10.3.2019 | 17:55
Af árinu 1902
Árið 1902 þótti hagstætt um landið sunnanvert, en mun síðra norðaustan- og austanlands. Mestur munur var á sumarveðráttunni í þessum landshlutum, þurrviðri syðra en kalt dumbungsveður á Norðausturlandi og við norðurströndina. Hafís var til mikilla vandræða og telst 1902 mesta ísár 20.aldar. Fyrstu 8 mánuðir ársins teljast kaldir, en afgangur þess var hlýr. Meðalhiti í Reykjavík var 4,0 stig, en aðeins 1,9 stig á Akureyri.
Mesta frost á árinu mældist í Möðrudal þann 13.janúar, -28,2 stig. Mestur hiti mældist á Akureyri þann 20.júlí, 20,9 stig. Hiti fór þrisvar í 20 stig á Akureyri á árinu, en hvergi annars staðar. Óvenjulegt er að 20,3 stig mældust þar þann 28. september, hæsti hiti þar á bæ svo seint sumars. Mikil og óvenjuleg hlýindi gerði í fáeina daga undir lok september, m.a. fór hiti í Stykkishólmi í 16,2 stig - met svo seint sumars rétt eins og á Akureyri.
Myndin sýnir hita frá degi til dags í Reykjavík á árinu 1902. Frostakafli seint í mars og byrjun apríl vekur athygli (páskahret) og sömuleiðis hart frost undir lok maímánaðar. Átján dagar ársins voru mjög kaldir í Reykjavík en enginn hlýr. Lista yfir þessa daga má sjá í viðhenginu. Mjög kaldir dagar voru 27 í Stykkishólmi, en þar teljast tveir mjög hlýir, 28. og 29. september. Fjögur dægurmet lágmarkshita standa enn frá árinu 1902 í Reykjavík og 6 á Akureyri.
Mjög þurrt var framan af sumri - sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert og telst júlí óvenjuþurr á Suðurlandi. Einnig var þurrt suðvestanlands í ágúst, en þá rigndi meira um landið austanvert. Árið í heild var ekki sérlega þurrt.
Sumarið 1902 markaði ákveðin þáttaskil því næstu sjö árin á undan, allt frá 1895 hafði allmikil hrina óþurrkasumra gengið yfir Suðurland, í fréttapistlunum hér að neðan má sjá að sumir voru hálfhissa á þessum skiptum.
Hæsti þrýstingur ársins mældist á Teigarhorni 2.febrúar, 1044,5 hPa, en lægstur í Stykkishólmi 13.desember, 958,5 hPa. Höfum þó í huga að þrýstingur var aðeins mældur þrisvar á dag á stöðvunum og líklegt er - eins og oftast á þessum árum - að hann hafi farið neðar í einhverri þeirra kröppu lægða sem yfir gengu, t.d. í nóvember eða desember.
Mánaðarmeðalþrýstingur var sérlega hár í júní og júlí.
[Kortið er úr Nautisk Meteorologisk Aarbog 1902]. Árið 1902 er sennilega mesta hafísár 20.aldar hér við land. Kortið sýnir útbreiðslu íssins í maí, stakir jakar komust allt vestur til Vestmannaeyja og eins og fram kemur í fréttapistlum hér að neðan voru siglingar mjög tepptar um vorið bæði norðanlands og austan. Lauge Koch flokkar ískomuna samt sem vesturís - en sá flokkur segir frá framrásarstíflu um Grænlandssund fremur en því að ís hafi náð óvenjuaustarlega fyrir norðan land.
Um ísflokkun Koch má lesa í fornum pistli hungurdiska (25.nóvember 2010) og viðhengi hans.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1902 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Einar Helgason tekur saman yfirlit ársins 1902 í Búnaðarriti 1903:
(s.209) Á Suður- og Vesturlandi var árið yfir höfuð mjög gott. A Norðurlandi var tíðin kaldari en hún lengi hefir verið, en þrátt fyrir það telja þó Norðlingar sjálfir árferðið í meðallagi þegar á allt er lítið. Á Austfjörðum hefur árferðið verið lakast bæði vegna fiskileysis og afnot af skepnum minni en í meðallagi.
(s.199) Vetur frá nýári var hér sunnanlands kulda- og frostasamari en venja er til. Snjóþyngsli voru þó ekki mikil og hagar þess vegna oft góðir. Tíðarfar mjög líkt í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu, nema frostharðara í uppsveitunum en niður um. Á Snæfellsnesi var veturinn talinn góður, sömuleiðis i Dölunum, en þar var þó frostharðara og jörð því nær auð allan veturinn. Á Vestfjörðum: Barðastrandar-, Ísafjarðar- og Strandasýslu var veturinn yfirleitt harður með grimmu frosti og umhleypingum; kom þó alllangur góðviðrakafli seinni part janúar og fyrri hluta mars. Hafísinn rak þar að landi og inn á firði kringum þann 7.febrúar og hélst á vesturfjörðum til sumarmála, en við Strandir þangað til 1.júní; fór þó ekki til fulls af Hrútafirði fyrr en 25.júní. Voru þá liðnir 137 dagar frá fyrstu komu hans.
Á Norðurlandi var veturinn umhleypingasamur fram undir páska, stormar, ýmist norðan með miklu frosti eða sunnan með þíðu, urðu því snjóar litlir, en kuldar miklir. Eyjafjörð lagði út undir Höfða á þorra. Hafís sást úr Fljótum á nýársdag. Fyrst í febrúar kom hafís á Eyjafjörð og flæktist þar það sem eftir var vetrar og fram í maí, meira og minna landfastur, lónaði svo frá, en varð viðurloða skammt frá landi fram í ágúst. Í Norður-Múlasýslu var veturinn strangur, frosta-, snjóa- og veðrasamur, einkum i fjörðunum. Á Jökuldal voru oftast jarðir fyrstu mánuði ársins, snjódýpra á Héraði, en þó fremur jarðir þar en i Fjörðum, en frostanna vegna oft erfitt og varúðarvert að beita, enda frostin þennan vetur mest síðan veturinn 188081. Í febrúar rak hafís að Austurlandi, fyllti hann alla firði og teppti skipagöngur fram á vorið. Í suðurhluta Suður-Múlasýslu mátti veturinn heita góður. Í Skaftafellsýslu var vetrartíð ágæt frá nýári fram í miðjan mars, úr því fór að harðna. Snemma i apríl kom töluvert hafísrek austan með landi. Í Árnes- og Rangárvallasýslu var veturinn snjólítill og því oftast nægir hagar. Á góðum hagbeitarjörðum var sauðfé mjög létt á fóðri.
Vorið. Á öllum suðurhluta landsins, frá Suður-Múlasýslu að austan og vestur á Snæfellsnes, var vorið kalt og þurrviðrasamt og jörð greri seint. Í Dölum var vorið afarþurrviðrasamt, en ekki mjög kalt. Í sláttarbyrjun var mjög illa sprottið, einkum á óræktaðri eða illa ræktaðri jörð. Klaki var mikill í jörð eftir veturinn og ekki plógþýtt" fyrr en undir Jónsmessu. Í Barðastrandarsýslu mátti vorið heita mjög hagstætt, að undantekinni kuldahrinu fram úr hvítasunnunni [18.maí]; hnekkti hún talsvert gróðri. Engin veruleg hlýviðri komu samt fyrr en um Jónsmessu, því hafísinn lá stöðugt útifyrir og dró úr vorhlýindunum. Í Ísafjarðar- og Strandasýslu og á öllu Norðurlandi var vorið mjög kalt og jörð greri seint. Byrjaði eigi að gróa fyrir alvöru fyrr en seinni part júnímánaðar. Í Eyjafirði kom vondur hríðarkafli rétt fyrir fardagana; þá stóðu allar kindur þar inni i 3 daga. Vöruskip komust ekki á Húnaflóa né á Skagafjörð fyrr en eftir fardaga. Í Norður-Múlasýslu var vorið óvenjulega hart; þar gerði margra daga áfelli með frosti og fannfergju á sauðburði, svo að víða varð að taka allan fénað á hús og gjöf.
Sumarið var þurrkasamt og heyskapartíð sérlega hagstæð á öllum suðurhluta landsins og í Vestmannaeyjum, og mátti svo heita á Norðurlandi líka. Í Barðastrandarsýslu mesta blíðviðrasumar, en í Norður-Múlasýslu var fremur þurrkalítið fram i september. Grasspretta mun hafa orðið mjög lík á kaflanum að vestan, frá Reykjanesfjallgarði og norður í Hrútafjörð; var hún í meðallagi, að vísu í rýrara lagi á þurrlendi, en í góðu lagi á raklendi. Töður víða með minna móti, en nýting ágæt, og af því leiddi líka að heyskapur reyndist drjúgur. Í Húnavatnssýslu var fyrirtaks tíð allt sumarið og fram eftir haustinu. Töðufall lítið og víða snögglent. Heyskapartíð hagstæð. Hey víða minni en undanfarandi haust. Í Skagafjarðarsýslu var sumarið stutt og heyfengur víða lítill. Í Eyjafirði var sumarið kalt, en þurrviðrasamt. Grasspretta lítil, nema í blautum mýrum. Í ágústmánaðarlok fór elting fyrst að falla eftir 4 frostnætur. Eina nóttina var 5° frost; renndi þá Eyjafjarðará á milli Hólmanna. Í september kom sumarblíða og hélst fram að veturnóttum. Heyskapur varð almennt í mikið rýrara lagi, 1/41/2 minni en vant er, en nýting góð. Í Suður-Þingeyjarsýslu var kalt sumar fram í september, heyskapur í tæpu meðallagi. Í Norður-Múlasýslu var sumarið kalt og áfellasamt þangað til eftir miðjan september, frost iðulega á nóttum, jafnvel i byggð. Í Vopnafirði snjóaði ofan í byggð síðast i júlí. Nýting varð þar með erfiðara móti, en þó allgóð á endanum. Seint í júlí varð eigi unnið að heyskap á Jókuldalsheiði í 12 daga fyrir snjó, og á Smjörvatnsheiði voru umbrot af ófærð. Síðari hluta septembermánaðar brá til öndvegistíðar um alla sýsluna, er hélst til jóla. Þrátt fyrir kalda veðráttu var grasspretta allt að því i meðallagi. Tún brugðust sumstaðar talsvert, en á Efra-Jökuldal, þar sem tún eru vön að brenna í heitum sumrum, urðu þau jafnvel með besta móti, enda gætti vorkuldanna minna til dalanna, eins og títt er í ísaárum. Í fjörðunum fengu margir þriðjungi minni töðu en vanalega. Engi spruttu seint, en þó sumstaðar allt að því í meðallagi. Heyskapur byrjaði með seinasta móti og heyafli varð víðast hvar með minna móti. Í Suður-Múlasýslu var sumarið kalt, frost nærri því á hverri nóttu; breyttist til batnaðar i september og hausttíðin mátti heita hin indælasta. Töður urðu fullum fjórðungi minni en í meðalári, en útheyskapur viðast hvar allt að því í meðallagi. I Skaftafellssýslu varð grasspretta i tæpu meðallagi vegna vorkuldanna og þurrviðranna og á nokkrum stöðum í lakasta lagi. Engi spruttu svo lengi fram eftir, að það rættist úr með heyskapinn. Í Rangárvallasýslu neðanverðri varð grasspretta i góðu meðallagi þegar fram á leið. Í efri hluta sýslunnar varð grasvöxtur minni. Sömuleiðis i Árnessýslu. þar urðu hey viða 1/4l/2 minni en undanfarin ár. Flóðveitur spruttu allvel. Í Vestmannaeyjum varð grasspretta fremur lakleg.
Haustið og veturinn til nýárs. Tíðin þíð og góð um land alt fram að sólhvörfum. Um veturnæturnar gerði snjókomu allmikla á Norðurlandi og Vestfjörðum í 24 vikna tíma, en þann snjó leysti aftur upp í háfjallabrúnir. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu gerði skaðaveður á landsunnan 15.nóvember; skemmdust hey og hús hjá mörgum bændum i Mosfellssveit og nokkrum í Kjós og á Kjalarnesi. Í Mýra-, Borgarfjarðar- og Snæfellsnessýslum var tíðin óstilltari en viðast annarstaðar, með úrkomum og skakviðrum eftir lok októbermánaðar; um sólhvörf komu harðindi af norðri. Í Dölum var haustið það besta sem menn muna, sífelld þurrviðri og hlýindi þar til seint í október að gerði nokkurn snjó og frost, en tók upp aftur í nóvember svo gjörsamlega að jörð varð klakalaus. Óviða byrjað að gefa fé fyrr en undir jól. Í Barðastrandarsýslu gerði mesta aftakaveður af suðri 14.15. nóvember; varð af því talsverður skaði á bátum, einkum í Tálknafirði og á Bíldudal. I Húnavatnssýslu kom mikið sunnanveður 5. desember, sem gerði nokkrar skemmdir á húsa- og heyþökum. Í Skagafirði var unnið að jarðabótum á jólaföstu. Á Austurlandi var haustið einmuna blítt, svo fá dæmi munu til slíks. Í Vopnafirði og viðar var unnið að jarða- og húsabótum á jólaföstu. Stormasamt var oft og litlar gæftir til sjóar á Seyðisfirði. Í Suður-Múlasýslu var farið upp á háfjöll í miðjum desember til að tína fjallagrös. Í Fáskrúðsfirði kom mikið austanveður milli jóla og nýárs; skemmdust þá úthýsi sumstaðar. Í Skaftafellssýslu var víða ekki farið að taka lömb eða hross um nýár og á nokkrum stöðum beittu menn kúm þangað til 3 vikur af vetri, en almennt til veturnótta, og var þeim lítið eða ekkert gefið til þess tíma. Í Rangárvalla- og Árnessýslu voru því nær stöðugar þíður fram undir sólhvörf; var víða unnið að jarðabótum fram á miðja jólaföstu. Í Vestmannaeyjum var haustið hrakviðra- og stormasamt, en óvenjulega heitt fram undir jól.
Janúar: Talsvert snjóaði nyrðra. Kalt og mikið frost með köflum.
Ísafold segir af veðráttu þann 11.:
Snjórinn, sem getið er um í síðasta blaði lá grafkyrr þangað til á þrettánda, eða jólin öll á enda. Þá gerði hláku, með miklu stórviðri á útsunnan. Síðan hafa verið umhleypingar, með allmiklum frostum síðara hlut víkunnar, og er enn mikill snjór á jörðu.
Vestri kvartar undan tíð þann 10.janúar:
Tíðarfar hefir verið mjög slæmt og kalt undanfarna daga, 10.-17. stiga frost á Celsius, og finna menn sérstaklega til þess, þar eð bærinn [Ísafjörður] er því nær alveg kolalaus, svo margur má nú sitja í kringum svellkalda ofnana og blása í kaunin; Ísafjörður er nú ekki lengur eftirbátur Reykjavíkur í þessu efni, og er vonandi að hann taki hana sér eins til fyrirmyndar í einhverju öðru, er til bóta væri.
Fréttablaðið Arnfirðingur á Bíldudal segir frá tíð og skriðuföllum í janúarmánuði þar um slóðir:
[11.] Veður hefur verið nokkuð róstusamt nú um tíma. Samanhangandi bylur mátti heita, þ. 8. og 9. og frost alla vikuna síðustu oftast kringum 12 gr. hæst þ. 9. og 10., 16 gr. og er það talið óvanalegt hér. Frostlítið og þykkt loft í dag.
[22.] Veður hefur, í fæstum orðum sagt, verið hér hvern daginn öðrum verra núna um tíma, stormur og rigning eða snjókoma og frost; þó ekki hart. Bylur í dag með þéttu frosti. Skriðuhlaup töluvert kom hér ofan úr gili yfir kaupstaðnum í ofsarigningu aðfaranótt þ.15. þ.m. Varð fyrir því hús nýbyggt og hratt hlaupið því af grundvelli nær til hálfs. Ekki sakaði neinn mann, og var þar þó höggvið nærri. Inn í húsið fór skriðan aðeins um lítinn glugga á miðju húsinu og sprengdi niðurúr, en maður sem þar svaf innifyrir slapp út. Kjallarinn fylltist mikið til. Þar var eldhús og matvæli geymd o.fl. og spilltist það allt og eyðilagðist meira og minna og var það eigendum illt tjón og óþægilegt, en tilfinnanlegast var þó auðvitað tjónið fyrir þá sem húsið áttu: Guðmund Lárusson og Kristján Stefánsson.
[31.] Illviðrahamur stöðugur, ýmist frost 1012 gr. eða fannburður eða stórrigning. Hafís sagður kominn inn á Bolungarvíkurmið og illt að koma niður lóðum, en sagður góður afli þegar póstur fór.
Austri segir af tíð og tjóni eystra:
[11.] Frétt dagsett þann 10. Tíðarfar hefir verið mjög illt það sem að af er árinu, hríðar og stormar næstum því á hverjum degi og snjókoma mikil, bæði hér í fjörðum og i Héraði, og nú þrjá síðustu dagana stórhríð og með miklu frosti.
[16.] Í stórhríðunum fyrir síðustu helgi varð maður úti frá Urriðavatni í Fellum, Ólafur Hinriksson að nafni. Það sást á eftir, að maðurinn hafði náð húsi á túninu og ætlað svo þaðan að ná bænum, en villtist til fjalls, og var ófundinn er síðast fréttist. Í stórhríðunum brotnuðu 18 rúður á einum bæ í firðinum, og sumstaðar varð ekki komist í peningshús, og jafnvel ekki í fjósið. Ofsahlákustorm gerði hér af suðvestri á miðvikudagsnóttina [15.], reif þak af húsum og braut inn glugga, og hefir víst gjört töluvert tjón. Þá nótt stíflaðist og Vestdalsáin og flóði út yfir Eyrina, svo húsum var hætta búin um tíma, áður en áin var skorin fram. Mylluhús úr timbri, er stóð við ána upp hjá bænum Fossi, tók vatnsflóðið með sér. Í húsinu var ýmislegt geymt er allt fór í ána. Líður því eigandinn, Magnús Sigurðsson, á þriðja hundrað króna skaða við þetta.
[29.] Tíðarfar hefir nú lengi verið hið harðasta, hríðar og frosthörkur miklar nálega á hverjum degi.
Þjóðviljinn ungi (í þetta sinn á Bessastöðum) segir af tíð þann 21.janúar:
Síðan á nýári hafa gengið hörð frost hér syðra, og snjóar öðru hvoru. 5.6. þ.m. gerði þó hláku, og ofsalegt suðvestanveður, einkum á þrettándanum, seinni hluta dags. En daginn eftir var aftur komin norðankólga, er hélst til 18. þ.m., er aftur tók að hlána, og hafa síðan haldist rigningar og rosatíð.
Í ofsarokinu 6. þ.m. urðu skemmdir nokkrar hér í nágrenninu Í Reykjavík fauk hús á Laugavegi, er þar var í smíðum og brotnaði að mun. Kvenmaður, er þar var á gangi, handleggsbrotnaði. Í Hafnarfirði urðu skemmdir nokkrar á þilskipum, en þó eigi stórvægilegar; 2 þilskip Geira kaupmanns Zoéga slógust saman, og brotnaði annað þeirra nokkuð. Skipið Himmalaya", eign Ágústs kaupmanns Flygenring i Hafnarfirði, lenti á öðru skipi, og laskaðist Himmalaya" nokkuð. Þilskip, er Ágúst Flygenring átti, og var nýlega komið frá Austfjörðum, svo að eigi hafði verið búið um það til fullnustu í vetrarlægi, slitnaði upp, en tókst þó að verja því, að það færi upp í stórgrýti, og laskaðist því að eins lítilfjörlega.
Norðurland segir þann 21.janúar:
Stórflóð, óvenjulega mikið á vetrardag, hljóp í Hörgá í hlákuofsanum á miðvikudagsnóttina (þ.15.). Um morguninn var undirlendið að sjá sem einn fjörður og á svipstundu spennti áin af sér ísinn og hlóð ísflekunum alinarþykkum langt á bæði lönd og fyllti alla hólma og eyrar. Eru ruðningar þessir ómunalega stórkostlegi. Tæprar alinnar var vant að áin næði brúnni þegar hún ruddi úr sér stíflunni er settist að þar í mjóddinni. En ekkert haggaðist. Er þetta hin fyrsta raun sem brúin hefir mætt síðan hún komst upp en líka sjálfsagt ein með þeim mestu sem fyrir hana koma.
Þjóðólfur birti þann 7.febrúar bréf úr Árnessýslu dagsett þann 1. - en það lýsir janúarveðri:
Það sem af vetrinum er, má heita fremur gott og hagstætt, þó rokasamt í meira lagi t.d. á þrettánda dag jóla fuku járnþök af nokkrum húsum, helst heyhlöðum, og 3 skip fuku við sjávarsíðuna. Veður það var eitthvert hið harðasta, sem hér hefur komið lengi, enda jafnhart lengi dags. Í kælunum um daginn varð frostið þetta 1216 gr. á R, og létti því með ofsaleysingu og hljóp geysivöxtur í allar ár og læki. Ölfusá óx mjög síðustu daga hlákunnar, enda flóði hún með jakaburði upp á lönd þau, sem liggja að hið neðra, einkum þó hjá Kotferju; þaðan ekki vel frétt um afleiðingar hlaupsins; þannig mun áin hafa verið ófær fjalls og fjöru milli, um fullan vikutíma nema á brúnni; í svona tilfellum sem oftar sést hverjar gersemar brýrnar eru.
Vestri segir mannskaðafréttir í pistli þann 7.mars:
Í óveðrunum fyrir austan í fyrrihluta janúar urðu úti: Ólafur Hinriksson frá Urriðavatni í Fellum. Og maður nokkur, Bessi að nafni, á leið yfir Sandvikurheiði í Norður-Múlasýslu. Síðar í sama mánuði Guðmundur Tómásson frá Skeggjastöðum í Miðfirði, varð úti á Hrútafjarðarhálsi [fram kemur að það var 20.janúar]. Um sama leyti varð úti Sig. Sigurðsson bóndi á Efrafelli í Rangárvallasýslu.
Febrúar: Mjög þurrt eystra fyrri hlutann, en annars nokkrir umhleypingar. Snjólítið suðvestanlands. Kalt, einkum á Norður- og Vesturlandi.
Bjarki á Seyðisfirði segir þann 6.febrúar:
Nú fyrir helgina [1. og 2.febrúar] var svo mikið brim í Mjóafirði að það gekk upp yfir vanaleg takmörk, braut gat á sjóhús á Rjúkindum, tók út nokkuð af fiski og margt fleira. Einnig misstist þar bátur. 2 báta tók út á Reykjum og 1 í Gilsártanga. [Í síðari frétt [20.febrúar] kemur fram að þetta var aðfaranótt 25.janúar]. Fyrir mánaðamótin gekk í þíður og sunnanátt. Hiti suma dagana allt að 9 stig R. Í gær og fyrradag aftur lítið frost og grátt loft og hefur fölvað. Íshröngl sást hér útifyrir, en rak frá með sunnanvindunum. Fyrir norðan Langanes hafði firði og víkur fyllt og allstór ísspöng legið þar úti fyrir, en rekið frá aftur. Maður sem kom frá Vopnafirði á þriðjudagskvöldið [4.] sá engan ís.
Þann 7.mars er bréf í Þjóðólfi úr Höfðahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu, dagsett 7.febrúar:
Tíðin hefur verið fremur stirð hér í vetur, einlægar norðanhríðar og harka svo mikil, að ég man ekki eftir öðru eins frosti síðan veturinn 188788. Ég er hræddur um, að heyskortur verði hér um slóðir, ef þessu heldur áfram, kannske fram á sumar, en fyrningar voru hjá mörgum frá fyrra ári, og heyskapur góður í sumar, svo menn ættu síður, að verða heylausir. Gufuskipið Egill, sem lagði af stað frá Akureyri 4. þ.m. til útlanda, ætlaði austur með, en komst ekki fyrir ís hjá Langanesi, sneri svo við og ætlaði vestur með, en komst eigi að heldur fyrir ís. Nú er hann inn við Hrísey, og liggur þar. Svona er íshellan úti fyrir, en lagnaðarís á öllum firðinum frá Hrísey og inn á Akureyri.
Þann 18. segir Þjóðviljinn ungi (fréttin er nokkuð stytt hér):
Leikið á botnverpla. [Fjórða] þ.m. bar það til tíðinda í Reykjavík, að varðskip Færeyinga Beskytteren", kapt. Petersen, kom inn á Reykjavíkurhöfn með þrjá botnverpla enska í eftirdragi. Svo stóð á ferð varðskipsins, að Jöhnke, flotamálaráðherrann danski, hafði boðið skipstjóra, eftir undirlagi Rovgaards að sögn, að bregða sér hingað og njósna um aðfarir botnverpla. Bar þá svo vel í veiðar, að þeir voru eigi færri en 14 að veiðum í landhelgi fram undan Hópi í Grindavík og uggðu eigi að sér, því að Heimdalls" var eigi von fyrr en í mars. Náði herskipið þrem, sem þegar er sagt, en 11 sluppu úr greipum þess. Skyldu nú botnverplar þessir bíða dóms síns á Reykjavikurhöfn og voru menn settir í þá til gæslu. Í ofsaveðrinu 6. þ.m. sleit einn þeirra upp á höfninni og varð hann að strandi. Tveim dögum síðar sleit annan botnverpil upp. Tók þá skipstjóri það ráð, að hann hleypti á haf út, en setti gæslumann sinn í land á Kjalarnesi. Beið skipstjóri bæjarfógeta með gæslumanni og kvaðst mundu koma aftur von bráðar, hvað sem um efndir verður á því. ... Skipstrand. Sömu nóttina, sem botnverpillinn enski strandaði, sleit upp annað gufuskip á Reykjavíkurhöfn, og varð að strandi. Það hét Modesta" og var nýkomið með salt til Fischers verslunar. Í skipinu var og allmikið af kolum, sem átti að fara til Ísafjarðar. Kolabyrðingur frá Brydes verslun sökk á Reykjavíkurhöfn 7. þ.m. Í honum voru 2400 skpd. af kolum. Harðindi eru nú að frétta hvaðanæva af landinu. Hafíshroði hefir sést fyrir Norðurlandi, en eigi til neinna muna.
Norðurland segir þann 11.:
Íshroði er hér úti á firðinum, jaki kominn inn að Svalbarðseyri á sunnudaginn. Stórhríð á norðan á föstudaginn var [7.], dimmastur bylur á vetrinum. Síðan hörkufrost á degi hverjum, yfir 20 gr.C í gærmorgun.
Bjarki segir þann 27.fréttir frá Akureyri, dagsettar þann 12.:
Akureyri 12.febrúar: Frostin hafa verið hér mjög mikil, allt uppað 23°C. Síldarafli þessa dagana töluverður upp um ísinn á pollinum, en mest er það millisíld og smásíld. Hafísjakar sjást hér innanað og mun sá hvíti þá ekki vera langt frá. Stillingar eru nú þessa dagana, en voru hér ekki síðustu viku, því þá voru vondar hríðar, frá þriðjudegi, 4. þ.m. til laugardaginn 8., en þá birti upp. Eftir að þetta er skrifað hefur komið sendimaður sendur af kaft. Arnesen, og skýrir hann frá, að Egill sé innifrosinn á Siglufirði og hafþök þar fyrir utan.
Bjarki segir frá þann 14.
Kaldárbrúin í Jökulsárhlíð sem var byggð í hitteðfyrra eyðilagðist í hríðarbálkinum seinast af snjóþyngslum og veðrum. Ísinn: Honum hefur þokað frá nú síðustu dagana svo að fjörðurinn og flóinn eru nú íslausir. Norðan við Borgarfjörð hafði ísinn verið landfastur og maður, sem kom úr Fáskrúðsfirði á miðvikudaginn sagði ís þar á firðinum.
Vestri segir af hafís þann 15.febrúar:
Hafíshroði hefir sést úti fyrir um síðastliðna helgi [8. til 9.], varð landfastur á Ströndum og kom hér inn í Út-Djúpið inn undir Bolungarvík, en hefir nú drifið frá aftur.
Bjarki birti þann 27.febrúar fréttir úr Breiðdal, dagsettar þann 21.:
Breiðdal 21.[febrúar]: Góð tíð og marauð jörð, en sjórinn er hér allsstaðar fullur með ís og kæmi sér þó betur að það yrði ekki mjög lengi því við verslanirnar á fjörðunum hér í kring er nú vörulaust algerlega, enginn matur, ekki kaffi, ekki sykur.
Austri segir þann 20.:
Veðrátta hefir verið hin blíðasta síðustu daga, suðvestanvindar og 10° hiti.
Bjarki segir þann 27.:
Ísinn hefur nú fyllt fjörðinn hér og nálæga firði. Veður er stillt, þoka á fjöllum og frostlaust þar til í gær; þá 2 st.R. Að líkindum er þessi ís ekki annað en spöng hér úti fyrir Austfjörðunum.
Mars: Talsverð snjókoma nyrðra seinni hlutann. Kalt.
Þann 7.segir Bjarki fréttir af Mjóafirði dagsettar 2.mars:
Fjörðurinn hér er nú fullur af ís og Siemers, skip Ellevsens, liggur inni við fjarðarbotn, flúði þangað undan ísnum.
Sama dag segir Bjarki einnig:
Þær fréttir komu með Vopnafjarðarpósti, að Egill væri fastur í ís á Vopnafjarðarflóanum. Hann hafði komist út af Siglufirði í sunnanveðrunum um daginn og síðan gengið ferðin vel allt suður fyrir Langanes. En þar var ís fyrir. Tvo daga hafði Egill legið í Eiðisvík. Síðan varð hann inniluktur af ísnum úti fyrir Vopnafirði og hefur ýmist þokast með honum nær landi eða fjær. Hann hafði verið þar 14 daga þegar póstur fór af Vopnafirði. --- Ísinn er enn hér í firðinum, svo að varla er fært inn fyrir skip. Héraðsflói er fullur af ís, en á suðurfjörðum, Norðfirði og Reyðarfirði var íslaust er síðast fréttist. Veður er stöðugt gott, ýmist þíður eða lítill froststirningur. Á pollinum hér er nú gengur ís út að Vestdalseyri, og kvað það ekki hafa komið fyrir síðan fyrir 1890.
Á Suðurlandi eru menn ánægðari, Þjóðólfur birti þann 14.mars bréf úr Laugardal í Árnessýslu, dagsett þann 7.:
Tíðin hefur yfirleitt verið góð, það sem af er vetrinum. Auðvitað voru töluverð harðindi frá því 6 vikur af vetri og fram að þorrakomu, en síðan ómunaleg tíð, bæði frost- og snjólítið. Förgun á skepnum mjög lítil yfirleitt; heybirgðir því almennt í besta lagi.
Norðurland segir af lagnaðarís þann 8.mars:
Ísalög eru með mesta móti norðanlands í vetur. Eyjafjörður er lagður út að Dagverðareyri. Þar fyrir utan er sjór auður út að Hjalteyri. Þar er spöng yfir fjörðinn, sem sagt er sé um hálf alin á þykkt.
Arnfirðingur á Bíldudal segir þann 8.:
Veður einmuna gott þessa viku, svo gott, að ekki er unnt að hugsa sér fegurra veður á vetri. Dagarnir kyrrir, sólbjartir og nær frostlausir svo það hefur komist lægst 3 stig en oftast verið 12 st. og hiti hæst 2 stig, en næturnar stjörnubjartar með norðurljósum. Hafi snjóföl komið hefur það aðeins varað litla stund í senn. Þyngdarmælir hefur staðið illa alla vikuna,hvað sem að honum hefur gengið. Í dag hæg hláka.
Þjóðviljinn ungi segir frá marstíð og slysum:
[11.] Veðrátta hefir verið nokkuð umhleypingasöm síðustu vikuna, en áður var ágætistíð síðan í þorralok. Drukknanir. Í ofsaveðri, aðfaranóttina 8.mars, féll maður útbyrðis af fiskiskipinu Josephine" frá Reykjavík, og drukknaði. ... Í sama rokinu drukknaði og maður af fiskiskipinu Kjartan" í Hafnarfirði.
[20.] Bessastöðum. Tíðarfar hefir verið hagstætt hér syðra, síðan síðasta nr. blaðsins kom út, ýmist væg frost eða frostleysur, uns í dag gerði norðanhvassviðri.
[26.] Norðangarðurinn, er hófst um miðja fyrri viku, hélst til 25. þ.m. og fylgdi veðrinu all-mikil frostharka. ... Strandferðaskipið Vesta", skipstjóri Gottfredsen, kom aftur að vestan 21. þ.m., hafði ekki komist lengra norður, en á móts við Látrabjarg, en horfið þar aftur, vegna hafíss, eftir að hafa leitað fyrir sér djúpt og grunnt.
Hafís og harðindi. Eftir fréttum þeim, sem nú eru fengnar, er svo að sjá, sem hafís liggi nú fyrir öllum norðvesturkjálka landsins suður að Látraröst, fyrir Norðurlandi öllu, og austurlandinu, rétt suður að Seyðisfirði og má gera ráð fyrir, að norðan-ofsinn undanfarna daga hafi þjappað ísnum enn meira að landinu. Allar siglingar til hafna á ofannefndu svæði eru því tepptar, sem stendur, og kemur það sér mjög bagalega víða, ekki síst í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, þar sem tekið var að skerðast mjög um matvörubirgðir í verslunum þegar eftir áramótin. Á Vestfjörðum fengu verslanirnar á hinn bóginn töluverðar matvörubirgðir, með Lauru" í febrúarmánuði, enda þarf naumast að óttast, að siglingar til Vestfjarðanna teppist til langframa, ef að vanda lætur.
Vestri segir þann 15.mars:
Ísinn hér á Pollinum er nú því sem næst 1 alin á þykkt og er farið að saga rennu inn i hann svo skip geti komist út og inn.
Norðurland segir þann 22.:
Stórhríð, að kalla má óslitin, hefir verið hér síðan á miðvikudag [19.], afspyrnubylur með köflum, þangað til í morgun, er bjart veður var komið með allmiklu frosti.
Vestri segir af ís og tíðarfari þann 24.mars:
Hafís er sagður mikill fyrir öllu Norður og Austurlandi og hingað inn í Djúpið hefir hann rekið i garði þeim er nú hefir staðið í 6 daga svo ekki er hægt að komast á sjó í Bolungarvík. - Rétt eftir að Ceres var lögst hér á höfninni rauk hann upp á norðan með frosti op byl, svo litlu varð skipað upp fyrr en á laugardag [22.] og lagði hún þá af stað aftur. Annars var tíðin fyrripart vikunnar góð oftast, lygnt og frostlítið.
Arnfirðingur segir þann 29.:
Veður hefur verið slæmt um þennan tíma, gaddbyljir oftast og hörð frost þess á milli. Maður varð úti hér á Tunguheiði, nú á mánudaginn var, Kristján Kristjánsson héðan af Bíldudal. Var sendur héðan suður til Patreksfjarðar, en lagði á heimleiðinni úr Tálknafirði upp á Tunguheiði á mánudag var og hefur ekki spurst til hans síðan. Hér var öskuhylur þann dag og frostharka. Er sagt að honum væri ráðið frá að leggja á fjallið, en hann kvað að undrast yrði um sig ef hann kæmi ekki heim um daginn. Menn hafa komið að sunnan síðan, og eins verið leitað hans héðan, en hann ekki fundist.
Ísafold birti þann 9.apríl bréf úr Dalasýslu, dagsett 21.mars:
Tíðin hefir verið ærið köld og óstöðug, ýmist hörkufrost eða asahlákur, stuttar og meira til ógagns en gagns. Siðast í febrúar gjörði afarstórfelda rigningu og urðu öll vötn ófær. Laxá i Laxárdal ruddi sig þá og gekk svo hátt, að langt tók upp fyrir brúarstöplana, og segja þeir, er skoðað hafa, að ekki muni nægja að að hækka þá minna en 3 álnir, til þess brú verði þar óhult. Áin tók i þetta skipti brúartré, er eftir héngu á stöplunum síðan i haust, og hafa þau ekki fundist síðan svo kunnugt sé. Verður þetta ekki til að flýta fyrir brúargjörðinni.
Apríl: Góð tíð syðra eftir fyrstu vikuna. Fremur kalt, einkum fyrir norðan.
Bjarki segir þann 2.:
Snjóveður hafa verið öðru hvoru undanfarandi viku og er nú töluverður snjór og færð ill. Ís er hér í firðinum, en útifyrir lítill eða enginn, að því er sagt er.
Ísafold segir frá ísum þann 2.:
Vikuhríð látlaus var fyrir norðan, í Húnavatnssýslu, kringum pálmasunnadaginn [23.mars] og er talið víst, að eftir þá skorpu muni, ekki nokkur auð vök á Húnaflóa. Riðið beint af Vatnsnesi vestur i Skriðnesenni.
Lagnaðarís við Stykkishólm svo mikill, að ekki var hægt að koma þar upp vörum úr Vestu, en farþegar komust af skörinni út í skipið. Ísinn keyrði þar saman í pálmasunnudagsveðrinu og fyllti alla firði og víkur út á Öndverðanes, svo að vermenn komu þar engri fleytu fram og urðu að fara fótgangandi heim á páskunum, inn í sveitir. [s62]
Norðurland segir þann 5.apríl:
Harðindi eru hér mikil um þessar mundir, snjókoma flesta daga, meiri eða minni, og frost töluvert. Jarðbönn alger víst hvarvetna hér nærlendis.
Bjarki segir 11.apríl:
Ís er hér enn í firðinum, en autt haf fyrir utan fjarðarmynnið. Sama er sagt úr næstu fjörðum hér fyrir norðan og sunnan. Ekki þyrfti nema lítinn vind á vestan til að hreinsa firðina. Ceres sást útifyrir Reyðarfirði um það leyti sem hennar var von hingað til Austurlands og hafði verið á sveimi þar úti fyrir í 4 daga. Þá hefur hún án efa snúið við út aftur. Hún hafði meðferðis mikið af vörum hingað til Seyðisfjarðar. Þeim hefði hún getað skipað hér upp ef henni hefði verið ætlað að koma hér við á leiðinni til Vesturlandsins. Veður er nú stöðugt kyrrt, hita-sólskin á daginn, og vinnur þó lítið sem ekkert á gaddinum, en töluvert frost á nóttum. Snjór er mikill hér í firðinum og þó engu minni að sögn á Héraði. Sumstaðar er orðið tæpt um hey.
Þann 12. segir Norðurland:
Veðrið hefir verið stillt alla þessa viku, frost á nóttum og hreinviðri og sólbráð á daginn. Í gær brá til meiri hlýinda, 67 stig í forsælu og sunnanátt, en veðurhægð. Ofurlítið er farið að taka í fjallahlíðarnar, en víðast hvar þó sem einn jökull yfir að líta.
Austri segir þann 26.:
Hláka hefir nú verið síðustu daga, svo góð jörð er komin upp hér í firðinum. Í dag er hægur suðvestanblær og 8° hiti, svo vonandi er að ísinn reki nú brátt héðan af firðinum. Íslaust kvað nú vera á Bakkafirði og þar útaf; á Vopnafirði og Þistilfirði lítill ís.
Þann 30.apríl birti Ísafold nokkur bréf utan af landi:
Skagafirði l9. apríl. Veðráttan köld. Ís töluverður i firðinum og snjór allmikill. Aðfaranótt hins 13. [mars] byrjaði veðurstaða og snjókoma á norðan, og síðan hefir verið kalt og eigi tekið upp snjóinn.
Árnessýslu 21. apríl. Tíðin má heita góð til landsins, sífeldur mari, með lítilli úrkomu oftast, leysir ísa af mýrum og klaka úr jörð með degi hverjum. Til sjávarins er allt lakara. Hefir vertíð þessi að öllu samtöldu verið ein hin lakasta í manna minnum; fiskileysið og gæftaleysið hefir haldist í hendur, og gæftaleysið þó líklega bagað meira.
Blönduós 18. apríl. Mikill ófögnuður er að horfa hér út á flóann fullan af ís svo þéttum, að ganga má yfir þvert og endilangt. Gengið hefir verið á 2 klukkustundum frá Blönduósi að Krossanesi á Vatnsnesi og eru það 2 mílur vegar. Hákarlsafli hefir að þessu verið mikill upp um ísinn, einkum á Skagaströnd. Svo sem við er að búast, er tíð óstöðug og ill, frost mikil, hríðar og þokur, en þó logn og sólskinsdagar á milli.
Vestri segir af tíð og ís í apríl:
[5.] Hafís hefir komið hér inn undir Bolungarvík og sér ekki út yfir hann úr Breiðhillu (sylla í Stigahlið). Að vestan fréttist, að ísinn væri landfastur við Sléttanes. Ísbreiðan svo langt sem auga eygir fyrir öllum Ströndum.
[12.] Vesta kom hér 7. þ.m. og varð ekki vör við neinn ís fyrir Vestfjörðum, en ís hafði verið að sjá norður undan Rit. Gambetta sem kom hér 19. [mars] hefir legið innifrosin hér við bryggjuna og er nú verið að saga hana út. Er nú ísinn loks brotinn úr Sundinu, en Pollurinn þakinn þykkum ís ennþá.
Þann 24.maí segir Vestri frá óhappi mánuði áður:
Skip rak sig á jaka og sökk á Skjálfandaflóa á sumardaginn fyrsta (24.apríl). Skipshöfnin komst í bátinn og bjargaðist öll. Skipið var með salt til Blönduóss.
Þjóðviljinn ungi lýsir apríltíð í nokkrum pistlum frá Bessastöðum:
[5.] Tíðarfarið hefir verið kalsasamt, sífelld norðan- eða norðaustan-átt, og snjóhret á páskadaginn (30.f.m.). Strandferðaskipið Ceres" kom til Reykjavíkur 25. [mars], og fréttist þá að hafís væri eigi siglingum til Ísafjarðar og Vestfjarðanna til tálmunar. Hr. Gottfredsen, skipstjóri Vestu", sýnist þvi hafa verið í meira lagi varasamur, er hann sneri aftur við Látrabjarg, enda er hann sagður all-deigur, þar sem við ísinn er að tefla.
Aðfaranóttina 24. [mars] strandaði íslensk fiskiskúta í Selvogi, rakst á svo nefnd Löngusker vestanvert við Selvog í ofsanorðanrokinu er þá var. Menn björguðust allir. Skipið var eign Gramsfélagsins í Dýrafirði, og hét Skrúður".
[12.] Tíðarfarið. 5. þ.m. sneri til suðaustanveðráttu, svo að vonandi er, að hafísinn hafi nú máski þokast svo frá landinu, að siglingar komist til norðurlandsins.
[18.] Veðrátta hefir verið allóblíð síðustu dagana, norðangarður með ærnu frosti og jafnvel fannkomu öðru hvoru.
Þjóðólfur birti 2.maí bréf úr Húnavatnssýslu dagsett 16.apríl (dálítið stytt hér):
Tíðin er afarill lengstum; t.d. frá 18. mars til 2. þ.m. stóð alltaf nálega látlaus stórhríð af norðri með 1220 gr, frost á C. hér við sjóinn, setti þá sumstaðar niður afarmikla fönn, og er jarðlaust enn, þar sem verst er. 3. þ.m. stillti til, og gerði gott veður og sólbráð þangað til 14. þ.m., og hafa síðan verið vonskuhríðar og norðanrok, og svo er enn. Húnaflói er gersamlega fullur af ís, og allt samfrosta út fyrir Reykjarfjörð, og út undir Hafnarif hérna megin. Hefur verið gengið af Vatnsnesi beint yfir á Blönduós, og sömuleiðis af Vatnsnesi og yfir á Strandir, og mætti sjálfsagt ganga þessa hellu, hvar sem væri, þó það hafi ekki verið reynt. Æðarfuglinn hrynur niður unnvörpum, og er sagt, að sumstaðar megi ganga á torfunum af honum dauðum og hálfdauðum á ísnum. Hefur hann aldrei fallið svo, síðan veturinn 8081, og verður þó sjálfsagt enn verra nú, ef ísinn fer ekki því fyrr, sem ekki lítur út fyrir.
Maí: Mjög þurrt syðra fyrri hlutann. Mikið hret með frosti síðustu vikuna. Kalt.
Þjóðviljinn ungi (á Bessastöðum] segir þann 6.maí:
Sumarveðrátta má heita, að verið hafi hér einatt síðan sumarið byrjaði, talsverður hiti flesta dagana og úrkoma skapleg. Síðustu dagana norðanátt með kælu.
Þann 26. segir Norðurland:
Lagísinn nær út að Svalbarðseyri og þar þvert yfir fjörðinn. Við Svalbarðseyri er hann sagður 1/2 til 1 alin á þykkt. Nokkuð breið hafísspilda er samfrosin lagísbrúninni og verður naumast yfir hana komist. Komi skip áður en hana leysir burt er líklegast að skipa verði upp úr þeim á Hjalteyri.
Bjarki segir þann 2.:
Veður og ís. Fyrir helgina skipti um veður og kom hláka og sunnanátt. Snjór hefur mikið tekið og jörð komin upp en hafísinn rak hér út úr fjörðunum fyrri part vikunnar. En á miðvikudaginn fór ísinn að reka að aftur og nú sem stendur er fjörðurinn hér og næstu firðir aftur fullir, en ekki er ísinn þó meiri en svo, að hann rétt fyllir firðina og er autt haf strax fyrir utan.
Þann 3.maí segir Norðurland:
Hólar" komu hingað inn á fjörðinn þriðjudaginn 29. [apríl], komust þá inn undir Svalbarðseyri árdegis, og þar komu nokkrir Akureyrarbúar út í skipið um kl. 4 síðdegis. Þá var tekið að hvessa á norðan. Skipstjóri ætlaði að brjótast sem lengst inn í lagísinn og gerði tilraun til þess, en varð ekkert ágengt, því ísbrúnin var svo samanrekin og skipið komst út úr ísnum aftur við illan leik. Þegar það var komið út fyrir Toppeyrargrunn, kom hafísinn utan fjörðinn á móti því, svo það varð að hleypa undan, inn fyrir Gæsaeyri og þar lagðist það. Kl. 2 um nóttina var skipið lukt hafísjökum og þar hefir það verið síðan. En hættulaust er þar með öllu, enda þessi staður með hinum bestu hér við fjörðinn. Væntanlega greiðist þessi ís sundur bráðlega «g fer út úr firðinum, því að hann er hvergi samfrosinn, enda ekki sagður mikill úti í firðinum. Hólar" komust hvergi á höfn frá Reykjavík, nema á Fáskrúðsfjörð. Ískraginn með fram landinu byrjaði suður við Dyrhólaey, og jakar voru komnir til Vestmannaeyja. Þessi kragi náði allt að Langanesi. Aftur á móti var íslaust úti fyrir, nema talsverður ís fyrir utan Sléttu og svo vestur af Eyjafjarðarmynni. Á Húsavík komst skipið ekki vegna hvassviðris. ... Þegar hafísinn lónar út, er búist við, að skipið muni komast allt inn að Oddeyri, því að lagísinn er að verða að froðu og talsvert orðið autt með vesturlandinu.
Þann 10.maí greinir Norðurland en af ís:
Lagísinn allur, að kalla má, er nú horfinn hér af firðinum. Hafísinn, sem barst hingað inn á fjörðinn 29. f.m., fór aftur á þriðjudaginn var [6.]. En í gær var íshroða að reka inn fjörðinn enn af nýju, sennilega vestan af Húnaflóa; líklegt, að hann hafi losnað þaðan í suðvestanvindunum, sem verið hafa fyrirfarandi daga, þangað til í gærmorgun, er kominn var norðankaldi, sem flutt hefir ísinn inn fjörðinn.
Bjarki segir þann 16.:
Veður er kalt þessa dagana, frost töluvert á nóttum og lítil leysing á daginn. Ís er nú enginn hér við Austurland.
Þann 30.maí segir Bjarki:
Veðrið hefur verið ljótt undanfarandi viku, snjóveður á hverjum degi, á miðvikudaginn (28.maí) dimmviður með mikilli fannkomu og í gær og dag frost og kafaldsbyljir eins og á þorra. Töluverður nýr snjór er kominn. Um þetta leyti árs muna menn ekki annað eins veður.
Arnfirðingur segir þann 30.maí:
Veðrið afarkalt þessa viku alla, frost hverja nótt og hitinn kringum 0 á daginn. Á þriðjudaginn [27.] var 1 stigs frost og alhvítt niður að sjó, en fjöll stöðugt grá í miðjar hlíðar.
Norðurland segir þann 31.:
Harðindi veruleg eru nú á Norðurlandi. Hvítt ofan í sjó, meiri og minni snjóhraglandi dag eftir dag og venjulega dálítið frost um hádaginn. Afleiðingarnar sýnilegar um hásauðburðinn. Lambadauði sumstaðar mikill og hvarvetna ákaflegir örðugleikar með féð. Heyskortur hjá sumum, en þó að næg hey séu til, horast ærnar. Sumstaðar er lítið eða ekkert til handa kúnum, enda farið að beita þeim út, þrátt fyrir gróðurleysið, áður en snjórinn kom.
Ísafold segir þann 31.:
Norðangarðinum, sem byrjaði á þriðjudaginn, létti í gærkveldi. Hann var mjög snarpur, með megnu fjúki til fjalla, og þá norðanfjalls fráleitt síður; meir að segja ákaflega hætt við, að hafisinn hafi keyrt inn aftur á firðina nyrðra, er hann var horfinn af áður.
Júní: Einkum var þurrt fyrri hlutann. Kalt, í meðallagi inn til landsins nyrðra, en kalt á hafíssvæðunum.
Norðurland segir frá þann 7.júní:
Inni á Húnaflóa var hafís, þegar síðast fréttist, út fyrir Höfðakaupstað. Skálholt komst ekki inn á viðkomustaði þar. Tíðarfar hefir mjög breyst til batnaðar, síðan er síðasta blað Norðurlands kom út landátt og talsverð hlýindi. Jörð grænkar nú óðum með degi hverjum, og ekki loku fyrir skotið, að grasvöxtur kunni að verða bærilegur. Þar á móti gera menn sér litla von um garðyrkjuna í sumar, þar sem hlýindin komu svo seint.
Austri segir frá júnítíð:
[5.] Tíðarfarið hefir fyrirfarandi verið hið indælasta, sólskin og hiti á hverjum degi, allt upp í 14°R í skugganum, en aftur nokkru kaldara síðustu 2 dagana.
[28.] Tíðarfarið er nú loksins gengið til verulegs bata, landátt, og sumarhiti 1314°R. með hlýrri sallarigningu, svo grassprettunni fer nú óðum fram.
Norðurland segir frá þann 14.júní:
Tíðarfar alltaf kalt mjög, norðanþyrkingar á degi hverjum og norðanþoka á fjöllum flestar nætur. Jarðargróður tekur nauðalitlum framförum. Hafísinn var ekki farinn af Húnaflóa snemma í þessari viku, en skip var komið til Höepfners verslunar á Blönduósi, hafði komist inn um einhverja rifu. Vesta ætlaði að komast þangað inn á norðurleið, en gat ekki. Ekki komst hún heldur inn á Sauðárkrók fyrir ís.
Arnfirðingur (á Bíldudal) kvartar óvenjulega þann 21.:
Veður hefur verið allt of bjart þessa viku, sól allan sólarhringinn að kalla má. Hægur norðanblær hefur séð við því að við yrðum að steik, en ofbirtan er mörgum hættuleg hér.
Þjóðviljinn ungi segir af vatnagangi við Markarfljót í pistli þann 21.júní:
Svo sem kunnugt er, varð hinn mesti voði að því í Út-Landeyjum í vetur, að Markarfljót lagðist yfir í Þverá og hleypti í hana miklum vexti, svo að hún braust út úr farvegi sínum á ýmsum stöðum, einkum við Bakkakotsós og Valalæk. Búnaðarfélag Íslands fékk þá Sveinbjörn búfræðing Ólafsson til að standa fyrir umbótum á skemmdum þessum. Skýrir hann svo frá 5. þ.m., að tekist hafi að hlaða upp i Bakkakotsós, en 3 árangurslausar tilraunir hafi verið gjörðar til að stífla Valalæk og til þess varið 2000 kr. Var það þá tekið til bragðs að senda austur mannvirkjafræðing Knud Zimsen og kom hann aftur þann 17. Segir hann svo frá, að 12 jörðum sé bráð eyðilegging vís og 4 undir stórskemmdum, ef eigi verði aðgjört. Vatnið ryðst fram með feikna afli, um 40000 tunnur á mínútunni, og eigi gjörlegt að hlaða fyrir það, nema fyrst sé gjörð timburstífla í opið og síðan hlaðinn traustur garður á bak við. Þetta áætlar hann að kosta mundi 6000 kr. Nú er eftir að sjá hvaða rögg landstjórnin sýnir af sér til að ráða bót á þessum vandkvæðum, því að ofvaxið er það búendum jarðanna og sýslusjóði, að leggja fram fé, svo að dugi.
Júlí: Mjög hagstæð tíð syðra. Lengst af þurrt. Kalt, einkum á hafíssvæðunum.
Norðurland segir um júlítíðina:
[5.] Gróðrarveður hefir verið fyrirtaks gott nú allt að tveim viku og jörðin tekið nær því ótrúlegum stakkaskiptum.
[12.] Kalt hefir að jafnaði verið þessa viku og jarðargróður því ekki tekið nærri því eins miklum framförum eins og áhorfðist, þegar síðasta Norðurland" kom út. Grasvöxtur víst víðast hvar miklu lakari en í meðallagi.
[26.] Hafís segja menn á lystiskipi frönsku, sem hér kom snemma í þessari viku, að hafi verið 5 mílur frá Horni. Enda er tíðin köld mjög. Þó að heitir dagar komi við og við, er von bráðar aftur orðið kalt. Grasvöxtur mjög misjafn, sumstaðar í meðallagi, en á öðrum stöðum miklu lakari.
Austri segir svipaða sögu af Austurlandi í júlí:
[7.] Tíðin alltaf hagstæð, hitar og úrkomur, svo grassprettu fer nú vel fram á degi hverjum. [12.] Veðrátta fremur köld. [18.] Tíðarfar alltaf fremur kalt, svo grasvexti hefir eigi getað farið fram sem skyldi. [25.] Veðrátta fremur óstöðug, köld og stormasöm síðustu dagana.
Öðruvísi viðraði syðra, Þjóðólfur lýsir tíð í pistli þann 25.:
Veðurátta óvenjulega þurr og hlý hér á Suðurlandi þennan mánuð. Grasvöxtur í lakara lagi, einkum á túnum. Sláttur nýbyrjaður og sumstaðar að byrja þessa dagana hér austur i sveitunum.
Svipað segir Ísafold þann 30.:
Þurrviðri óvenjumikil hafa gengið hér lengi, og mun þetta vera eitt hið mesta þurrkasumar í manna minnum. Því fylgir vitanlega grasbrestur allmikill víða, með því líka að kuldi fylgir þurrviðrunum, með frosti og snjó til fjalla öðru hvoru. Og hafís hafa fiskiþilskip hitt fyrir mjög nærri Hornströndum nýlega.
Þjóðviljinn ungi segir þann 4.:
Hinna illræmdu, alkunnu sunnlensku rigninga hefir enn orðið lítið vart, sem af er sumri, en tíðin yfirleitt verið mjög þurrviðrasöm.
Þjóðviljinn birti þann 30. bréf úr Dýrafirði, dagsett 20.júlí:
Héðan er að frétta sífelldan þurrk, og grasbrest í mesta lagi, enda víða farið að brenna gras af hólum og túnbörðum til skemmda, og útengjar að því skapi, svo að til báginda horfir, einkum hjá einyrkjum og liðfáum hændum, sem all-flestir eru hér, og enga manneskju hægt að fá, hvað sem í boði er.
Þjóðólfur birti þann 1.ágúst bréf af Eyrarbakka ritað 25.júlí:
Sérlega stöðugir þurrkar, og grasvöxtur sæmilegur allvíðast, bæði á túnum þar sem þau eru, og á útjörð, einkum þar sem votlent er. Þrisvar á næstliðnum 30 árum hefur orðið svo þurr jörð, sem nú er orðin. Allflestir hér byrjaðir að slá. Guðmundur Ísleifsson á Háeyri hefur hirt af hvanngrænu utantúnsheyi 150 hesta, en byrjaði slátt í flóðinu 7. þ.m.
Ágúst: Hagstæð tíð syðra og þurrviðrasamt fyrstu 3 vikurnar. Óhagstæð tíð norðaustanlands. Kalt.
Norðurland segir þann 2.ágúst:
Tíðarfar illt, kalt og óþurrkasamt. Um síðustu helgi [26. til 27.júlí] snjóaði á fjöll nótt eftir nótt og hörku-frost var ofan að sjó eina nóttina í þessari viku. Hjá flestum mun megnið af töðunum vera óhirt.
Arnfirðingur (fluttur til Reykjavíkur) segir þann 7. ágúst:
Þjóðhátíð Reykjavíkur 2. ágúst. Veðrið var nærri suðrænt, baksturshiti og amerískt logn. Hátíðin fór fram siðsamlega og skipulega, en var ekki að neinu leyti tilkomumeiri en slíkar hátíðir eru vanar að vera á útkjálkum eða upp til sveita.
Norðurland 9.ágúst:
Vatnavoðann í Landeyjum hefir ekki tekist að hefta, þótt tilraun væri til þess gerð undir forystu K. Zimsens mannvirkjafræðings. Vatnið reyndist óviðráðanlegt.
Norðurland segir 23.ágúst:
Snjór kom í fjöll á mánudaginn og þriðjudaginn 18. og 19. þ.m. Flestum ber saman um, að þetta sé kaldasta sumarið, sem þeir muna eftir.
Þjóðviljinn ungi segir af ágústíðinni (frá Bessastöðum) - og birtir auk þess bréf úr Dýrafirði:
[6.] Þurrviðri hafa haldið áfram hér syðra, nema tveggja daga rigning, 29.30. þ.m. Þjóðminningardag Reykvíkinga, 2.ágúst, var sólskin og blíðviðri, og jók það mjög hátíðargleðina.
[13.] Sama sumarblíðan helst enn hér syðra á degi hverjum. Sumarið yfirleitt eitt hið blíðasta og sólskinsríkasta sem menn muna.
[20.] Blíðskapartíð hefir haldist hér syðra að undanförnu, all-oftast sólskin og þurrviðri.
[27.] Votviðri hafa nú gengið öðru hvoru, síðan 21. þ. m.; þurrviðri þó í gær og í dag. Úr Dýrafirði er skrifað 12. ágúst 1902: Veðrátta er hér ágæt, og nýting hin besta, en grasbrestur svo mikill, að síðan 1881 hefir eigi jafn illt verið, svo að til báginda horfir hjá mörgum.
September: Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.
Arnfirðingur segir af tíð þann 3.september:
Tíð sögð afarköld nær um allt land. Frost á nóttum eystra fram eftir öllum ágúst og þar snjóaði niður eftir hlíðum sumar nætur. Umbrotaófærð á heiðum.
Þjóðólfur hrósar sumrinu þann 4.september:
Veðurátta hefur verið ómunagóð hér á Suðurlandi þetta sumar, sífelldir þurrkar og hreinviðri. Hefur því nýting á heyjum orðið hin besta, og heyfengur manna með mesta móti yfirleitt, þrátt fyrir nokkurn grasbrest víðast hvar. Mun sumar þetta lengi í minnum haft hér sunnanlands, sem frábært veðurblíðu- og þurrkasumar. Síðan 1895 hefur hvert sumarið verið öðru lakara og votviðrasamara hér syðra. Af Norður- og Austurlandi er að frétta kuldatíð og votviðri.
Ísafold segir þann 6.september:
Hlaup i Tungufljóti. Fimmtudag 21. [ágúst] kom jökulhlaup mikið og óvenjulegt í Tungufljót. Það flóði langt yfir bakka og gerði töluverðan usla á engjum í Tungunni, einkum Pollengi svo nefndu; þar eru slægjur lánaðar í ýmsar áttir og er uppgripaheyskapur, sagt, að meðalmaður slái þar 1520 hesta á dag. Þar hafði í þann mund Guðmundur bóndi Erlendsson frá Skipholti verið að slætti 4 daga við 10. mann, og tók áin þann heyafla mest allan og ónýtti engið að þessu sinni með jökulburði. Kvísl kemur í Tungufljót úr Hagavatni, er liggur upp við Langjökul (Hagafell). Þar er talið að jökull muni hafa hlaupið, og kenndi þaðan jökulfýlu. Fljótið var óreitt alstaðar síðan hlaupið, er síðast fréttist. Allir, sem til Gullfoss ætluðu frá Geysi, orðið að setjast aftur. Svo er sagt, að verið hafi til að sjá eins og í vegg, er hlaupið valt ofan ána.
Ísafold segir frá tíð þann 10.september:
Gæðatíð er enn hér um slóðir, þótt nokkuð sé farið að kólna. Varð ekkert úr, að til votviðra brygði með höfuðdegi. En annað er að heyra að norðan. Maður kom í gær norðan úr Skagafirði og segir þar hafa verið norðansvækjur með kulda og þokum allan síðari hluta f. mán. Um 20. [ágúst] snjóaði svo í byggð í Gönguskörðum, að haglaust var fram á miðjan dag og kúm eigi hleypt út. Varla nokkurt strá komið í garð af útheyi, sakir óþurrka, og þess, að túnasláttur stóð svo lengi yfir, vegna sneggju og þurrka þá, með fólksleysinu. Þessu lík veðrátta, er lengra dró norður. En betra fyrir vestan Vatnsskarð. Fyrir viku sást frá Blönduós hafísjaki geysistór innarlega á Húnaflóa. Annar hafði verið í sama mund inni á Reykjarfirði. Hafísglampi sýnilegur norður undan í allt sumar.
Heldur skánandi hljóð í Austra í september:
[12.] Tíðarfarið hefir verið hið besta nú undanfarandi. Þó hefir snjóað í fjöll síðustu næturnar. [20.] Tíðarfar votviðrasamt fyrripart vikunnar og snjóaði töluvert í fjöll. Síðustu dagana hreinviðri með frosti um nætur. [27.] Veðurblíða á hverjum degi.
Þjóðviljinn ungi birt þann 25. bréf af Vestfjörðum - ólíku tíðarfari lýst:
Úr Norður Ísafjarðarsýslu er skrifað 12. september: Hér hafa í sumar verið sífelldir þurrkar, og blíðskapartíð, svo að heyskapur manna hefir yfirleitt gengið að óskum, þótt tún væru snögg, En það er ekki saman berandi, að fá heyin inn óhrakin, eða fá þau inn kraftlaus í óþurrkatíð, og þá hefir líka verið eitthvað annað, að fást við fiskþurrkunina, en í fyrra sumar. 6. þ.m. snerist veðrátta til suðvestan storma og rigninga, en stóð aðeins 23 daga, og síðan aftur blíðskaparveðrátta.
Úr Strandasýslu, norðanverðri, er skrifað 4.september: Síðan i 14. viku sumars hafa gengið sífelldir óþurrkar norðan Steingrímsfjarðar, svo að stöku menn eiga enn nokkuð af töðum sínum úti".
Norðurland segir þann 20.september:
Tíðarfar mjög kalt, mikið frost á hverri nóttu og svo mikill snjór kominn í fjöllin, að sennilega tekur hann ekki upp aftur á þessu hausti.
Sumarið hefir verið frámunalega þurrt og bjart á Suðurlandi. Ísafold segir, að Þingvallavatn hafi þorrið um 18 þumlunga á rúmri viku í ágústmánuði. Mikill vatnsskortur var í Þingvallasveitinni; t.d. varð að sækja vatn á hestum suður í Þingvallavatn frá Skógarkoti. Skjaldbreiður, Hlöðufell og Hekla alveg snjólaus.
Norðurland segir 27.september:
Heyskapur mun mega segja, að hafi orðið í tæpu meðallagi hér um sveitir almennt, og er í raun og veru furða, hve vel hefir úr honum ræst á þessu sumri, sem er eitthvert hið kaldasta í manna minnum. Nýting hefir verið góð. Kartöflu-uppskera hér á Akureyri er yfirleitt í meðallagi, nema í görðum, sem liggja mjög hátt og móti norðri. Þar hefir hún alveg brugðist.
Október: Hagstæð tíð. Úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt, einkum norðaustanlands.
Þjóðólfur birti þann 3.október pistil úr Rangárþingi - eftirmæli sumarsins og hugleiðingar um sandfok og vatnaágang í sveitinni:
Þá er nú þessi sláttur að kveðja okkur Rangæinga, því almennt voru menn hér búnir með slægjulöndin kringum 13. [september]. Þessi liðni sláttur má kallast einn lygn og fagur sólskinsdagur, og ætti okkur að vera minnisstæður, sem erum venjulega vanir þessari miklu úrkomutíð. Grasvöxtur var yfirleitt með rýrara móti, sérstaklega í þeim hreppum sem fjærst liggja sjónum, svo sem i Landhreppi, efri hluta Rangárvalla og Holtahreppi. Þaðan hafa margir sótt heyskap í Safarmýri, sem er afarlangt, full dagleið frá sumum stöðum; hefur það bætt heyfeng þeirra og heyfyrningar frá fyrri árum, sem munu hafa verið miklar víðast hvar. Aftur munu aðrir hreppar sýslunnar bjarglega heyjaðir, og á sumum stöðum ágætlega; þar sem blaut engi hafa verið að undanförnu urðu í sumar þar auðunnin. Sú votlenda Safarmýri kvað nú að mestu teigslegin, og er það nýlunda, og þeir, sem næstir henni liggja, kappheyjaðir.
Það mun mega fullyrða það, að hér í sýslu sé hlýrri veðurátta en annarstaðar á landinu, og veðursælla. En hér eru líka ýmsir ókostir, er önnur sýslufélög þekkja lítið til, sem eru þessar miklu sandauðnir, er stafa frá Heklugosum frá fyrri öldum. Þegar stormar ganga og standa eftir þessum sandflákum, þyrlast mold og sandur í háa loft, svo varla er ratfært um hábjartan dag. Slíkir sandbylir eru afarskaðlegir, vegna meiri uppblásturs og annarrar óhamingju, er af þeim stafar.
Þá eru það vötnin, sem gera hér ógurlegt tjón árlega, þótt nú hafi þetta ár yfirtekið, þar útlit er fyrir, að einn fjórði hluti Vestur-Landeyjahrepps leggist i auðn út af því, að Þverá, ásamt báðum Rangánum, er þær allar eru komnar saman, hafa á síðastliðnum vetri brotið skarð í bakkann við svonefndan Valalæk, og flóð þar inn á vestasta part hreppsins og gert þar afar spjöll. Til að sjá, er sem grilli í hundaþúfu, þar sem bæirnir standa innan um vatnið. Áður var þessi partur hreppsins einhver sá grösugasti, og gaf af sér heyskap, er fleiri tugum þúsunda hesta skipti. Það er Markarfljót, er þessum ófagnaði veldur; þegar það brýst áfram úr gljúfraþrengslum með sínum jötunkraft og kemur fram á sandana, leggur það lykkju á leið sína til útsuðurs, að Þórólfsfelli; þaðan fellur það með hraðri rás í Þverá, því nógur er hallinn. Þverá myndast af smáám, er falla úr Fljótshlíðinni, en þegar fljótið er komið líka, myndast þar stórt vatnsfall, afarillt yfirferðar, er brýtur árlega margan fagran grasi gróinn blettinn af hinni fögru Fljótshlíð. Aftur, þegar Þverá kemur út í Hvolhreppinn, fer hún hægara, er halli er minni, ber hún þar undir sig sand og aur, svo árbakkarnir, sem eru grasi grónir, eru litlu hærri en vatnsfarvegurinn, og þegar hlaup koma í ána, flæðir hún yfir slægjulöndin, ber þar ofan á sand og möl til stórskaða. Sömu eða verri forlögum sætir neðri hluti Rangárvalla, þegar Þverá með Eystri-Rangá brjótast gegnum svonefnda Bakkabæi út í Þykkvabæjarvötn. Þar á Bakkabæjunum eru óskemmtilegir bústaðir, árbakkarnir svo lágir, skörðóttir og ótraustir, að alltaf má vænta, að þessi mikli vatnskraftur ryðji sér farveg gegnum þessa haldlitlu bakka og flæði svo yfir allt. Í september 1902. M.G.
Austri segir þann 11.: Tíðarfarið er alltaf hið indælasta á degi hverjum er léttir mjög undir með mönnum með öll haustverk.
Arnfirðingur (í Reykjavík) segir þann 14.:
Veður er hér einmuna gott, í samanburði við það,sem vant er að vera um þennan tíma. Regnsamt nokkuð með köflum, en endar alltaf með sólskini og heiðríkju hvernig sem áhorfist.
Þjóðólfur lýsir tíð þann 17.október:
Veðurátta hefur verið ágætlega góð það sem af er haustinu, framhald af hinu fágæta sumri, svo að menn muna ekki eftir jafngóðri tíð samfleytt síðan um sumarmál að kalla má. Enginn snjór fallinn enn hér í fjöll. Skarðsheiði t.d. alauð úr Reykjavík að sjá, nú eftir miðjan október, og hefur þar ekki sést hvítur díll í fjallinu síðan seint í sumar, og þykir Reykjavíkurbúum það fágætt.
Norðurland segir þann 18.október:
Tíðarfar gott enn; nokkuð þó farið að kólna. Jörð alhvít að morgni í fyrradag, fyrsta sinni á þessu hausti og töluvert frost á nóttum.
Norðurland birti þann 29.nóvember bréf úr Dalasýslu, dagsett 24.október:
Sumarið nú að kveðja, sjálfsagt, að minnsta kosti frá sláttarbyrjun, eitt hið besta, blíðasta og hagstæðasta, sem lengi hefir komið, og þá ekki haustið síður. Töður að vísu víða í minna lagi, vegna þurrkanna í vor, en slægjur utantúns urðu á endanum í meðallagi og nýting hin besta.
Norðurland birti þann 1.nóvember skýrslu Stefáns Stefánssonar á Möðruvöllum um veðráttufar sumarsins í Eyjafirði:
Það byrjaði vel, sumarið, með suðaustan hlýju. Síðustu dagana af apríl var um 10 gráða hiti um hádaginn, og frostlausar nætur með alt að 5 gr. hita. Úrkoma var lítil sem engin og loft létt. Um mánaðamótin skipti um veðráttu og var maímánuður allur að heita mátti samfeld harðinda skorpa. Allan mánuðinn voru einar 8 nætur frostlausar (í fyrra 22) og mestur næturhiti 4 1/2 gr. og það aðeins eina nótt. Aðra nótt var 4 gr. hiti, en annars var hitinn 12 gr. hinar 6 næturnar. Í fyrra voru sjö nætur með yfir 5 gr. hita og þar af tvær með 10 og 13 gr. Fimm daga var frost um hádaginn, aldrei í fyrra. 12 daga var hádegishitinn undir 5 gr. 4 daga í fyrra. ... Langhæstur hádegishiti í maí í vor var tæpar 15 gr., en í fyrra voru 4 dagar með yfir 20 gr. hita, 23 gr. hæst. Úrkomudagar voru 20 í maí í vor, 11 daga snjókoma, 4 daga regn og 5 daga þoka. Þann 28. mátti heita stórhríð. Í fyrra snjóaði að eins 4 sinnum og það lítilsháttar, gránaði að eins einu sinni í rót, en festi annars ekki. Norðanátt var nærfellt allan mánaðardaga, brá að eins stöku sinnum til suðvesturs, en stutt í senn.
Engin veruleg breyting varð á tíðarfarinu með júníbyrjuninni, það hélst að heita mátti óbreytt sumarið út. Væri ef til vill réttara að orða það svo, að sumarið hefði eiginlega aldrei gert vart við sig, og síst þá fyrri en með haustinu, en köld vorveðrátta hefði haldist fram í septembermánuð. Þá tók við óvenjulega stillt og mild hausttíð er hélst til veturnótta. Sérstaklega hefir október verið óminnilega góður, oftast logn og úrkomulaust. Snjókoma engin svo teljandi sé, að eins gránaði í fjöll stöku sinnum seinni hluta mánaðarins, og alls einu sinni, aðfaranótt þ.16., fölvaði í sjó niður, en það föl tók aftur samstundis. Í sumarlok var alauð jörð milli háfjalla og fjöru og veturinn byrjaði með 10 gr. hita.
Jörð greri seint, eins og að líkindum lætur, í slíkri vortíð og langt var liðið júnímánaðar, þegar margar þær plöntur, sem venjulega blómgast i maí, opnuðu blómkrónur sínar. En svo hafa margar plöntur blómstrað í óðaönn allt til þessa tíma. Grasspretta varð fremur rýr alstaðar, og sumstaðar brugðust engjar að mestu leyti, t.d. á Möðruvöllum í Hörgárdal; þar varð heyfall ekki helmingur á við það, sem verið hefir undanfarið. Nýting á heyjum fremur í lakara lagi. En eitt er fremur öllu öðru einkennilegt við þetta sumar; það eru kyrrviðrin. Allt sumarið hefir aldrei hvesst til muna. Eina 4 daga, (1. júní, 10. og 11. september og 24. október) hefir verið stinnings vindur, annars logn eða hæg gola.
Vestri segir frá þann 31.október:
Síðan litlu fyrir veturnætur hafa gengið krapahríðir og rigningar, og nú síðast norðan garðar. Í dag (3l.október) var fyrst krapahríð og síðan harðviðrisbylur með talsverðu frosti.
Nóvember: Fremur kalt með nokkurri snjókomu vestan- og norðanlands í fyrstu, en síðan hlý og hagstæð tíð að slepptu einu ofsaveðri.
Fréttablaðið Reykjavík segir þann 8.nóvember:
Fyrsti snjórinn, er komið hefir hér haust, var 30. [október], var þá allan daginn mikil hríð, en daginn eftir var hláka og öll fönn horfin. Síðan hefir að mestu verið þíða. Á Akureyri var alhvítt 17. f.m.
Austri lýsir nóvembertíð stuttlega:
[1.] Tíðarfar er nú aftur hið blíðasta og sá snjór nær allur tekinn upp, er kom hér um miðja vikuna. [13.] Tíðarfar alltaf fremur milt og varla meir en gránað í rót. [25.] Sumarveðrátta á degi hverjum. Snjólaust nema á á hæstu fjallatindum.
Þjóðólfur segir frá þann 7.nóvember:
Hólar komu loks í fyrrakveld með fjölda kaupafólks af Austfjörðum. Skipið var hætt komið í Vestmannaeyjum. Þar var ofsaveður á mánudagskveldið [3.], slitnuðu báðir akkerisstrengirnir, og var skipið nær rekið á land, er það slitnaði upp. Var þá ekki annað fangaráð, en að hleypa til hafs. En um nóttina lægði veðrið, svo að Hólar gátu haldið leiðar sinnar
hingað.
Austri segir nánar af Hólum í pistli 9.desember:
Eftir að búið var að skipa upp fólkinu í Vestmannaeyjum úr Hólum" í síðustu ferð, gerði svo mikið ofviðri, að skipið varð að færa sig af hinni venjulegu höfn vestur fyrir eyjarnar og lagðist þar fyrir báðum atkerum og hélt svo við af fullum krafti með gufuvélinni; en ofveðrið var svo mikið, að það sleit samt báðar atkerisfestarnar og skipið rak út á milli boða og skerja, en fyrir eitthvert lán hlekktist því eigi á og komst nær öllu heilu, að öðru leyti en festunum, inn á Reykjavíkurhöfn daginn eftir. Er það sannmælt um Captain 0st-Jacobsen, að hann er bæði duglegur og heppinn skipstjóri, svo marga raun sem hann hefir komist í hér við land, og sloppið vel frá þeim öllum.
Norðurland segir frá tíð þann 8.:
Snjór kominn töluverður, svo að ófærð er nokkur hér í hlíðunum. En veður milt síðari hluta vikunnar. Fyrstu daga hennar nokkurt frost.
Þjóðólfur birti þann 21. bréf úr Dalasýslu, dagsett þann 10.nóvember:
Tíðin i haust var ágæt fram um 20. október. En svo fór veðurátta að spillast af stórfelldri úrkomu, og nú, síðan 3. nóvember, hefur verið langvinnt ofsarok af norðri, og oft niðsvartir byljir með, svo sem í gær [9.]. Fénaður er því tekinn á gjöf, en sumstaðar vantar enn kindur, og eru þær eflaust hætt komnar. Í sumar var indælasta nýting og tíðarfar, svo heyskapur manna varð hér vestra með besta móti, þótt hann eigi væri með mesta móti því gras var fremur lítið.
