Nýtt met (aðeins fyrir áhugasama)

Munur á ársmeðalhita í Vestmannaeyjum og í Grímsey er nú með allra minnsta móti. Samanburður nær allt aftur til ársins 1874. Það gerðist árið 2015 að 12-mánaða keðjumeðaltal munarins fór í fyrsta sinn niður fyrir 1,0 stig. 

Hitamunur Vestmannaeyjar-Grímsey 1874 til 2015

Lóðrétti ásinn á myndinni sýnir hitamuninn milli staðanna, en sá lárétti tímann frá 1874. Grái ferillinn markar 12-mánaða keðjumeðaltölin - þau sveiflast frá hámarkinu 1881 (5,65 stig) og niður í nýja lágmarkið (0,96 stig). Rauði ferillinn sýnir 10-ára keðjumeðaltöl - er núna í því minnsta sem þekkst hefur, en þó ómarktækt lægra en á árunum 1984 til 1993. 

Almennt hefur munur hita þessara staða minnkað um 1 stig á þessum 140 árum sem myndin sýnir. Á þeim búti 19. aldar sem við sjáum var munurinn um 3 stig - en sveiflaðist mjög frá ári til árs. - en hefur lengst af verið 2,0 til 2,5 stig á síðustu áratugum. 

Þeir sem kunnugir eru almennri veðurfarssögu tímabilsins átta sig strax á því að að á 19. aldarskeiðinu var lengst af mikill hafís hér við land - og að hann var viðloðandi fram undir 1920. Sömuleiðis að mikill hafís var líka hér um og eftir miðjan 7. áratuginn - einmitt þegar hitamunur staðanna tveggja náði aftur nítjándualdargildum í nokkur ár. 

Nærveru hafíssins gætir mun meira í hita í Grímsey heldur en í Vestmannaeyjum. Nú - á það má benda að árið 1943 sýnir einnig tímabundinn hámarksmun - þá og fleiri ár um þær mundir var reyndar talsverður hafís undan Norðurlandi. Ritstjóri hungurdiska hefur stundum leyft sér að tala um „litlu-hafísárin“ í því sambandi (en það er reyndar á mörkum velsæmis). - Og íss varð líka vart í nokkrum mæli nærri tímabundna hámarkinu 1998. 

En nú er munurinn sem sagt í algjöru lágmarki - það er helst að 1984 jafnist á við núverandi ástand. 

Næsta mynd ber saman 10-ára keðjuna á myndinni að ofan við 10-ára keðjur hita í Stykkishólmi.

Hitamunur Vestamannaeyjar-Grímsey (blátt), hiti í Stykkishólmi (grátt) 120-mánaða keðjumeðaltöl

Kvarðinn til vinstri - og blái ferillinn sýnir sömu línu og rauði ferillinn á fyrri mynd - nema hvað kvarðinn hefur verið belgdur út - sveiflurnar sýnast því stærri. Tíminn fyrir 1920 er sér á parti í um 2,9 stigum - síðan tekur við skeið með um 2,4 stigum - fram yfir „litlu-hafísárin“. Þá dettur munurinn niður undir 2 stig um skamma hríð á 6. áratugnum - en vex síðan aftur upp í nítjándualdarástand - en aðeins fáein ár og hrapar síðan aftur niður í um 2,2 stig. Sjá má tvö lágmörk - hin áðurnefndu á 9. áratugnum - og svo aftur nú. 

Kvarðinn til hægri - og grái ferillinn sýna hitann í Stykkishólmi. Hlýskeiðið mikla 1925 til 1965 fellur vel saman við lágmark bláa ferilsins á sama tíma. Þó er hægt að klóra sér í höfðinu yfir smáatriðum, sjötti áratugurinn með sínu sérlega lágmarki bláa ferilsins var kaldari en sá fjórði - með hóflegri stöðu þess bláa. 

Á köldu árunum frá 1979 og fram yfir 1990 var hitamunur Vestmannaeyja og Grímseyjar minni en var almennt á hlýskeiðinu fyrr á öldinni - og hefur verið svipaður síðan - þrátt fyrir mikla hlýnun síðan þá. Kuldaskeiðið 1965 til 1995 skiptist nefnilega í nokkra hluta - gjörólíka veðurfarslega - þrátt fyrir að hiti væri lágur mestallan tímann. Skeiðið skiptist í þrjú skemmri kuldaskeið - ólík innbyrðis. Aðeins eitt þeirra færði okkur hafís - og þar með sérlega kulda við Norður- og Austurland - hin voru frekar af vestrænum uppruna. 

Þetta undirstrikar mikið höfuðatriði veðurfarsfræða - hitinn mælir ekki veðurfar einn og sér. Að baki tölunnar 4,0 stig (svo dæmi sé tekið) býr alls ekkert sama veðurlag í hvert sinn sem hún kemur upp. Það er nánast fásinna (kannski fullsterkt orð) að halda að hlýindi framtíðar séu einhver veðurfarsleg endurtekning á hlýindum fortíðar (eða kuldi vilji menn nota hann frekar sem framtíðarsýn). Hvert skeið er með sínum nánast einstaka hætti - allt eftir því hvað veldur/ræður veðri þess. 

Það sem hefur ákveðið hina óvenjulegu stöðu nú er að fyrir norðan land hefur verið (og er enn) óvenjuhlýtt - en fyrir suðvestan land óvenjukalt. Norðanáttin hefur verið með hlýrra móti (þótt þrálát hafi verið) - en suðvestanáttin frekar kalsöm (algeng síðastliðinn vetur - en lítið síðan). 

Þess má að lokum geta að hitabrattinn sem þykktin mælir - (hún sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs) er í langtímameðaltölum um 0,6 stig á breiddargráðu hér við land. Breiddarmunur Vestmannaeyja og Grímseyjar er um 3,1 stig - sem segir að „eðlilegur“ hitamunur staðanna tveggja sé tæp 2 stig - eða svipaður og hann hefur verið síðustu áratugina (jafnvel aðeins minni en algengast hefur verið). En - Ísland stíflar norðanáttina - beinir henni um Grænlandssund - eða austur fyrir land. Því er eðlilegt að búast við því að hitamunur sé meiri yfir landið heldur en hið almenna ástand í neðri hluta veðrahvolfs segir til um - landið suðvestanvert er í skjóli fyrir mesta norðankuldanum.

Þykktarbrattinn á svæðinu virðist reyndar hafa farið minnkandi líka - en við vitum enn ekki nægilega vel um áhrif hafíssins á hita ofan jaðarlagsins til að geta fullyrt um áhrif hafíssmagns fyrir norðan land á vestanvindabeltið. Talsvert vantar upp á að líkanendurgreiningar þær sem gerðar hafa verið fyrir hafístímann fyrir 1920 séu alveg trúverðugar hvað þykktina varðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að fá staðfestingu á því sem manni hefur fundist vera síðustu árin. Norðanáttin tiltölulega mild og jafnvel á Norðurlandi orðið algengt að rigni eða slyddi yfir vetrarmánuðina úr noðri. Nánast er hægt að fullyrða að fyrir 25 árum eða svo gerðist það sárasjaldan. Í norðanátt var snjókoma á vetrum og hlákur komu í sunnanátt.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 8.1.2016 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.5.): 1
 • Sl. sólarhring: 370
 • Sl. viku: 1691
 • Frá upphafi: 2355763

Annað

 • Innlit í dag: 1
 • Innlit sl. viku: 1575
 • Gestir í dag: 1
 • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband