22.3.2018 | 21:14
Af árinu 1913
Hér er fjallað um tíðarfar og helstu veðurviðburði ársins 1913. Árið þótti mjög umhleypingasamt og mælingar taka undir það. Sérlega sólarlítið var í Reykjavík. Mars, júní og nóvember teljast kaldir - enginn mánuður hlýr þó hiti fjögurra þeirra (janúar, febrúar, apríl og júlí) hafi verið ofan langtímameðaltals. Sá síðastnefndi var talsvert hlýrri um landið norðan- og austanvert heldur en suðvestanlands. Ársmeðalhiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 í Reykjavík og á landsvísu, en lítillega neðan þess á Akureyri. Í viðhengi er skrá um meðalhita einstakra mánaða, úrkomu og fleira.
Allmargir hlýir dagar komu á Norðaustur- og Austurlandi um sumarið, mesti hiti ársins mældist 28,0 stig í Möðrudal 5. ágúst - en sú mæling hlýtur ekki náð fyrir augum ritstjóra hungurdiska (kontórista í Reykjavík). Fjölmargar grunsamlegar hámarksmælingar eru til úr Möðrudal þessi ár. Svo virðist samt sem að sól hafi ekki skinið beint á mælinn - frekar að veggskýlið hafi verið opið og einhver hlýr veggur nærri því hafi náð að spilla mælingu, rétt eins og verða vill í görðum nútímans. Veðurathugunarmaður [Stefán Einarsson] segir að hiti í sólinni hafi verið 36 stig (algjörlega merkingarlaus tala). Eftirlitsmaður dönsku veðurstofunnar var þarna á ferð sumarið 1909 og sagði frá göllum skýlisins. Næsthæsta tala ársins 1913 er frá Möðruvöllum í Hörgárdal, en þar komst hiti í 24,2 stig þann 19. júní. Mesta frost ársins mældist á Grímstöðum á Fjöllum 2. desember -24,4 stig (sjá þó umfjöllun hér að neðan).
Fáein veðurmet ársins standa enn. Þar má helst telja lægsta loftþrýsting sem mælst hefur í marsmánuði hér á landi, 934,6 hPa. Í athugasemd í veðurskýrslu fyrir marsmánuð 1913 segir veðurathugunarmaður á Akureyri [Hendrik Schiöth] að lágmarksmælir hans hafi sýnt -23,0 stiga frost aðfaranótt þess 17. Þetta var ekki viðurkenndur mælir - og sýndi ef til vill lítillega lágar tölur, en sé mælingin rétt er þetta jafnmikið frost og mest hefur mælst hefur á Akureyri í mars frá upphafi samfelldra mælinga þar haustið 1881. Hin -23,0 stiga mælingin er frá því í mars 1969. Stöðin á Akureyri rétt missti af frostavetrinum mikla 1880 til 1881, en til eru einkamælingar frá staðnum þar sem -33,0 stiga frosts er getið í mars það ár (trúlega nærri lagi). Svo mældist -35,6 stiga frost á Akureyri í mars 1810.
Það er athyglisvert að í veðurskýrslu Möðruvalla (í Hörgárdal) í sama mánuði og sama dag, þann 17. mars, segir að lágmarksmælir hafi sýnt -25,0 stig, en athugunarmaður [Jón Þorsteinsson] setur spurningarmerki við töluna sem svo kontóristi dönsku veðurstofunnar breytir í -19,0 stig. Síðari tíma mælingar á sjálfvirkum veðurstöðvum sýna hins vegar svo ekki er um villst að þessar tvær tölur (-23 stigin á Akureyri og þessi) - sem eru óþægilega lægri en mælingar á hefðbundnum athugunartímum, gætu vel verið réttar. Það er t.d. alkunna að hegðan hita á Akureyri í hægum vindi getur verið með þessum hætti. Það sýnir samanburður mælinga á flugvellinum og á lögreglustöðinni mætavel.
Engir sérlega hlýir dagar fundust á árinu í Reykjavík eða Stykkishólmi, en ekki margir kaldir heldur, aðeins 5 í Reykjavík (16., 17. og 22. mars, 18. maí og 4. desember), en fjórir í Stykkishólmi (16. mars, 17. maí og 20. og 21. október).
Árið var mjög illviðrasamt eins og áður sagði og komast 16 dagar inn á stormdagalista ritstjóra hungurdiska. Ekki voru nema fjórir sérlega sólríkir dagar á árinu í Reykjavík, tveir í maí, auk 1. júní og 3. ágúst. Síðastnefndi dagurinn bjargaði því sem bjargað varð af sumrinu suðvestanlands þetta ár.
Ísafold dró saman yfirlit um veðurlag ársins og birti 4. febrúar 1914:
Árið byrjaði fremur blítt, en þegar leið á fyrsta mánuðinn komu hret og stormar af ýmsum áttum, sem hélst fram í mars, en frostalítið og snjólétt, og aldrei nein aftakaveður, vorið fremur kalt og vindasamt. Sumarið varð aftur breytilegra. þegar tillit er tekið til alls landsins. Þar sem Norðlendingar og Austfirðingar muna naumast aðra eins blíðu, en Sunnlendingar naumast eins mikla óþurrkatíð og sólarleysi. Olli þetta Sunnlendingum þungrar áhyggju út af fiskverkun sinni, og um tíma var útlitið afar-ískyggilegt, þar sem nokkrir kaupmenn urðu að borga bætur fyrir að geta ekki afhent fisk sinn, sem þeir höfðu selt áður, á réttum tíma. En þá hjálpaði eftirspurnin á fiski vorum, sem alt af fer vaxandi, ár frá ári, svo að kaupmenn munu að síðustu naumast hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, þar sem hægt var að selja fiskinn á öllu verkunarstigi fyrir mjög hátt verð. Að vísu voru ekki miklir stormar um sumarið, né fram eftir haustinu hér á Suðurlandi, en sama veðurreynd hélst yfir októberlok, en þá byrja stormar, snjókoma og alls konar illviðri, sem helst til nýárs óslitið að heita má. Og um hátíðarnar verða menn fyrst varir við hafís út af Vestfjörðum, sem óðum berst upp að landi, en hverfur brátt aftur.
Janúar: Mjög stormasamt, sums staðar snjóar sem þó stóðu stutt við hverju sinni. Miklar rigningar á Austurlandi. Fremur hlýtt.
Vestri þ.14. (á Ísafirði):
Í rokinu 9. þ.m. fauk hlaða með 60 hestum af heyi og þak at fjárhúsi í Breiðadal í Önundarfirði hjá Þórði Sigurðssyni bónda þar. Mest allt heyið tapaðist en féð stóð eftir í hústóftinni.
Veðravíti mesta hefir verið hér undantarna daga en þíðviðri svo jörð er orðin víða auð. Aðfaranótt sunnudagsins rak vélarbátinn Freyju á land hér yfir á hlíðinni en náðist fram daginn eftir alveg óskemmd. Þá fauk og geymsluhús sem O. G. Syre byggði hér inn á Torfnesinu í sumar.
Í sama veðri fórst bátur frá Ísafirði með fimm mönnum á. Fréttir greinir á um það hvort það var 9. eða 10. sem báturinn fórst.
Þann 20. bætir Vestri enn við fréttum af veðrinu þann 9.:
Í veðrinu 9. þ. m. urðu allmiklir skaðar af veðri hér vestanlands. Meðal annars fuku þök af hlöðum í Skálholtsvík og Guðlaugsvík í Strandasýslu, og Reykhólum, Stað og Hríshóli Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu.
Ingólfur þann 14.:
Veðrafar var all-óstöðugt vikuna sem leið. Annan sólarhringinn mokaði niður lognmjöll, er hvarf síðan á einni þeynótt. Gekk svo tveim sinnum. Á laugardagskveldið [11.] og um nóttina eftir var ofsaveður af suðaustri. Sökk vélarbátur á Viðeyjarhöfn. Eimskipið Sjöalfen" rak af Reykjavikurhöfn upp á Örfiriseyjargranda, en Geir" náði því út óbrotnu. Smáskemmdir urðu á nokkrum húsum.
Austri flytur þann 18. janúar fréttir af rigningum eystra:
Rigning hefir verið nálega á hverjum degi síðan um áramót, svo að marautt varð í byggð alstaðar hér á Austurlandi, en á fjöllum uppi hefir verið frost og sett niður snjó og gjört ófært með hesta yfir að fara og illfært gangandi mönnum. Vatnavextir urðu svo miklir sem í mestu vorleysingum og gjörðu usla all-mikinn víða; og skemmdir urðu af rigningunum, þannig, að fjárbús og heyhlöður (torfhús) hrundu á nokkrum bæjum á Héraði, og 2 kindur drápust á einum bæ, urðu undir húshruninu. Skemmdir á heyjum munu hafa orðið víða og sumstaðar töluvert miklar. Vöxturinn i Lagarfljóti var svo mikill, nú er Vopnafjarðarpóstur fór þar um 14. þ. m.. að fljótið flæddi langt yfir svifferjuna, sem sett hafði verið á land upp. Í nótt snjóaði lítið eitt.
Lögrétta segir af veðri þann 29.:
Það er nú mjög hlýtt, og hefur verið svo nær allan janúarmánuð. Í dag er rigning.
Febrúar: Mjög illviðrasamt, einkum á S- og V-landi. Fremur hlýtt.
Umhleypingarnir héldu áfram. Vísir segir þann 3. að meiri snjór hafi fallið í Reykjavík þá um nóttina en dæmi séu um fyrr í vetur.
Suðurland segir af veðri í frétt þann 11. febrúar:
Veðurátta hefir verið afarbyljótt síðastliðna viku. Norðankafaldsbylur á fimmtudaginn [6.], frostlítill þó. Sá ekki húsa á milli hér á Eyrum. Skóf mjög saman snjóinn i skafla, var ekki fært um veginn öðrum en karlmennum einum. ... Á sunnudagsnótt [9.] og mánudagsnótt [10.] var hér afspyrnurok af suðri, gekk sjór mjög á land sunnudagsmorgun, svo ekki hefir um langa hríð jafn hátt gengið. Rofnuðu þá sjógarðar víða og sópuðust brott á laungum svæðum í grunn niður. Voru menn naumast óttalausir í húsum inni, enda fylltust kjallarar á ýmsum stöðum og varð af tjón nokkurt. Kálgarðar skemmdust og til muna. Tjón það er hér hefir orðið á Eyrum af sjógangi þessum, mun nema svo þúsundum króna skiptir. Til allrar hamingju var smástreymt. Hætt við að meira hefði að orðið um skemmdirnar ef stórstreymt hefði verið.
Enn fleiri skemmdir urðu í þessum veðrum. Suðurland heldur áfram - fyrst þann 15. febrúar og síðan þann 22.:
[15.] Nýbyggð hlaða fauk í Gaulverjabæ, einnig skemmdist hlaða í Kaldaðarnesi, þak skemmdist á framhúsinu á Kolviðarhól. Hvítá hefir stíflast fram undan Kiðjabergi og runnið eitthvað út yfir Flóann. Er ekki að furða þó henni gremjist seinlæti mannanna. ... Veðráttan afar rosasöm alla þessa viku, sífeld hafátt, sandbyljir, og hregg og hríð, frostlaust þó. Hefir varla verið útkomandi fyrir ólátum í veðrinu. Varð Spóa tetri það að flökta milli húsa, og var hann nær kafnaður í sjóroki og sandbyl. Raulaði hann þá með sínu nefi: Ennþá Kári óður hvín, æðir sjár á löndin. Ógna bára yfir gín, Er í sárum ströndin.
[22.] Auk þess er getið var í síðasta blaði um skemmdir af ofviðrinu, hafa borist fregnir um að fokið hafi 2 heyhlöður í Útey í Laugardal, heyhlaða í Eyvík í Grímsnesi, þak rauf og af baðstofu á Hesti í sömu sveit. Ýmsar minni háttar skemmdir hafa orðið hér eystra á húsum og heyjum. Í Stykkishólmi rak tvær fiskiskútur á land og brotnuðu þær mjög. Á Heilsuhælinu á Vífilstöðum rauf veðrið nokkrar járnplötur af þakinu og braut 4 glugga. Líklegt er að víðar hafi tjón orðið af veðri þessu, en ennþá hafa borist fregnir af.
Vestri (14.) birtir einnig fréttir af tjónum í þessum veðrum:
Ofviðri með hríð eða rigningu á víxl hafa gengið við og við undanfarið og sumstaðar valdið tjóni, t. d. í Álftafirði er sagt að fokið hafi tveir bátar litlir og hjallur í Eyrardal. Síminn hefir alt af verið að slitna öðru hvoru og því oft og tíðum ekkert samband við Suður- eða Norðurland. ... Steinunn Guðbrandsdóttir, kona Jóns járnsmiðs Guðmundssonar á Miðjanesi á Reykjanesi varð úti mánudag 3. þ.m. Hafði hún farið til næsta bæjar og þegar hún var komin langt á leið heim aftur skall á áhlaupsbylur svo hún fann ekki bæinn.
Myndin sýnir þrýstirita úr Stykkishólmi fyrri hluta febrúar 1913. Hver lægðin á fætur annarri gengur hjá. Sú sem best sést í Stykkishólmi gekk hjá þann 12. Meira tjóns er þó getið úr lægðinni sem fór hjá þann 9. - og sú sem fór hjá þann 6. skilar mestum þrýstibratta í endurgreiningum og töflum ritstjóra hungurdiska. Veðrið þann 12. vegur hins vegar þyngst á stormdagalista ritstjórans.
Óljósar fregnir voru einnig um að ung stúlka hafi um svipað leyti) orðið úti á leið í skóla.(Þjóðviljinn 22. mars).
Suðurland birtir þann 1. mars bréf úr Fljótshlíð dagsett þann 10. febrúar, þar segir m.a.:
Síðan veturinn kom hefir tíðin verið mjög umhleypingasöm. Með fyrsta móti farið að gefa fullorðnu fé, flestir með jólaföstu, og síðan óslitin gjafatíð. Tvisvar hefir hér drifið niður afar mikinn snjó, en Kári hefir ekki svikist um að skila honum burtu, og fylla með honum hvert gil sem til er, því stormhrynur af austri hafa verið mjög tíðar og snarpar. Nú í síðasta austanbylnum kæfði í Þverá svo hún stíflaðist og rann svo fram yfir aurana, sem er beitiland frá Teigi og Hlíðarenda, og urðu fjármennirnir að brjótast fram yfir vatnið á hestum og tók vatnið oft á herðatopp. En það var ekki nema í nokkra daga, því þegar hlákan kom, hreinsaðist ám og fór i farveginn.
Þann 20. kemur fram í Vestra að í veðrinu þ.12. hafi vélbátur fokið og brotnað í Súgandafirði og þak tekið af húsi á Suðureyri og fleiri skemmdir orðið þar.
Þann 17. strandaði strandferðaskipið Vesta á Hnífsdalsskerjum (þar sem sumir vilja nú byggja flugbraut). Veður var kyrrt, en svartahríð var á. Mannbjörg varð. Vestri segir frá þessu þann 18. Skipið náðist síðar út.
Lögrétta segir þann 19.:
Enskur sjómaður, sem verið hefur hér við land í 20 ár, segir, að önnur eins stórviðri og stórsjó hafi hann aldrei fengið og í veðrakaflanum, sem nú er nýlega afstaðinn. Fréttir hafa komið um mikil slys á sjó á útlendum skipum.
En tíð batnaði talsvert eftir illviðrakaflann Lögrétta segir þann 19. að veður hafi verið gott síðustu dagana og snjó hafi tekið upp að mestu hér syðra. Þann 26. bætir blaðið við:
Góðviðri stöðug hafa nú verið um tíma, hlýindi eins og á vori, en rigning öðru hvoru.
Austri segir þann 1. mars af góðri tíð eystra svo marautt varð að heita mátti í byggð bæði í Fjörðum og Héraði.
Mars: Umhleypingasamt. Snjólétt sums staðar suðvestanlands, en annars snjóþungt. Fremur kalt. Talsvert var um skipskaða og manntjón á sjó, en verður það ekki rakið hér í neinum smáatriðum. Bátur úr Ólafsvík fórst með 10 mönnum þann 8. í landsynningsillviðri. Strandferðaskipið Mjölnir rakst á sker og strandaði við Látur á Látraströnd þann 14. og laskaðist nokkuð. Aftakahríð var og skyggni lítið. Í sama veðri rak fiskiskip Thorsteinssonfélagsins upp á Þingeyri og brotnaði þar.(Þjóviljinn segir þetta hafa gerst á Patreksfirði) Annað skip sama félags rak upp á Bíldudal. Í einhverju þessara veðra rak norskt skip á land í Vestmannaeyjum. Mikið veiðarfæratjón varð í þessum illviðrum í fyrrihluta marsmánaðar.
Sérlega djúp lægð kom að landinu fyrstu daga marsmánaðar. Þrýstingur í Reykjavík fór þann 4. niður í 934,6 hPa og hefur aldrei mælst lægri í marsmánuði á landinu.
Vísir segir frá þann 4:
Afskaplegt illviðri var í nótt og helst enn. Austan grenjandi stórhríð og stólpa-rok Símaþræðir slitnuðu svo tugum eða hundruðum skiptir. Frakknesk skúta var nærri strönduð á Grandanum; hafði rekið langa leið um höfnina, en festi þá í botni svo að hreif. Loftþyngdarmælir stóð svo lágt í morgun, að miðaldra menn muna ekki annað eins. ... Ekki þarf að kvíða því, að Ingólfur komi að ofan með póstana í dag og engin kemur veðurskýrslan.
Ingólfur er flóabáturinn, enginn póstur ofan úr Borgarnesi með honum - og símþræðir sem bera áttu veðurskeytin að vestan, norðan og austan slitnir.
Norðaustanofsaveður var á Siglufirði - líklega þann 4. eða 8. og fauk þá þak af húsi og gluggar brotnuðu í tveim eða þrem húsum (Norðri þ.12).
Suðurland segir frá þ.22. og 29.:
[22.] Veðrátta köld og stormasöm þessa viku, eins og áður, en snjókoma engin. Mesta frost er hér hefir komið á vetrinum, var á mánudagsmorguninn [17.], 18 stig á Celsius. Snjór er mikill á jörðu, og eyðast munu hey allmjög nú hér í austursveitum. Fjárskaða er getið um á Reynifelli á Rangárvöllum. Um hundrað fjár hafi ýmist hrakist i vötn eða fennt, jafnvel getið um fjárskaða víðar þar, en fréttin óljós.
[29.] Veðrátta er óstöðug og ofsafengin eins og áður, þangað til nú síðustu dagana, blíðviðri í gær, jörð orðin alauð hér í lágsveitum. Ekki gefur þó á sjó hér fyrir brimi. Hornafjarðarós lokaður af sandi, komið hátt sandrif þar sem ósinn var áður. Nýr ós hefir myndast á öðrum stað, en ókunnugt ennþá hvort hann muni vera skipgengur.
Í Austra þann 26. apríl er alllöng frásögn af hrakningum Svínfellinga í fjöruferð sem þeir lögðu upp í 13. mars. Í lok frásagnar er þess getið að í sama veðri hafi orðið úti allir sauðir Svínfellinga, nokkrir tugir þeirra fórust. Ingólfur (1. apríl) segir veðrið hafa verið svo mikið að heimafólk hafi ekki treyst sé milli bæjanna í Svínafelli, en þeir standa saman með fárra faðma bili milli bæjardyra. Í sama veðri hafi og fennt fé á Rangárvöllum.
Páskarnir voru snemma 1913, páskadagur 23. mars. Austri segir frá því að rétt áður hafi 2 frönsk fiskiskip sokkið út af Fáskrúðsfirði, en mannbjörg hafi orðið.
Þjóðviljinn segir frá því 9. apríl að vitinn á Brimnesi eystra hafi eyðilagst nýlega í ofsaroki og sjógangi. Dagsetningar er ekki getið.
Um páskaleytið varð vart við hafís við Sléttu og Langanes.
Apríl: Hagstæð tíð, en úrkomusöm. Fremur hlýtt.
Vísir 6. apríl:
Ísafirði, föstudag [4. apríl]. Í morgun var afarsnarpur hvirfilbylur á Önundarfirði, en stóð ekki nema augnablik. Hann reif þak af hlöðu, er Kristján Ásgeirsson verslunarstjóri átti og tók mikið af heyi. Hann reif í háa loft nokkra báta og mölbraut þá, fjöldi af rúðum brotnuðu í húsum. Jarðfastur, digur stólpi sviptist sundur og alt lék á reiðiskjálfi, sem í hörðum jarðskjálftakipp. Þetta var um kl. hálf níu.
Bátabrot urðu í veðri vestur í Djúpi á sumardaginn fyrsta, bátur fórst en mannbjörg varð, annan bát rak upp í Bolungarvík og fjórir mótorbátar brotnuðu í Hnífsdal. Þann dag var talað um blíðskaparveður í Reykjavík.
Norðri segir í frétt þann 3. maí:
Til sjávarins hafa verið miklar ógæftir. Hákarlaskipin bæði af Eyjafirði og Siglufirði eru aflalaus. Endalaus austandrif, segja þau, svo aldrei hefir verið leguveður þenna hálfa mánuð, sem þau hafa verið úti. Til landsins hefir verið votveðrasamt, en meira rignt en snjóað í byggð. Næturfrost sjaldan umliðna viku og tún að byrja að grænka. Ávinnsla á túnum mun þó naumast byrjuð sakir votviðra.
Þjóðviljinn segir frá því 10. maí að seinast í apríl hafi orðið mikil símslit viða á Norðausturlandi, á Dimmafjallgarði, Smjörvatnsheiði og Fjarðarheiði. Sömuleiðis á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og í vestur í Dýrafirði hafi nokkrir símastaurar svipst í sundur í ofsaveðri.
Skeiðarárhlaup hófst þann 6. apríl og eldgos nærri Heklu þann 25. Talsverðir jarðskjálftar urðu í upphafi eldsumbrotanna og flýði fólk hús á Rangárvöllum, minnugt jarðskjálftans mikla í maí árið áður. Í frétt Vísis þ.27. segir frá Eyrarbakka: Svo virtist, sem Hekla sjálf væri farin að loga, en það sést ekki glöggt. Snjórinn bráðnar óðum af henni og er hún nú auð efst. Síðar var sagt að snjórinn á fjallinu hefði ekki bráðnað - en hulist ösku frá eldstöðvunum. - Gosið er að jafnaði ekki talið með Heklugosum - en um það má sjálfsagt deila.
Þann 29. apríl segir Vísir í frétt frá Eyrarbakka að Jökulsá á Sólheimasandi hafi verið þurr að kalla síðan um nýár, eða aðeins sem lítill bæjarlækur. Þykir það mjög undarlegt að áin sé stífluð svo lengi.
Maí: Hagstæð tíð fyrstu vikuna, en síðan fremur óhagstæð. Mjög þurrt víðast hvar. Allmikið hret eftir miðjan mánuð. Hiti í meðallagi mánuðinn í heild.
Þjóðviljinn segir þann 10. maí að tíðin hafi verið mjög hagstæð að undanförnu, enda ræktuð jörð orðin græn, og koma úthagarnir brátt á eftir, að vænst er. Þann 13. maí segir Ingólfur að veðrátta hafi verið ágæt um land allt síðan á sumarmálum. Hvítasunna var þann 11. maí og úr því hrakaði veðri, Norðri segir frá þann 21.:
Eftir hvítasunnu brá til norðan og norðaustanáttar með kulda og snjókomu eða rigning og frosti um nætur. Lítill gróður er því enn kominn og gefa verður lambfé.
Og Ingólfur daginn áður (20. maí):
Í gær og fyrradag var hörkustormur norðan hér sunnanlands með allmiklu frosti um nætur. - í öðrum landsfjórðungum var víða snjókoma og hlýtur hret þetta að hafa kippt úr gróðri. Nú er komið gott veður aftur.
Júní: Mjög óþurrkasamt á S- og V-landi, en þurrt eystra. Snjókoma fyrstu dagana norðaustanlands. Fremur kalt.
Ekki gott hljóð í Austra þann 7. júní:
Tíðarfar stöðugt ömurlegt, norðanstormur og kuldi á degi hverjum og snjór fellur á fjöll og ofan í miðjar hlíðar.
Hretsins gætti líka syðra, Ingólfur segir frá þann 3. júní:
Norðan-garður hefir verið síðan á föstudag [30. maí], og frost flestar nætur. Í Dölum gránaði á laugardaginn niður i byggð. Í Húsavik nyrðra var snjókoma í gær og tún hvít af snjó. Í Hrútafirði eru tún farin að grána aftur sakir kulda. Nú er veðráttan aftur farin að batna.
En svo tók tíð að skána og þann 18. júní segir Norðri frá góðviðri og hita þar um slóðir síðustu daga - og hæsti hiti ársins mældist einmitt nyrðra næstu daga á eftir eins og getið var í inngangi hér að ofan.
Austri segir frá ísbirni þann 21. júní:
Ísbjörn var skotinn fyrir utan Heyskála í Hjaltastaðarþinghá s.1. sunnudag [15.júní]. Höfðu menn fyrst orðið varir við bangsa daginn áður og skotið þá á hann mörgum haglaskotum, án þess að honum yrði meint af, þótt í fárra faðma skotmáli væri. En þá kom Einar Vigfússon prests Þórðarsonar á Hjaltastað með kúluriffil, og lagði björninn að velli í fyrsta skoti. Björninn var allstór og í góðum holdum; vóg skrokkurinn af honum 226 pund. Þykja þetta óvenjuleg tíðindi, og vita menn eigi gjörla hvernig björninn hefir hingað komið; telja líklegast að hann hafi komist upp á Langanes í vor með ísnum, sem hvalveiðamenn sáu þar. En eigi höfum vér frétt að víðar hafi sést til bjarnarins, en í Hjaltastaðarþinghánni.
Júlí: Mjög óhagstæð óþerristíð á Suður- og Vesturlandi, sérstaklega er á leið, en ágæt tíð norðaustanlands. Fremur hlýtt, einkum nyrðra.
Fréttir af veðri voru líka með misjöfnum blæ eftir landshlutum. Norðanlands var hljóðið gott. Norðri segir:
[Þ. 4. júlí] Síðan skipti um veðráttu um miðjan f m. hefir verið hagstætt tíðarfar fyrir grassprettu, þó nokkuð þyki þurrkasamt. Búist er við að tún verði víðast í meðallagi. Margir fara að slá það af túnum sem á að tvíslá. Votengi og flæðaengi sprettur nú sem óðast. Hiti og leysing mikil hefir verið til fjalla næstliðna daga, flæða því ár allvíða yfir engjar.
[Þ. 26. júlí] Ágætur hey- og fiskþurrkur þessa dagana. Grasspretta öll raklend tún í sæmilegri rækt hafa sprottið vel í sumar. Engjar nú óðum að spretta og horfur með heyskap bænda í besta lagi.
Syðra gætti fyrst nokkurrar bjartsýni. Suðurland segir frá þann 12. júlí:
Grasvöxtur er með minna móti i öllum sveitum hér sunnanlands, og líklega víðar. Er það eðlileg afleiðing af kuldanum í vor. Ágætt grasveður heflir verið undanfarna daga, svo það er góð von um að betur skipist um grasvöxtinn en áhorfðist um tíma. Vatnavextir með mesta móti eru sagðir í eystri Rangá í vor og í vetur seinni partinn, er hún nú sögð ill yfirferðar. [Athugsemd ritstjóra hungurdiska Ef til vill hafði eldgosið eitthvað með það að gera].
Vestri þann 25. júlí:
Tíðarfar rigningasamt, en annars hlýtt í veðri. Hundadagarnir byrjuðu með úrkomu og spá fróðir menn, að það muni haldast fyrst um sinn.
Ágúst: Mikil votviðratíð um allt sunnan- og vestanvert landið. Góð tíð norðaustanlands. Hiti í meðallagi.
Eystra héldu menn áfram að dásama tíðina, Austri segir 2. ágúst frá indælustu veðráttu, sannarleg sumardýrð og blíða.
Syðra var hljóðið síðra, þó sumir hafi fengið nokkuð bjartsýniskast við daginn bjarta, 3. ágúst. Lítum fyrst á pistil sem birtist í Suðurlandi 2. ágúst:
Stöðugir óþurrkar hafa gengið hér syðra síðan sláttur byrjaði, svo að fáir eða engir hafa náð inn neinu af þurrheyi. Mun vera mjög langt síðan að ekki heflir verið búið að ná neinu heyi um þetta leyti. Sagt er að einhverjir hafi tekið saman töðuna til súrheysgerðar; gott að geta brugðið því fyrir sig þegar tíðin er svona. Taða er víða orðin mjög hrakin og liggur undir stórskemmdum ef ekki rætist úr mjög bráðlega. Útislægjur fyllast nú óðum af vatni þær sem fyllst geta, og eru auk þess víða illa sprottnar. Það horfir því hið versta við með heyskapinn í þetta sinn.
Svo virðist sem sveitir austanfjalls hafi fengið einhverja sæmilega daga - og betri en komu við Faxaflóa og annars staðar á Vesturlandi því ekki er alveg sama svartsýnishljóð í Suðurlandi þann 16. ágúst:
Ágætan þurrk gerði sunnudag 3. ágúst, og hélst hann alla vikuna. Á þeim tíma munu flestir eða allir hafa náð öllu því heyi sem þá var laust. Var þess orðin mikil þörf. Rættist vel úr, eftir því sem áhorfðist, og var það mikil heppni að fá svo góðan þurrk á þeim tíma. Um síðustu helgi [10. var sunnudagur] brá aftur til óþurrka og hafa þeir haldist síðan; oft stórrigningar og stormur.
Umsögn og fréttir úr Austra, 30. ágúst:
Vandræðatíð. Sunnanlands gengur heyskapar afarilla vegna óþurrka. Viða við Faxaflóa innanverðan eru allar töður úti enn, meira eða minna skemmdar. Austanfjalls hafa töður náðst inn víðast hvar, en mjög skemmdar, þar sem snemma var slegið; óvíða er úthey þar komið í tóft, svo að nokkru nemi; sumstaðar verður ekki átt við heyskap fyrir vatnsaga; glöggur maður nýkominn að austan segir (19. þ. m,) að vel geti svo farið, að útheyskapurinn verði ekki í mörgum sveitum Árnessýslu meiri en þriðjungur á við það, sem gerist í meðalári. Vestan af Snæfellsnesi (úr Miklaholtshreppi) er skrifað 17. þ.m.: Mjög er erfið veðráttan hér nú, eigi búið að ná neinu heyi ennþá; horfir því til vandræða bæði með hey og eldivið".
Ingólfur segir þann 5. frá þurrkdeginum þann 3.:
Óþurrkar miklir hafa verið hér sunnanlands langa lengi og ekki komið þerridagur nema á sunnudaginn 3. þ.m. Þá var sólskin og heiðskírt allan daginn. Síðan hefir ekki rignt hér en verið þerrilítið. Margir hafa náð inn allmiklu af heyi þessa dagana, en mjög mikið er úti og farið að skemmast. Munu varla hafa verið slíkir óþurrkar síðan 1901. Norðanlands og austan er öndvegisveðrátta, sunnanátt og hitar síðan fyrir miðjan júní og grasspretta í betra lagi.
Þann 9. ágúst er hafísfregn í Norðra:
Hafís er nú að hrekjast upp á mótorbátamiðum Eyfirðinga. Bátar frá Svarfaðardal misstu nú í vikunni allmikið af lóðum fyrir ísrek. 3. þ. m. var gengið upp á fjöllin vestan við Siglufjörð og sáust þaðan ísbreiður fram á hafinu.
September: Fremur hagstæð tíð, ekki þó langir þurrkkaflar s-lands og vestan. Fremur hlýtt.
Ingólfur gefur gott yfirlit um tíðina í pistli 16. september:
Veður hefir nú loks breyst til hins betra hér syðra, verið hið fegursta síðustu dagana, logn og heiðskír himinn. Fyrir helgina gerði norðan garð og gránaði í fjöll. Á Norðurlandi og Vestfjörðum hafði hvítnað niðrí sjó sumstaðar. Veðrátta hefir verið hin ágætasta norðanlands og austan alt síðan í vor; graspretta í besta lagi. Jafnvel norður í Grímsey hafa verið meiri hlýindi en menn muna. Sunnan lands og vestan hafa óþurrkar verið með fádæmum. Heyskapur því í lakasta lagi víða. Einn bóndi við Safamýri eystra hefir t. d. ekki heyjað nema 400 hesta f sumar, en í fyrra 1400; mýrin hefir verið í kafi í vatni.
Síðan vitnar Ingólfur í bréf úr Staðarsveit sem Vísi hafði borist (en ritstjóri hungurdiska finnur ekki þar). Í bréfinu segir að taða öll sér stórhrakin og mikil hey fokin. Daginn sem bréfið var ritað (12. september) fuku nokkur hundruð hestar á Staðarstað, Ölkeldu og Fossi.
Norðri segir frá hretinu í frétt þann 17.:
Veðrátta. 12. þ. m. gekk í norðangarð með snjókomu svo hætta varð heyvinnu í tvo daga, á mánudaginn birti upp og hefir síðan verið allmikið frost um nætur, en snjór liggur yfir ofan undir bæi.
Í Þjóðviljanum þann 30. september er bréf frá Hornströndum, dagsett 7. sama mánaðar þar sem tíðarfari vors og sumars þar um slóðir er lýst:
Vorið, næstliðna. var hér mjög kalt, og því og gróðurlítið. Snjóþyngslin, á sumum bæjum, svo mikil, að eigi var nægileg fjárbeit komin upp um miðjan maí. Hér við bættist og að í enda malmánaðar, skall hér á ofsa-stormur, með blindkafaldshríð, er hélst í níu daga, alhvíldarlaust, að kalla, svo að allar skepnur, jafnvel hestar, stóðu á gjöf. Af hreti þessu leiddi það og, að eggja-tekjan eyðilagðist að mestu leyti, og fugltekjan varð í lakara lagi, því að þegar snjóinn leysti, fóru eggin víða fram af bergstöllunum. Um miðjan júní, skipti um veðráttu, og var hiti um daga, en frost um nætur, uns algjörlega kom inndælis sumarblíða, með byrjuðum júlí, sem haldist hefur síðan til þessa. Vegna þess, hve seint leysti, varð grassprettan hér í lakara lagi, og er heyaflinn þó nú víðast orðinn í meðallagi.
Úr Jökulfjörðum var aðra sögu að segja þó stutt sé á milli. Þjóðviljinn segir frá því þann 14. nóvember:
Úr Jökulfjörðum hafa nýlega borist þessi tíðindi: Þar var mjög þurrkalítið, og tíðin afleit, í júlí og ágúst, og fram í miðjan september, er loks skipti um, og gerði tíð góða. Hröktust hey manna í Jökulfjörðum að mun, og heyskapurinn var yfirleitt i minna lagi. Á Ströndum, austan Horns, var tíðin á hinn bóginn betri, og nýting heyja þar þolanleg. - En nokkuð af heyi - og þó eigi að mun - misstu menn þar, því miður; i vestan-roki, er þar gerði.
Austri birtir þann 18. október bréf dagsett í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu 30. september og er sumartíðinni lýst - þar fór seinna að rigna en vestar:
Nú er tekið að hausta og heyskap lokið hjá almenningi, og mun hann víða hafa orðið í góðu meðallagi eða betri, enda voru framan af sumri sífelldir þurrkar, allt að 12. degi
ágústmánaðar svo að víða varð jafnvel bagi að vatnsleysi, lækir og lindir þurrar. Og nýttist það hey vel, sem þá aflaðist, en grasvöxtur var að vísu í minna lagi lengi frameftir, einkum á túnum og harðvelli (góður á flóðengi). Síðara hluta ágústmánaðar og framan af þ. m. voru stopulir þurrkar, en 11. -12. sept. snerist í norðurátt og gjörði norðanrok mikið, sem feykti sumstaðar heyjum, en varð þó mörgum að miklu gagni með þerridögum þeim, er á eftir komu. þá hrakti 15 nautgripi úr Skógey í Nesjum út i Hornafjörð, og komust aðeins 2 lífs af (annar á Akurey langt úti í firði), en sumir fundust dauðir í fjörum, og vantar þó fleiri. Skógey er nú svo sandorpin, að mælt er að þar hafi aðeins fengist hey á 10 hesta í sumar, en áður svo hundruðum skipti. Síðan 18. september sífelld votviðri að kalla til næstu helgar, er sólskin kom og þerrir, sem orðið hefir mörgum að góðum notum.
Október: Fremur hagstæð tíð lengst af, en nokkur skakviðri. Hiti nærri meðallagi. Bátskaðar urðu nokkrir með manntjóni.
Norðri tíundar góðviðri þann 16. október:
Góðviðrið hefir haldist að þessu, svo fjárrekstrar og öll hauststörf hafa gengið mjög greiðlega. Saltfiskur hefir verið stöðugt breiddur og þurrkaður að öðru hverju.
Og Vísir sama dag í frétt frá Akureyri:
Góðviðri svo mikið á þessu hausti hér Norðanlands síðan hretinu létti um miðjan september að elstu menn segjast ekki muna slíka haustveðráttu. Kýr ganga enn víða úti og er ekki gefin nema hálf gjöf.
Mikið norðan- og norðaustanveður gerði um nær allt land þann 19. og 20. október. Margskonar tjón varð. Austri segir frá þann 25.:
Aðfaranótt hins 20. þ. m. gjörði ofsaveður um allt Norður- og Austurland. Fylgdi veðrinu fannkoma mikil, bleytuhríð í byggð, en frostkul til fjalla. Setti þó niður mikinn snjó, enda hélt áfram að snjóa til hins 23. þ. m.. og var síðari dagana frost nokkurt. Áttu menn erfitt með að ná saman fé sínu, því ófærð kom strax mikil en fé upp um öll fjöll hér í Seyðisfirði, þar sem vanrækt hafði verið að ganga á réttum tíma. Stóð féð í sveltu í fleiri daga hingað og þangað á fjöllunum, en mun nú flestu náð til byggða fyrir vasklega framgöngu einstöku manna. Símaslit varð i veðrinu á mánudaginn víða um land. Hér eystra, á túninu á Egilsstöðum þar sem 4 símastaurar brotnuðu, og á Haug, er síminn slitnaði niður af mörgum staurum. En mestar skemmdirnar á símanum urðu við Héraðsvötnin, þar brotnuðu 8 símastaurar. Er það óvenjulega mikið tjón, og einstakt á því svæði. Fljótlega varð þó hægt eð gjöra við skemmdirnar svo að samband náðist héðan til Akureyrar daginn eftir svo og til Suðurfjarða og til Beykjavíkur á þriðja degi.
Ingólfur segir frá veðrinu syðra:
Fádæma ofviðri og brim. Skip og bátar brotna hrönnum. Á sunnudaginn var [19.] gekk í norðanátt og hvessti veðrið eftir því sem á daginn leið. Mánudagsnóttina herti veðrið mjög og varð svo mikið rok seinni hluta nætur og á mánudagsmorguninn fram um miðjan dag, að sjaldan koma slík. Sjórokið var svo mikið yfir Reykjavíkurbæ,að húsin voru blaut utan, nálega í öllum bænum. Á Austurstræti voru pollar eftir rokið og ekki sá til Engeyjar þegar hvassast var, þó úrkoma væri engin né þoka. Brim var svo mikið, að margir Reykvíkingar þóttust ekki þvílíkt muna. - Sumir jöfnuðu veðri þessu við norðangarðinn mikla þegar Fönix" fórst, frostaveturinn mikla 1881, en það skildi, að þá var samfara 22 stiga frost, en nú var frostlaust.
Nokkra uppskipunarbáta sleit upp hér á höfninni og rak í land. Einn þeirra brotnaði í spón og flestir hinna munu hafa skemmst meira eða minna. Marga báta fyllti á höfninni, svo ekki sá nema á hníflana upp úr bárunni. Sumir voru á hvolfi. Tveir vélarbátar sukku úti á höfn. Annan átti Frederiksen kaupmaður, hinn Guðmundur Gíslason. Annan vélarbát Frederikseus kaupmanns rak í land vestan við Duus-bryggju". Þá braut brimið framan af Duusbryggju og Völundar-bryggju, Garðarsbryggju o. fl. Austanvert á höfninni lágu þrír kola-barkar". Tvo þeirra átti Chouillou kaupmaður og sleit annan upp seint um nóttina og rak upp í vikið milli Garðarsbryggju og Sjávarborgar.
Tveir menn voru í skipinu og héldu þar vörð, annar Norðmaður er Pétur Anton Olsen heitir, roskinn að aldri; hinn er unglingsmaður sem heitir Kristján, sonur Jóns Kristjánssonar næturvarðar í Völundi. Þegar skipið kenndi grunns, nálægt kl. 5 flatti það með landinu og lagðist á hliðina, svo að þilfarið horfði út og stóðu siglustúfarnir út í brimið. Mennirnir komust upp á borðstokkinn aftur undir skut og héldu sér þar í kaðla, sem fastir voru í borðstokknum, en brimið skelltist yfir þá í ólögunum. Þegar birti af degi var farið að leitast við að bjarga mönnunum, og var skotið út báti í vari skipsins, en hann fyllti hvað eftir annað. Loks tókst að komast á flot er fjara tók nálægt kl. 11; lágu þeir félagar á kaðli í bátinn og komust slysalaust í land. Olsen var þjakaður mjög og fluttur á sjúkrahús, en hinn vel hress. ...
Barkurinn sligaðist inn um miðjuna og skolaði miklu af spýtnarusli úr honum i land. Síðan hefir hann brotnað miklu meira. Skip þetta var gamalt, bar um 1200 smálestir, en ekki mun hafa verið í því nú nema svo sem 400 lestir kola. Valurinn", botnvörpuskip Miljónarfélagsins lá í vetrarlægi innanvert við höfnina og tók að reka þegar veðrið
harðnaði. Um hádegi rak hann upp í grjót innan við bústað Brillouins ræðismanns og brotnaði svo að hann er talinn ónýtur.
Víða urðu smáskemmdir á girðingum og gluggum, án þess talið sé. Hjallur brotnaði í Kaplaskjóli og fauk út á sjó. Símar eru slitnir, svo að ekki hefir frést enn af Vestfjörðum né Norðurlandi, en hætt við, að þar hafi orðið tjón viða, því að hríð hafði verið komin nyrðra á sunnudagskveldið. Sagt er að vélarbáta hafi rekið á land í Keflavík. Í Leiru hafði rekið upp vélar-bát þeirra Eiríks í Bakkakoti, er hafður hefir verið til landhelgisgæslu þar syðra. Í Garði hafði einnig rekið upp vélarbát.
Ingólfur birti þann 6. nóvember bréfkafla frá Snæfellsnesi þar segir m.a.:
Sumarveðráttan hefir verið afskapleg; sífeldar rigningar frá því um miðjan júlí til septemberloka. Örfáir upprofsdagar á öllu sumrinu, einn og einn í bili og ein vika sem lítið rigndi, en þó var þerrilaust að kalla. Annars hefir alltaf rignt dag- og nótt. Heyskapur er því almennt lítill og hey víða skemmd. Heyskaðar urðu af norðanveðrum tvívegis, en eigi eru þeir eins stórfelldir eins og blöðin hafa af látið. Almennt munu bændur hér um slóðir hafa misst frá 10-15 hesta hver, í seinna veðrinu, en í hinu fyrra naumast eins mikið. En mikið hafa hey ódrýgst á ýmsan hátt í sumar og er tjónið allmikið, þótt eigi sé orðum aukið. Um næstliðna helgi gerði hér óskaplegt norðanveður með snjóhrakningi og heljarfrosti, sem stóð fulla tvo sólarhringa. Fjártjón varð hvergi stórkostlegt, að því er frést hefir, en víða hrakti þó eitthvað af sauðkindum í vötn og hættur. Munu flestir bændur hafa misst þannig eitthvað af fé sínu en engir mjög margt. Í fjöllum hlýtur margt sauðfé að hafa dáið, því að fjárheimtur voru almennt slæmar og fé sást á fjöllum eftir fjallgöngur. Símslit urðu svo mikil á línunni milli Staðarstaðar og Búða, að líklega eru fá dæmi slíks í byggðu héraði.
Í sama tölublaði segir Ingólfur frá því að særok í norðanveðrinu þann 20. hafi verið svo mikið í Hvalfirði að það hafi borist suður yfir allan Reynivallaháls og á jörð í Vindási efst í Kjós.
Morgunblaðið segir frá því 3. nóvember (það byrjaði að koma út þann 2.) að Baron Stjærnblad, skip Sameinaða gufuskipafélagsins, hafi lent í hrakningum í illviðrinu, einnig segir af vandræðum á Hornafirði:
Baron Stjærnblad lá á Blönduósi þ. 19., en varð þaðan að flýja vegna óveðurs og brims; lét skipið síðan í haf og ætlaði inn á Hólmavík, en komst eigi fyrir blindhríð. Brotsjóir miklir gengu yfir skipið, brutu stjórnpallinn og skoluðu burt öllu, sem á þiljum var. Skipið missti einnig björgunarbát sinn og margt fleira. Mikið af vörum var í skipinu - mest kjöt; hentust tunnurnar til í lestinni og brotnuðu. Var skemmda kjötið síðan selt á Blönduósi á uppboði. Skipið liggur þar enn og fermir kjöt, en búist er við áð það haldi til útlanda innan fárra daga.
Gufuskipið Súlan, eign Otto Tulinius kaupm. og konsúls á Akureyri, var statt á Hornafirði í veðrinu mikla um daginn og var að sækja þangað kjöt og skinn. Hafði innanborðs 1800 gæruknippi og 300 tunnur af kjöti. Lá hún þar fyrir festum milli tveggja eyja. Veðrið og stormurinn bar skipið upp í aðra eyna. Símað var hingað eftir Geir til hjálpar og brá hann þegar við og fór austur. Er austur kom, var búið að tæma skipið og það komið á flot.
Vísir segir frá því þann 26. að í óveðrinu á miðvikudaginn [22. október] hafi tveir vélbátar og bátabryggja brotnað á Dalvík.
Fréttir bárust áfram af sköðum í illviðrinu - fjárskaðar virðast hafa orðið nokkrir, en dagsetningar ekki nefndar - fleiri koma til greina. Austri segir frá því að fé hafi farist í Eiða- og Hjaltastaðaþinghám, í Mjóafirði og Skriðdal og Vestri (18.nóvember) frá fjársköðum í Strandasýslu.
Nóvember: Hagstæð tíð framan af, en síðan miklir umhleypingar og nokkur snjór. Fremur kalt.
Eftir þann 10. gekk til umhleypinga og var oft leiðindaveður þó engin aftök fyrr en þann 22. Á þessum tíma var mjög kvartað undan hálku í Reykjavík og hálkuslys voru tíð.
Þann 25. mátti lesa eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu - ritstjóri hungurdiska veit ekki hvað hér er um að ræða:
Hálkan: 17 manns keyptu blývatn i lyfjabúðinni i gær, fyrir hádegi - höfðu dottið á hálkunni.
Þann 15. fórst maður í snjóflóði í Skjóldal í Eyjafirði - var á rjúpnaveiðum.
Talsvert snjóaði í þessum umhleypingum og segir Suðurland frá þann 21.:
Veturinn hefir þegar tekið héruðin hér eystra ómjúkum tökum. Snjókoma hefir verið mikil nú undanfarið. Er nú alt hulið þykkri snæbreiðu frá fjöru til fjalls og mun í flestum sveitum hér hagbann fyrir allan fénað, eru frost ennþá fremur væg.
En þann 22. gerði mikið illviðri. Svo segir í Morgunblaðinu þann 23.:
Ofsarok af norðaustri var hér i Reykjavik i gær, með fannkomu um morguninn, en rigningu er á leið daginn. Símslit eru á tveim stöðum hér á landi nú. Ekkert samband við Eyrarbakka og Stokkseyri og slit einhverstaðar milli Borðeyrar og Stykkishólms.
Akureyri í gær. Óveður mikið skall á kl. 3 í dag, suðaustanstormur með hláku. Ceres lá hér við hafskipabryggjuna og braut eitthvað úr henni. Háflóð var skömmu á eftir og skall sjórinn í sífellu yfir bryggjuna og langt upp í stræti. Skemmdir annars litlar.
Þann 26. til 27. gerði annað illviðri. Þá strandaði breskur togari við sandrif austan Víkur í Mýrdal og úr Vestmannaeyjum bárust fregnir af óvenjumiklum vestanstormi og stórsjó. Menn muna varla eftir öðru eins veðri í mörg ár. Í þessu veðri urðu enn mikil símslit á Austurlandi.
Þann 29. fór kröpp lægð norður með Austurlandi og olli hvassviðri og tjóni. Austri segir frá 6. desember:
Ofsaveður með mikilli fannkomu gjörði s.l. laugardag (29. nóvember) um allt Austur- og Norðurland. Munu töluverðir skaðar hafa orðið í því veðri. Hér á Seyðisfirði löskuðust bryggjur og einn mótorbát rak á land á Vestdalseyri; en bátinn bar upp i mjúkan sand, svo hann skemmdist ekkert að mun. Á Mjóafirði brotnaði bryggja og mótorbátur, er Gunnar Jónsson bóndi í Holti átti. Er það mikill skaði, því báturinn var óvátryggður. Er þetta annar mótorbáturinn sem Gunnar bóndi missir á 4 árum. Fyrri mótorbáturinn fórst með fjórum mönnum í fiskiróðri fyrir 4 árum. Á Norðfirði höfðu og nokkrir mótorbátar laskast meira og minna, Fjárskaðar urðu nokkrir. Mestir er vér höfum tilspurt í Fjallseli hjá Einari bónda Eiríkssyni, er missti um 80 fullorðnar kindur. Hrakti þær í lækjargil og skefldi þar yfir þær.
Þann 1. desember segir Morgunblaðið frá því að flóabáturinn Ingólfur hafi daginn áður gert þriðju tilraunina til að komast upp í Borgarnes. Hafi lagt í hann á hádegi en mætt stórsjó og blindhríð fyrir utan Eyjar og varð því að snúa við. Einnig er þess getið að eftirhermur Bjarna Björnssonar hafi farist fyrir sökum óveðurs. Daginn eftir er þess getið að hlið á fiskverkunarpalli hafi fallið í illviðrinu á Akranesi þennan sama dag.
Mjög kólnaði í kjölfar þessa illviðris.
Desember: Fremur óhagstæð umhleypingatíð með nokkrum snjó. Hiti nærri meðallagi. Maður varð þá úti í Skaftártungu - dagsetningar ekki getið (t.d. Ingólfur þ.11. desember).
Suðurland segir frá snjó þann 6. desember. Þar er orð sem ritstjóri hungurdiska minnist þess ekki að hafa séð annars staðar (hvers konar?):
Snjókynngi mikil hér sem annars staðar, þó ekki séu hinir illræmdu árekstursskaflar komnir ennþá.
Ísafold lýsir tíðinni þann 17. desember:
Veðrátta er með afbrigðum leiðinleg, sífeldir umhleypingar og dimmviðri. Myrkara skammdegi en þetta hefir eigi yfir Reykjavík gengið margt ár.
Snarpt illviðri ársins gerði þann 18. desember þegar kröpp lægð fór hjá. Morgunblaðið segir frá þann 19.:
Ofsarok var hér i allan gærdag. Fyrst á sunnan og snerist svo i útsuður er á leið daginn og hvessti þá fyrir alvöru. Skulfu húsin og lá sumum við að fjúka, en sjónum rótaði veðrið frá grunni og gerðist af voðabrim. Er þetta líkt veður og mannskaðaveðrið mikla þegar Ingvar strandaði hér á Viðeyjargranda [7. apríl 1906]. Ekki er þó enn kunnugt um að það hafi valdið tjóni, en búast má við því að skip hafi komist í hann krappan einhversstaðar.
Morgunblaðið segir frá því (þ.30.) að veðrið hafi einnig brotið bát norður á Þórshöfn.
Suðurland segir af sama veðri í frétt þann 23.:
Ofsaveður mikið af útsuðri var hér eystra fimmtudaginn 18. þ. m. Hús léku á reiðiskjálfi og bjuggust menn við hverskonar spjöllum af veðrinu á hverri stundu. Ekki hefir þó frést enn um að skemmdir hafi orðið hér í sveitum nema á einum bæ í Villingaholtshreppi, Vatnsenda. Þar fauk járnþak af fjárhúsi og hey hlöðu og um 30 hestar af heyi.
Nokkrar fréttir bárust af hafís í desember, þann 21. birti Morgunblaðið frétt frá Ísafirði frá því daginn áður:
Fregnir ganga hér um bæinn að hafís sé mikill hér í nánd, og að hann sé landfastur orðinn bæði við Brimnes og út af Súgandafirði að vestan. Margir botnvörpungar liggja hér á höfninni og segja þeir mikinn ís fyrir utan.
Sama dag segir Morgunblaðið frá hafnarframkvæmdum í Reykjavík:
Grandagarðurinn er nú kominn nær út i Örfirisey. Mundi hafa verið kominn alla leið ef tíð hefði verið góð, en nú hafa illviðrin tafið fyrir um langa hríð. Frost og snjór hefir tafið fyrir upptöku grjótsins og brimið hefir hamlað verkamönnum frá að vinna við það að reka niður stólpana.
Mikið snjóaði um jólin og Vestri segir þann 28. frá aftakahríðarbyl á fyrsta og annan jóladag og að skemmdir hafi þá orðið á bátum bæði á Ísafirði og í Hnífsdal (líka í Vísi). Maður varð þá og úti á Barðaströnd annan jóladag þegar stórhríð mikil með ofsaveðri og fannburði brast á um miðjan dag. Ingólfur segir frá þann 18. janúar 1914: Er mikið látið af grimmd veðursins á Vesturlandi og í Húnaþingi. Messufólk allt veðurfast til næsta dags á Breiðabólstað á Skógarströnd og Stað á Reykjanesi vestra. Mun festan hafa orðið eftir messugjörð á annan dag jóla.
Jólin voru hvít í Reykjavík. Svo segir Ísafold þann 27. desember:
Á aðfangadag tók að snjóa allmjög, og á Jóladagsmorgun var kominn knéhár snjór. Hvít jól rauðir páskar segir máltækið.
Norskt fiskflutningaskip strandaði við Akranes þann 28. desember (Lögrétta 1. janúar 1914).
Lýkur hér að segja frá veðurlagi og veðri ársins 1913.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:40 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.