Köld stroka að vestan

Í dag (þriðjudag 20. desember) mældist lægsti loftþrýstingur ársins (til þessa) á landinu, fór niður í 944,1 hPa á Gufuskálum skömmu eftir hádegið. Þetta telst samt „venjulegt“ árslágmark, þrýstingurinn fór t.d. mun lægra milli jóla og nýjárs í fyrra - reyndar alveg sérlega lágt þá og líka neðar en nú árið 2014. Það er þó langt í frá á hverju ári að þrýstingur hér á landi fari niður fyrir 945 hPa. 

w-blogg211216a

Lægðin hélt áfram að dýpka eftir að hún fór hér hjá, evrópureiknimiðstöðin setur hana niður í 937 hPa núna á miðnætti - rétt við Jan Mayen. - En á eftir lægðinni fylgir mjög köld stroka að vestan - út frá kuldapollinum mikla sem við höfum nefnt Stóra-Bola. 

Lægðin leggur þannig mjög vel upp fyrir þá næstu - alltaf óþægileg staða, jafnvel á tölvureikniöld því hér er ákjósanlegt fóður fyrir næstu lægð - kjarnfóður sannarlega. En það þarf að bíta og kyngja - hitta vel í akurinn og alltaf spurning um hvernig það tekst. Á kortinu rétt sést í sunnanloft vestan hæðarinnar við Nýfundnaland. 

w-blogg211216b

Síðdegis á fimmtudag má sjá lægð í foráttuvexti suður í hafi. Reiknimiðstöðin er þegar komin með fárviðri í strengnum suðvestan við lægðarmiðjuna. Til allrar hamingju fyrir okkur virðist lægðin og versta veðrið lenda fyrir suðaustan land - en samt verða veðurháðir að hafa athygli á spám í gangi - því margt getur farið úrskeiðis. 

Nú - svo gerist það stundum (ekki þó alltaf) í stöðu sem þessari að úrkomubakki - eins konar tengilindi - rís upp á milli förulægðarinnar og kaldrar og hægfara lægðar vestan við land - í þann mund sem sú fyrrnefnda fer hjá. - Slíkt fyrirbrigði er auðvitað óskadraumur jólasnævarsinna - en hrollur okkar hinna. Æ-já. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þér eitthvað illa við snjóinn Trausti?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 21.12.2016 kl. 07:02

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Vil sjá sem minnst af honum og fremur rauð jól en hvít. En ekki er á allt kosið.

Trausti Jónsson, 21.12.2016 kl. 11:21

3 identicon

Loksins kominn vetur! Logndrífa og fallegasta veður í höfuðborginni!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 21.12.2016 kl. 14:55

4 identicon

Tek undir með þér Trausti og vil sjá sem minnst af snjó.

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 21.12.2016 kl. 21:52

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Það geri ég líka svo sannarlega. 

Helga Kristjánsdóttir, 21.12.2016 kl. 23:43

6 identicon

Þið hljótið þá að fagna hnattrænni hlýnun!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 22.12.2016 kl. 04:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 126
  • Sl. sólarhring: 399
  • Sl. viku: 1951
  • Frá upphafi: 2350687

Annað

  • Innlit í dag: 121
  • Innlit sl. viku: 1749
  • Gestir í dag: 121
  • IP-tölur í dag: 121

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband