Hlýr október

Október hefur verið óvenjuhlýr og þar að auki hefur lengst af farið vel með veður. Hlýindin voru þó enn meiri í október í fyrra - sá mánuður var eiginlega út úr kortinu eins og sagt er - en þá var úrkoma einnig óvenjumikil um landið sunnan- og vestanvert og gekk á með töluverðum slagviðrum. Rigningin hefur núna verið langmest á Austfjörðum og á Suðausturlandi - úrkomuhryðjan mikla þar í lok september var þó mun meiri en októberúrkoman til þessa.

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 27 daga mánaðarins er 6,9 stig, 2,2 ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 1,6 ofan meðallags síðustu tíu ára, það næsthlýjasta á öldinni (sömu dagar voru þó ámóta hlýir 2001 og 2010 og ekki ljóst hvert lokasæti verður). Á 142-ára samanburðarlistanum eru dagarnir nú í 11. til 12.hlýjasta sæti. 

Staðan fyrir norðan er svipuð, meðalhiti á Akureyri 6,0 stig, 2,0 stigum yfir meðallagi sömu daga síðustu tíu árin. 

Úrkoma í Reykjavík er óvenjulítil - sérstaklega sé miðað við hversu hlýtt hefur verið - og hefur mælst 39,5 mm sem er nálægt helmingi meðalúrkomu. Á samanburðarlista sem nær til 120 ára er úrkoman í 105. sæti. Sólskinsstundafjöldi er hins vegar nærri meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma hingað til í mánuðinum mælst 53,7 mm sem er í rétt rúmu meðallagi. 

Dagurinn í dag (föstudagur 27. október) varð nokkuð merkilegur. Hámarkshiti fór í 21,3 stig í Kvískerjum í Öræfum og 22,1 stig á stöð vegagerðarinnar á svipuðum slóðum. Á báðum stöðvunum er þetta hæsti hiti ársins. Það er óvenjulegt að hæsti hiti á veðurstöð mælist í október - en hefur þó gerst nokkrum sinnum áður (mars er eini mánuður ársins sem aldrei hefur átt hæsta hita ársins á veðurstöð hérlendis). Rétt er að halda því til haga að þrátt fyrir háan hita á Kvískerjastöðvunum er varla hægt að tala þar um einhverja blíðu því þar geisaði ofsaveður um svipað leyti (29,4 m/s og hviður 44 m/s). Tuttugustigum verður vart haldið uppi í október nema með ofbeldi. 

Í nótt fór hiti í 10,4 stig á Brúarjökli - það er einnig hæsti hiti ársins þar „á bæ“. 

Þetta eru líka hæstu hámörk í október síðan 22,6 stig mældust á Dalatanga þann 26. árið 2003, en októbermetið er 23,5 stig - (1. október 1973). Þetta eru auðvitað landsdægurhámörk þess 27., en takið eftir því að hefði mælingin lent á gærdeginum (eins og hún hefði gert hefði árið 2017 verið hlaupár) væri ekki um dægurmet að ræða. 

Víðar var hvasst en í Kvískerjum. Tvö mánaðarvindhraðamet voru sett á sjálfvirkum stöðvum, á Reykjum í Fnjóskadal - þar hefur ekki orðið svona hvasst í október síðan mælingar hófust þar árið 2000, 21,0 m/s, og á Brú á Jökuldal (22,7 m/s). Þar byrjaði sjálfvirka stöðin 1998. 

Það sem af er mánuði er hiti ofan meðallags síðustu tíu ára á öllu landinu, mest er hitavikið á Haugi í Miðfirði og Húsafelli, +2,3 stig, en minnst á Hellu á Rangárvöllum og í Þykkvabæ, +0,8 stig. Allir þessir staðir eru gæfir til næturfrosta í hægum vindi, en eitthvað veldur því þó að frostin hafa nú verið eitthvað fleiri að tiltölu - eða snarpari - í Rangárvallasýslunni heldur en sitt hvoru megin Tvídægru. 

Árið hefur líka verið mjög hlýtt - hitinn í Reykjavík er nú í kringum það 5. hlýjasta, svipuð staða er á Akureyri og austur á Dalatanga er árið það sem af er það hlýjasta sem vitað er um - en tveir mánuðir eru eftir af árinu og allsendis óvíst hvað þeir bera með sér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg030325ia
  • w-blogg030325b
  • w-blogg030325a
  • w-1975-07-04-500
  • w-1975-04-29-500

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.3.): 88
  • Sl. sólarhring: 322
  • Sl. viku: 2047
  • Frá upphafi: 2450489

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 1826
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband