Norðanáttarvika?

Vestanvindabeltinu gengur illa að ná sér á strik eftir óróann mikla um áramótin, en þá ruddist óvenjuhlýtt loft norður á heimskautaslóðir - fyrst Atlantshafs- en síðan Kyrrahafsmegin. Hefur kuldinn enn ekki jafnað sig. - Eitthvað þarf auðvitað að borga fyrir hitaveituna - heldur kólnar á miðlægum breiddarstigum.

En það er þó óþarfi að láta líta svo út að þetta sé sérstaklega óvenjulegt - en því er samt ekki að neita að stóru kuldapollarnir eru tímabundið ívið hlýrri en verið hefur undanfarin ár. 

Spákortið hér að neðan gildir síðdegis á mánudag (11. janúar). Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins á stórum hluta norðurhvels jarðar (heildregnar línur) og þykktina (litir). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

w-blogg090116a

Fjólublái liturinn er hér tákn kaldasta loftsins. Þykktin í honum er minni en 4920 metrar - það er um það bil það lægsta sem búast má við hér á landi - það rétt ber við að við fáum þennan lit yfir okkur. Venjulega eru fjólubláu litirnir á þessum tíma árs að minnsta kosti þrír - jafnvel fjórir - þann dekksta köllum við ísaldarþykktina - okkur til skemmtunar. Sá litur er nú víðs fjarri. 

En við sjáum að enn eru tvær öflugar, hlýjar háloftahæðir að flækjast fyrir - og sú þriðja að reyna að myndast  þar sem mjög hlýtt loft streymir til norðurs fyrir vestan Grænland. Þessi hlýja tunga stuggar við kalda loftinu og við fáum dálítinn kuldapoll (L-ið vestur af Íslandi) suður fyrir vestan okkur. Þrátt fyrir nokkurn kulda er hann eiginlega ótrúlega vægur miðað við hánorrænan uppruna. Bandaríska veðurstofan gerir ívið meira úr honum heldur en evrópureiknimiðstöðin (sem framleiðir gögnin á kortinu). 

Báðar reiknimiðstöðvar búa til smálægð á Grænlandshafi sem truflar það sem annars virðist ætla að verða vikulöng samfelld norðanátt. Svona kuldalægðir eru illútreiknanlegar með margra daga fyrirvara - snjóar? 

En meðalkort næstu tíu daga er mjög stíft á norðanáttinni. Heildregnu línurnar sýna meðalsjávarmálsþrýsting, litirnir hitavik í 850 hPa. Að jafnaði eru vik í mannheimum lítillega vægari.

w-blogg090116b

Mjög köldu er spáð í Skandinavíu - en hér á landi er betur sloppið - furðuvel miðað við vindátt satt best að segja. Gríðarleg hlýindi eru vestan Grænlands - hiti 13 stig yfir meðallagi á Baffinslandi - óvenjulegt í tíu daga meðaltali. Ekki er þó víst að íbúar í Igaluit (áður Frobisher Bay), höfuðstaðar Nunavut, njóti hlýindanna sérstaklega. Hlýtt loft sem þetta er tordregið alveg niður til jarðar á heimskautaslóðum - nema vindblandað saman við það kalda sem neðst liggur. Fyrir utan það að hlákur um hávetur teljast ekki sérlega eftirsóknarverðar á Baffinslandi - reyndar alls ekki - betra væri að fá hlákuna hingað til að vinna á klakanum - þar sem einhver von er til þess að það takist. - En langt er til vors og klakinn á sjálfsagt eftir að endurnýjast oft - þótt hann hyrfi um stund. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Betur sloppið hér en í Skandinavíu? Þar er búið að vera mjög kalt eða allt að 40 stiga frost og því spáð áfram samkvæmt þessu.