Þann 20.nóvember birti Þjóðviljinn ungi bréf frá Ísafirði, dagsett þann 11.:
Tíð hefir verið hér ákaflega stirð síðastliðnar 3 vikur, fyrst sunnanátt og rigningar til mánaðamótanna, en síðan hefir haldist norðangarður, með frosti og fannkomu, og hefir hríðin oft verið svo svört, að varla hefir sést út úr dyrum, enda er jörð nú alþakin snævi, og ófærð mikil, og haglaust þegar fyrir allar skepnur.
Að kvöldi 14.nóvember og nóttina á eftir gerði gríðarlegt illviðri sem olli miklu tjóni. Ísafold segir frá þann 22.nóvember:
Skaðaveðrið í fyrri viku, föstudagskveldið 14. þ.m., hefir valdið allmiklu tjóni víðsvegar hér nærlendis. Þrjár kirkjur hafa fokið, er til hefir spurst: í Keflavík, í Saurbæ á Kjalarnesi og á Hvanneyri. Keflavíkurkirkja færðist spölkorn af grunni og bilaði svo, að rífa verður að sögn. Hún var ekki fullger, en miklu verið til hennar kostað, nokkrum þúsundum. Saurbæjarkirkju tók alveg upp og sendist í loftinu nokkra faðma, út fyrir kirkjugarðsgrindur, kom þar rétt niður að miklu leyti og lítið skemmd. Hvanneyrarkirkja hafði brotnað mjög. Hlöður tvær fuku á Geldingaá í Leirársveit og mörg fjárhús. Sömuleiðis fauk hlaða og fjárhús á Stóra-Botni við Hvalfjörð. Víðar hafa hey fokið og heyhlöður, og skemmdir orðið á opnum bátum, sumstaðar fokið alveg. Kaupfarið, sem sást til hér fyrir utan eyjar, var Valdemar, til W. Fischers. Það kom hér inn á þriðja degi, sunnudag; hafði hrakið vestur undir Jökul, en ekkert orðið að. Missögn, að misst hafi af sér báta sína báða. Hafnsögumennirnir báðir héðan voru í því, höfðu komist út, áður en rokið skall á.
Þjóðólfur segir af sama veðri þann 21.:
Kirkja fauk á Hvanneyri í Borgarfirði í aftakaveðrinu 15. þ.m. og mölbrotnaði. Var reist fyrir 8 árum. Hjá Ólafi bónda á Geldingaá fuku þök af 2 heyhlöðum og víðar í Borgarfirði urðu skemmdir af veðri þessu.
Ofsaveður mikið af landsuðri gerði hér aðfaranóttina 15. þ.m., eitthvert hið allrasnarpasta, er menn muna eftir. Var mesta furða, að ekki varð af því stórkostlegra tjón, en frést hefur um. En mikinn usla gerði það samt víða. Hér í bænum urðu töluverðar skemmdir á húsum, hjöllum og bátum. Fauk víða járn af húsþökum, gluggar brotnuðu og girðingar löskuðust. Þak af hálfsmíðuðu húsi fauk á sjó út og vindmylnan nýja, er höfð var til að dæla vatni úr Landakotsbrunninum (spítalabrunninum) brotnaði öll og beyglaðist, og er það allmikill skaði, því að hún var mestöll úr járni og allur sá útbúnaður kostnaðarsamur. Hér í grenndinni fauk kirkjan í í Saurbæ á Kjalarnesi, fór á hliðina út í kirkjugarðinn, og brotnaði mjög; einnig fauk ófullger kirkja í Keflavík. Í Mosfellssveitinni fuku sumstaðar hey og heyhlöður á 34 bæjum.
Um tjón það, er veður þetta gerði austanfjalls, er getið í eftirfarandi fréttabréfi úr Árnessýslu 18. nóvember: Aðfaranóttina 15. þ.m., um kl.10 e.h., brast hér á upp úr ákafri úrkomu ofsaveður af landsuðri, er hélst fram yfir kl. 2 1/2 um nóttina; í veðri þessu, sem er talið eitt með hörðustu veðrum hér af þeirri átt, fuku hlöður víða, bæði í Tungum og Hreppum; heyskaðar urðu og talsverðir; mestur er skaðinn talinn hjá Vigfúsi bónda í Haga í Eystrihrepp, þar fauk hlaða og þrefalt garðahús (þrísettir garðar voru í því) þetta var allt nýbyggt og hið vandaðasta og brotnaði svo, að ekki var laupsrimarlengd heil; á torfþökunum á bæjum og útihúsum varð mjög mikill skaði og hann svo sameiginlegur, að varla er hægt að færa fram eitt dæmi öðru frekar. Sjór gekk talsvert á land fyrir suðurströndinni og brotnaði brimflaumurinn á sjógörðum þeim, er til hlífðar eru settir við kaupstaðina Eyrarbakka og Stokkseyri, annarsstaðar óð brimaldan innyfir sjávarkampinn. Næturgestum, er verið höfðu á Eyrarbakka um nóttina ofan úr sveitum, þótti þar æði órólegt; ekki kvað samt neitt verulega að skemmdum þar, nema að stór og vönduð heyhlaða fauk hjá Gissuri bónda á Litlahrauni og varð þar heyskaði talsverður. Kirkjan á Eyrarbakka færðist lítið eitt út af grunni. Yfir höfuð vildi það til, að náttmyrkur var ekki, því tungl var í fyllingu og þess vegna farið í mannmörgum hópum að bjarga skipum og bera þau innfyrir sjógarðana og var flestu því lokið, áður en mesti ofsinn brast á. Þegar síðast gaf að róa, var útlit fyrir allgóðan afla, en nú í fulla viku búin að vera frátök.
Þjóðviljinn ungi rekur líka svipaðar fréttir af tjóni í pistlum þann 20., 24. og 30. - við endurtökum ekki það sem þegar er fram komið:
[20.] Hér á nesinu [Álftanesi] fauk sexæringur og bátur á Breiðabólsstöðum, og bátur í Akrakoti, og brotnuðu i spón; skúrir fuku einnig á stöku bæjum, auk annarra smáskemmda.
[24.] Heyhlöður fuku einnig á nokkrum bæjum hér í grenndinni (Blikastöðum, Breiðholti, Hraunsholti og á Hvaleyri), og urðu heyskaðar, meiri eða minni. Þilskip Reykvíkinga, sem hafa vetrarlegu á Eiðsvík, urðu og fyrir talsverðum skemmdum, og eru um 10 skip talin meira eða minna brotin.
[30.] Hlaða og fjárhús fauk einnig að Stóra-Botni við Hvalfjörð.
Vestri segir af veðrinu í pistli þann 18.nóvember:
Ofveður mikið á sunnan var hér i bænum aðfaranóttina þess 15. þ.m. Rúður brotnuðu víða í húsum og ýmsar aðrar skemmdir stöfuðu af veðrinu. Þinghús Eyrarhrepps, sem staðið hefir á Hauganesi í Hafrafellslandi, fauk og var talsvert af viðunum úr því rekið hér út á Tanga um morguninn. Skemmdir urðu talsverðar á bátum o.fl. víða í veiðistöðvum hér í kring og og nýtt smíðahús, eign Bergsveins Ólafssnar i Súðavík,fauk í Álftafirði.
Norðurland birti þann 29.nóvember bréf úr Skagafirði dagsett þann 16.:
Aðfaranótt 14. þ.m. fauk Héraðsvatnabrúin og liggur á ísnum eða í Vötnunum. Hve mikið hún er brotin eða skemmd, hefir enn ekki verið rannsakað. Hefir að líkindum verið miður vel um hana búið. Sama dag fauk og brú á Sæmundará á Vatnsskarði. Viðgerð nauðsynleg þegar í vetur, er skrifað úr Skagafirði. Ódæma fönn. Í Skagafirði, vestanverðum að minnsta kosti, og Húnavatnssýslu, kom ódæma fönn snemma í þessum mánuði, svo haglaust varð fyrir allar skepnur, og hross stóðu sumstaðar í Húnavatnssýslu í sjálfheldu, svo flytja varð til þeirra hey, að sögn. En þegar póstur fór um á norðurleið, var kominn hagi hvarvetna í byggð.
Austri segir fréttir af sköðum á Akureyri í veðrinu mikla í pistli þann 1.desember:
Ofveður mikið af suðvestri gjörði á Eyjafirði 14. f.m. Akureyrarhöfn var lögð, en ísinn fór þegar á rek og fiskiskip þau er voru innifrosin á Pollinum. Eitt af skipunum, Jón", eign Norðmanns kaupmanns, sökk fyrir framan hið svokallaða Torfunef; haldið er, að ef það náist ekki upp aftur, muni það geta orðið til mikilla óþæginda fyrir hina fyrirhuguðu stórskipabryggju sem á að byggja þar. Meiri skemmdir urðu á skipum þeim, er fóru á rek með ísnum, en þó eigi stórvægilegar; eftir ofveðrið lágu skipin hingað og þangað út um fjörð.
Þann 19.desember birti Þjóðólfur bréf frá Patreksfirði, dagsett 27.nóvember. Þar er greint frá tjóni í veðrinu mikla:
Veðurátta hefur verið hér mjög stirð, síðan veturinn byrjaði, sífelldir stormar og kaföld. Þó yfirgnæfði suðvestanveðrið nóttina milli 14. og 15. þ.m. Þá var líka geysistórt flóð, svo sjór féll upp undir hús; sumstaðar fuku bátar. Á Bíldudal er sagt, að fokið hafi 14 bátar og 2 í Tálknafirði. Hér urðu engar skemmdir, sem teljandi sé, helst lítilsháttar á bátum og bryggjum. Nú síðustu undanfarna daga, hefur verið þíðviðri og blíða, svo nú er að mestu leyti leystur allur sá snjór, sem kom í hretinu, þegar Skálholt" var á ferðinni.
Þann 13.desember segir enn af tjóni í sama veðri í Þjóðviljanum:
Eitt af kaupförum Grams verslunarfélagsins Adolph's Enke", er verslun rekur á Dýrafirði, Ólafsvík og í Stykkishólmi, strandaði á Grundarfirði í Snæfellsnessýslu í ofsaveðrinu 14.15. nóv. síðastliðinn. Skip þetta hét Isefjord", skipstjóri Petersen, og var að losa salt í Ólafsvík, er veðrið skall á, en rak þaðan, og strandaði á Grundarfirði. Menn björguðust þó allir, og fóru þeir til útlanda með póstgufuskipinu Laura" í þ.m.
Þann 19.desember birti Þjóðviljinn ungi bréf úr Dýrafirði, dagsett 24.nóvember - þar er líka greint frá tjóni í illviðrinu:
Þegar sumarið og haustið var liðið, með sinu óminnilega hagstæða blíðviðri, þá heilsaði veturinn fyrsta morguninn hér með sunnan ofsaveðri, og húðaregni, þann 25. október, og hélst um næstu 4 daga sunnan hvassviðri með vætu; eftir það gekk í norðaustur, með snjókrapa-illviðri, en hljóp stundum í vestur; en 31. október hljóp í norður, og gjörði eftir það kafalds kafla, og norðangarð strangan, allt til þess 12. þ.m., svo menn urðu að taka fé á gjöf á flestum bæjum. Eftir það voru stormar og þíðviðri nokkra daga, þar til aðfaranótt þess 15. þ.m. gerði hér það afspyrnurok af suðvestri, að slíkt man enginn af þeirri átt, og varð að miklu tjóni á sumum stöðum, báta tók upp, og braut í spón, húsaþök reif og tætti, hjallar fuku og fóru í sjó á sumum stöðum, og hús skekktust, þó traust væru. Á hvalveiðistöð hr. L. Bergs á Höfðaoddanum mölvuðust gluggar allir, þeir er áveðra voru, og stór stykki reif þar og braut úr sumum stórhýsum, og allt fauk og fór á sjó, sem losnað gat. Skaðinn hefir án efa numið þar mörgum hundruðum króna, að ég ekki segi þúsundum; veðrið var allra mest frá kl. 13 um nóttina, og stóð þá loftvogin á 726; en um dægramót var mikið farið að minnka rokið. Í þessu veðri sleit upp kútter Isefjord" á Ólafsvíkurhöfn, sem þangað hafði komið með saltfarm til Grams verslunar; varð skipstjórinn að hleypa inn á Grundarfjörð, og sigla skipinu þar á land, því grunnfæri voru engin. Þessi sami skipstjóri (Petersen) hafði fyrir nokkrum árum strandað á Ólafsvík, þá er hann var með skipið Amicitia" frá sömu verslun, og er hann þó alþekktur sægarpur. Tvö skip hafa komið hingað til Þingeyrar eftir veðrið mikla, og er annað þeirra, Palmen", mjög illa útleikið eftir hrakreisuna, með brotið bugspjót, og skemmt að fleiru. Það er eftirtektarvert, að þessi stórauðugu hlutafélög, sem hafa hér selstöðuverslun, skuli þurfa endilega að stofna lífi manna í opinn háska með saltfarma, þegar allra veðra er að von hér norður í höfum, þrátt fyrir hinar miklu skipaferðir, sem eru orðnar hingað til lands, með gufuskipum allt sumarið, fast til veturnótta.
Þann 22. janúar birti Þjóðviljinn enn fréttir af tjóni í veðrinu mikla, í þetta sinn fengnar úr bréfi úr Strandasýslu sem dagsett var 14.desember:
Í mikla veðrinu, aðfaranóttina 15. [nóvember], fuku 3 bátar á Melum, og brotnuðu í spón, og á Kúvikum 2 bátar, og víða urðu skemmdir á húsum og heyjum.
Desember: Nokkuð umhleypingasamt og snjór eftir miðjan mánuð. Miklar úrkomur á Suður- og Vesturlandi framan af, en síðan þurrt þar. Mikið frost og hríðarveður nyrðra síðustu vikuna.
Jónas Jónassen segir um desembertíðina:
Framan af mánuðinum hér mesta blíðveður dag eftir dag með mikilli úrkomu af landsuðri, hljóp við og við til útsuðurs. Hinn 5. var 10 stiga hiti kl. 10 f.h. og hefur slíkt aldrei komið fyrir um þetta leyti árs 30 síðustu árin. Eftir 23. fór að kólna til muna; nokkur snjór hefur fallið. Afspyrnu norðanrok var hér h. 28.
Þjóðviljinn ungi lýsir desembertíð í nokkrum pistlum:
[13.] Tíðarfar í þ.m. mjög stormasamt, og rigningar öðru hvoru, en hvergi snjó eða ís að sjá, nema á fjöllum, svo að íshúsin hér syðra eru þegar farin að komast í all-mikinn vanda.
[19.] Tíðarfarið einatt mjög stormasamt, sífelldir beljandar nótt og dag. 14. þ.m. dyngdi niður talsverðum snjó, og hefir jörð síðan verið alhvít hér syðra.
[23.] Snjóinn, sem féll fyrri part síðustu viku, hefir nú alveg leyst upp aftur, enda hafa gengið stormar og rigningar undanfarna daga, uns aftur snjóaði í gær.
Norðurland segir þann 6. desember:
Einmunatíð er nú á Norðurlandi. Sumarhiti síðustu sólarhringa, en vindasamt. Bændur eru að rista ofan af þúfum sínum og sumstaðar er verið að grafa kjallara, með því að alls enginn klaki er i jörðu.
Ofsarok var hér í gær frá hádegi og fram yfir miðaftan, mesta hvassviðri, sem hér hefir komið síðan 20. sept. 1900, en ekki nærri eins mikið veður og þá. Skemmdir hafa ekki orðið stórkostlegar hér í bænum, þær helstar, að bátur fauk á Oddeyri og ónýttist, járn fauk af þaki á suðurhlið á húsi Snorra kaupmanns Jónssonar og þak af geymsluskúr Ólafs G. Eyjólfssonar kaupmanns á Torfunefi. Þrír bátar lögðu héðan á stað skömmu áður en veðrið brast á, en menn eru ekki verulega hræddir um þá, með því að sagt er, að lygnara hafi verið úti á firðinum.
Austri segir af sama veðri í pistli þann 9.desember:
Fyrri part dags 5. þ.m. gjörði hér ofveður mikið af suðvestri og hélst það til kvölds. Ekki höfum vér enn spurt það til að veður þetta hafi ollið nokkrum skaða sem tefjandi sé. Þennan dag var 11° hiti R.
Vestri segir frá tíð í pistli þann 9.:
Tíðarfar hefir verið mjög hlýtt og gott undanfarið og er hér alveg snjólaust nema skaflar í giljum og upp til fjalla. Hvassviðri hafa þotið upp með köflum og valdið talsverðum skemmdum. Í gærdag hvessti snögglega og voru þá flestir á sjó og fengu vont veður. Margir Bolvíkingar lentu út í Skálavík og ennþá vantar einn bát úr Hnífsdal. [Í fregn í Vestra þann 16. kom svo fram að báturinn týndist alveg].
Vestri segir meir af sköðum í veðrinu þann 8. í pistli þann 20.:
Nýr bátur og hjallur hafði fokið í Barðsvík á Ströndum 8. þ.m. Sama dag hafði og fokið skip i Grunnavík sem síra Kjartan Kjartansson á Stað átti og skemmdist það eitthvað. Snemma í þ.m. hrakti 30 fjár í sjóinn í Innri-Fagradal í Dalasýslu. Um sama leyti urðu talsverðar skemmdir á húsum i Ólafsdal.
Austri birti þann 31.janúar 1903 bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 4.desember:
Tíðin hefir verið misjöfn. Frá miðjum september framundir veturnætur sífelld blíða, logn og frostlaust dag og nótt; sprungu út sóleyjar og fíflar. Þá hófust ákafir umhleypingar er enduðu með gríðarmikilli hríð og norðan snjókomu snemma í nóvember. Kyngdi þá niður þeirri fönn á einni svipan að elstu menn muna ekki slíkt. Hross stóðu í svelti og átu föx og tögl hvert af öðru. Þó tók útyfir í Svínadal, þar komust menn varla til húsa og urðu að flytja hrossum fóður á á skíðasleðum, komu þeim ekkert þaðan er þau stóðu. Fátt mun þó hafa drepist af hrossum, 1 eða 2 fennt er til hefir spurst. Um miðjan nóvember brá til sömu blíðviðra og áður, hægrar sunnanáttar, sem helst enn, er nú snjólaus öll jörð fyrir löngu nema fjöll, þó má heita að nýkomin sé jörð upp fremst í Svínadal.
Ísafold birti þann 10.janúar 1903 bréf úr Strandasýslu sunnaverðri, dagsett 10.desember:
[H]austið frábærlega gott allt fram á veturnætur; þá gjörði rosakafla, sem endaði með því, að nóttina milli 4. og 5. nóvember rak niðar svo mikinn snjó, að enginn man slíkan. Tók þá alveg fyrir haga og hélst það nær hálfan mánuð, en aldrei voru mikil frost og oft alveg frostlaust svo snjórinn seig mikið. Nú er allur snjór löngu farinn og jörð alveg þíð, úrkomur fremur litlar, en oft snarpir suðaustanstormar; þó hefir ekki orðið neinn skaði hér að þeim, sem teljandi sé. Sauðfé var allstaðar hýst, þegar snjórinn kom, en hross voru víða uppi á heiðum og var mjög erfitt að ná þeim; sumstaðar sultu þau svo dögum skipti áður en komist varð til þeirra.
Þjóðólfur birti þann 9.janúar 1903 bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 10.desember:
Að kveldi 5. þ.m. fauk i afspyrnuroki eldur úr ofnpípu í töðuhey Hannesar bónda Magnússonar á Árbakka og brann það til ösku, nema 1012 hestar, er rifnir voru úr því, og eru varla ætir fyrir ösku. Var þetta slæmur bagi fyrir hann. Í sama veðri missti Árni bóndi Jónsson á Þverá í Hallárdal 6070 hesta af útheyi úr heytóft og Björn sonur hans um 10 hesta. Úr húsinu þar brotnuðu flestir gluggar að neðan og mátti fólkið vaka alla nóttina við að halda rúmfötunum í gluggunum. Þar rauf og þök af húsum og viðurinn líka t.d. úr skemmu nýbyggðri og braut svo viðurinn gluggana. 50 ára gamalt þak rauf af smiðju þar eða kofa.
Bjarki segir 12.desember:
Öskuryk segja Héraðsmenn að sést hafi undanfarandi í ull á fé og geta sumir til að eldur muni vera uppi einhverstaðar inni á öræfum. En engar fregnir segja póstar um það, sem nú eru þó nýkomnir.
Óvenjuleg hlýindi á þessum tíma árs hafa verið hér það sem af er vetrinum. Jörð hefur verið þíð eins og á sumri og menn hafa starfað að jarðabótum og byggingum. Úr Tungunni er skrifað, að síra Einar Jónsson á Kirkjubæ hafi nú á jólaföstunni látið byggja beitarhús og stóra hlöðu út á milli Kirkjubæjar og Gunnhildargerðis. Lagarfljótsbrúin. Í rigningunum í síðastliðinni viku óx Lagarfljót svo, að það flóði yfir brúarpallinn, sem þar stendur enn síðan hætt var smíðinni. Sýnir það, að brúin hefði orðið of lág, ef haldið hefði verið áfram eins og byrjað var. Tíu af stærstu járnbitunum kvað hafa lent í fljótið, en líklegt talið að ná megi þeim upp aftur. Þar sem tjöld byggingamannanna stóðu var vatnið nær því í mitti. Rambúkkinn, sem lent hafði í fljótið í fyrravetur, náðist upp í haust.
Bjarki segir 19.desember:
Vatnagangur var svo mikill í Fljótsdal í rigningunum um daginn að menn muna ekki annað eins: Keldá, sem rennur rétt hjá Þorgerðarstöðum, óx svo, að hún flóði upp á hlað og lá við sjálft að fólkið yrði að flýja úr bænum. Skriða mikil féll niður á engið á Víðivöllum fremri og Arnaldsstöðum og skemmdi það stórlega.
Norðurland birti þann 13.desember skrif úr Mývatnssveit, dagsett þann 7.:
Hér í uppsveitunum varð skarpt um jörð um hálfsmánaðartíma. En síðustu daga í nóvember gekk upp [með] landsunnan-hlákur, sem hafa haldist meira en viku. Óvenjulega hlýtt og veðragott, enda öríst. Kominn var hestís á Mývatn, en braut allan. Er víst dæmafátt að sjá það marautt á miðri jólaföstu.
Ísafold segir þann 17.: Nú hefir loks skipt um veðráttu: snjóað dag eftir dag lausamjöll frá því á helgi. Frost mjög lítið.
Ísafold segir þann 27., undir fyrirsögninni Eftirmæli ársins:
Sjaldgæft vetrarharðindaleysi auðkennir öllu öðru fremur tíðarfarið hér á landi þetta ár, sem nú er á þrotum. Það ríður að líkindum að fullu aldamótaharðindahjátrúnni. Því fleiri ár af 20. öldinni er varla hægt að telja til aldamóta. Að sumarveðráttu tvískiptist landið, eins og oft ber við. Mikil veðursæld um Suðurland; en norðan og austan með mestu kuldasumrum og óþerra því meiri, sem lengra dró austur; og var orsökin hafísar í meira lagi, er komu þó eigi fyrr en svo, að ekki ollu vetrarharðindum, eða varla nema vorkuldum.
Hvít jól. Hér hefir verið alhvít jörð frá því fyrir jól og er enn. En frostvægt.
Austri segir þann 17.janúar 1903 af mannsköðum seint í desember:
Jón nokkur Teitsson, sem verið hefir hér á Seyðisfirði,varð úti á þriðja í jólum milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Á gamlárskvöld varð úti milli bæja konan Anna Pétursdóttir frá Miðhúsum i Eiðaþinghá. Hún hafði frá því í vor búið ein í bænum.
Þann 20.febrúar 1903 segir Þjóðólfur fréttir frá Fáskrúðsfirði:
Milli jóla og nýárs kom hér voðalegt austanveður og urðu hér töluverðar skemmdir á útihúsum. Á Kappeyri fuku 2 fiskihús og hjallur og 2 bátar, annar í spón, hinn nokkuð brotinn, en húsin öll fóru í mola og tapaðist mikið úr þeim. Í Árnagerði fauk hjallur, hlaða og nokkuð af heyi, á Kolfreyjustað skúr og eitthvað af fé fór í sjóinn, á Höfðahúsum fór eitthvað af fé í fönn, í Vík fauk hlaða og mikið af töðu, um 5060 hestar, og hjallur og hestbús. Það sem verst var, voru þetta flest bláfátækir menn, sem urðu fyrir þessu.
Þann 25.febrúar 1903 birti Þjóðviljinn bréf úr Norður-Ísafjarðarsýslu, dagsett 27.janúar. Þar er getið tjóns í suðvestanveðrum haustsins - en ekki greint á milli þeirra - en líklegast er þó að skaðinn hafi orðið um miðjan nóvember eða 5.desember:
Tíðin í haust var rosasöm; þrjú stórfengleg suðvestanrok komu hér hvert eftir annað, þótt eitt þeirra tæki yfir, því elstu menn muna vart annað meira, enda gerði það hér nokkurn skaða á húsum og bátum voru það einkum skektur, er fuku, og brotnuðu meira eða minna. Á Seljalandi fauk þak af flestum húsum að meira eða minna leyti, og eitthvað af hlöðunum sligaðist ofan á heyin. Á Dvergasteinshvalveiðistöð fauk nokkuð af lausavið og tunnurusli, og varð það þeim að happi, er það rak hjá.
Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1902, ískomu og illviðrum. Að vanda eru ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 12.3.2019 kl. 21:04 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 63
- Sl. sólarhring: 312
- Sl. viku: 2442
- Frá upphafi: 2434884
Annað
- Innlit í dag: 59
- Innlit sl. viku: 2169
- Gestir í dag: 57
- IP-tölur í dag: 55
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.