Litlar breytingar næstu daga - en síðan?

Litlar efnislegar breytingar virðast ætla að verða á veðri næstu daga. Suðvestanáttin heldur sínu striki með dimmviðri suðvestanlands, en betra veðri og jafnvel hlýjum dögum á Norðaustur- og Austurlandi. 

Til lengri tíma litið er engum breytingum lofað, en líkur á slíku eru þó dálítið meiri í dag en verið hefur um langa hríð.

w-blogg080718a

Kortið hér að ofan sýnir stöðuna norðurhveli síðdegis á þriðjudag, 10.júlí, að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim má ráða vindátt og vindhraða. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Heldur svalt er við Ísland - ekki þó mikið neðan meðallags. Aftur á móti er suðvestanáttin nokkuð sterk - lægðardrag er fyrir vestan land.

Hér má benda á tvö smáatriði sem kunna að hafa áhrif á veður þegar fram í sækir. Rauða örin bendir á háloftalægð yfir Labrador. Hreyfist hún austur. Sumar spár eru að gera því skóna að hún taki suðlægari stefnu en lægðir hafa að jafnaði gert nú í sumar. Fari svo gæti hún um síðir beint til okkar hlýjum austanvindum. Slíkur möguleiki er enn svo fjarlægur að flokka má sem óskhyggju fremur en raunsæi. Kannski fer lægðin bara hina hefðbundnu leið - eða þá það norðarlega að við fáum yfir okkur ógnir kuldapollsins mikla í Íshafinu í kjölfarið. 

Gula örin bendir á hitabeltiskerfi undan suðausturströnd Bandaríkjanna. Fellibyljamiðstöðin í Miami hefur gefið því nafnið Chris og segir að muni um stund ná fellibylsstyrk á þriðjudag, einmitt þegar þetta spákort gildir. Chris er smátt kerfi og hreyfist allhratt til norðausturs og á því ekki mikla framtíð fyrir sér í stormheimi. Aftur á móti ber það inn í Labradorlægðina og gæti hnikað braut hennar lítillega - og þar með styrkt hana eða veikt eftir atvikum. Ekki er nokkur leið að segja á þessu stigi máls hvort það er okkur í hag eða ekki. 

En við bíðum frekari frétta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • w-blogg250524b
 • w-blogg250524a
 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (27.5.): 5
 • Sl. sólarhring: 307
 • Sl. viku: 1845
 • Frá upphafi: 2357238

Annað

 • Innlit í dag: 5
 • Innlit sl. viku: 1724
 • Gestir í dag: 5
 • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband