Í leit að vorinu 6

Þá er það vindurinn. Hann boðar líka vor, vindhraði minnkar og hann verður lausari í rásinni. Sömuleiðis verða breytingar á vindáttatíðni - en mjög erfitt er að ná tökum á þeim þannig að vel sé. 

Við skulum byrja langt uppi í heiðhvolfinu, í meir en 20 km hæð yfir jörð. Þar finnum við 30 hPa-flötinn. Alloft hefur verið á hann minnst áður hér á hungurdiskum og hegðan vinds þar. Þegar kemur upp fyrir um 20 km hæð skiptir alveg um átt á sumrin - vindur snýst úr vestri í austur. Þar neðan við helst vestanáttin allt árið - en úr henni dregur þó mjög á sumrin eins og við munum vonandi fá að sjá í næstu pistlum. Neðst í veðrahvolfinu hagar þó þannig til hér við land að austanátt er í hámarki að vetri, en lágmarki að sumarlagi. 

En lítum á vestanáttina í 30 hPa. Til þess notum við háloftaathuganir frá Keflavíkurflugvelli á árunum 1973 til 2016.

Meðalvestanvindstyrkur í 30 hPa  yfir Keflavík

Lárétti ásinn sýnir allt árið - og hálfu ári betur (til að veturinn sjáist saman í heild). Lóðrétti ásinn sýnir vestanþátt vindsins (ekki vindhraða). Sé vindur beint af suðri eða norðri er vestanþátturinn enginn, sé vindur af austri er vestanþátturinn neikvæður. 

Skiptin milli vestan- og austanáttar á vorin verða í kringum sumardaginn fyrsta. Ekki alveg nákvæmlega á sama tíma frá ári til árs, en samt er furðumikil festa í þessum skiptum. Sumarið í heiðhvolfinu hefst sum sé á sumardaginn fyrsta. Það er varla tilviljun að þær breytingar sem við höfum í fyrri pistlum séð að verða nærri þessum degi eigi sér stað þegar umskiptin verða í heiðhvolfinu. 

En við sjáum líka á myndinni að sumri lýkur í heiðhvolfinu seint í ágúst - við skulum bara segja að það sé á höfuðdaginn (þann 29.), en þeir sem lengi hafa fylgst með veðri og hafa tilfinningu fyrir því gætu líka verið veikir fyrir þeim 24. Ritstjórinn minnir af þessu tilefni á fornan pistil hungurdiska sem bar nafnið: September, haustið og tvímánuður. Þar má m.a. finna alþýðuskýringu hans á tvímánaðarnafninu dularfulla. 

En vorið er snemma á ferð í heiðhvolfinu - það er byrjað fyrir jafndægur á vori þegar vestanáttin er þar í „frjálsu falli“. Ef við leitum að jafnsterkri vestanátt að hausti og er við jafndægur á vori kemur í ljós að þar hittum við fyrsta vetrardag fyrir.

Vetur hefst í heiðhvolfi á fyrsta vetrardag (eða aðeins síðar) stendur nær til jafndægra að vori, vorið er stutt, sumar hefst á sumardaginn fyrsta. Það stendur til upphafs tvímánaðar og varir í tvo mánuði til fyrsta vetrardags. Í kringum mánaðamótin nóvember/desember fær vestanáttin í heiðhvolfinu aukaafl - skammdegisröstin nær sér á strik. Á skammdegisröstina var minnst í pistli hungurdiska 5. nóvember 2015. Á sama tíma sýna meðaltöl skyndilegt fall í sjávarmálsþrýstingi hér á landi - kannski er þetta tengt líka?

 

Nýliðinn vetur var nokkuð óvenjulegur í heiðhvolfi norðurhvels - og þegar þetta er skrifað (14. apríl) er norðaustanátt í 30 hPa yfir Íslandi. Sumar er að ganga í garð þar uppi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1032
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3422
  • Frá upphafi: 2426454

Annað

  • Innlit í dag: 920
  • Innlit sl. viku: 3076
  • Gestir í dag: 893
  • IP-tölur í dag: 826

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband