8.1.2017 | 01:17
Þvælt um veðurfarsbreytingar (hringakstur)
Hér þvælir ritstjóri hungurdiska eitthvað um veðurfarsbreytingar (aðallega endurtekið). Þann 17. júlí 2016 birtist pistill á hungurdiskum með fyrirsögninni Hringrás í júlí - (og veðurfarsbreytingar). Við skulum nú líta á svipað - frá janúarsjónarhóli. Mjög minnisgóðir lesendur ættu að kannast við eldri pistil (næstum því eins - og þeir sem eru enn minnisbetri geta rifjað upp enn eldri pistil).
Spár um breytingar á veðurfari af völdum vaxandi gróðurhúsaáhrifa eru á margan hátt varasamar viðfangs - margt í þeim sem getur farið úrskeiðis. Þess vegna hafa menn fremur kosið að tala um framtíðarsviðsmyndir - bæði þá um losun gróðurhúsalofttegunda og annarra efna sem kunna að hafa áhrif á geislunareiginleika lofthjúpsins - sem og veðurfarslegar afleiðingar hverrar losunarsviðsmyndar. Við erum því - oft í einum graut - að tala um, losunarsviðsmyndir (losunarróf) og líklegt veðurlagsróf hverrar sviðsmyndar.
Fjölmargar losunarsviðsmyndir hafa komið við sögu - miklu fleiri en svo að veðurfarsróf verði reiknuð að viti fyrir þær allar. Í reynd hefur verið valið úr og má lesa um það val í skýrslum milliríkjanefndar sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Til eru enn öfgafyllri sviðsmyndir en þar er minnst á.
Í þessum sviðsmyndasjó og afleiðingarófi er í sjálfu sér enginn jaðar hugsanlegra framtíðarbreytinga - en þar er þó að finna umræður um 6 stiga hlýnun - bæði 6 stiga almenna hlýnun um mestallan heim, sem og 6 stiga hlýnun á norðurslóðum - en um tvö stig annars staðar. Hvort tveggja telst ekki ólíklegt - haldi losun áfram svipað og verið hefur.
Við skulum hér líta á almennt ástand í neðri hluta veðrahvolfs í janúarmánuði. Til að ræða það þurfum við að líta náið á myndina hér að neðan. Hún sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og 500/1000 hPa þykkt yfir norðurhveli í mánuðinum á árunum 1981 til 2010.
Grunngerð myndarinnar er sú sama og lesendur hungurdiska hafa oft séð - nema hvað jafnhæðarlínur eru dregnar á hverja 3 dekametra í stað 6 sem venjulegast er, eru sum sé tvöfalt þéttari. Þykktin er sýnd í hefðbundnum litum (skipt um lit á 6 dam bili) en auk þess eru jafnþykktarlínur dregnar - líka á 3 hPa bili (strikalínur). - Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð. Þetta er reyndar endurnýtt mynd úr eldri pistli (ja, hérna - er ekkert nýtt hér að finna?).
Mörkin á milli bláu og grænu litanna er að vanda við 528 dekametra, meðalþykkt í janúar hér á landi er um 524 dam. Við megum taka eftir því að þykkt við Ísland er meiri en víðast hvar er á sama breiddarstigi - ólíkt því sem er í júlímánuði.
Í fyrstu nálgun ræður risastórt kalt háloftalægðasvæði veðri á öllu norðurhveli. Þegar nánar er að gáð er það þó ekki hringlaga - aflögun er tölurverð og kemur hún fram þannig að sums staðar ná jafnhæðarlínur norður fyrir meðalstöðu (hæðarhryggir) en annars staðar liggja þær sunnan við (lægðardrög). Sama má segja um þykktina (hitann). Við megum taka eftir því að hlýindi fylgja hryggjunum (gróflega), en kuldi drögunum. Sé nánar að gáð má sjá að víða mynda jafnhæðar- og jafnþykktarlínur horn á milli sín. Þar er vindur (sem liggur samsíða jafnhæðarlínum) að bera fram kalt eða hlýtt loft.
Hægt er að telja hversu margar bylgjur eru í hringnum. Útkoman verður þó mismunandi eftir því hvaða breiddarstig við veljum til að telja á. Lengd hverrar bylgju er venjulega ekki talin í kílómetrum heldur er notast við hugtakið bylgjutala. Bylgjutalan segir til um hversu margar bylgjur af ákveðinni stærð komast fyrir á hringnum.
Hefð er fyrir því að byrja á núlli - við bylgjutölu núll er hringurinn hreinn með miðju á norðurskauti. Hallist hann til suðurs á einhvern veg verður til bylgjutala einn. Það sem kallað er AO (Arctic Oscillation) er í hreinustu mynd sveifla í styrk þessara tveggja bylgjutalna.
Á meðalkortinu hér að ofan sjáum við að meira er af köldu lofti (og flöturinn stendur almennt neðar) á austurhveli jarðar - einkum Norður- og Austurasíu, en annar öflugur kaldur poki teygir sig líka til Norður-Ameríku - og að dekkstu bláu litafletirnir eru langt í frá hringlaga. - Þessi teyging til beggja meginlanda er á bylgjutölunni 2 (um það bil) - en samt ...
En meginlöndin og höfin sjálf - á hvaða bylgjutölum eru þau? Við sjáum að hvorki Norðurameríka né Atlantshaf ráða við bylgjutölu 2 - þau eru allt of mjóslegin til þess. Asía aftur á móti og Kyrrahaf eru nær því að gera það. Ef við hugsum meðfram 50. breiddarstigi er Amaríka rúm 60 lengdarstig að breidd - bylgjutala 6, Atlantshafið er á sama breiddarstigi um 50 lengdarstig eða bylgjutala 7, Evrasía öll, frá Vesturevrópu austurstrandar Asíu er um 160 breiddarstig - bylgjutala 2 til 3.
Andardráttur sá sem samspil sólarhæðar og afstöðu meginlanda og hafa ræður miklu um það hvernig bylgjurnar leggjast og hversu öflugar þær verða. Árstíðasveifla sólarhæðarinnar einnar býr til sveiflu á bylgjutölu núll. Yfir hásumarið er kaldast yfir Norðuríshafi og lægðarmiðjan þar - þegar kólnar á haustin teygist á hringnum eftir því sem kuldi meginlandanna verður meiri - og í janúar eru lægðarmiðjurnar orðnar tvær og hringurinn umtalsvert aflagaður. Aflögunin er jafnvel enn meiri í febrúar en þá er veturinn í hámarki á norðurslóðum. Síðan fer að hlýna á meginlöndunum og aflögunin minnkar aftur.
Hér á landi er eindregin vestsuðvestan- og suðvestanátt í miðju veðrahvolfi og þar ofan við í janúar, í febrúar er áttin aðeins suðlægari, en um jafndægur fer að hlýna í Ameríku og áttin snýst meira í vestur. Í kringum sumardaginn fyrsta dettur mikið afl úr hringrásinni - en við verðum þá gjarnan fyrir (grunnri) útrás kulda úr norðurhöfum.
Á myndinni má sjá fjórar rauðar strikalínur - tvær þeirra marka tvo bylgjutoppa - þann vestari við Klettafjöll, hinn er við norðvesturströnd Evrópu, afmarka eina bylgju. Hún er um 100 lengdargráður við 50. breiddarstig, bylgjutala 3 til 4. Hinar strikalínurnar sýna lægðardrögin sem fylgja. Klettafjallahryggurinn, Baffindragið, Golfstraumshryggurinn, Austurevrópurdragið. Ylur Atlantshafsins stuðlar að afli Golfstraumshryggjarins, og Kyrrahafsylur og Klettafjöllin móta Klettafjallahrygginn. Vetrarkuldi Norðurameríku býr Baffinsdragið til - en skjólið af Klettafjöllunum styrkir það líka. Klettafjöllin og vetrarkuldi sjá til þess að vindur er mun sunnanstæðari hér á vetrum en ella væri og hækka hita - kannski alveg jafnmikið og hlýir straumar Atlantshafs gera.
En hvað gerir hnattræn hlýnun við svona mynstur? Eitthvað er verið að tala um tvö stig. Hver litur á myndinni er um 3 stig. Tveggja stiga hlýnun sem dreifist jafnt yfir allt hnikar öllum litum (og jafnhæðarlínum) til um nærri eitt bil. Dekksta bláa svæðið myndi dragast mjög saman og einn dökkbrúnn litur til viðbótar myndi birtast í hornum kortsins. Það þyrfti vön augu til að sjá nokkurn hringrásarmun.
En svo einfalt er málið væntanlega ekki. Verði hlýnunin ójöfn geta ýmsir hlutir farið að gerast. Meginlöndin, Klettafjöllin - (og aðrir fjallgarðar) verða að vísu á sínum stað, en líklegt er að meira hlýni yfir Norðuríshafi en annars staðar - bæði á haustin og yfir háveturinn. Þá gætu lægðirnar tvær - sú yfir Austur-Síberíu og Norður-Kanada slitnað enn betur í sundur - bylgjutölurnar tveir og þrír orðið eindregnari - en þá er hætt við að bylgjutölur fjögur til sjö - sem eru ógreinilegri á kortinu - en eru mjög ráðandi engu að síður - raskist líka. Þá breytist úrkomumynstur líka - og þar með snjóalög. Verður Baffindragið þá öflugra og sunnanáttir algengari hér á landi að vetrarlagi en áður - eða slaknar á því þannig að heimskautaloft verði meira ríkjandi en áður - jú, hlýrra sem slíkt en áður fyrr - en algengara. Styrkist Golfstraumshryggurinn til norðurs? Flest hann þá út í suðri - hvað verður þá um Austurevrópurdragið. Hrekkur
vestanáttin yfir Suðurasíu til norðurs? Truflar háslétta Tíbet hana þá meira en nú er? Hvað gerist þá í Austurasíu?
Mikið er um þessi mál ritað um þessar mundir - fréttir af bylgjutölum hafa jafnvel ratað í almennar fréttir netmiðla - spurt er hvað gera bylgjutölur 4 til 7?
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.4.): 11
- Sl. sólarhring: 115
- Sl. viku: 1617
- Frá upphafi: 2457366
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 1461
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
svolítið fyrir ofan minn skilníng. ef þettað rætist munu þá vindáttir breitast í heiminum og veðurfar með ?.
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 8.1.2017 kl. 15:16
Hvað þá með hlýnun jarðar.? Já/Nei. Gerfitúngla Graf sem ég sá um daginn og setti hér inn segir hlýnun síðustu ca 10 árin sé ekki meir en 0.24c. Hvað segja Íslenskir vísindamenn um þetta eða þora þeir ekki að setja þetta um svo menn skilji.
Valdimar Samúelsson, 8.1.2017 kl. 16:14
Hér er bein slóð. Hvað halda menn
http://www.drroyspencer.com/2017/01/global-satellites-2016-not-statistically-warmer-than-1998/
Valdimar Samúelsson, 8.1.2017 kl. 16:18
Valdimar - 0,24 stig á áratug er mjög mikið (ef rétt er eftir haft) - en ekki lítið - ef sú hlýnun héldi áfram í 100 ár gerir það 2,4 stig - sem er alveg í samræmi við sviðsmyndir IPCC sem ná til þess tíma.
Trausti Jónsson, 8.1.2017 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.