18.12.2016 | 01:33
Fárviðrið 5. mars 1969
Hér er fjallað um fárviðri sem gerði á Akureyri (og víðar) 5. mars 1969. Veðrið er stundum nefnt Linduveðrið en í því fauk þakið af sælgætisverksmiðjunni Lindu í heilu lagi og stórkostlegt tjón varð á Akureyri.
Vindur nær sjaldan fárviðrisstyrk á Akureyri þó alloft verði þar tjón af völdum veðurs - helst þá í byljóttri vestanátt. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn fundið nema 3 tilvik 12 vindstiga í bókum Akureyrarveðurstöðvarinnar - en hefur ekki enn leitað af sér allan grun öll ár skeytastöðvarinnar frá því fyrir 1960. - Svo er vitað um að minnsta kosti tvö forn tilvik (frá 19. öld) til viðbótar þegar vindhraði hefur líklega náð fárviðrisstyrk á Akureyri - e.t.v. verður á þau minnst síðar.
Veðrið sem nú er til umfjöllunar olli langmestu tjóni þessara veðra á Akureyri - enda að ýmsu leyti sérstakt. Þetta er mesta fárviðri sem ritstjóri hungurdiska hefur sjálfur upplifað.
Eitt af því merkilega er að hríðin var gríðarleg og skyggni ekkert - en trúlega hefur verið tæknilega úrkomulítið - með orðinu tæknilega er hér átt við að hríðin hafi e.t.v. aðeins að litlu leyti átt uppruna sinn í nýrri úrkomu úr skýjum yfir staðnum eða nágrenni hans. Vindurinn reif hins vegar upp skara, ís og eldri snjó, líka gras og jarðveg í stórum stíl. Mikið af snjó barst í bæinn úr hlíðum ofan bæjarins. Gluggi brotnaði í herbergi á 2. hæð heimavistar menntaskólans og voru allir veggir og loft herbergisins þaktir grasi eftir að veðrinu slotaði.
Myndin sýnir hluta af forsíðu Alþýðumannsins - fréttablaðs sem gefið var út á Akureyri. Vonandi var akureyringum þarna fullrefsað.
Lægðin sem olli þessu mikla veðri var ekki sérlega djúp - en er í flokki mjög varasamra lægða sem oft hafa valdið usla hér á landi.
Það má rifja upp að árið 1969 var hafís í norðurhöfum hinn mesti sem vitað er um á síðari hluta 20. aldar og lá við land á Íslandi sem þannig náði beinu sambandi við heimskautasvæðin - óvarið af sjó stæði vindur af norðri.
Kortið sýnir stöðuna kl. 18 mánudaginn 3. mars, tæpum tveimur sólarhringum áður en veðrið skall á. Hér á að taka eftir hlýindunum og sunnanáttinni fyrir sunnan land og þeim gríðarmikla kulda sem er fyrir norðan (jafnhitalínur 850 hPa-flatarins eru strikaðar). Kortið er úr japönsku endurgreiningunni.
Um hádegi daginn eftir (4. mars) náði hlýja loftið norður til Íslands - en það kalda hefur lítt gefið eftir. Staða sem þessi er viðkvæm. - Áður en tölvuspár komu til sögunnar var nánast ómögulegt að segja hvað úr yrði - fylgjast varð með í smáatriðum frá einum athugunartíma til annars - hlutirnir gátu breyst hratt. - Rennur allt hlýja loftið til austurs án þess að ná snúningi og lægðardýpkun? Verður óðadýpkun og lægðarstrand? Verður skyndidýpkun með hraðfara ofsa?
Háloftakortið á sama tíma er nokkru skýrara. Þar sjáum við að aðalhættan verður á ferð þegar hlýja tungan úr suðri mætir lægðardraginu yfir Suður-Grænlandi. Það stefnumót verður varla átakalaust - hætta er á dýpkun.
Og hún varð. Skyndilega snaraðist kröpp lægð út úr lægðardraginu, dýpkaði ört og fór hratt til austurs skammt fyrir norðan land. Greiningin er allgóð - en samt vantar mikið upp á vindhraðann sem norðlendingar (og fleiri) fengu á sig. - Það er sama hvaða endurgreiningu við ráðfærum okkur við - vindurinn var meiri en þær virðast gera grein fyrir. - Virðast, því við þyrftum að sjá þversnið til að átta okkur betur á því hvers eðlis villan er. Hvað er að gerast?
Endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir 500 hPa-stöðuna á hádegi þann 5. - einmitt í þann mund sem veðrið var verst í Skagafirði - rétt ókomið til Akureyrar.
Hér má sjá veðrið á hádegi 5. mars. Það eru hitatölurnar sem eru óvenjulegastar. Það er -16 stiga frost í stormi og hríð á Hornbjargsvita - en +1 í Grímsey. Frostið er -7 stig í vestanáttinni í Reykjavík. Fimm stiga frost er á Sauðárkróki - en hiti nærri frostmarki á Nautabúi í Skagafirði. Ekki höfum við séð neitt þessu líkt á síðari árum. Veggur af köldu lofti kom úr vestri og gekk austur um Norðurland - en á sama tíma var enn kaldara loft á leið til suðurs yfir Vestfirði.
Klukkan 18 var komið -19 stiga frost á Hornbjargsvita, -11 í Reykjavík, -17 á Nautabúi og -13 stig á Akureyri. Kalda norðanloftið hafði náð undirtökunum um land allt. - Nítjándualdarveðrið sýnir klærnar með hafís og öllu.
Endurgreiningarnar ná þessu að einhverju leyti - nema mesta vindhraðanum - og svo er líka hugsanlegt að þær hafi misst af kaldri loftgusu ofan af Grænlandi - vestanlofti í ham. En norðanloftið sést vel á þessari mynd af hæð 850 hPa-fletinum og hita í honum um hádegi 5. mars (útgáfa evrópureiknimiðstöðvarinnar).
Klukkan 18 sér endurgreiningin -26 stiga frost í um 1300 metra hæð yfir Akureyri. - Væri það fullblandað niður að sjávarmáli fyndum við þar -13 stig - eins og reyndar var.
Hér að ofan má sjá aðkomuleiðir lofts (slóða) yfir Snæfellsnesi um hádegi þann 5 - bandaríska necp-endurgreiningin reiknar 5 daga aftur í tímann (með hjálp hysplit dreifilíkansins). Hér er um sérlega skemmtilegt stefnumót að ræða. Því er ekki alveg að treysta að rétt sé reiknað - það er hægt að gera á fleiri en einn veg. Það truflar ritstjórann dálítið að tímaásinn á neðri hluta myndarinnar gengur frá hægri til vinstri.
Græna línan fylgir lofti sem endar í 5000 metra hæð - það hefur dagana fimm lagt leið sína frá Alaska yfir Norðuríshaf - sveigt þaðan langt til suðurs (í kringum kuldapollinn Stóra-Bola) og loks til austurs þvert yfir Grænland (2-3 km yfir jöklinum) - á línuritinu má sjá að það hefur lækkað á lofti - verið dregið niður.
Blái ferillinn sýnir sunnanloftið - fyrir 5 dögum var það í rúmlega 1000 metra hæð vestur af Asóreyjum - en lyftist síðan smám saman (og skilar raka sem úrkomu) og er um hádegi þann 5. í um 3 km hæð yfir Snæfellsnesi.
Rauði ferillinn sýnir norðanloftið - sem fyrir 5 dögum var í um 1000 metra hæð við Norður-Grænland - rann svo suður með Grænlandi - yfir þéttum hafís og stakk sér að lokum undir hlýja sunnanloftið - og er á hádegi í 300 metra hæð við Snæfellsnes (í líkaninu).
Þrýstiritið frá Akureyri sýndi mjög óvenjulega hegðan loftvogar í illviðrinu. Við sjáum að þann fjórða fellur loftvog hægt - en síðan hraðar fram til um kl. 6 að morgni 5. að fallið stöðvast að mestu. Gróflega má segja að þá hafi skil farið yfir - á undan þessum skilum er þess getið að hvesst hafi mikið við Skíðahótelið í Hlíðarfjalli við Akureyri. Fallið byrjaði aftur um kl.10 - en um hádegi hrapaði þrýstingurinn skyndilega -
um 8 hPa á örskotsstund og reis svo klukkustund síðar um 12 hPa - álíka hratt. Dýfan stóð nákvæmlega þann tíma sem veðrið var sem verst. Þetta er ekki venjuleg hegðan. Líklegasta skýringin er sú að kalt loft hafi steypst fram - annað hvort Glerárdal eða hreinlega beint yfir Hlíðarfjall og yfir bæinn. - Foss sem þessi er ekki nema nokkru leyti drifinn af þrýstibratta - heldur líka af þyngdaraflinu. - Svo vill til að þyngdaraflið fær mjög sjaldan að njóta sín sem beinn vindvaki - því lofthjúpurinn er (nánast) í flotjafnvægi. -
En stundum getur kalt loft streymt óhindrað fram af fjallabrúnum og hreinlega dottið niður - . Þetta gerist alloft á Austur-Grænlandi (Piteraq) og á Suðurskautslandinu. Sömuleiðis missir loft stundum flot í klakkakerfum og býr þar til svonefnda fallsveipi (microburst) sem geta valdið allskonar tjóni og hafa reyndar grandað flugvélum.
Akureyrarveðrið 5. mars 1969 var líklega af þessum toga - þrýstibratti í lægðinni olli ekki fárviðrinu (dugði þó í storm) heldur ákafi kalda loftsins. Getur verið að þetta vestanloft hafi átt uppruna sinn á Grænlandsjökli - eða var það einhver undarlegur angi úr norðanloftinu? Því verður ekki svarað hér - og trúlega ekki nema með leit með aðstoð háupplausnarlíkans.
Það er athyglisvert að eftir að versta veðrinu lauk gengu miklir en stakir hvirfilsveipir úr vestri niður yfir bæinn í 2 til 3 klukkustundir. Lenti ritstjóri hungurdiska í einum slíkum - en tók því miður ekki eftir því á hvorn veginn sá sveipur né aðrir sem hann sá snerust.
Því miður gaf rafbúnaður vindhraðamælisins á Akureyri sig í átökunum - hann náði þó að sýna fárviðrisstyrk - en datt svo út (rellan bilaði þó ekki). Í staðinn lítum við á rit frá Sauðárkróki - þar varð ekki alveg jafnhvasst og á Akureyri - en náði samt fárviðrisstyrk - um klukkustund áður en veðrið skall á Akureyri. Á Sauðárkróki var veðrið verst í um 20 mínútur, en um klukkan hálfeitt gekk það svo snögglega niður úr um 26 m/s í 15 m/s.
Þetta varð meiriháttar kuldakast. Taflan á myndinni hér að ofan - verður læsilegri sé myndin stækkuð - sýnir að dagarnir 8. og 9. mars hirða öll kuldametin þrjú, lægsta sólarhringsmeðalhita, lægsta landsmeðallágmarkshita og lægsta landsmeðalhámarkshita allan þann tíma sem við eigum slík meðaltöl reiknuð.
Í viðhenginu má lesa úrval blaðafrétta af veðrinu (af timarit.is) - textinn er sleiktur og í honum talsvert af óleiðréttum mislestrum - .
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 19
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 984
- Frá upphafi: 2420868
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 863
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Kærar þakkir fyrir þessa samantekt. Ég var fluttur að heiman þegar þetta gerðist en heyrði rosalegar sögur af þessu veðri frá foreldrum mínum. Faðir minn gafst t.d. á að keyra upp Þingvallastrætið fyrir skyggnisleysi, yfirgaf bílinn og skreið á fjórum fótum inn í næsta hús án þess að vita hver þar mundi eiga heima. Reyndist það vera Áskell Jónsson mágur hans og húsið nánast næsta hús við hans eigið! Kona nokkur hékk lengi á ljósastaur á bersvæði og slitnaði utan af henni pilsið að sögn.
Það hefur auðvitað verið þarna sem þú ákvaðst að leggja fyrir þig veðurfræði :-)
Konráð Erlendsson (IP-tala skráð) 18.12.2016 kl. 17:26
Að morgni 8.mars var mikill frostreykur við Vestmannaeyjar og N stormur og frost 13 stig á Stórhöfða.
Kl 9 þ.9. var -30 stig á Grímsstöðum, -29 stig á Staðarhóli og -47 stig á Tobinhöfða. Þá var orðið frostlítið í Vestmannaeyjum enda komin A átt.
Oskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.12.2016 kl. 11:50
Kærar þakkir fyrir fróðlegan pistill
Ég var ekki nema 6 ára en gleymi verðurofsanum aldrei. Líklega vegna þess að við bjuggum á annari hæð í Höepfnershúsinu fyrir ofan innganginn í KEA útibúið og stóri glugginn (reyndar voru rúðurnar litlar enda margskiptur) kom brotnaði í spón. Sjálf átti ég að fara í skólann klukkan 1. eftir hádegi, en skólahaldi var aflýst. Eldri systkin mín voru í Barnaskólanum og voru send heim vegna veðurs. Bróðir minn komst við illan leik framhjá Lystigarðinu og að Spítalstígnum en þá fauk hann. Það var síðan menntaskólanemi sem fann hann og kom honum heim og ég man að hann hafði slasast. Eins og ég man þetta þá voru nemar MA sendir út til að leita af nemum Barnaskóla Akureyrar. Margir af nemum snéru aftur til skólans en inngangurinn snýr í vestur og var læst. Svona er þetta í minningunni, en hvort allt sér rétt þori ég ekki að fullyrða.
Halla B. Þorkelsson (IP-tala skráð) 19.12.2016 kl. 17:37
Konráð, Óskar og Halla - bestu þakkir fyrir frásagnir af veðrinu. - Það er mér líka ógleymanlegt - var þó inni allan tímann.
Trausti Jónsson, 19.12.2016 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.