Fárviðrið 16. nóvember 1953

Enn bætist við pistla um fárviðri í Reykjavík.

Allmargir af elstu kynslóðinni muna enn fárviðrið 16. nóvember 1953. Það er oftast kennt við vélskipið Eddu frá Hafnarfirði sem fórst á Grundarfirði og með því níu menn - átta lifðu af eftir minnisstæða hrakninga. 

Slide1

Lægðin sem veðrinu olli var gríðarstór og djúp. Það er frekar óvenjulegt að landið verði illa úti í lægðum af þessu tagi - en þetta veður sýnir mjög vel að taka verður þær alvarlega. 

Slide3

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið sýnir stöðuna laugardaginn 14. nóvember og er hún sú sama og oft er fyrir slæm illviðri. Gömul lægð við Suður-Grænland og vaxandi lægð langt suðvestur í hafi á leið norðaustur. Þessi lægð er þó „lengra gengin“ á þroskaferli sínum heldur en flestar þær sem svo valda hvað skæðustum fárviðrum á Íslandi og fara sömu leið. Ritstjórinn hefur grun um að í henni hafi e.t.v. leynst einhver „hvarfbaugshroði“ - rakt hitabeltiskerfi sem tekið hefur þátt í mögnun lægðarinnar.

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins og er jafngilt sjávarmálsþrýstikorti, línurnar eru dregnar með 40 metra bili sem samsvarar 5 hPa. Greiningin segir lægðina vera um -160 m í miðju en það eru 980 hPa. 

Slide2

Háloftakortið sýnir sígilda dýpkunarvísa. Köld lægð við Grænland nálgast bylgju sem er á norðausturleið suður í hafi. Hér eru tvær háloftarastir að sameinast - önnur suður af Grænlandslægðinni, en hin á austurjaðri bylgjunnar. 

Í þessari stöðu hefði ritstjóri hungurdiska ástæðu til að búast við mikilli dýpkun lægðarinnar - en myndi telja að sú dýpkun ylli aðeins austan- og e.t.v. norðaustanátt hér á landi. Vondu veðri við suðurströndina og á Vestfjörðum, en aðrir landshlutar myndu e.t.v. sleppa mun betur. 

En - þetta reyndist svæsnara en svo. 

Slide4

Daginn eftir virðist þó sem þessi grunur gangi eftir. Hér var lægðin orðin bæði mjög djúp og gríðarlega víðáttumikil. Hún var komin niður undir 955 hPa og olli slæmri austanátt á landinu. Mjög hvasst varð af austri á Stórhöfða, yfir 40 m/s og sömuleiðis varð óvenjuhvasst af austri í Kvígindisdal, á Kirkjubæjarklaustri, Loftsölum í Mýrdal og á Hæli í Hreppum. - Ekki varð sérlega hvasst í Reykjavík enda varla vaninn í svona tilviki. 

Trúlega vanmetur endurgreiningin dýpt lægðarinnar á gildistíma kortsins og enn frekar síðar. En klukkan 18 var lægsti þrýstingur á landinu 953,6 hPa - og hafði kl. 21 hækkað upp í 955,8 hPa. Var hættan liðin hjá? Nei, vindur var farinn að vaxa af suðri. Snúður lægðarinnar reyndist óvenjuskæður og fór um nóttina til norðurs undan Vesturlandi og síðan til norðausturs-, norður fyrir land. 

Fárviðri leyndist nærri krappri lægðarmiðju inni í risalægðinni. Ættum við gervihnattamyndir sæjum við væntanlega svonefndan lægðarsnúð - í honum hefur að þessu sinni verið öflugur stingur - lágröst í kringum hlýjan kjarna lægðarinnar. Um kvöldið óx vindur mjög af suðri vestanlands og alla nóttina geisaði þar versta veður sem loks snerist til suðvesturs og vesturs. 

Slide5

Kortið sýnir stöðuna á miðnætti - þá var lægðin um 945 hPa djúp skammt fyrir vestan land. Í fljótu bragði virðist greiningin geta staðist - en svo vill til að þýska sjóveðurstofan í Hamborg - sem nákunnug var veðri við Ísland á þessum árum vegna togaraútgerðar þjóðverja - birti kort í skýrslu þar sem miðjuþrýstingur lægðarinnar var settur niður í 928 hPa. Er mjög trúlegt að þeir góðu menn hafi haft rétt fyrir sér. [Korti þessu verður e.t.v. bætt inn í þennan pistil síðar þegar skrifstofuflutningar ritstjórans eru yfirstaðnir - og tekið hefur verið upp úr kössum]. 

Slide7

Íslandskortið sýnir að kl. 15 var lægðarmiðjan komin norður fyrir land og enn var versta veður mjög víða - enda skorar þetta veður nokkuð hátt á illviðralistum. Veðrið fór síðan austur um landið og um kvöldið þann 16. var vestsuðvestanfárviðri austur á Dalatanga, en þá var vind farið að lægja vestanlands. 

Slide8

Veðurbókin frá Reykjavíkurflugvelli sýnir að fárviðri var talið um tíma snemma um morguninn. Mesta vindhviðan kom milli kl. 7 og 8 og var 43,8 m/s. Það var enn sunnanátt í Reykjavík kl.9.

Slide9

Þrýstiritið frá Reykjavík (skipt var um blað kl.10:30 að morgni mánudags 16. nóvember) er athyglisvert. Þegar lægðin nálgast fellur loftvogin jafnt og þétt - samtals hátt í 50 hPa. Við sjáum skil fara yfir um kl.13 (smábrot í fallinu) - en síðan snýst úr falli í ris um kl.19. Versta veðrið í Reykjavík er síðan í flatneskjunni um nóttina - við sjáum reyndar að nokkur smáórói er á ritinu. Þegar vindur loks snerist til vesturs tók þrýstingurinn loks rækilegt stökk upp á við, um 30 hPa frá kl.10 til 16.  

Á Keflavíkurflugvelli var veðrið verst um hádegi - en þá voru þar vestan 30,9 m/s. 

Edduslysið var auðvitað hörmulegasti atburður þessa mikla veðurs. Um það mun töluvert hafa verið ritað. Lýsingar blaðanna næstu dagana á eftir slysið eru átakanlegar. Um það mun eitthvað fjallað í bókinni Helnauð eftir Eirík St. Eiríksson sem út kom 1993 - ritstjóri hungurdiska hefur þó ekki séð hana og veit ekki hversu ítarlega lýsingu þar er að finna. Hörmulegt flugslys varð einnig úti á Grænlandshafi. 

En helsta tjón í veðrinu má tíunda: 

Mikið tjón og mannskaðar urðu í fárviðri. Níu menn fórust með vélskipinu Eddu á Grundarfirði og bandarísk flugvél með 5 manns fórst á Grænlandshafi.

Bátar sukku í höfnum á Eyrarbakka og Stokkseyri og bátar slitnuðu víða upp og sködduðust. Þök fuku allvíða af húsum. Þakplötur sópuðust af elsta húsi síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar á Akranesi og rúður brotnuðu í nokkrum íbúðarhúsum, maður skarst nokkuð. Grjótprammi slitnaði þar upp og rak upp í kletta.

Báðar Sogslínur til Reykjavíkur slitnuðu og víða varð rafmagns- og símasambandslaust. Þök fuku af fjórum hálfbyggðum húsum í Kópavogi og skúrar fuku í Reykjavík auk þess sem þakplötur og fleira losnaði af allmörgum húsum. Allmikið tjón varð í Keflavík, járnplötur fuku og rúður brotnuðu.

Hlaða og hesthús fuku í Ölfusi, tvö fjós og ein hlaða fuku á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, rishæð fauk af íbúðarhúsi á Þorsteinsstöðum í Svarfaðardal, hlaða á Auðnum í Öxnadal og áhaldahús á Þelamörk. Heyhlaða fauk á Hurðarbaki í Kjós, tjón varð þar á fleiri bæjum og þak fauk af sumarbústað. Þak fauk af fjárhúsi og að hlöðu að nokkru á Grund í Skorradal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband