Skýjabönd

Í dag (fimmtudag 22.nóvember) voru mjó skýjabönd áberandi á himni yfir höfuðborgarsvæðinu - og reyndar víðar um land. Við getum að vild kallað þetta klósiga eða blikubönd. Margar myndir hafs sést af skýjunum á samfélagsmiðlum. Við lítum á eina til viðbótar - tekna ofanfrá auk þess sem velt verður vöngum yfir stöðunni í háloftunum (ekki þó á mjög heiðskíran hátt).

w-blogg221118a

Þetta er hitamynd sem tekin er laust fyrir klukkan 17 í dag. Ljósustu svæðin eru köldust, háský nærri hvít. Ör bendir á eitt skýjabandanna - það er mjög mjótt - en gerðarlegri bönd eru yfir Suður- og Austurlandi. Við tökum eftir því að böndin liggja í stefnuna suðvestur til norðausturs. Kaldi sjórinn milli Vestfjarða og Grænlands sést einnig vel - með straumsveipum. Eitthvað af ís mun komið inn á það svæði. 

Við lítum þvínæst á stöðuna í háloftunum og veljum 500 hPa-flötinn. Vel má vera að skýin hafi verið hærra á lofti en hann.

w-blogg221118b

Hæðarhryggur er yfir landinu. Hæðarmiðja rétt vestan við land - og önnur meiri utan við hægri jaðar kortsins, en vægt lægðardrag á milli hæðanna. Strikalínan sýnir það. Það liggur í svipaða stefnu og skýjaböndin. Fyrir sunnan land er kuldapollur sem kom langt austan úr löndum og Atlantshafið er nú að verma. Mjög krappt lægðardrag er við Norðaustur-Grænland, tengt kuldapolli sem fór yfir jökulinn. Lægðarmiðjan er rétt utan kortsins. 

Loftið vestan og norðan lægðardragsins er komið yfir Grænland - skraufþurrt og veltist óskipulega fram hátt í lofti - eins konar iðukast frá kuldapollinum krappa norður af. Það er eftirtektarvert að vindur blæs þvert á jafnhæðarlínur á blettum norðan lægðardragsins (t.d. inni í hringnum sem settur er á kortið). Þetta ber við þegar hlutirnir eru ekki í jafnvægi - oft víkur nokkuð frá - en hér óvenjugreinilega - eitthvað er að sullast um. 

Skýjaböndin eru á einhvern hátt tengd þessum mótum norðvestanlofts og þess sem kemur úr suðri - en óráðlegt að smjatta mikið á því.

Á síðustu myndinni má sjá umfang Grænlandsloftsins.

w-blogg221118c

Við skulum ekki velta okkur upp úr þessari mynd - hún er alltof flókin til þess - en lífræn er hún og sýnir mjög skýrt einhver veðurkerfi sem annars eru nánast ósýnileg. Hæðin við Vestfirði er þó sú sama og á fyrra korti (þetta gildir 3 klst síðar), kuldapollurinn krappi stýrir rauða flekknum. Örmjótt band mikillar lægðaiðu - hægrihandarsnúnings (kemur fram þar sem vindur snýst á áttinni) liggur úr honum og suðvestur um Ísland - á svipuðum slóðum og strikalínan á fyrra korti. Skýjaböndin eru sunnan við þetta band. Grái bletturinn sýnir hins vegar mikinn hæðarsnúning - vinstrihandarsnúning  - reyndar meiri en vindkerfið gefur tilefni til. Kannski er verið að greiða fyrir dýra úttekt kuldapollsins á lægðaiðu? 

Þetta eru harla dularfull veðurkerfi - en þau bjuggu alla vega til þessi fallegu skýjabönd í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 135
  • Sl. sólarhring: 303
  • Sl. viku: 2678
  • Frá upphafi: 2414533

Annað

  • Innlit í dag: 123
  • Innlit sl. viku: 2487
  • Gestir í dag: 114
  • IP-tölur í dag: 106

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband