Hlýtt Norður-Atlantshaf í ágúst

Uppgjör evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir ágústmánuð 2016 sýnir að yfirborðssjávarhiti var hár í N-Atlantshafi. Lítið fer fyrir kalda blettinum sem hefur verið áberandi síðustu tvö árin rúm. 

w-blog050916a

Litirnir sýna vikin - gulir og brúnir hita yfir meðallagi, en bláir hita undir því. Rétt er að leggja áherslu á að kortið sýnir einungis yfirborðshita og líklegt er að kalda skellan áðurnefnda leynist enn undir yfirborðinu og muni birtast aftur þegar hauststormar hafa hrært upp milli yfirborðs og þess sem neðar liggur. 

En er á meðan er. Taka ber vikum á hafísslóðum með varúð - sjávarhitameðaltöl eru þar illa skilgreind. - Hafísinn í Norðuríshafi er illa farinn eftir sumarið og útbreiðslan kvu vera komin niður í um 4 milljónir ferkílómetra. Það er ekki alveg jafnlítið og var síðsumars 2012 en meira los virðist á ísnum nú en áður. Spurning hvaða áhrif það hefur á haustútflutninginn í gegnum Framsund á milli Norður-Grænlands og Svalbarða - hann skiptir okkur máli. 

Bjarni Thorarensen þjóðskáld og amtmaður á Möðruvöllum vissi auðvitað ekkert um tilveru Framsundsins - en hann átti samt nafn yfir það í bréfi 7. október 1840. Hafísinn 1840 leit ekki eins út og venjulega - var þykkari - og segir Bjarni vegna þess: „Hann er því langt að kominn kannské frá sjálfum Nástrandar Dyrum, og ekki ólíklegt að það sé losnað sem losnað getur.“ - Er „Nástrandardyr“ ekki bara ágætt nafn á ruslarennu Norðuríshafs - Framsundið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

átta mig ekki á þessum hita á grænlandi með þessa hæð yfir sér. má búast við ísári næsta vor

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 6.9.2016 kl. 09:03

2 identicon

--Lítið fer fyrir kalda blettinum sem hefur verið áberandi síðustu tvö árin rúm--  segir þú Trausti en kaldi bletturinn er þó enn á sínum stað og býsna þaulsetin þó sótt sé að honum úr öllum áttum. Eru ekki líkur á methlýindum í vetur m.a. vegna hlýsjávar langt í noður og ótrúlegum hlýindum á Svalbarða. Ef kíkt er á tölur þar sýnist mér mánaðarmeðalhiti síðastliðna 12 mánuði liggja 1,1-11,5 gráðum ofan meðallags. Mesta mælda frost á sama tíma ekki nema -19 stig. Hvað er eiginlega að gerast? Þvílík rosahlýindi í langan tíma geta varla talist eðlileg, eða hvað?.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 7.9.2016 kl. 13:20

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Kristinn - ekkert vitum við enn um hafísinn næsta vor - ástandið núna segir lítið um hann.

Hjalti: Eins og kom fram í textanum er líklegt að bletturinn skýrist aftur í haust - yfirborðssjór hefur hitnað í sumar en ekki blandast að fullu saman við það sem neðar er. - Þótt sjávarhiti ráði talsverðu um hitafar hér á landi eru vikin ekki nægilega stór til þess að tryggja methita. Til þess að slíkt gerist þurfa vindáttir að vera hagstæðar og fleira að ganga upp.- En þessi hlýindi í norðurhöfum eru mjög óvenjuleg og er ekki vitað um neitt ámóta áður - auðveldast er að skýra þau með hnattrænni hlýnun - en þó er það þannig að hnættræn hlýnun tryggir ekki neina samfellu svona hlýinda á þessum stað - köld ár, jafnvel mörg í röð geta átt sér stað á þessum slóðum þrátt fyrir almenna hnattræna hlýnun.

Trausti Jónsson, 7.9.2016 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 218
  • Sl. sólarhring: 284
  • Sl. viku: 2043
  • Frá upphafi: 2350779

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 1828
  • Gestir í dag: 194
  • IP-tölur í dag: 193

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband