Kaldasti dagur ársins (til þessa)

Föstudagurinn 29. desember er kaldasti dagur ársins til þessa á landinu í heild. Það var sérlega kalt norðaustanlands þar sem mest fréttist af -29,0 stigum í Svartárkoti. Þetta er mesta frost sem mælst hefur á landinu frá því 6. desember 2013, en þá fór frostið við Mývatn í -31,0 stig. 

Meðalhiti í byggðum landsins var -8,2 stig. Frá og með 1949 er vitað um 90 kaldari desemberdaga - rúmlega einn á ári að meðaltali, en ekki nema 7 á þessari öld. Ekki eru þó tilvikin alveg „óháð“ - mjög kaldir dagar koma gjarnan í klösum, fara tveir eða fleiri saman frekar en að dreifast stakir yfir tímabilin öll. Sá 29. hefur tvisvar verið jafnkaldur eða kaldari en nú, það var 1961 og 1995. Fyrra árið var „klasinn“ sem var jafnkaldur eða kaldari en nú fjórir dagar, 28. sá kaldasti, meðalhiti í byggð var þá -13,0 stig, en 1995 var hann sex dagar - og fimm höfðu komið í röð áður. Þá var annar jóladagur sá kaldasti, meðalhiti var -11,8 stig. Þá mældist -32,2 stiga frost í Möðrudal. 

Mesta frost sem vitað er um í desember mældist í Möðrudal þann 9. árið 1917, -34,5 stig. 

Frostið í Svartárkoti í dag er það mesta sem vitað er um á landinu 29. desember og er því svokallað landsdægurlágmark. Þetta er fyrsta byggðarlágmarksmet sem sett er á árinu, en annað í röð landsdægurmeta á landinu í heild - fjöldinn talsvert undir almennum væntingum. Til samanburðar má geta þess að hámarksdægurmetin eru orðin 12 á árinu (óstaðfestur fjöldi) - fjöldi talsvert ofan væntinga. 

Mikill fjöldi dægurmeta féll á einstökum stöðvum, t.d. hefur ekki mælst meira frost þann 29. desember á Bergstöðum í Skagafirði og á Sauðanesvita. 

Mánaðarhitamet féllu hins vegar ekki víða á stöðvum sem athugað hafa í meir en fáein ár. Þó hefur ekki mælst meira frost í desember en nú á Ólafsfirði (-20,2 stig). Þar hefur nú verið athugað í 20 ár, og einnig féll desembermet á Mývatnsheiði (athugað frá 1999). Sjálfvirkar athuganir byrjuðu í Svartárkoti 2003 og hefur frost ekki mælst meira þar í desember en nú og ekki heldur við Krossanesbrautina á Akureyri (frá 2005).

Óvenjukalt var á Akureyrarflugvelli - talsvert kaldara en við Lögreglustöðina og Krossanesbrautina. Lægsta talan sem sást var -23 stig og er það óvenjulegt. Það gerðist síðast 2011 (líka í desember) að frost varð meira en nú. Mesta frost sem vitað er um á flugvellinum mældist -26 stig, einmitt á annan dag jóla 1995 þegar frostið fór í -32,2 stig í Möðrudal og nefnt var hér að ofan. Einnig mældist frostíð á Akureyrarflugvelli -26 stig þann 6. mars 1998.

Þó kalt væri víða náði dagurinn þó ekki inn á lista þeirra daga sem tekur til daga þegar frost er allan sólarhringinn um land allt - því hámarkshiti fór yfir frostmark á fáeinum útnesjastöðvum. Sá ágæti listi er orðinn mjög gisinn á síðari árum, bæði vegna hinna almennu hlýinda sem og þess að útnesjastöðvum hefur fjölgað frá því sem áður var. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband