Fárviðrið 28. febrúar 1941

Veturinn 1940 til 1941 taldist lengst af hagstæður hér á landi. Í tíðarhnotskurn ritstjóra hungurdiska segir: Desember 1940: Hagstæð tíð, hlýtt. Janúar 1941: Óvenju stillt, úrkomulítið og bjart veður. Fé gekk mikið úti. Gæftir góðar. Færð mjög góð. Hiti ekki fjarri meðallagi. Febrúar 1941: Tíð var lengst af hagstæð og þurrviðrasöm á S- og V-landi, en síðari hlutinn varð snjóþungur á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti undir meðallagi. Mars 1941: Lengst af milt og hagstætt tíðarfar, og góðir hagar. Framan af var mikill snjór á N- og A-landi, en annars snjólítið. Gæftir góðar fyrir S- og V-landi, en síðri a-lands. Hiti ofan við meðallag.

En ekki var nú alveg jafnvel sloppið og þetta yfirlit gefur til kynna því í síðustu viku febrúar og fyrstu viku marsmánaðar gerði hið versta veður og náði það hámarki þann 28. febrúar þegar vindur náði fárviðrisstyrk (12 vindstigum) í Reykjavík í athugunum kl. 6, 12 og 15. Vindur var af stormstyrk (9 vindstig) eða meira linnulítið frá því snemma að morgni fimmtudags 27. febrúar fram yfir hádegi laugardaginn 1. mars - og svo aftur síðdegis mánudaginn 3. mars. 

Við lítum hér nánar á þetta athyglisverða norðan- og norðaustanveður sem allmargir af elstu kynslóðinni muna enn - og geta staðsett þó liðin séu rúm 75 ár síðan. 

Slide1

Það sem gerði veðrið sérlega minnisstætt voru ströndin sem minnst er á í frétt Vísis hér að ofan síðdegis föstudaginn 28. febrúar og er það óformlega kennt við Rauðarárvík - skammt frá Hlemmi í Reykjavík og atburðina þar. Það yrði sennilega ámóta minnisstæður atburður í dag ef meðalstórt skemmtiferðaskip færi upp undir götu við Ánanaust í vestanfárviðri - ekki ómögulegt. 

Slide2

Önnur blöð birtu fréttirnar daginn eftir, laugardag 1. mars. Á klippunni úr Morgunblaðinu sem hér er sýnd er einnig getið um hríðarveður og rafmagnsleysi nyrðra. Fram kemur í þessum fréttum að úrkomulaust hafi verið í Reykjavík en mikið særok hafi gengið yfir allan bæinn. 

Slide3

Bandaríska c20v2-endurgreiningin nær veðrinu allvel. Að morgni fimmtudagsins 27. fór að hvessa í Reykjavík. Djúp lægð var vestan við Bretland og þokaðist norður á móti allmikilli hæð yfir Grænlandi. Hér eru jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins sýndar - með 40 metra bili, það jafngildir 5 hPa. Lægðin er um 967 hPa í miðju, en hæðin yfir Grænlandi í kringum 1030 hPa.  

Háloftakortið hér að neðan afhjúpar hvers eðlis er. 

Slide4

Hér má sjá mikið lægðasvæði teygja sig norðan úr höfum og suður yfir Ísland, en fyrirstöðuhæð er við Suðvestur-Grænland. Lægðin fyrir sunnan land hafði orðið til úr lægðardragi sem kom norðan úr Íshafi og var að fara suður fyrir Ísland.

Við skulum reikna þykktina yfir Reykjavík út - en hún sýnir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 5100 metra jafnhæðarlína 500 hPa-flatarins sem liggur yfir Reykjavík - á hinu kortinu er það 120 metra jafnhæðarlína 1000 hPa sem er á sama stað. Mismunurinn er þykktin, 5100 - 120 = 4980 metrar. Það má hrökkva aðeins við þegar þessi tala sýnir sig því við vitum að vindur var hvass. Þetta loft er jökulkalt - meir um það hér á eftir. 

Slide5

Daginn eftir var veðrið í hámarki. Kortið gildir á hádegi, lægðin þá ekki langt undan Suðausturlandi og hafði heldur dýpkað, komin niður í 961 hPa - og hæðin svipuð yfir Grænlandi. Þessi staða minnir nokkuð á annað fárviðri sem við litum hér á á dögunum, það sem gerði undir janúarlok 1966 (Hekluveðrið). 

Slide6

Háloftakortið á sama tíma sýnir að mjög hefur hlýnað í háloftunum - hlýja loftið hefur ruðst yfir það kalda sem enn berst fyrir tilveru sinni yfir Íslandi með Grænlandsfjöll sem bakhjarl. 

Slide7

Íslandskortið er nokkuð æðisgengið (skýrist nokkuð við stækkun), það sýnir veðrið kl. 8 að morgni þess 28. Þá er farið að hlána suðaustanlands og þrýstibrattinn þar aðeins að minnka - en enn er hver jafnþrýstilínan ofan í annarri yfir Vesturlandi - í frosti. Mikil hríð geisaði á öllu Norðurlandi. 

Slide9

Þrýstiritið frá Reykjavík nær hér yfir vikutíma, frá 24. febrúar til 3. mars. Enginn sérstakur asi er á þessu illviðrakerfi. Örin sem er lengra til vinstri á myndinni sýnir hvar byrjar að hvessa að ráði - þrýstingur er varla farinn að falla. Venjulega fellur þrýstingur í nokkurn tíma áður en vindur nær stormstyrk - ekki í þetta sinn. Óþægilegt fyrir þá sem treysta á loftvog sína eina til veðurspádóma - greinilega nauðsynlegt að líta líka til himins, skima og hlusta. 

Örin neðar og lengra til hægri sýnir lauslega hvenær fárviðrið í Reykjavík byrjaði. Eins og oft er í norðanveðrum sjáum við grófgerðan óróleika á þrýstiferlinum - trúlega flotbylgjur vaktar á leið vindsins yfir landið - og að lokum Esjuna og fjöllin þar í kring. 

Slide8

Eins og áður var minnst á hrukkum við dálítið við þegar þykktin í upphafi veðursins kom í ljós. Hér má sjá hluta síðu veðurbókar úr Reykjavík í febrúar 1941, athuganir kl. 8 og 12 dagana 18. til 28. 

Við skulum rýna í færslurnar þann 27. (næstneðsta línan) - myndin skýrist sé hún stækkuð. Fyrsti dálkur sýnir loftþrýsting í millimetrum kvikasilfurs - fyrsta staf sleppt (57,4 == 757,4 mm = 1009,8 hPa). Síðan er vindátt og vindhraði, norðnorðaustan níu vindstig - og síðan hitinn, -11,1 stig. 

Lengra til hægri má sjá veðrið kl.12, norðnorðaustan tíu vindstig og frostið -10,4 stig. - Daginn eftir eru 11 vindstig kl. 8 og 12 vindstig kl.12 - en frostið minna. 

Særokið sem gekk yfir bæinn hefur víða frosið við snertingu og myndað ísingu - heldur óskemmtilegt svo ekki sé meira sagt - og eins gott að halda sig heima og fylgjast með lekanum. 

Þótt vindhraði í Reykjavík hafi verið óvenjumikill í þetta sinn höfum við samt sem áður séð þrýstisvið sem þetta endrum og sinnum í norðaustanátt - en að tíu stiga frost eða meira sé samfara því á Suðvesturlandi er nánast óþekkt á síðari árum - alveg utan reynsluheims starfandi veðurfræðinga alla vega. 

Við getum spurt gagnagrunn Veðurstofunnar um hvenær vindur hefur síðast verið 20 m/s eða meiri í 10 stiga frosti í Reykjavík. Svarið kemur um hæl: 15. janúar 1969 og aldrei annars frá 1949. Í annarri töflu í gagnagrunninum eru athuganir frá 1935 til 1948 - þar eru tilvikin tvö. Annars vegar þetta sem hér hefur verið til umfjöllunar, en hitt á þriðja í jólum (27. desember) 1947. 

Við getum líka staðfest beint nokkur tilvik (að minnsta kosti 6) á árunum 1907 til 1919 - og við vitum af slatta af nítjándualdartilvikum. 

Hámarkshiti dagsins þann 27. febrúar 1941 var -7,9 stig í Reykjavík - í brjáluðu veðri. Sólarhringshámarkshiti í höfuðborginni hefur ekki verið lægri en -8,0 stig síðan 19. nóvember 2004 - en þá var hægviðri (og besta veður að sumra smekk). Aftur á móti var leiðindaveður (ekki þó stormur) þann 1. mars 1998 en þá var hámarkshiti sólarhringsins -10,0 stig. 

Illviðrið 1941 var eiginlega nítjándualdarveður á miðju hlýskeiði og sýnir að meira að segja bestu hlýskeið fría okkur ekki algjörlega frá kuldabola. Auðvitað á þetta eftir að endurtaka sig nokkurn veginn. 

Slide10

Síðasta mynd þessa pistils sýnir hita (gráar súlur) og loftþrýsting í Reykjavík í febrúar 1941 - og fram í mars. Skammvinnur kuldi var í byrjun mánaðar - en þá tók við sæmilega hlýtt tímabil - kuldinn þann 24. til 27. sker sig úr. Þrýstibreytingar (rauður ferill) eru ekki mjög stórar og fremur hægar flestar hverjar. 

Tjón í veðrinu virðist hafa orðið mest við sunnanverðan Faxaflóa - en vandræði af einhverju tagi hafa verið um mestallt land. - Í framhaldinu varð mikil snjóflóðahrina og vestur á Ísafirði varð hörmulegt slys þann 3. þegar tvær telpur fórust í snjóflóði sem féll á húsið Sólgerði. 

Þar sem veðrið stóð í marga daga er erfitt að dagsetja ýmsa atburði með fullri vissu. Auk mannskaðasnjóflóðsins á Ísafirði er getið um eftirfarandi tjón: Nokkur skip strönduðu, þar á meðal 2 í Rauðarárvík við Reykjavík og mikið tjón varð á bátum í höfnunum í Njarðvík og Keflavík. Drukknuðu þá 25 manns. Togari frá Reykjavík fórst út af Faxaflóa og með honum 19 menn, á svipuðum slóðum fórst bátur frá Siglufirði og með honum sex menn. 

Skemmdir urðu víða. Bryggja brotnaði á Oddeyri á Akureyri og sópaðist burt. Síma- og rafmagnskerfi skemmdust á Akureyri og Húsavík. Smáslys og skemmdir urðu í Reykjavík. Mikið fannfergi var nyrðra. Þök reif af húsum á Snæfellsnesi, á Búðum, Hofgörðum og Elliða í Staðarsveit. Mikið brim var í Ólafsvík og gekk langt á land.

Mikið fannfergi ver nyrðra og þar urðu og fjárskaðar. Talsvert var um stór snjóflóð á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband