Hversu mikið hefur hlýnað?

Tilefnið er að einhverju leyti „frétt“ um að hiti á Íslandi hafi hækkað um þrjú og hálft stig á síðustu 100 árum. Ritstjóri hungurdiska hvorki heyrði né sá fréttina - nema á vef RÚV - og hefur ekki athugað við hvað var átt nákvæmlega, hvort t.d. verið var að tala um °F eða °C eða hvort átt var við síðustu 100 ár - eða hvort átt var við að hlýnun sem „nú væri í gangi“ samsvaraði 3,5 stigum á 100 árum - eða hvort um einhverja framtíðarsýn var að ræða. 

En hlýnunina má setja fram á ýmsa vegu. Það sem hér fer á eftir er að vissu leyti beint framhald á tveimur pistlum sem birtust á hungurdiskum 28. apríl og 1. maí 2016.[Sjá viðhengi].

Lítum á (stappfulla) mynd:

w-blogg260117

Lárétti ásinn sýnir ár, sá lóðrétti ársmeðalhita í Stykkishólmi. Við höfum mjög oft horft á þessar súlur - síðast á nýársdag. Rauði ferillinn sýnir 30-árakeðjur, sá græni 100-árakeðju - höfum líka séð þær áður. 

Bleiki ferillinn þarfnast sérstakra skýringa. Hann sýnir línulega leitni hitans miðað við ýmis tímabil. Fyrsti punkturinn (lengst til vinstri) nær til alls tímabilsins 1798 til 2016. Leggjum við það allt undir reiknast leitnin (hlýnunin) 0,8 stig á öld. Eftir því sem lengra kemur til hægri á myndinni styttist tímabilið sem til viðmiðunar er. Við getum þannig lesið árið af lárétta kvarðanum - farið upp að bleiku línunni og séð hver leitnin reiknast - hefðum við ákveðið að byrja að reikna það ár. 

Í ljós kemur (ekki á óvart) að hún er mjög misjöfn eftir því hvar byrjað er. Það skiptir ekki svo miklu hvar við byrjum á 19. öld. Mest er hún þó sé byrjað um 1860, leitnin þaðan er um 1,1 stig á öld. Nítjándualdarhlýskeiðið var þá liðið. - Við sjáum líka á hitaferlinum sjálfum (súlurnar) að við gætum túlkað allt tímabilið fram yfir 1920 sem einhvers konar „jafnstöðutíma“ - svo fari að hlýna. 

En ef við byrjum leitnireikningana eftir að hlýna tekur kemur snögg dýfa í leitnina - það hlýnaði fjarskalega skyndilega. Hefðum við ákveðið að byrja t.d. árið sem Veðurstofan fór að gefa út tímaritið Veðráttuna (1924) - fáum við aðeins út 0,3 stig á öld sem langtímaleitni. - Lágmarksleitni fáum við með því að velja 1927 til 2016, 0,24 stig á öld. - 

Svo bætir í eftir því sem aftar kemur í hlýindaskeiðið gamla (vægi þess minnkar) og kuldaskeiðið 1965 til 1995 fær meira og meira vægi. 

Ef við gleymum gamla hlýindaskeiðinu alveg - og ákveðum að byrja leitnireikninga inni á kuldaskeiðinu kemur í ljós að hlýnunin síðan skilar gríðarháum tölum. Byrjum við 1979, á kaldasta ári kuldaskeiðsins, verður leitnin meir en 5 stig á öld og fer svo hæst í 6,5 stig á öld - ef við ákveðum að miða við 1994 til 2016 - sannkölluð óðahlýnun. 

Að vera að reikna leitni fyrir styttri tíma en 30 ár er reyndar alveg glórulaust - en við látum það samt eftir okkur til skemmtunar - og fáum lægri tölur á síðari árum - en samt vel jákvæðar - kringum 2 stig á öld. 

Hér er auðvitað margt sem vekur umhugsun. Hvar á að byrja? Er hlýindaskeiðið gamla hluti af hnattrænni hlýnun? Var kuldaskeiðið afturhvarf til þess „eðlilega“. Ritstjóri hungurdiska velti vöngum í tilvitnuðum pistlum og fer ekki að endurtaka það nú. 

En - við skulum hafa í huga að leitnireikningar yfir tímaraðir á norðurslóðum sem ekki ná aftur fyrir hlýskeiðið gamla eru varasamir - sýna óðahlýnun eða afleiðingar óðahlýnunar sem við vitum ekki hvort endist. - Geri hún það er verulega illt í efni. 

Við gætum líka farið út í að framlengja keðjur. Það má gera á ýmsan veg. Ef við t.d. tökum síðustu uppsveiflu 30-ára ferilsins á myndinni (rauður) - samsvarar hún um 3,8 stigum á öld, brekka 100-ára keðjunnar er aðeins um 0,9 stig á öld, og fimm og tíu ára keðjur sýna meir en 5 stig á öld - sé tíminn frá síðustu lágmörkum þeirra aðeins tekinn. 