En hér, hvernig er spáin hér? Og þá berst talið aftur að krísuvíkurveikinni og þessum gölnu spám útlensku veðurreiknimiðstöðvunum, sem einhverra hluta vegna fá að móta spár Veðurstofunnar þrátt fyrir vitleysuna. Nú er verið að spá allt að -18 stiga frost hér í borginni á miðvikudaginn og -16 stigum á fimmtudag. Galskab? Ef svo er þá er öll vitleysan eins því komandi helgi byrjar með næstum eins miklu frosti.

Vitrir menn og reyndir hlæja auðvitað að þessu en í ljósi kuldans á hinum Norðurlöndunum er þetta kannski ekki eins galið og vitru mennirnir vilja vera láta?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 9.1.2016 kl. 08:18

2 identicon

Sæll Trausti og gleðilegt nýtt ár með þakklæti fyrir allan fróðleikinn á nýliðnu ári.

Svona til gamans, þá datt mér í hug að núna kl. 01:30 aðfararnótt sunnudagsins 10.1. kviknar Þorratunglið.
Einhverntíma hefðu þá gamlir og vísir menn talið að það vissi á norðanátt næstu tvær vikur a.m.k.laughing

Góðar kveðjur.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 9.1.2016 kl. 11:32

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi. Það sem ég (af hagkvæmnisástæðum) kalla krísuvíkurveikina er leiðinilegt fyrirbrigði - en er auðvitað hluti af málamiðlun í líkangerðinni - væri hún „læknuð“ [numin brott almennt] með því að sleppa þeim ferlum sem valda henni (og vel er hægt) - myndi lækningin búa til ámóta eða verri alvarlegar villur annars staðar. En raunveruleg bót fæst þegar búið verður að samræma landlíkan/landgerð líkanhneppis reiknimiðstöðvarinnar og lofthluta þess. Landlíkanið sem nú er notað gengur ekki upp í loftlíkaninu. Að handlleiðrétta þetta í sjálfvirkum staðarspám á Veðurstofunni er vart vinnandi vegur - en auðvitað er afleitt að bera þurfi þetta á borð - og er í stöðugri umræðu innan Veðurstofunnar. Síðar í vetur verður umtalsverð uppfærsla gerð á líkanhneppi reiknimiðstöðvarinnar og þar með verða verstu gallar landlíkansins vonandi lagaðir - kannski dregur þá úr krísuvíkurvillunni eða hún hverfur - reynslan verður að skera úr um árangurinn. - Veikin kemur upp við ákveðin skilyrði - Það þarf að vera heiðríkt veður og nánast logn og verður mest áberandi þegar kalt loft er yfir landinu - en er líka til staðar við sömu skilyrði í hlýrra veðri. Hennar gætir langmest við strendur - þar sem 2 m hiti „fréttir ekki af“ sjónum vegna hægviðrisins og strand-, hæðar- og landgerðarvilla í landlíkaninu. Nokkrum stöðum á landinu er sérlega hætt við veikinni - mest fréttist þó af henni á Reykjanesi vegna nálægðar við þéttbýlið. Sunnanverðir Vestfirðir eru annar staður þar sem veikinnar gætir mjög oft - en þar eru þröngir firðir og nokkuð há fjöll sem gera villuna ekki alveg jafn sláandi í útliti - jafnvel þótt hún sé jafnalvarleg. Sama á við um utanverðan Tröllaskaga og ysta hluta skagans austan Eyjafjarðar, Öræfasveit er líka undir og svo einstaka litlir blettir á Austfjörðum, Smæfellsnesi og víðar. - Í Harmonie-líkaninu er samræming lands- og loftlíkana miklu lengra komin og gætir krísuvíkurveikinnar því ekki í því.

Þorkell - bestu nýjárskveðjur og þakka vinsamleg orð í minn garð. Tunglspárnar eru stundum réttar en eiga sér enga stoð í fræðunum. Ekki er ég þó að hallmæla þeim sérstaklega - fræðin gera lítið eða ekki betur þegar um langtímaspár er að ræða. Tunglspár voru vinsælastar allra (fyrir utan kannski draumspár) á upplýsingartímanum á 18.öld og stundaði Sveinn Pálsson náttúrfræðingur athuganir á þeim um árabil - og hlýtur að hafa komist fljótlega að því að þær standast ekki - þótt ekki hafi ég séð neitt formlegt uppgjör frá honum. Kjarni prófana hans gekk út á það að bera saman vindatuganir „í dag“ saman við athuganir 20 árum áður. Hann gat þetta vegna áratugadagbókarhalds. Séu tunglspár réttar ætti vindáttatíðni að fylgja 20 ára samsveiflu tungls og sólar (dagatals) og endurtaka sig samkvæmt því. - Ekki þarf lengi að fylgjast með til að sjá að enga slíka reglu er að finna - hvorki á 20-árum né öðru árabili sem tengist gangi tunglsins. - Þess má geta að erlendis stunda menn þó enn tunglspár - reynt að þróa þær. Lengst hefur bróðir nýkjörins formanns breska Verkamannaflokksins, Piers Corbyn, gengið. Í spám hans koma bæði tungl og sólvirkni við sögu. Honum hefur tekist að reka fyrirtæki og afla sér tekna og athygli með spágerðinni. Oft er hann í fjölmiðlum. Hann er með stöðuguar yfirlýsingar í fjölmiðlum um að þessu og hinu hafi hann löngu spáð - en ekki er hægt að fá að sjá spár hans fyrirfram nema borga - margir félagar mínir í fræðunum eru pirraðir út í Corbym - en hann getur verið skemmtilega dónalegur á móti - rétt eins og bróðirinn.

Trausti Jónsson, 9.1.2016 kl. 14:50

4 identicon

Takk fyrir hvað mig snertir.  -  Já, ég þóttist reyndar hafa séð með því að bera saman mínar takmörkuðu veðurdagbækur og tunglkomu"vísindi", að fylgni væri allavega lítil ef nokkur þarna á milli. Datt bara í hug að setja þetta eins og ég tók fram, til gamans. Góðar kveðjur.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 9.1.2016 kl. 16:04

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Um að gera Þorkell að reyna að hafa úti allar klær í spánum - tunglveðrafræðin eru/voru þó nokkuð kerfisbundin og hægt er að sannreyna spár þeirra - svo held ég því fram og það í fullri alvöru (já) að vitlausar spár geti verið mjög gagnlegar - og þær fullnægja ákveðinni eftirspurn sem sjálfsagt er að reyna að fullnægja. - Best er auðvitað þó að spárnar séu réttar.

Trausti Jónsson, 9.1.2016 kl. 17:09

6 identicon

Fyrst Þorkell þakkar fyrir sig geri ég það líka. Reyndar varstu búinn að útskýra þetta áður Trausti, a.m.k. að hluta, svo ég þóttist vita þetta. 

Málið var, og er, bara það að mér finnst þú hafa tilhneigingar til að draga úr kuldaspám - og gera svo minna en efni standa til úr kuldanum þegar hann þó kemur.

Því vildi ég einfaldlega benda á að það er verið að spá hörku kuldatíð - og hef svo sem ekkert á móti því að nota jafnframt tækifærið til að benda á að það er viðbrigði frá hlýju árunum eftir aldamótin.

Hlýnunin hefur einkum falist í hlýrri vetrum en svo var ekki raunin síðasta vetur (og því var árið kalt) - og svo aftur þennan það sem af er. Annar kaldur vetur í röð ætti að gefa vísbendingu um að breytingar séu að verða - að það gæti verið að kólna á ný eftir 14 hlý ár (-1). 

Mér finnst a.m.k. ástæðulaust að vera að gera lítið úr slíkri vísbendingu - eins og tilhneigingin er hjá þér og fleirum "hlýnunar"sinnum að mínu mati.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 9.1.2016 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 308
  • Sl. viku: 2418
  • Frá upphafi: 2413852

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 2233
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 89

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband