Hiti fór þá í 17,8 stig á Teigarhorni og 16,8 í Fagradal við Vopnafjörð.
Þ.4. eða 5. hreppti línuveiðarinn Rúna frá Akureyri aftakaveður í Straumnesröst og laskaðist talsvert. Víða varð ófærð á fjallvegum. Þ.10. var Goðafossi sökkt með tundurskeyti á Faxaflóa, 24 manns fórust en 19 var bjargað. Þ.17. strandaði vélbáturinn Gísli Johnsen á fjörunum hjá Knarrarnesvitanum, en náðist út aftur sama dag nærri óskemmdur.
Stór borgarísjaki sást 46 sjómílur austur af Dalatanga þ.6. og þ.7. sást stór ísjaki frá Vattarnesi og strandaði hann við Seley út af Reyðarfirði. Þ.8. sáust þrír borgarísjakar út af Berufirði.
Desember.
Tíðarfarið var nokkuð umhleypingasamt en frekar milt. Í kringum þann 10. varð þó mikil ófærð um landið sunnanvert og vegir tepptust illa um tíma.
Þ.23. strandaði vélskipið Búðaklettur á Reykjanesi. Skipshöfnin bjargaðist en tveir farþegar fórust.
Í viðhenginu eru ýmsar tölur, mánaðameðalhiti og úrkoma allra veðurstöðva, útgildi og ýmislegt fleira (misskiljanlegt).
Veðráttan, tímarit Veðurstofu Íslands er aðalheimild þessa pistils og meginhluti þess hluta textans sem fjallar um einstaka mánuði og veður þeirra tekinn beint úr henni - en er verulega styttur. Veðráttan er aðgengileg í heild sinni (1924 til 2006) á timarit.is. Aðrar heimildir eru veðurskýrslur, veðurbækur og veðurkort í fórum Veðurstofunnar. Örfá atriði eru sótt beint í fréttablöð ársins 1944.
Yfirlit þetta er tekið saman að beiðni Vísindavefs Háskóla Íslands.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 34
- Sl. sólarhring: 152
- Sl. viku: 1955
- Frá upphafi: 2412619
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 1708
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Hvílík veðrabrigði á einu og sama árinu. "The climate change" var um að kenna.
Baldur Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.7.2019 kl. 20:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.