Á liggjandanum

Um þessar mundir eru árstíðahvörf í heiðhvolfinu. Austanátt sumarsins er að víkja fyrir vaxandi vestanvindi hausts og vetrar. 

w-blogg230817a

Hluti þessarar myndar birtist hér á hungurdiskum í vor, 14. apríl. Það var rauði ferillinn - (var þá reyndar blár). Hann sýnir styrk vestanáttarinnar í 30 hPa-fletinum, en hann er í um 22 til 24 km hæð frá jörðu (vindhraðakvarði til vinstri á myndinni). Ferillinn liggur neðan við núll á kvarðanum frá því um 20. apríl til um það bil 25. ágúst. Austanáttin (lágmark ferilsins) er í hámarki um sólstöður. 

Athugið að myndin nær til 18 mánaða - til þess að við sjáum báðar árstíðir, vetur og sumar, í heild sinni. 

Blái ferillinn sýnir hins vegar meðalvindhraða - hver sem svo áttin er. Hann fer að sjálfsögðu aldrei undir núll. Á því tímabili sem hér er til grundvallar er lágmark meðalvindhraðans þann 21. ágúst. Sá dagur hnikast sjálfsagt eitthvað lítillega til eftir tímabilum. 

Græni ferillinn sýnir svonefnda áttfestu, eða festuhlutfall. Þetta er hlutfall vigurvindhraða og meðalvindhraða. Sé áttin laus í rásinni er festan lítil. Blási vindur úr vestri helming tímans og svo jafnstrítt úr austri hinn helminginn er vigurmeðaltalið núll - alveg sama hversu mikill meðalvindhraðinn er. Festuhlutfallið er þá núll. Blási vindur úr nákvæmlega sömu átt allan tímann verður festuhlutfallið einn, alveg sama þótt styrkurinn sé síbreytilegur. 

Festuhlutfallið er mjög hátt meginhluta ársins í 30 hPa. Vindátt er svipuð sama dag frá ári til árs - úr vestri í hátt í 8 mánuði að vetri, en úr austri nærri 4 mánuði að sumarlagi. Skiptin eru furðusnörp - við sæjum þau þó ekki á mynd sem þessari ef þau kæmu alltaf nákvæmlega sama daginn. Umskiptin verða ekki sama dag á hverju ári - en ekki fjarri því. 

Festulágmörkin tvö eru hér 19. apríl að vori - og svo 23. ágúst síðla sumars. Meðalvindhraði er ívið minni í lok sumars heldur en á vorin og fellur lágmark hans nánast saman við festulágmarkið. Ritstjóri hungurdiska líkir þessu við liggjanda sjávarfallanna - fallaskipti. En athugum að við tölum ekki um að komin sé fjara þó farið sé að falla út. Á sama hátt er varlegt að tala um að sumri sé lokið strax við liggjandann. En það styttist þó í haustið.

Þessi liggjandi er greinilegastur í heiðhvolfinu - en hans gætir einnig neðar. Myndir sem sýna það hafa verið gerðar og reyndar hefur verið á þær minnst á hungurdiskum áður. En ferlarnir sem þær sýna eru ekki eins hreinir - það þarf lengri tíma en 40 til 60 ár til að hreinsa upp suðið. 

Það þarf verulegar breytingar á veðrakerfinu til að hnika árstíðaskiptum vindátta heiðhvolfsins til. En það er víst flest mögulegt er okkur sagt. Í pistli á hungurdiskum 22. maí 2016 var um slíkt fjallað og þann nærtækari möguleika að heiðhvolfsaustanáttin ryðji sér leið neðar en hún nær - eða að það slái verulega á sumarvestanáttina í veðrahvolfinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i
  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 303
  • Sl. sólarhring: 324
  • Sl. viku: 2565
  • Frá upphafi: 2410554

Annað

  • Innlit í dag: 237
  • Innlit sl. viku: 2268
  • Gestir í dag: 216
  • IP-tölur í dag: 205

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband