Fárviðrið 15. janúar 1942

Veðurfar á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var tilbreytingarríkt. Almennt var þó mjög hlýtt hér á landi og veturinn 1941 til 1942 engin undantekning. Tíð var þá lengst af hlý og snjólítil. Nokkuð illviðrasamt var þó um tíma - sérataklega í janúar og keyrði um þverbak með miklum veðrum á landsvísu þann 12. og þann 15. - og líka blés verulega þann 18. 

Það er veðrið þann 15. sem hér er til umfjöllunar, en þá mældist meiri vindhraði í Reykjavík en nokkru sinni, fyrr eða síðar. Lesa má meira um þetta veður í greinargerð sem Flosi Hrafn Sigurðsson ritaði og kom út 2003. 

Slide1

Fréttin hér að ofan er úr Alþýðublaðinu 16. janúar. Prentaraverkfall stóð yfir mestallan mánuðinn og Alþýðublaðið það eina sem út kom í Reykjavík á meðan. Fyrirsögnin er bara nokkuð rétt. 

Svo vill til að c20v2-endurgreiningin nær veðrinu vel - betur en búast hefði mátt við. 

Slide2

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins að kvöldi 13. janúar og staðan er sígild uppstilling fyrir fárviðri hér á landi - við höfum séð hana hvað eftir annað áður í pistlaröð hungurdiska um reykjavíkurfárviðri. - Kyrrstæð lægð nærri Suður-Grænlandi dælir jökulköldu lofti út á Atlantshaf í veg fyrir vaxandi lægð austur af Nýfundnalandi. Kannski er sú um 985 hPa djúp (-120 metrar). 

Slide3

En rúmum sólarhring síðar var hún komin niður í 943 hPa (-460 m) - sé greiningin rétt. Við getum talið jafnþrýstilínur og fundið að munur yfir landið er meiri en 30 hPa. Þessi lægð var ólík fárviðrissystrum sínum ýmsum að því leyti til að hún fór ekki lengra en þetta - og grynntist svo ört.  

Slide4

Háloftakortið á sama tíma, um hádegi þann 15., gefur til kynna hvers konar veður þetta var. Við sjáum að stefna jafnhæðarlínanna yfir vestanverðu landinu er svipuð á báðum kortunum. Ritstjóri hungurdiska talar í slíkum tilvikum um „hárastarveður“ - hes háloftavindrastar nær alveg til jarðar. 

Á þessum tíma var athugað á tveimur stöðum í Reykjavík. Athuganir Veðurstofunnar voru í Landssímahúsinu við Austurvöll - hitamælaskýli stóð á stórum norðursvölum hússins, en setuliðið athugaði á Reykjavíkurflugvelli. Vindmælir var á síðarnefnda staðnum. 

Landsynningsfárið stóð lengi dags og virtist engan enda ætla að taka - það var sérlega einkennilegt að vindur snerist heldur „öfugt“ eftir því sem á daginn leið - fremur en hitt. Með því er átt við að í stað þess að fara úr suðaustri í suður og suðvestur, leitaði áttin í austlægari stefnu eftir því sem á daginn leið - Kuldaskil fóru um síðir yfir en greindust ekki vel - vindur fór þó um tíma aftur í hásuður og smám saman dró úr. 

Við Landssímahúsið var vindhraði talinn SA 8 vindstig kl.8, SA 12 vindstig (fárviðri) kl. 12, ASA 10 kl.15 og A 10 kl.17, kl.21 var vindur talinn S 7. Rigning var á athugunartímum kl. 12, 15 og 17, en úrkoma mældist ekki sérlega mikil. 

Slide5

Hér má sjá Íslandskortið kl.17. Skeyti hafa aðeins borist frá helmingi landsins - væntanlega vegna símslita. Hlýindi fylgdu veðrinu, rauðu tölurnar sýna hita, 10 stig á Blönduósi. 

Slide6

Myndin hér að ofan sýnir opnu úr athugunarbókinni frá Reykjavíkurflugvelli. Örin bendir á 11 vindstig kl. 18 (z). Setuliðið varð fyrir gríðarlegu tjóni í veðrinu og vegna þess var gerð sérstök skýrsla um vindhraða þennan dag eins og hann kom fram á vindhraðamælinum. - Myndin hér að neðan sýnir brunnin plögg - um þau og varðveislu þeirra má lesa í áðurnefndri skýrslu Flosa Hrafns. 

Slide7

Fram kemur að meðalvindur var mestur (ekki er alveg ljóst við hvaða tíma var miðað) milli kl. 12 og 13, rétt tæplega 40 m/s og vindhviður fóru í nærri 60 m/s. - Grunsamlegt er að hámarkshviða er hvað eftir annað sú sama á listanum - kannski hefur mælirinn einfaldlega „rekist uppundir“. 

Tjónið sem varð á flugvellinum er að einhverju leyti rakið í bók sem þeir John A. Kington og Peter G. Rackliff rituðu um veðurkönnunarflugsveitir breska hersins í síðari heimsstyrjöld og kom út árið 2000. Bókin ber nafnið „Even the Birds Were Walking“ og er þar vísað til setningar í skýrslunni þar sem segir að fuglar hafi ekki einu sinni getað athafnað sig á flugi - hafi þurft að ganga milli staða. 

Vindmælir var einnig á herflugvellinum í Kaldaðarnesi við Selfoss - en hann fauk. Veðurathugunartæki önnur fuku á báðum flugvöllum - skýlin þeyttust langt í loft upp. 

Vegna prentaraverkfalls og stríðsbanns á veðurfréttum eru upplýsingar um tjón nokkuð gisnar - en það varð gríðarlegt - og víða um land.

Í Reykjavík fauk girðingin um íþróttavöllinn, þök fuku af að minnsta kosti fjórum húsum, hellur og járn tók af fjölda húsa, tré rifnuðu upp með rótum. Smáslys urðu á mönnum. Setuliðið varð fyrir miklu tjóni í braggahverfum og flugvellinum í Reykjavík og í Skerjafirði og í Hvalfirði. Flugbátar skemmdust á Skerjafirði og tjóðra þurfti nokkrar vélar niður á Reykjavíkurflugvelli - drógu þær um hríð 300 punda steypuklumpa og um 40 manns hver á eftir sér á stæðunum. Vindhraðamælir fauk á flugvellinum í Kaldaðarnesi og þar varð nokkuð foktjón - en vélar skemmdust ekki. Fjölmörg fjarskiptamöstur setuliðsins, þar af fjögur 60 feta og tvö 70 feta há féllu á 7 stöðum á landinu. Tvö veðurathugunarskýli setuliðsins fuku út í veður og vind, matstaður yfirmanna rústaðist auk fjölda bragga og kamra.

Erlent skip fórst við Mýrar og með því 25 manns. Nokkrir bílar á Akranesi fuku um koll og þök fuku af húsum. Kirkjan á Melstað í Miðfirði fauk af grunni og hvarf. Símabilanir urðu víða. Í Borgarfirði, í Dölum, Húnavatnssýslum, Ólafsfirði og undir Eyjafjöllum kom það fyrir að peningshús og önnur útihús fykju. Í Hjarðarholti (í Borgarfirði - eða Dölum?) fauk af öllum húsum, þak fauk af íbúðarhúsi á Urriðaá í Álftaneshreppi og tvær hlöður á Hrafnkelsstöðum. Á Hamraendum í Miðdölum fuku tvær hlöður, fjárhús, fjós auk allra veðurathugunartækja. Sláturhúsið á Hvammstanga fauk og brakið skemmdi önnur hús.

Þök fuku af þremur húsum á Kleifum í Ólafsfirði. Þak fauk af hlöðu í Höfðahverfi. Bryggja skemmdist í Hrísey og þak fauk þar af hlöðu. Sjógarðurinn á Eyrarbakka brotnaði. Smáskemmdir á húsum, heyjum og bátum urðu mjög víða. Tveir bátar sukku í Keflavíkurhöfn. Útihús fuku á tveimur bæjum undir Eyjafjöllum. Tjón varð í höfninni á Fáskrúðsfirði og bryggjur sködduðust. Nóttina eftir strandaði flutningaskip út af Skógarnesi á Snæfellsnesi eftir áföll í veðrinu, 25 fórust, 2 björguðust.

Eitt af því sem óvenjulegt má telja við þetta veður er að loftþrýstisveifla var ekki nærri því eins stór og algengast er samfara lægðum þessarar ættar. - Lægðin dýpkaði ákaflega en jafnframt hélt háþrýstisvæðið fyrir austan land velli.

Slide8

Myndin sýnir þrýstirit vestan úr Bolungarvík (það efra) og úr Stykkishólmi (það neðra). Athugið að athugunarmaður í Bolungarvík er ekki búinn að venjast nýja ártalinu - skrifar 1941 - en 1942 er gengið í garð. Illviðralægðirnar þann 12. og þann 18. sjást mun betur á þessum ritum heldur en lægðin sem hér er um fjallað. Stykkishólmsritið er það eina á landinu sem sýnir hreyfingu að ráði - og sú er mjög einkennileg vægast sagt. Ritstjóri hungurdiska treystir sér ekki til að skera úr um það hvort er hér á ferðinni, gríðarkröpp lægðarbylgja eða þrýstisveifla vegna lóðréttar bylgjuhreyfingar. - Ef um það fyrra er að ræða mætti e.t.v. sjá einhvern vott af ámóta á öðrum þrýstiritum - en sé um eitthvað lóðrétt að ræða gæti þessi þrýstisveifla verið staðbundin. 

En ritstjórinn var mjög feginn að sjá hversu rösklega lægðin dýpkar í endurgreiningunni - við það varð veðrið að miklum mun skiljanlegra í hans huga. Fárviðri án mikilla sýnilegra þrýstibreytinga eru mjög óþægileg í huga gamalla veðurspámanna - þeirra sem áttu flest sitt undir aðgengi að góðum upplýsingum um loftþrýsting og breytingar á honum. - Þó öldin muni nú vera önnur er sá (óttalegi) möguleiki alltaf fyrir hendi að aðgengi að tölvuspám bregðist og menn sitji aftur uppi aðeins með loftvog og „hyggjuvit“ að vopni. 

Eins og áður sagði var veturinn 1941 til 1942 mjög hlýr á Íslandi - en heimsstyrjaldarnörd vita að hann var sá þriðji í röð sannkallaðra fimbulvetra í Norður- og Austurevrópu. Voru menn nú farnir að ganga að hlýindum nær vísum hér á landi og brá nokkuð við þann næsta, 1942 til 1943. Ekki var sá kaldur á langtímavísu, en svo má hlýindum venjast að þau taki yfir í huganum og gerist „hið eðlilega“. 

Smávegis má sjá um samanburð hita á Íslandi og Álandseyjum á þessum árum í gömlum pistli hungurdiska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vera má að þetta veður sé fyrsta stórviðri sem ritara rámar í. Það gæti nefnilega verið það sem gerði usla í herstöðinni á Stórhöfða og tel mig muna eftir að járnplötur hafi fokið af bragga. Ekki er samt neitt minnst á það í athugasemdum veðurbókar á staðnum en þess getið þann 12. að sæsíminn sé slitinn og skeyti ekki send, síðar er nefnt mors. Kannski voru veðurskeyti send þannig til lands um skeið. 23. feb. er síminn kominn í lag. Var 4 ára á þessum tíma.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.11.2016 kl. 23:12

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Veðurfar réði miklu um gang Heimsstyrjaldarinnar síðari. Þjóðverjar urðu að fresta "Operation Gelb", innrásinni í Niðurlönd og Frakkland, ótal sinnum í alls sex mánuði veturinn 1939-40 vegna veðurs, mest vegna þess að þeir þurftu að nýta yfirburði sína í lofti, en til þess þurfti brúklegt flugveður. 