Við getum því í raun bara valið okkur þá tölu sem við teljum henta, en munum: Leitnireikningar einir og sér eru einskis virði í veður- eða veðurfarsspám (þó gagnlegir geti þeir verið í greiningum).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Takk fyrri góðan pistil eins og alltaf! Það voru fleir en ég sem ráku í rogastans yfir fréttinni á RÚV - það gæti verið gaman að vita hvaðan þessi 3,5 gráðu tala eiginlega var fengin!

Rauði ferillinn finnst mér skemmtilegastur með sínar mjúku sveiflur, varla þó nógu margar til að hægt sé að draga ályktanir þar um. Á einhverjum öðrum vettvangi benti ég á að mér sýndist núverandi hlýnun á heimsvísu hegða sér öðruvísi en sambærileg hlýnun á hápunkti Holocene fyrir um 8000 árum hvað Ísland varðar. Þá skilst mér að skv. íslenskum rannsóknum hafi hitinn verið 3,5 gráðum hærri en meðaltal 1961-1990 á Íslandi, en á heimsvísu virðist hápunkturinn hafa verið litlu hærri en 1961-1990, innan við 0,5 gráður. Rannsókn sem náði yfir meginland Evrópu sýndi frá 1,5 gráðum nyrst niður í lítilsháttar kólnun syðst. 

Á hápunkti Holocene virðist hlýnunin hafa verið áberandi meiri á Íslandi en t.d. í Evrópu eða á heimsvísu, en í núverandi hlýnun virðist Ísland (eða allavega Stykkishólmur) fylgja hnattrænni hlýnun nokkuð vel, nokkurn veginn sama hlýnun og grófleg nálgun við leitnilínu 1900-2016 hjá NASA-GISS (NOAA og HADCRU virðast með mjög svipaða leitni). Ísland virðist því ekki njóta norður-mögnunar (Arctic amplification), alla vega ekki ef miðað er við Stykkishólm. Það gæti verið gaman að sjá hvort fleiri þéttbýlisstaðir sýni svipaða 100 ára hækkun og Stykkishólmur - eða hvenær var byrjað að mæla hita reglubundið á öðrum stöðum?

Brynjólfur Þorvarðsson, 26.1.2017 kl. 08:20

2 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Þakka mjög góðan pistil. Satt best að segja varð mér um og ó þegar ég heyrði séfræðinginn nefna þessa tölu, þrjár gráður. Nota þeir virkilega allt til að sannfæra okkur sem trúum ekki alfarið á að glópal warming sé af manna völdum eingöngu. Er sammála Brynjólfi að rauði ferillinn er markverðastur,tekur sveiflur hitinn hækkar um ca. 1.5 gráður ca á 200 árum. Kolanotkun og iðnbyltingin í gangi allt tímabilið. Mér finnst að RÚV skuldi áskrifendum leiðréttingu á "fréttinni " Annað,hefur enginn reiknað út nákvæmlega hvað 10 % af lagnaðarís Norðurskautsins og allur ís á Grænlandsjökli hækkar yfirborð sjávar ? Í þessu versta falli með einhverju tilliti til uppgöfunar ? Eru þessar "fréttir" bara ágiskanir og hræðsluáróður ?

Sigurður Ingólfsson, 27.1.2017 kl. 16:41

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Brynjólfur - þótt hitasveiflur séu ekki alveg eins á öllu landinu eru langtímabreytingarnar svipaðar - aðeins meiri en í Stykkishólmi við norðurströndina - aðeins minni við suðurströndina. Hér hefur hlýnað heldur meira en að meðaltali í heiminum - um það (og hugsanlega stærð mögnunar) má lesa í viðhengi pistilsins. Við höfum hins vegar tekið mögnunina út (sem hlýnun) að mestu nú þegar - og óvíst að við eigum frekari mögnun inni. Reglubundnar mælingar eru til frá 1871 í Reykjavík og 1882 á Akureyri. Tölur þær sem þú nefnir um hita á Íslandi á fyrri tíð eiga nær eingöngu við um sumarið - vetarhitann þekkjum við ekki jafnvel. Ekki er víst að vetur hafi verið teljandi hlýrri en nú.

Sigurður - Lagnaðarís norðurskautsins skilar engri sjávarborðshækkun (hann er í sjónum) en bráðni allur Grænlandsjökull hækkar yfirborð heimshafanna um 7 metra að meðaltali - heldur minna að vísu hér vegna nálægðar við jökulinn því tilvera hans veldur því að sjávarborð hér er nú hærra en annars væri. -

Trausti Jónsson, 27.1.2017 kl. 17:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband