Nýtt háþrýstimet júnímánaðar

Á miðnætti (að kvöldi 11.júní) mældist loftþrýstingur á Reykjavíkurflugvelli 1040,6 hPa. Svo hár þrýstingur hefur aldrei mælst hér á landi í júnímánuði. Gamla metið, sett í Stykkishólmi 21. júní 1939 var 1040,4 hPa. Munurinn er sannarlega ómarktækur, en nýja talan verður trúlega staðfest sem nýtt met - fari þrýstingur ekki enn hærra á vellinum eða á einhverri annarri löglegri stöð í nótt. 

Þegar við íhugum met sem þetta skulum við hafa í huga að nú á dögum er ívið líklegra en áður að met falli. Ástæðan er sú að athuganir eru mun þéttari en áður, bæði í tíma og rúmi. Að vísu var landið allvel þakið þrýstiathugunum þegar gamla metið var sett 1939, en hvergi var þá athugað að næturlagi. Hefði það verið gert er hugsanlegt að enn hærri tala hefði sést. Venjulega var reynt að leita útgildi uppi á þrýstisíritum - en betur var leitað að lægstu gildum heldur en þeim hæstu. Þetta þykir veðurnördum afskaplega merkilegt - þó minni athygli veki en hita- eða úrkomumet.

Það má rifja upp að daginn eftir að háþrýstimetið var sett í Stykkishólmi var Íslandshitamet sett á Teigarhorni, sem enn stendur, 30,5 stig. Sama dag mældist hiti 30,2 stig á Kirkjubæjarklaustri. Um þessi hitamet var fjallað í pistli hungurdiska 21.ágúst 2018.

Loftið sem yfir landinu verður á morgun er ekki alveg jafnhlýtt og var 1939, líklega 3 til 4 stigum kaldara í neðri hluta veðrahvolfs - og enn meiri munur eystra. Líkur á nýju hitameti eru því ekki miklar. En veðurlagið er samt ekki ósvipað. 

Sólskinssyrpan mikla heldur áfram á Suður- og Vesturlandi, sólskinsstundafjöldi í Reykjavík í mánuðinum kominn í 171,3 stundir, 8,3 stundum meira en mest hefur áður mælst sömu daga. Það var 1924. Sólskinsstundafjöldinn er líka kominn upp fyrir meðalsólarstundafjölda í júní í Reykjavík 1961-1990 (161,3 stundir) og einnig yfir meðalsólskinsstundafjölda júnímánaðar alls síðustu tíu árin (170,5 stundir). Langt er þó enn til mánaðamóta og mánaðarsólarmeta, þar trónir júní 1928 á toppnum með 338,3 stundir - enn vantar 167 stundir upp á þá tölu. 

Í dag (þriðjudag 11.) skein sól líka allan daginn við Mývatn, þar mældust sólskinsstundirnar 19,4 - og mánaðarsumman komin í 84,1 stundir. 

Viðbót 13.júní:

Eins og við var að búast féllu líka fáein júníhæðarmet háloftaflata í þessari háþrýstihrinu. Met voru slegin í 925 hPa, 850 hPa (1659 metrar - gamla metið var 1652 m), í 500 hPa (5870 metrar, það gamla var 5860 m) og metið í 400 hPa var jafnað. Hiti í 700 hPa var sá þriðjihæsti sem mælst hefur í júní, 4,8 stig. Metið er 5,4 stig (sett 1958).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Er Teigarhorn í Djúpavogi,?

Helga Kristjánsdóttir, 13.6.2019 kl. 01:42

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Nei, en ekki er mjög langt á milli. Danir nefndu veðurstöðina á þessum slóðum Berufjörð, hún var á Djúpavogi fyrstu árin, en var síðan flutt inn að Teigarhorni. Athugað var á báðum stöðum um hríð í kringum miðja 20.öld. 

Trausti Jónsson, 13.6.2019 kl. 02:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 423
  • Sl. viku: 2550
  • Frá upphafi: 2414405

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 2370
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband