Dægursveifla skýjafars

Skýjafar ræðst af lóðréttum hreyfingum lofts og rakastigi þess. Uppstreymi kælir loft og myndar ský (sé raki nægur), en niðurstreymi hitar loft og eyðir skýjum. Kæling lofts eða rakaíbæting eykur rakastig þess. Á sumrin er talsverð dægursveifla í hvoru tveggja.

Á daginn er uppstreymi yfir landi vegna þess að land hitnar meira en sjór. Þá er tilhneiging til þess að ský myndist yfir landinu, en bjart veður sé yfir sjónum. Sólarvarminn veldur einnig því að raki gufar upp á daginn bæði yfir sjó og landi, þannig að rakamagn í lofti vex þegar á daginn líður. Í meginatriðum má segja að tvenns konar ský myndist yfir landi á daginn, eftir því hvort loft er óstöðugt eða stöðugt.

Sé loft óstöðugt myndast bólstrar og jafnvel skúraklakkar. Uppstreymi er þá óhindrað upp í nokkur þúsund metra hæð. Loftið kólnar í uppstreyminu og raki þess þéttist og myndar ský og jafnvel skúrir nái hitinn í skýinu niður fyrir frostmark. Þá dregur fyrir sól.

Sé loft aðallega stöðugt verða til fláka- eða netjuský, nokkuð samfelldar skýjabreiður, sem einkum myndast þegar uppstreymi rekst upp undir hlýrri og stöðugri loftlög ofan við. Hér á landi hagar mjög oft þannig til að tiltölulega hlýrra loft liggur yfir kaldara. Þá eru oftast takmörk fyrir því hversu hátt uppstreymi getur náð og fer síðan eftir raka hvort ský myndast eða ekki. Skýjabreiður af þessu tagi myndast oft yfir landinu. Þegar líður á daginn leita þær til hliðanna og breiðast í átt til sjávar án þess að valda úrkomu. Stundum er neðsta lagið ekki nægilega rakt til að (fláka-) ský geti myndast í því. Þó bólgnar loftið út við að hitna á daginn og getur þá lyft næsta raka lagi fyrir ofan upp á við, þannig að þar myndist skýjabreiða (netjuský eða jafnvel klósigar). Nokkur skýjalög geta myndast á þennan veg, mishátt á lofti.

julinott_1975

Nokkuð er algengt undir kvöld á sólardögum að ský myndist efst í því lofti sem streymdi utan af hafi sem hafgola síðdegis. Þetta loft er að jafnaði mjög rakt og þegar það kólnar eftir að sól er hætt að verma það, þéttist rakinn og ský myndast. Í Reykjavík byrja þannig ský oftast að myndast í Esjuhlíðum, þá sem mjótt band, en fyrr en varir er komin nokkuð samfelld þokuskýjabreiða yfir allt loftið.

Dægursveifla af þessum toga getur endurtekið sig tilbrigðalítið dag eftir dag á sumrin. Oft má þó merkja hægfara þróun frá stöðugu lofti yfir í óstöðugt eða öfugt. Algengt er að sú þróun taki 3 til 6 daga svo lengi sem eiginleg lægða- og skilakerfi fara ekki hjá og rjúfa leikinn.

Þróun frá stöðugu yfir í óstöðugt gerist oft þannig að fyrsta daginn er mjög hlýtt loft yfir landinu, einu skýin eru þá há netjuský eða klósigar sem verða til þegar loft í neðri lögum bólgnar út og lyftir þeim efri. Síðdegis kemur hafgola með ný hitahvörf og við þau myndast þokuskýjabreiða fyrstu nóttina. Þokuskýjabreiðan rofnar síðan á öðrum degi, en rakinn helst yfir landinu. Hitahvörfin hafa nú tilhneigingu til þess að hækka lítillega frá einum degi til þess næsta þegar blandaða lagið neðan þeirra étur sig smám saman upp á við. Þá hækkar þokuskýjalagið og breytist í síðan flákaský og breytir þá líka um eðli. Flákaskýin oft samfelld yfir hádaginn, en leysast upp á nóttunni – öfugt við þokuskýjabreiðuna.

Þegar neðra borð hitahvarfanna hefur kólnað niður fyrir frostmark fara ískristallar að myndast í skýjabreiðunni og hlutar hennar breytast í mjög lágreista og bælda skúraklakka sem erfitt er að greina frá meginflákanum. Klakkarnir skila fáeinum dropum, en óstöðugleikinn í þeim hjálpar til að brjóta hitahvörfin sem nú eru orðin margra daga gömul. Þegar liðnir eru fjórir til fimm dagar fara að falla stórar dembur og skúraklakkarnir eru þá orðnir bústnir og þriflegir.

Þetta er auðvitað einföldun og oftast er það hæg norðanátt sem flýtir fyrir þykknun lagsins undir hitahvörfunum.

Það þarf nokkra þolinmæði og athygli til að átta sig á lóðréttri lagskiptingu og þróun hennar frá degi til dags. Það er heldur ekki oft sem fullur friður er dögum saman fyrir aðvífandi lægðagangi sem öllu blæs veg allrar veraldar. En þeim sem nenna er um síðir launað með skýrari sjón. 

Myndin með pistlinum sýnir þokuskýjaband í myndun við Brekkufjall í Borgarfirði júlínótt eina sumarið 1975. Ofar er flákaskýjabreiða dagsins að róast. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrirbærið, sem þú lýsir svo vel, gerði mér skráveifu í þessari viku, eins og ég lýsti í bloggpistli í fyrradag. 

Á öllum spákortum voru sýndar risasólir fyrir bæði miðvikudag og fimmtudag og gekk sú spá eftir fyrir miðvikudaginn. 

En þann dag átti sér stað drjúg ósýnileg uppgufun, sem kom fyrst í ljós hér á höfuðborgarsvæðinu í formi þokubanda í miðjum Esjuhlíðum þegar sól var að síga við viðar. 

Við sólsetur stækkuðu og þykknuðu þessi þokubönd hratt og morguninn eftir var orðið alsýjað og þokan niður undir sjó við norðurströndina, t. d. á Akureyri. 

Sömuleiðis létti þokulofi ekki í uppsveitum á Suðurlandi fyrr en eftir hádegi. Áform um flug á fjórum flugvélum frá Reykjavík og Akureyri hafa því ekki gengið eftir og hafa frestast. 

Ómar Ragnarsson, 26.8.2017 kl. 09:51

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Kom þessi texti í hug þegar ég horfði á þokubandið birtast í Esjuhlíðum í fyrrakvöld. Hafði ætlað að skrifa um annað.

Trausti Jónsson, 26.8.2017 kl. 13:56

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Eitt atriði þessu skylt vakti athygli mína þegar ég fylgdist með sjónvarpsútsendingum frá sólmyrkvanum um daginn. Þar kom fram að bólstraský áttu sumstaðar það til að eyðast á meðan myrkvinn gekk yfir, jafnvel þar sem fólk var orðið úrkula vonar að nokkuð sæist til himins. Kælingin sem myrkvinn olli var þá nægilegur til að valda staðbundnu niðurstreymi lofts í stað uppstreymisins alls staðar í kring.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.8.2017 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1036
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3426
  • Frá upphafi: 2426458

Annað

  • Innlit í dag: 924
  • Innlit sl. viku: 3080
  • Gestir í dag: 897
  • IP-tölur í dag: 830

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband