Öfugsniði

Stundum tekur upp á því að snjóa í norðaustanátt á Suðurlandi. Spár eru ekki alveg sammála um hvort það gerist nú - eða þá hversu mikið, en rétt er að líta á málið. 

Fyrst er ein af hinum erfiðu sniðmyndum sem stundum er brugðið upp hér á hungurdiskum.

w-blogg041217a

Lárétti ásinn sýnir breiddarstig - eftir línu sem liggur þvert yfir Ísland eins og smámyndin í efra horni til hægri sýnir. Lóðrétti ásinn sýnir hæð yfir sjávarmáli (í þrýstieiningum). Hálendi landsins rís upp fyrir miðjum lárétta ásnum sem grá klessa. Suður er til vinstri, en norður til hægri. Jafnmættishitalínur eru heildregnar, vindörvar hefðbundnar og vindhraði er sýndur með litum. 

Neðst á myndinni er austan- og norðaustanátt ríkjandi, hvöss undan Suðurlandi. Ofar er vindur mjög hægur (grænn litur) en þar ofan við vex vindur af suðvestri þar til komið er í kjarna heimskautarastarinnar í um 9 km hæð (300 hPa). 

Þessi breyting vindhraða og stefnu með hæð heitir „reverse shear“ á erlendum málum - sem ritstjórinn kýs að kalla „öfugsniða“ á íslensku. 

Við skulum taka eftir því að mjög mikill halli er á jafnmættishitalínunum. Þær sem liggja um græna beltið á myndinni eru mörgum kílómetrum lægri fyrir sunnan land (til vinstri) heldur en fyrir norðan. Kuldinn í neðri lögum „eyðir“ suðvestanáttinni og býr til norðaustanátt í stað hennar. 

Í þessari stöðu dregur mjög úr áhrifum landslags á úrkomumyndun, þá getur snjóað (eða rignt) á Suðurlandi í norðaustanátt. Suðvestanáttin í háloftunum sér um það. 

w-blogg041217b

Hér má sjá tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting og úrkomu á sama tíma og sniðið hér að ofan sýndi. Norðaustanátt er ríkjandi á landinu, en samt er aðalúrkomusvæðið yfir Suðurlandi. 

w-blogg041217c

Háloftakortið (500 hPa) sýnir allt aðra mynd. Mjög skarpt lægðardrag er við Vesturland og mikill suðvestanstrengur austan þess. Mjög mikill hitabratti er á myndinni, hiti yfir Mýrdalnum er um -28 stig, en -38 stig yfir Vestfjörðum. Til allrar hamingju fór lægðardragið á mis við hlýja loftið þegar það fór framhjá Íslandi (annars hefðum við fengið meiriháttar illviðri) - en spár benda nú til þess að það nái í skottið á því við Skotland. Þar er því spáð að lægð dýpki gríðarlega á miðvikudagskvöld. Þá verður lægðardragið komið vel framhjá Íslandi - og venjuleg norðanátt tekin við. 

Þegar þetta er skrifað (að kvöldi mánudags) er enn mjög óljóst hvort það nær að snjóa sunnanlands og hversu mikið það verður.

Iga-harmonie-líkanið stingur upp á þessari stöðu kl.6 á miðvikudagsmorgni.

w-blogg041217d

Hér er úrkoman öllu minni en hjá evrópureiknimiðstöðinni, en samt nær hún til Reykjavíkur. Líkanið spáir nú um 20 cm austur í Árnessýslu og enn meiru á stöku stað. En það hreinsar frá um leið og vindur snýst úr suðvestri í norður í háloftunum. Þá kólnar líka rækilega.

Lægðardrög sem þessi - með öfugsniða - eru mishraðfara. Fari þau hægt hjá getur snjóað mjög mikið og sumir frægustu sunnlenskir byljir eru þessarar ættar, t.d. mannskaðabylurinn frægi í febrúar 1940 sem ritstjóri hungurdiska hefur velt nokkuð fyrir sér - en ekki getað komið frá sér texta um. Kannski honum takist einhvern tíma að hreinsa þann snjó frá vitum sér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 423
  • Sl. sólarhring: 479
  • Sl. viku: 2721
  • Frá upphafi: 2414385

Annað

  • Innlit í dag: 392
  • Innlit sl. viku: 2507
  • Gestir í dag: 378
  • IP-tölur í dag: 368

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband