23.6.2018 | 02:05
Af árinu 1822
Miklir umhleypingar voru ríkjandi framan af ári 1822 og tíð var þá erfið, áfreðar víða og snjóþyngsli mikil um landið norðaustan- og austanvert. Um vorið rættist betur úr en á horfðist. Aftur á féll haust nokkuð snemma á - en úr því rættist síðan líka.
Við eigum ekki á lager hitamælingar á landinu þetta ár nema úr norðurglugga Jóns Þorsteinssonar í Nesi en þykjumst af þeim ráða að fyrstu fjórir mánuðir ársins hafi verið kaldir, sérstaklega febrúarmánuður, en þá var einnig órólegt veðurfar og þrýstisveiflur miklar frá degi til dags. Hlýrra og rólegra veður var um sumarið frá því í maí og út ágúst. Hiti afgang ársins virðist hafa verið ekki fjarri meðallagi, nóvember þó í kaldara lagi.
Loftþrýstingur var lágur í febrúar, mars og maí, en óvenjuhár og stöðugur í júlímánuði.
Eldgosið í Eyjafjallajökli sem hófst í desember 1821 virðist hafa legið niðri að mestu fyrstu mánuðina - en höfum þó illviðratíð í huga í því sambandi og ekki er víst að auðvelt hafi verið að fylgjast með rólegu gosi. Gosið tók sig verulega upp aftur um vorið, sérstaklega í júní og júlí og varð öskufalls vart víða og er misturs einnig getið. Lausafregnir bárust einnig af eldgosi í Vatnajökli - og sömuleiðis var minnst á Kötlu, en hún gaus þó ekki fyrr en árið eftir. Þess er getið að grasspretta hafi verið góð í öskufallssveitum.
Við byrjum þetta yfirlit á frásögn Annáls 19.aldar. Frásögn hans er þó að mestu soðin upp úr Klausturpóstinum eins og við sjáum síðar.
Vetur var harður um allt land fram undir páska, einkum um Múlasýslur, og mikill fénaður féll í Þingeyjar- og Vaðlasýslum, en í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum var vetur vægari og menn betur undir hann búnir. ... Vorveðrátta var mild um allt land og varð því minna af fjárfellinum eystra og nyrðra en áður áhorfðist, en eftir vinnuhjúaskildaga [14.maí] lagðist í miklar rigningar, svo eldiviður og fiskur ónýttist mjög. Grasvöxtur um allan Austfirðingafjórðung og Suðurland var víðast góður, en frábærlega mikill var hann í þeim sveitum, er öskufallið náði yfir, þótt illa notaðist. Um Vesturland var grasspretta rýrari, en lökust nyrðra. Töður náðust víða lítt skemmdar, en úthey stórum hrakin. Haustveðrátta var storma- og hretasöm og hélst það tíðarfar allt fram undir árslok.
Hafís kom um kyndilmessu [2.febrúar] og lagðist kring um allt Norðurland, en hvað hann lá lengi við er mér [Pétur, höfundur annálsins] óljóst. Voru 400 selir rotaðir við Grímsey. Á Ísafirði aflaðist og mikið af vöðusel og nokkur landselur náðist í nætur í Héraðsvötnum, 150 smáhveli voru rekin á land í Njarðvíkur og fuglaafli var allgóður við Drangey.
Jóladaginn braut ofveður Setbergskirkju og gjörði víða um land mikinn skaða á skipum, heyjum og húsum.
Annállinn rekur síðan ýmis konar slysfarir en getur ekki dagsetninga. Þar á meðal er sagt að 12 manns hafi orðið úti á árinu.
Línuritið sýnir hitamælingar Jóns Þorsteinssonar í Nesi við Seltjörn. Mælingin var gerð í óupphituðu herbergi nærri glugga móti norðri sem opinn var nema í verstu veðrum. Í september var einnig byrjað að mæla utandyra. Rauður ferill sýnir þær mælingar. Minni sveiflur eru að jafnaði frá degi til dags á mælum sem staðsettir eru innandyra heldur en á þeim sem staðsettir eru á hefðbundinn hátt. Þessi munur kemur líka greinilega fram á myndinni.
Þar sem mælingarnar eru gerðar nærri hádegi er hiti almennt of hár að sumarlagi, en samt verður að teljast mjög líklegt að fjölmargir hlýir dagar hafi í raun komið í Nesi þetta sumar. Fleiri heimildir greina frá júlíhitunum. Mælingarnar sýna einnig eindregin hlýindi í kringum mánaðamótin apríl/maí.
Í fréttum Klausturpóstsins af veðri og tíð (sjá hér neðar) segir neðanmáls:
Merkilegt, eða máskje óheyrt annarstaðar tel ég að Barometrum eða Loft-þynnku mælirinn féll á þessum vetri hér syðra þrisvar til 25 ½ þumlungs á undan ofviðrum.
Það er rétt hjá Magnúsi Stephensen að óvenjulegt sé, því 25,5 franskir þumlungar eru 920,3 hPa. Þá á að vísu eftir að bæta við hæðar- og þyngdarleiðréttingu. Jón Þorsteinsson mældi lægst (eftir að leiðrétt hefur verið) 926,5 hPa. Það var þann 8.febrúar. Ekki var skráð nema einu sinni á sólarhring þannig að við vitum ekki hvort þrýstingur í Nesi fór enn neðar. Tveimur árum síðar mældi Jón lítillega lægri þrýsting en þetta og var það lengi lægsti sjávarmálsþrýstingur sem mælst hafði utan hitabeltisfellibylja.
Myndin sýnir þrýstiathuganir Jóns í Nesi árið 1822. Við sjáum á línuritinu að þrýstingur hélst stöðugur og hár lengst af í júlímánuði.
Að vanda er veður- og tíðarfarslýsing Brandstaðaannáls nokkuð ítarleg:
Vestanátt, blotar og frostlítið, hnjótar auðir til 13. jan., að rigning og áhlaupsnorðanbylur gjörði jarðlaust. Með þorra komu seinast öll hross á gjöf. Blotar, hríðar og hörkur gengu á víxl. Vörðu þeir ei degi lengur. Er þetta sýnishorn af veðrinu: Blotar 1., 7., 8., 12., 13., 16., 23., 26. jan., 9., 17., 21., 27. febr., 12., 15., 21. mars, en hríðar mest 9., 13., 19., 31. jan., 4., 5., 6., 8., 14., 25., 26., 28., febr., 2., 3., 4., 5., 10., 12., 18., (s86) 21. mars. Í annarri viku góu féllu því nær allar rjúpur. Var þessi vetur kenndur við rjúpnafelli. Olli því svellgaddar yfir allt og grimmustu hörkur. Með einmánuði fór að bera á heyskorti allvíða. Höfðu færri hey til krossmessu, ef þurft hefði.
Með apríl svíaði og úr því kom hægur bati. Var þítt um 2 vikur, síðan frost og stillt og snjóaði stundum í maí. Gróðurlaust fram yfir krossmessu [3.maí]. Fyrir hvítasunnu (26. maí) yfirtaksvatnavextir og háflóð. Í júní oft votviðri, hretalaust. 3.júlí fóru lestir fyrst suður. Gaf þeim nú vel. Í þeim mánuði voru oft breiskjur miklar. Grasbrestur var á túni og þurrengi, en flæði og votengi dágott. Oft var mikið mistur að sjá. [Þetta mistur stafaði einkum af gosinu í Eyjafjallajökli]. Þornaði vatn upp, hvar ei voru uppsprettur og rýrnaði málnyt við þetta allvíða. Sláttur hófst 24. júlí. Héldust þá rekjulausar breiskjur til 3.ágúst. Komu þá rekjur og óþurrkar 2 vikur, svo ei náðist hey inn. Að þeim liðnum hirtu þó ei allir sæti sitt og beið það lengi, því óþurrkar urðu þaðan af til 11.september, en stórregn og hret þaðan 2.-3.september.
Náðu fæstir óskemmdum heyjum, en flestum varð á þeim ónýting mikil, einkum á votengi og kölluðu sumar vont fyrir töðubrest og lítil og slæm úthey, en 4 daga fyrir göngur, sem alltaf byrjuðu hér í öllum sveitum á sunnudag í 21. viku [um 10.september], stormþerrir, svo alhirða mátti. Gangnaveður gott, en 30.september stórrigning. Í október jafnt þurrviðri, frostalítið og snjólaust með norðanátt. Vetur til jóla mikið góður, snjólítið, lengst blíðviðri með austanátt. Á jóladaginn kom minnilegt ofsaveður. Varð fólki torsótt heimferðin móti veðri og yfir ísa. Reif víðast af húsum og heyjum, en gott veður og þítt kom á eftir því til lagfæringar. (s87) Sá harði vetur norðanlands varð með þeim mildustu í allri Norðurálfu, en í meðallagi syðra hér á landi. (s88)
Klausturpósturinn (í ritstjórn Magnúsar Stephensen) segir allmikið frá veðri og tíð þetta ár.
Veðuráttan syðra varð kastasöm á jólaföstu; hlánaði þó vel um þriggja vikna tíma kringum jól og nýár, en féll síðan til megnra útsynningsgarra, með ærnri snjókomu, áfreðum og sífelldum ofviðrum og jarðbönnum víðast, þó jafnan með vægum frostum allt að góulokum, þá mildasti vorbati kom með blíðu sumarveðri síðan allt til þessa [sennilega átt við apríllok].
Þyngri varð syðra til uppsveita, og vestanlands veturinn, svo að hefði svo æskilegur vorbati lengur dregist horfði víða til stórfellis hjá mörgum, en nú telst (hafi) alls enginn, heldur bestu peningshöld verða í þeim landsfjórðungum báðum, hvar
og góður heyjafengur afliðið ár bjó fólk betur undir vetrarharðindi. Sú sárbága heyjanýting norðanlands og í Múlasýslum og svo snemma þar áfallinn langur vetur á sumarsins tíma, sem ég umgat í fyrra á bls.203, gjörði fólk þar allvíða ófært til að standast þann feykilega þunga vetur sem sífellt þaðan af þjakaði þessum byggðum allt fram á einmánuð, gróf heilar sveitir í fönnum, næstum dæmalaust, hvar til áfreðar miklir og hafísabelti utan fyrir komu: þar varð og kuldinn meiri, og fannkoma og kaföld; fáir komust suður til sjóar; margir í Múla-, Þingeyjar- og Vaðlasýslum tjást gjörfellt, en allir stórum pening sinn; færri þar á mót til stórmuna í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, hver vetur varð nokkuð vægari og fólk var betur undirbúið að taka bágindum hans því þó hross nokkur eða saufé þar kunni hafa hrokkið af, var þar af miklu þar orðið að taka, og margt máskje missanlegt af hrossum. Þeirra nyrðri og austlægari héraða ógna fellir, gjörir nú fjöldanum þar framtíðina mjög svo óttalega. ...
Vestanlands telst fiskiafli þar á mót í rýrara lagi. Á Ísafirði samt góður af vöðuselum. Með þeim ágæta afla fylgdu samt nokkrar óheillir. Skip fórst eitt fyrir vestan Jökul og týndust á því 7 menn. Annað nýlega [síðar, bls. 115 kemur í ljós að þetta var á páskadag, 7.apríl] í Þorlákshöfn, týndust 4, og í Njarðvíkum kom hvalavaður að síldartorfum, og sló einn þeirra skip úr Reykjavík svo, að það klofnaði endilangt, hlaðið fiski við netatekt, og sökk; týndust 3 menn, en tveimur var bjargað.
Í 9. tölublaði (s151) segir svo frá því að minna hafi orðið úr felli norðaustanlands en menn óttuðust, vegna æskilegasta og stöðugs vorbata.
Í 7. tölublaði 1822-árgangs Klausturpóstsins er sagt frá enskum skipum sem fórust í ís fyrir norðaustan land um vorið og komust sumir skipverjar í land, af öðru skipinu í Vopnafjörð, en hinu að Glettinganesi. Miklar mannraunir. Sagt er að bæði skipin hafi verið að ná í ís. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki áður heyrt um slíkar ísveiðar á sjó - en veit um mikla flutninga á ís sem skorinn var af vötnum á norðlægum slóðum og fluttur til annarra landa.
Síðan segir (7.tölublað):
Um þær mundir [um 25. júlí] lagði yfir Suðurland vestur eftir svo dimman mistursmökk um allt loft í hreinu þurrviðri, að skammt sást burt til nálægara sveita en sól roðnaði um góðviðris daga, sem nú gjörast hér brennheitir, venju framar, mót sólu 34-36°.
Í 12. tölublaði segir frá sumar- og haustveðráttu:
Vorveðurátta og sumars varð annars yfir allt land hin mildasta og besta, og því minna langtum af fellinum norðan- og austanlands, enn áður áhorfðist. Grasvöxtur yfir allan Austlendingafjórðung og Suðurland víðast hvar fyrirtaks góður og nýting samboðin; þó vestarlega og um Vesturland rýrari en í fyrra, samt allgóð. Hverttveggja lakara norðanlands. Hinn frábæri fiskafli yfir allt Suður- og meiri hluta Vesturlands allt þetta ár; syðra í haust og í vetur svo á grunni, að langt mun síðan lík dæmi gáfust þar; því nú í nóvembri hlóð fjöldi skipa daglega af vænum þorski inn um öll sund milli eyanna, allt um kring Viðey, Engey, Akurey, uppí landsteinum með Kjalar- og Akranesi, hvar nú er besti afli, eins sunnan með, og margir komnir í 4ra hundraða vetrar-hluti. Heilbrigði er almenn hjá fólki og slysfarir fáar enn á spurðar, nema sexærings af Seltjarnarnesi, í hastarlega áföllnu bráðviðri af norðri og týndust 7 menn. Í því verðri fékk póstskipið undir Vestmannaeyjum, á hingaðleið mikið áfall; lá flatt, kollsiglt í 16 stundir en fékk þó viðréttst aftur og náði hér höfn í Hafnarfirði þann 23ja nóvember þ.á.
Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum segir frá tíð 1822 í bréfi sem dagsett er 7.febrúar 1823. Bréfið má finna í Andvara 1973 (s170):
Eftir langan og strangan vetur næstliðið ár til góuloka hér norðanlands kom einhver hinn blíðasti bati, er hélst svo að segja stöðugt við þar til um túnasláttarlok, en gras skrælnaði þó af túnum og harðvelli vegna ofþurrka og hita. Úthey nýttust hér um norðursveitir víða báglega vegna úrfella og stórrigninga um engjasláttartímann samt snjókomu, er hindraði fólk lengur eða skemur (á vissum stöðum í mánuð) frá heyverkum. Haustveðrátta var annars einhver sú besta og vetur hinn blíðasti, er ég til man allt til þessa, alloftast snjólaus jörð og sjaldan bitur frost. ... Stormur af suðaustri gjörði víða tjón á heyjum og húsum á jóladaginn, líka fórust þá skip fáein hér og hvar.
Geir Vídalín biskup segir í ódagsettu bréfi (vetur 1822):
... prófastur síra Árni Þorsteinsson skrifar mér, að í Múlasýslu hafi fallið svo mikill snjór, að hann taki aldrei upp. Um eldinn eystra veit ég ekkert með sanni að segja, þó heyri ég, að hann ekkert mein hafi gjört af sér síðan í vetur, samt sjáist stöðugur reykur úr jöklinum og jafnvel eldur á millum. Hér gefur aldrei á sjó fyrir stormum og umhleypingum ... (s192)
Betra hljóð er í Geir biskup þann 7.maí:
Um veðráttufarið er það skjótast yfir að fara, að eins grimmur og hryssingslegur veturinn var, eins æskilegt og indælt hefur vorið verið allt til þessa, svo hér er allareiðu farið að grænka í mýrum. (s195)
Í bréfi líklega frá því í seint í ágúst segir Geir:
Hér hefur um tíma verið mikið votsamt, svo að töður eru teknar að skemmast. Afli góður, en fáir getað notað sér hann, því allir, sem tún eiga, eru að urga og láta urga ofan í þau, þótt það líklega verði að litlum notum, því hér er víðast mikill grasbrestur. Þar hjá óséð, hvernig hey muni gefast til vetrar, því eg ætla, að nokkur aska muni vera hér á öllu grasi, þótt hún ekki sé rétt merkileg.
Og þann 7.október er biskupi kalt:
Fátt er nú til frétta héðan, nema svo mikill kuldi í gær og í dag, að ég er beinloppinn. ... Þar hjá sagði Jónsen í Skálholti mér, að menn sem fóru á Flóamannaafrétt hefðu þóst sjá reykjarmökk í [norðaustur] frá sér feykistóran og ekki minni en hinn úr Eyjafjallajökli. Ber það saman við það sem Þórður Bjarnason sagði mér, þegar hann kom að austan, að af Síðu hefði sést reykjarmökkur í fullt norður og eldsíur í honum á millum. Þykir mér líkast, að þessi eldur muni vera í þeim svokölluðu Grímsvötnum.
Einhver órói var í Vatnajökli um þessar mundir og bárust líka óljósar fréttir af gosi þar veturinn 1822 til 1823. Katla gaus hins vegar 1823 sem kunnugt er.
Eins og getið hefur verið um hér að ofan gerði mikið veður á jóladag. Fréttir af því birtust í danska blaðinu Dagen 18.apríl 1823:
... især rasede her förste Juledag en svær Orkan, som omstyrtede forskielliege Kirker og andre Bygninger, især paa Vesterlandet. Mange Fiskerbaade knækkedes ogsaa af denne Storm.
Geir biskup getur þessa verðurs líka í bréfi til Bjarna Thorsteinssonar amtmanns á Arnarstapa sem dagsett er 16.mars 1823:
Jóladagsveðrið kom hér og við. Þó það gjörði ekki eins mikið illt af sér og hjá ykkur, rauf það samt víða hús og hey, lamaði og braut skip og báta, og ekkert stakkit stóð hér heilt eftir í Reykjavík. Verst þótti mér um Setbergskirkju, kannski vegna þess að hún mun vera í einslags tengslum við mig ... (s211)
Í öðru bréfi til Bjarna (dagsett 21.janúar 1823) segir Geir um sama veður:
... því hér mátti heita, að hvorki væri reitt né gengt. Braut hér þá plankaverk nærri því allsstaðar, rauf hús og hey og bramlaði skip og báta. Þó varð skaðinn minni en von var á, því fólk var allt á ferli og viðbúið að bjarga.
Jón Jónsson á Möðrufelli segir frá gríðarmiklum umhleypingum, harðindum og jarðbönnum framan af árinu, en lofar flesta aðra hluta þess. Júlí segir hann mikið góðan og desember gæðagóðan.
Lýkur hér að segja frá tíðarfari ársins 1822 að sinni. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:08 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 34
- Sl. sólarhring: 152
- Sl. viku: 1955
- Frá upphafi: 2412619
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 1708
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.