28.11.2018 | 22:21
Af árinu 1825
Veðurfar var ekki alslæmt á árinu 1825, Giskað er á að meðalhiti í Reykjavík hafi verið 3,0 stig, en 2,2 í Stykkishólmi. Fyrstu tveir mánuðir ársins voru kaldir, mars sæmilega hlýr, en apríl aftur á móti sérlega kaldur og maí kaldur líka. Ágúst nóvember og desember voru einnig kaldir, en aftur á móti hlýtt í september og október. Ekki var mælt víða. Jón Þorsteinsson landlæknir mældi í Nesi við Seltjörn og séra Pétur á Víðivöllum framan af ári. Ber þessum mælingum vel saman fram undir vor, en síður næstu mánuði þar á eftir. Má vera að það stafi af því að mælingar Péturs voru gerðar mjög snemma morguns. Vorið var þurrt, stillt og næturfrost mjög tíð nyrðra - hinn víði Skagafjörður dæmigerður staður fyrir kalda morgna við slík skilyrði - þó mjög hlýtt geti verið þar að deginum.
Myndin sýnir daglegan morgunhita í Nesi. Við sjáum að allgóða hláku gerði snemma árs - hennar er getið í öðrum heimildum. Mesta frost ársins mældist 2.febrúar, -20,5 stig. Það er mikið á Seltjarnarnesi. Allgóður hlákukafli var í mars, en afarkalt í apríl eins og sjá má og sömuleiðis gerði allsnarpt kuldakast snemma í júní. Fjölmargir góðir dagar komu síðan í júní og júlí, en ágúst var almennt kaldur eins og sjá má - þó hann hafi skilað hæsta hita árins í Nesi.
Myndin sýnir morgunþrýsting í Nesi 1825. Árstíðasveiflan er hefðbundin að því leyti að þrýstingur er viðloðandi hæstur um vorið - en öfgar eru ekki mjög miklar - nema óvenjulegur háþrýstingur - miðað við árstíma - var nokkra daga eftir miðjan júlí. Í annálatextum er talað um að mikla hita hafi gert um sumarið - e.t.v. hefur það verið um þetta leyti og fyrr - en engar mælingar höfum við sem geta sagt okkur hversu miklir þeir voru - nema eina tölu sem Espólin nefnir (sjá hér að neðan) og gæti verið af mæli Péturs á Víðivöllum.
Við látum nú heimildir lýsa tíð og veðri og byrjum á ársyfirliti annáls 19. aldar. Annállinn segir að vanda frá mörgum mannsköðum - en þar sem þau verða ekki sett á ákveðna daga eða vikur látum við þeirra flestra ekki getið hér:
Árið byrjaði með harðviðrum og frosti; hlýnaði um þrettánda og kom leysing mikil, herti aftur með þorra; var hann umhleypingasamur með snjókyngjum, jarðbönnum og áhlaupsbyljum fram undir sumarmál, einkum norðan- og austanlands. Vorið var stormasamt og kalt, stundum með fjúkgangi og greri seint. Sumarið var allgott, voru þó kuldaköst öðruhverju, en afarheitt á milli; varð heyafli nærri meðallagi, því nýting var víða hagkvæm. Haust frá Mikaelsmessu var votsamt fram yfir veturnætur, úr því harðnaði með skörpum frostum, stormum og hríðum til jólaföstu. Eftir það var allgóð tíð til ársloka. Hafís lá fyrir Norðurlandi um vorið.
Við reynum að skipta heimildunum niður á árstíðir og byrjum á vetri:
Brandsstaðaannáll segir frá:
Fannlög lágu nú fjarskaleg, en 5.janúar kom hláka, rigning og vatnsgangur langt framúrskarandi og stórflóð í vatnsföll þann 10.-11. jan. Stórskemmdir urðu víða á engi fyrir jakaruðning og hestar fórust í Víðidalsá og Hvítá í Borgarfirði. Hlákan varði 8 daga og urðu heiðar auðar. Eftir það útsynningar og éljagangur með hægu frosti. Með febrúar fannakafli til 13., að tók upp aftur, síðan mjög óstöðugt, en frostalítið. Um miðgóu fóru vermenn suður, þangað til bannaði ófærð og höstugt veður. Í góulok besti bati og vorgæði á eftir, utan snjóíkast 8.-17. apríl.
Espólín segir af vetri:
CXLIII. Kap. Var kuldasamt og snjóamikið og jarðbönn öndverðan vetur og gjörði áhlaupabylji mikla eftir þrettánda, en jörð kom upp og urðu skriðuföll og flóð mikil. Voru umhleypingar miklir á þorra og byljir og var þungur allur vetur öndverður austnorður um, urðu menn nokkrir úti í Þingeyjar þingi, en 8 í Húnavatns þingi og fjárskaðar miklir. Fiskur var mikill fyrir syðra og eystra, en litlar gæftir, var og mikill fiskur fyrir Jökli; á góu voru hlákur og veður hörð, og gjörðu skaða sumstaðar, svo var og öndverðan einmánuð; ... Kályrkja hafði verið allmikil í Dalasýslu sumarið fyrir (s 151).
Á kyndilmessu [2.febrúar] urðu úti 8 manns í Húnavatnssýslu, flest nálægt Blöndu. [neðanmáls: Frá þeim atburðum er greinilegast sagt í Húnvetningasögu Gísla Konráðssonar]. (s93)
Klausturpóstur 1825 (viii,1, bls.20).
... frá því seint í september til þrettánda jóla aldrei linnt mikilli kulda veðráttu, frostum og í mörgum sveitum miklum snjóa þunga og jarðbönnum, án þess nokkurn tíma fyrr hlánaði.
Klausturpósturinn 1825 (VIII, 3, bls. 51)
Vetrarfari til þrettánda lýsti Klausturpósts bls. 20. Hlákan þá varð mjög stórkostleg með ofsaveðrum og óveðráttu; leysti samt snjó, svo kom upp jörð um hálfann mánuð, en olli mikilla skriðufalla og ofsa flóða, sem sumstaðar drekktu löndum og 6 hestum til dauðs í Norðurá í Mýrasýslu og skekktu Sauðlauksdalskirkju á Barðaströnd. Snjóflóð tók af baðstofukarm í Reynishverfi í Mýrdal eystra með 1 manni í, sem fórst. [... um slys ótengd veðri] Þorrinn leið út með ofsa umhleypingum, áfreðum og jarðbönnum, snjóa kyngjum og áhlaupa byljum. Í útsveitum Múla- og Austur sýslum þungur vetur frá hausti, sjaldan gaf á sjó til febrúar loka, en hlánaði þá með góu. Fiskur var samt nógur og góður fyrir austan og sunnan með kominn í Garð innfyrir Suðurnesja skaga. Nógur líka kringum Snæfells Jökul, hvaðan vissari fregnir fækka nú marsvína fenginum til 5 eða 600 og stytta Bjarneyjar hvalinn til 27 álna. Hey reynast víða mjög þrota létt og mjólkur treg, sem eykur á vetrar harðindin. Átta menn urðu úti í Húnavatns sýslu um kyndilmessu.
Klausturpósturinn 1825 (VIII, 12, bls. 204)
Á bls.51 minntist ég á vetrarfar og árgang til öndverðs marsmánaðar, en úr því til vordaga linnti ekki ofsa umhleypingum með stormi og köföldum af öllum áttum. Þó vetur hér yrði frostvægur, þótti hann engu að síður einhver hin þyngri, því sjaldan gaf flestum ástöðuveður, sjaldan skipum ræði á sjó án hrakninga og lífsháska manna. Vegna sérlegra ógæfta varð því arðsvonin af snemma að landi gengnum vænum fiski sunnanlands, einkum í Faxafirði, í uppskerunni rýr, en almennt tjón margra á þau svo útdragandi, dýra og fjöldanum óholla neta útbúnaði, olli margra útörmun; því sumir er allt höfðu til láns fengið týndu þar við meir en aleigu virði; fæstir komust skaðlítið af, einstökum fáum vegnaði betur. Austanmeð og í Vestmannaeyjum fiskaðist betur og undir Jökli.
28-2 1825 (Jón Þorsteinsson athugasemd í veðurskýrslu): Den 18de Januarii mærkedes hæftigt Jordskjælv. [Vart varð við öflugan jarðskjálfta þann 18. janúar)
Saurbæ Eyjafirði 5-2 1825 [Einar Thorlacius] (s13)
Sumarið [1824] var hið allra blíðasta þangað til einum mánuði fyrir vetur, úr því einlæg frost og lognkyrrur til þess um þrettánda, þá tók upp allan þann snjó, sem féll á jólaföstunni. Nú hafa aftur í viku gengið skörp norðan kaföld. Um þrettándann heyrðust í vetur í Norður-sýslu iðulegir landskjálftar, og meintu menn þann ókyrrleika í Mývatns gömlu eldfjöllum.
Jón á Möðrufelli talar ekki illa um veturinn, segir að janúar megi telja góðan, þann 15. segir hann að komið hafi allra besti bati og að öríst sé orðið. Bylji gerði um mánaðamótin og þann 5. febrúar var kominn mikill snjór, febrúar segir hann nokkuð stopulan að veðráttu, en vel í meðallagi. Mars telur hann makalaust dágóðan, apríl í kaldara lagi, um tíma hafi tíð verið hörð og frostasöm, en segir mánuðinn útliðinn hafa verið yfir höfuð nokkuð góðan. Betur hafi sum sé ræst úr en útlit var fyrir um tíma.
Vor og sumar:
Brandstaðaannáll:
Eftir 8. maí gróður og votviðri, en eftir hvítasunnu [22.maí] sífelld norðanátt, oft kalsi og næturfrost. Lestir fóru í júnílok. Gáfust þá enn þurrviðri. 17.-18. júlí rigndi mjög. Ei varð meir en meðal grasvöxtur. Sláttur byrjaði um mitt sumar. Var rekjusamt og ógnarleg rigning nóttina 31. júlí. Féll þá stór skriða í Guðrúnarstaðahlíð [í Vatnsdal] úr fjallsbrún ofan í á. Var hún engri skepnu fær viku á eftir. Skemmdust þá mjög hálfþurrar töður. Síðan vætur og þerrileysi til 9. ágúst. Tún urðu hirt 15.-19. Geisaði um sláttinn landfarsótt, er tálmaði mjög hirðing á heyi. ...
Espólín:
CXLVI. Kap. Hafísar voru fyrir norðan og vorið afar kalt og þurrt eftir hvítasunnu, en aflaleysi fyrir sunnan sakir ógæfta. Umhverfis Jökul var fiskur mikill, og þaðan sóktur úr öllum áttum, og jafnvel sunnan af Akranesi, er ei hafði heyrst áður, og fékkst fyrir hvað eina fyrst og neyttu þess margir og höfðu mikið lið af, þeir er nærri voru; en svo var mikil aðsóknin, að mjög var uppgengið er menn komu þangað úr Skagafirði og Eyjafirði, og var þá fulldýrt orðið. (s 153). Grasvöxtur varð í meðallagi, en eftir kuldana gjörði um vorið hita mikinn nær hálfum mánuði, svo 22 tröppur voru í skugga (Réaumur) [27°C] , og þó þar sem norðan svali náði til, en meir en þriðjungi heitara í sól við logn, kólnaði þó brátt aftur, en jafnan voru hitar öðruhverju allt sumarið. (s 153). Leit þunglega út, er menn voru flestir sjúkir meðan heyskapurinn var mestur, en þó varð hann sæmilegur, því nýtingin var hin besta, og góðviðrasamt lengi um haustið (s 154).
Klausturpóstur:
Vorið varð gott og snemmgróið; Sumarið heitt og spakt gaf allgóðan grasvöxt, en harðir og kaldir norðan-stormar í hálfan mánuð sem féllu á í júlímánaðar lok, ofaná þann hita, kveiktu mikla og þunga kvef-landsfarsótt, sem um allan ágúst geisaði yfir mestallt land: lagðist yfrið þungt á aldrað fólk, líka á unga og leiddi marga í gröfina einungis í Húnavatnssýslu tjást 40 manneskjur af þessum kvilla burtdánar eða hélt þeim lengi rúmföstum um besta bjargræðis tíma. Þetta og langsöm rigning í mánuð, spillti mjög heyafla og fengi fólks, þar sem taða lá víða hrakin á tínum í ágústmánaðar lok og vellir voru eigi fullslegnir, svo til fellirs horfir einkum um Suðurland, reynast nú og hey mjög svo dáðlítil til mjólkur. Vestra og nyrðra og eins um Austurland varð vætuminna og af-farabetri góður heyskapur.
16. ágúst 1825 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973): (bls.176)
Nýting heyja er þar til einhver hin bágbornasta hér um sveitir, svo lítur út fyrir, að lífið verði þeim erfitt, er af tóra og sóttin ei burtu tekur.
Bjarni Thorarensen segir frá óheppilegri verkan norðankastsins í ágústbyrjun 1825 og kenningum sínum um það í bréfi sem hann ritar í águst árið eftir (1826):
Gufunesi 19-8 1826 (Bjarni Thorarensen):
... en víst er það að hann [fjármissir] á Suðurlandi, hvað sem hvör segir hefir verið af hálfeitruðum heyjum, því á þeim jörðum sem fé var lítið sem ekkert hey gefið, lifði sauðfé þó horjarðir væru, en þar drapst það helst sem því var mest hey gefið. Svoleiðis misstu helst heybændur sauðfé í Borgarfirði sjálfur ég hefi misst 80 fjár, en í 120 sem ég átti gengu hátt á þriðja hundrað hestar af heyi - ... Ég verð annars að bera undir þig mína hypothese um þennan viðburð, og hún er, að snemma í ágúst í fyrra kom norðanveður mikið með þoku og með því sama kom sótt á menn sem þú allareiðu í fyrra hefir frétt um ég þóttist finna í vetur að hey sem aflað var undan þessu norðankasti var allt (s168) annað en það sem seinna fékkst nú hygg ég að eldur hafi verið uppi í óbyggðunum í útnorðri á Íslandi, og vindurinn þaðan fært líka óveru í lofti með sér sem íslenski eldurinn árið 1783. Að eldur hefur áður sést í þeim norðurpörtum heims er víst. (s169)
Jón á Möðrufelli segir maí hafa verið stilltan vel og hagstæðan, en þurran í meira lagi og náttfrosta getur hann einnig. Júní hafi oftast verið kaldur, sérlega hafi tíð verið bág fyrstu 10 dagana, síðan var skárra. Júlí var allgóður, en óþurrkar í enda hans. Ágúst segir hann stopulan að veðráttu.
Brandsstaðaannáll segir af hausti:
Haustið gott. (s91) Á Mikaelsmessu [29.september] stórrigning og hret 3 daga og aftur 12.-13. okt. Flóði mjög yfir jörð, en þítt og gott veður lengst. Með nóvember frostasamt, 6. snjólag, seinna blotar, er hertu á jörð til hálsa. Í desember stillt austanátt, hláka fyrir jólin og autt neðra, eftir það frost mikið. Jarðlag var lengst að notum til nýjárs. (s92)
Klausturpósturinn:
Haustið frá Mikjálsmessu til veturnátta var frostalaust en stormasamt. Úr því varð veðuráttin mjög umhleypingasöm, með regnhríðum og sterkum frostum á víxl og norðan stormum sem enn á viðvarir. Fiskur hefir hér í Faxafirði verið nægur fyrir, en ógæftir hafa hindrað fólk frá afla hans.
Einar Thorlacius í Saurbæ í Eyjafirði segir frá sárköldu voru, hlýju og góðu sumri en kennir eins og fleiri hitum um kvefpestina:
Saurbæ Eyjafirði 5-2 1826 [Einar Thorlacius] (s14) Sumarið var hér hjá oss uppá veðráttufar, úr því það sárkalda vor var liðið, hlýtt og gott, þó nokkuð votviðrasamt úr því halla tók, en sá sterki sumarhiti olli megnum sjúkdómi ... Haustið var einnig mikið gott, og vetur frá jólaföstu allt til þorra með lognkyrrum og blíðviðrum, áður og síðan nokkuð höstugt.
Jón á Möðrufelli segir september vel í meðallagi og október mikið góðan sérstaklega framan af, nóvember hafi verið í meðallagi, en desember stilltur.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín:
Ár í fyrra fjarri kyrru lagi
kvaddi mó og karfabeð
kulda, snjó og frosti með
Knúts með degi kynja tregi skýja
féll hér niður foldu á
frekar skriður runnu þá.
Margar jarðir misstu svarðargæði,
leir og sandur rann um reit
rýrði landa hagabeit
Seiglu veitur segja letur væri,
byggðir hrepptu býsna snjó
batnaði eftir páska þó.
Vorsins tíðin valla blíð að kalla,
þægð með dula þjórs um haf,
þurrk og kulda nógan gaf.
...
Nýting heyja hér má segja slæma
en í meðalmáta fram mun téð að vexti samt.
Haustið sendi hretin kénd er náðu
éljum kasta á jarðarslóð
jólafastan varð þó góð
Í ritinu Skriðuföll og snjóflóð (2.bindi, 2.útg. s130) er haft eftir sóknarlýsingu Kolfreyjustaðarsóknar að þetta ár hafi síðustu hús eyðikots, Aragerðis, eyðst í mikilli skriðu. Svo segir: ... þá tók kotið gersamlega með húsum, túni og engjum af geysimiklu skriðufalli úr framanverðum Hoffellsdal. Skriðan var 60 til 200 faðma breið og féll suður yfir Dalsá. Skemmdi hún einnig stórlega Kirkjubólsland. Þetta er talið orsakast af stöðutjörn, er í stórrigningu hleypti fram melhól, sem stóð í dalsmynninu.
Þorvaldur Thoroddsen hefur eftir Ó.Þ. að hinn 5.janúar hafi sést töluverður ís úr Ólafsfirði, 6.mars hafi frést um ís úr Fljótum og 18.maí var ekki hægt að komast af Siglunesi fyrir hafís.
Í dagbók Ólafs Eyjólfssonar á Uppsölum í Öngulstaðahreppi [íbr36 8vo]segir af miklum hafís á Eyjafirði þann 16. apríl.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1825. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt árbóka Espólins. Finna má lítilsháttar talnaupplýsingar í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 29.11.2018 kl. 02:05 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 1098
- Sl. sólarhring: 1109
- Sl. viku: 3488
- Frá upphafi: 2426520
Annað
- Innlit í dag: 983
- Innlit sl. viku: 3139
- Gestir í dag: 950
- IP-tölur í dag: 879
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.