Rússneski veturinn 1941-42 var eitt af því sem réði úrslitum um það að Þjóðverjar biðu ósigur í orrustunni um Moskvu í desember 1941 og gerðu vonir um skjótan sigur í stríðinu við Rússa að engu.

Aftur varð það afar óhagstætt veður í lok árs 1942, sem réði miklu um ósigurinn í Stalíngrad. 

Þjóðverjar töldu hægt að mynda öfluga loftbrú til hins innikróaða 6. hers Þjóðverja í Stalíngrad eins og hafði heppnast svo vel í janúar-maí 1942 í Demyansk í Valdai-hæðum. 

En illviðri rússneska vetrarins gereyðilagði þetta hjá Luftwaffe.

Óhagstætt veður hafði næstum seinkað innrás Bandamanna í Normandy í júní 1944 um nokkra mánuði, af því að innrásina varð að gera við ákveðnar aðstæður varðandi birtu og sjávarföll.

En Eisenhower ákvað að taka áhættuna af því að veðrið lægði á síðustu stundu fyrir innrásina.

Fyrir bragðið bjuggust Þjóðverjar ekki við innrásinni og Hitler fyrirskipaði að vera ekki vakinn þennan morgun fyrr en undir hádegi. Hefur sennilega átt erfitt með svefn vegna hrakandi heilsu og lyfjamisnotkunar. Af þessum sökum misstu Þjóðverjar dýmætan tíma til að taka rétta ákvörðun um viðbrögð við innrásinni.   

Bandaríkjamenn fóru hrakfarir fyrstu dagana sem Þjóðverjar sóttu í örvæntingu óvænt fram í Ardennafjöllum í desember 1944 í síðustu sókn sinni í stríðinu. Slæmt vetrarveður gerði ófært til flugs fyrir flugvélar Bandaríkjamanna, sem gátu þar með ekki nýtt sér yfirburði í lofti og Þjóðverjar brunuðu í átt til Antwerpen, sem átti að hertaka og valda stórfelldri röskun á hergagnaflutningum Bandamanna.  

Síðan létti til á síðustu stundu til þess að Bandamenn gætu stöðvað sóknina og gert gagnsókn með því að nýta endurheimta yfirburði sína í lofti. En sókninni inn í Þýskaland seinkaði um nokkrar vikur við þetta, og staðan var svo ískyggileg, að Stalín var send beiðni um sókn á austurvígstöðvunum, sem hann hafði ánægju af að verða við og gulltryggja þannig að hans herir næðu Berlín en ekki herir Vesturveldanna.  

Áhrif veðurs á styrjaldir hafa verið gríðarmikil og fróðlegt að kynna sér slíkt. Ef Þjóðverja hefðu framkvæmt glæsilega innrásaráætlun sína í Ísland 1940, hefði innrásardagurinn, veðurs vegna, orðið 7. október. 

Og árás á Bandaríkin frá Íslandi hefði verið gerð 11. desember 1941, sama daginn og Þýskaland sagði Bandaríkjunum stríð á hendur fjórum dögum eftir árás Japana á Perl Harbour. 

Í verki mínu um þýskt hernám Íslands, sem ég vinn enn að, voru rannsóknir ritstjóra Hungurdiska lykilatriði og kann ég honum þakkir fyrir það. 

Ómar Ragnarsson, 23.11.2016 kl. 23:19

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka athugasemdina Óskar - sömuleiðis Ómar.

Árið 1987 birtist greinin: „Germany's War on the Soviet Union, 1941-45. I. Long-range Weather Forecasts for 1941-42 and Climatological Studies“ í fréttatímariti bandaríska veðurfræðifélagsins. [Bulletin of the American Meteorological Society]. Í greininni er fjallað um veður og veðurspár fyrsta haust og vetur innrásar þjóðverja í Sovétríkin. - Skemmtileg og fróðleg lesning. 

http://journals.ametsoc.org/doi/pdf/10.1175/1520-0477%281987%29068%3C0620%3AGHETWS%3E2.0.CO%3B2

Trausti Jónsson, 23.11.2016 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband