Smávegis um Eyjafjarðarveðrið mikla 11. september 1884

September 1884 fær þau ummæli að votviðrasamt hafi verið fram undir þ.20. en þá hafi gengið í norðanáttir og setti niður fannir nyrðra og í uppsveitum syðra. Mánuðurinn varð þó hlýr um landið norðaustanvert. Sérlega hlýtt varð fyrir miðjan mánuð og komst hiti m.a. í 18,3 stig á Akureyri þann 14.

Þann 11. gerði ofsalegt veður af vestri og suðvestri um miðbik Norðurlands. Finna má ítarlega umfjöllun um veðrið og afleiðingar þess í grein sem Sigurjón Sigtryggsson ritaði í tímaritið „Sögu“ 1982 undir heitinu „Gjörningaveðrið 1884“. Áhugasamir eru hvattir til að lesa samantekt Sigurjóns, en hún er aðgengileg á tímaritavef Landsbókasafns. 

Kortið sýnir tillögu bandarísku endurgreiningarinnar um hæð 1000 hPa-flatarins kl.18 þennan dag. Ótrúlegt er að þetta sé alveg rétt en ætti samt að sýna hvers konar veður var um að ræða.

w-1884-09-11_18


Á myndinni þarf að athuga að sýnd er hæð 1000 hPa-flatarins en ekki þrýstingur við sjávarmál. Auðvelt er þó að reikna á milli því 0 þýðir að flöturinn er í sjávarmáli. Þrýstingur fellur um u.þ.b. 1 hPa á hverja 8 metra hækkun. Fjörutíu metra jafnhæðarlínan er því sú sama og 1005 hPa jafnþrýstilínan o.s.frv. Innsta jafnhæðarlínan kringum hæðina yfir sunnanverðri Skandinavíu er 280 metrar, það er sama og 1035 hPa, en innsta jafnhæðarlína kringum lægðina suður í hafi er -40 metrar. Það er sama og 995 hPa. Af þessu má sjá að þrýstingur í lægðarmiðjunni vestan við Ísland er á bilinu 995 til 1000 hPa. Þetta er ekki djúp lægð. 

Nú höfum við raunverulegar mælingar frá nokkrum veðurstöðvum á landinu. Sé litið á þær kemur í ljós að þrýstingur í Stykkishólmi er nokkru lægri heldur en kortið gefur til kynna eða um 988 hPa og á Akureyri er þrýstingurinn um 1000 hPa en ekki 1005 sem kortið sýnir. Af þessu má ráða að lægðin var í raun nokkuð krappari heldur en hér er sýnt.

Mikill sunnan- og suðvestanstrengur liggur í háloftunum langt úr suðri og norðaustur fyrir land. Illviðrislægðin okkar hefur slitið sig frá meginlægðinni í suðri og berst sem mjög stutt bylgja með háloftavindinum til norðausturs. E.t.v. hefur hún myndast sem bylgja á hitaskilum frekar en kuldaskilum, en síðari mátinn er miklu algengari.

Óformlega notar höfundur þessa pistils orðið troðningslægð fyrir þessa tegund lægða. Háloftaröstin slær sér niður á landið og til verða miklar fjallabylgjur yfir Íslandi. Líklega sló einhverri/einhverjum þeirra niður á Norðurlandi þennan dag, þar sem mikið tjón varð í ofsalegu suðvestanveðri. Tjónið varð mest við Eyjafjörð og einna mest í Hrísey. Alls brotnuðu eða skemmdust 41 skip, þrír menn fórust. Heyskaðar urðu í Skagafirði, þar drukknuðu tveir piltar við Höfða á Höfðaströnd. 

Troðningslægðir sem þessi hafa oft valdið miklu tjóni hér á landi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 156
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 2077
  • Frá upphafi: 2412741

Annað

  • Innlit í dag: 148
  • Innlit sl. viku: 1822
  • Gestir í dag: 136
  • IP-tölur í dag: 129

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband