Fjólublái liturinn

Það er nokkuð misjafnt frá ári til árs hvenær á haustin fjólublái þykktarliturinn birtist fyrst á norðurhvelskortum þeim sem hungurdiskar sýna oft. Sé svæði litað fjólublátt er þykktin þar minni en 4920 metrar - ekki fjarri minnstu þykkt sem nokkru sinni hefur mælst við Ísland. Af þykktinni ráðum við hita í neðri hluta veðrahvolfs - því minni sem hún er því kaldara er loftið. Hér við land er meðaltal hennar í nóvember 5280 metrar, 5240 metrar í janúar, en um 5460 metrar í júlí. Þykktin sveiflast þó mjög mikið frá degi til dags, rétt eins og loftþrýstingur og hæð háloftaflata. 

w-blogg051118a

Í grófum dráttum fylgir vera fjólubláa litarins nokkurn veginn íslenska vetrinum. Hann fer að sjást á kortunum í kringum fyrsta vetrardag - slitrótt í fyrstu en síðan nærri samfellt en hverfur svo aftur í kringum sumardaginn fyrsta - fyrst dag og dag en síðan alveg. 

Kortið hér að ofan sýnir stöðuna í dag, sunnudaginn 4.nóvember. Þá má sjá örlítinn fjólubláan blett í miðju kuldapollsins sem við höfum hér á hungurdiskum kallað Síberíu-Blesa - til aðgreiningar frá frænda hans yfir Kanada, sem við höfum kallað Stóra-Bola. Þeir félagar sameinast stöku sinnum yfir Norðuríshafi eða taka dans saman og skiptast á stöðu. 

Einmitt núna er Síberíu-Blesi mun gerðarlegri - enginn verulegur kuldi ógnar Íslandi - og Stóri-Boli virðist ætla fyrst í einhverja suðursókn áður en hann slær sér í átt að okkur. Mikil hlýindi eru yfir Evrópu sérstaklega frá Finnlandi suður á Balkanskaga. Köld lægð er við Ítalíu (ekki köld að vísu á norrænan mælikvarða) en hún er nokkuð snörp og hefur valdið þar sérlega erfiðu veðri undanfarna daga - eins og kuldapolla er háttur. 

Snarpar, stuttar bylgjur berast til austurs um Norður-Ameríku og út á Atlantshaf. Ein þeirra var í dag nærri Nýfundnalandi og á að fóðra mjög öfluga lægð fyrir sunnan land næstu daga. Lægðin sú á að krækja í eitthvað af hlýju lofti úr suðaustri og bera hingað til lands. Spár eru þó ekki einróma um hversu hlýtt verður eða hversu lengi þau meintu hlýindi munu standa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg220125a
  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 531
  • Sl. sólarhring: 637
  • Sl. viku: 2910
  • Frá upphafi: 2435352

Annað

  • Innlit í dag: 485
  • Innlit sl. viku: 2595
  • Gestir í dag: 465
  • IP-tölur í dag: 447

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband