Svar við spurningu um úrkomumagn

Ritstjóri hungurdiska fékk spurningu um mestu úrkomu í Reykjavík - og samanburð við atburðinn í Texas. Satt best að segja hefur hann varla vit til að svara henni svo vel sé - rétt að spyrja frekar sérfræðinga í veitumálum. 

Rétt þó að í upphafi komi fram að engar líkur eru á því að 1000 mm úrkoma falli í Reykjavík á fjórum dögum. Mikil vandræði geta þó skapast við miklu minna magn en það.

Ritstjóri hungurdiska hefur ekki fengið staðfestar fréttir um úrkomumet í Texas, fréttir eru sem vonlegt er heldur grautarlegar. Svo sýnist þó nokkuð áreiðanlegt að 1000 til 1400 mm hafi fallið þar á 3 til 4 dögum þar sem mest var. Um útbreiðslu þessara aftaka veit hann ekki eða hvort mikill munur var á úrkomunni þar innan þess svæðis sem hún var hvað mest. Það er vitað að 500 til 1000 mm hafa í fáein skipti áður mælst á þessu svæði og þá á einum sólarhring - hvar sólarhringsúrkoman var mest að þessu sinni veit ég ekki - og ekki heldur hver hún var. Fréttir fjalla aðallega um heildarúrkomu atburðarins („storm total“). Tjónið nú er að einhverju leyti háð því að stórborg var inni á því svæði þar sem úrkoman var hvað mest. 

Tjón er alltaf samsett úr tveimur meginþáttum, því sem nefnt hefur verið tjónmætti (mælir afl hins náttúrulega atburðar) og tjónnæmi eða húf (mælir það sem fyrir tjóninu verður). Verði úrkomu- eða vindatburður sem þessi eingöngu yfir sjó eða eyðibyggðum er tjónið lítið jafnvel þótt tjónmætti atburðarins sé sá sami. Húfið er svo samsett úr allmörgum þáttum sem við rekjum ekki hér og nú (gætum gert það síðar). 

Svona áköf úrkoma mælist aldrei hér á landi. Við vitum um 1000 mm á einum mánuði og hugsanlega má finna dæmi um 400 - 500 mm á fjórum dögum. Sólarhringsmetið á Íslandi er 293 mm.

Í Reykjavík hefur úrkoma nokkrum sinnum mælst meiri en 50 mm á sólarhring, (metið er 56,7 mm) en vitað er um meir en 200 mm á sólarhring á Bláfjallasvæðinu og þar austur af. Setja má upp tilbúin dæmi um veðurstöðu þar sem úrkoma þar í fjöllunum yrði um 500 mm á fjórum sólarhringum (tæplega helmingur þess sem nú mældist í Texas).

Mesta fjögurra daga úrkoma sem mælst hefur í Reykjavík eru 112,1 mm sem féll niður dagana 28. til 31. desember 1903. Samkvæmt blaðafréttum lak þá víða í hús, ný sem gömul.

Frétt sem birtist í Ísafold 2. janúar 1904 er bæði skemmtileg og umhugsunarverð (m.a. í ljósi nýlegrar lekaumræðu). 

„Úrkoma var svo mikil 28. f. m., að eigi hefir endranær meiri verið á jafn stuttum tíma, sem sé 54,5 millim. og þykir þá óþurkasamt, er svo mikið rignir sumarlangt. Fylgdi þessari úrkomu landssynningsrok og var því vatnið heldur áleitið á hýbýli manna, enda kom víða fram leki og það sumstaðar, er menn sízt höfðu ætlað, sem sé á nyjum húsum. Er hrapallegt að svo illa skuli takast til, eigi sízt er í hlut eiga þeir menn, er vilja og geta haft alt sem vandaðast og ekkert vilja til spara. Svo langt eiga þó byggingameistarar höfuðstaðarins að vera komnir, að þeir geti séð við lekanum þegar þeir mega sjálfir öllu ráða og fyrir þá er lagt, að hafa húsin sem vönduðust og bezt, hvað sem það kostar.“

Skyndileysingar á snjó geta bætt við áhrif mikillar úrkomu þannig að meira flæðir en úrkomumagn eitt gefur til kynna.

Engar líkur eru á 1000 mm á fjórum dögum í Reykjavík, en félli slík úrkoma samt þar myndi mikið vandræðaástand skapast og stórkostlegt tjón verða. Fráveitur taka ekki við nema broti af slíkum vatnselg. Brunnar fylltust allir. Það þýðir að flestir kjallarar bæjarins myndu fyllast af vatni - ekki aðeins þeir sem lágt standa. Á sléttari svæðum myndi vatn standa uppi langtímum saman, götur yrðu ófærar og víða græfi úr þar sem straumur væri á vatninu. Víða myndi verða alldjúpt vatn á neðstu hæðum húsa á slíkum svæðum. Gríðarlegur fjöldi bifreiða myndi skemmast eða eyðileggjast.

Vatn myndi streyma inn af svölum fjölmargra húsa - þar sem slíks gætir venjulega ekki og sömuleiðis myndi fjöldi þaka leka - m.a. fjöldi sem annars eru talin þétt.

Væri vindur hvass magnaðist vatnstjónið stórlega. Hætt er við að dælubúnaður alls konar myndi skaddast eða stöðvast - jafnvel við Gvendarbrunna þannig að vatnsveita væri í voða. Sömuleiðis er hætt við slitum á lögnum, raflagna og fjarskiptatengingum þar sem vatnið leitaði framrásar.

Óbeint tjón, vegna röskunar á innviðum, yrði gríðarlegt og langan tíma tæki að koma hlutum í samt lag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér eru nokkrar viðmiðunartölur frá Bandaríkjum:

http://www.nws.noaa.gov/ohd/hdsc/record_precip/record_precip_us.html

Tölur um fellibylinn Harvey varla tiltækar enn.

E

Ello (IP-tala skráð) 31.8.2017 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 39
  • Sl. sólarhring: 322
  • Sl. viku: 2301
  • Frá upphafi: 2410290

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 2061
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband