Hugleiðing um horfinn kosningadag

Þegar ritstjóri hungurdiska leit út um glugga í morgun (laugardag 26.maí) flaug hugurinn ósjálfrátt aftur til sveitarstjórnakosningadagsins 27.maí 1962. Grámyglulegur líka.

Veðráttan, tímarit Veðurstofunnar, segir maí 1962 hafa verið þurrviðrasaman og tíðarfar hafi þótt frekar óhagstætt. Í mánaðarlok var víðast hvar klaki í jörð og gróðri hafði lítið farið fram. Vegir voru víða ófærir vegna aurbleytu og umferð bönnuð eða takmörkuð fram eftir mánuði á ýmsum vegum af þeim sökum. Norðlægar áttir voru ríkjandi lengst af. 

En aðfaranótt þess 25.snerist til suðvestanáttar með rigningu vestanlands. Langmest rigndi á Snæfellsnesi og Vestfjörðum - en líka sums staðar sunnanlands - þar rigndi mest þann 26. Þetta veðurlag hélst þann 26. - sem var laugardagur eins og nú. Víða var mjög hlýtt fyrir norðan, m.a. fór hiti í 20,8 stig á Akureyri, varð hæstur eftir kl.18 og skráist hámarkið því á daginn eftir (en þá var hæsti hitinn í raun 14,8 stig) - svona eru reglurnar. Laugardagshitinn fór hæst í 22,0 stig á Egilsstöðum. Kaldara var syðra - en Skarðsheiðin sá þó til þess að koma hitanum í Andakílsárvirkjun upp í 16 stig og víða varð furðuhlýtt á Vestfjörðum.

Á þessum tíma var að jafnaði kosið til sveitarstjórna á sunnudögum. Í þéttbýli í lok maí, en í dreifbýli í lok júní. Ritstjórann minnir þó að þetta hafi verið í eitt fyrsta skipti sem kosið var í maí í Reykjavík - að bæjarstjórnarkosningar hafi yfirleitt verið haldnar þar í janúarmánuði, t.d. 1958. 

Á kosningadaginn birtist þetta veðurkort í Morgunblaðinu, og sýndi veðurlag á Norður-Atlantshafi laugardaginn 26.maí kl.6:

w-blogg260518a

Mikið háþrýstisvæði skammt vestur af Bretlandseyjum beinir hlýju og röku lofti í átt til landsins. Ekki ólíklegt að kalt háloftalægðardrag leynist yfir Grænlandi. 

Japanska endurgreiningin sýnir veðrið síðdegis á kosningadaginn sjálfan, sunnudaginn 27.maí:

w-blogg260518b

Hér hefur verið skorið á sunnanáttina við jörð og kaldara loft skýtur sér inn undir úr vestri og norðri. Dumbungsveður var um landið vestanvert, en ekki mikil úrkoma og undir kvöld reif hann aðeins af sér og skyggni batnaði. 

w-blogg260518c

Kalda lægðardragið þrýsti á hæðina meðan það fór framhjá, áttin snerist til vesturs og síðar norðvesturs í háloftum - hlýja loftið þokaðist vestar og kaldara loft úr norðri sleikti landið, sérstaklega þann 30. - þá var næturfrost víða um land. 

Á laugardagskvöld fyrir kosningar, þann 26. féll mikil skriða úr Laugardalsfjalli og stefndi á þéttbýlið á Laugarvatni, náði skriðan alveg niður á veg. Skemmdir urðu á trjágróðri í hlíðinni. Var þessi skriða enn mjög í minnum höfð - og far hennar sást vel - þegar ritstjórinn dvaldi þar veturinn 1970 til 1971. 

Þann 25. - daginn áður en hlýindin náðu mestri útbreiðslu, mældist hiti á Þórustöðum í Önundarfirði 22,6 stig. Þessi tala hefur löngum þótt með nokkrum ólíkindum. Giskað hefur verið á að hún hafi átt að vera 17,6 stig. Málið er hins vegar það að nægilega hlýtt var í háloftum til þess að skjóta 22 stigum niður að yfirborði - og vindur var þar töluverður líka. Við getum því ekki samviskulaust skotið þessa tölu niður (eins og sumar ólíklegar tillögur aðrar) - og hún verður að fá að standa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 897
  • Sl. sólarhring: 1115
  • Sl. viku: 3287
  • Frá upphafi: 2426319

Annað

  • Innlit í dag: 797
  • Innlit sl. viku: 2953
  • Gestir í dag: 780
  • IP-tölur í dag: 718

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband