Masað um meðalhita (ekkert sérlega gáfulega)

Við mösum nú dálítið um meðalhita. Ritstjóri hungurdiska slær á meðalhita hvers mánaðar í byggðum landsins aftur til 1874. Þetta er reyndar frekar vafasamur verknaður og frekar hugsaður sem eins konar skemmtiatriði heldur en hörð vísindi.

Á tímabilinu 1931 til 2012 var hægt að miða að miklu leyti við sama (eða svipað) úrval stöðva. Eftir það fækkaði mönnuðum stöðvum svo mjög að flytja þurfti reikningana yfir á sjálfvirka stöðvakerfið. Samanburður var gerður á aðferðunum tveimur og eitthvað gert til að jafna mun (að mestu).

Fyrir 1931 eru stöðvar færri - en með samanburði mátti gera leiðréttingar sem vonandi taka af misræmi. - En vegna þess að stöðvarnar voru færri verður að reikna með því að breytileiki milli mánaða sé heldur meiri fyrir 1931 en síðar. En við skulum ekki vera að velta vöngum yfir slíku.

Fyrsta mynd dagsins sýnir landsmeðalhita (í byggð) í öllum mánuðum frá janúar 1874 til febrúar 2017.

Landsmeðalhiti janúar 1874 til febrúar 2017

Ekki mjög auðlesið - en ritstjóranum finnst samt gaman á að horfa. Mánaðarhitinn var lægstur í mars 1881, -11,9 stig, en hæstur í ágúst 2003, 12,2 stig. 

Við sjáum að hin síðustu ár hafa mánuðir með meðalhita undir -2 stigum verið sárafáir, eftir aldamót eru það aðeins febrúar 2002 og desember 2011 sem ná slíkum kulda. Ósköp einmana á myndinni. Fyrir 1995 er hrúga af slíkum mánuðum - meira að segja á hlýskeiðinu mikla fyrr á 20. öldinni. 

Við sjáum líka að það hitinn virðist hægt og bítandi vera á leið upp á við, tæpt 0,001 stig á mánuði að meðaltali. Þau smáu skref safnast saman og verða að um það bil 1,1 stigi á öld. 

Einnig sést að punktarnir eru gisnari um miðbik þyrpingarinnar (þvert yfir myndina) heldur en ofar og neðar. 

Þetta má sjá betur á næstu mynd.

Landsmánaðarmeðalhiti - tíðnirit

Þetta er tíðnirit. Við teljum saman fjölda mánaða á 1-stigs meðalhitabilum. Kemur þá í ljós að algengast er að meðalhiti í mánuði sé í kringum frostmark (dæmigerður vetrarhiti á Íslandi), nú eða 8 til 10 stig (dæmigerður sumarhiti). Ársmeðalhitinn er hins vegar um 3,7 stig.

Ef við nú tökum þetta bókstaflega mætti segja að hlýnunin sem orðið hefur síðustu 100 árin samsvari færslu á súlunum um eitt bil til hægri. - Eða hvað? Færum við að reikna kæmi reyndar í ljós að hlýnunin er meiri að vetri en sumri - erum við að skera kuldahalann langa af dreifingunni - en annars engu að breyta? Er tíðniritið að þéttast saman? Súlan á milli 11 og 12 er harla rýr. Má af því ráða að þess sé varla að vænta að það fari að fjölga mánuðum sem eru hlýrri en 12 stig fyrr en eftir einhverja áratugi? 

Þessum spurningum vill ritstjóri hungurdiska auðvitað ekki svara - en telur samt hollt að myndir sem þessi séu hafðar í huga þegar hlýnun ber á góma. 

Þegar rætt er um heimsmeðalhita er nær alltaf horft á hitarit sem sýna vik einstakra mánaða eða ára frá einhverju meðallagi. Auðvelt er að búa til slíkt rit fyrir Ísland (hafi tekist að reikna landsmeðalhitann). 

Vik landsmeðalhita (miðað við 1931 til 2010)

Hér má sjá línurit af þessu tagi. Við reiknum meðaltal hvers almanaksmánaðar fyrir tímabilið 1931 til 2010 (80 ár) og síðan vik hvers einstaks mánaðar frá því meðaltali. Mestu jákvæðu vikin eru í febrúar 1932 og mars 1929, mest neikvæðu vikanna er í mars 1881 - og svo í janúar 1918. 

Leitnin er sú sama og áður - það hefur hlýnað - en hlýnun síðustu ára er samt ekkert að æpa á okkur - sé miðað við fyrra hlýskeið. 

Nú er breytileiki hitafars miklu meiri að vetri en að sumarlagi. Það eru því vetrarmánuðir sem eiga flest þau miklu hámörk og lágmörk sem við sjáum á þessari mynd. 

Við skulum reyna að jafna vægi mánaðanna. Til þess að gera það reiknum við staðalvik - miðað við sama tímabil og áður, 1931 til 2010 - og teiknum mynd.

Staðalvik landsmeðalhita (miðað við 1931 til 2010)

Í ljós kemur að hér slær október síðastliðins haust (við hægri jaðar myndar) út - eða að minnsta kosti jafnar hlýindi mánaðanna sem afbrigðilegastir voru á fyrri mynd. Maí 1979 reynist vera langt til eins kaldur og janúar 1918 - kaldastur allra mánaða frá þeim tíma - keppi hann á jafnréttisgrunni staðalvikanna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.11.): 146
  • Sl. sólarhring: 283
  • Sl. viku: 2660
  • Frá upphafi: 2411580

Annað

  • Innlit í dag: 141
  • Innlit sl. viku: 2294
  • Gestir í dag: 137
  • IP-tölur í dag: 137

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband